Einn slappur bílstjóri og allir eru í hættu.

Ekki þarf nema einn óvarkáran eða ókláran bílstjóra til þess að valda stórhættu á fjölförnustu mjóu vegunum í vegakarfinu svo að jafnvel lifshætta vofi yfir öllum öðrum vegfarendum á leið hins hættulega ökumanns. 

Nú hrannast upp slys þar sem ökumenn ýmist aka of hratt, kunna ekki að víkja til fulls eða hvort tveggja. 

Meðal meginástæðnanna er vegakerfi, sem er fjarri því að ráða við umferðarmagnið, svo sem vegurinn í gegnum Þingvallaþjóðgarð. 

Slysahættan vex í réttu hlutfalli við fjölgun bíla og fjölgun ökumanna, sem vanmeta aðstæður eða eru ekki færir um að verða á ferð undir stýri í hinu lélega vegakerfi. 

Fulltrúi vegagerðarinnar segir að stórar rútur eigi ekki að vera á ferð á veginum í þjóðgarðinum.  

Þetta er fullkomlega óraunhæft. Menn loka ekki Gullna hringnum fyrir tugþúsundum fólks á þennan hátt.  Það eina sem bílstjórar á svona stórum rútum gætu gert er að aka svo löturhægt, að þeir geti stöðvað rútuna í tíma áður en glanninn eða afglapinn á móti geti valdið árekstri. 

Það myndi að sjálfsögðu hægja mjög á umferðarflæðinu þarna, en yrði þó skárra en að fara safna upp alls kyns árekstrum og óhöppum. 


mbl.is „Þess­ir veg­ir eru stór­hættu­leg­ir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um þjóðsönginn og fánann?

Um fleiri fyrirbrigði gagnvar landi og þjóð en skjaldarmerkið gilda ákveðnar reglur, svo sem um fánann og þjóðsönginn. 

Þjóðsöngvar allra þeirra landa, sem ég hef heyrt, hafa hvorki inngang né viðprjónaðan endi. 

Þannig er íslenski þjóðsöngurinn og spurningin er hvort það væri heimilt fyrir einhvern útsetjara að prjóna framan á hann "intro". 

Gott dæmi um viðprjónað intró er lagið "Nú liggur vel á mér."  Snjall útsetjari lagsins samdi 14 sekúndna langt intro á lagið sem líka er spilað oftar í laginu og í lok þess, og setur svo mikinn svip á það að það er ekki aðeins hálft lagið hvað snertir áhrif þess, heldur jafnvel betri helmingur lagsins. 

Hvað ef einhver snjall útsetjari þjóðsöngsins gerði svipað við hann?

Hvað snertir skjaldarmerkið hefur það verið notað í fleiri merkjum, svo sem í merki Flugmálastjórnar Íslands, þar sem það var illu heilli aflagt og sett í staðinn merki, sem gefa á hvergi nærri eins skýran hátt að vera merki íslenskrar stofnunar eða fyrirtækis. 

Ekki er að sjá að skylt hafi verið að birta gamla, góða merkið ævinlega með hvítum bakgrunni og birtist afar oft á búningum, sem voru svartir eða í dökkum litum.  Flugmála stjórn

Þegar Flugmálastjórn var skipt upp var þetta frábæra merki aflagt, björguðust nokkur þeirra frá glötun, og komst ég fyrir tilviljun yfir nokkur merki og ber eitt þeirra á húfum minni. 

Sem flugmaður get ég ekki hugsað mér betra merki en þetta, með landvættunum, fánanum og vængjum, sem mynda fljúgandi skjaldarmerki. 

Þótt merkið sé á svörtum grunni, finnst mér það skila sér miklu betur en grámyglulega skjaldarmerkið á svarta bakgrunninum sem sjálft stjórnarráðið birtir.

 


mbl.is Skjaldarmerkið birt á rangan hátt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um hvort heldur hvenær

Hafið býr yfir hundrað hættum var einu sinni sungið í sjómannalagi.  Og hið sama á auðvitað um íslenska náttúru með sínum hengiflugum, fossum og gljúfrum.  Margt getur farið úrskeiðis eins og t.d. það að þessi bloggpistill er óvenju seint á ferðinni vegna erfiðleika sem upp komu á ferðalagi mínu í dag á mjög afskekktum stað.  Nú rétt í þessu var verið að hjálpa örmagna fólki sem hafði gefist upp á göngu sinni.  Og þrátt fyrir allar unaðstundirnar sem hægt er eiga á ferðum um Ísland þá leynast óvæntir erfiðleikar og áföll við hvert fótmál.  Og þótt enn skortir talsvert á að búið sé að búa þannig um hnúta að fyllsta öryggis sé gætt verður aldrei hægt að girða fyrir það að slys á borð við það sem varð við Gullfoss gerist.  En af svona atburðum verður að læra og vegna gríðarlegs fjölda ferðamanna á Íslandi að spara ekkert til svo að slysahættan sé minnst.


mbl.is Ferðamaður féll í Gullfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinsun hugans og sjálfvirk áfallahjálp.

Það hefur löngum þótt hið rétta viðbragð við áföllum, að bera harm sinn í hljóði og sleikja sár sín í einrúmi. Bara konur megi gráta. 

En nú sjáum við hvernig hugurinn er hreinsaður með tárum í beinni útsendingu og með slíku viðbragði lagður grunnur að því að geta byrjað strax að nýju með hreint borð, tilbúin í slaginn sem bíður á næsta leiti. 

Öll þátttaka kvennalandsliðsins í EM hefur verið einstaklega gefandi fyrir okkur öll sem þjóð og einstaklinga. 

"Það gengur betur næst" er gott kjörorð. Felur í sér viðurkenningu á því sem ekki hefur gengið vel og einlægan ásetning um að læra af því og gera betur. 


mbl.is „Nei ég er að gráta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklu skárra 1:0 en 2 eða 3:0.

Íslensku stelpurnar sýndu í hinum erfiða leik gegn sterku liði Frakka, að það getur verið til alls líklegt á EM ef þær vinna rétt úr þessum úrslitum. 

Markið kom úr víti, og þá má alveg eins spyrja hvort íslenska liðið átti ekki alveg eins að fá að taka víti eftir franskt brot innan vítateigs í fyrri hálfleik. 

Hinu er ekki að leyna að betra liðið vann, fékk fleiri færi og var tvívegis nálægt því að skora. 

Víkingaklappið og öll önnur umgerð um leikinn af hálfu Íslendinga hefur verið til fyrirmyndar og gefið tilefni til stolts og ánægju. 

Áfram stelpur! Þið eruð á réttri leið og getið þetta!


mbl.is Nístingssárt tap gegn Frökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bakpokalýður" og "skítapakk."

Eitt af þeim fyrirbrigðum, sem löngum hefur reynst drjúgt við að skapa fordóma og illindi í framhaldinu er að skipta fólki í tvo hópa: Við - og - þeir. 

Svæsnustu stjórnmálamenn síðustu aldar nýttu sér þetta, Hitler, Stalín og aðrir. 

Hér um árið var amast við svonefndum "erlendum bakpokalýð" sem kæmi til landsins og ætti svo litla peninga að ekkert fé lægi eftir þá að lok Íslandsdvöl. 

Oftast var þetta námsfólk og þótti það alveg sérstaklega óheppilegt að fá einhvern "hippalýð" inn í landið. 

Þá gleymist alveg það orðspor og auglýsing sem slíkt fólk ber með sér til útlanda og einnig það, að oft kemur þetta fólk aftur til landsins þegar það er orðið vel fjáð eftir að hafa menntað sig. 

Ég hef oft nefnt puttaferðalanginn, sem ég tók upp í á áttunda áratugnum en varð síðan jarðfræðiprófessor og kemur nú með um 30-40 nemendur sína til landsins á hverju ári auk þess sem hann stundar þar fyrir utan rannsóknir og mælingar hér á landi. 

Það eru ekki mörg ár síðan við Íslendingar vorum fullfærir um að míga og skíta út miðborgina um nætur um helgar, og ef útlendingar væru svona miklu verri en við, ætti drullufjaran í Skerjafirði ekki möguleika á móti ástandinu í miðborginni á mesta ferðamannatímanum. 

Ferðir mínar á milljóna útihátíðir erlendis, svo sem í Bandaríkjunum, sýndu mér, að á slíkum hátíðum var ekki að finna svo mikið sem karamellubréf á mótsstað á sama tíma sem ekki þarf nema litla samkomu hér á landi til að allt vaðist út í rusli og óþverra. 

 

Úrgangur útlendinga´er sjúkur

og af því mikill bagi, 

en ef að það er íslenskur kúkur 

er það í góðu lagi. 


mbl.is Urðu fyrir aðkasti í húsbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Muhammad Ali blindaðist í 5. lotu gegn Liston.

Fátt er nýtt undir sólinni og það hefur áður gerst í mikilvægum bardögum í hnefaleikum, að menn hafi blindast. Einna frægast er það þegar eitthvað efni úr herbúðum Sonny Listons fór í augu Muhammads Ali (sem þá hét Cassius Clay) seint í 4. lotu og olli þvílíkum sviða, að Ali ætlaði að rífa af sér hanskana og gefast upp í hléinu. 

Angelo Dundee fékk hann ofan af því, þvoði augun eftir bestu getu og skipaði Ali: "Hlauptu!" 

Það gerði Ali mestalla 5. lotuna og slapp frá hörðum árásum Listons, sem hafði séð hvernig komið var fyrir Ali. 

Í 6. lotu hafði hann yfirburði og Liston gafst upp, sitjandi á stólnum í horni sínu eftir lotuna. 

Þetta hafði áður gerst í bardaga Listons við Eddie Machen nokkrum árum fyrr, sem passaði sig á því að láta á engu bera, þannig að Liston vissi ekki af vandræðum Machens. 

Í hnefaleikum er ekki eins auðvelt og í UFC að krækja fingrum í augu andstæðinga, því að fingurnir eru faldir saman inni í hanskanum. 

Engu að síður er stranglega bannað að slá með opnum hanska og sömuleiðis bannað að slá ef andstæðingurinn er kominn á hnén, styður höndum á gólfið eða hangir á köðlunum. 


mbl.is Potaði í augað á Gunnari Nelson - mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmat er oft hættulegra en vangeta.

Vanmat á andstæðingnum er eitthvert hættulegasta fyrirbrigði í íþróttum, hernaði og allri samkeppni. Dæmi um slíkt eru óteljandi.

Í þeim leikjum Íslendinga á EM í knattspyrnu í fyrra, sem skiluðu Íslendingum upp úr riðlinum, trúðu andstæðingar Íslendinga því ekki að íslenska liðið gæti staðið þeim jafnfætis eða sigrað þá. Þó var um að ræða íþrótt þar sem hundaheppni eða óheppni geta breytt úrslitum leikja. 

Í leik Íslendinga og Englendinga, þar sem Englendingar fengu óskabyrjun, var áberandi hvernig enska liðið brotnaði smám saman niður við óvænt mótlæti. 

Fyrirfram var talað um það að Gunnar Nelson hefði helst þurft að fá öflugri mótherja í gærkvöldi. 

Slíkt upplegg fól í sér vissa hættu, þótt keppandi án sjálfstrausts sé líka illa staddur.

Í öllum þeim bardögum, sem Muhammad Ali tapaði, var orsökin vanmat hans á getu mótherjanna og ofmat á eigin getu.

Í fyrstu þremur tapbardögunum hefði Ali getað sigrað ef hann hefði metið stöðuna rétt.

Síðustu tvo bardagana á ferlinum gat hann hins vegar alls ekki unnið og hefði betur látið það ógert að stíga inn í hringinn.

Á útmánuðum 1940 sagði Neville Chamerlain forsætisráðherra Breta: "Hitler er búinn að missa af strætisvagninum."  Annað kom á daginn í maí.

Í ársbyrjun 1942 biðu Bretar sinn stærsta ósigur fram að því þegar þeir misstu Singapúr. Enn var það skakkt stöðumat sem réði úrslitum.

Hrikalega skakkt stöðumat Bandaríkjamanna um ástandið í Íran kom þeim í koll 1979.

Það hefði svo sem verið þolanlegt fyrir þá ef þeir hefðu lært af þessum mistökum, en vanmat á aðstæðum í Miðausturlöndum hefur fylgt þeim æ síðan með þeim afleiðingum að mistökin eru fyrir löngu orðin of mörg.  


mbl.is Því lélegri sem þær halda okkur því betra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsfrétt, - var enginn eldur?

"Þetta var enginn eldur," voru svör talsmanns kísilvers United Silicon eftir að slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út í nótt. 

Sem sagt: Það kviknaði ekki í. Þetta var hvorki bruni né eldsvoði. 

Á öllum fjölmiðlum var hins vegar sagt að eldur hefði komið upp í kísilverinu.

Voru það þá falsfréttir? 

Hér ber aðilum ekki saman og er það ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist á þessum stað. 

Forsvarsmenn versins virðast ætla að fá okkur til að trúa því að þetta hafi svo sem ekki verið neitt, slökkviliðið hefði ekki þurft ekki að slökkva neinn eld og hefði því líkast til verið kallað út að óþörfu. 

P. S.  Greint frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þetta væri í þriðja sinn á þremur mánuðum sem slökkvilið væri kallað að verksmiðjunni. 


mbl.is Eldur í kísilverinu í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þjóðleikhúss-slysið" þrefalda.

Þjóðleikhúsið er meðal allra merkustu bygginga frá fyrstu áratugum steinsteypualdarinnar hér á landi. 

Guðjón Samúelsson, fyrsti húsameistari ríkisins, hafði sjálfur mikið dálæti á þessari smíð sinni, ekki minni en á Hallgrímsskirkju, sem hefur fengið uppreisn æru hin síðari ár, eftir hatrammar deilur um hana í áratugi. 

Því miður skorti íslenska ráðamenn kjark og víðsýni til að velja Þjóðleikhúsinu þann stað sem hefði verið samboðinn svo merkri byggingu. 

Húsinu var kúldrað niður í þrengslum á milli annarra bygginga, þannig að það nýtur sín hvergi nærri. 

Húsið stóð óklárað og óupphitað í fjölmörg ár og þetta fór afar illa við það.

Fyrir bragðið varð að ráðast í rándýrar endurbætur á því. 

Stórt tækifæri bauðst þá til að bæta fyrir mistökin með því að reisa húsið að nýju í óbreyttri mynd að mestu á stað sem hæfði því, til dæmis efst á Ártúnshöfða þar sem það hefði sést víða að úr öllum áttum. 

Þetta var ekki gert og örlög Þjóðleikhússins leika því stórt hlutverk í bókinni "Reykjavík, sem ekki varð" og kvöldgöngu höfundanna. 

Ef Þjóðleikhúsið hefði verið reist á Arnarhóli, hefðu borgarbúar og landsmenn verið sviptir þeim möguleika að hafa þar marga af merkustu útiviðburðum sögu okkar. 

Nýtt dæmi um það er Víkingaklappið þegar landsliðinu í knattspyrnu var fagnað þar í fyrrasumar. 

Gallinn við skipulag Reykjavíkur er sá, að það hefur verið viðleitni til að kúldra alltof mörgum stórmerkum byggingum saman í kös á litlu svæði. 

Um þessar mundir er verið að endurtaka þetta með því að umkringja Útvarpshúsið með íbúðablokkum. 

Ég var einn af þeim sem gagnrýndi á sínum tíma það að upphaflegu hugmyndirnar um Útvarpshúsið fælu í sér alltof stórar og margar byggingar, þ.e alls þrjár. 

Í stað þess að arkitektunum yrði falið að teikna húsið upp á nýtt, var ákveðið að taka hljóðvarpshluta þess og troða öllu inn í það. 

Þannig er stóra myndverið í húsinu upphaflega hannað sem hljóðver og margt annað eftir því. 

En burtséð frá þessu er því ekki að neita, að Útvarpshúsið var og er fallegt og glæsilegt hús, og úr því að svo varð, er nú verið að endurtaka "Þjóðleikhússslysið" uppi í Efstaleiti með því að drekkja því og gera það að bakhúsi á milli íbúðablokka. 


mbl.is Reykjavík sem ekki varð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband