Því ríkara samfélag, því meiri missir þess, sem ekki var til fyrir 75 árum.

Spænska veikin drap fleiri en féllu í Fyrri heimsstyrjöldinni, tugi milljóna manna á ferli sínum um löndin. Dánarhlutfallið var margfalt hærra en það virðist ætla að verða í COVID-19. 

Nú flýtur um fjölmiðla stórfljót frétta af missi hluta og þæginda, sem fólki finnst ómissandi. 

En fróðlegt gæti verið að bera það allt saman við aðstæður, tæki, varning og umsvif fólks fyrir 75 árum, en margir eru lifandi sem muna vel tímana árin eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk. 

Allar helstu nauðsynjavörur, svo sem matvörur, voru skammtaðar eftir stríðið og þegar verslanir fengu varning, sem hafði verið ófáanlegur í langan tíma, mynduðust langar biðraðir. 

Nánast algert innflutningsbann ríkti á bílum frá 1948-1955. Ekkert sjónvarp var, engir farsímar, engar tölvur.  Ekkert innanlandsflug var á Íslandi fyrr en að það tók að þróast hægt og bítandi eftir stríð.

Ef fólk þurfti að fara til útlanda varð að fara með skipum. Í kringum 1950 tók heilan sólarhring að aka torleiðið frá Patreksfirði til Reykjavíkur. Hringleið um landið opnaðist ekki fyrr en 24 árum síðar. Norðurleiðarútan var 12 tíma milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem þá var 480 kílómetra löng og meðalhraðinn á leiðinni 40 km/klst. 

Meirihluti gatna í Reykjavík voru malargötur og allir þjóðvegir landsins voru mjóir, krókóttir malarvegir, stór hlutinn bara ruddir slóðar.

Avextir voru aðeins fluttir inn um jólin. 

Ekkert löglegt íþróttahús fyrir handbolta var til á landinu og landsleikir í knattspyrnu voru leiknir á frumstæðum malarvelli. 

Símar voru ekki almenningseign fyrir 75 árum og enginn sími á hundruðum bæja um allt land, hvað þá rafmagn.  Heldur ekki heimilistæki eins og kæliskápar og uppþvottavélar. 

"Hvíti dauðinn", berklar, lagði fólk á öllum aldri í gröfina í þúsunda tali. Mænuveikifaraldrar voru skæðir, enda engin lyf til við mænuveiki þá. 

Ríkisútvarpið, eina útvarpsrásin, var aðeins í gangi hluta úr degi. Þrátt fyrir nær algeran skort á skemmtiefni í útvarpi og ekkert sjónvarp, undi æskan sér vel í leikjum utan dyra, sem lítill skortur var á, þegar uppfinningasemi og æskufjör skópu endalausa möguleika á sjálfsprottnum leikjum. 

Í dagbókum síðuhafa frá þessum tíma sést, að krakkar voru í þessum útileikjum alveg fram á 15 til 16 ára aldur. 

Svona gæti upptalningin verið óralöng á því sem ýmist skorti eða var ekki til. Samt minnist síðuhafi ekki þess, að þessi ár hafi verið eins óbærilega erfið og leiðinleg og virðist líklegt í augum nútímafólks. 

Fyrir flestum, sem þá ólust upp, voru æskuárin ljúf og yndisleg. 

Það gæti verið hollt fyrir okkur að leiða hugann að því nú. 

Og leiða líka hugann að því að hvort sem hér er farsótt á ferð eða ekki, skuli þúsundir, jafnvel tugþúsundir fólks, búa áratugum saman við óviðunandi sárafátækt mitt í öllum uppsveiflunum.   

 


mbl.is Heil öld frá viðlíka ógn og veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hógværri kröfu hafnað? Þýskaland ekki til sölu?

Því miður mátti búast við því að Evrópuríki myndu svara einhliða ákvörðun Trumps um ferðabann til Bandaríkjanna á aðra en Bandaríkjamenn sjálfa. Í ofanálag hafði Trump undanskilið Bretlandseyjaríkin í byrjun, enda kunnugur hnútum þar með megnið af starfsemi og eignum sínum erlendis er þar. 

Engum hefði átt að koma einhliða ferðabann Trumps á óvart, því að stefna hans er "to make America great again" og "America first."  Út á það var hann kosinn í kosningakerfi, sem bauð upp á mismunun á kosningarétti eftir efnahag og þau úrslit, að verða kosinn með næstum þremur milljónum færri atkvæðum en keppinauturinn. 

Skilningur hans á orðinu Ameríka gildir þó aðeins um Bandaríkin, því að Kanadamenn hafa verið í ónáð frá byrjun, þegar innflutningur á hagkvæmum farþegaþotum frá Kanada var í raun bannaður með ofurtollum. 

Lítilsvirðing hans á Evrópubúum hefur einnig verið staðföst stefna, samanber viðleitni hans til að hamla því að evrópskir bílar séu vinsælir vestra, jafnvel þótt þeir séu að stórum hluta framleiddir í hans eigin landi. 

Nýjasta útspilið er það, að vegna þess að bandarískum læknum hefur ekki tekist enn að búa til bóluefni við COVID-19, heldur aðeins þýskum læknum, hefur Trump gert hinum þýsku tilboð, sem ekki væri hægt að hafna; sem sé að borga offjár fyrir kaup Bandaríkjamanna á bóluefninu með því skilyrði að engri annarri þjóð verði gert kleyft að nota það. 

Gylliboð og hógvær krafa "to make America great again", efnd á kosningaloforðum. 

Í fullu samræmi við upphaflega ferðabannið, sem gilti ekki um bandaríska ríkisborgara. 

Ekki ósvipað kostaboði til Dana um að kaupa Grænland af þeim. Auðvitað eru drepsóttir bara bísniss eins og annað, og auður forsetans sýnir hvaða leið er vænlegust fyrir þjóð hans, eða hvað? 

Forsætisráðherra Dana reitti Trump til reiði þegar hún sagði að Grænlanda væri ekki til sölu og hann valdi henni hin verstu orð. 

Nú berst svipað svar frá Þýskalandi: Þýskaland er ekki til sölu. Allar þjóðir skulu eiga sama rétt á að nýta sér bóluefnið, ekki bara ein sjálfútvalin. 


mbl.is Ljósin slokkna smátt og smátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta Mazdan var "kei"-bíll. Gætum lært af Japönum en viljum það ekki.

Fá lönd eru þéttbýlli en Japan þar sem óvenju mikill hluti flatarmáls landsins fer undir stórborgir. Fyrir bragðið olli fjölgun bíla miklum umferðarvandræðum. Brugðu þeir því á það ráð um 1960 að ívilna mjög svonefndum kei-bílum, sem væru styttri en þrír metrar, mjórri en 1,30 m og með minni vél en 360 cc. Daihatsu Cuore

Þetta kerfi hefur verið við lýði í Japan síðan en að vísu verið breytt lítillega fjórum sinnum í þá átt að leyfa aðeins stærri kei-bíla. 

Síðuhafi á ennþá tvo kei-bíla, án númera, og er annar þeirra fjórhjóladrifinn Cuore, hvítur, eins og þessi á myndinni. 

Þeir dugðu afar vel árum saman, og á mynd af bækistöð við Hvolsvöll 2010 má sjá Cuore, sem þjónaði löngum þar sem gististaður, farartæki og vinnustaður. TF-FRÚ Hvolsvelli 10.5.2010 Eldgos.

Núna eru mörkin 3,40 m að lengd, 1,48 m á breidd og hámarksstærð hreyfils 660 cc og hámarksafl 64 hestöfl, því að framleiðendurnir fundu leið hvað varðaði afl hinna smáu véla með því að setja á þær forþjöppur. 

Vinsælustu kei-bílarnir hér á landi voru algengir á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar hámarksmálin í Japan voru 3,20 x 1,40.  Suzuki Alto og Fox og Daihatsu Cuore voru vinsælastir, og var sá síðarnefndi algert viðundur hvað snerti innanrými, jafn þægilegt að sitja og ferðast í aftursæti og í stórum evrópskum bílum. 

Síðasti kei-bíllinn var fluttur inn um síðustu aldamót, Daihatsu Cuore. 

En síðan verður að nefna það að einn kei-bíll, Suzuki Jimny, sem á tímabili bar nöfnin Fox og Samurai, er í raun enn fluttur inn til landsins, en hefur verið breytt þannig í Japan til útflutnings, að settar hafa verið utan á hann plastbreikkanir til að gera það mögulegt að lengja hásingarnar og breikka bílinn þannig um 12 til 15 sentimetra. 

Einnig settar í þessa bíla stærri vélar. 

Eitt atriði í kei-reglunum mættu aðrar þjóðir en Japanir taka upp; að ívilna bílum í sköttum og álögum eftir lengd þeirra, þannig að þeim væri umbunað eftir því hve stuttir þeir væru. 

Á þetta hefur síðuhafi margminnst un áraraðir og notað kei-bíla óspart, en styttri bílar myndu skapa mikið rými á götunum, sem annars er þakið plássfrekari bílum. 

En ávallt hefur verið talað fyrir daufum eyrum. 

 


mbl.is Fyrsta Mazdan stendur á sextugu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga slökkviliðsmenn að vinna með bundið fyrir augun?

Talsmaður aðgerða í sóttvörnum og almannavörnum í erlendu ríki sagði hin augljósu sannindi í sjónvarpi í dag þegar hann var að svara spurningum og ábendingum um gildi mismunandi aðgerða, að það sé erfiðara að hefta eld í umfangsmiklum eldsvoðum, ef slökkviliðsmennirnir eru með bundið fyrir augun.  Svipað væri háttað um sýnatökur og smitmælingar varðandi COVID-19 veiruna. Því fleiri og víðtækari mælingar, því betra, og þeim mun meiri og gagnlegri yfirsýn hægt að fá yfir viðfangsefnið og þar af leiðandi hægt að beita markvissari aðgerðum en ella. 

Svo að haldið sé áfram með samlíkinguna um eld, sem breiðist út, til dæmis í þéttbýlu hverfi, blasir við, að ef allir slökkviliðsmennirnir eru með bundið fyrir augun, sér enginn þeirra neinn eld, og því fleiri, sem þeir eru með bundið fyrir augun, því minna útbreiddur virðist þeim eldurinn vera útbreiddur. 

Þarna var þessi erlendi talsmaður í raun að lýsa því hvernig hundrað sinnum minni smitmælingar Bandaríkjamanna en hjá Íslendingum og Suður-Kóreumönnum fyrstu vikur faraldursins, sýndu að sjálfsögðu margfalt minni útbreiðslu vestra en hún var í rauninni.

Og varpaði ljósi á það hvernig ötular smitmælingar Íslendingar voru það fyrsta sem benti til þess að aðal smitsvæðið á þeim mælingadögum var á Norður-Ítalíu og í Ölpunum.  


mbl.is Hinn kosturinn væri að gera ekki neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama í gildi í 750 ár: Samgöngur við útlönd eru lífæð.

Í lok Sturlungaaldar um miðja 13. öld var svo komið, að Íslendingar gátu ekki af eigin rammleik haldið uppi samgöngum milli Íslands næstu nágrannalanda. 

Skefjalaus rányrkja skóga og gróðurs og linnulaus ófriður innanlands gerði það óhjákvæmilegt að leita á náðir Norðmanna um að tryggja skipasamgöngur og útvega vald utan frá til að slá á ófriðarbálið. 

Misjafnt var hve vel hið erlenda vald rækti að standa við skilmálana sem Íslendingar höfðu samið um. 

Þannig barst Svartidauði ekki til Íslands um miðja 14. öld vegna þess einfaldlega að ekkert var siglt til og frá landinu í þau tvö ár sem drepsóttin stráfelldi íbúa annarra þjóða. 

1402 barst sóttin síðan til Ísland og felldi helming landsmanna. 

Nú má sjá því haldið fram á samfélagsmiðlum að allar þjóðir heims eigi að grípa til þeirra ráða ao múra sig inni hver og ein og leggja niður allar samgöngur við aðrar þjóðir. 

Með ólíkindum er að nútímafólk skuli trúa á slík firn, ekki hvað síst hér á landi, þar sem samgöngur við útlönd eru slík lífæð þjóðarbúskapar okkar, að þðrf landsmanna við gerð Gamla sáttmála bliknar í samanburðinum. 

Því er ástæða til að taka undir það sem Styrmir Gunnarsson skrifar í pistli sínum um þetta mál og málefni íslenskra flugfélaga, sem við verðum að hlúa að og rækta eftir bestu getu.  

Sumir þeir, sem gæla við byggingu múra á milli þjóða sem lausn allra vandamála, segjast halda mjög fram gildi fullveldis okkar, en virðast ekki átta sig á því að yfirráð okkar yfir þeirri lífæð og undirstöðu sem flugið er, er forsenda fyrir raunverulegu fullveldi okkar og velferð og skóp það efnahagsundur, sem reif okkur upp úr öldudal Hrunsins 2008.

Einn bloggarinn notar orðið "skordýr" um ferðafólk almennt og hvetur til þess að þessu meindýrsfyrirbæri verði útrýmt um alla framtíð. 

Það sýnir sérkennilega sýn á fólk að líkja því við skordýr eða rottur. 

Það gerði valdamikill maður fyrir 80-90 árum með hörmulegum afleiðingum. 


mbl.is Mikil óvissa hjá Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir eldri og viðkvæmari varðir og fráleitt að múra þjóðir inni til framtíðar.

Í heila viku hefur það verið meginstefið í upplýsingum sóttvarnarlæknis okkar að einbeita sér að því að verja þá sem eru með veikt mótstöðuafl, svo sem vegna veiklaðra öndunarfæra eða aldurs, og einnig verði séð til þess, að útbreiðsla COVID-19 dreifist nægilega á næstu vikur og mánuði, að toppurinn fari upp fyrir það sem heilbrigðiskerfið ræður við . 

Þeir, sem trúa á það að þjóðir eigi að reisi um sig múra til framtíðar og stöðva allar samgöngur yfir landamæri, sem geti verið smitleiðir, fara nú sumir mikinn á samfélagsmiðlum.

En augljóst er að svo hrikalegar aðgerðir muni valda gríðarlegum vandræðum, ekki bara með þeirri kollsteypu í því sambýli þjóða og heildarvelferð mannkyns, sem heimurinn er nú að verða, heldur lík vegna þess að fyrirfram er ekki hægt að spá því, hvernig hver farsótt smitast. 

Sem dæmi um það má nefna að Stóra-Bóla, sem drap þriðjung Íslendinga 1707-1709 barst með skipi frá Kaupmannahöfn til Íslands með fatnaði.  


mbl.is Skimun ÍE bendir til að 1% landsmanna beri veiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svæði með eldgosasögu.

Eftir að nútíma mælitækni hefur verið tekin í notkun í stórauknum mæli á hinum eldvirka hluta Íslands hefur komið í ljós, að í línu norður frá vestanverðum og norðvestanveðum Vatnajökli ef skjálftasvæði, sem teygir sig um Öskju norður fyrir Herðubreið, þar sem nú er skjálftahrina.  Herðubreið,Jökulsá á Fjöllum

Í skjálftahrinu, sem hófst sumarið 2007 við Upptyppinga færði hún sig rólega norður eftir Krepputungu og endaði skammt fyrir norðan Herðubreið. 

Svæðið norðan Herðubreiðar á sér þekkta eldgosasögu í kjölfar Öskjugossins mikla 1875, en þá gaus í Sveinagjá.  

Sjálf er Herðubreið, þjóðarfjallið, stórt eldfjall, sem gaus undir ísaldarjökli, og má lýsa með þessum línum úr ljóðinu "Kóróna landsins": 

 

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís

fjötruð í jökulsins skalla

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, 

öskunni spjó og lét falla. 

Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís; 

svo frábær er sköpunin snjalla. 

Dýrleg á sléttunni draumfögur rís

drottning íslenskra fjalla!  

 

Að sjá slíkan tind

sindra í lind! 

Og blómskrúðið bjart 

við brunahraun svart!

 

 


mbl.is Jarðskjálfti 3,2 að stærð norður af Herðubreið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar fauk þetta vildarsvæði Trumps.

Yfirgnæfandi umsvif og eignir Donalds Trumps eru á Bretlandseyjum og má ætla að það hefði komið sér vel fyrir hann að halda Stóra-Bretlandi og Írlandi utan við ferðabannið mikla. 

En það tókst ekki nema í nokkra daga að viðhalda flugfrelsinu þaðan yfir Atlantshafið og nú hefur líka verið sungið "Lok, lok og læs og allt í stáli" um þessi eylönd, sem hafa verið svo gjöful fyrir hann.  

 


mbl.is Trump útvíkkar ferðabannið til Bretlands og Írlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknir og upplýsingar eru grundvöllur árangurs í heilbrigðismálum.

Kórónaveikifaraldurinn, sem nú skekur þjóðir heims, hefur varpað ljósi á það grundvallaratriði árangurs í heilbrigðismálum og lækningum, sem rannsóknir og upplýsingar, byggðar á þeim, eru í því að auka heilbrigði. lenga mannsævi og draga úr áhrifum sjúkdóma. 

Rétt eins og bifreiðaeigendur sinna skyldu um reglubundnar skoðanir á bílum sínum, er slíkt enn mikilvægara gagnvart heilsu þeirra. 

Síðan síðuhafi fékk réttindi til atvinnuflugs fyrir 53 árum, fylgir því skylda til að fara í tíðar reglubundnar og vandaðar heilbrigðisskoðanir. 

Síðustu áratugina hafa þetta verið tvær ítarlegar skoðanir á hverju ári, og enda þótt þetta sé eðlilega mun dýrara en hjá þorra fólks, hefur gildi þess sannað sig, þegar komið hafa í ljós atriði, sem annars hefðu leynst miklu lengur og haft mun verri afleiðingar. 

Þetta er að vissu leyti hliðstætt þeirri aðferð Bandaríkjamanna fyrstu vikur faraldursins, að rannsaka aðeins örfáa heima fyrir, og fyrir bragðið fá það augljósa út, að það væru miklu færri tilfelli sem fyndust þar í landi en til dæmis hjá okkur Íslendingum. 

Hinar augljósu afleiðingar urðu auðvitað þær, að því minna sem vitað var um útbreiðslu sjúkdómsins vegna skorts á aðgerðum og rannsóknum, því betur gat hann leynt á sér og skapað falskt öryggi. Kannski vegna þess að nafnið er það sama og á mexíkóskum drykk og sjúkdómurinn "made in China"?

Og nú munar ekki lítið um það að eiga mann eins og Kára Stefánsson, sem komst einu sinni á lista yfir 100 áhrifamestu lækna heims og hefur heldur betur tekið til hendinni, náð að skima jafn marga Íslendinga á dag og Bandaríkjamenn, þúsund sinnum stærri þjóð, skimuðu í upphafi. 


mbl.is Aðrar þjóðir líti til viðbragða Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað yrði sagt, ef aðeins ellefu sýni hefðu verið tekin á Íslandi?

Ellefu þúsund sýni í Bandaríkjunum samsvara ellefu sýnum á Íslandi, ef miðað við fólksfjölda landanna, því að Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.

En Íslendingar hafa tekið hundrað sinnum fleiri sýni en ellefu, og staðið sig hundrað sinnum betur en Bandaríkjamenn, sem Trump gumaði af í upphafi að væru með besta kerfið í heiminum!

Suður-Kóreumenn hafa tekið 190 þúsund sýni eða 19 sinnum fleiri en Bandaríkjamenn, og miðað við stærð þessara tveggja þjóða; - í Suður-Kóreu búa 50 milljón manns; - hafa Suður-Kóreumenn verið meira en hundrað sinnum duglegri en Bandaríkjamenn við framkvæmd þessarar forsendu fyrir andóf gegn veikinni. 

Veikinnar varð vart á svipuðum tíma í Bandaríkjunum og í Suður-Kóreu, en í stað þess að taka til hendinni strax af festu og afli, eins og Suður-Kóreumenn gerðu, lét Trump reka á reiðanum.      


mbl.is Viðurkennir mistök bandarískra yfirvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband