15.4.2023 | 21:55
"Hvað er að, þegar ekkert er að, en þó er ekki allt í lagi?" Munur á varúð og neyð.
Tilvitnunin hér að ofan er úr lítilli flökkusögu, sem flögraði um um miðja síðustu öld.
Meiraprófskennari og prófdómari fyrir atvinnubílstjóraréttindi fór að leggja ofangreinda spurningu fyrir nemendur á lokaprófinu, og vafðist hún fyrir mörgum nemendum til að byrja með, en smám saman spurðist tilvist hennar út og hent var gaman að útkomunni.
Spurningin var svona: "Hvað er að þegar ekkert er að en þó er ekki allt í lagi"
Rétt svar:
"Þá er litla gatið á bensínlokinu stíflað."
Útskýringin er sú, að þetta litla gat er haft til þess að þrýstingurinn haldist hinn sami inni í bensíngeyminum og utan hans þegar bensínpumpan dælir eldsneytinu úr fullum geymi, því að þegar bensínið streymir úr geyminum, skilur það eftir sig lofttæmi, sem getur valdið því að bensínpumpan gefi sig eða að geymirinn leggist saman.
Það var hent gaman að þessu á sínum tíma, en það sést samt við nánari athugun, að þetta eru bláköld sannindi.
Í fluginu er gerður greinarmunur á því, hvort grípa þarf til varúðarráðstana þegar truflanir eða bilanir verða, eða hvort grípa þurfi til ney'arrástafana.
Í fréttinni um "nauðlendinguna" í Keflavík á miðvikudag í fyrirsögn, en síðar um "öryggislendingu" eða varúðarlendingu.
Ljóst virðist að í fyrirsögninni er ofmælt, og má nefna mörg dæmi um það, að blaðamenn hafi talað um nauðlendingu þegar aðeins var um varúðarlendingu að ræða.
Nefnt skal eitt af þessum dæmum. Fyrir rúmum tveimur áratugum lenti flugmaður í meiri mótvindi en áætlað hafði verið á leið sinni frá Akureyri til Reykjavíkur.
Þegar leið á ferðina fór að verða tvísýnt um að hann stæðist þá kröfu í flugreglum að eiga eftir bensín til hálftíma flugs þegar komið væri á ákvörðunarstað.
Hann vissi af því að á Húsafellsflugvelli væri hægt að fá keypt bensin og millilenti því þar til að fullnægja kröfunni um varabirgðir.
Í fréttaflutningi var hins vegar sett í fyrirsagnir að hann hefði "nauðlent" á Húsafellsflugvelli.
Það var rangt; þetta var varúðarlending (precautionary landing) en ekki nauðlending (emergency landing).
Flugmaðurinn braut engar flugreglur og þetta var engin frétt.
Um þetta gilti því gamla spurningin: "Hvað er að þegar ekkert er að, en þó er ekki allt í lagi?"
Í frétt þessa dagana er greint frá því að gefin hefðu verið út fyrirmæli um aukaskoðun á burðarvirki í Boeing 737 MAX.
Um hana gilti, að ekki væri ástæða til að óttast slys af þessum ástæðum, heldur nægði að ganga sérstaklega úr skugga um það að rétt hefði verið staðið að gerð burðarvirkisins.
Í viðtali við talsmann Icelandair kom fram að farið yrði að þessum tilmælum flugmálayfirvalda og framleiðanda.
Nauðlenti í Keflavík vegna tæknibilunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2023 | 13:34
Jákvætt að lækka verðið og auka framboð á ódýrari rafbílum.
Það er jákvætt og þarft þegar Brimborg lækkar verð á nýjum bílum. Í umræðum um rafbíla hefur heyrst kvartað yfir litlum möguleikum hinna tekjulægri.
Nefna má þrjá möguleika til þess að vinna gegn þessu.
Að lækka söluverð nýrra bíla þegar færi gefst.
Að flytja inn nóg af ódýrum rafbílum.
Aö nýta markaðinn fyrir notaða rafbíla.
Síðuhafi hefur skoðað þann nýja bíl, sem nú er kominn á markað í Danmörku og víðar og er sá ódýrasti á markaðnum, en það er Dacia Spring, sem selst þar á verði sem samsvarar um þremur milljónum á markaði hér á landi. Bíllinn er sá langódýrasti á markaði nýrra bíla.
Nokkrir bílar eru komir á bílasölu hér, að minnsta kosti á Bílalind is.
Auk beinnar skoðunar á Spring er hægt að sjá reynsluakstur á youtube og lesa nánar í dönsku bílablaði með yfirlit yfir rafbíla í boði þar í landi.
Hönnuðir Spring nota nokkrar snjallar lausnir til að ná markmiðunum um ódýran rafbíl með nothæf sæti og farangursrými fyrir fjóra.
Þeim tekst að koma þyngd bílsins niður í aðeins 1045 kíló, meðal annars með því að minnka rafhlöðuna niður í 27,2 kwst. Það kostar að vísu slaka drægni, en þó 230 kílómetra.
Með sparnaði á rými fyrir rafhlöðuna eykst rými í aftursæti og farangursrými líka.
Það ætti að gefa möguleika á að fara frá Reykjavík til Akureyrar með því að stansa tvisvar á hlaðhleðslustöð á leiðinni. Bíllinn nýtur sín annars best í innanbæjarakstri þar sem með lagni er hægt að komast í 300 km á hleðslunni.
Bíllinn er sá mjósti á bílamarkaðnum hér og aðeins 3,73 m á lengd og því afar lipur í þrengslum í borgarumferðinni, minni en Yaris og álíka stór og nýi Aygo.
Til þess að aðstoða við að ná fram góðri drægni er vélaraflið aðeins 45 hestöfl, en það nægir samt til að ná 125 km/klst hraða.
Í stillingu fyrir sparakstur takmarkast vélaraflið við 31 hestafl, en það nægir samt til að halda 100 km hraða.
Með skynsamlegri stillingu á sætunum fæst rými fyrir fætur og höfuð sem er jafnvel aðeins meira í aftursætunum en á Honda-e og Opel Corsa-e.
Skammt frá Spring bílnum mátti sjá fjðgurra ára gamlan Nissan Leaf á svipuðu verði í nýr Spring og eftir því sem árin líða fjölgar möguleikunum til að fá sér notaðan rafbíl á viðráðanlegu verði.
Brimborg lækkar verð á nýjum bílum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2023 | 22:06
"...yfirmaður hans var lítill vasatransistor..."
Þegar textinn "Árið 2012" var í smíðum fyrir 55 árum, var auðvitað erfitt að giska á allar þær breytingar, sem orðið gætu á hinum mörgu sviðum mannlífsins eftir öld eða svo.
Best hefði verið að ganga lengra fram í tímann við val ártalsins, en gallinn var bara sá, að vegna atkvæðafjöldans í hinu nefnda ártali svo að hann gengi upp í söng lagsins, voru aðeins fimm atkvæði eða tónar til umráða, "tvö-þús-und-og tólf".
Það var hæsta fimm tóna talan á 21. öldinni. Hinar voru 2001, 2002, 2öö3, 2005, 2006, og 2007.
Næsta tala á eftir 2012, sem var aðeins fimm tónar, var talan 3001 !
Það mátti gruna að tölvur og reiknivélar yrðu smáar, með mörg þúsund sinnum meiri vinnslugetu en tölvurnar höfðu á sjöunda áratugum 20. aldarinnar, en erfiðara að giska á hvaða nafn þau undur framtíðar myndu bera.
Orðið örgjörvi var ekki til og því var notast við orðið transistor:
"Og ekki hafði neitt að gera útvarpsstjóri vor,
því yfirmaður hans var lítill vasatransistor..."
Í fyrsta sinn sem tölva með hámarksgetu þess tíma var notuð í kosningasjónvarpi, var svonefnd Háskólatölva notuð, en sagt var að hún þyrfti pláss í heilu herbergi.
Kæmist líkast til fyrir í brjóstnælu á okkar tímum.
Eitt breyttist lítið frá 1968 til 2012:
"...og þingmennirnir okkar voru ei með fulle fem..."
Fagna 50 árum og endalokum stórtölvunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Upp úr síðustu aldamótum ríkti enn nokkur þíða í Kalda stríðinu eftir að Sovétríkin féllu 1991.
Rússland var svipur hjá sjón á valdatíma Jeltsíns, og Pútin að taka við.
En því miður virtust geopólitisk viðhorf líkt og endurómur af hugsunarhætti nýlendutímans vera að ryðja sér rúms í Austur-Evrópu.
Fyrrum Sovétlýðveldi sóttu fast að ganga í ESB og NATO, minnug Sovéttímabilsinss, og Rússar litu á hraðan vöxt vestræns landssvæðis til austurs sem ógn við öryggi sitt.
Eftir sat, að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli var réttilega talin orðin úrelt í ljósi nýrrar hernaðartækni og eins og er hefur það ekki breyst svo mikið að tímabært sé að endurreisa hana.
Ekki mistök að loka varnarstöðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2023 | 16:59
Langur listi dæma um að náttúruvá hafi komið öllum að óvörum.
Ef náttúruvá kemur algerlega að óvörum skortir venjulega hin tvö v-in, varnir og viðbrögð.
Dæmin eru fjölmörg á síðustu hundrað árum. Hér nefnd nokkur af handahófi:
1934. Mjög harður jarðskjálfti á Dalvík, sem olli miklum skemmdum.
1947. Mannskætt snjóflóð í Goðdal á Ströndum.
1963. Surtseyjargosið.
1970. Heklugos aðeins 23 árum eftir gosið 1947, sem hafði komið eftir 103 ára hlé.
1973. Gos í Heimaey í hlíðum Helgafells. Ferðafólki var fram að því sagt að fellið væri útdautt.
1974. Snjóflóð í Neskaupstað, þar sem tólf manns fórust.
1975. Gos í Leirhnjúki. Að vísu aðdragandi á mælitækjum, en vegna framkvæmda ríkti þögn.
1980. Heklugos eftir aðeins tíu ára goshlé.
1983. Smágos í Grímsvötnum.
1983. Mannskætt krapaflóð á Patreksfirði.
1991. Heklugos, aftur eftir ónvenjulega stutt goshlé.
1993. Snjóflóð á Blönduósi!
1994. Mannskætt snjóflóð í Skutulsfirði.
1995 Snjóflóð á Súðavík, 14 manns fórust.
1995. Snjóflóð á Flateyri. 20 manns fórust.
1995. Snjóflóð í Reykhólasveit. Einn maður fórst.
1997. Snjóflóð í Bolungarvík.
1996. Gjálpargosið í Vatnajökli.
2021. Snjóflóð ofan í Flateyrarhðfn. (Enginn átti von á flóði svo langa leið)
2022. Aurflóð á Seyðisfirði.
2023. Snjóflóð með óvæntu tjóni í Neskaupstað.
Gosið við Fagradalsfjall var óvænt að því leyti, að það kom eftir átta hundruð ára goshlé.
Gosin á Fimmvðrðuhálsi og í Eyjafjallajökli komu eftir forvarnarráðstafanir í meira en áratug.
Umfangsmikil fjárþörf vegna náttúruvár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það þurfti tvo stórhríðarkafla með árs millibili til þess að loksins væri farið í það augljósa verk að koma einhverju viti í skipulagningu og framkvæmd vetrarþjónustu í Reykjavík.
Annmarkana mátti meðal annars sjá í myndskreyttum pistlum á þessari bloggsíðu í bæði skiptin og vitnað í sextíu ára reynslu Finna til dæmis um það sem kalla má "fyrirbyggjandi snjómokstur."
Nú er bara að láta ekki orðin tóm nægja, heldur taka nýja takta upp næstu vetur.
Íslenskan á tugi orða sem lýsa snjó og hríðarveðri. Setja verður stórt spurningarmerki við það að fundið var upp hrátt þýtt nýyrði úr ensku; "snjóstormur".
Í viðtengdri frétt á mbl.is um bætt vinubrögð í vetrarþjónustu hér á landi er nú sett á flot nýyrðið "snjóveður."
Vel er hægt að flokka stig þjónustunnar með númerum og velja úr tugum íslenskra orða sem heiti á misjðfn snjóalðg og snjókomu.
Þótt efast megi um að þegar á hólminn er komið verði kostnaðarlega hægt að leysa þetta verkefni, eru þó þau skil núna miðað við ástandið hingað til, að sett eru fram æskileg markmið í stað þess að hjakka ævinlega í sama ómögulega farinu án viðleitni til endurbóta.
"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið.
Svona vill borgin bæta snjómokstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.4.2023 kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Walt Disney var afar hrifinn af möguleikunum, sem notkun plasts gæfi fyrir framtíðina, og var með því talsvert á undan samtíð sinni. Notkun plasts er yfirþyrmandi hvar sem litið er, og þarf ekki annað en að horfa á tölvuna eða nærumhverfið hverju sinni.
En þegar svo langt er komið, að plastagnir eru komnar inn í allt umhverfið og lífíkið heimskauta á milli sýnist augljóst að það kunni að vera risavaxnasti Frankenstein allra tíma.
Bann á örplasti nær til 197 gervigrasvalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2023 | 18:55
Stórmerkur bíll í bílasögunni.
Toyota Prius var tímamótabíll þegar hann kom fyrst á markað um síðustu aldamót. Með honum tók Toyota forystuna í gerð tvinnorkubíla (hybrid) og bíllinn hlaut verðskuldaðar viðurkenningar á alþjóðavísu, nema ef vera skyldi á Íslandi, þar sem bílablaðamenn völdu annan bíl.
Aðrir bílaframleiðendur tóku ekki upp þá varfærnistefnu, sem Toyota fylgdi í orkuskiptum, og með hinni hröðu framþróun í gerð hreinna rafbíla óðu þeir fram úr Toyota seint á fyrsta áratugnum.
Toyota veðjaði frekar á vetni, en vegna þess hve fyrirferðarmikil framrás hreinna raforkubíla var, fór megnið af kraftinum við innviðabyggingu orkuskiptanna í uppbyggingu hraðhleðslustöðva og vetnisvæðingin sat eftir.
Fyrstu fjórar kynslóðir Prius voru með útlit sem markaðist mjög af því að halda loftmótstöðunni sem mest niðri á sama tíma og Toyota færðist æ meir út í alls kyns skúlptúra í útliti annara Toyotabíla.
Þótti mörgum Prius óspennandi í útliti, en síðuhafi var alla tíð ósammála því að bíllinn væri ljóti andarunginn og fagnar því að fimmta kynslóðin sé trú eftirsókninni eftir sem straumlínulagaðustu útliti, þegar útkoman er tær snilld fegurðar og notagildis.
Bloggar | Breytt 12.4.2023 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2023 | 22:56
"...ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur..."?
Þegar rökræðan um varnir Íslands stóðu sem hæst í tengslum við komu varnarliðsins 1951 mæddi það einna mest á Bjarna Benediktssyni, sem hafði verið fremsti áhrifamaður í hópi þeirra íslensku stjórnmaálamanna, sem stóðu að inngöngu Íslendinga í NATO 1949, að færa rök að gerð varnarsamningins við Bandaríkin.
Í aðildarsamningnum 1949 var sérstaklega tekið fram að Ísland ætti ekki og myndi ekki eiga her, og að erlent herlið myndi ekki verða á Íslandi á friðartímum.
En aðeins ári seinna, sumarið 1950 réðust Norður-Kóreumenn inn í Suður-Kóreu, og Bandaríkjamenn og Bretar sendu herlið undir merkjum Sameinuðu þjóðanna á vettvang. Skollið var á stríð, sem stigmagnaðist veturinn.
Bandaríkjamenn komust inn í Norður-Kóreu alla leið að Yalufljóti, og digurbarkalegar yfirlýsingar yfirhershöfðingja Bandamanna, Douglas Mac Arthur fólu í sér hvatningu hans til þess að beita kjarnorkuopnum eftir að Kínverjar sendu lið "sjálfboðaliða" á vettvang.
Truman Bandaríkjaforseti vék hinni miklu stríðhetju úr embætti yfirhershöfðingja til þess að forðast það að fyrsta kjarnorkustyrjöldin skylli á, og undir stjórn Ridgeways hershöfðingja komst á pattstaða 1951.
En hættan á kjarnorkustyrjöld og þriðju heimsstyrjöldinni var fyrir hendi og upp kom ástand, sem Bjarni Benediktsson mat þess eðlis, að ekki væri lengur hægt að tala um að "friðartímar" ríktu.
Þrír af fjórum stjórnmálaflokkum landsins lögðu því þeirri hugmynd lið, að gerður yrði sérstakur varnarsamningur við Bandaríkin, þar sem leyft yrði að herlið Bandaríkjamanna yrði með nauðsynlegan varnarviðbúnað á Keflavíkurflugvelli og sömuleiðis aðstöðu í Hvalfirði.
Í stað þess að hætta á sams konar óróaástandi og varð í Reykjavík í mars 1949, var varnarsamningurinn gerður eftir að þing hafði verið rofið vorið 1951 og þing sat ekki.
Varnarliðið kom því fyrirvararlaust og harðar umræður á Alþingi urðu frammi fyrir gerðum hlut.
Í þeirri umræðu fólst þungamiðjan í ræðum Bjarna Benediktssonar í þessari setningu:
"Nú geysar hart stríð, sem hefur orðið til þess að þjóðir heims hafa rambað á barmi kjarnorkustríðs, og það hefur kallað á efldan varnarviðbúnað. Þá verður að athuga vel að freista ekki hugsanlegs árásaraðila með því að hafa veikan blett í vörnunum.
Hafa þarf í huga, að meiri hætta er á ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur heldur en þar sem hann er hæstur."
Mörg dæmi eru um það í hernaðarsögunni, að ráðist hafi verið til herfara þar sem garðurinn var lægstur, og er hin magnaða herför Þjóðverja í maí 1940 um Ardennafjöll allt til strandar við Ermasund dæmi um slíkt.
Ef til vill hefur hinn nýi viðbúnaður á Norðurslóðum nú vegna Úkraínustríðins svipuð rðk og varnarsamningurinn við Bandaríkin 1951.
Hætta á stigmögnun og kjarnorkustríði er fyrir hendi núna eins og þá.
Sameina flugherina vegna kjarnorkuhers Rússa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2023 | 16:35
Nauðhyggjan um "góðu gæjana með alvæpnið."
Stjórnarskrárákvæði um rétt manna til þess að eiga vopn er eins konar trúaratriði fyrir stóran hluta bandarísku þjóðarinnar.
"Það eru ekki byssur sem drepa fólk, heldur menn" er sagt og því bætt við, að eina rétta stefnan sé að fjölga góðu gæjunum, sem yrðu nægilega margir og vel vopnaðir til þess að hafa hemil á vondu gæjunum.
Þess vegna sé nauðsynlegt að sem flestir almennir borgarar hafi frelsi til að kaupa sér öflugustu hálfsjálfvirkustu skotvopnin og nýta með því rétt sinn til að verjas sig og sína á sem árangursríkastan hátt.
Stóraukin vopnasala og vopnaeign sé því af hinu góða og af því að Bandaríkjamenn séu í grunninn landnemaþjóð sé þetta sjónarmið hefð, sem beri að varðveita.
Ýmsar spurningar eru samt settar fram um þessa sýn.
Kanadamenn eru alveg eins mikil landnemaþjóð og Bandaríkjamenn, en þar eru byssumorð miklu færri, einkum fjöldamorð. Í Evrópu er tala látinna miklu minni en vestan hafs.
En þarna vestra teljast morð á tveimur eða þremur í árás ekki fjöldamorð, heldur miðað við fjóra.
Byssueignin er mun meiri í Bandaríkjunum miðað við fólksfjölda, og ættu byssumorðin samkvæmt kenningunni um sem mesta byssueign því að hafa hamlandi áhrif á fjölda látinna.
Mannskæð skotárás í borginni Louisville | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)