7.2.2023 | 14:07
Hver var reynslan 1952, 1956, 1968, 1980 og 1984?
1936 munaði litlu að hætt yrði við að halda Ólympíuleikana í Berlín á þeirri forsendu, að Hitler og nasistar væru að gera þá að stóru auglýsingaratriði fyrir sig.
Hitler greip þá til þess bragðs að samþykkja kröfur alþjóða Ólympiunefndarinnar um jafnrétti á leikunum, og gekk hann það langt í þessu, að bandaríska blökkustjarnan Jesse Owens fékk í fyrsta skipti á ferli sínum að vera í sama hóteli og í sömu búningsklefum og hvítir samlandar hans!
Þegar heim kom sniðgekk Roosevelt Bandaríkjaforset þann vana að bjóða stórstjörnum lands síns í Hvíta húsið með því að bjóða Owens það ekki, og á sigurhátíðinni í New York var Owens meinaður aðgangur að fremri hluta salarins.
Var hann þó sá íþróttamaður á OL í Berlín sem hafði gert kenningu nasista um yfirburði hins aríska kynstofns að aðhlátursefni!
Sovétríkin voru í sárum eftir Seinni heimsstyrjöldina þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í London 1948, en 1952 sendu austantjaldsþjóðir keppendur til Helsinki og Tékkinn Zatopek var maður leikanna.
Skömmu fyrir leikana í Melbourne réðust Rússar inn í Ungverjaland og rætt var um að víkja þeim úr leik á Ólympíuleikunum, en af því varð þó ekki né heldur því að þjóðir hættu við í mótmælaskyni. Þar með varð langhlauparinn Kuts einn af stjörnuþátttakendum leikanna.
Innrás Rússa og fylgiríkja inn í Tékkóslóvakíu 1968 hafði ekki áhrif á þátttöku þeirra 1968 né 1972, en innrás Rússa í Afganistan framkallaði svo stórfelld afföll vestrænna þjóða á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, að þeir urðu stórlaskaðir.
Í hefndarskyni skrópuðu austantjaldsþjóðir í Los Angeles 1984 og á endanum gerðist það grátbroslegasta að bæði Sovétríkin og Bamdaríkin réðust, hvort í sínu lagi, inn í Afganistan; Kanarnir árið 2001.
Þetta yfirlit getur verið tilefni til mats á því hvort og þá hve mikið stjórnmálum og íþróttum eigi að blanda saman varðandi stór íþróttamót.
![]() |
Vilja ekki sjá Rússa í alþjóðlegu íþróttastarfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2023 | 20:41
Hinn dæmalausi veldisvöxtur græðginnar. Hundraðföldun á 20 árum!
Við Íslendingar upplifum nú þvílíka sprengingu í veldisvexti á flestum sviðum, að komið er út fyrir öll mörk.
Fyrir um tiu árum var sett fram það takmark að tífalda framleiðslu í sjókvíaeldi næstu tíu ár, og viti menn, þetta gekk eftir, úr 4000 tonnum í 45 þúsund.
Nú má sjá í nýrri "kolsvartri" skýrslu og með þvi að fletta til baka, hve harkalega hefur verið sprengt af stað með aldeilis dæmalausu offorsi, og skal engan undra, sem man eftir því þegar ráðherra kastaði sprengju inn í málið á upphafsstigi þess og leysti eftir ítrasta mætti úr öllum hömlum, sem gátu tafið fyrir græðgisvæðingu sjókvíaeldisins og innrás Norðmanna í þennan þátt sjávarútvegsins.
Þetta leiðir hugann að næsta tíu ára kafla, sem nú hefur verið kynntur í fjölmiðlum og felur í sér að tífalda vaxtarhraðann, sem verið hefur, þ. e. að næstu ár verði vaxtarhraðinn hundraðfaldur miðað við byrjunina á þessum 20 ára sprengikafla!
En svo deyfð er þjóðin fyrir þessu öllu, að hún kippir sér ekki upp við það hvernig gróðapungarnir eru að ganga af göflunum.
Undanfarna daga hafa verið kynntar svipaðar sprengiáætlanir varðandi vindorkuver, og þegar það er talið saman, sem þegar er komið á blað um vindorkuver um allt land og á miðunum í kringum landið, eru menn að tala um alls meira en 30 þúsund megavött, eða tíföldun núverandi nýtingu stóriðjunýtingu á orkulindum landsins!
Þegar þessi draumsýn hefur raungerst mun þjóðin framleiða innan við 5% af þeirri raforku, sem þarf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili, en yfir 95 prósent fara til erlendra fyrirtækja.
Þeir sem dirfast að andmæla þessu brjálæði, eru sakaðir um að vera á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilja fara aftur inn í torfkofana!
![]() |
Veikburða og brotakennt eftirlit með sjókvíaeldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2023 | 20:05
"Þessu þakka ég Útilíf"! Hvernig er svona bull mögulegt?
"Þessu þakka ég Útilíf!" var upphrópun sem lesin var i auglýsingu i sjónvarpi i kvöld.
Hvernig er svona bull mögulegt í eins rándýru sjónvarpsefni og auglýsing á dýrasta útsendingartíma dagsins er?
Í auglýsingunni er tilgangurinn að þakka auglýsandanum fyrir vöru eða þjónustu, en útkoman verður óskapnaður.
Í þessum bulltexta fær ákveðið fyritæki svipað sérleyfi og sífjölgandi fyrirtækjum og félögum er veitt daglega frá því að fallbeygja nöfn sín eftir íslenskum málfarsreglum.
Þetta eru heiti eins og til dæmis Útilíf, Hagkaup, Bónus og Breiðablik.
Leikmaður leikur hjá Breiðablik og verslar í Útilíf.
Í auglýsingunni "Þessu þakka ég Útilíf" eru fjögur orð, og helmingur þeirra er bull.
Meiningin hlýtur að eiga að vera þessi: "Þetta þakka ég Útilífi."
En vitleysan flýgur í gegnum málfarseftirlit hjá fjölmiðli, sem hefur lagaskyldu til að standa vörð um íslenska tungu og menningu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2023 | 08:42
Stríðið við sýkla og veirur að færast á gamalkunn stig.
Saga þjóðarinnar og mannkynsins er vörðuð eilífu stríði við sýkla og veirur, farsóttir og drepsóttir.
20. öldin var öld geysilegra framfara í þessari styrjöld, og þa fundust lyf eða bólusetningar við ótal kvillum.
Á tímabili héldu menn að stríðið væri unnið, en það reyndist mikil blekking. Sumar sýklategundir náðu vopnum sínum á ný og stökkbreyttust í öflugri sýkla, svo sem streptokokkana, sem nú eru nefndir æ meira til sðgunnar.
Efling þessara sýkla var oft um að kenna rangri lyfjameðferð eða ofnotkun.
Undir síðustu aldamót þóttust framsýnir sýklafræðingar sjá fyrir sér að 21. öldin yrði öld harðnandi átaka við veirurnar og sýklana, og COVId-19 var líklega rðkrétt framhald á HiV og fleiri nýjum kvillum.
Á gamals aldri upplifir síðuhafi sveppasýksingar, blóðeitranir/sýkingar, flensur, kvef, umgangspestir og sykursýki 2, og allt í einu er orðið nóg að gera við að stunda sína eigin lyfjamerðferð undir forskrift heilbrigðisfólks.
Við verðum að sætta okkur við að lifa með bakteríum; góðkynja tegundir þeirra halda líkamsstarfsemi okkar gangandi og eru fleiri í líkama okkar og á heldur en okkar eigin frumur.
![]() |
Annar stofn fært sig upp á skaftið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2023 | 23:34
Skortir á umferðarmenningu á göngu- og hjólastígum.
Þótt hraðinn sé minni og ökutækin líka á göngu- og hjólastígum heldur en á götunum, er hætta á slysum síst minni.
Ástæðan er hin sama og á götunum, landlæg umferðarómenning.
Lítið dæmi um það er að bjöllurnar á rafknúnum og fótknúnum reiðhjólum eru yfirleitt aldrei notaðar. Hvers vegna heldur fólk eiginlega að þessar bjöllur séu á hjólunum?
Heyra má þá afsökun, að þeir sem hringja bjöllunum séu með því að sýna frekju og oflæti, en það er einmitt þveröfugt, að það að hringja bjöllunnni er öryggis- og kurteisisatriði; svipað og þegar gefið er stefnuljós á bílum eða vélhjólum.
Ábendingarnar hjá talsmönnum blindra varpa skýru ljósi á kæruleysið og skilningsleysið, sem veður uppi í mörgum atriðum, þeirra á meðal meðferð á hjólaskútum.
Um þetta er fjallað í viðtengdri frétt á mbl.is
Fjölbreytnin í framleiðslu rafknúinna hjóla fer vaxandi og fjölbreyttari flóra af farartækjum á göngu- og hjólastígum kallar á aukna meðvitund um öryggismál á þessu sviði samgangna.
![]() |
Forðast göngustíga vegna rafskútanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2023 | 07:43
Góð saga fellur aldrei úr gildi.
Góð saga fellur aldrei úr gildi. Það hefur marg sannast í gegnum ár og aldir. Þegar Arnaldur og fleiri voru að skrifa fyrstu sögur sínar reis stóriðjustefnan hæst hér á landi.
En samkvæmt henni voru einu verðmætin, sem gætu verið grundvöllur atvinnusköpunar, beinhörð hráefni til að halda uppi stigmögnun neyslusamfélagsins.
Listamenn voru "lattelepjandi afætur í 101 Reykjavík."
Fráleitt væri að nokkur verðmæti væru í hinum nýju sögum, þótt erlendir ferðamenn væru þá byrjaðir að fara í hópum til Íslands til þess að upplifa vettvang Mýrinnar eftir Arnald.
Nú er framleiðsla kvikmynda eftir þessum sögum að ryðja sér til rúms og undanfarinn áratug hefur ferðaþjónustan sem byggir á tilvist menningarverðmæta og einstæðrar náttúru landsins staðið undir meiri efnahagsvexti hér á landi en dæmi eru um í sðgu landsins.
![]() |
Napóleonsskjölin seld til fjölda landa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2023 | 19:27
Boeing 757 leikur sér að innanlandsflugi.
Þegar Kárahnjúkavirkjun var í smíðum tók Landsbankinn Boeing 757 þotu Icelandair þrívegis á leigu þrjú sumur í rðð til að fljúga með tæplega 180 farþega í hverri ferð frá Reykjavík til Egilsstaða og til baka aftur.
Þetta voru valdir vildarviðskiptavinir bankans sem nutu dagskrár allan daginn í fimm rútum um virkjanasvæðið með samræmdu útvarpi og málsverðum um morguninn og hádegið og gala kvöldverði.
Boeing 757 þotan leysti þetta verkefni með glæsibrag á flugvöllunum í Reykjavík og á Egilsstöðum.
757 hefur um þriðjungi stærri vængflöt en álíka stórar þotur á borð við Aibus 320 og Boeing 737, og þegar hún er létthlaðin eins og í stuttu innanlandsflugi er hún það létt, þótt full sé af farþegum, að hún leikur sér að flugtaki og lendingu í Reykjavík og á Egilsstöðum með fullu öryggi.
Í þau skipti af þeim sex flughreyfingum, sem voru framkvæmdar í þessum ferðum, var það aðeins einu sinni, í lendingu á Egilsstöðum í logni, var brautin í stysta lagi fyrir vélina, því að rétt fyrir lendingu, lenti hún í óvæntum meðvindi, sem lengdi lendingarbrunið til norðurs, af því að nokkur hundruð metrar á suðurendanum eru ónothæfir vegna ljósastaura á Þjóðvegi eitt þvert fyrir brautarendann.
Flugvöllurinn er mikilvægur varavöllur fyrir flug og furðulegt að gera ekki úrbót í þessu efni.
![]() |
Boeing 757-flugvél nýtt í innanlandsflug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2023 | 10:11
Nýr og varanlegur veruleiki í heilsufarsmálum?
Eftir að covid bylgjan síðasta var hjöðnuð varð fólk svo fegið að hafa losnað úr viðjum forneskjulegs veruleika farstótta eins draugs aftan úr öldum, að talningar á covid-sjúklingum og sjúklingum með aðrar tegundir flensu urðu ekki lengur fréttnæmar, hvað þá dauðsföll af völdum slíkra pesta.
Nú sáldrast hins vegar inn "gamaldags" fréttir af slíku, og einnig af því hve mikið ófremdarástand ríkir á heilbrigðisstofnunum vegna dæmalauss álags.
Þótt nú sé árstími umgangspesta er þetta umhugsunarefni.
![]() |
Þorrablóti bæjarins frestað vegna veirunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2023 | 19:22
TF-SIFog Landhelgisgæslan eru sjálfstæðismál.
Frá árinu 1955 þegar Landhelgisgæslan fékk sína fyrstu flugvél hefur öryggis- og varnamálum Íslands verið háttað þannig að borgaraleg og hernaðarleg gæsla hafa skarast og varnarlið NATO haft hinn hernaðarlega þátt með höndum af þeirri einföldu ástæðu, að vegna smæðar íslensku þjóðrinnar verður að leita atbeina nægilega öflugs erlends herafla.
Varnarliðið var árum saman með þyrluflugsveit á vellinum, sem notuð var við borgaralega leit og björgun eftir atvikum.
Catalina sjóflugvél gæslunnar sá um grunneftirlit, og þegar landhelgin stækkaði var Douglas DC-4 keypt; þar á eftir Fokker F-27 Friendship skrúfuþota og 2009 loks núverandi Dash-8 skrúfuþota.
Við brotthvarf varnarliðsins fór bandaríska þyrlusveitin og siðan hafa þyrlur Landhelgisgæslunnar annast sjúkra- og eftirlitsflug, en um rekstur þeirra og flugvélarinnar hefur það gilt, að stórvarasamt fjársvelti hefur verið í gangi.
Um TF-SIF, þyrlurnar og varðskipin gildir, að það er einfaldlega sjálfstæðismál fyrir okkur að hafa með höndum þann hluta öryggismála okkar og ráða sjálfir yfir þeim búnaði sem til þarf.
![]() |
Færir eftirlit, leit og björgun áratugi aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.2.2023 | 18:47
Langmikilvægasta orrusta Seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir 80 árum.
Tvær stórorrustur í lok ársins 1942 þóttu marka alger þáttaskil í Seinni heimsstyrjöldinnI.
Annars vegar var það orrustan við EL Alamein milli Þjóðverja og Breta sem Bretar unnu með dyggri vopasendingaaðstoð Bandaríkjamanna, en hins vegar orrustan við Stalíngrad austur við Volgubakka í Rússlandi, en í dag eru rétt 80 ár síðan 6.her Von Paulusar gafst upp í rústum borgarinnar.
Á aðra milljón manna fórust í þessum hildarleik, 6. herinn var á endanum þurrkaður út, og Von Paulus eini þýski hershöfðinginn með æðstu tign sem fram að því hafði gefist upp.
Lengi vel eftir stríðið eimdi eftir því að leggja þessar tvær orrustur að jöfnu.
En tölurnar segja allt annað. Flestar tölur um orrusturnar tvær eru tíu sinnum stærri í Stalíngrad heldur en El Alamein og sú orrusta markaði því margfalt stærri spor í stríðsreksturinn.
Það er því engin furða að Vladimir Pútín geri mikið úr afmælisdeginum og leggi út af tilefni hans.
Það er að vísu langt seilst hjá honum að jafna hermönnumm Úkraínu við hermenn nasista að öllu leyti. En auðvitað er það rétt hjá honum, að nú séu í ljósi nýjustu frétta boðuð koma þýskra skriðdreka í austurveg eftir 80 ára hlé.
Bloggar | Breytt 3.2.2023 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)