Einföldu og markvissu orðin sem eru að hverfa.

Einföld íslensk orð, sem fela í sér skýra hugsun og stuttar skilgreiningar, eru á undanhaldi en í staðinn eru komin loðnar og oft órökréttar málalengingar. 

Í frétt hér á mbl.is segir að eldflaug Norður-Kóreumanna hafi tekið upp á því að "ferðast", - örðrétt: "...og ferðaðist eldflaugin 500 kílómetra..."  

Á íslenku hafa orð eins og sögnin að ferðast, og nafnorðin ferðafólk, ferðalangar, ferðamenn, ferðalög og ferðaþjónusta haft afmarkaða merkingu, varðandi þá hegðun fólks að "ferðast" með því að fara stað úr stað og yfirleitt á einhvers konar farartækjum. 

Og sá sem ferðast gerir það oftast að eigin frumkvæði. Yfirleitt er um sjálfviljugt athæfi að ræða.

Tunga okkar á hins vegar ágæt orð yfir hreyfingar hluta, svo sem sögnina að fara, fljúga, fljóta, berast. . 

"Eldflaugin fór 500 kílómetra.."  er dæmi um það. 

Í stjörnufræðinni stendur að jörðin fari einn hring í kringum sólu á hverju ári. 

Ekki að jörðin ferðist einn hring í kringum sólu. 

Lýsingarorð eins og "svona", "þannig," "hratt", "hægt", "öðruvísi" eru að lenda í útrýmingarhættu. 

Í staðinn þykir fínna að segja að eitthvað sé með þessum eða hinum hætti eða eitthvað sé gert með þessum eða hinum hætti. 

Dæmi: "Þeir gerðu ferðaáætlun með þeim hætti að þeir gætu ferðast með þeim hætti að ferðalagið tæki sem skemmstan tíma." 

Í staðinn að segja til dæmis: 

"Áætlun þeirra miðaði að sem skemmstum ferðatíma." 

Annað dæmi:

"Það á að gera þetta með þeim hætti að það sé betra."

I stað þess að segja: 

"Það á að gera þetta betur."

Sagnirnar að fjölga, vaxa, minnka, virðast vera alltof ómerkilegar til þess að það þyki nógu fínt að nota þær.

 

Í staðinn er í anda nafnorðasýkinnar stagast á orðinu "aukning".

Í stæð þess að segja einfaldlega:

"Ferðamönnum fjölgaði..."

er notuð næstum tvöfalt lengi orðalenging:

"Aukning var á fjölda ferðamanna..." 

Og orðið "mun" á undir högg að sækja. 

Einn af annars ágætum veðurfræðingum í sjónvarpi afrekaði það nýlega að segja sjö sinnum í röð

"kemur til með að.."

í stað þess að segja

"mun" 

eða einfaldlega að nota ekkert óþarft aukaorð.

Dæmi:

"Á sunnudag fer lægðin yfir landið, dýpkar og veldur stormi." 18 atkvæði. 

En í staðinn er sagt:

"Á sunnudag kemur lægðin til með að fara yfir landið og kemur til með að dýpka og kemur til með að valda stormi."  35 atkvæði.

Með tímatöku mátti finna út að veðurpistillinn varð samtals tíu sekúndum lengri en ella með þessum óþörfu málalengingunum.  

 


mbl.is „Vel heppnað“ eldflaugaskot staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðför afturábak í hrinum.

Fyrir um þremur árum bað góður og gegn maður mig um að skoða hjá sér gögn, sem ég yrði að kynna mér til þess að geta varast lygina um hlýnun lofthjúpsins og að hún væri af mannavöldum. 

Hann sýndi mér það sem hann kallaði óhrekjanleg gögn, byggðar á mælingum, frankvæmdum af virtum vísindamönnum, sem sýndu hrikalega hraðan vöxt íshellu Íshafsins með svo hraðri kólnun, að ísöld gæti verið að skella á.

Þessi gögn sýndu á óyggjandi hátt, að sterk öfl, sem græddu á þvi að halda fram upplognum tölum um hlýnun, svo sem Al Gore og fleiri, væru að valda stórfelldu tjóni á kjörum mannkynsins með svívirðilegum áróðri, byggðum á lygum og rangfærslum.

Á næstu mánuðum eftir þetta mátti sjá skrif skoðanabræðra þessa manns, sem sögðu, að loftslag á jörðinni færi ekki hlýnandi, heldur þvert á móti hratt kólnandi.

Þótt Grænlandsjökull og íslensku jöklarnir héldu áfram að bráðna og minnka hratt, beit það lítt á þessar raddir, sem þó sljákkaði aðeins í um sinn þegar kólnunin virtist hafa öfug áhrif á jöklana.

En síðan kom Donald Trump til sögunnar og gerðist kyndilberi þeirra, sem ítrekað segja að 40 þúsund fífl hari verið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París.

Þessi fífl hafi látið lygafréttir / falskar fréttir véla sig og Trump hefur þegar boðað harðar aðgerðir, að þeir vísindamenn verði reknir, sem haldi hlýnun fram og aðrir "raunverulegir og sannir" vísindamenn ráðnir í staðinn, sem komi með kólnunartölur og afsanni að mesti koltvísýringur í andrúmsloftinu í 800 þúsund ár hafi minnstu áhrif á lofthjúpinn.

Með niðurrifi EPA, Umvherfisverndarstofnunar Bandaríkjanna og afnámi reglna um umhverfisspjöll og eiturefni af völdum iðjuvera og samtímis með stóraukinni kolavinnslu framleiðslu jarðefnaeldsneytis verði framkvæmd stefnan "to make America great again", sem þýðir afturhvarf til ástandsins fyrir 1970, áður en EPA kom til sögunnar.

Og nú birtir Jón Magnússon "sannanir" fyrir stórauknum vexti hafíssins í Íshafinu, þannig að "hratt kólnandi" veðurfar, sem hófst fyrir nokkrum árum, mun nú væntanlega taka að kólna enn hraðar.

Miðað við fréttir í dag veitir ekki af hressilegri hafísmyndun og kólnun til þess að stöðva það að bráðnun sífrerans á Spitzbergen af völdum sjö stigum hærri hita þar en þekkst hefur áður, eyðileggi hina frægu frægeymslu, sem engan óraði fyrir að gæti skemmst.  

Úr því að "hraða kólnunin" 2013 dugði ekki til að stöðva hratt minnkandi íslenska jökla og Grænlandsjökul verður kólnunin núna og hin mikla ísmyndun í Íshafinu greinilega að bætast við svo að myndin gangi upp.

Nema að fréttin af bráðnuninni og hitanum á Spitzbergen séu lygafréttir, og það séu lygafréttir og falsaðar myndir, sem birtar eru af minnkandi Grænlandsjökli og íslenskum jöklum.

 

Og að ég sé haldinn alvarlegri sjálfslygi þegar ég horfi sumar eftir sumar á lækkandi og minnkandi Brúarjökul frá aðsetri mínu norðan hans og horfi á skriðjökla á borð við Sólheimajökul vera að hopa og minnka hratt.  


mbl.is Kallar Trump steinaldarmann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm bensínstöðvar á sama blettinum?

Það blasir við að bensínstöðvar eru víða of margar á sumum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég er enn að klóra mér yfir hausnum yfir því að hafa ekið framhjá þremur bensínstöðvum efst í Smiðjuhverfinu í Kópavogi og detta síðan framhjá tveimur bensínstöðvum í viðbot fyrir neðan brekkuna, Reykjavíkurmegin. Fimm stöðvar á nokkur hundruð metra svæði. 

Þess má minnast að farmiðaverð með flugi innanlands féll um helming 1996 þegar einokun Flugfélags Íslands var hætt, en síðan nýtti Flugfélagið sér það að vera hluti af hinu stóra einokunarflugfélagi á flugi til og frá landinu, Icelandair, og drap samkeppnina af sér með því að þola tap nógu lengi. 

Eftir hækkaði verði i sama far og áður, þegar einokunarstaðan var tryggð. 

Spurningin er hvað gerist nú. Að minnsta kosti hefur verðlækkun Costco hrist rækilega upp í eldsneytismarkaðnum. 5


mbl.is Selur lítrann af bensíni á 169,9 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sverðdans með íslenskum utanríkisráðherra 2003.

Minnisstæðan sverðdans innfæddra dansara mátti sjá á hátíðarsamkomu til heiðurs utanríkisráðherra Íslands í Maputo í Mósambík 2005. 

Samkoman var haldin til heiðurs Íslendingum og sem tákn um þakklæti heimamanna í garð Íslendinga fyrir hjálp þeirra í líknarmálum og þróunaraðstoð. 

Samkoman var hjá munaðarleysingjahæli sem Íslendingar höfðu átt þátt í að stofna og reka. 

Sverðdansinn var einkum minnisstæður fyrir þær sakir, að einn stríðsdansaranna var með stóra mynd af Osama bin Laden framan á bolnum, sem hann var í og gerði sér áreiðanlega ekki grein fyrir því að hinn íslenski utanríkisráðherra hafði við annan mann ákveðið að skipa Íslendingum í hóp með hinum "viljugu þjóðum" til að berja á Írökum og Talibönum í Afganistan. 

Dansaði þessi maður með þanið brjóst beint fyrir framan utanríkisráðherran. 

Atvikið var sláandi fyrir þá sök, að vegna gamalgróinna sárinda í Afríku í garð evrópskra nýlenduvelda og Vesturveldanna almennt, finnur lúmskur áróður öfgamanna ýmsa farvegi til að koma áróðri sínum á framfæri og að Osama bin Laden hafði greinilega ekki sama blæ yfir sér í hugum margra Afríkubúa og hjá Vesturlandabúum. 


mbl.is Sverðdans Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máttur auðsins.

Sádi-Arabar eru eitthvert besta dæmið um mátt auðsins hjá þjóðum heims. Sádarnir komast upp með að vera ein af helstu uppsprettum hryðjuverkahópa án þess að vera útskúfað af Donald Trump eins og þegnar sérvöldu múslimaríkjanna, sem eru óvelkomnir til Bandaríkjanna. 

Sem langsterkasta olíuríki heims njóta Sádarnir forréttinda á alla lund og allir nema Íranir og shítamúslimar sleikja sig upp við þá. 

Trump lítur á Írani sem höfuðóvini og af því að Sádarnir gera það líka, gildir lögmálið í utanríkismálum þjóða, að óvinur óvinarins er vinur. 

Sádarnir áttu þjóða mest þátt í því að fella Sovétríkin sem leiðandi afl í verðmyndun á olíu. Reagan-stjórnin hældi sér á yfirborðinu yfir því að hafa fellt Berlínarmúrinn en Sádarnir léku stærra hlutverk á bak við tjöldin með því að auka olíuframleiðsluna í nokkur ár til þess að verðfall á heimsmarkaði veitti Sovétríkjunum náðarhöggið í óhjákvæmilegu hruni þeirra. 

Þegar meðlimir konungsfjölskyldurnnar fara í skíðaferðalög til vesturlanda, kaupa þeir upp heilu hótelin og eru með þyrlur og limúsínur á hverjum fingri. 

Þegar ég staldraði við í Avon í Klettafjöllunum fyrir 14 árum voru heimamenn yfir sig hneykslaðir á yfirgengilegu bruðli of firringu krónprinsins, sem hafði verið þar á skíðum. 

Sjálfir óku þessir gagnrýnendur á risastórum lúxuspallbílum sem svolgruðu í sig bensínið sem fékkst með því að sleikja sig upp við hið firrta slekti og horfa í gegnum fingur sér gagnvart einræði og mannréttindabrotum þeirra á heimaslóð. 

Í þessum skíðabæ var hægt að fara í lyftu upp á topp inni í jarðgöngum til þess að verða ekki kalt, skíða síðan niður alla leið inn í bæ, en fara þar af skíðunum, taka upp golfkylfur og leika golf á golfvelli sem tók við af skíðalandinu! 

Olíuöldin, sem við lifum á, er svo stutt í mannkynssögunni, að uppsveiflan í orkueyðslunni í gegnum olíuna er eins og hvass spjótsoddur á línuritinu, sem sýnir notkunina.

Nú hefur þessi lína risið upp á topp sinn og mun falla næstum jafn hratt niður með gríðarlegum afleiðingum fyrir jarðarbúa, sem eru jafn ruglaðir og Trump þegar hann húðskammar Michelle Obama fyrir að hafa móðgað Sádana með því að hafa ekki höfuðslæðu, en koma síðan með tvær konur til þess að gera nákvæmlega það sama.   


mbl.is Melania sleppti slæðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Næstu misserin"? Ekki næstu mánuðina?

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var spurður núna rétt í þessu í fréttum RÚV, þegar þetta var sett á blað, hvort hann muni bjóða sig fram til formanns í Framsóknarflokknum, færðist hann undan því að svara afdráttarlaust, en sagðist myndu bíða og sjá hvernig málum yndi fram "næstu misserin."  

Þetta vekur athygli og jafnvel spurningar um hvort um mismæli hafi verið að ræða, því að flokksþing verður haldið eftir aðeins átta mánuði hið mesta. 

En ef til vill er Sigmundur Davíð einungis að segja, að ekki liggi á fyrir byggðakosningar næsta vor, að Framsóknarflokkurinn klári að skipa forystumálum sínum til framtíðar. 

Eða að gefa í skyn, að lendingin verði sú að stríðandi fylkingar í flokknum sættist á að Lilja Alfreðsdóttir verði formaður, en kannski aðeins til bráðabirgða?

 


mbl.is Flokksþing Framsóknar í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt aðalgagnrýnisefni Trumps var stefnan í Miðausturlöndum.

Eitt helsta gagnrýnisefni Donalds Trumps í kosningabaráttunni var stefna fyrri ríkisstjórnoa í málefnum Miðausturlanda. 

Svo langt gekk hann að hann sakaði Hillary Clinton um að hafa stofnað Íslamska ríkið. 

Það er því í fullu samræmi við þessa gagnrýni hans, sem hann fer til þessa heimshluta í fyrstu opinberu heimsókn sína. 

En þar með er samræmið búið og ósamræmið tekur við. 

Ekki er að sjá að Trump hafi gert neitt hingað til til þess að lægja öldurnar á þessu svæði. 

Hann heimilaði hiklaust loftárás á stöðvar Sýrlandshers, Bandaríkjaher er nýbúinn að gera aðra umdeilda árás, sem hefur ergt Rússa. 

Hann lak viðkvæmum leyndarmálum, sem Ísraelsmenn höfðu trúað honum fyrir, beint í Rússa. 

Frést hefur, vonandi þó í falskri frétt, að Trump hyggist ætla að halda mikla tölu um Íslam yfir hausamótunum á ráðamönnum Sáda. 

Yrði slíkt fáheyrt, enda myndi heyrast hljóð úr horni í Ameríku, ef gestur frá múslimaríki í Miðausturlöndum héldi slíka tölu um Kristna trú í opinberri heimsókn til Bandaríkjanna. 

Trump var snjall í því að beina athyglinni að sjálfum sér í kosningabaráttunni. Ítarleg rannsókn á umfjöllun fjölmiðla um hann og Clinton sýndi að Trump fékk um 60% rými, en Clinton 40%. 

Trixið byggðist á því að Trump gætti þess að segja eitthvað nýtt og magnað sem flesta daga og fá með því ummælin til að tróna efst á fréttalistum. 

Hann gætti þess að ráða vígvellinum og hafa ætíð frumkvæðið svo sterkt, að Clinton lenti í vörn og í því að þurfa ævinlega að bregðast við í stað þess að ná frumkvæði. 

Samt greiddu um þremur milljónum fleiri bandarískir kjósendur henni atkvæði en greiddu Trump atkvæði. 

En Trump yfirspilaði hana í þeim ríkjum, þar sem atkvæðin skiluðu hlutfallslega flestum kjörmönnum.

Nú leiða menn að því getum að Trump ætli að nota ferðalag sitt til að beina athyglinni frá rugli og uppákomum síðustu viku. 

Vonandi þó ekki með því að hleypa öllu upp í loft í þeirri miklu púðurtunnu, sem Miðausturlönd eru. 


mbl.is Fyrsta utanlandsferð Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki unglingavandamál, heldur foreldravandamál?

Fyrir rúmum áratug var brotist inn í tvo bíla fyrir utan blokkina, sem ég bjó þá í um klukkan fjögur að morgni laugardags. Þetta var í júní og því björt nótt. 

Þetta voru þrír unglingar og þeim tókst að koma öðrum bílnum í gang og þeysa burt á honum. 

Bíllinn fannst síðar gereyðilagður við Hafnarfjörð. Engar bætur fyrir hann.

Niðurstaða lögreglunnar þar: Algengasta orsök þessa fyrirbæris: Foreldravandamál, - ekki unglingavandamál. Foreldrarnir farnir á helgarfylleríið, "skyldudjammmið" og drengirnir í reiðileysi á meðan. 

Þegar ég var nýfluttur í hverfið þar sem ég bý nú, kom ég eitt sinn út að kvöldlagi og sá þá að nokkrir unglingar höfðu hópast í kringum lítinn bíl, sem ég á, og var einn unglingurinn að hoppa uppi á þaki hans, en hinir að taka sjálfur (selfies) af sér með skemmdarverkið í baksýn. 

Unglingarnir hlupu allir í burtu þegar ég reyndi að hafa hendur í hári þeirra. 

Engar bætur. Óupplýst mál. DSCN8459

Hugsanlega var þetta sama gengið og hafði farið inn í verslun, gengið berserksgang og rústað hllum af glervarningi á metttíma, takandi sjálfur í leiðinni og síðan öll á bak og burt á örskotsstund. 

Fyrir viku kom ég að bíl mínum skemmdum eftir þrjá unglinga sem höfðu verið með læti fyrir utan blokkina klukkan hálf fimm á laugardagsmorgni. DSCN8461

Hugsanlega hluti af genginu sem heldur vöku fyrir nágrönnum mínum á kvöldum og nóttum hinum megin í blokkinni. Prísa mig sælan að eiga ekki heima þeim megin.  

Nágranni minn, sem býr í blokk, gegnt bílastæðinu sagði mér, að hann hefði vaknað við lætin í drengjum sem fóru um með með háreysti, en hefði ekki séð fyrr en eftir birtingu um morguninn, að þeir hefðu skemmt bílinn með því að hoppa uppi á vélarhlífinni og brjóta framrúðuna. 

Ég hringdi á lögreglu en var sagt, að ég yrði að koma niður á stöð og gefa skriflega skýrslu.

Vitandi um fleiri atvik sem lögreglan hefur ekkert sinnt hér í hverfinu lét ég það vera.

Fannst, að ég hefði annað þarfara að gera, og veit nú, að löggan hefur nóg að gera vegna svipaðra mála annars staðar í borginni án þess að nokkur árangur náist, að því er sagt er skilmerkilega frá í frétt um það mál. 

Sá um árið á lögreglustöð staflana af skýrslum vegna svipaðra mála, sem þar hrúgast upp. 

"Áfengisbölið verður að hafa sinn gang" var einhvern tíma sagt. "Skyldudjammið" verður líka að hafa sinn gang, sem og  unglingavandamál, sem eru í raun foreldravandamál.

Sparnaður og aðhald í löggæslu hefur líka verið talinn brýnn svo að meiri velta sé í þjóðfélaginu til "græða á daginn, grilla á kvöldin og "fara út á lífið og djamma á næturnar."  

P. S.  Svefnstyggi nágranninn er til alls vís, því að hann sýndi frábæra rannsóknarlögregluhæfileika fyrir nokkrum árum. Þá léku bensínþjófar lausum hala í hverfinu, en hann sá til þeirra og heyrði að vélin í bílnum, sem þeir voru á, var 318 kúbika V-8 vél frá Chrysler-verksmiðjunum og bíllinn Dodge Magnum. 

Bílþjófarnir þrættu þegar löggan greip þá eftir tilvísan hins heyrnarnæma manns, en þegar í ljós kom að það var 318 kúbika V-8 Chrysler-vél í Dodge Magnum bílnum, féll þeim allur ketill í eld, gáfust upp og játuðu!  

Þessi nágranni minn reyndist hafa lengi verið með gríðarlegan áhuga á amerísku bílvélum og bílum og kann margt annað fyrir sér, sem getur komið sér vel!  

 


mbl.is Ganga berserksgang í Langholtshverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á óttann við lampatæki Sovétmanna.

Á ákveðnum kafla Kalda stríðsins greip um sig ótti hjá bandarískum hernaðaryfirvöldum vegna þess, að tölvuvæðing bandaríska hersins hafði gert það að verkum að hin stafrænu kerfi hersins gætu verið afar viðkvæm fyrir árásum, þótt ekki væri nema af völdum svonefnds seguhöggs/bylgju (magnetic pulse) sem kjarnorkusprengingar gætu valdið. 

Á hinn bóginn væru Sovétmenn enn með svo mikið af lampatækjum, að þau gætu staðist áföll og árásir sem tölubúnaðurinn vestanmegin gæti ekki. 

Eftir því öll starfsemi nútíma alþjóðasamfélags verður þróaðri, flóknari og jafnframt viðkvæmari á ýmsaa lund, eykst hættan á því að áföll eða árásir geti valdið stórfelldari og víðfeðmara tjóni en dæmi eru um áður. 

Fréttir af hugsanlegum árásum og áföllum dynja nú hver af annari dag eftir dag í fjölmiðlum og boða því miður nýja tíma ef hrakspár rætast, þótt ekki væri nema bara sumar þeirra. 


mbl.is Óttast stafræn spellvirki á innviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmilegir "fylgifiskar" virkjana?

Það átti við um allar vatnsaflsvirkjanir á síðustu öld, að lítt eða ekki var fjallað um neikvæð umhverfisáhrif þeirra. 

Það var eðlilegt í ljósi þess að fram til 1970 var um það að ræða hvort Íslendingar vildu eiga aðgang að eigin raforku til heimila sinna og fyrirtækja eða ekki. 

Hvergi nokkurs staðar minnist ég þess til dæmis að hafa séð orð um það í fjðlmiðli að með tveimur fyrstu Sogsvirkjununum var eyðilögð önnur af tveimur rómuðustu laxveiðiám landsins, og að laxinn í Soginu hefði af mörgum verið talinn sá allra flottasti á landinu. Stífla í Fljótum

Össur Skarðhéðinsson líffræðingur sagði eitt sinn að gerð Steingrímsstöðvar efst í Soginu hefði verið slíkt umhverfisslys gagnvart silungnum í Þingvallavatni, að vel væri athugandi að leggja þá virkjun niður. 

Jakob Björnsson nefndi það, að Skeiðsfossvirkjun í Fljótum kæmist á lista þeirra tíu virkjana í heiminum, sem hefðu flæmt flest fólk frá heimilum sínum, miðað við orkuna sem var nýtt. 

Sökkt var sjö bæjum þar sem bjuggu 50 manns þegar sú virkjun var gerð, en á þeim tíma var ekki um annan möguleika að ræða til að sjá Siglufirði fyrir íslenskri raforku. Enn í dag er ekki orðið of seint að hleypa úr því lóni og laða fram hið gamla umhverfi, sem var ekki, eins og haldið er fram, án stöðuvatns, heldur með tveimur fallegum stórum tjörnum í ánni, sem liðaðist fagurlega um dalbotninn með grænar grundir á allar hliðar og með hin fögru fjöll Tröllaskagans sem umgjörð. 

Myndin hér að ofan er máluð eftir ljósmynd af þessu svæði, Stíflu í Fljótum, áður en því var sökkt. Eftir að dreifikerfi raforku kom til sögunnar, er ekki lengur um að ræða að hafa rafmagn eða ekki rafmagn. Vel mætti athuga, hvort starfrækja mætti virkjunina áfram á sumrin, án þess að sökkva þessu fallega svæði. 

Ég skoðaði svæðið gaumgæfilega vorið 2004 þegar mikill hluti lónsins var á þurru, og enn mótar nægilega vel fyrir landslaginu, svo sem lækjafarvegum, til þess að hægt sé að endurheimta það. 

Með tilkomu Búrfellsvirkjunar urðu síðan tímamót því að þá tók við ný nálgun, að virkja allt sem virkjanlegt væri fyrir erlend stórfyrirtæki sem flyttu gróðann úr landi eftir kúnstarinnar reglum. 

Hámark þess er ákvæði í sölusamningi Alcoa á Reyðarfirði, sem setur þann samning ofar íslensku stjórnarskránni að því leyti, að ákvæðið bannar Alþingi í 40 ár að hrófla við lögum um þak á skuldsetningu fyrirtækja. 

Umrætt ákvæði gerir Alcoa kleyft með fléttu í anda Ólafs Ólafssonar að sleppa við að borga tekjuskatt af Fjarðaráli.  Þessi ívilnun hefur þegar numið mörgum tugum milljarða króna. 

Þrátt fyrir að í grunninn séu virkjanir bergvatnsáa hreinar og umhverfisvænar, er engin á svo hrein, að ekki myndist set í miðlunarlónum hennar, til dæmis í vorleysingum, þegar árnar verða gruggugar. 

Á endanum eyðileggjast miðlunarlónin nema að skolað sé út úr þeim og það er ástæðan fyrir því sem nú virðist hafa gerst í Andakílsá. 

Þessi skolun er þó hátíð miðað við reglubundna útskolun úr miðlunarlóninu efst í Jökulsá í Fljótsdal að ekki sé nú talað um hrikalegasta drulludæmi veraldar, sem felst í því að tíu milljón tonn hið minnsta setjast að í Hálslóni á hverju ári með óheyrilegustu neikvæðu óafturkræfu umhverfisáhrifum, sem möguleg eru hér á landi. 

Á endanum sitja kynslóðir framtíðarinnar uppi með ónýta virkjun og aurfylltan dal, sem var 180 metra djúpur og 25 kílómetra landur. 

Eru nýjar sandeyrar í Andakílsá næsta smáar í þeim samanburði. 

Þeir, sem sumum hefur þótt henta að kalla "umhverfisfasista", sem "væru á móti rafmagni" og "á móti atvinnuuppbyggingu", hafa aldrei lagst á móti þvi að íslensk vatnsorka væri nýtt fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, heldur aðeins reynt að hamla gegn svo skefjalausri og takmarkalausri stóriðjutrú, að við eigum að stefna að því framleiða 20 sinnum meiri raforku en við þurfum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og fórna fyrir það öllum þeim einstæðu náttúruverðmætum sem landið býr yfir. 

Í gær var upplýst að hvergi í veröldinni væri jafn mikil og vaxandi atvinnuþátttaka og hér á landi. Og við hvað er hún? Jú, mest vegna ferðaþjónustu, við það sem náttúruverndarfólk var hæðst að fyrir að voga sér að nefna, sem sé "eitthvað annað" en stóriðju. 

 


mbl.is Óttast umhverfisslys í Andakílsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband