Hæpið að Íslendingar hefðu náð í verðlaunasæti.

Viðureign Spánverja og Norðmanna var eina jafna viðureignin í átta liða úrslitunum. 

En Frakkar, Svíar og Danir virðast hafa sýnt það að hæpið er að Íslendingar hefðu komist á verðlaunapall á þessu móti.  


mbl.is Svíar komnir í undanúrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor var á undan hinum, Reagan eða Baddi Jún? Pólverjar eða Gaflarar?

Ronald Reagan Bandaríkjaforseti hafði yndi af bröndurum og safnaði þeim í sérstaka bók fyrir sig. 

Suma þeirra má sjá og heyra á Youtube.  

Ein tegund brandaranna voru um samtöl og samanburð milli Bandaríkjamanna og Rússa, sem voru auðvitað allir á kostnað Rússa, en sumir þeirra sagðir gerðir af Rússum sjálfum til þess að draga úr döprum hugsunum þeirra vegna kúgunarinnar í gamla Sovétinu.

Þegar síðuhafi frétti fyrst af Rússabröndurum Reagans rak hann í rogastans, því að þarna voru afturgengnir brandarar sem Akureyrski grínistinn, töframaðurinn og uppistandarinn Bj0rgvin Júníusson hafði farið með fyrir norðan á undan Reagan. 

Svonalagað er svosem ekkert nýtt, því að íslensku Hafnarfjarðarbrandararnir voru endurgerðir danskir Álaborgarbrandarar, sem aftur voru þar áður voru Pólverjabrandarar. 

Hér er einn af Rússabröndurum Badda Jún, eins og hann var alltaf kallaður fyrir norðan. 

KANINN:

Það er nú meira bullið hjá ykkur kommunum að halda því fram hvað þjóðskipulagið ykkar sé gott.  

RÚSSINN: 

Þetta er alrangt hjá þér. Við erum mun kristnari en þið, því að hugsunin í komúnunum í kristninni svínvirkar hjá okkur, en þið eruð svo miklir hræsnarar, að þið hugsið bara um eigið rassgat. 

KANINN: Ætlarðu að segja mér að ef þú ættir tvo bíla en náungi þinn engan, þá myndir þú gefa náunga þínum annan bílinn þinn?

RÚSSINN:  Já, ég myndi gera það. 

KANINN:  

Og ef þú ættir tvö sjónvarpstæki, myndirðu gefa náunga þínum annað þeirra?

RÚSSINN: 

Já, alveg eins og skot.  

KANINN: 

Og ef þú ættir tvo kæliskápa og náungi þinn engan, myndurðu gefa honum annan kælisskápinn þinn?  

RÚSSINN: Já, án þess að hugsa mig um. 

KANINN:  Og ef þú ættir tvær skyrtur en hann enga, myndrðu gefa honum aðra skyrtuna þína?

RÚSSINN:  Nei, ég myndi ekki gera það. 

KANINN: Af hverju ekki?

RÚSSINN: Ég á tvær skyrtur. 


mbl.is Heimsfrægur brandari reynist eiga íslenskan uppruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munur á þægindum, sem skiptir máli.

Einu sinni var ekki hægt að halla framsætum aftur í venjulegum fólksbílum. Í dag dettur varla nokkrum manni í hug að framsætin séu ekki hallanleg, jafnvel alla leið aftur. 

Að meðaltali eyðir fólk svo miklum hluta lífs síns í bílsæætum, að það er heilsufarslegt atriði að geta hallað sætum aftur að vild. 

Seta í aftursætum er svo lítill hluti af heildarseti í bílum, að möguleikar til afturhalla skipta margfalt minna máli í heildina tekið. 

Á löngum flugleiðum er það mikill munur fyrir flesta að geta "hallað sér" eins og Gísli Halldórsson leikari sagði svo eftirminnilega hér í eina tíð.  


mbl.is Hallanleg flugsæti gætu heyrt sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíða allar keppnir ósigur?

Enn einu sinni er sagt að einhver hafi "sigrað keppnina."  Hér er á ferðinni hvimleið orðanotkun, því að í keppni sigra keppendur aðra keppendur en ekki keppnina sem slika. 

Samkvæmt rökréttri orðanna hljóðan i þessari frétt, beið keppnin ósigur fyrir sigurvegurunum. 

Málið er einfalt. Einn keppandi eða keppnislið er sigurvegari í keppninni og ber sigurorð af öðrum keppendum, en ber ekki sigurorð af keppninni sjálfri. 

Svo stórkarlaleg er þessi orðanotkun orðin, að einstaklingar er sagðir "sigra Eurovision", og þar með biður þetta milljarða fyrirbæri enginn smáræðis ósigur þegar aðeins einn einstaklingur lætur það lúta í lægra haldi eins og það leggur sig.    

 


mbl.is Heimsmeistari í Formúlu 1 kallar þetta trúðasýningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er úr óvenju miklu að moða.

Fyrir HM voru þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson taldir meðal allra bestu leikmanna heims og Ómar Ingi bestur allra leikmanna þýsku Bundesligunnar.  

Gísli Viktor Hallgrímsson var talinn bestur ungra markvarða.  

Þótt Ómar Ingi hafi orðið að hætta á HM vegna meiðsla er hann enn það ungur, að hann á að geta að komist aftur á toppinn og nú hafa þeir Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson bæst í þennan íslenska afburðahóp.  

Enn er því úr óvenju mörgum afburða handboltamönnum að moða til þess að ná langt á næstu stórmótum, en til þess þarf að lengja og skipuleggja undirbúningstímann betur og stilla hópinn allan upp á nýtt. 


mbl.is Elliði og Bjarki í hópi tíu bestu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munar öllu í þessari stöðu að ávinna sér rétt til ÓL-þáttöku.

Aðeins tvö mörk skildu Svía og Ungverja að í kvöld í sænskum sigri yfir Portúgölum, en þau geta skipt miklu um það að HM hafi að þessu sinni verið endastöð, heldur áfangi á leið liðsins á næstu Ólympíuleika. 

Þótt ekki gengi allt upp hjá íslenska liðinu, var þó til ekki til einskis barist.  

Svo virðist samkvæmt því umtali sem verið hefur og er um samning Guðmundar Guðmundssonar við HSÍ að ólympíuþáttaka sé hluti af umsamdri þjálfun hans fyrir landsliðið og verður fróðlegt að sjá hvernig unnið verður úr því.  


mbl.is Svíar hjálpuðu Íslendingum og sendu Ungverja áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

37 metrar á sekúndu í hviðum, 10 metrum meira en í Reykjavík.

Nú er það ekki ófærðin ein á Reykjanesbrautinni, sem gerir mörg hundruð farþega innlyksa í þotunum á Keflavíkurflugvelli, heldur stormur, sem fer yfir fárviðrismörk allt upp í 37 metra á sekúndu. 

Nú er ekki hægt að kenna veðurstofunni um neitt; þar á bæ var búið að spá þessu illviðri dögum saman og setja á gular viðvaranir um allt land. 

Það kemur heldur ekki á óvart að hvassara verði suðurfrá heldur en í Reykjavík, því að Reykjavík er alveg einstaklega vel í sveit sett gagnvart veðri með sitt skjól af Reykjanesfjallgarðinum þegar algengasta óveðursáttin, suðaustan með roki og slagviðri, nær sér óheft á strik á Suðurnesjum, þar með töldu flugvallarstæði kenndu við Hvassahraun.  


mbl.is Björgunarsveitir hætta störfum í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er alger sigur annars aðilans tálsýn?

Deilumálin, sem skópu tvær heimsstyrjaldir á 20. öld, voru afar flókin og hefur áður verið drepið hér á bloggsíðunni á nokkur þeirra, þar sem svonefndir "aðskilnaðarsinnar" koma við sögu; minnihlutahópar sem kröfðust sjálfstæðis á grundvelli sérstakrar menningar sinnar og tungumáls. 

Dæmi um þetta eru Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu og Norður- og Suður-Slésvík. 

Heila heimsstyrjöld þurfti til að ljúka deilunni um Súdetahéruðin og urðu lok deilunnar harkaleg, héruðin voru endanlega innlimuð í Tékkóslóvakíu og draumsýn hinna þýskumælandi íbúa um að gera héruðin þýsk og íbúana þýskumælandi var kæfð með vopnavaldi.  

Alls er talið að fjórtán milljónir flóttamanna hafi flutt frá þeim svæðum, sem Þjóðverjar misstu í Seinni heimsstyrjöldinni.  

Getur eitthvað svona orðið að niðurstöðu í Donbashéruðunum og á Krímskaga á annan hvorn veginn, í sigri Rússa eða sigri Úkraínu?

Það er nú heila málið, að tilvist kjarnorkuvopna, bæði hjá NATO og Rússa gjörbreytir öllum aðstæðum, vegna þess stigmögnun í áttina að því að styrjöldin verði að kjarnorkustyrjöld má einfaldlega ekki verða.  

Í deilunum um Slésvík og Súdetahéruðin á 20. öld truflaði tilvist kjarnorkuvopna ekki framvindu mála. 

Í Slésvíkurdeilu Þjóðverja og Dana við lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar var þjóðaratkvæði í allri Slésvík, sem þá tilheyrði Þýskalandi, látin skera úr, og kusu íbúar Norður-Slésvíkur, aðskilnaðarsinnar, að tilheyra Danmörku en Suður-Slésvíkur að tilheyra áfram Þýskalandi. 

Gæti eitthvað svona orðið að lausn á Úkraínustríðinu? 

Augljóst er að sú lausn yrði erfið vegna þess hve hún yrði flókin, og enn og aftur bætist tilvist kjarnorkuvopna við.    

Við blasir að báðir stríðsaðilar segjast ekki sætta sig við neitt minna en sigur. 

En það blasir líka við, að hvorugur getur unnið fullnaðarsigur fyrir kröfur sínar. 

Stríðið kann því að dragast á langinn þar til menn sjá svipað og við lok Kóreustyrjaldarinnar, að eftir allt það herfilega tjón sem stríðið hefur valdið, verður að semja um vopnahlé og bjarga heiminum frá gereyðingu kjarnorkustríðs.   

Kannski eru Þjóðverjar að íhuga eitthvað svona minnugir hinna miklu fórna, sem herför þeirra í austurveg hafði í för með sér 1941 til 1945. 


mbl.is Flýta þurfi vopnasendingum til Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru það ekki við sem "stálum" hú-inu fyrst frá Motherwell?

Á einhver höfundarrétt að "húinu" fræga, sem við Íslendingar gerðum heimsþekkt? 

Í viðtengdri frétt er greint frá komu Roaldos til Sádi-Arabíu, og því að hú-ið góða sé í för með kappanum. 

Ef rétt er munað eigum við samt ekki upptökin að þessu hrópi, heldur breskt fótboltalið, sem lék einn leik hér á landi og notaði hrópið.

Gott ef það var ekki skoska liðið Motherwell.   

Það er hins vegar hæpið að treysta daufu minni varðandi þetta og væri fróðlegt ef einhver gæti rakið söguna rétt og skilmerkilega til upphafsins. 


mbl.is Stuðningsmenn Ronaldo stálu hú-inu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofanflóðasjóðurinn langsvelti en flóð falla þegar þeim sýnist.

Eftir mannskætt snjóflóð á Seljalandsdal 1994 var fenginn norskur snjóflóðasérfræðingur til að meta ástandið vestra. Hann var spurður, hvar væri snjóflóðahætta og svaraði: "Þar sem getur snjóað og landinu hallar."

Hann benti á að víða væri búið að reisa byggð og mannvirki, en samt gerðist ekkert í þeim málum til varna og í hönd fóru snjóflóð 1995 og 1996, sem alls bönuðu hátt í fjóra tugi manna. 

Svo fór að loks var stofnaður svonefndur Ofanflóðasjóður til að standa að myndarlegum snjóflóðavörnum víða um land. 

En þá gerðist algengt fyrirbæri, að ráðamenn tóku peninga úr sjóðnum og ráðstöfuðu í annað. 

Enn í dag falla flóð og valda tjóni, meira að segja á Flateyri þrátt fyrir varnir þar. 

Á Patreksfirði féll aurflóð inn í kjallara húss í kringum 1950 en engan sakaði, og ennþá,  meira en sjötíu árum síðar, er framkvæmdum á verksviði Ofanflóðasjóðs ekki lokið.   

Enn í dag geta því flóð af ýmsu tagi, aurflóð, krapaflóð og snjóflóð, falli hvenær sem er, því að um þetta fyrirbrigði má segja, að flóð falli þegar þeim sýnist, nú síðast fyrir nokkrum dögum á þjóðveginn um Raknadalshlíð skammt frá Patreksfirði.  


mbl.is Fjórir fórust í krapaflóðunum 1983
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband