Forysturíki á sviði mannréttinda?

Að "gera Bandaríkin mikifengleg að nýju" virðist í augum Bandaríkjaforseta þýða neikvætt afturhvarf og afturhald  á mörgum sviðum, meðal annars hvað snertir mannréttindi. 

Ef Bandaríkjamenn ætla að kalla sig forystuþjóð í baráttunni gegn mannréttindabrotum, eins og Ameríkanar urðu með þátttöku sinni í Seinni heimsstyrjöldinni, verður afturhvarf til pyntinga og mannréttindabrota dapurlegt bakslag. 

Það er einstakt þegar forystumaður þjóðar, sem vill kalla sig brjóstvörn frelsis og mannréttinda í heiminum gefur undirmönnum sínum frítt spil til að misþyrma og pynta að vild sinni og hafa það að afsökun að andstæðingarnir séu verri. 

Hitler gaf hermönnum sínum leyfi til þess að skjóta að vild sinni sovéska kommisara í herförinni inn í Sovétríkin með þeirri afsökun að Sovétríkin væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga.

Á þessu og því sem Trump leyfir er að vísu stigsmunur en ekki eðlismunur.

Hægt er að gera pyntingar svo kvalafullar að sá, sem pyntaður er, vilji frekar verða skotinn.  


mbl.is Telur að vatnspyntingar beri árangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt höfumst vér að.

Fréttin um fangavist og háa sekt fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur í Yellowstone er eitt af ótal dæmum um mismun á því hvaða augum náttúruperlur í Bandaríkjunum eru litnar og hvernig er staðið að verndun og umgengni við þær. 

Bandarískur sérfræðingur um nýtingu jarðvarma, sem var gestur og fyrirlesari á heils dags málþingi í tilefni af tíu ára afmæli ÍSOR, lýsti því á stóru korti af Norður-Ameríku, hvernig farið yrði í fótspor Íslendinga í nýtingu jarðvarmans vestr, sýndi fjölmarga staði og svæði vestra sem hægt væri að nýta til orkuvinnslu. 

Á kortinu voru þetta litlir deplar, misgulir eða rauðir, en einn nálægt miðju var margfalt stærri og eldrauður. "Þetta er Yellowstone" sagði sérfræðingurinn. "Það er heilög jörð sem verður aldrei farið inn á né nálægt þjóðgarðinum til nýtingar jarðhitans." 

Alls er svæði, sem verndað er gegn borunum í kringum Yellowstone á stærð við allt Ísland. 

Ef þetta er borið saman við viðhorfið hér á landi, er himinhrópandi munur.

Hér stendur til að vaða með gufuaflsvirkjanir inn á öll hliðstæð svæði á Reykjanesskaga nema Brennisteinsfjöll og umgengnin og ástandið á Geysissvæðinu hefur verið og er enn þjóðarskömm.

Ef bandarískum kröfum um vernd væri fylgt hér á landi, hefði Geysissvæðinu verið lokað fyrir langalöngu og búið að ganga tryggilega frá verndun þess.

Ef íslenskri hegðun og viðhorfum hefði verið fylgt í Yellowstone hefðu aldrei verið settar þær ströngu reglur í hvívetna sem þar gilda, heldur ferðafólki leyft að komast upp með að traðka niður svæðin, að ekki sé nú talað um gufuaflsvirkjanirnar, sem búið væri að reisa þar og allir baðstaðirnir, bláu, gulu og rauðu lónin.  


mbl.is Fangavist fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hugsa sér ef þetta hefði verið gert fyrr.

Stærsta fréttaefni "Framtíðarlandsins", bókar Andra Snæs Magnasonar, var það, að árið 1995 sendi opinber nefnd um finna kaupendur að íslenskri orku, á laun nokkurs konar bænarskjal til helstu orkukaupenda erlendis, þar sem boðið var upp á "lowest engergy prices", "lægsta orkuverðið á markaðnum" og í þokkabót boðið upp á "sveiganlegt mat á umhverfisáhrifum." 

En þessi merka uppljóstrun í bókinni vakti enga athygli fjölmiðlanna, þótt þar væru afhjúpuð nakin eymdin í stóriðjustefnu Íslendinga, sem setti Ísland niður á plan með fátækustu þjóðum heims sem verða vegna neyðar að þola yfirgang alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem svífast einskis í arðráni sínu, sem er í raun aðeins framhald hinnar gömlu nýlendustefnu.  

Hvort tveggja, orkuverðið og endemis úrskurður þáverandi umhverfisráðherra, gekk eftir þegar samið var um smíði Kárahnjúkavirkjunar. 

Ekki var látið við það sitja að bjóða orku á gjafverði, heldur var sérstakt ákvæði í samningum við Alcoa um það að á meðan 40 ára orkusamningur væri í gildi mætti ekki setja lög sem mæltu fyrir um þak á skuldsetningu. 

Hendur Alþingis voru sem sé bundnar marga áratugi fra í tímann til þess að fyrirtækið gæti með bókhaldsbrellum erlendis og hér heima bókfært að vild skuldir hjá Alcoa hér á landi við systurfyrirtæki erlendis í slíkum mæli að ekki þyrfti að borga krónu í tekjuskatt af tugmilljarða gróða álversins á Reyðarfirði.

Meðal ótal ívilnana var að verktakafyrirtækið Impregilo fengi ókeypis rafmagn á þeim árum sem framkvæmdirnar stóðu, en þessi raforka var sem nam allri raforkuframleiðslu Lagarfossvirkjunar.

Stefnan "lægsta orkuverð" hafði raunar verið í gildi hér á landi allt frá 1965 og hefur því verið í gildi í meira en hálfa öld með óheyrilegu tjóni á íslenskum náttúruverðmætum.

Og tilhugsunin um það sem gert hefur verið á þeim tveimur áratugum, sem liðin eru síðan bæklingurinn "Lægsta orkuverð" er blandin hrolli og sorg.

Að hugsa sér hve miklu það hefði breytt ef það hefði verið gert fyrr en nú að tryggja að raforkufyrirtæki greiði markaðsverð fyrir nýtingu náttúruauðlinda í almennaeigu.  


mbl.is Greiði markaðsverð fyrir náttúruauðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki 1. apríl, heldur er 2007 komið aftur.

20 kirkjur, 20 lögreglustöðvar 200 þúsund fermetrar, - maður nuddar augun og starir á þetta og lítur svo á almanakið.  

Nei, það er ekki kominn 1. apríl, en það er engu líkara en að 2007 sé komið aftur, árið þegar Viðskiptaráð ályktaði að við hefðum ekkert að sækja til að læra af þjóðunum í kringum okkur heldur þyrftu þær að læra af allt af okkur upp á nýtt.

Það er árið 2007 og stutt í árið 2008 þegar næsta ályktun í framhaldi af þessari varð að orðið hefði til algerlega ný og byltingarkennd formúla í viðskiptum, banka- og efnahagsmálum, nefnd "Kaupthinking", borið fram "kápþinking".

Einnig að ef einhver af helstu efnahagssérfræðingum annarra þjóða efaðist um þetta, þyrfti hann að fara í endurmenntun.

120 skrifstofubyggingarnaa, 20 lögreglustöðvar og 20 kirkjur eru að sjálfsögðu aðeins byrjunin á því sem koma skal.

Úr því að einkaaðilar hafa þegar átt sumar af helstu náttúruperlunum eins og Kerið, Geysi, Námaskarð og Gjástykki, hvers vegna ekki að breyta Þingvallalögunum með einni atkvæðagreiðslu á Alþingi og selja Þingvelli? Árnasafn? Handritin?  


mbl.is Ríkið selji hundruð fasteigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarbylgjur og fljúgandi furðuhlutir? Já.

Ef einhver hefði haldið því fram fyrir þrjú hundruð árum að til væru ósýnilegar bylgjur sem gætu borið hljóð og mynd um allan hnöttinn á hraða ljóssins og jafnvel borið slíkt um milljóna kílómetra vegalengdir um geiminn, hefði sá, sem slíku hefði haldið fram, verið talinn algerlega genginn af göflunum.

Að ekki sé talað um að menn myndu skreppa frá jörðinni til tunglsins.

En hvort tveggja varð þó að viðurkenndum veruleika.

Á svipaðan hátt má segja, að sá gæti verið dæmdur sem fullkomlega galinn, sem heldur því fram, að til séu ósýnilegar bylgjur hugans, sem farið geti á óendanlega miklum hraða, ekki aðeins á milli samliggjandi herbergja, eins og í tilraun bandarísku leyniþjónustunnar, heldur einnig um óendanlegar víddir geimsins.

Að ekki sé talað um að til séu fljúgandi furðuhlutir, sem séu óútskýranlegir. 

Ég ætla samt að taka áhættu á því að vera talinn galinn fyrir það að geta vel trúað á tilveru ósýnilegra hugarbylgna og einnig að játa, að ég hafi í eitt skipti séð fljúgandi furðuhlut, loftfar, sem enginn leið var að útskýra sem jarðneskt loftfar. 

Þetta gerðist eitt sinn á flugi mínu í nætursjónflugi úr norðri á leið til Reykjavíkur, þegar ég flaug úr norðri yfir Geldingadraga í átt til Hvalfjarðar. 

Þá sá ég skyndilega hlut á flugi, sem var eins og stór hringlaga upplýst glerbygging og í engu líkt neinu loftfari sem ég hef séð eða lesið um. 

Þetta stóð yfir í um mínútu og ég kallaði aðflugsstjórn upp og spurði hvort einhver annar væri á flugi á þessum stað eða flugleið en ég. 

Og fékk það svar til baka að ég væri einn á ferð þarna. 

Þetta svar þýddi að enn í dag hef ég ekki fundið neitt svar við því, hvað það var sem ég sá svona greinilega. 

Á meðan svo er, get ég ekki hafnað þeirri tilgátu, að til séu fljúgandi furðuhlutir. 

Og of margt hefur gerst, bæði í lífi mínu og einnig í vísindalegum tilraunum, sem bendir til að hugarbylgjurnar séu til. Einna merkilegust var sú, sem var gerð fyrir um 15 árum, og skildi eftir óútskýranlegt fyrirbæri á heimsvísu daginn, sem ráðist var á New York og Washington 11. september 2001. 

Fólk hefur líklega misjafnlega mikla hæfileika til að senda frá sér hugarbylgjur eða að taka á móti þeim. 

Einstaka hafa hæfileika til hvors tveggja, aðrir eingöngu til að senda frá sér hugarbylgjur og enn aðrir eingöngu til að taka á móti hugarbylgjum. 

Hugmyndir um hugsanlegar hugarbylgur og fljúgandi furðuhluti eru heillandi, jafnvel þótt þær sýnist jafn fjarstæðukenndar nú og rafsegulbylgjurnar þóttu á fyrri tíð. 


mbl.is Birta gögn um FFH og dulrænar tilraunir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg jafnvægislist fyrir Framsókn.

Hörð orð féllu oft þegar kastaðist í kekki með Gunnari Thoroddsen og fylgismönnum hans og Geir Hallgrímssyni formanni flokksins og hans fylgismönnum þegar Gunnar myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi 1980 og Sjálfstæðisflokkurinn var klofinn í herðar niður við a lenda með og á móti ríkisstjórninni. 

Framsýnir menn fengu því ráðið að enginn var rekinn úr flokknum og að lagður yrði grunnur að því að hann gengi samhentur og heill til Alþingiskosninga 1983. 

Eftir kosningarnar unnu þingmenn og flokksmenn saman eftir föngum að því vinna saman við að verða stærri aðilinn í tveggja flokka stjórn, sem mynduð var. 

Þrír ræðumenn Framsóknar nú sýna svipað fyrirbæri. Andstæðir pólar í fyrra tala fyrir flokkinn, og auk þess einn sem hefur verið talinn standa í miðjunni. 

Í gamla daga var sagt að Framsóknarflokkurinn væri jafnan opinn í báða enda og það má kannski nota það orðalag aftur nú um viðleitnina til að jafna ágreining og þétta raðirnar í pólitískri jafnvægislist.  


mbl.is Sigmundur talar fyrir Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árin 1939 - 2015 snerumst um brýr frekar en múra.

Á síðustu öld og fyrstu fimmtán ár þessarar aldar var það ríkjandi viðhorf á Vesturlöndum að trúa frekar á brýr en veggi, frekar á samvinnu en hindranir og sundrungu. 

Heil heimsstyrjöld fór í það að andæfa fyrirætlunum nasista um að stunda nokkurs konar aðskilnaðarstefnu þar sem "ofurmenni" hins "aríska kynstofns", hugtaks sem var mannfræðilegt bull, nytu forréttinda fram yfir "óæðri kynstofna" eins og slavneskar þjóðir, sem yrðu þrælar yfirþjóðarinnar.

Og Gyðingum yrði að útrýma.

Alþjóðasamfélagið háði glimu viðskiptaþvingana við Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnunnar (Apartheit) sem þar var beitt.

Í Bandaríkjunum stóðu innanlandsátök um aðskilnaðarstefnu hvítra gegn svörtum sem enduðu með stórum áföngum á því sviði við að byggja brýr en ekki múra.

Í Evrópu var komið á samvinnu sífjölgandi ríkja þar sem hömlum í tollamálum og atvinnumálum var aflétt.

Marshall aðstoðin byggðist á þeirri hugsun að aðstoð voldugri ríkja við hin veikari myndi á endanum verða til hagsbóta fyrir báða. 

Það er mikil einföldun hjá Donald Trump að lækkun tolla hafi eingöngu bitnað á verkafólki í bandarískum verksmiðjum. Ávöxtur bygginga brúa hefur skapað aukna velmegun í Mexíkó, sem hefur margfaldað innflutning bandarískra vara til Mexíkó og skapað mörg störf og atvinnurekstur í Bandaríkjunum.

Marshallaðstoðin gekk upp og beggja vegna Atlantsála rann upp framfaraskeið, sem í Þýskalandi og víðar í Evrópu var kennt við "efnahagsundur."

Á sama tíma staðnaði Austur-Evrópa og hrakaði svo mjög, að hið kommúniska þjóðskipulag hrundi.

Margar fátækar þjóðir í þróunarlöndunum hafa notið góðs af vaxandi alþjóðasamvinnu og hungur í heiminum hefur minnkað vegna nýrra starfa.

Nú eru kínverskir ferðamenn farnir að leggja skerf til þjóðartekna á Vesturlöndum. Árangurinn blasir hvarvetna við, líka hér á landi.

Konan mín ekur á indverskum bíl þótt hann sé á ytra borði með heitinu Suzuki Alto, en er mest keypti bíllinn á Indlandi. Fjöldi örsnauðra Indverja hefur atvinnu við að framleiða vörur, sem áður var óhugsandi að væru framleiddar í þessu fjölmennasta lýðræðisríki heims,hvað þá að þær yrðu útflutningsvörur. 

 

Gegn þessari brúabyggingu hefur nú risið vaxandi andspyrna, vegna óróa í Miðausturlöndum og misheppnaðra utanaðkomandi afskipta af málefnum þeirra, sem hefur leitt til uppgangs öfga Íslams og flóttamannastraums til Evrópu.

Brýn nauðsyn er á að greina orsakir þessa, meðal annars gömul sárindi fyrrum nýlendna Evrópuþjóða vegna fyrri kúgunar þeirra, og bregðast við hinum nýja vanda.   


mbl.is Trúir á brýr en ekki veggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Meiriháttar þorrablót" á Youtube og facebook.

Atvinnurekstur jólasveina er kannski nýr sem formlegur rekstur eins og "Umboðsmaður jólasveina, Skyrgámur", virðist vera, en hann má sjá nefndan á ja.is.Þorramatur, svið, hangikjöt

En fyrir um hálfri öld var það bara talsverður rekstur á tveimur jólasveinum, Gáttaþef og Ketkróki, að sinna um það bil 600 jólaböllum samtals á tólf árum og gefa út fjórar jólaplötur, þar af þrjár breiðskífur. 

Síðan var þessum rekstri hætt en þorrablótin voru komin til sögunnar á undan Gáttaþefi og hafa haldið sínu alla tíð síðan. DSC08169

Í tilefni af Þorrabyrjun var laginu "Meiri háttar þorrablót"  ýtt á flot á ljósvakanum í flutningi nokkurra Frumherja rokksins og einnig á facebook, en er nú komið á youtube og slóðin er:   

www.youtube.com/watch?v=NixavxrYuLU

Og lagið er líka á facebook síðu minni, en gæði myndar og hljóðs eiga að vera betri á Youtube.

P.S. Við athugun hefur komið í ljós að af einhverjum ástæðum kemst ég ekki inn á lagið á þessari slóð eins og er. Ástæðan er ókunn, en það skotgengur ef slegið er inn:

Youtube. Ómar Ragnarsson: Meiri háttar þorrablót.  

Skoða þetta betur í fyrramálið.

P.S. númer 2:  Mér var send slóðin í athugasemd á facebook og hún opnaði auðveldlega aðgang að laginu á Youtube og aðrir, sem ég hef haft samband við, komast greiðlega inn.   


mbl.is Umboðsmaður jólasveinsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sætt sameiginlegt skipbrot? Nei.

Það voru miklu meiri væntingar, sem gerðar voru til liða Þýskalands og Danmerkur heldur en til liðs Íslands. Þess vegna má líta á vonbrigðin með árangur Dags og Guðmundar út frá tveimur mismunandi sjónarmiðum. 

Annars vegar er ekki lengur hægt að tala um áberandi mun á gengi þessara þriggja liða hvað það varðar að þau féllu öll í keppni í sextán liða úrslitum, - nokkuð sem fáir hefðu búist við af Dönum og Þjóðverjum. 

Einhverjum kynni að detta í hug orðtakið "sætt er sameiginlegt skipbrot" að þessu leyti, en það er bara ekki þannig, heldur eru það mikil vonbrigði að þrír íslenskir landsliðsþjálfarar skyldu falla úr keppni á sama tíma. 

Nú er bara að vona að Svíar komist sem allra lengst.  


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst áður og ekki til góðs.

Á uppgangsárunum á þriðja áratug síðustu aldar var gengi íslensku krónunnar hækkað "með handafli". 

Á þeim tíma var ekki hægt að sjá fyrir heimskreppuna, sem gerði það enn verra en ella hefði orðið að bregðast við. 

Að lokum var gengið fellt 1939 þegar stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Kveldúlfur, hafði orðið gjaldþrota og önnur útgerðarfyrirtæki riðuðu til falls. 

Þetta reyndist skammgóð lausn, því að óðaverðbólga skall á 1942 vegna hinna miklu uppgripa og stríðsgróða við vinnu fyrir herlið Bandamanna og fiskflutninga til Bretlands.

Gengi krónunnar var því þegar orðið of hátt 1942 og svo rammskakkt 1949, að enn varð að fella það. 

Þó nægði gengisfellingin ekki, heldur varð að búa til flókið fjölgengiskerfi, sem snerist í kringum svonefnt bátagjaldeyriskerfi, og taka varð upp harðsvíruðu innflutningshöft. 

Aftur færðist í sama horf og fella varð gengið 1961 og tvívegis árið 1967. 

Út öldina snerust efnahagsaðgerðir um að finna mótvægi gegn síendurteknu of háu gengi krónunnar og viðskiptahalla við útlönd þegar hátt gengi krónunnar var hvati fyrir innflutning. 

Fyrstu átta ár þessarar aldar var gengið í fyrsta sinn frjálst og hækkaði vegna dæmalausrar útþenslu bankakerfisins og  þenslu, sem stórfelldar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir ollu á sama tíma. 

Háir vestir í brengluðu hagkerfi sogaði erlent fjármagn inn í landið, sem fljótlega fékk nafnið snjóhengjan og hékk eins og Daemoklesarsverð yfir höfðum landsmanna. 

Allt sprakk þetta í loft upp haustið 2008. 

Nú horfa menn undir niðri með velþóknun á hækkað gengi, sem gerir kleyft í bili að lækka verð á innfluttum varningi og sporna gegn verðbólgu, en enda þótt bent sé á að undirstaða hækkaðs gengis sé ekki lánsfjárbóla eins og 2008, heldur raunverulega stórauknar gjaldeyristekjur af ferðamönnum, er það áhyggjuefni í ljósi reynslunnar hve mikið gengi krónunnar hefur hækkað. 


mbl.is Ekki styrkst eins mikið í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband