Lokun álvera og sæstrengjum veifað.

2007 hótaði Rio tinto því að loka álverinu í Straumsvík nema að leyfð yrði stórfelld stækkun þess. Litlu munaði að þessi hótun nægði til þess að stækkunin yrði leyfð í almennri íbúakosningu, en nokkur hundruð atkvæða munur réði því, að stækkuninni var hafnað. 

Ekkert varð samt úr lokun álversins, og var í staðinn farið út í hagræðingu, sem hefur nægt fram að þessu. 

Nú hótar Rio tinto á ný að loka álverinu nema að Landsvirkjun stórlækki orkuverðið. 

Ketill Sigurjónsson skrifa athyglisverðan pistil um málið, þar sem sagt er að líkurnar á lokun nú eða í náinni framtíð fari vaxandi, og að lokun álvera sé svo stór aðgerð, að aðeins lagning sæstrengs geti komið okkur til bjargar. 

Þetta styður þau orð forstjóra Landsvirkjunar á ársfundi Lv fyrir nokkrum árum, að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur komi, og af öðrum heimildum má ráða, að strengirnir verði að verða minnsta kosti tveir, ef ekki enn fleiri með kostnaði upp á þúsundir milljarða króna. 

Árum saman hefur því verið haldið fram hér á landi, að ef reistar séu virkjanir hér á landi í stórum stíl, muni það halda aftur af Kínverjum við að reisa kolaorkuver. 

Nú liggur hins vegar auðvitað fyrir, að Kínverjar fara ekkert eftir því hvað við gerum í þessum efnum, heldur hafa þeir haldið því áfram stanslaust að reisa kolaorkuver. 

Kína er stórveldi, sem hugsar aðaine um eigið sjálfstæði í þessum málum, og það hefur allan tímann legið ljóst fyrir. 


mbl.is Kórónudýfa í kauphöllinni í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með svipuðum rökum má afskrifa ýmsar varúðarrástafanir í flugi.

Það eru rýr rök gegn varúðarráðstöfunum varðandi COVID-19 veirunni, að það séu fleiri sem deyi úr venjulegri flensu.  Með sams konar rökum mætti mæla gegn ráðstöfunum vegna flensunnar á þeim forsendum að fleiri deyi úr krabbameini. 

COVID-veiran er einfaldlega viðbót við fyrri veirusjúkdóma og þar að auki er ekki fáanlegt neitt bóluefni við henni. 

Til samanburðar má benda á þær varúðarráðstafanir, sem gerðar eru í íslensku farþegaflugi varðandi þann möguleika að flugvélin lendi á sjó eða vatni af einhverjum orsökum. 

Farþegum er í hverju flugi er kynnt rækilega hvernig hann eigi að bregðast við ef slíkt atvik gerðist, en samt hefur enginn Íslendingur hefur síðustu 69 ár farist vegna þess að flugvél hafi lent í sjó eða vatni. 

Sem betur fer hefur ekki komið fram gagnrýni á það að vera að "ala á ótta" meðal farþega með því að sýna rétt viðbrögð við hugsanlegri vá, jafnvel þótt litlar líkur séu á henni. 

Einn Íslendingur fórst með Airbus risaþotu sem hrapaði í Suður-Atlantshaf fyrir rúmum áratug, en hún hrapaði lóðbeint niður úr 40 þúsund feta hæð og sundraðist í brotlendingunni á 700 kílómetra hraða, svo að enginn hefði bjargast í því slysi. 


mbl.is Mikilvægt að gera ekki lítið úr hlutunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Óskar tilkynnti frestun á 50 ára afmælistónleikum sínum fram á haust.

Eins og búast mátti við voru 75 ára afmælistónleikar Gunnars Þórðarsonar afar vel heppnaðir og eftirminnilegir. Páll Óskar Hjálmtýsson var meðal flytjenda tónlistarinnar, sem stóðu sig afar vel, og var hann leynigestur.

Ekki var að spyrja að magnaðri frammistöðu hans, en hann greindi frá því, að hann hefði ákveðið að fresta fyrirhuguðum 50 ára afmælistónleikum sínum vegna COVID-veirunnar fram á haust. 

Miðað við frammistöðu hans í kvöld má búast við því að þeir tónleikar verði meiriháttar. 


mbl.is Kórónuveiran leikur skemmtikrafta grátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð og ótti eru orð sem lýsa mismunandi hugarfari og nálgun.

Á síðustu árum hefur sá árangur náðst í farþegaflugi í heiminum, að það koma ár þer sem engin banaslys verða. Þessi mikli árangur hefur náðst með því að leggja áherslu á að skapa öryggi með ráðstöfunum, sem byggja á því að rannsaka til hins ítrasta slys og óhöpp til þess að geta lært af reynslunni og með rannsóknum og aðgerðum til að fyrirbyggja slys. 

Svipað má segja um þann árangur slysavarna hér á landi, að það koma ár með engu banaslysi á sjó. 

Sumir telja að það sé neikvætt að stunda slíka varúð, því að hún byggist á ótta, og ótti eyðileggi hinn nauðsynlega eiginleika að njóta hvers augnabliks og hamingju í núinu. 

"Hvað, eru hræddur eftir áratugi á sjó?" var eitt sinn sagt við mág síðuhafa, þegar hann vakti í foráttuveðri máls á ófremdarástandi um borð í öryggismálum báts, sem hann var vélstjóri á. 

Í svarinu við ábendingu mágs míns fólst neikvæð afstaða til slysavarnarmála sem virkar letjandi á aðgæslu og öryggisráðstafanir. 

En árangur af slysavarnar- og öryggisaðgerðum byggjast á því að hugsa jákvætt til varúðarráðstafana, því að þær eru grundvöllur þess að hægt sé að njóta hvers dags í sem hættuminnstu umhverfi.

Þetta er spurning um hugarfar og nálgun. Jákvæð varúð stuðlar að því að auka öryggi og bægja með því burt ótta.  


mbl.is „Það eru ekki teknir neinir sénsar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanleg hamhleypa og vinur í háskaferðum.

Síðuhafi getur borið um það vitni hvílíkur áhlaupamaður og eldhugi Ragnar Axelsson hefur verið í gegnum áratugina. Eldgos, flóð og hvers kyns hamfarir, sem hann hefur farið til viðfangs í ljósmyndaöflun sinni, skipta tugum, já jafnvel hundruðum. 

Það segir sitt um stöðu hans, þegar staða myndatökunnar var einna best, að eftir þau mistök á Súðavík að leyfa engar myndatökur þar á þeim forsendum, að slíkt væri alltof viðkvæmt, náðist samkomulag á Flateyri haustið eftir, að tveir myndatökumenn fengju að fara inn á svæðið, annar til að taka ljósmyndir fyrir blöðin, en hinn til að taka kvikmyndir fyrir sjónvarpsstöðvarnar, og skyldu þessi fjölmiðlar hafa jafnan aðgang að myndunum. 

Valið segir sitt:  Ragnar Axelsson tók myndir fyrir blöðin og Friðþjófur Helgason fyrir sjónvarpsstöðvarnar sem þeir menn, sem helst væri hægt að treysta fyrir þessu viðkvæma en mikilvæga verkefni. 

Þegar skoðaðar eru alþjóðlegar bækur með bestu blaðaljósmyndum síðustu aldar sést vel hve óhemju mikilvægt hlutverk þeirra er. 

Ein ljósmynd segir stundum meira en þúsund orð eða þúsund kvikmyndarammar. 

Dæmi sem flestir þekkja er myndin af Ali stendur yfir föllnum heimsmeistara og manar hinn fallna til að standa upp aftur. 

Hér á landi má nefna mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourquis pas?, þar sem þau liggja hlið við hlið í fjörunni í Straumfirði með leiðangursstjórann heimsfræga fremstan, en þessa mynd má telja mögnuðustu íslensku blaðamyndina á síðustu öld. 

Það væri hægt að skrifa óralangan pistil um RAX og undraverða myndatökuhæfileika hans, kryddaða sögum af ótal fréttaferðum, þar sem notið var þeirra forréttinda að fljúga í samfloti við hann á vettvang stórviðburða og náttúruhamfara. 

Ragnar hefur verið brautryðjandi í fremstu röð á alþjóðavettvangi í myndatökum á norðurslóðum og þegar vettvangurinn er orðinn svona margfalt stærri en sá íslenski, er skiljanlegt að hann verði að forgangsraða á þann hátt sem hann hefur tekið ákvörðun um.

Síðuhafi geymir minningar um ótal svaðilfarir með honum í hálfa öld með söknuði og þökk og óskar honum góðs gengis í hólmgöngum við nýjar áskoranir. 

 

 


mbl.is Þarf að drepa mig til að ég tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíllinn sem braut sér leið til velgengni á eigin verðleikum.

Fyrir aldamót voru línurnar þannig í bílaheiminum, að flokkur meðalstórra dró heiti sitt af VW Golf og var kallaður Golf-flokkurinn í Evrópu. Toyota var með öflugan bíl, Corolla, sem var aðeins stærri en Golfinn, en í flokki smábíla náðu Toyota Starlet og Tercel aldrei að skáka Vw Polo, og virtist þessi öflugasti bílaframleiðandi heims á þessum árum ekki hafa nægan áhuga á smæstu bílunum. 

Það var að sumu leyti skiljanleg afstaða, því að í þessum lægsta verðflokki er hlutfallslegur gróði bílaframleiðenda einna lægstur vegna knappra fjárráða kaupenda, en bílar í miðflokki hins vegar gróðavænlegastir. Toyota Yaris 2000.

Það sætti því tíðindum þegar Toyota kúventi 1999 með smábílnum Yaris, þar sem búinn var til smábíll með nýju útliti, sem gaf honum sterk einkenni, en þar á ofan var þessi netti, litli og einfaldi bíll bæði vandaður og betri tæknilega en Starlet og Tercel höfðu verið. Toyota Yaris 2018

Yaris þurfti að keppa við afar góða bíla annarra framleiðenda í þessum stærðarflokki, og undruðust sumir kjark Toyota að hasla sér völl með svo smáum bíl. 

Mér hefur persónulega alltaf þótt hann frekar ljótur, en það lagaðist stórlega á næstu kynslóð hans þar sem hönnuðirnir tóku forystuna í útlitshönnun. 

En Yaris vann smám saman á, ekki síst eftir að 2. kynslóð og 3. kynslóð tóku við og bílinn var bæði stækkaður örlítið og útlit hans bætt til muna.

Með stækkuninni nálgaðist hann Polo að stærð, og í nýjustu útgáfunni núna heldur hann sig í meginatriðum aðeins fyrir neðan Polo að lengd en að öðru leyti í þeim stærðarflokki.Toyota Yaris 2020  

Smám saman varð Yaris að svipuðu heiti í flokki ódýrra bíla og Golf var í Golf-flokknum. 

Og ekki bara það, hann varð að tákni á borð við Volkswagen Bjölluna á sínum tíma.  

Menn tala um að þetta og hitt geti fólk gert á sínum Yaris. 

Það er ekki lítill árangur hjá bíl, sem var nánast óþekktur í upphafi ferils síns þar sem hann þurfti að brjóta sér leið til velgengni í keppni við skæða og gróna keppinauta. 

Í nýjustu kynslóð bílsins falla framleiðendur hans ekki í þá gryfju að stækka hann óhæfilega, heldur halda honum á svipuðum slóðum og fyrr þannig að hægt er að bjóða hann sem fyrr með 998 cc vél, og er það vel. 

 


mbl.is Toyota forsýnir nýjan Yaris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný tegund, það er aðalatriðið.

Ýmsir hafa velt vöngum yfir því hvort ástæða sé til að taka COVED-19 veiruna eins alvarlega og gert er. Þeir benda á, að á hverju ári deyji tugþúsundir fólks víða um lönd úr flensu og að hér á langi deyi líka margir í venjulegum inflúensufaröldrum. 

En síðustu orðin, "venjulegum inflúensufaröldrum" grípa einmitt á sérstöðu málsins, COVE-19 er einfaldlega ný tegund með engum möguleikum til bólusetningar og óvissa þróun veirunnar, til dæmis með stökkbreytignum. 

Af þessum sökum verður að vera á tánum varðandi þetta mál, sem nú hefur meiri áhrif en nokkurt annað, hvað sem síðar verður. 


mbl.is Komnir yfir topp flensufaraldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baulan, einn af stöðum til eflingar hleðslustöðvarnetsins?

Í ýmsum athugunum á hleðslustöðvaneti landsmanna hefur komið í ljós, að þétta má þetta innviðakerfi víða, og að það ætti að verða eðlilegt í ljósi þess að rafbílum á eftir að fjölga og þar með eftirspurn eftir orku á öllum stöðvum. VW e-Up! Hleðslustöð

Sem dæmi má nefna leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þar hafa Borgarnes, Staðarskáli, Blönduós og Varmahlíð verið augljósir staðir fyrir öflugar stöðvar, en af ýmsum orsökum er bagalegt, ef kerfið er ekki þéttara, því að áfangarnir eru mislangir. 

Milli Borgarness og Staðarskála eru 90 kílómetrar, sem getur verið fulllangt í vissum ferðum, svo sem á bílum með litla drægni og langan hleðslutíma. Tazzari á hleðslustöð

Ódýrustu bílarnir sem framleiddir er á heimsmarkaðnum núna myndu eiga auðveldara uppdráttar ef stöðvunum er fjölgað. 

Miklu myndi breyta ef við Bauluna og í Víðihlíð yrði byggðar öflugar stöðvar, því að þá myndi leiðin milli Borgarness og Staðarskála styttast um 20 kílómetra. 

Víðhlíð er mun nær miðju leiðarinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar en Staðarskáli og Blönduós. 

Þess ber að gæta, að drægnin sem fæst á hraðhleðslustöðvum er 20% minni en með lengri hleðslu, svo sem á upphafsstöðum ferðar. 

Þannig eru 92 kílómetrarnir frá Akureyri með hámarks drægni auðveldari en 90 kílómetrarnir á milli Staðarskála og Borgarness, þar sem notast verður við hraðhleðslu í Staðarskála.   


mbl.is Skeljungur kaupir rekstur Baulunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn eilífi bardagi í lífríkinu.

Saga mannkynsins og lífríkisins almennt er vörðuð átökum á milli lífvera, stórra sem smárra. 

Þegar stórstígar framfarir urðu um miðja síðustu öld í baráttunni við skæðustu sjúkdóma þess tíma, svo sem berkla, mænusótt og mislinga, fengu margir á tilfinninguna að læknavísindin gætu sigrast á og útrýmt öllum sjúkdómum og kvillum. 

En undir lok aldarinnar kom í ljós, að einkum tvennt gæti verið í vegi fyrir þessu; annars vegar aðlögunarhæfni sýkla og veira og hins vegar breytingar á þeim og tilkoma alveg nýrra, líkt og varð með HIV-veiruna. 

Hluti af þessu eru stökkbreytingar á þekktum veirum, sem valda farsóttum. 

Einnig hin harði og tvísýni bardagi við sýkla sem þróa með sér ónæmi við lyfjum, svo að úr verður stanslaust kapphlaup á milli lyfjaframleiðenda og æ öflugri sýkla. 


mbl.is Kórónuveiran hefur stökkbreyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins konar risa Dyrhólaey í skýjunum.

Í ljósaskiptunum um klukkan hálf átta í kvöld tók risastór skýjabakki lengst vestur á Faxaflóa á því að búa til risaklakk, sem tók á sig mynd eins konar Dyrhólaeyjar úr skýjum með risastóru gati, sem þó náði ekki niður í sjó.

Erfitt var að átta sig á hæð þessa fyrirbæris, en kannski hægt að giska á 3000 metra hæð, tvo Snæfellsjökla hið minnsta.  Skýjagat. 1.

Myndirnar tvær voru teknar af fyrirbærinu, sem hvarf síðan á um það bil stundarfjórðungi.

Án þess að við því yrði spornað blasti verslun Bonus við Spöngina svo vel við á neðri myndinni, að halda mætti að þetta hefði komið svona fram sem auglýsing fyrir verslunina. 

En sú var auðvitað alls ekki hugsunin. Skýjagat 2.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband