Alls staðar í löndunum í kringum okkur og víðast um jörðina eru embættiheiti þeirra sem sitja í ríkisstjórnum "minister."
Hér á landi var þetta alþjóðlega orð þýtt með heitinu "ráðherra."
Þetta var að mörgu leyti óheppilegt uppátæki, því að erlenda heitið "ninister" táknar þann sem gegnir þjónustu.
Hjá fyrirtækjum er oft talað um "þjónustufulltrúa" sem væri heppilegri þýðing, en kannski full langt orð.
Orðið ráðherra vísar til þess að viðkomandi sé valdamikill og hefur leiðinda tengsl við orð eins og "ráðslag".
Svona heiti hefur á sér allt of mikinn blæ yfirlætis og eftirsóknar eftir völdum þegar það er borið saman við heitið "þjónn."
Fulltrúalýðræðið byggist á því að kjósendur velji sér fólk til að framkvæma lýðræðið og sinna þprfum lýðsins á sem bestan og farsælasta hátt en ekki til þess að sækjast eftir að beita valdi sínu sem mest.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2023 | 20:11
Mikilvæg skilgreiningaratriði á mismun orkugjafa.
Ýmis athyglisverð álitamál hafa komið fram í umræðum um skattalegt umhverfi orkuvinnslu með tilliti til orkugjafa.
Sem dæmi má nefna, að ekki séu rök fyrir því að þeir sem beisla vindorkuna séu skattlagðir, því að vindurinn leiki um alla alls staðar og ekki hægt að segja með nákvæmni hvaðan hann komi né hvert hann blási.
Að þessu leyti sé hann ólíkur vatnsafli og jarðvarma eða gufuafli, sem hægt sé að staðsetja í vatnsfarvegum og jarðvarma- og háhitasvæði.
Þessu má að vísu andmæla með því að benda á það að staðsetja vindorkuna þar sem vindorkumannvirkin er byggð, stafrækt og hafa áhrif.
Hið gríðarlega vindorkuvinnsluæði, sem farið er af stað með tilheyrandi landakaupum, vekur grun um að ásókn sé í auðtekinn gróða af þessari nýfundnu auðlind.
Því er nauðsynlegt að setja sem fyrst upp lagaramma um nýtingu orkuauðlinda sem setur hana í farsælan farveg.
![]() |
Kanna nýja skattalega umgjörð um orkuvinnslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2023 | 07:07
Áratuga gamlir ásteytingarsteinar.
Hin viðtengda frétt á mbl.is um það að fötluðum nemanda sé neitað um skólavist er því miður ekki ný, heldur voru hliðstæð mál alveg niður í grunnskóla algeng fyrir nokkrum áratugum.
Þá þurfti mikið til að leysa svona mál og er nöturlegt til þess að vita að enn, svona löngu síðar, komi hliðstæð mál upp.
![]() |
Fötluðu barni neitað um skólavist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2023 | 15:48
Tilbúnar fréttir fyrir andófsmenn kenningar um hlýnun loftslags?
Nú má sjá tvær fréttir á ferli á samfélgasmiðlum, sem báðar falla vel inn í andófið gegn kenningum um hlýnun loftslags.
Í viðtengdri frétt á mbl.is má sjá hrollvekjandi frétt af kuldapolli miklum, sem nú sé að hrella Íslendinga og birt áhrifamikil mynd af skrímslinu, sem valdi kólnun á veðurfarinu hjá okkur þessar vikurnar.
Er það dálítið ððru vísi mynd en þær myndir og fréttir sem birtast á RÚV og sýna hinn risavaxna rauða loftmassa, sem veður austur yfir landið og veldur eindæma vorhlýindum um mestallt land.
Veðurfræðingur undrast kuldapollsmyndina og kannast auðvitað ekkert við að kuldapollsskrímsli sé að hafa áhrif á veðrið núna. Veit hins vegar að sjórinn við vestanvert landið er kaldari en loftið og hefur kólnandi áhrif á það og raka þess.
Fróðlegt væri að vita um uppruna þessarar hrollvekjandi myndar, sem svo mjög þjónar andófi gegn kenninguna um um hlýnun loftslags.
Önnur frétt frá í gær greinir frá þvi hvernig fimm bílar urðu alelda við fjölbýlishús við Engihjalla, og í sumum útgáfum af henni er sérstaklega tekið fram að einn bílanna hafi verið rafbíll.
Rafbílar hafa verið sterkt tákn fyrir viðbrögð við loftslagshlýnun og í dag flýgur sú fiskisaga og fer víða og hátt að rafbíllinn hafi kveikt í öllum eldsneytisknúnu bílunum.
Auðvitað, það blasir við, er það ekki? Það fylgir ekki þessari sögu hvort lokið sé rannsókn á brunanum né hver eldsupptök voru og hvers vegna eldurinn varð svona mikill.
Þó er það staðreynd að allir bílarnir nema einn voru með eldsneyti, brunahólf, kveikju (neistatappa), sprengihólf, eldsneytisleiðslur og eldsneytisgeyma.
Þessi eini, sem þetta allt vantaði í, var rafbíllinn!
![]() |
Enginn kuldapollur að hrella Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2023 | 23:55
Ýkt tilgáta frá 1997?
Tvennum sögum hefur farið af því í dag, hversu raunverulegt kortið með hinum ógnarstóra kuldabletti í Norður-Atlantshafi sé að miklu leyti uppskáldaður af hálfu einhverra, sem andæfa því að loftslag fari hlýnandi á jðrðinni.
Eigi bletturinn að sýna hið gagnstæða, en raunar er það skrýtið þegar einhver mestu hlýindi í manna minnum á þessum árstíma hafa gengið í heilan mánuð á mestu hluta landsins.
Þótt Reykjavíkursvæðið sé fjölbýlt er óþarfi að miða alla hluti út frá því einu eins og mörgum virðist tamt.
1997 var sýndur á RÚV danskur heimildarþáttur, sem bar heitið "Hið kalda hjarta hafanna" og fjallaði um þá vísindakenningu, að gríðarlegt magn af léttu fersku leysingavatni, sem rynni út frá Grænlandsjökli og heimskautssvæðinu ylli því, að hinn þungi hlýi Golfstraumur sem berst úr suðri, sykki fyrr en hann hefði gert fram að því.
Efni þáttarins var aukið og fært til íslensks veruleika.
Stytting og veiking hringekjustrauma um Atlantshaf og Indlandshaf þar sem hrinekjan fólst í rennsli í djúpsævi og grunnsæfi gæti valdið kólnun veðurfars á Norður-Atlantshafi.
Í tveimur nýársávörpum um áramótin gerðu helstu ráðamenn þjóðarinnar þetta að umtalsefni, en drógu gerólíkar ályktanir af þessu.
Þáverandi forseti gerði mikið úr þessu, en forsætisráðherrann blés á þetta með þeim orðunum "skrattinn er leiðinlegt veggskraut."
Á öllum tölvukortum, sem síðuhafi hefur síðan séð á ráðstefnum, er ljósbláleitur blettur sýndur fyrir suðvestan Ísland, sem stingur í stúf við hinn dökkrauða lofthjúp, sem annars ræður ríkjum á jörðinni þegar líður á 21. öldina.
![]() |
Kuldablettur við Ísland setur hlýnun úr skorðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú hefur hitabylgja með tveggja stafa tölu staðið yfir á norðausturhálendinu í mánuð og stendur enn.
Eftir nítján ára samfellda reynslu af ástandi Sauðárflugvallar á Brúaröræfum, sem ber skrásetningar- og viðurkenningarstafina BISA, sýnir reynslan að við slíkar aðstæður bráðnar allur snjór af vellinum svo að hann verður skráþurr og harður 3-4 vikum á undan jeppaslóðunum, sem er þarna á hálendinu og eru oft ekki orðnar færar fyrr en í júlí.
Völlurinn stendur á fíngerðu aurseti sem er með nokkurs konar aftöppunarkerfi, sem líkist æðakerfi þegar horft er beint ofan á það, og flugvallarstæðið býður upp á fimm flugbrautir, alls 4,5 km langar og er sú lengsta 1300 metrar.
Aðeins þurfti lausar merkingar og uppsetningu vindpoka til þess að gera hann að náttúrugerðum öryggisflugvelli fyrir hálendið, sem varð notadrjúgur í Holuhraungosinu 2014-2015 og getur orðið það að nýju núna, þegar sett hefur verið á eins konar gult viðbúnaðarstig á vegna hraunkviku á aðeins 2ja km dýpi undir Öskjuvatni með tilheyrandi skjálftum.
Þangað er aðeins 30 km flug í loftlínu frá flugvellinum.
Í gær var Arngrímur Jóhannsson á flugi á þessum slóðum á flugvél sinni við annan mann, lenti á vellinum og var þá tekin meðfylgjandi mynd.
Athugun hans leiddi í ljós að brautirnar eru þurrar og svo harðar, að ekki liggur á að valta þær; völlurinn er þegar tilbúinn til fullrar notkunar.
Hitinn hefur komist í allt að 17 stig þarna iðulega í 660 metra hæð yfir sjó.
![]() |
Allt að 18 stig fyrir austan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2023 | 15:11
Indverska lestakerfið hefur lengi verið frumstætt úr hófi.
Ágætt ráð til að glöggva sig á hinu hræðilega lestarslysi á Indlandi er að rifja upp rúmlega 30 ára gamla ferðasögu Íslendinga sem ákváðu að ferðast á reiðhjólum til Tíbet og framkvæmdu það.
Samskipti þeirra við indverska lestakerfið var athyglisverð í meira lagi.
Þeir hófu ferðina á lestarstöð þar sem var múgur og margmenni með farseðla í höndunum, en komust fljótt að því að ekkert var að marka þann brottferðatíma, sem þar var gefinn upp.
Hófst nú löng bið þar til lestin birtist en þá tók ekki betra við. Hún var troðfull af fólki, sem tróðst inn í lestina í kös.
Nú sást að eina leiðin til að komast með reiðhjólin var að komast upp á þak lestarinnar og þar var hvert rými skipað.
Á þennan hátt komust þeir þó ekki alla leið, því að á einni lestarstöðinni var öllum skipað að fara ofan af þakinu, því að á næsta áfanga færi lestin undir brú, sem myndi sópa öllum ofan af þakinu nema þeir flýttu sér strax niður af því!
Í einni fréttinni af slysinu í gær var sagt frá því að meðal þeirra slösuðu og látnu væri fólk, sem hefði verið uppi á þaki og bendir það til þess að enn í dag sé ekki hægt að leysa úr ferðavanda allra nema að nota þakið til þess.
![]() |
Vita hvað olli lestarslysinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2023 | 22:40
Sigtryggur Sigurðsson var óvenjulegur hæfileikamaður.
Á tímabili á síðustu öld leið íslenska glíman fyrir það, sem kallað var "að bola." Það fólst í þvi að glímumenn skutu rassinum aftur til að verjast áhlaupum andstæðingsins.
Stórir og sterkir glímumenn á borð við Ármann J. Lárusson sóttust einnig eftir því að beita hábrögðum á þann hátt að hefja andstæðinginn hátt á loft og fylgja því eftir með því að beita klofbragði eða leggjabragði.
Sigtryggur Sigurðsson var þrekvaxinn vel og snarpur eftir því og vann gjarna Íslandsmeistaratitla sína og hampa Grettisbeltinuu sem Glímukeppi Íslands með þvi að leggja alla mótherja sína á hábrögðum.
Fékk hann smám saman á sig þá gagnrýni að hann væri einhæfur glímumaður. Þegar hér var komið sögu var Sigtryggur orðinn nokkuð spikaður og því nokkuð berkjaldaður fyrir svona tal.
En hann brást við á einstakan hátt.
Í næstu glímu um Grettisbeltið brá svo við Sigtryggur vann alla mótherja sína á þann hátt að leggja enga tvo á sama bragði. Notaði sem sagt öll glímubrögðin í bókinni!
Steinþðgnuðu þá þessar raddir snarlegz. Er ólíklegt að nokkur hafi leikið þetta eftir
Í nokkur ár spiluðu nokkrir áhugamnenn knattspyrnu á auðri lóð á Högunum í góðviðri í tómstundum og var Sigtryggur einn þeirra.
Kom þá í ljós að hann býsna góður í þeirri íþrótt.
Síðar kom í ljós að hann var svo góður briddsmaður að hann gat hampað Íslandsmeistaratitlum á því sviði.
Þegar haldin voru glímumót í beinni útsendingu sjónvarpi fór Sigtryggur mikinn, svo að setningin "Sigtryggur vann!" glumdi allan tímann.
Var þá settur saman stuttur skemmtiþáttur þar sem líkt var eftir því að setja saman hljóðsporin ein úr glímum ímynduðum gímum Sigtryggs með upphrópuninni "Sigtryggur vann!"
Þetta atriði eða "skets" fékk flug á skemmtunum og samkomum, og Stuðmenn nýttu sér það og juku með því enn á orðspor Sigtryggs.
Sigtryggur Sigurðsson var með eftirminnilegri afreksmönnum síðustu aldar og eru minningar um hann verðmætar.
![]() |
Sigtryggur vann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það vekur alltaf athygli þegar ráðamenn hrasa og slassa sig, einku ef þeir eru orðnfr gamlir.
Miklar vangaveltur urðu þegar Fidel Castro hrasaði fram af trðppum og beinbrotnaði og þótti það getta verið merki um að þverrandi þrek hans.
Menn geta dottið á ýmsum aldri og heimsfrægt var fall Simon Cowell á hjóli, sem stórslasaði hann.
Engum sögum fer af því að Konrad Adenauer kanslari Vestur-Þýskalands hefði hrasað og varð hann þó allra karla elstur í starfi fram undir nírætt.
Afrek Adenauers fólst í hinu mikla efnahagsundri landsins, en miklu yngri maður, Ludvig Erhardt, var efnahagsráðherra og var honum oft eignað undrið.
Síðan tók hann við af Adenauer og stóð sig svo illa að valdatímabili flokksins lauk.
![]() |
Fallið gæti reynst Biden stórt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2023 | 07:42
17 stiga hiti dag eftir dag á Brúaröræfum. BISA væntanlega opinn.
Liðinn maímánuður hefur verið einstakur á norðausturhálendinu, og þessa dagana er 17 stiga hiti dag eftir dag á Brúaröræfum.
Það þýðir væntanlega að Sauðárflugvöllur ætti að vera galopinn til notkunar og aðeins formsatriði að skoða það sérstaklega með því að fljúga þangað.
Um nokkurt skeið hefur gilt sérstakt viðbúnaðarástand á þessu svæði vegna kvikusöfnunar og skjálfta undir Öskjuvatni.
Flugvðllurinn er aðeins um 30 km frá vatninu í beinni loftlínu, eða sem svarar tíu mínútna flugi.
Brautirnar eru fimm, sú lengsta 1300 metrar, en samanlögð lengd þeirra um 4500 metrar.
Vðllurinn hefur alþjóðlega skráningu sem náttúrugerður malarflugvöllur með skammstöfunina BISA og gæti því nýst sem öryggisatriði ef eldgos brýst út í Öskju.
![]() |
Allt að 19 stiga hiti fyrir austan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)