Veiran breiðist hraðast út í fjölmiðlum. Kostir og ókostir.

Ef gerð væri könnun á því rými í fréttum fjölmiðla sem COVID-19 veiran fær, sýnist hröð fjölgun þessara frétta á hinum fjölbreytilegustu sviðum vera afar hröð og breiðast um allar tegundir frétta, fundi, mannfagnaði, hvers kyns samkomur og samgöngur og guð má vita hvað. 

Vonandi veitir sem best upplýsingaflæði þjóðfélaginu þekkingu til að bregðast sem skynsamlegast og af mestri yfirvegun við þessu ágenga viðfangsefni, og komi í veg fyrir það að tjónið af völdum veirunnar verði mun meira en hægt er að komast hjá með skaplegustum hætti. 

25 prósent samdráttur í flugi Lufthansa og 80 prósent minni bílasala í því landi þar sem flestir bílar eru framleiddir eru dæmi um þau ógrynni tilefna, sem komið hafa fram um málið. 

Í tengslum við það komast meira að segja skítugir bæklingar í sætisvösum Icelandair.

Viðbrögð Bandaríkjaforseta þess eðlis að einbeita afli "stórkostlegasta ríkis heims" í að búa til hindranir og múra á samgöngum við önnur ríki og reisa nokkurs konar mexíkóskan sóttvarnarmúr umhverfis Bandaríkin eru í samræmi við hina þekktu trú hans á múra og aðskilnað lands hans gagnvart öðrum löndum. 

Nú berast fréttir af því að útbreiðsla veirunnar innan lands sé að verða hraðari en áður og ef hún fer úr böndunum verður það varla til að varpa ljóma á einangrunarhugsun hans.  


mbl.is Ragnar gagnrýnir Icelandair fyrir óþrifnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi verður snjóflóðið í vetur til þess að öryggi verði tryggt.

"Fátt er svo með öllu illt, að ei boði gott. Snjóflóðið á Flateyri í vetur var mikið áfall og varpaði skugga yfir framtíðarhorfur á staðnum. 

Það voru slæmu fréttirnar. 

En góðu fréttirnar eru, að án þessa snjóflóðs hefði verið lifað áfram við falskt öryggi. 

Það var heppni að ekki varð manntjón, og nú skapsast grundvöllur fyrir að markvissar rannsókir á grundvelli nýrra gagna, sem liggja nú fyrir en hefðu ekki gert það ef ekkert snjóflóð hefði fallið.

Á slíkum rannsóknum verður vonandi hægt að byggja nægilegar endurbætur með nýjum kröfum og úrlausnum, sem nái fram viðbúnaði sem tryggi öryggi fólksins og atvinnulífsins til frambúðar.


mbl.is Langmikilvægast að endurmeta snjóflóðavarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smart Fourtwo er kannski örbíll, en Renault Twingo ekki.

Framleiðendur Smart og Renault hafa með sér samstarf um framleiðslu Twingo og Smart.Smart þversum í stæði

Það felst í því að Smart er seldur í tveimur gerðum, og er önnur þeirra, Smart Fourtwo, tveggja sæta, með tvennar dyr og aðeins 2,69 m á lengd, en hin, Smart Fourfour er 80 sentimetrum lengri með sæti fyrir fjóra og fernar dyr. 

Renault framleiðir stærri bílinn undir heitinu Twingo og er hann 3,62 m langur, l,66 m breiður og 1,55 m á hæð, en lætur Smart um að framleiða styttri bílinn líka.   

Bíll af stærð lengri bílsins, álíka hár og breiður og svokallaðir "sportjeppar", getur engan veginn talist "örbíll", þótt lítill sé. 

Í tengdri frétt er sagt að þessi bíll sé "örlítill" þótt hann sé bæði 19 sm lengri, 3 sm breiðari og 8 sm hærri en smábíllinn Toyota Aygo. Renault Twizy

Renault hefur að vísu framleitt "örlítinn" rafbíl, sem heitir Twizy. Hann er raunverulegur örbíll, hægt að leggja þremur þversum í stæði, enda aðeins 2,34 m á lengd, 1,24 á breidd og 1,47 á hæð. 

Ef Renault Twingo telst vera "örlítill" vantar alveg orð yfir Twizy, og eina ráðið að segja að hann sé "nærri ósýnilegur." 

Notkun heitanna "sportjeppi" og "örbíll" eru dæmi um þann rugling, sem er uppi varðandi orðanotkun um bíla um þessar mundir.  DSC00201

Gallinn við styttri gerðina af Smart er sá, að rafhlaðan er aðeins 17,6 kWst og uppgefin drægni aðeins 124 kílómetrar. Sama rafhlaðan er í lengri gerðinni, en það blasti við hönnuðum Renault, að hluta af þeim 90 sentimetrum í lengd, sem fæst í þeim bíl, mætti nota til að stækka rafhlöðuna. 

Uppgefin stærð rafhlöðunnar er 22 kWst sem er að vísu um 40 prósenta aukning, en þeir hjá Renault virðist sýna full mikla bjartsýni þegar þeir telja að aukningin á drægninni verði um 100 prósent, upp í 250 kílómetra. 

Líklegra er að drægnin geti verið um 180 kílómetrar.

En það er að vísu risastökk, sem sést af því, að ferðatíminn á honum yrði vel á aðra klukkustund styttri frá Reykjavík til Akureyrar en á styttri bílnum, og það gerir þennan rafbíl afar áhugaverðan, einkum vegna þess að hann er með miklu krappari beygjuhring en nokkur annar bíll.  


mbl.is Twingo sem rafbíll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti þetta verið einföld ástæða: Of stutt á milli pedala?

Dularfullur en mögulegur galli á Tesla-bílum gæti stafað af öðrum orsökum en þeim að bílarnir gefi sér sjálfir inn. Tesla 3

Rafbíll síðuhafa, Tazzari Zero örbíllinn, hefur nefnilega átt þetta til svo að jafnvel hafi orðið vægur árekstur úr í eitt skiptið, þegar bakkað var úr stæði. 

Það kom ekki að sök, því að afturhluti Tazzari bílsins er með mjúkt plast í ysta byrði, sem fjaðraði án þess að brotna.  Á hinum bílnum sást ekkert! 

En við skoðun eigandans hefur komið í ljós, að í þeim tilfellum, sem bíllinn hefur tekið upp á svonalöguðu, var það bílstjórinn sjálfur sem gaf bílnum inn afl þegar hann ætlaði sér að gera þveröfugt, að hemla.  

Þetta gerðist það oft á fyrsta ári bílsins, að hugsanlega getur svipað gerst á öðrum rafbílum. 
Tazzari Zero og Smart Fortwo e á hlið

En ástæða þess að þetta sýndist vera bíllinn að verki var einfaldlega þríþætt: 

1. Rafhreyflar eru hljóðlausir, og þess vegna er þessi inngjöf afls svona lúmsk. Ef um eldsneytisknúinn bíl væri að ræða, myndi heyrast hressilega í vélinni. Eða að hann myndi hiksta og drepa á sér.  

2. Tog rafhreyfla nær yfir allt snúningssviðið alveg frá núlli og sé óvart snert við aflgjöfinni með fætinum, kippist bíllinn hressilega af stað og það drepst einfaldlega ekki á honum. 

3. Sé stutt bil á milli aflgjafarpedalans og hemlapedalans, getur það komið fyrir að stigið sé óvart á báða pedalana samtímis.  Við það kemur fát á ökumanninn, sem skilur ekkert í því afhverju bíllinn kippist áfram, og bregst ósjálfrátt þannig við að stíga af fullu afli á hemlapedalann, en gefa á sama tíma bílnum óvart fullt afl áfram. Tazzari, topplaus

Einn annar ökumaður en síðuhafi hefur fengið að taka í Tazzari-bílinn og er sá hávaxinn og langfættur og notar skó af stóru númeri. 

Þrátt fyrir aðvörun fyrirfram steig hann óvart á báða pedalana í miðri ökuferð, en áttaði sig strax vegna aðvörunarinnar, sem hann hafði fengið. 

Sé ofangreint lykillinn að lausn þessa máls, er lausnin einföld: Að auka bilið á milli aflgjafarpedala og hemlapedala. 

P.S. Hugsanlega mætti útvíkka tölvuleg tengsl hemla og aflgjafar með búnaði, sem slæi út aflgjöfinni samastundis ef stigið er óvart á hana á sama tíma og stigið er á hemlapedalann. 


mbl.is Skoða mögulegan galla í Tesla-bifreiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska glíman veik fyrir veirunni.

Íslenska glíman er greinilega berskjölduð fyrir COVED-19 veirunni. Hver glíma byrjar afleitlega á eftirfarandi skylduatriði: 

Keppendurnir tveir ganga í átt að hvor öðrum og heilsast með handabandi. Verra getur það ekki verið. 

Síðan byrjar það návígi, sem glíman er með tilheyrandi mæði og blæstri hvor framan í annan. 

En samt er þetta ekki búið. 

Nei, það versnar. 

Ef svo skyldi hafa hist á að handabandið í upphafi hafi ekki reynst nóg til að bera veiruna á milli keppenda, endar hver glíma á því skylduatriði að keppendur ganga hvor að öðrum og takast aftur í hendur og heilsast tryggilega með handabandi. 


mbl.is Neitaði að taka í höndina á Merkel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum við rekin út erlendis, af því að Ítalir hafa smitað okkur?

Nú eru nú ný COVED-19 tilfelli byrjuð að detta inn, og sýnist langlíklegast að þessir Íslendingar hafi smitast af Ítölum á ferð sinni þar í landi. 

Ísland er sem sagt komið í hóp COVED-19 landanna voðalegu og það verði á allra vitorði hvarvetna, því að þegar hafa fréttirnar af því að veiran hafi numið land á öllum Norðurlöndunum, hafa verið sagðar erlendis, meðal annars á Ítalíu.  

Það skyldi þó ekki vera að Íslendingar verði reknir út úr verslunum á Ítalíu fyrir það að þeir beri ítölsku veiruna til baka í heimamenn á Ítalíu?


mbl.is Ítölum verið vísað á dyr hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska mannanafnahefðin er dýrmæt.

Þegar íslenska mannanafnahefðin er útskýrð vel fyrir útlendingum eru algengustu viðbrögð þeirra aðdáun, stundum blandin votti af öfund. 

Hluti af þessum jákvæðu viðbrögðum felst í því að á bak við ættarnöfn liggur gamalt misrétti kynjanna varðandi það að kona þurfi að skipta um nafn við það að gifta sig, og að þetta aðkomna ættarnafn verði jafnvel aðalnafn hennar, án þess að hún fái nokkru um það ráðið. 

Dæmi er Jacqueline Bouvier, sem þurfti að breyta nafninu í Jacqueline Kennedy þegar hún gifti sig, og síðan á breyta nafinu aftur þegar Kennedy var myrtur og hún varð við aðra giftingu að Jacqueline Onassis. 

Hugmyndir um að verja ekki íslensku mannanafnahefðina, heldur gefa verulega eftir varðandi ættarnöfnin geta reynst íslensku hefðinni skeinuhætt, vegna þess hve erfitt er að verjast ásókn ættarnafnanna. 

Íslenski mannanafnasiðurinn er snar þáttur í menningu og sjálfsímynd þjóðarinnar, bæði sem praktiskt og rökrétt atriði, en einnig sem atriði, sem eykur virðingu okkar út á við. 

Þegar bent er á kynjahalla varðandi það að föðurnöfnin séu ráðandi, má á móti benda á þá möguleika að kenna sig við móður, og hefur sá siður þann kost, að minni hætta er á því að skyldleikinn sé ekki öruggur. 

Auk þess benti einn vinur minn á það í umræðu um þetta mál, að náin tengsl móður og afkvæmis á meðgöngu og fyrst eftir hana væru atriði, sem faðirinn færi á mis við og notkun föðurnafns sem eftirnafns því viss jöfnun á þessum mismun.  


mbl.is „Hvert er íslenska nafnið þitt?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband