"Veðurkona frægð nú fær..."

Mexíkóska veðurfréttakonan Susana Almeida hefur nú hlotið meiri heimsfrægð, að minnsta kosti í bili, en nokkur annar veðurfréttamaður.

Þessa frægð hefur hún öðlast fyrir klæðaburð sinn sem var þess eðlis á sjónvarpsskjám að frétt um það og mynd hefur trónað efst á fréttalista mbl.is sem mest lesna frétt dagsins og sennilega á mörgum öðrum löndum. Um það gæti gilt þessi ferskeytla:

 

Veðurkona frægð nú fær,

svo fýrar andann grípa.

Töff á skjánum trónir mær

sem Trump langar að klípa.

 

Þetta er ferskeytla, en eðli málsins samkvæmt ætti kannski að breyta henni í það, sem ég hef kallað "sexskeytlur" í rúman aldarfjórðung.

Þá er bætt inn í ferskeytlu stuttri þriðju línu, og til að fá jafnvegi í vísuna er bætt við stuttri, sjöttu línu í endann.

Þá verður sexskeytlan svona:

 

Veðurkona frægð nú fær,

svo fýrar andann grípa -

- mjög víða.

Töff á skjánum trónir mær,

sem Trump langar að klípa -

- og - bjóða út að borða.   

 

Af tæknilegum ástæðum tókst ekki að tengja þennan bloggpistil við fréttina á mbl.is fyrr í kvöld, svo að það er gert hér í annarri tilraun. 


mbl.is Klæðnaður veðurfréttakonu vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ákvörðun Trumps.

Margir harðsnúnir og valdafíknir valdamenn hyllast til að velja sér jábræður og undirgefna samstarfsmenn og ráðgjafa. 

Þegar athygli er vakin á þvi´hvað slæmir ráðgjafar geta gert mikinn usla, ekki aðeins með skaðlegum ráðleggingum og ákvörðunum, heldur einnig með því að skorta hæfni, gleymist það, að hver ráðamaður fær þá ráðgjafa og samstarfsmenn sem hann á skilið og hefur valið sér sjálfur. 

Ráðamaðurinn valdi oft jafnvel slaka menn frekar en hæfa til þess að geta gert þá óörugga með sig og háða foringjanum. 

Sem betur fer hefur Donald Trump loksins valið mjög hæfan mann í afar mikilvægt embætti þjóðaröryggisráðgjafa. Ekki síst er þetta ánægjuefni vegna þess, að einstrengingslegar hugmyndir Trumps og sýn hans á þjóðaröryggi Bandaríkjamanna hafa verið helsta áhyggjuefnið varðandi það að hann skuli nú gegna embætti "valdamesta manns heims". 

Valið minnir á það þegar Richard M. Nixon valdi Henry Kissinger sem helsta áhrifamann í utanríkismálum Bandaríkjanna. Enginn veit að vísu hve mikið mark Trump muni taka á H.R. McMaster, en val hans vekur þó von, einkum vegna þess hve þjóðaröryggismálin og sýnin á þau munu vega þungt næstu árin vestra. 


mbl.is McMaster er meistari herkænskunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræði að hann skyldi ekki heita Christian?

Engin ástæða hefur enn verið gefin upp fyrir því að á íslensku yfirráðasvæði var farþega vísað úr íslenskri flugvél en sá frelsissvipti telur að bandarísk kona hafi annast framkvæmd verksins. 

Á meðan staða málsins er þessi, er ekkert óeðlilegt að spurningar vakni um þetta mál, sem nú er komið í breska fjölmiðla og á leið inn á borð utanríkisráðherra Bretlands ef marka má fréttir þar um. 

Þar með virðist málið vera milliríkjamál Breta og Íslendinga að boði Bandaríkjamanna. 

Ekki er tilgreint í vegabréfum hverrar trúar handhafi þess er, svo að mér sé kunnugt um, og því er skiljanlegt af hverju Juhel Miah telji, að varla geti verið um nema eina ástæðu að ræða fyrir brottvísun hans og frelsissviptingu, sem sé að fornafn hans, Muhammad eða Múhameð, er skráð í vegabréfið. Nafn sem hann notar þó aldrei. 

Ef þetta er veröldin, sem við erum á leið inn í, gæti það orðið slæmt að heita nafni eins og Ómar, ef maður er á ferð milli vestrænna landa, en heita Kristinn, ef maður á ferð til Arabalands.

Sjá nánar næsta bloggpistil á undan þessum. 

 


mbl.is Tók myndband af brottvísuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nóg að heita Múhameð? En hvað með Ómar?

Hvorki kennarinn frá Wales né neinir aðrir utan Bandaríkjanna hafa enn fengið að vita af hverju kennarinn var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli. 

Tvennt er þó nefnt í umræðunni um þetta sem hugsanleg ástæða til grunsemda:  

1. Hann ku heita Múhammeð. 2. Hann er múslimatrúar.  

Og það gæti verið "too much".

Að vísu eru trúarbrögð ekki skráð í vegabréf, þannig að kannski er ástæðan aðeins ein, eins og Juhel Miah hefur ýjað að, nafnið Muhamed, en bendir á að þetta fornafn sitt noti hann aldrei. Ekki frekar er að Barck Obama notaði aldrei millihafnið Hussein. Kannski vissara fyrir Obama, því að annars hefði hann kannski getað átt það á hættu að vera meinað að koma til baka til Bandarríkjanna, þegar hann ferðaðist til annarra landa. 

Ef þessu er svona farið, fara fleiri kannski að verða órólegir, líka ég.  Ekki síst ef það eru tvö atriði eða jafnvel fleiri sem eru grunsamleg.

Og mér til hrellingar sé ég að það blasa við að minnsta kosti fimm grunsamleg atriði ef ég ætla vestur um haf.

1. Ég heiti Omar. Hugsanlega algengasta nafn hryðjuverkamanna. Og ef á annað borð er óheppilegt að heita svona nöfnum á ferðalögum, og þjóðirnar, sem slík nöfn koma frá, byrja að beita svipuðum aðferðum við brottvísanir vesturlandabúa úr landi og welski kennarinn lenti í, lendum við Íslendingar í miklum vandræðum með allar þær þúsundir sem heita Kristinn, Kristín, Kristján, Kristjana, Kristbjörg, Kristbjörn o.s.frv. Og ef það verður ofan á að Guð og Allah sé ekki sama fyrirbærið, má Guð hjálpa öllum Guðmundunum og Guðrúnunum. 

2. Ég heiti líka Þorfinnur, en það er vitað að maður með því nafni var einn þeirra fyrstu sem fór til Ameríku án þess að hafa passa eða skilríki.

3. Ég á son, sem heitir líka Þorfinnur og ekki bara það, hann starfar og býr í Brussel!  Æ,æ.  

4. Ég hef réttindi til að fljúga flugvél og í höfuðstöðvum NATO í Brussel er mynd uppi á vegg af mjög krefjandi flugi mínu í gegnum Hafrahvammagljúfur. Maður, sem heitir Ómar og flýgur flugvél á slíkan hátt hlýtur síðan árið 2001 að vera afar tortryggilegur og til alls vís. Og þá er ekki víst að það þyki málsbætur, að ísraelska sjónvarpið gerði 7 mínútna umfjöllun um það árið 2010, hvernig ég hefði farið að því að fljúga einn og taka myndirnar af hljóðbylgjunum í gosinu í Eyjafjallajökli. Ég var dálítið undrandi, þegar þeir vildu gera þessa umfjöllun, en einn í ísraelska hópnum sagði mér að í Ísrael væru flugmenn í sérstökum metum sem bjargvættir þjóðarinnar í átökum hennar við Araba og að þess vegna væri gríðarlegur áhugi þar í landi á flugi, flugmönnum og flugmálum og að Ísraelsmendu taka mér afar vel ef ég kæmi til Ísraels. 

5. Ég hef unnið fyrir fjölmiðla, sem að dómi helstu fylgjenda Trumps hér á landi, flytja "falsfréttir" og ber því að skilgreina sem "óvini þjóðarinnar", að minnsta kosti "óvini bandarísku þjóðarinnar." 

Þar fór í verra. Komin meira með allt að fimm sinnum fleiri atriði en hjá welska kennaranum. Og pælingarnar um ástæður hugsanlegra brottvísána kannski orðnar dálítið langsóttar. En eðli þessa máls, sem engar skýringar fást enn á, kallar á vangaveltur.

En það er huggun fyrir bæði mig og Bandaríkjamenn, að Kanarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur því að ég ætli vestur um haf, því að næsta utanferð mín verður ekki þangað.

Hlægilega ódýrt flugfar, sem við hjónin höfum pantað og borgað vegna flugs úr landi í júlí í sumar, þegar við þurfum að fara í erindagjörðum yfir hafið, er ekki til Bandaríkjanna, heldur til Brussel!

Æ, æ, Wow! til Brussel!  Komin sex atriði!  Þar fór það alveg!  


mbl.is Svaf ekki í tvo daga eftir brottvísunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hernaðurinn hertur gegn náttúru Mývatnssveitar.

Í fréttum:  Gullfoss í gær, - Mývatn í dag.  Í gær: "Brugðist strax við" við Gullfoss gegn drullusvaði, sem þar hafði myndast, - en í fréttum í kvöld fjallað um hvernig aðförinni að náttúru Mývatnssveitar er haldið áfram fyrir norðan.

Hernaðurinn nyrðra er alltumlykjandi og íslenska hræsnin yfirgengileg, auglýst og grætt á ferðamannasprengju með því að gorta af hreinu og grænu umhverfi einstæðrar náttúruperlu á sama tíma og hótelrekstur með bellibrögðum, svikum og vanrækslu varðandi hreinsun affalls er látinn dankast árum saman. 

Sveitarstjórnarmenn í bullandi hagsmunapoti sem birtist í undanþágum, aðgerðarleysi og því að fara þannig í kringum lagaákvæði til verndar umhverfinu, að þau verði gagnslaus. 

En það sem sást í fréttum kvöldins er aðeins hluti af hernaðinum. Námaskarð, Bjarnarflag, Mývatn

Fyrir norðan vatnið er farið fram með offorsi við að leggja stórar háspennulínur án þess að taka neitt tillit til eðlis landsins, sem þær eiga að fara um. 

Aðeins þrjá kílómetra austan við austurbakka vatnsins er búið að ryðja svæði fyrir 90 megavatta gufuorkuver í stíl virkjananna á Hellisheiðarsvæðinu.

Kröfluvirkjun á að þenja út og teygja norður á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðið, þar sem eru náttúrufyrirbæri, sem hvergi finnast annars staðar á þurrlendi jarðar. Orkusvæði Bjarnarflagi

Hernaðurinn nær langt norðvestur fyrir Þeystareyki, þar sem háspennulínustæðið á að valda mestu mögulegu umhverfisspjöllum. 

 

 


mbl.is Brugðust strax við vegna drullusvaðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalt íslenskt fyrirbæri, "kaupstaðalyktin"?

Það er gamalt íslenskt fyrirbæri, að áfengisvandamálin hérna lýsi sér í því að menn "detta í það" um helgar eða séu svonefndir "túramenn." Svipað fyrirbæri hefur að vísu verið talið loða við Finna og haft í flimtingum í öðrum löndum. 

Í þátttöku í gerð norrænnar áramótadagskrár í sjónvarpsstöðinni í Helsinki 1966 kynntist ég dæmi um þetta. 

Þegar myndatökum var að ljúka og aðeins eftir að taka upp lokaatriðið að morgni dags, fór helsta dagskrárgerðarfólkið í heljarinnar partí þar sem mikið var drukkið. 

Sumir fóru þaðan beint, vel slompaðir, upp í sjónvarpshúsið til að taka upp "finalen." 

Þar var fremstur í flokki upptökustjórnandi að nafni Júgga Virgonen. 

Við Haukur Heiðar Ingólfsson minnumst þess enn þegar kallað var í kallkerfi stöðvarinnar, svo að heyrðist um alla bygginguna: "Júgga Virgonen, það var stolið frá honum!" 

Auðvitað var þetta ekki sagt svona orðrétt á Íslensku, heldur hljómuðu finnsku orðin svipað. 

Enn þann dag í dag hafa Finnar, sem ég hef beðið um að finna út hvað var hrópað, ekki getað ráðið þá gátu.  

Fyrir rúmri öld var íslenska þjóðfélagið enn á svipuðu stigi og verið hafði um aldir. Ef dreifbýlisfólk fór í kaupstað, var þar auðvelt að kaupa áfengi og sagt var stundum, um bændur, sem komu drukknir til baka, að það væri "kaupstaðalykt" af þeim. 

Íslendingar hafa löngum verið áhlaupamenn til vinnu og margir hafa umbunað sjálfum sér ríkulega um helgar. 

Og ný tegund af "kaupstaðarlyktinni" hefur haldið innreið sína með tilkomu sólarlandaferða. 

Hve margar þúsund Íslendinga hafa ekki drukkið sleitulítið eins og berserkir í slíkum ferðum til þess að "græða og spara útgjöld" og komið vel lyktandi aftur til landsins?  Angandi af "sólarlandalykt". 

1969 var gerð svipuð könnun á drykkjuvenjum Íslendinga og nú, og með svipaðri útkomu. 

Helstu niðurstöður:  

1. Árlegt áfengismagn á hvern íbúa það minnsta í okkar heimshluta.

2. Óhófleg drykkja tíðari hér en erlendis. 

Dani einn, Finn að nafni, starfaði þá um hríð í Sjónvarpinu og varð að orði, þegar hann heyrði þetta: 

"Ég skil ekki Íslendinga.  Íslendingar drekka lítið, en oft, og þá mikið."

Sagði þetta allsgáður. 


mbl.is Óhófleg drykkja tíðari hér en á Norðurlöndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þjóðarskömmin við Geysi engan endi að taka?

Ástandið við tvær af þekktustu náttúruperlum Íslands, Gullfoss og Geysi, er lýsandi fyrir það stig, sem við höfum verið á varðandi meðferð á íslenskum náttúruverðmætum, og stingur gersamlega í stúf við það sem er helst hliðstætt erlendis. 

Ef notað hefur verið orðið "ófremdarástand" við Gullfoss, sem verið sé að laga, er erfitt að finna rétt orð fyrir Geysissvæðið, sem er miklu merkara, en samt verr leikið af mannavöldum. 

Í "landi frelsisins", Bandaríkjunum, var 9000 ferkílómetra svæði tekið frá fyrir 147 árum og gert að þjóðgarði og þjóðareign. Á svæðinu eru um 10 þúsund hverir, þar af frægasti virki goshver í heimi, "Old Faithful." 

Allir goshverir heims bera hins vegar heiti Geysis í Haukadal.

"Old Faithful" er skilgreindur sem "Geysir." 

Þjrár milljónir ferðamanna koma í þjóðgarðinn, sem ber heitið "Yellowstone", á hverju ári, og hægt er að aka inn í hann  á fjórum stöðum. Þar eru hlið og mannvirki, þar sem seldir eru "náttúrupassar" fyrir alla þjóðgarða í Bandaríkjunum. Náttúrupassi. Your America

Á náttúrupassanum eru áletranirnar "Proud partner" og "discover your America."

Hver sá sem kaupir sig inn er skilgreindur sem stoltur þáttakandi í því að upplifa nátturuverðmæti Ameríku og varðveita þau óspjölluð fyrir allt mannkynið .

Á Íslandi var hins vegar hrópað um svona hugmyndina að svipuðu fyrirbæri: "Niðurlæging!" "Auðmýking." Náttúrupassi í BNA

Um áratuga skeið hafa landeigendur hagnast á hverasvæðinu við Geysi með byggingu hótels, verslunar og veitingastaðar. En allan tímann og enn í dag er svæðið hrein þjóðarskömm vegna vanrækslu. 

Í Ameríku þjóðareign, ekkert vandamál, engin spjöll, ekki eitt einasta karamellubréf, ekki eitt einasta fótspor. 

Á Íslandi þjóðarskömm, einkaeign en þó hefur ríkið átt hluta og deilur um eignarhlutana staðið áratugum saman.

Endalausar deilur um það, ekkert gert sem komi í veg fyrir það að svæðið vaðist út og stórskemmist.

Erlendis Íslandsvinir tárast við að sjá þetta og allar útskýringar á þessu ástandi eru þeim gersamlega óskiljanlegar og gera málið bara verra, því að undrast er hve lengi pattstaðan varðandi eignarhaldið hefur varað. 

Á þetta engan enda að taka? Hvenær lifir maður það að þurfa ekki að skrifa endalausa pistla um þessi ósköp?  Sennilega ekki úr þessu.   

 


mbl.is „Ófremdarástand“ við Gullfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

35% atkvæða nægðu 1931.

Í Alþingiskosningunum 1931 hlaut Framsóknarflokkurinn 35% atkvæða á landsvísu en það nægði til að flokkurinn fengi meirihluta þingmanna, 23 af 42, eða fjögurra atktvæða meirihluta á Sameinuðu Alþingi.

Þetta gerðist vegna mikils misvægis atkvæða í þéttbýli og dreifbýli. 

Framsóknarflokknum hélst hins vegar ekki á þessum sigri og neyddist til að fara í samsteypustjórn með Sjálfstæðisflokknum 1932. 

Þótt kosningar séu að sjálfsögðu ekki það sama og skoðanakannanir, er það veikleikamerki fyrir núverandi ríkisstjórn að hafa aðeins um 35% fylgi til handa ríkisstjórn, sem hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi. 

Svo er að heyra að sumum þingmönnum þyki það ankannalegt ef stjórnin getur komið fram stjórnarfrumvörpum með hjálp nógu margra stjórnarandstöðuþingmanna, án þess að allir stjórnarþingmenn styðji þau, svo sem frumvarpinu um jafnlaunavottun. 

En þetta er svipað og það, sem margar minnihlutastjórnir í nágrannalöndum okkar hafa gert í áratugi, vegna þess að valið stendur á milli stöðugleika og óstöðugleika við stjórn landsins. 

Það er atkvæðatalan sem kemur upp við talningu á þingfundum, sem ræður úrslitum. 

Nú bregður svo við að þrír stjórnarandstöðuflokkar, Píratar, Framsókn og Samfylking hafa álíka mikið fylgi í skoðanakönnun, eða rúmlega tíu prósent. 

Og ef kosningar nú færu á þennan veg gætu Vinstri græn hugsanlega myndað meirhlutastjórn með Pírötum og Samfylkingu. 

En þetta er skoðanakönnun en ekki kosningar. 


mbl.is VG áfram með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Járntjöld og múrar rísa .

Það vill svo til að við hjónin áttum leið frá Íslendingaslóðum í Manitoba til Íslendingaslóða í Mountain í Norður-Dakota á bíl sumarið 1999. 

Það var varla hægt að segja að maður yrði var við það að vera að fara á milli landa, svo opin voru landamærin við Emerson á þessum tíma.

En nú er öldin að verða önnur ef marka má nýjustu fréttir af þessum landamærum.

Og svipað hefur verið að gerast í Evrópu. Á ferðum okkar í fyrra voru margra klukkstunda tafir á landamærum Frakklands og Bretlands um vorið og á landamærum Austurríkis og Þýskalands um haustið.

5.mars 1946 flutti Winston Churchill eina af frægustu ræðum sínum í Fulton í Missouri, heimaríki Trumans forseta. "Járntjald hefur fallið um þvera Evrópu" sagði hann í ræðunni, en það orð heyrðist fyrst í þessari ræðu sem bar heitið "Sinews of Peace." 

Er ræðan, þar sem orðið "Járntjald" varð í fyrsta sinn opinbert og var oftast nefnd "Fulton-ræðan" eða "Járntjaldsræðan", talin hafa markað upphaf Kalda stríðsins, þar sem Berlínarmúrinn varð að stóru tákni 1961. 

Nú er talað um annað Járntjald, eða bandarískan Berlínarmúr, sem rísa skuli á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, og í Miðausturlöndum hafa Ísrealsmenn reist múr á milli sín og Palestínumanna. 

Það eru 1946 og 1961 í loftinu á ný nema í Suður-Afríku þar sem múrar Aðskilnaðarstefnunnar féllu árið 1991, en Berlínarmúrinn hafði þá fallið tveimur árum fyrr.

Fyrir 72 árum var Járntjaldið meginatriðið hjá alræðisstjórnum kommúnista í Austur-Evrópu og Berlínarmúrinn var uppfinning þeirra, og sem var fyrirlitin og fordæmd af vestrænum þjóðum. 

Nú virðist öldin önnur. Járntjöld og múrar, svo sem tollamúrar, eru eftirlæti þeirra, sem í mest mæra frelsi, ef um frelsi auðstéttarinnar er að ræða. 


mbl.is Flúðu frá Bandaríkjunum til Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sum stef valdafíknar eru algengust.

Nokkur stef er að finna sem eru algengust hjá þeim sem sækjast eftir miklum völdum og auði, sem oft endar með harðstjórn og einræði. 

Nefna má fjögur: 

1. Að finna sameiginlegan óvin fyrir alla þjóðina, svo að hún fylki sér að baki einræðisherranum og sætti sig við harðstjórn hans. Að virkja þjóðerniskenndi og tortryggni gagnvart útlendingum til hins ítrasta, enda væri kjörorðið: "Deutschland uber alles". Hitler fann sameiginlegan óvin í alþjóðlegu samsæri Gyðinga og þeim, sem stóðu að Versalasamningunum.

Eftir að hafa heyrt afar vel gerðan útvarpsþátt Veru Illugadóttur í fyrrakvöld um harðstjórn Ceausescu-hjónanna í Rúmeníu, sem var á pari við harðstjórnina í Norður-Kóreu, horfði ég á tvær áhrifamiklar heimildarmyndir um þau á YouTube, myndir sem kynnu að eiga vaxandi erindi næstu misserin.  

Ceausescu spilaði á sterka þjóðerniskennd Rúmena með því að lýsa á árlegum útifundi í Búkarest 1968 yfir andstöðu við innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu. Að öðru leyti lýsti hann yfir fullri tryggð við að framkvæma kommúnismann vægðarlaust og kom þannig í veg fyrir að Bresnéf sendi her inn í landið.

Pútín hefur verið laginn við að spila á þjóðerniskennd Rússa og finna ógnandi óvini sem geri hann að hinum "sterka leiðtoga" til að verjast erlendri ágengni, og Donald Trump boðar að á næstu árum muni koma til óhjákvæmilegs stríðs við Kínverja og styrjaldar í Miðausturlöndum, enda séu Kínverjar og fleiri þjóðir ógn við það takmark að "gera Bandaríkin mikilfengleg á ný" og að kjörorðið sé "America first!" 

2. Að skapa öryggisleysi, svo að þjóðin fylki sér á bak við þann, sem lofar aðgerðum til að "skapa öryggi" og "bægja óvinum þjóðarinnar frá."

Þetta gera til dæmis Erdogan Tyrklandsforseti, Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un í Norður-Kóreu, og er sá síðastnefndi kominn langlengst.

Til að "tryggja öryggi" eru leyniþjónusta og lögregla margefld í boði stofnana eins og þeim, sem Gestapo, STASI, KGB og Securitatis, leyniþjónusta Ceausescus, voru.  

Donald Trump hefur lofað að margefla Leyniþjónustu Bandaríkjanna og lögregluna til þess að fást við 1., 2., og 3. kynslóð múslima í Bandaríkjunum. 

3. Að búa til mikilfenglega og rándýra viðburði, byggingar, mannvirki og framkvæmdir sem gleðji lýðinn og skapi samstöðustemningu auk þess að gylla nafn foringjans.

Þetta kunnu Ceausescu-hjónin öðrum betur og gerðu linnulítið á valdatíma sínum.

Gífurlegum fjármunum fátækrar þjóðar var eytt í stærstu og íburðarmestu þjóðhöfðingjahöll veraldar og rosalegar byggingar og breytingar á miðborg Búkarest á sama tíma og þjóðin leið skort, sult, kulda, rafmagnsleysi og kúgun.

Kim Jong-un stundar þetta á svipaðan hátt.

Hitler komst kannski lengst í stórfenglegum viðburðum í Nurnberg og víðar, sem og Stalín og Mao.  

Donald Trump er ennþá bara á stigi stórfenglegra útifunda og þess að eiga stóran skýjakljúf og fleira, sem ber nafn hans. Pútín og Erdogan eiga ekki slíkar eyrnamerktar byggingar eða mannvirki. En múrinn mikli á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna verður mikilfenglegur. 

4. Að búa til "alternate facts" eða "alternate truth" sem hinn sterki leiðtogi boðar og kynnir. auk þess að hamast gegn fjölmiðlum, sem séu "óvinir þjóðarinnar" og flytji aðeins "falsfréttir" og búi til "falsveruleika" og Trump kallar það.

Kannski finnst ýmsum það óviðeigandi að nefna Donald Trump í þessum pistli og rétt er að taka það skýrt fram, að hann er aðeins rétt að byrja feril sinn og alls óvíst um framhaldið og það hve mikil alvara honum sé eða hve langt hann komist í að efna kosningaloforð sín.

5. Að gæta þess að enginn geti ógnað valdsmanninum, hvorki næst honum né fjær. Allt hjá Ceausescu-hjónunum miðaði að þessu. Hún var varla læs, en til þess að geta komist lengra en dæmi eru um í því að verða meðal virtustu vísindamanna á sínu sviði, bæði innan lands sem utan, og ráða öllum í háskóla- og vísindasamfélagi Rúmeníu, valdi hún samstarfsfólk sem var jafnvel enn verr menntað en hún sjálf til að tryggja stöðu sína og það, að þetta fólk ætti henni allt að þakka. Hann valdi sér jábræður, sem urðu að skríða fyrir honum. 

Þetta er svipað fyrirbæri og tíðkast hjá sumum eigendum eða forstjórum risafyrirtækja. Til þess var tekið á tímum Henry Fords yngra, að hann reyndi að lokka til sín sem færasta yfirmenn deilda eða meðstjórnenda, en um leið og honum þótti þeir verða orðnir of áhrifamiklir, rak hann þá og leitaði að öðrum í staðinn. 

Trump hefur raðað í kringum sig jábræðrum, sem margir eru svo slæmir, að þeir eru þegar farnir að hrökklast í burtu eða gera arfamistök. 

Þetta einkenni loforða hans og hegðunar hingað til, talar sínu máli og hafa ekki fara ekki leynt, hvernig sem framhaldið verður.

 


mbl.is Óttast fangelsun og alræðisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband