Er 14-2 sigurinn meira að segja engin huggun?

Í kvöld velta danskir fjölmiðlar sér upp úr óförum danska knattspyrnulandsliðsins á HM, rekja sögu þess aftur í tímann og draga þá ályktun að þetta hafi verið mestu vonbrigðin í sögu Danmerkur. 

Gleymdur er hinn einstæði sigur þeirra, 14-2 yfir Íslandi 1967, sem gæti verið verið huggun fyrir þá ef hann væri rifjaður upp.  

En, - æ, liðið fékk á sig tvö mörk í þeim leik.  

Þar lágu Danir í því, sem áttu svo yndislegan söng frá HM fyrir 26 árum;  "Vi er röde..."


mbl.is Mestu vonbrigði í sögu Danmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrátt fyrir stóraukna tækni geta svona dómar verið rangir.

Leikmaður fellur á afturendann í vítateigi og ber eðlilega hönd fyrir sig til þess að minnka fallið.

A þessu örstutta augnabliki sér hann ekki boltann og því síður er um nokkurn ásetning að ræða varðandi boltann; hvaða maður sem er hefði gert nákvæmlega það sama til þess að minnka höggið við fallið. 

Á myndum sést þetta vel, en samt fellir dómarinn rangan dóm, sem haft getur afdrifaríkar afleiðingar. 

Atvikið sýnir ekki gagnsleysi myndatökutækninnar, heldur er það þvert á móti dæmi um það að dómurum getur skjátfast. 


mbl.is Vítaspyrnudómurinn var rangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hið "öfluga fjórhjóladrif" óþarfi til þess að kalla bíl lúxus"jeppa."

"Nýi lúxusjeppinn" frá Mercedes-AMG er í kynningu sagður vera með "öflugu fjórhjóladrifi." 

Auðvitað ætti það ekki að vera að nauðsynlegt að taka þetta sérstaklega fram, en íslensk bílaumboð hafa nú gert slíka atlögu að notkun orða og skilgreininga varðandi bíla, að leitun er að öðru eins rugli. 

Búið er að fara svo illa með hugtakið "jeppi" að það er ekki aðeins orðið marklaust, heldur hreint skrum.  Sem dæmi má nefna, að þegar einn hinna nýju rafbíll kom á markað, var hann auglýstur sem "fyrsti rafjeppinn." 

Leitun er að meira öfugmæli, því að auglýsti bíllinn var aðeins með drif á framhjólum og ekkert lágdrif, hvað þá umtalsverða veghæð. 

Á facebook í dag mátti sjá auglýsingu fyrir ágætan bíl, þar sem því er haldið fram að hann sé "jepp"lingur með allt það sem prýða megi jeppa. 

Í hinum þýska Autokatalog 2022 eru tilgreindar átta mismunandi gerðir af þessum bíl og þess sérstaklega getið að hann sé aðeins fáanlegur með framdrif en alls ekki afturdrif, hvað þá hátt og lágt drif ! 

Steininn tekur þó úr þegar hann er samt auglýstur sem fyrsti crossover bíllinn! 

Það er aldeilis nýr fróðleikur, því að svonefndir crossover bílar ruddu byrjuðu að ryðja sér til rúms austan og vestan hafs fyrir 40 árum !


mbl.is Fyrsti rafdrifni lúxusjeppinn frá Mercedes-AMG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegur og óviðjafnanlegur töframaður með boltann. "Skóreimamarkið"!

Vel má vera að Ólafur Stefánsson sé besti handboltamaður, sem Íslendingar hafa eignast. 

Engum gleymist þegar leikur liðs hans í Evrópukeppni snerist allur um hann sem leikstjórnanda í krafti alhliða yfirburða á öllum sviðum leiksins í úrslitaleik. 

En allir atvinnumenn Íslands í handbolta hafa hins vegar átt þann fyrsta, Geir Hallsteinsson, sem heillaði alla upp úr skónum, líkt og fyrsti íslensnki atvinnumaðurinn í fótbolta, Albert Guðmundsson, hafði gert um miðja síðustu öld. 

Í erlendum fjölmiðlum var talað um Albert sem "hvítu perluna"; galdrameistarann, sem gæti látið boltann gera hvað sem var, nema kannski ekki talað. 

Svipaður galdrameistari með handboltann var Geir Hallsteinsson og hefur jafnoki hans hvað snertir ævintýralega leikni með boltann ekki sést hér á landi og þótt víðar væri leitað. 

Hjá honum blandaðist skottækni og sendingatækni í eina heild, þannig að hann gat til dæmis byrjað á skoti en breytt hreyfingu handleggs og handar úr skothreyfingu í sendingarhreyfingu, sem gat sent boltann jafnvel í hvaða átt sem var!

Hreyfingartæknin gat jafnvel orðið enn flóknari, og er hið einstæða "skóreimamark" lærisveins hans, Gunnars Einarssonar, gott dæmi um það. 

Eftir að hafa æft þetta bragð vel, beittu þeir félagar því einu sinni á eftirfarandi hátt:

Geir losaði um aðra skóreimina svo lítið bar á, og þegar hann skömmu síðar fékk boltann vinstra megin á vellinum , stansaði hann snöggt, beygði sig niður á annað hnéð, kominn í skotfæri, og byrjaði eldsnöggt á því að reima skóinn með vinstri hendi, en hóf um leið skot á markið með hægri hendi. 

En í stað þess að boltinn þyti í markið, breyttist skothreyfingin á þann veg að boltinn þaut aftur fyrir hann í átt til Gunnars Einarssonar, sem kom hlaupandi á fullri ferð aftan að Geir, greip boltann en hljóp um leið með hann að Geir, stökk upp á bak hans og í beinu framhaldi enn hærra upp og lét þaðan skot vaða á markið úr þeirri stððu, að engin hávörn gat varist því. 

Markvörðurinn var kominn í vitlaust horn eftir að hafa reynt að verja skot Geirs, sem aldrei kom, og niðurstaðan var eina "skóreimamark" veraldar, fyrr og siðar! 

Allt ætlaði um koll að keyra í salnum við þetta óvænta snilldarmark, sem rifist var um lengi á eftir. 

Síðuhafa minnir að það hafi verið dæmt gilt á þeim forsendum að dómarinn gat ekki fundið neina grein í handboltalögunum, sem bannaði þetta. 

Það kom svo sem ekki að sök, því að ekki er vitað að þetta snilldarbragð hafi nokkurn tíma verið leikið aftur. 

Hvað myndu menn segja í dag, ef einhverjum tækist að leika þetta eftir?

Leika þetta eftir?  Nei, varla. Enn hefur handboltamaður með snilld af þessu tagi fundist. 

Geir naut sín vel í samvinnu við leikmenn af öllu tagi og rómuð var til dæmis samvinna hans við kröftugar og öflugar skyttur á borð við Jón Hjaltalín Magnússon og Axel Axelsson. 

Dýrleg var samvinna Geirs og Jóns í landsleikjum og þar var sem dæmi iðkað stytt afbrigði af skóreimamarkinu, sem fólst í því, að Geir gerði atrennu að vörninni og byrjaði á skoti, sem fór í þveröfuga átt, aftur fyrir hann, og rataði þar í hendur Jóns Hjaltalíns, sem lyfti sér upp og skoraði með mestu þrumuskotum þess tíma, en Jón hafði þá hlaupið á eftir Geir til að fá þessa óvæntu sendingu. 

  


mbl.is Geir heiðraður af FH í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hjólvelta og axlarbrot urðu"?

Hortitturinn "bílvelta varð" er lífseigur eins og sést á viðtengdri frétt á mbl.is. 

Það sem gerðist var einfaldlega: "Bíll valt", þjálla og einfaldara, tvö atkvæði í stað fjögurra. Ekki virðist mögulegt að vinna bug á þessari óværu, og virðast hliðstæður hennar halda áfram að lifa áratugum saman. 

Þær lífseigustu eru ekki margar, þannig að það ætti ekki að þurfa mikið átak til að losa okkur við þær í stað þess að kannski fáum við að sjá sagt frá því að maður hafi dottið á hjóli og axlarbrotnað á þennan veg: 

"Hjólvelta og axlarbrot urðu."


mbl.is Bílvelta í Garðabæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegt að eiga leið um Keflavík í gær.

Uppákomur eins og þær að aka um Keflavík þessa dagana og aka alveg óvænt inn í hvíta birtu og vera líkt og kominn mörg þúsund kílómetra burtu til Norður-Ameríku lífga upp skammdegið í mörgum skilningi. 

Ekki er aðeins, að gervisnjór auki við birtu aðventunnar og jólanna, heldur er líka ánægjulegt að þetta skuli vera hluti af vaxandi vinsældum Íslands sem vettvangur í alþjóðlegri kvikmyndagerð. 

Eitt af því sem þarf að huga að við tökur kvikmynda og ljósmynda er að ef bílar sjást, séu þeir ekki af vitlausum bílum miðað við tíma og stað. Skulu nefnd tvö dæmi. 

Á timabili stóð undir ljósmynd á ljósmyndasafni í Reykjavík, sem tekin var við Leifsstyttunni í Reykjavík, að hún væri tekin árið 1931. 

Myndin var góð heimild um þennan stað eins og hann var fyrir stríð, en eitt stakk þó í stúf, Ford fólksbíll af árgerð 1937 ! 

Annað dæmi:  Í einni af ágætum heimildarbókum um 20. öldina á Íslandi var ljósmynd, og stóð undir henni að hún væri af komu Bandaríkjahers til Íslands 1951. 

Allt gott um það að segja, en á myndinni sást glytta í Ford fólksbíl árgerð 1959 ! 

Fyrir bíladellukalla lekur stemningin svolítið niður þegar svona sést. 

Að minnsta kosti gerðist það í einni af myndum Wooddy Allens hér í gamla daga, þar sem eitt atriðið átti að gerast árið 1940. 

Allt í góðu með það þangað sást bregða fyrir bíl af 1942 árgerð! 

 


mbl.is Keflavík verður að Alaska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða og hugmyndaauðgi eru dýrmæt í öllum rekstri.

Hér á árum áður var jólasveinninn rafknúni, sem kinkaði kolli í glugga Rammagerðarinnar, sá eini af þessu tagi í Reykjavík. Þetta litla atriði dró athygli að versluninni og umhverfi hennar og það kom sér vel, því Hafnarstræti var ekki eins fjölfarið og margar aðrar verslunargötur. 

Nú hefur margt breyst og þá skiptir miklu að laga sig að nýjum aðstæðum og finna möguleika á sérstöðu með því að nýta hugvit og hæfileika. 

Þetta er almennt lögmál sem í raun getur virkað í öllu þjóðlífinu og efnahagslífinu.  


mbl.is Best geymda leyndarmál borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrinan nú er vestar en hrinurnar 2007 til 2008.

Á loftmynd RAX sem fylgir viðtengdri frétt á mbl.is sjá móbergshryggurinn Herðubreiðartögl og móbergsstapinn Herðubreið ofarlega til hægri. 1374474

Fjallið Upptyppingar er hinsvegar fyrir miðri mynd. 

2007 til 2008 voru hrinurar við Upptyppinga í fyrstu og færðust síðar til norðurs og austurs, austur í krepputungu og Álftadalsbungu, en lítillega á svæðinu við Herðubreið og við Öskju. 

Núna liggja Herðubreiðartögl, sem eru í raun gígaröð eftir gos undir ísaldarjökli, og Herðubreið á skjálftasvæði, og einnig lítilsháttar við Öskjuvatn, þar er kvika undir á aðeins um tveggja kílómetra dýpi. 

Vegna skorts á mælingum frá síðustu öld er erfitt að ráða í það hvað þarna er raunverulega að gerast Norðurgosbeltinu, og verður fróðlegt að fylgjast með því.  


mbl.is Skjálftahrinunni linnir ekki enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótaleiðin hefði leyst þetta vandamál á sínum tíma.

Þegar skoaðaðir voru kostir mismunandi leiða við gerð jarðganga yst á Tröllaskaga, komu tvær tveggja jarðganga leiðir til greina, Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið. 

Héðinfjarðargöng gáfu meiri styttinngu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, en Fljútaleiðin meiri styttingu milli Skagafjarðar og Siglufjarðar og sú leið hefði gert leiðina um Almenninga óþarfa og leyst dæmið til frambúðar í stað þess klúðurs sem nú er staðið frammi fyrir. 


mbl.is Siglufjarðarvegur er í mikilli hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálmlaus á fullri ferð á skútu á rauðu ljósi yfir fjögurra akreina götu.

Í stuttum skrepp um sexleytið í kvðld mátti sjá hjálmlausan mann á skútu þjóta á fullri ferð eftir gangbraut yfir fjögurra akreina götu beint á móti rauðu gangbrautarjósi. 

Það úir og grúir af svona atvikum í þeirri "villta vesturs" umferð sem verið hefur á svörtum föstudegi þar sem staðið hefur yfir stanslaus flaumur auglýsinga undir kjörorðinu "ekki missa af" öllum fjandanum. 

Fáránlega margir virðast vera tilbúnir að fórna lífi og limum sínum og annarra fyrir fáfengilegan tilgang. 

Og niðurstaðan er tvöfalt fleiri slys og óhöpp en venjulega. 

 


mbl.is Umferðin eins og „villta vestrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband