Vafasamt nýyrði og orð dagsins.

Á facebook hefur verið vakin athygli á nýyrði sem notað hefur verið í frásögnum af slysum, sem hafa falist í því að tappar á safaumbúðum hafa skotist upp í augu neytenda. 

Það er búið að innkalla umbúðirnar, því að þetta eru alvarleg slys með sjónskerðingu eða jafnvel blindu sem afleiðingar og því er akki sama hvaða orð eru notuð um svona slys. 

Því nýyrðið er svo nýstárlegt, að á facebook hefur verið spurt hvort þetta sé ekki orð dagsins.

En nýyrðið getur verið tvírætt, samanber þessa vísu: 

 

Fór á séns með bósa´og hlaut af klístrað kappa gys

kona ein, sem oft á böllum fór við happ á mis. 

Afleiðingar skapaði hið ógnar krappa ris,

óvelkomna þungun, skráð sem "safatappaslys."


Súrnun sjávar, stórmál fyrir Íslendinga, sem nær aldrei er nefnt.

Í allri umræðunni sem hefur verið vegna "40 þúsund fífla" sem kuldatrúarmenn segja að hafi farið á Parísarráðstefnuna 2015 hefur nánast aldrei verið minnst á súrnun sjávar. 

Ástæðan er sennilega ekki aðeins sú að hagsmunirnir sem í húfi eru vegna breytinga í efnasamsetningu sjávar eru miklu minni heldur en hagmunirnir varðandi hlýnunar andrúmsloftins, heldur einnig sú, að það hefur reynst auðveldara fyrir afneitarana, sem kalla ráðstefnugestina í París "40 þúsund fífl" að flækja umræðuna um lofthitannn með því að vefengja mælingar og rannsóknir "lélegra vísindamanna og falsara" og halda í staðinn fram mælingum "raunverulegra vísindamanna sem ekki láta glepjast af áróðri" svo að notað sé orðfæri Trump og ákafra fylgismanna hans hér á landi. 

Að mæla sýrustig og innihald sjávar og sýna fram á það að hafið drekkur í sig drjúgan hluta vaxandi koltrísýrings í andrúmsloftinu er hins vegar erfiðara að véfengja. En kannski verða rannsóknirnar á afleiðingum þess afgreiddar sem "lygar og falsfréttir." 

Fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð er það hins vegar stórmál að láta ekki súrnun sjávar verða þöggun eða afneitun að bráð. 

Um stórfelld áhrif á nytjastofna hér við land getur verið að ræða. 


mbl.is Súrnun hefur áhrif á allt lífríki hafsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar fengið við 70 ára gamalli spurningu?

Þegar ég er spurður hvað það sé sem ég sé helst hræddur við, er svarið einfalt: Köngulær. 

Sjúkleg hræðsla, beinlínis hlægileg, við skordýr sem sér um að halda flugum í skefjum, skordýr sem hefur þróað með sér stórkostlega verkfræðilega hæfileika við að spinna vefi sína. 

Þessi ótti hefur speglast í svari mínu við spurningunni um það af hverju ég vilji búa á Íslandi. 

Ástæðurnar hafa verið fimm. 

1. Ég er fæddur og uppalinn hérna

2. Það eru fátt um varasöm skordýr, að köngulónni einni undanskilinni. 

3. Ýsa,...

4. ...smjör...

5. ...og karföflur. 

1947, 48 og 49, þegar ég var heilu sumrin í Kaldárseli, var óttinn við köngulær það eina sem skyggði á. 

Af þeim var mikið í mosanum í hrauninu. 

Einhver mesta skelfing sem ég man eftir var þegar ég vaknaði við það eina nóttina að risastór könguló var að skríða yfir andlitið á mér.

Nú er hugsanlega, þótt seint sé, búið að rannsaka og finna út af hverju þessi ótti hefur stafað og maður verður strax ögn rólegri. 

Það var þá eðlileg ástæða fyrir óttanum eftir allt  saman en ekki eimhver niðurlægjandi óhemjuskapur.


mbl.is Óttinn við köngulær á sér skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum að leiðrétta rangfærsluna um "100% endurnýjanlega orku".

Í fyrsta bloggpistli þessarar bloggsíðu fyrir rúmum áratug var það rakið, hvernig orka gufuaflsvirkjana til raforkuframleiðslu væri ekki endurnýjanleg eins og staðhæft væri í síbylju hvarvetna hjá okkur, heldur væri þetta alrangt. Auglýsing LV (2)

Í forsendum gufuaflsvirkjana væri ekki gert ráð fyrir meiri endingu en í 50 ár, en það væri fjarri því að teljast sjálfbær þróun, næði ekki einu sinni endingu margra kolanáma. 

Þetta er í raun rányrkja, þegar horft er fram til næstu kynslóða. 

Síðan þá hefur þessi síbylja eflst og margfaldast. Svo langt gengur það, að það fyrsta sem blasir við erlendum ferðamanni, þegar hann gengur inn í inngang Leifsstöðvar er níu metra löng og þriggja metra há mynd þar sem þetta er fullyrt stórum stöfum:  Auglýsing Landsvirkjun

"Velkomin í land hinnar endurnýjanlegu orku."

Og vinstra megin á myndinni er smærri texti, svohljóðandi:

"Á Íslandi framleiðum við alla okkar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum." 

Tvær milljónir erlendra gesta á hverju ári ganga beint inn í þessa rangfærsllu á fyrstu metrum Íslandsferðarinnar og rangfærslan er það síðasta sem kveður grandalausan ferðamanninn þegar hann fer af landi brott. 

Og myndefnið, með stórfelldustu lemstrun einstæðrar náttúru, sem möguleg er hér á landi, er í hrópandi ósamræmi við ósnortna fegurð þess sem helst dregur erlent ferðafólk til landins!

Nú þegar hafa virkjanasvæðin Svartsengi-Reykjanes og Nesjavellir-Hellisheiði sigið um allt að 18 sentimetra og orkan dvínað um fjórðung. 

Ekki veit ég hve oft hefur verið fjallað um þetta mál hér á bloggsíðunni síðustu tíu árin með nákvæmlega engum árangri. 

2007 var ég 67 ára. Nú er ég 77 ára. "Hvað er þá orðið okkar starf í tíu sumur?"

Og miðað við árangurinn í þessi tíu ár virðist ekki mikil von til þess að þessari hraksmámanarlegu alltumlykjandi síbylju verði hrundið næstu tíu ár. 

Það eru því meiri líkur en minni til þess að ég verði ekki meðal lifanda eftir tíu ár.

Ég verð því að vera því viðbúinn að lifa ekki þann dag þegar sannleikurinn í þessu máli fái viðurkenningu. 

Merkilegt er hvað þessi rangfærsla er lífseig og færist jafnvel í aukana. 

Einungis er um það að ræða að nefna töluna 75 prósent í stað 100% og væri 75% talan meðal þeirra allra hæstu í heiminum. 

En, nei, lengi lifi rangfærslan stóra! 

 


mbl.is Stóriðjan beri kostnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar 125 cc flokkinn hér á landi.

Létt vélhjól með vélarstærðina 125 cc falla í sérstakan flokk úti í Evrópu eftir því sem mér skilst. Unglingar geta farið ári fyrr en ella að aka slíkum hjólum og er þessi flokkur stundum kallaður "æfingaflokkurinn." 

Þessi stærðarflokkur er talinn hagkvæmur vegna sérstöðu hans varðandi getu og hagkvæmni og að rétt sé að láta hann njóta þess þegar reynt er að liðka fyrir umferð og minnka umferðarteppur og umferðartafir af völdum fjölgandi og stækkandi bíla. Vespuhjól 125cc

Vélarstærðin ein gerir það að verkum að hámarkshraði þessara hjóla er í kringum hámarkshraðamörkin hér á landi, 90 km/klst og þyngdin er svipað öryggisatriði, yfirleitt á bilinu 100 - 130 kíló, en lengri og dýrari 125cc hjól geta orðið 160-180 kíló.

Af þessu tvennu, miklu lægri hámarkshraða og miklu minni þyngd, leiðir að þessi hjól eru bæði auðveldari í meðförum og hættuminni en stærri hjól og vegna hinnar sérstöku flokkunar þeirra eru þau víða langvinsælustu vélhjólin, enda sparneytustu hjólin á markaðnum með rauneyðslu á 2,2-2,4 innanbæjar en 2,4-2,7 á þjóðvegum. 

Fyrir þá, sem vilja hjól sem getur fylgst með umferðarhraðanum hvar sem er en er þó með hámarksöryggi, er þetta upplagður ferðamáti sem minnkar einn og sér eyðslu og kolefnisspor um meira en helming miðað við sparneytnustu bíla, sem eru fjórum til fimm sinnum dýrari og þyngri. 

Stærsti kostur vespulaga hjóla með góðri framrúðu er skjólið sem lagið veitir fyrir vætu og vindi. 

Þennan flokk vélhjóla vantar hér á landi, því að allt tal um einhverjar "séríslenskar aðstæður" sem geri svona flokkun ómögulega, er út í hött. 

Um það get ég borið vitni eftir rúmlega árs notkun hjóls af þessari stærð í hverri einustu viku að vetri og sumri. 

Hin mikla samkeppni vélhjólaframleiðenda í þessum flokki veldur því að úrval svona hjóla er mjög mikið.  

Léttustu hjólin eins og Honda Vision, Suzuki Adress og Yamaha deligth,  eru sum með um 110 cc 8-9 hestafla vélar, ná samt 85-90 km/klst hraða, eru um 100 kíló og myndu kosta allt niður í 350 þúsund krónur ný. 

Algengustu hjólin eins og Honda SH, PCX og Forza, Suzuki Burgman 125, Yamaha N-Max og Kawasaki J125 eru með 12-14 hestafla 125 cc vélar, ná 95-105 km/klst hraða og kosta 550-1100 þús krónur. ný. 

Dýrari hjólin eru 15-30 sm lengri en hin og kallast erlendis "sofa"soooters, vegna þess að með lengingunni verða hjólin þægilegri ferðahjól og með allt að tvöfalt meira farangursrými. 


mbl.is Lögbrot að aka aflmeiri bifhjólum á stígum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungi rafhlaðna er meginvandamál í notkun rafbíla.

Þungi rafhlaðna og vandinn við að viðhalda orku rafknúinna farartækja á ferðum þeirra er meginvandamálið, sem leysa þarf varðandi það akipta um orkugjafa. Renault Zoe.

Sem dæmi um þetta viðfangsefni má nefna, að í meðalstórum rafbíl á borð við Renault Zoe, sem hefur í reynd drægni upp að 250 kílómetrum, vega rafhlöðurnar 300 kíló. 

Ef þetta eldsneyti væri dísilolía í svipuðum bíl, þyrfti aðeins 8 kíló af henni til að skapa jafn mikla drægni. Á móti kemur að vísu að vélbúnaður og drifbúnaður rafbíls er miklu léttari en samsvarandi bíls, sem knúinn er jarðefnaeldsnayti, en samt nemur þungamunurinn í heild meira en 200 kílóum. BMW rafhjól

Ofan á þetta bætist, að fram að þessu hefur endurnýjun orkunnar á ferðalögum eða í daglegri notkun verið tímafrekari þegar um rafmagn er að ræða en þegar um jarðefnaeldsneyti er að ræða. 

Þessi munur fer þó minnkandi, og athyglisverð yrði sú lausn, sem þegar hefur verið framkvæmd í Tapei, stærstu borg Tævans, að skipta rafhlöðunum út á skiptistöðvum á svipaðan hátt og ferðafólk endurnýjar gaskúta á bensínstöðvum. 

Nafn tævanska fyrirtækisins, sem hefur sett upp skiptikerfi um alla Tæpei-borg og nágrenni hennar, er GoGoRo, og á kynningarmyndbandi þess fyrirtækis má sjá, hvernig fólk rennir á rafhjólum sínum upp að utisjálfsölum sem líkjast gosdrykkjasjálfsölum, setur greiðslukort í sjálfsalana, tekur út tvær hlaðnar rafhlöður og skiptir með þeim út tveimur tæmdum rafhlöðum í hjólinu. 

Þetta tekur innan við mínútu, - styttrri tíma en að setja bensín á bíl, og er að sjálfsögðu aðeins brot af hraðhleðslutíma rafbíla. 

Gallinn við þessa aðferð tengist þunga rafhlaðnanna, því að á rafbílum yrði heildarþyngd hinna útskiptu rafhlaðna of mikil til þess að þetta yrði hagkvæmt. 

Sem aftur leiðir hugann að því hve tveggja hjóla farartæki hafa yfirburði yfir fjögurra hjóla farartæki hvað þyngd snertir. 

Af tengdri frétt á mbl.is er erfitt að ráða hvort rafhlaðnaverksmiðja Northvolt sé stærsta verksmiðja í Evrópu, jafnvel stærri en stærstu bílaverksmiðjurnar í álfunni, eða hvort þetta sé stærsta rafhlöðuverksmiðja álfunnar. 

Hið síðarnefnda virðist líklegra. 


mbl.is Stærsta verksmiðja Evrópu í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liggur í augum uppi.

Það er svo gerólíkt að stjórna reiðhjóli eða vélhjóli miðað við það að stjórna bíl, að það liggur í augum uppi að noktun bílstjóra á snjallsímum veldur miklu fleiri slysum en notkun reiðhjólamanna eða vélhjólamanna. Bifhjól aftan á bíl

Þann tíma sem liðið hefur síðan ég skipti yfir í það að nota nær eingöngu rafreiðhjól og létt Honda vespuhjól til ferða, hef ég oft séð bílstjóra vera á kafi í símanotkun í umferðinni, en hvorki reiðhjólafólk né vélhjólafólk. 

Aðstæðurnar eru einfaldlega það ólíkar að niðurstaða sérstakra rannsókna á þessu sviði leiða afgerandi niðurstöðu í ljós. 

Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni vegur ölvun þyngst hjá hjólafólki, og banaslysatíðni hjá vélhjólamönnum er þrefalt meiri en hjá bílstjórum. 

Númer tvö er að vera ekki með lokaðan hjálm og númer þrjú að vanrækja að vera nánast sjúklega tortrygginn út í alla aðra í umferðinni og reikna með að þeir geti tekið uppá næstum því hverju sem er. 

Fjórða og fimmta atriðið er að búa yfir nógri færni og valdi á farartækinu og hafa tilskilin réttdindi, þar sem þeirra er krafist. 

Holland er frægt fyrir miklar hjólreiðar, enda landið einstaklega vel til þeirra fallið og rannsóknir þar í landi því vafalaust marktækar.  

Myndin var tekin í Hollandsferð í gær. 


mbl.is Snjallsímar sjaldan orsakavaldurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað gerðist 17. júní árið 2000.

Það getur skipt máli þegar jarðskjálftar verða að fyrstu upplýsingar séu sem nákvæmastar varðandi stærð og staðsetningu. 

Þegar stóri Suðurlandsskjálftinn varð 17. júní árið 2000 var sagt í fyrstu fréttum að hann væri 5,5 stig, sem var að mörgu leyti skrýtið, því að þar sem ég var staddur á flugvellinum á Tungubökkum með flugvél klára og allan nauðsynlegan myndavélarbúnað, fannst skjálftinn greinilega. 

Ef menn hefðu þá strax vitað að skjálftinn var í raun miklu stærri hefðu viðbrögð bæði mín og annarra kannski orðið önnur og gat þá skipt mestu máli að lögregla, læknar og björgunarsveitir vissu hvað var á seyði. 

Sjálfur gerði ég þau mistök að fljúga ekki strax af stað austur, taka þar myndir og fyrstu viðtöl og koma með þær til Reykjavíkur. 

Sjónvarpið hefði þá strax rofið útsendingu í stað þess að halda áfram að sjónvarpa fótboltaleik, sem ég man ekki lengur hver var. 

Yfirbragð viðbragða allra hefði orðið á aðra lund en varð. 

Þegar jarðskjálfti varð um miðja nótt 23. janúar varð bilaður jarðskjálftamælir til þess að ekki var hægt að miða staðsetningu jarðskjálftans út. 

Þess vegna kom það öllum algerlega í opna skjöldu þegar jörðin opnaðist við rætur Helgafells að austanverðu. 

Hvað sem segja má um kostnað við mælingar á ástandinu neðanjarðar og ofan á okkar mikla eldfjallalandi er óhætt að segja, að seint verði um of mikið af upplýsingum að ræða. 


mbl.is Skjálftinn mun stærri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttar upplýsingar skipta oft öllu´máli.

Á svokallaðri upplýsingaöld er oft bagalegt ef upplýsingar skortir eða upplýsingar eru rangar. 

Af því leiðir að í mörgum tilfellum er ýmist ekki hægt að taka réttar ákvarðanir eða að teknar eru ákvarðanir, sem eru rangar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram að Slysaskráningu Íslands sé svo ábótavant, að til vansa og vandræða getur verið.

Á þessari bloggsíðu hefur frá fyrsta pistli fyrir rúmum áratug verið bent á, að síbyljufullyrðining og auglýsingin á því að allar orkulindir Íslands séu "100% endurnýjanlegar" sé röng, og að það sé ekki hægt að réttlæta það að jafn stór fullyrðing sem er grundvöllur undir því hvernig við kynnum og auglýsum land okkar og þjóð sé til dæmis látin dynja á ferðamönnum frá því að þeir ganga eftir innganginum í Leifstöð með stóru Landsvirkjunarauglýsingunni þar til að þeir kveðja landið með því að ganga fram hjá sömu risamynd.

Í samræðum og samskiptum við útlendinga er þetta auðvitað oft nefnt og þá segi ég að rétt tala sé líklega nálægt 75%.

Af viðbrögðum þeirra sé ég, að sú tala er samt svo há, að athygli vekur.

Þess vegna er barnalegt af okkur að halda 100% tölunni fram.

Í sumum málum er gefin skökk mynd með því að sleppa því að nefna staðreyndir. Til dæmis er talað stanslaust um það í Teigsskógarmálinu hve hræðilegir fjallvegir hálsarnir í Gufudalssveit, Hjallaháls og Ódrjúgsháls séu.

Til þess að sjá þá í réttu samhengi er hins vegar nauðsynlegt að nefna, að á leiðinni milli Gilsfjarðar og Vesturbyggðar eru tveir fjallvegir í viðbót, Kleifaheiði og Klettsháls.

Kleifaheiði er hæstur fjallveganna á þessari leið, 402 metrar yfir sjó, og Klettsháls er 332 metrar.  En hinn ógurlegi Hjallaháls er álíka hár og Klettsháls, 336 metrar.

Eftir því sem ég best veit eru veður og færð oft verri á Klettshálsi en á Hjallahálsi, og Kleifaheiði er 66 metrum hærri en Hjallaháls.

Samt er aldrei minnst á nauðsyn þess að fara framhjá eða undir Kleifaheiði eða Klettsháls, enda búið að gera þessa fjallvegi betri en áður var og malbika þá.

Um alla nefndra hálsa liggja heilsársvegir og hægt er að lagfæra Hjallaháls og malbika veginn eða gera jörðgöng undir hann.

Ódrjúgsháls er með engu móti hægt að kalla hálendisveg því að hann er aðeins 160 metrar yfir sjó og telst því á skilgreindu láglendi hér á landi, álíka hátt yfir sjó og nýjustu hverfin við Vatnsendahæð í Kópavogi.

Vegarstæðið í austanverðum Ódrjúgshálsi er hins vegar afleitt og forneskjulegt, en vel er hægt að nota annað, nýtt og miklu betra vegarstæði.

Því er haldið fram að jarðgöng undir Hjallaháls yrðu svo miklu dýrari en vegur um Teigsskóg.

Auðvelt er að fá slíkt út með því að hafa gangamunnana í aðeins 40 metra hæð yfir sjó eins og gert er ráð fyrir í útreikningunum, en hitt er aldrei nefnt að með því að hafa munnana í 110 metra hæð, sem er ekkert meira en við Vestfjarðagöng og Norðfjarðargöng, verða jarðgöngin álíka dýr og vegur um Teigsskóg.

Burtséð frá því hver niðurstaðan verður í þessu deilumáli, er lágmarks krafa að allar réttar upplýsingar liggi fyrir.  

Framkvæmda- og virkjanasaga Íslands er full af svona málum og þegar hefur verið valdið mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum hér á landi með einu þeirra.

 


mbl.is „Við getum gert allt betur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifarík lýsing sérfræðings. Meira að segja fleiri eldgos!

Þrír ólíkir fundir eða þing þessa dagana hafa verið með sama megin viðfangsefnið, umhverfismál með, hlýnun jarðar og afleiðingar hennar.

Þetta voru fundur Alkirkjuráðsins fyrir viku, Evrópska dreifbýlisþingið í Hollandi í þessari viku og Umhverfisþing í Reykjavík í dag. 

Á fundi Alkirkjuráðsins var fyrirlestur Halldórs Björnssonar sérfræðings á Veðuðrstofu Íslands mjög áhrifaríkur, enda afar vel samsettur og fluttur.

Og yfirlýsing ráðsins um skyldu kirkna undir hatti ráðsins, sem eru með 500 safnaðarmeðlimi, til að beita sér í þessum málaflokki, bar þetta með sér. 

Þessi fyrirlestur og stefnumótun ráðsins hefði verið upplagt fréttaefni fyrir fjölmiðla. 

Fólk sperrti eyrun í umræðuhópi um þessi mál á Evrópska dreifbýlisþinginu í dag, þegar það fékk að vita um áhrifin, sem þegar sjást á Íslandi, til dæmis stórfellt tjón á vegakerfinu á Austurlandi þegar stórir hlýir og rakir lofmassar skella æ ofan í æ á landinu suðaustanverðu, minnkun, lækkun og létting jöklanna, sem veldur meðal annars hinu hratt stækkandi og djúpa Jökulsárlóni, sem á eftir að verða að firði og rjúfa hringveginn verði ekkert að gert og súrnun sjávar og breytingar á lífríki hans sem veldur dæmalausum dauða sjófugla. 

Enn magnaðra fannst þeim að heyra að létting jöklanna ylli því að landið undir þeim og næst þeim lyftist með minnkandi fargi og að afleiðingarnar yrðu fjölgun eldgosa. 

Evrópubúum er í fersku minni búsifjarnar í flugsamgöngum vegna gosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. 

Halldór Björnsson hafði greinilega mikil áhrif á viðstadda með hinum vel flutta fyrirlestri sínum á Umhverfisþinginu íslenska í dag eins og tengd umfjöllun á mbl.is ber með sér. 

 


mbl.is Víðtækar afleiðingar frekari hlýnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband