Er Elon Musk okkar tíma Henry Ford "to make America great again"?

Fyrir hundrað árum var meira en helmingur allra seldra bíla í heiminum af gerðinni Ford T.

Sá bíll sló sölumet, sem entist í meira en hálfa öld, og er talinn hafa haft meiri áhrif en nokkur annar í bílasögu 20. aldar 

Henry Ford var einn af þeim brautryðjendum í Bandaríkjunum sem höfðu gríðarleg áhrif um allan heim, blanda af uppfinningamanni á tæknisviði og viðskiptaliprum athafnamanni, sem þá var ómótstæðileg blanda. 

Allir þekkja nöfn eins og Thomas Álfa Edison og bræðranna Orwille og Vilbur Wright, manna nýsköpunar og uppfinninga, sem gerðu Bandaríkin mikilfengleg og mótuðu stór spor í heimssögunni. 

Ford skóp veldi sitt á grunni þeirrar hugmyndar að smíða bíl, sem alþýðan gæti haft efni á að eignast og reka. 

Hluti af því fólst að lækka svo mjög verðið á Ford T jafnframt því að hækka kaup launafólks, að það hefði efni á bíleign.  

Elon Musk fór aðra leið, stóð að framleiðslu á dýrum rafbíl, en forysta í gerð slíkra bíla reyndist lykillinn að því að ná fótfestu og gera það, sem varð að gera, að framleiða rafbíl, sem væri eigulegur fyrir fjömenna millistétt, Tesla 3. 

Í vetur gerðist síðan það sem enginn hefði getað spáð fyrir, að í samanburði við sambærilega bíla frá Benz, BMW og Audi í þýska bílablaðinu Auto Zeitung, varð Tesla 3 áberandi stigahæstur, en hinir þrír slógust um annað sætið. 

Síðuhafi minnist þess akki að í hálfa öld hafi þrír þýskir bílar orðið að lúta þannig í gras á heimavelli hjá þýskum bílablaðamönnum. 

Minnist þess heldur ekki að amerískur bíll hafi náð toppsæti hér í sölu nýrra bíla í meira en hálfa öld. 

Menn hafa hamast við það að spá Tesla fyrirtækinu gjaldþroti, en enn heldur Elon Musk velli á grundvelli einstæðs eldmóðs, bæði síns eigin og einnig þeirra sem hanna bílana. 

Þeir eru gott dæmi um þá möguleika, sem best kunna að duga "to make America great again" svo notað sé slagorð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Rétta leiðin hlýtur að vera að stuðla að forystu í menntun, vísindum, tækni og þjóðfélagmálum. 

Hætt er við að þveröfug stefna Trumps, að koma á tollmúrum og hindrunum til að verja bandarískan iðnað "to make America great again" auk dálætis hans á olíuframleiðslu og andúðar á umhverfismálum muni ekki reynast líkleg til að gera gagn. 

Þegar Henry Ford komst á efri ár, sluppu hinar mikilfenglegu verksmiðjur hans naumlega við gjaldþrot í stríðslok 1945 vegna þeirra miklu íhaldssemi og þröngsýni sem helltust yfir hann. 

Hann las viðskiptaumhverfi bílaiðnaðarins kolrangt síðustu árin, sem Ford T. var eina gerðin sem seldist, að hann varð að stöðva framleiðslu verksmiðjanna alveg í nokkra mánuði 1927 til þess að koma með arftaka, Ford A. 

Hann stóð til dæmis í vegi fyrir því í fimm ár að taka upp vökvahemla og í 14 ár gegn því að leggja af hinar arfagömlu þverfjaðrir. 

Sú hætta er ávallt fyrir hendi, að frumkvöðlar og brautryðjendur lendi í því að lesa stöðuna ekki rétt á einhverjum tímapunkti. 

Í kringum 1970 voru Volkwagen verksmiðjurnar við dyr gjaldþrots vegna svipaðs vanda og Henry Fort lenti í 1927 vegna Ford T, að hanga of lengi á hliðstæðum bíl hvað einfaldleika og vinsældir snert, Bjöllunni, og afleiddum bílum með loftkældar boxaravélar að aftan og afturdrif. 

Í aldarlok settu bílasérfræðingar heims Citroen DS og Mini í 2. og 3. sæti á lista yfir merkustu bíla aldarinnar. 

Bjallan lenti þar fyrir aftan. Ástæðan var einföld. Yfir 80 prósent allra fólksbíla heims eru með framdrif og vatnskælda vél frammi og það voru bílar af því tagi, sem ruddu Bjöllunni úr vegi í byrjun áttunda áratugarins. 

 

 

 

 

 


mbl.is Tesla mest selda bílategundin á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr veruleiki 21. aldarinnar að byrja að ganga í garð.

Í lok þessa árs verður fimmtungur 21. aldarinnar liðinn. Við árþúsundamót fyrir 20 árum sáu margir fyrir sér öld, sem hefði ekki síður miklar breytingar í för með ser en 20. öldin. 

Fyrsta skæða drepsótt þessarar aldar, ef undan er skilinn ferill eyðninnar í Afríku, boðar breytingar, sem þó gætu orðið smámunir miðað við önnur viðfangsefni gerbreyttra aðstæðna og viðhorfa þegar jarðarbúar fara í vaxandi mæli að standa frammi fyrir óleystum og tröllauknum vandamála af völdum rányrkju á helstu auðlindum jarðar. 


mbl.is „Helgin hjá okkur algjört met“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandarískur seðlabankastjóri: Þörf á miklu ágengari og stærri aðgerðum en 2008.

Athyglisvert viðtal sást í sjónvarpi í gær í þættinum 60 mínútur við bankastjóra í Seðlabankanum í Minneapoli, sem skilja mátti að sé hluti af Seðlabanka Bandaríkjanna. 

Þarð á bæ urðu menn hoknir að reynslu í kreppunni 2008 við að koma efnahagslífinu á réttan kjöl, og sagði bankastjórinn, að það hefði tekið heilan áratug að komast út úr því. Hann teldi það of langan tíma, og sagði, að 2008 hefðu verið gerð þau mistök að fara of varlega, vægt og hægt í sakirnar. 

En góðu fréttirnar væru þær, að nú væri hægt að byggja á reynslunni og ganga miklu harðara til verks með ágengum og markvissum aðgerðum. (Þýðandinn í gær þýddi agressive með íslenska orðinu árásargjarn, sem er kannski svolítið vafasöm þýðing).   

Bankastjórinn lagði ofuráherslu á það að koma með öllum tiltækum ráðum í veg fyrir atvinnuleysi og setja slíkar aðgerðir algerlega í forgang, því að það væri svo erfitt að vinda ofan af þeim víðtæku afleiðingum, sem atvinnuleysi hefði. 

 


mbl.is Greiða atkvæði um „aðgerðapakkann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fengu margir Íslendingar COVID-19b í fyrra?

Ef til hefur verið "eineggja tvíburi COVID-19 veirunnar" hér á landi fyrr í vetur eins og þingmaður orðaði það í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, mætti kannski gefa henni heitið COVID-19b.

En um hana mætti kannski segja svipað og gert var í eftirför Barkar hins digra eftir Gísla Súrssyni til Hergilseyjar, þar sem Gísli fór í föt Ingjaldsfíflsins svonefnda á báti frá eynni og þóttist vera fíflið þegar leitarmenn sigldu framhjá bátnum. 

En þegar leitarmenn sáu Ingjaldsfíflið í lautu að bíta gras við leit í Hergilsey, mælti Börkur: "Bæði er nú mikið sagt frá fíflinu Ingjalds, og deilist það nú víðar en við hugðum." 

 

Síðuhafi hafði aldrei farið í flensusprautu síðustu 25 ár, aldrei fengið flensu allan þann tíma og var með engan veikindadag í vinnunni síðustu 12 árin. 

Síðan gerðist það fyrir ári að illyrmisleg flensa barði að dyrum og endaði það með lungnabólgu og lungnabólgusprautu.   

Skýringin virtist einföld: Þrátt fyrir samfelldar þrek- og þolæfingar fyrir lungun öll þessi ár var hugsanlegt að ónæmiskerfið hefði slaknað eitthvað á þessum langa tíma, auk þess sem aldurinn hefði sitt að segja. 

Nú spretta hins vegar fram kenningar á hinu háa Alþingi um að veikin COVID 19b hafi verið að deilast víðar en menn hugðu. 

 


mbl.is Spurði um „eineggja tvíbura COVID-19“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalatriðið að "hringlið" hætti.

Það hefur bæði kosti og galla að færa klukkuna til, en þeir, sem muna þá tíð, þegar klukkan hér á landi var færð til tvisvar á ári, mæla varla með því að "hringlið" verði tekið upp á ný. 

Eini kostur þess var kannski, að það birti upp fyrr á morgnana í svartasta skammdeginu með því að hafa sérstakan vetrartíma. Það gæti hugsanlega verið lýðheilsmál að stytta þann tíma sem myrkur ríkir á morgnana, en það bitnar einkum á æskulýð við námið. 

Frá miðjum nóvember fram í miðjan febrúar er nöturlegt að það birti ekki fyrr en komið er fram undir hádegi, en myrkurtímabilið verður verra en ella fyrir þá sök, að hádegi samkvæmt sólargangi, seinkar um hálftíma frá nóvember fram í febrúar. 


mbl.is Sumartími í næstsíðasta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn er betri en keppinauturinn leyfir.

Fróðlegt verður að sjá, hver útkoman verður hjá íslensku ferðaþjóstunni á árinu 2020 í heild. 

Þá má alveg hafa í huga til samanburðar, hver staðan var í árslok 2010 þegar gosið í Eyjafjallajökli var ný afstaðið og mikið harmakvein verið í gangi vegna þess, hve það hefði leikið okkur illa. 

Á svonefndu samdráttarári í ferðaþjónustunni 2019 var fjöldi ferðamanna næstum tífalt meiri en 2009 og 2010. 

Ástæðan var, þvert ofan í hrakspár, fyrrnefnt gos í Eyjafjallajökli, en við það komst Íslandi og einstæð náttúra þess í fyrsta sinn í sögunni hjá öllum jarðarbúum.

Gosið í Grímsvötnum árið eftir gerði ekkert nema að styrkja þetta orðspor. 

Jafnvel þótt umfang ferðaþjónustu muni ekki ná fyrri stærð á heimsvísu eftir COVID-19 faraldurinn, er rétt að hafa í huga, að eftir uppgang síðustu ára erum við margfalt betur í stakk búnir en á árunum 2011-2020 varðandi reynslu og innviði á borð við öll nýju hótelin, til að byggja hana upp hér á landi en á árunum 2011-2020. 

Miklu skiptir hvernig við förum út úr viðureigninni við faraldurinn. 

Ef við stöndum okkur betur en aðrar þjóðir í því efni, þótt ekki sé nema í sóttvörnum, mun það auka það traust, sem er nauðsynlegt til þess að þjóð geti átt öfluga ferðaþjónustu. 

Gengi ferðaþjónustunnar á eftir að byggjast á því, hvernig það, sem við höfum fram að bjóða, stenst samanburð við það sem aðrar þjóðir bjóga upp á. 

Um það gilda orðin, sem oft eru notuð um íþróttir og viðskipti, að enginn er betri en keppinautarnir leyfa. 


mbl.is Ferðaþjónustan muni vaxa og dafna að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að útrýma orðalaginu "að hætta", draga sig í hlé" eða "halda sig til hlés"?

Svo er að sjá að brýna nauðsyn hafi borið til þess að innleiða hér á landi hráa íslenska þýðingu á enska orðalaginu "to step aside" og útrýma þar með þremur mismunandi aðferðum, sem hingað til hafa dugað hér á landi til þess að orða nokkur mismunandi stig þess að hætta starfi, fara úr starfi eða að draga sig í hlé. 

Að minnsta kosti eru liðin mörg ár síðan þessi góða og gegna íslenska hefur verið notuð. 

Að ekki sé nú minnst á orðin skipverji, flugliði, skólasystir, skólabróðir, skólafélagi, bekkjarsytir, bekkjarbróðir og bekkjarfélagi, sem vikið hafa fyrir orðum sem þykja fínni, áhafnarmeðlimur og samnemandi. 

Þetta er aðeins eitt af ótal dæmum um það hvernig snobbið fyrir enskunni veður hér uppi. 

Nú saknar maður Eiðs Guðnasonar og pistla hans um íslensk málfar. 

Sú aðferð snobbaranna að saka íslenskt málvöndunarfólk um afdalamennsku, búrahátt og þröngsýni átti ekki við Eið, sem var upphaflega löggiltur túlkur í ensku og starfaði alla tíð í alþjóðlegu umhverfi sem fréttamaður, alþngismaður, ráðherra og sendiherra.  

 

 


mbl.is „Aldrei orðið vitni að þvílíkri framkomu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikleikar og styrkleikar mismunandi þjóðfélagsgerða.

Verstu gallar og bestu kostir mismunandi þjóðfélagskerfa koma oft fram í sviptingum á borð við illvígar farsóttir.  

Alræði kommúnismans birtist í sinni verstu mynd í upphafi faraldurins í Wuhan, þar sem viðbrögðin urðu gróf brot á mannréttindum við að berja niður og fjarlægja þá, sem reyndu að vara við því, sem blasti samt við þar í borg. 

Meðal þeirra var læknirinn sem fyrstur sendi út aðvörun, sem lést í faraldrinum. 

Við þetta töpuðust dýrmætar vikur við að greina ástandið og grípa strax til árangursríkra aðgerða. 

Þegar yfirvöldin sáu loks hv3r voði var að ferðum, sneru þau alveg við blaðinu og nýttu yfirburða einræðisvald sitt til róttækra aðgerða. 

Sjúkrahús, byggt á einum degi, var táknrænt fyrir þetta. Á þessum tíma hurfu líka margir þeirra, sem hafði tekist með myndatökum á snjallsíma að koma myndskeiðum og hjálparbeiðnum á netið. 

Veikleikar og styrkleikar þjóðfélagsgerðar hafa líka komið fram í Bandaríkjunum, þótt ekki hafi verið á nákvæmlega sama hátt og í Kína.  

Í byrjun byggðist það á einhverju lélegustu frammistöðu veraldar í sýnatöku, sem var allt fram til 20. mars, hundrað sinnum lakari á hverja milljón íbúa en til dæmis í Suður-Kóreu og á Íslandi. 

Með því að vanrækja þessa grundvallaraðgerð til að komast að hinu raunverulega ástandi tókst forsetanum að halda því fram vikum saman að hvergi í heiminum væri ástandið betra en í Bandaríkjunum og engin ástæða væri til annars en að vera bjartsýn um það að háþróaðasta heilbrigðiskerfi heims myndi bægja farsóttinni frá dyrum Ameríkumanna. 

Afleiðingin af þessu varð alveg sú sama og á fyrstu vikunum í Wuhan þótt aðferðin væri önnur, falskt öryggi, sem er nú að hefna sín á svipaðan hátt og varð í Kína. 

Eins og í Kína býr samt mikill kraftur í bandarísku þjóðlífi eins og kom vel fram á sínum tíma þegar þeir urðu þátttakendur í Seinni heimsstyrjöldinni. 

En þá breyttu Bandaríkjamenn þjóðarframleiðslunni úr einkareknum stóriðnaði í ríkisstyrktan á tveimur mánuðum og skópu með því framleiðslumátt hergagna í stað borgaralegs varnings, sem fáa hafði órað fyrir að væri mögulegur. 

Nú hefur sýnishorn af slíkri getu birst í hundraðföldun við sýnatökur, og getur forsetinn um síðir verið stoltur af þessari grundvallaraðgerð.

En heildarmyndin er því miður ekki eins skýr vegna hringlandaháttar og hentistefnu hans auk þess að kenna öðrum um það sem miður fer.

Meðal annars kennir hann Barack Obama, sem lét af embætti fyrir næstum fjórum árum, um kæruleysistímabilið í upphafi faraldursins í landinu. 

Og hann gortar sig af því að hafa verið fyrstur allra til að sjá stöðuna, en hafi ekki tekist að fá yfirmenn heilbrigðismála vestra á sitt band. 

Nú hefur hins vegar sést á skjölum um þetta, að þetta var þveröfugt; þeir töluðu fyrir daufum eyrum forseta, sem var upptekinn af því að sannfæra landa sína um það að hafa gert Ameríku mikilfenglega á ný til frambúðar. 

Forsetinn lofar því nú að verða búinn að kveða faraldurinn niður og aflétta andófsaðgerðum gegn honum eftir hálfan mánuð, og að þá verði allt fallið í ljúfa löð í blómstrandi þjóðfélagi. 

Ef það loforð bregst verður honum líklega ekki skotaskuld úr því að kenna Obama um það. 

 

 


mbl.is Verri árangur í New York en í Wuhan og á Ítalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílabíó? "I love it!" American graffiti næst?

Einhver var að fara þess á leit um daginn á facebook að menn legðu þar inn minnisverð ummæli úr kvikmyndum.  

Ég mundi strax eftir þriggja orða setningu úr einni mynd, en var ekki alveg viss um nafn hennar. 

En nú rifjast það upp; að minnsta kosti finnst mér að það hafi verið myndin "Nýtt líf" sem nú á að fara að sýna í bílabíói í Borgarnesi. 

Setningin, sem maður fékk á heilann eftir að hafa séð myndina hér um árið var þessi þrjú orð: "I love it!". 

Siguður Sigurjónsson gerði þessa örlitlu upphrópun ógleymanlega, svo að maður fékk hana hreinlega á heilann.  

Úr því að verið er að reyna bílabíó væri kannski ekki svo vitlaust að sýna myndina "Americkan graffiti" í framhaldinu, þar sem amerískt bílabíó var eftirminnilegur vettvangur atriða í henni, ef rétt er munað. 


mbl.is Sýna „Nýtt líf“ í bílabíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóluefni eða ekki bóluefni?

Skæðar sóttir fyrri tíma eins og mænuveiki voru kveðnar í kútinn með því að finna upp bóluefni. 

Meðan ekki finnst nothæft bóluefni við COVID-19 veirunni er hætt við því að minnkun kreppunnar af faraldri hennar muni dragast á langinn og verða jafnframt að viðvarandi dragbít í efnahagslífi jarðarbúa. 

Sjá má því haldið fram að COVID-19 sé bara enn eitt afbrigði af inflúensu, sem leggi hvort eð er tugþúsundir að velli árlega. 

En þetta er ekki svona einfalt, því að það er ekkert gefið, að þeir, sem nú látast vegna COVID-19 myndu hvort eð er látast úr flensu. 

Það er vegna þess að COVID-19 er alveg ný tegund veiru og því viðbót við aðra sjúkdóma, sem munu halda áfram að taka sinn toll. 

Þar með falla líka um sjálft sig þau rök, að ekkert þurfi að gera til að andæfa sjúkdómnum. 

Verði sú fyrirsjáanlega viðbótarbylgja við lífshættuleg veikindi að veruleika, sem óheft útbreiðsla COVID-19 faraldurins myndi valda, ræður heilbrigðiskerfið ekki við þá fordæmalausu fjölgun ótímabærra dauðsfalla sem af slíkri flóðbylgju veikinda myndi fylgja. 

Nú mæna augu allra á þá vísindamenn, sem kynnu að þróa bóluefni við veirunni, því að það myndi gerbreyta heildarmyndinni og gera ástandið skárra þegar til lengri tíma er litið. 

 


mbl.is Afbókanir allt að 6 mánuði fram í tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband