"Munich" heitir reyndar Munchen. Hvað næst? "Turin" í staðinn fyrir Torino?

Daður margra og snobb hér á landi fyrir hinni heilögu ensku tungu er stanslaust og birtist í fjölbreytilegustu myndum, til dæmis í dag í frétt um rafbílaframleiðslu Smart bílaframleiðandans.  

Það er orðin lenska í tali um íþróttir að tala um að hitt og þetta sé á þessu og þessu leveli og á þeim vettvangi og í tali um veður er orðið stig að hverfa og víkja fyrir levellum og gráðum. 

Margt fjölmiðlafólki virðist telja sig knúið til að þýða nöfn borga í löndum, þar sem enska er ekki þjóðtunga, yfir á ensku og tala um Munich, Cologne og Turin í stað nafnanna Munchen, Köln og Torino. 

Í dag er það Munich sem kynnt sem borg þar sem bílasýning er haldin árlega. 

Maður þarf kannski að búa sig undir að Reykjavík og Hafnarfjörður verði nefnd Steam inlet og Harbour fjord. 


mbl.is Smart kynnir nýjan bíl og hefur samstarf á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónvarpstæki geta víst líka sprungið.

"Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni." Þannig hafa margar fréttir hljóðað síðan rafmagnið hélt innreið sína í líf nútímafólks. 

Þegar sjónvarpstæki fóru að verða á hverju heimili kom að því að þau tækju upp á því að springa og valda brunatjóni.  

Líklegt er að hver þau ný tæki, sem ganga fyrir rafmagni eða eldfimu efni, geti valdið bruna. 

Slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu marg ítrekar að hægt sé að minnka brunahættuna verulega af rafknúnum hlutum með því að hafa öll tengitæki í fullkomnu lagi og huga vel að því þegar þau eru í sambandi séu þau á skásta staðnum, sem til þess finnst. 

Við það má bæta, að þegar verið er að hlaða tækin, sé það ekki látið taka meiri tíma en gefið er upp að nægi, og að þau séu helst ekki inni í íbúðum og helst í sjónfæri við fólk. 


mbl.is Varhugavert að hlaða rafmagnshlaupahjól í íbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug skekkja og misvægi orðin föst.

Núverandi kjöördæma- og kosningafyrirkomulag hefur ekki ráðið við það hlutverk, sem því var ætlað, að tryggja jöfnuð í atkvæðavægi á milli flokka. 

Hæsti þröskuldur í Evrópu er sannkallaður ranglætisþröskuldur þar sem heilu framboðið detta inn og út af þingi vegna örsveiflna. 

Það er arfa óréttlátt að kjósandi sem býr við gangaenda Hvalfjarðarganga hafi hátt í þrisvar sinnum meira vægi atkvæðis en kjósandi, sem býr á Völlunum sunnan Hafnarfjarlægð í álíka akstursfjarlægð frá Austurvelli. 

Það er þar að auki ekki boðlegt að sú staða geti komið upp að atkvæði fleiri kjósenda en nemur öllum kjósendum í Norðvesturkjördæmi detti "dauð" niður ef nokkur framboð, sem eru rétt neðan við 5 prósenta þröskuldinn, detta "dauð" niður. 


mbl.is Vinstri sveifla þegar vika er eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setið uppi með ranga ákvörðun í upphafi.

Undanfarin ár hafa þær raddir orðið áberandi sem krefjast þess að gerð verði göng frá Siglufirði yfir í Fljót til þess að stytta leiðina frá Siglufirði yfir til Skagafjarðar og þar með leiðina til Reykjavíkur og þess hluta landsins, sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar býr. 

Meira að segja bregður fyrir kröfum aftur í tímann um að gera þessi göng, að þau hefðu átt að koma á sama tíma og jafnvel á undan Héðinsfjarðargöngunum. 

En það er ansi seint í rassinn gripið og úr því að menn vildu endilega leiðina um Eyjafjörð suður er hætt við að setið verði uppi með ranga ákvörðun í byrjun. 

Enda er vegarbót milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur orðin mjög brýn. 

Heyra má sömu menn halda þessu fram um göngin milli Siglufjarðar og Fljóta og á sínum tíma máttu ekki heyra neitt annað nefnt en Héðinsfjarðrgöngin og vildu ekki sjá þá lausn, sem hefði falist í svonefndum Fljótagöngum. 

Til þess að reikna þau út af borðinu var gert ráð fyrir að þau næðu langt niður undir sjávarmál í hæð gangamunnans Fljótamegin. 

Fljótagöngin svonefndu hefðu strax í upphafi opnað trygga hringleið um Tröllaskaga, og í heildina tekið hefði ávinningurinn af styttingu leiðarinnar frá Siglufirði vestur um til Skagafjarðar og suður verið mun meiri en þeir tiltölulegu fáu kílómetrar sem var styttra þá leiðina til Ólafsfjarðar heldur en um Fljótagöng.  


mbl.is Hefði getað farið mjög illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt að telja andóf gegn tekjuskerðingargildru aldraðra þjófnað frá ríkum.H

Að undanförnu hefur verið umræða um það í kosningabaráttunni, hvernig eitthvert útsmognasta skattakerfi heims beinist að því að halda öldruðum í fátæktargildru á Íslandi.´

Framboðin hafa því sett umbætur í þessum efnum í stefnu sína, líka flokkur fjármálaráðherra sem lofar breytingu á þessu í áberandi sjónvarpsauglýsingum; að lagfæra þetta. 

Þá bregður svo við að á víðlesinni bloggsíðu er þvi haldið fram, að slík lagfæring jafngildi því að aldraðir og öryrkjar vilji stela frá hinum ríku; þetta sé "vasaþjófnaður vinstri manna," og er hnykkt á þessari skoðun með því að fullyrða að gamla fólkið sé aumingjar, sem vilji vera aumingjar sem ekki nenni að vinna, og að flokkar, sem vilji auka eitthvað skattheimtu á allra ríkustu skattgreiðendurnar, vilji framleiða sem flesta aumingja!

 


mbl.is Stöðva þarf auðsöfnun fárra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögðin stundum langt umfram tilefni.

Það er ekki aðeins fólk erlendis, sem æsir sig langt umfram tilefni út af fréttum frá íslenskum eldstöðvum.  

Eitt besta dæmið var þegar hálendinu norðaustan Vatnajökuls var lokað af yfirvöldum síðsumars 2014 vegna meintrar hættu á hamfaraflóði í Jökulsá á Fjöllum, sem gæti klifrað upp mörg hundruð metra háa fjallgarða! 

Ekki þurfti annað en að líta á kort til að sjá, að þessi fjöll og fjallgarðar voru algerlega ókleyfir fyrir ána, jafnvel þótt um hamfarahlaup væri að ræða. 

Lokunin gilti í meira en mánuð, einmitt þann tíma sem veðurblíða var einstök á svæðinu og ferðamenn hefðu notið þess best. 

Fyrst svipað getur gerst æði oft af völdum Íslendinga, er ekki að undra að útlendingar geti ruglast í ríminu.  


mbl.is Eldgosaæfing í Öskju veldur æsingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki varþörf á aðgát gagnvart sívaxandi ásókn í virkjanir.

Virkjanaáform fara nú mikinn um allt land, og bæði friðun vatnasviðs Jökulfallsins á Kili og veiting náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti í dag bera keim af því. 

Sóst er eftir að reisa á annað hundrað vatnsaflsvirkjanir um allt land og vernd vatnasviðs Jökulfallsins snýst um sama vatnið og rennur um Gullfoss, sem Sigríður í Brattholti bjargaði á sínum tíma. 

Nýjasta aðferð virkjanasinna er að fara framhjá rammaáætlun með því að reisa 10 megavatta virkjanir, og skipta slík virkjanaáform mörgum tugum og stefna á annað hundraðið. 

Í Skaftárhreppi, sem er vettvangur andófs náttúrvirndarviðurkenningarinnar og andófs gegn stórsókn í þessu efni, eru Hólmsá, Skaftá og Hverfisfljót undir og byggist sóknin í virkjun Hverfisfljót á því að byrja á 10 megavatta virkjun neðarlega í ánni, og ef sú fótfesta fæst, verður hægt að taka afganginn með því að búta ána niður í jafnvel nokkrar 10 megavatta virkjanir. 

Að miða umhverfisáhrif virkjana við stærð túrbína er beinlínis fáránleg aðferð og lýsir vel einsýni virkjanasinna sem virðast ekki skilja að umhverfisáhrif fara ekki eftir túrbínustærð; sumar virkjanir með miklu afli kunna að valda mun minni umhverfisáhrifum en virkjanir með litlu afli. 

Búlandsvirkjun er heiti, sem breiðir yfir hið rétta eðli virkjunarinnar að virkja Skaftá, sem eins og Hverfisfljót, rennur yfir hraunin, sem runnu í Skaftáreldum og eru stórkostlega náttúruverðmæti óbeisluð. 

Í mati á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar er ekki minnst á það að fimm fallegir fossar í Skaftá ofan við Skaftárdal, verði þurrkaðir upp og einnig þurrkað upp hið einstaklega fagra hraunkvíslanet þar fyrir ofan.  

 


mbl.is Friðlýsti vatnasvið Jökulfalls og Hvítár gegn orkuvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr fjölbreyttum skóg af rafskútum að velja. Þúsundfaldar villur sjást í umfjöllunum.

Úrvalið af rafskútum verður sífellt fjölbreyttara og rauna úrvalið af hvers kyns rafknúnum farartækjum.rafskútur í Ósló 

Til eru skútur sem ná meira en hundrað kílómetra hraða og í yfirliti yfir tíu þær bestu í augnablikinu er sú besta að dómi reynsluakstursmannsins HiBoy Titan með 800 vatta rafhlöðu sem gefur líklega allt að 80 kílómetra drægni.  

Í frétt um rafskútu frá Ducati sem ber heitið Pro-I Evo Scooter er sagt að rafhlaðan sé 280 kílóvattstundir, sem er þrefalt meira en er í dýrustu rafbílum. 

Hér er augljóslega um þúsundfalda villu að ræða, enda er rafhlaðan í Ducati skútunni 280 vött. sem gefur líkast til varla meira en 20-30 kílómetra drægni.  


mbl.is Viðráðanlegur Ducati
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaup margra eldstöðva?

Áður en Surtseyjargosið og Heimaeyjargosin komu, var sagt að Helgafell væri útdautt eldfjall. 

Ef einhver hefði spáð eldgosi á Reykjanesskaga fyrir tveimur árum hefði verið hlegið að honum. 

Hins vegar hafa Grímsvötn, Hekla og Katla, einkum Grímsvötn, verið líklegust til að gjósa, enda eru Grímsvötn virkasta eldstöð á Íslandi. 

Nú hafa Askja og Öræfajökull bæst í hóp líklegra þáttakenda og þess vegna gætu fimm eldfjöll verið að störfum í einu á þessu ári eða því næsta.  


mbl.is Grímsvötn tilbúin að gjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ronaldo best þjálfaði knattspyrnumaður heims?

Það er langt síðan knattspyrnumaðurinn Christian Roaldo bar það svo vel með sér að vera hinn fullkomni íþróttamaður, að leiða mátti líkur að því að þar væri á ferðinni best þjálfaði knattspyrnumaður heims. 

Líkamlegt atgerfi hans, snerpa, kraftur, leikni og hraði bar vitni um ríkulegan sjálfsaga og rosalegt æfingakerfi.  

Sagan af mataræðinu í fjölmiðlum kemur ekki á óvart um það, að enginn taki honum fram hvað snertir þjálfun hans og þjálfunaraðferðir.  


mbl.is Ronaldo hefur áhrif á mataræði liðsfélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband