Hjólin gefa færi á að vinna upp "glötuð unglingsár" skellinöðrualdursins?

Það er óhætt að taka undir með þeim, sem hafa uppgötvað þá dásemd sem notkun hvers kyns hjóla getur gefið af sér, allt frá hlaupahjólum og upp úr.  Náttfari við Engimýri

Hjá síðuhafa háttaði þannig að hann var brjálað reiðhjólafrík frá níu ára aldri, og fékk sér meira að segja bæði gíra í hjólið og höggdeyfa að framan, sem var nýjung á þeim tíma í byrjun sjötta áratugsins. 

Ekki dugði minna en að fara hjólandi austur fyrir fjall og allt upp í Norðurárdal. Í ferðinni upp í Norðurárdal var takmarkið að hjóla 20 km að meðaltali á hverri klukkustund. 

Hjólatímabilinu lauk þegar stokkið var yfir skellinöðruárin og keyptur minnsti, umhverfismildasti og ódýrasti bíll landsins.  Léttfeti við Gullfoss

Á tímabili í kringum 1970 var notað samanbrjótanlegt reiðhjól til að hafa með sér í sumar flugferðir á TF-GIN en að öðru leyti virtust hjólaárin að baki.

En 2015 var þráðurinn tekinn upp að nýju með því að fara á rafreiðhjólinu Sörla fyrir rafafli hans eingöngu frá Akureyri til Reykjavíkur um Hvalfjörð á innan við tveimur sólarhringum og kostaði rafmagnið í ferðinni aðeins um hundraðkall. 

Á þessari leið var dýrlegasti hlutinn í Öxnadal þar sem liðið var áfram hljóðlaust og hlustað á fugla á hreiðrum sínum í æfingaferð á rafreiðhjólinu Náttfara. 

Efri myndin er af Náttfara við Engimýri í Öxnadal, en fyrir neðan hana mynd af rafknúna léttbifhjólinu Léttfeta við Gullfoss í ferð um Gullna hringinn, en hjólið er með útskiptanlegum rafhlöður. Léttir við Jökulsárlón

Nú, átta árum síðar, eru hjólin þrjú, sem hafa verið notað um allt land, allt vestur á Ísafjörð, og austur á Egilsstaði og Hornafjörð, því við Náttfara hafa bæst Léttir, Honda PCX 125 PCX ótrúlega sparneytið og hraðskreitt bensínknúið léttbifhjól, og 2020 bættist Super Soco CUx rafmagnsléttbifhjól í hópinn, sem nefnt er Léttfeti. 

Á neðstu myndinni er Léttir við Jökulsárlón. 

Svo fjðlbreytileg og skemmtileg hafa not þessara léttbifhjóla verið, að segja má að þau hafi veitt eigandanum dýrlegt tækifæri til að vinna upp "glötuð unglingsár" á skellinöðrualdri hans.  

 

 


mbl.is Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir um margt á Citroen DS hér um árið. Er hámark fegurðar í skiptilykli?

Þegar Citroen DS var frumsýndur 1955 þóttu það tímamót í hönnun bíla. Bíllinn var með loftmótstöðustuðul upp á ca. 0,30 cx þegar aðrir bílar voru með 0.50 cx og qþaðan af meira.DSC00536 

Hann var allt öðruvísi útlits en aðrir bílar til þess að ná þessum árangri. 

Á þessum árum neyddust verksmiðjurnar til að nota vél, sem skorti afl og var hönnuð 20 árum fyrr. En samt náði DS meiri hámarkshraða en mun aflmeiri bílar. 

Afturendinn á Ioniq minnir svolítið á afturendann á Citroen DS, en hönnuðirnir bæði lengdu bílinn og lækkuðu hann til þess að koma loftmótstöðunni niður í 0,21 cx, sem er í raun fáránlega lág tala. 

Þetta skilar sér í hinni gríðarlegu drægni. 

NSU Ro 80 var valinn bíll ársins í Evrópu og var með metlága loftmótstöðu; minnti að því leyti á Citroen DS og Hyundai IONIC 6. 

Allir þessir bílar eru auðþekkjanlegir á laginu að aftan. Hönnuður hjá Citroen sagði, að sér fyndist fegurð nytjahluta fara eftir því hve mikið lagið og línurnar í þeim þjónuðu nytjahlutverki. þetta var sagt á þeim árum sem Citroen Bragginn og Citroen DS komu fram á sjónarsviðið. 

Hann sagði að fegursti hlutur sem hann þekkti væri venjulegur skiptilykill. Hver einasta lína í slíku verkfæri þjónaði notagildinu. Meginásar skiptilykis eru annars vegar skaftið og hins vegar hausinn. Þessir tveir ásar mynda samt ekki rétt horn, heldur murar þar ca 10 gráðum. Í lyklinum eru bogadregnar línur, sem verða að vera til þess að virkni lykilsins sé hámmörkuð.  Tilhneiging til straumlínulags hófst í kringum 1933 með því að byrja að halla framrúðum bílanna um 10 gráður frá lóðréttu plani, því að lóðréttar framrúður ollu hámarks loftviðnámi þess hluta bílsins.

Síðan þá hafa bílar smám saman orðið með minna loftviðnám, Volkswagen Bjallan var meo CX 0,48 og Golf með 0,42. 

Sú tala er tvöfalt hærri en á Ionic 6, og á tímum eftirsóknar eftir orkunýtni er upplífgandiað sjá svona bíla koma fram á sjónarsviðið.


mbl.is Hyundai IONIQ 6 þrefaldur sigurvegari í World Car Awards 2023
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lofthernaður gegn landinu?

Fyrir rúmum 50 árum skrifaði Halldór Laxness tímamótagrein í Morgunblaðið undir heitinu "Hernaðurinn gegn landinu" og raifaði á magnaðan hátt þær tröllauknu hugmyndir, sem þá voru uppi um hernaðarkenndar fyrirætlanir til að ráðast með stórvirkjunum gegn mörgum af helstu náttúruperlum landsins. 

Í dag verður haldið Náttúruverndarþing í því sveitarfélagi, sem Þjórsárver eru í og búið var að setja á aftökulista komandi hernaðar gegn landinu. Á þinginu verður væntanlega aðallega fjallað um komandi virkjun Þjórsár, en í sveitarfélaginu er einnig að rísa fyrsta bitastæða vindorkuverið. 

1970 óraði skáldið ekki fyrir þeim tryllingslegu fyrirætlunum sem voru í fæðingu varðandi það að virkja allar helstu ár norðausturhálendisins og hervirkið Kárahnjúkavirkjun er nú hluti af. 

Því síður óraði hann fyrir því að sá landhernaður gæti síðar fengið liðsauka úr lofti með svo stórkarlalegum vindorkuverum í formi risa leifturstríðs að kalla mætti lofthernað gegn landinu. 

Svo mikill er æsingurinn varðandi þetta nýja stríð, að þegar liggja fyrir áform um 1000 vindmyllur í 40 vindorkuverum á landi, og þar að auki áform um allt að 15 þúsund megavatta vindorkuver á grunnmiðum undan suðausturströndinni.  Bara sú hugmynd ein snýst um orkumagn, sem er fimm sinnum meira en öll orkuframleiðsla landsins nú!  

Það er haft eftir Albert Einstein að ef ætlunin sé að fást við mistök, dugi ekki að nota til þess sömu hugsunina og olli þeim.  

Þetta skynjar ungt fólk nú þegar það bendir á þá lífseigu hugsun sem ráðið hefur ferðinni fram að þessu í neyslu og hagfræði jarðarbúa sem snýst um veldisvöxt hagvaxtar sem eins konar trúaratriði. 


mbl.is Ungt fólk harmar neysluvenjur landsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikmanni verður starsýnt á eldrauða loftmassann frá Afríku.

Fjölmiðlunartæknin hefur vaxið mikið á þeim 57 árum síðan veðurkort birtust landsmönnum á svart-hvítum veðurkortum. 

Nú eru birtar miklu fjðlbreyttari upplýsingar á kortum, þar sem loftstraumar og loftmassar hreyfast eins og lifandi verur. 

Í mestallan vetur hafa meginlínurnar um átökin milli rauðlitaðs massa yfir Afríku og hins helbláa massa yfir Grænlandi bylgjast um nokkurs konar vígstöðvar, sem liggja eins og víglína frá suðvestri norðaustur yfir Ísland og ráða hinum miklu sviptingum í veðurfarinu hjá okkur. 

Einstaka sinnum þrýstir þurrt og sjóðheitt loft frá Sahara sér alla leið norður í Íshaf, og meira að segja sandrykið frá Sahara mettar loftið hjá okkur. 

Þegar svona ástand getur varað jafnvel dögum saman, og þetta gerist tíðara en áður, gætu það verið merki um hækkun meðalhita andrúmsloftsins á heimsvísu.  

En hinar gríðarmiklu víðlendur átakasvæðanna eru stærri og með flóknari fyrirbærum en svo að auðvelt sé að spá í þau spil.  


mbl.is 77 ára hitamet slegið í Portúgal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Spennandi" tímar framundan hjá borginni.

Áratugum saman hafa fjármálatölur Reykjavíkurborgar verið umdeildar og meðhöndlaðir á misjafnan hátt. Þannig er það enn í dag, og hlutverkaskipti Dags og Einars skapa líklega aukna óvisssu, hvort hún ein og sér muni einhverju verulegu breyta.  

Risastór verkefni bíða í samstarfi bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu varðandi stórvirki á borð við Borgarlínu og Sundabraut. 

Framundan eru átök á vinnumarkaði og glíman við verðbólguna og niðurstöður skoðanakannana hrista stoðir stjórnarsamstarfsins. 


mbl.is Rekstrarafhroð í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólarlagið: Smyrsl á kalda fönnina.

Nú eru síðustu dagar aprílmánaðar, og því sætir tíðindum 14 sentimetra snjóþekjan, sem dembdi sér niður á Suðvesturlandi í dag. DSC09996

Sem betur fór sá vorsólin við því með því að gefa frá sér góðan hita úr hárri stöðu í dag, því að sólargangurinn er svipaður í apríllok og hann er miðjum ágúst. 

Í ofanálag bættust Snefellsjökull og misturskenndur skýjahimininn yfir honum í hópinn með einum af fyrstu kvöldum þessa vors með fögru sólarlagi. 


mbl.is 14 sentimetra jafnfallinn snjór í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Séríslenskt sleifarlag?

Árið 1974 féllu snjóflóð í Neskaupstað, sem hefðu átt að koma af stað gagngerri áætlun um snjóflóðavarnir þá þegar. 

Það var ekki fyrr en 1994 að norskur snjóflóðasérfræðingur sagði að þar sem landi hallaði og snjór gæti fallið, gætu komið snjóflóð. Hann var fenginn til að athuga aðstæður á Seljalandsdal og beðinn um að fjalla ekki nánar um aðstæður vestra í öðrum fjörðum. 

Meðal þeirra staða hefðu getað orðið krapaflóðið mannskæða á Patreksfirði, en 1995, árið eftir snjóflóðið á Seljalandsdal, féllu stóru mannskæðustu flóðin á Súðavík og Flateyri, og samtímis stærsta snjóflóðið innsst í Dýrafirði, en það félll í óbyggð. 

Einn maður fórst í snjóflóði í Reykhólasveit, en það var ekki fyrr en eftir snjóflóð í Bolungarvík 1997 sem einhver hreyfing af alvöru komst á ofanflóðamálin

1999 var Ofanflóðasjóði hrint af stað, og átti að ljúka verkefnum sínum 2010, en því var frestað til 2020 og svo aftur 2030. 

Þessi saga er ekki sú eina af þessu tagi, sem um getur hér á landi. 

Ítrekað hafa framlög í sjóði verið tekin úr þeim og sett í eitthvað annað. 

Harmsaga Ofanflóðasjóðs er hins vegar of stórfellt dæmi um eins konar séríslenskt sleifarlag, sem er í raun óskiljanlegt viðundur; risatilbrigði um íslenska stefið og viðkvæðið "þetta reddast." 


mbl.is Fjármögnun varnargarðs í Neskaupstað óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn settu bundið slitlag í forgang fyrir 30 árum.

Það hefur verið áhugavert að kynnast norsku vegakerfi á mörgum dagskrárgerðarferðum um það dreifbýla land.  

Áberandi var að Norðmenn settu malbikun vegakerfisins í forgang, og komust vel áfram með það verkefni, þótt það bitnaði sums staðar á því að breikka vegina. 

En heildarverkefnið var greinilega svo tröllaukið að þessi leið var farin. Þegar fyrir aldarfjórðungi var leitun að vegi hjá frændum okkar, sem líktist þeim vegi á Vatnsnesi, sem fylgir viðtengdri frétt á mbl.is.


mbl.is Gæti kostað 150 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlegt fyrir Svía. "Salmonellan sækir á..."

Svíar eiga að baki langan frægðarferill sem fjölmennasta Norðurlandaþjóðin sem hefur verið í forystu í mörgum tæknimálum, einkum hvað snertir öryggi. 

Þeir voru frumherjar í gerð bílbelta, árekstravarna og læknisfræðilegrar gerðar þægilegra framsæta. 

Sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo og SAAB stóðu framarlega áratugum saman, og alveg fram á þennan daga hafa SAAB verksmiðjurnar framleitt orrustuþotur, sem eru í fremstu röð. 

Sú nýjasta er SAAB Gripen.  

Í heilbrigðs- og velferðarmálu áttu Svíar lengi góða daga og eru nýjar fréttir af eggjaskorti vegna stórfelldrar salmonellusýkingar því neyðarlegar. 

Svipað gerðist reyndar hér á landi fyrir aldarfjórðungi þegar sýking kom upp stóru fuglabúi að Sveinbjarnargerði við Eyjafjðrð. 

Í ofanálag féll stór aurskriða á bæinn, og um þetta tvennt orti Hákon Aðalsteinsson:

"Salmonellan sækir á;

sigrar brátt að fullu. 

Norðan heiða fjöllin fá

feiknarlega drullu. "


mbl.is Viðvarandi eggjaskortur í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi líkur á eldgosi?

Óvenju víða í íslenska eldstöðvakerfinu má búast við eldgosi eftir að Reykjanesskagin birtist með upphafið að nokkurra alda eldgosatímabili í kjölfar eldgosalauss tíma i átta aldir. 

Grímsvötn teljast enn vera virkasta eldstöð landsins og nú er kominn meira en áratugur síðan þar gaus síðast. 

Hekla hefur þanist út upp fyrir þau mörk sem hún komst í fyrir gosið árið 2000, og á svæðinu Bárðarbunga-Askja hafa ekki verið meiri goslíkur samanlagt í háa herrans tíð. 

Ein af hugsanlegum afleiðingum hlýnandi loftslags og minnkandi jökla getur orðið vaxandi tíðni eldgosa á þessari öld. 


mbl.is Stærsti skjálftinn á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband