30.6.2017 | 21:12
Þegar ég var rekinn á gat.
Um aldamótin síðustu kom amerískur blaðamaður til landsins, sem hafði gert umhverfismál og náttúru að sérgrein sinni og var því hnútum kunnugur um allan heim eftir langan feril.
Hann skrifaði fyrir ýmsa og tók myndir, þó mest fyrir Los Angeles times.
Hér á landi hitti hann marga, meðal annars þáverandi forseta Íslands.
Tvennt sagði hann við mig, sem mér fannst merkilegt.
Í fyrsta lagi að eftir kynnisferð sína hér og samtöl við ráðamenn teldi hann okkur Íslendinga vera á svipuðu stigi í þessum málum og Bandaríkjamenn hefðu verið fyrir 40 árum og að á grundvelli þess væri það spá hans að Íslendingar myndu ekki linna látum fyrr en virkjuð hefði verið öll vatnsföll landsins og hvert einasta jarðvarmasvæði.
Mér þótti þetta firnum sæta þá en ekki eins núna, 15 árum síðar, þegar harðsnúnir handhafar valda og fjármagns gera áætlanir á fullu í þessa veru og stefna að því að við framleiðum tíu sinnum meira rafmagn eftir tíu ár en við þurfum fyrir eigin fyritæki og heimili.
Eru búnir að kaupa og halda áfram að kaupa upp allar hugsanlegar jarðir með virkjanaréttindi, hvort sem þær eru í verndarflokki rammaáætlunar eða ekki.
Í öðru lagi lagði hann fyrir mig gátu: Hver er merkilegasti foss Íslands?
Ég byrjaði á Dynk og giskaði síðan árangurslaust á hvern stórfossinn af öðrum.
Hann reyndi að hjálpa mér við að finna rétt svar með því að segja að fossinn væri á vestanverðu landinu.
En allt kom fyrir ekki.
Þá kom svar hans: "Merkasti og einstæðasti foss landsins eru Hraunfossar. Enga hliðstæðu kann ég að nefna í víðri veröld."
Hyggjast rukka við Hraunfossa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2017 | 13:50
Asnaleg hefð fyrir skráningum á lögheimilum þingmanna.
Það eflir ekki hið litla álit og traust almennings á Alþingi hvernig þingmenn hafa flutt lögheimili sín út á land til þess að krækja sér aukreitis í á aðra milljón króna í styrk vegna þess hve þeir eigi heima langt frá Reykjavík.
Mörg dæmi eru um þetta og meira að segja flutti fjármálaráðherra í einni af fyrri ríkisstjórnum, sem sannanlega hafði dvalið frá fæðingu allan sinn aldur á höfuðborgarsvæðinu, lögheimili sitt út á land af því að hann var skráður þingmaður viðkomandi landsbyggðarkjördæmis.
Var hann þó vörslumaður ríkissjóðs, sem borgaði þennan kostnað.
Merkilegt er að löggjafinn skuli ekki geta fundið skárri aðferð til að jafna aðstöðumun þingmanna en þessa.
Til dæmis vaknar sú spurning, hvort þingmenn, sem eiga lögheimili á eyðibýli, geti leigt þau út á meðan þeir eru að reka erindi sín á raunverulegum heimaslóðum.
Hugsanlega er það löglegt, þótt það sé augljóslega siðlaust.
Vitað er að reynt hefur verið að jafna aðstöðumun vegna ferðalaga út í kjördæmin á annan hátt, og ætti þá að leita leiða til þess að gera það á beinan og gagnsæjan hátt í stað þessarar lögheimilsaðferðar.
Í orlofi á heimili Sigmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.6.2017 | 00:58
Baráttukonan hún ömmusystir mín, Björg Runólfsdóttir.
Ég átti því láni að fagna að njóta leiðsagnar og verndar ömmusystur minnar, Bjargar Runólfsdóttur í fimm sumur 1950-54 að Hvammi í Langadal.
Hún var systir hins mikla eldhuga og frumkvöðuls Bjarna Runólfssonar að Hólmi í Landbroti, næst elst níu systkina, fædd 1892.
Eftir að hafa verið vinnuhjú í 40 ár leit út fyrir að draumur hennar um að eignast fjölskyldu og verða frjáls á eigin jörð væri á enda.
Þá kynntist hún Aðalbirni Sigfússyni, giftist honum og þau eignuðust jörðina Hvamm í Langadal, sem taldist ekki til stórbýla í dalnum á þeim tíma, og enn með gamlan torfbæ einan íbúðarhúsa.
Túnið var lítið og að mestu í brattri brekku, því að neðan brekkunnar tók skriða Hvammsár mikið rými, en norðan hennar voru votlendi og flæðiengi.
Þau eignuðust tvö börn með árs millibili, hófu að reisa steinhús og virkjun í Hvammsá, skammt sunnan bæjarins, en Bjarni bróðir Bjargar hafði þá, "ómenntaður sveitadrengurinn" smíðað um hundrað túrbínur í jafnmargar smávirkjanir.
En þá dundu áföll yfir, ekki aðeins kreppan mikla, heldur líka náttúruhamfarir.
Í gríðarlegu úrfelli féll mikil skriða niður í gilið, sem Hvammsá rennur um, og stíflaði hana. Þegar stíflan brast kaffærði flóðið og eyðilagði virkjunina og olli miklum spjöllum á þeim hluta túnsins, sem var neðan hlíðarinnar, sem bærinn stóð í.
Við tóku erfið kreppuár og vegna erfiðleika í sambúð Hvammshjónanna skildu þau eftir áratugs sambúð.
Jörðin hafði verið seld ríkinu og eftir stóð einstæð móðir með tvö börn.
Hún ákvað samt að berjast áfram fyrir draumnum um að eignast jörðina aftur.
Gerð var lítil rafstöð í bæjarlæknum, sem gaf svo lítið rafmagn, að það varð að slökkva ljósin á bænum meðan mjólkað var með mjaltavélunum.
Allt var unnið með hestum og höndum, og túnið var í svo brattri brekku, að það var eitt af störfum mínum að ganga með hrífu á eftir hestasláttuvélinni og rétta slegið grasið upp svo að það flæktist ekki fyrir í næstu umferð.
Oftast varð að fara daglega til að lagfæra mjóan og grunnan skurð sem lá úr bæjarlæknum á ská upp hlíðina í annan læk sem rann á landamerkjum jarðarinnar.
Kýrnar tíu voru reknar á daginn upp á svonefndan Nautahjalla í 240 metra hæð til þess að nýta alla fáanlega beitarhaga og sóttar aftur á kvöldin.
Smám saman hafði Björgu tekist að stækka túnið lítillega, með skák niðri við þjóðvegiinn sem var kölluð Öfund, kennt við augnaráð eins af stórbændum sveitarinnar þegar hann skoðaði hana. Ári eftir að ég kom var sléttuð önnur skák við svnefnd Hólhús í brekkuhni fyrir norðan bæinn.
Með útsjónarsemi gátu kýrnar orðið tíu. Naumhyggjan réði óhjákvæmilega ríkjum og lífsbaráttan var hörð.
Töðugjöldin voru hátíð. Þá voru kökur á borðum.
Einu sinni á sumri fór fisksali um dalinn og seldi nýjan fisk.
Þegar ég fór í sveitina síðasta sumarið hafði ég með mér fjóra pakka af Royal búðingum til að gefa frænku minni.
Enginn sími var á bænum þegar ég kom þangað fyrst.
Fjósið var í kjallaranum undir íbúðarhúsinu og nýttist hiti kúnna til upphitunar. Kolaeldavél var í eldhúsi, sem var réttnefnt eldhús.
Björg var hugsjónakona og fann til með þeim sem minna máttu sín og lifðu við ófrelsi og svo kröpp kjör að með fádæmum var.
Hún tók því að sér fjóra "niðursetninga" hreppsins, allt konur, og fengu þrjár þeirra að vera í hálfhrundum gamla torfbænum, en ein þeirra, Margrét Sigurðardóttir, háöldruð en stórmerkileg einhlayp kona, að vera í herbergi inni í steinhúsinu.
Margrét, eða Manga eins og hún var kölluð, var barnlaus, hafði aðeins eignast eitt andvana barn og kenndi það vinnuhörku þessara tíma.
Þegar fólk hallmælir draumi alþýðufólks um að verða "sjálfstætt fólk" á þessum tíma skilur það ekki þær aðstæður sem þorri Íslendinga hafði orðið að búa við um aldir sem vinnufólk í vistarbandi.
Svo ófrjálst var þetta fólk, að á ofanverðri 19. öld voru tveir vinnumenn sakfelldir og dæmdir fyrir að fara í leyfisleysi í smáferð inn á afrétt.
Þótt vistarbandinu hefði verið aflétt þegar Björg braust til sjálfstæðis og tókst að láta þá hugsjón sína rætast að láta ekki keðju kynslóðanna enda á sér, heldur koma afkomendum á legg og leggja sitt af mörkum til ræktunar lands og lýðs, var vistarband í raun óbeint í gildi hjá flestum, og frekar en að una því hlutskipti, reyndi fólk að kaupa sér örreytiskot upp í allt að 400 metra hæð ofan dalanna eða uppi í hátt liggjandi dölum milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar.
Ásdís gamla Jónsdóttir í gamla bænum, skáldmælt og merk kona, hafði á tímabili búið í Rugludal í 440 metra hæð lengst frammi á heiði.
Síðasta sumarið sem ég var í Hvammi, rættist draumur Bjargar um að eignast jörðina á ný og verða frjáls í fögrum fjallasal.
Hún var einlæg Framsóknarkona af gamla skólanum og setti mannbætur og landbætur efst á listann, að skila jörðinni betri til afkomenda sinna en hún hafði tekið við henni.
Það gerðist 1957 þegar Runólfur sonur hennar og Sigurbjörg Hafsteinsdóttir, kona hans, tóku við búinu.
Björg var framsýn, - hún vildi horfa svo langt fram, að verkin lifðu meðan land byggðist.
Það var til heiðurs henni og í minningu hennar sem mín fyrsta "frjálsa" og eigin heimildamynd fékk heitið "Á meðan land byggist."
Ragnar sonur minn var síðar í sumarvist í Hvammi og tjáði mér síðar, að Björg gamla hefði verið orðin afhuga sínum gamla flokki þegar hann var þar, - ekki litist lengur nógu vel á það sem hefði gerst þar á bæ.
Enga beina skýringu gaf hún svo að það verður að giska. Kannski vegna þess að henni fannst frammámenn flokksins og SÍS hafa fjarlægst hugsjónirnar, - en síðan má láta sér detta í hug að hún var Skaftfellingur, afkomandi fólks sem hafði lifað af mestu hamfarahörmungar Íslandssögunnar sem geysuðu aðeins einni öld fyrir fæðingu hennar. Í hennar ungdæmi miðaðist tímatalið enn við "fyrir eld" og "eftir eld."
Ég gæti ímyndað mér að henni til dæmis hafi fundist það firring og vanvirðing við þessar hörmungar og fólkið sem þurfti að þola þær og lifa þær af, að segja í stjórnarandstöðu að þáverandi ríkisstjórn stæði fyrir "Móðuharðindum af mannavöldum."
Og eitthvað hefði gamla konan sagt ef hún hefði heyrt forsætisráðherra Íslands fyrrum flokks hennar segja í 17. júní ræðu að aldrei hefði verið stéttaskipting né misrétti á Íslandi.
Á tímum Bjargar bjó fyrirfólkið í dalnum á stórbýlunum Geitaskarði, kirkjustaðnum Holtastöðum og Gunnsteinsstöðum.
Presturinn bjó á Æsustöðum.
Merkisfólk var þetta og vel þekkt. Mynd af glæsilegum húsakosti á Geitaskarði prýddi eitt sinn Morgunblaðið en þar bjó Þorbjörn Björnsson, bróðir Haraldar Björnssonar leikara.
Hreppstjórahjónin á Holtastöðum, Jósafat og Soffía Líndal voru prýðisfólk og af henni á ég góðar minningar.
Hafsteinn Pétursson á Gunnsteinsstöðum var í foyrstusveit Framsóknarmanna í héraðinu og séra Gunnar Árnason gerðist síðar prestur í Kópavogi.
En ég hygg á engan hallað þótt sagt sé, að á sinn hljóða hátt skilaði Björg Runólfsdóttir með sinni baráttu og hugsjónum arfleifð, sem gaf engri annarri eftir nema síður væri.
Við hana stend ég í ævilangri þakkarskuld.
Kona í staðinn fyrir hús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2017 | 21:37
Fróðleg heimildamynd um ótrúlega illsku.
Eini blaðamaðurinn sem slapp lifandi til baka frá því að komast inn að innsta hring "Íslamska ríksins" gaf í heimildarmynd í sjónvarpi í gærkvöldi innsýn í vitfirrta veröld kalífadæmis, sem var meira en tvöfalt stærra en Ísland þegar landvinningar þess stóðu sem hæst fyrir tveimur árum.
Myndin hófst á yfirlýsingu Georgs W. Bush Bandaríkjaforseta þess efnis að Bandaríkin myndu færa þjóðunum á þessu svæði frið með innrásinni í Írak.
Þá voru múslimskir hryðjuverkamenn nokkur þúsund, en 14 árum síðar eru þeir orðnir meira en hundrað þúsund.
Í viðtali í myndinni við vestrænan sérfræðing um Íslam kom fram að ekki væri snefil af Íslamstrú að finna í boðun Íslamska ríkisins og vitnaði sérfræðingurinn í friðarboðskap Kóransins máli sínu til stuðnings og það ákvæði hans að aðeins í hreinni sjálfsvörn væri heimilt að grípa til vopna. Einnig vitnaði hann í þau ákvæði Kóransins sem leyfðu að iðkendur annarra trúarbragða fengu að gera það í friði.
Talsmaður Íslamska ríkisins glotti ógeðslega á hrollvekjandi hátt þegar hann lýsti þeim manndrápum víða um lönd sem Íslamska ríkið myndi standa að, og í myndinni var því lýst, hvernig hinir trylltu vitfirringar nýttu sér opinn huga ungmenna til þess að heilaþvo þau til illvirkja og manndrápa.
Athyglisvert var hvernig talsmenn ríkisins telja shía í Írak og Íran réttdræpa sem trúvillinga.
En talsmaður ISIS taldi að komandi herferðir inn í Evrópu og jafnvel til Ameríku yrðu farnar til að hefna fyrir landvinninga nýlenduveldanna fyrr á tíð.
Sagt hefur verið að múslimar hafi notað hervald til að breiða ríki sitt svo mjög út frá stofnun trúarbragðanna, að það náði þegar mest var yfir Arabalöndin, Norður-Afríku og Íberíuskaga, auk Balkanskagans.
En ofstækisbrjálæðingarnir sem stofnuðu Íslamska ríkið, telja sig vera að hefna margfalt meiri landvinninga kristinna þjóða á tímum nýlenduveldanna, sem fékkst með beitingu hervalds.
Stoðar lítið að benda á að sá tími sé liðinn, því að í fyrrum nýlendum telja margir að hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í Írak og dulbúin nýlendustefna í formi ágengni vestrænna stórfyrirtækja sé angi af sama meiði.
Styrmir Gunnarsson hefur bent á það á bloggsíðu sinni að ekki sé nóg að kveða niður hina morðóðu glæpamenn Íslamska ríkisins og vitfirrtar hryðjuverkasveitir þeirra, heldur þurfi ráðast að þeirri rót hefndarhugarins, sem felst í sárindunum í þriðja heiminum vegna ofbeldis nýlenduherranna vestrænu.
Stærstu hernaðarlandvinningar sögunnar voru á vegum nýlenduveldanna. Í breska heimsveldinu settist sólin aldrei.
Nýtt dæmi um umfang ofbeldisins í þessum nýlendum er talan 10-15 milljónir blökkumanna, sem talið er að Belgar hafi drepið í Kongó.
Sú var tíð fyrr á öldum að vitnað var í Biblíuna þegar hervaldi var beitt til að breiða út kristni og er styttan á Stiklastað af Ólafi "helga" Haraldssyni Noregskonungi á prjónandi hesti með sverð í annarri hendi og Biblíuna í hinni tákn um það.
Þetta er sem betur fer liðin tíð en landvinningar í staðinn oft gerðir í nafni stjórnmálakenninga.
Og nýlenduútþensla Japana á síðustu öld var einhver hin grimmilegasta í mannkynssögunni og með trúarlegu ívafi, þar sem keisarinn var heilagur maður.
Á síðustu öldum hafa kristnir menn að mestu kveðið í kútinn þá, sem leita uppi afmarkaðar setningar í Biblíunni til að réttlæta trúarlegt ofstæki og hafa í staðinn innleitt mannréttindi, frjálslyndi og skilning.
Þótt höfundur heimildarmyndarinnar um Íslamska ríkið segði, að 1.500 milljónir múslima væri yfirleitt afar friðsamt fólk, hefur ekki tekist að kveða að að fullu niður átrúnað á afmarkaðar trúarsetningar, sem notaðar eru til að réttlæta skelfileg glæpaverk.
En ef það er svo að bæði í kristni og íslam finnist nægur friðarboðskapur til þess að ná sáttum milli þessara trúarbragða ætti það að vera hægt.
Styrmir Gunnarsson giskar á að tíminn til þess sé vart meiri en tveir áratugir.
Ólíklegt að kalífadæmið lifi árið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.6.2017 | 13:16
Við ofurefli fjármagns, valda og aðstöðu að etja.
Það hefur háð íslenskri náttúruverndarhreyfingu alla tíð hve þau öfl, sem hagnast á því að ganga nærri náttúruauðlindunum, eru margfalt fjársterkari, valdameiri og með betri aðstöðu á alla lund.
Eftir harðvítuga Eyjabakkadeilu gekk hreyfingin nærri sér hvað snerti fjármagn og þrek, og þegar virkjana- og stóriðjuæðið var margfaldað með tveimur risavirkjunum, Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun og áformum um risaálver á Grundartanga, Bakka og í Helguvík, auk stórrar stækkunar álversins í Straumsvík, neyttu valdaöflin aflsmunar á alla lund til að þröngva fram mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum og rányrkju í sögu þjóðarinnar.
Nú er í gangi að tvöfalda raforkuframleiðsluna til 2025 svo að við framleiðum tíu sinnum meiri raforku en íslensk fyrirtæki og heimli þurfa.
Alla tíð hefur verið brýn nauðsyn að efla fjárhagslegan bakgrunn baráttunnar fyrir einstæðri náttúru landsins sem hefur síðustu árin opnað nýja möguleika fyrir lífskjarasókn þjóðarinnar.
Nýjar aðferðir og leiðir mega þó ekki verða á kostnað þeirrar náttúruverndarbaráttu, sem nú er háð af almennum félagasamtökum og þarfnast frekari styrks fjármagns og vinnu, heldur verður að efla breiða fylkingu þeirra, sem vilja láta til sín taka á þessum vettvangi.
Bent hefur verið á það, að vegna æðibunugangsins við ágengni gagnvart náttúruverðmætum á landi hafi íslensk náttúruverndarhreyfing orðið að beina mestöllum kröftum sínum í baráttu, sem endar niðri á fjörum landsins.
Verkefnin á landi fara vaxandi ef eitthvað er svo að þar veitir ekki af því að efla þá vinnu og auka það fjármagn sem þar er brýn þörf á.
Fyrirhugaður íslenskur sjóður virðist ætla að láta til sín taka varðandi nytjar sjávar og lífríkis vatnsfalla og á sér erlenda fyrirmynd.
Slá skjaldborg um íslenska náttúru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2017 | 07:59
Stórir áfangar fyrir litla þjóð.
Fyrir örþjóð eins og okkur skipta stórir áfangar á íþróttasviðinu miklu máli. Á hárréttum tíma þegar fullt sjálfstæði var fengið kom Evrópumeistaratitill Gunnars Huseby eins og hvalreki fyrir sjálfsvitund okkar og álit út á við 1946.
Albert Guðmundsson var einn besti knattspyrnumaður Evrópu á árunum þar á eftir.
1950 unnu íslenskir frjálsíþróttamenn einhvern fræknasta sigur íslenskrar íþróttasögu á EM í Brussel og unnu bæði Norðmenn og Dani í landskeppni árið eftir auk sigurs á Svíum í knattspyrnu sama dag.
Clausensbræður voru einsdæmi á heimsvísu.
Silfurmaðurinn Vilhjálmur Einarsson ljómaði frá 1956 fram yfir 1960.
Friðrik Ólafsson í fremstu röð skákmanna heims.
Áfram má nefna dæmin, mislöng leiftur, Ásgeir Sigurvinsson, Bjarni Friðriksson, Einar Vilhjálmsson, Jón Páll Sigmarsson, Jón Arnar Magnússon, Kristinn Björnsson, silfur í handbolta á Ólympíuleikum, Evrópumeistaratitlar í fimleikum kvenna og EM ævintýri landsliðanna í knattspyrnu.
Blönduð bardagalist og fimleikar og golf kvenna, - hvern hefði órað fyrir slíku fyrir rúmum áratug?
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur kyndil á loft í íþrótt þar sem andlega getan þarf ekki síður að vera á háu stigi en sú líkamlega.
Brautin er þyrnum stráð, kostar fórnir, æðruleysi gagnvart áföllum og blöndu af sjálfstraustir, hógværð og jafnvegi hugans þegar vel gengur.
Sannur meistari er aðeins sá sem kann að vinna úr áföllum.
Hvernig sem fer hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur í dag er það stórviðburður á íslenskan mælikvarða hvar hún er stödd á þessum sumardegi. Til hamingju!
Ólafía skrifar söguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2017 | 07:04
Hefur úrkoman á austanverðu landinu aukist?
Enn og aftur berast fréttir af nýjum úrkomumetum á Austfjörðum.
Fróðlegt væri að vita, hvort sú tilfinning mín sé rétt, að veðurfar hafi breyst meira á austanverðu landinu en annars staðar síðasta áratug og að þetta sé eitt af merkjum þess.
Talið var alveg fram yfir síðustu aldamót að þurrasta svæði landsins væri norðan Vatnajökuls frá Snæfelli vestur yfir Dyngjufjöll.
Þetta væri ástæða þess að hreindýrin héldu helst velli í Kringilsárrana og nytu þar friðunar ranans.
Ég hef haft viðveru bæði á landi og í lofti á hverju ári á þessu svæði í 20 ár og hefur sýnst, að hið þurra svæði hafi minnkað síðustu árin, þannig að úrkoman, einkum snjókoma á veturna, hafi aukist alveg vestur að Kreppu og Krepputungu og því miklu snjóþyngra á Snæfelli, Vestur-Öræfum og á Brúaröræfum en áður var.
Erfitt er að sanna þetta með tölum, því að veðurstöðvarnar á þessu svæði við Upptyppinga, á Brúaröræfum, Brúarjökli og Eyjabökkum, eru allar nýjar.
En sjá hefur mátt, að hinar kröftugu úrkomugusur, sem berast með lægðum upp að landinu úr suðaustri, hafa skilað meiri úrkomu, snjó á vetrum og rigningu á haustin og vorin, en áður var.
Neðri myndin (fyrir mistök birtist hún tvisvar) sýnir hvernig Snæfell hefur verið alhvítt vel fram á sumar undanfarin ár.
Vorið í vor var undantekning hvað varðaði það, að það voraði miklu fyrr og betur en nokkru sinni um langt árabil.
Það haustaði seinna í fyrra, þannig að þarna birtist það einkenni hlýnandi veðurfars að veturnir yrðu styttri en áður var.
Hins vegar virðist veðurfarið í sumar enn sem komið er vera heldur svalara en undanfarin ár, hvað sem síðar verður.
Úrkomumet slegið á Austfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2017 | 23:45
Hvað um klæðningar í öðrum löndum en Bretlandi?
Þegar hafður er í huga fjöldi þeirra háhýsa í Bretlandi, sem þegar hefur verið upplýst um að vera með eldfimar klæðningar, er sérkennileg sú þögn sem ríkir um svipuð hús í öðrum löndum.
Bretar eru innan við 10% Evrópubúa og hér á landi hefur verið upplýst um svipaðar klæðningar á húsum, en þó ekki jafn háum og í Bretlandi.
Kom fram í fjölmiðlaumfjöllun um þau, að húsin væri það lág að ekki væri hætt á viðlíka hamförum og í London og þar af leiðandi ekki hættu á manntjóni.
Raunar kallar það svar á nánari útskýringu af hverju hægt sé að sætta sig yfirleitt við klæðningar sem séu lítt eldþolnar.
Og á öld mikilla alþjóðlegra viðskipta þar sem Bretland hefur enn ekki gengið úr ESB má furðu gegna ef hvergi finnist annars staðar en hjá Bretum klæðningar af þessu tagi á svipuðum húsum.
120 háhýsi standast ekki kröfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2017 | 18:31
Er "stöðugleikinn" lognið á undan storminum?
Á yfirborðinu ríkir blíðviðri í íslenskum efnahagsmálum. Hækkun gengis krónunnar gerir það yfirleitt óþarft fyrir seljendur vöru og þjónustu, sem tekin er með í vísitöluna, að hækka verðið og þar að auki gefur þessi gengishækkun svigrúm til þess að komast hjá því að lækka verðið í takt við raunverulegt innkaupsverð til landsins.
Verðbólgan er lítil sem engin og það gerir að verkum að umsamdar launahækkanir skila sér betur til launþega en ella.
En tvennt má nefna sem ógnar þessu líkist óveðursbliku sem er að draga á loft áður en stormur skellur á.
Annars vegar áhrif gengishækkunarinnar á þá atvinnuvegi sem keppa við verðlag samkeppnisaðila erlendis og missa samkeppnishæfni við hækkun gengis.
Að því hlýtur að koma að bakslag verði
Hins vegar, og ekki síður ógnvænlegt, er ef að nýju fer af stað kapphlaup launa og verðlags í kjölfar skammsýnislegs úrskurðar Kjararáðs.
Í því ráði sitja menn sem eru óbeint að taka þátt í verðlagningu eigin launa þegar það ákveður laun fólks á sama launasviði og það sjálft er.
Ef og þegar blaðran springur vegna óánægju annarra hópa launafólks, sem finnst það sitja eftir, er fjandinn laus.
Hækkun launakostnaðar almennt, meðal annars hjá útflutningsgreinum og ferðaþjónustu, mun þá bætast við afleiðingarnar af hækkun gengis krónunnar og ný kollsteypa af gamalkunnum toga skella yfir eftir að yfirborðslegur stöðugleiki hefur reynst lognið á undan storminum.
Hrundið af stað nýju höfrungahlaupi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.6.2017 | 08:38
Þegar Las Vegas var breytt.
Er það eingöngu jákvætt með tilliti til gróða af ferðaþjónustu að gera það sem allra dýrast að komast á magnaða áfangastaði?
Sumir halda því fram að keppa beri að því að ná sem mestu af hverjum erlendum ferðamanni og lokka þá, sem eru ríkastir hingað.
En bitnar það þá ekki á þeim stöðum sem fjær liggja?
Ekki verður um það deilt að borgin Las Vegas í Nevada í Bandaríkjunum er einhver ofhlaðnasta og yfirgengilegasta borg heims. Upp úr miðri síðustu öld var hún orðin að miðstöð skemmtanalífs af öllum toga, - þar létu frægustu stjörnur kvikmynda, tónlistar og íþrótta ljós sitt skína.
En það var eftir því dýrt að koma þangað.
Þegar ég fór til Los Angeles 1968 til að skemmta Íslendingum, greiddur þeir flugfarið, og ég datt þá niður á ferðaskilmála þess efnis, að ef ég kæmi til fimm borga í fimm ríkjum í ferðinni, fengist helmings afsláttur á fargjaldi.
Þær urðu New York, Washington, El Paso, Los Angeles, San Fransisco og Salt Lake City.
Gerólíkar, - El Paso landamæraborg með mexíkóskum áhrifum.
Það var að vísu upplifun að koma til Las Vegas, en á móti kom að einn sólarhringur og gistinótt þar var næstum jafn dýr og á öllum hinum stöðunum til samans.
Að sönnu var ágætur gróði fyrir borgarbúa að gera borgina svona dýra, en þegar næst var komið til borgarinnar um síðustu aldamót, var þetta gerbreytt, og borgin hafði meðvitað verið gerð að mjög hagstæðum áfangastað og fjölskylduvænum.
Gisting ekki dýr og í nágrenni borgarinnar víða mjög ódýr.
Borgin orðin vinsælli en fyrr fyrir bragðið, enda varla hægt að hugsa sér hrikalegri "leikjasal" með eftirlíkingum af pýramídunum, London Bridge, Eiffelturninum og öðrum frægustu mannvirkjum heims á hverju götuhorni og gatan "The Strip" eftir endilangri borginni þannig úr garði gerð, að upplifun ímhyndunar og fáránleika sést þar meiri en nokkurs staðar annars staðar.
Og möguleikar til afþreyingar eftir því.
Orðspor er oft gulls ígildi og í Las Vegas hefur orðið mikil breyting á aðferðum við að laga orðsporið en fjölga jafnframt þeim sem finnst ágætt að setja sérkennilega upplifun af þessum sýningarsal fáránleikans í safn minninganna.
Áður hefur því verið lýst hér á síðunni að það sé ekki einhlítt að eftirsóknarverðast sé að ná sem mestum peningum af hverjum ferðamanni og nefnd dæmi um hið gagnstæða.
Það getur verið neikvætt að gera allt svo dýrt, að ferðafólk verði að neita sér um margt það sem gæti eflt orðspor lands og þjóðar.
Til dæmis að komast til staða eins og Veiðivatna, en þar var yndislegt að vera í gær.
Reykjavík ein sú dýrasta í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)