12.3.2023 | 10:26
Bankahrunið: Gunnar Tómasson ýjaði að hruninu nokkrum mánuðum fyrr.
"Sjáið þið ekki veisluna" hafa orðið fleyg ummæli sem einn ráðherra ríkisstjórnarinnar 2008 lét falla á Alþingi um þá, sem gagnrýndu efnahagsstjórnina þar á útmánuðum það ár.
Þá höfðu vöruflutningabílstjórar staðið fyrir miklum mótmælum við Rauðavatn, enda voru þeir í hópi þeirra tugþúsunda Íslendinga, sem höfðu látið lokkast af fagurgala bankakerfisins og guldu nú fyrir það í dæmalausu hruni krónunnar, sem þegar hafði byrjað veturinn áður, en það þýddi að skuldasnjóhengja landsmanna óx og óx í krónum talið.
Þegar aðdragandi Hrunsins var skoðaður síðar, kom í ljós að nánast kraftaverk hafði bjargað bankakerfinu frá hruni haustið 2006, en í kjölfar þess gerði Sjálfstæðisflokkurinn kjörorðið "traust efnahagsstjórn" að kosningaslagorði sínu!
En hlálegasta auglýsingin fyrir "veisluna" var alþjóðleg auglýsing Kaupþingsbankans, þar sem erlendur stórleikkari var látinn útlista alveg nýja efnahagsspeki, svonefnt "Kaupthinking"!
Sumarið 2008 voru mörg teikn á lofti um óhjákvæmilegt hrun, en Gunnar Tómasson virtist einn um það að birta tölur, sem sýndu geigvænlega skuldastöðu þjóðarinnar, "snjóhengjuna" sem bólgnaði upp yfir höfðum landsmanna.
![]() |
Þykist hafa séð bankahrunið fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2023 | 01:23
Þarf raunsætt mat í hvívetna á "græna iðnbyltingu."
Vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru skráðar í öllum áróðri sem "hreinar og endurnýjanlegar orkulindir."
Það á við um nær allar vatnsaflsvirkjanirnar en ekki gufuaflsvirkjanir, þar sem stunduð er þvílík "ágeng orkuöflun" að orka svæðisins verður uppurin á 50 árum semkvæmt forsendunum sjálfum.
Það heitir rányrkja á íslensku.
Þar að auki berst ansi mikið magn af brennisteinsvetni frá gufuaflsvirkjunum.
Flestum tignum erlendum gestum á borð við krónprinsa og ráðhrra er sýnd dýrðin í Heillisheiðarvirkjun og dásama þeir þær óspart á þann hátt, að rányrkuskuggahliðin virðist víðs fjarri.
Þrátt fyrir forystu okkar í að binda kolefnið með sérstakri aðferð, þarf að slá duglega í þann klár.
En höfuðatriðið hlýtur að vera að láta búa til módel, sem tryggir sjálfbæra þróun í hvívetna.
Í Morgunblaðsgrein fyrir nokkrum árum settu Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson fram slíka tilhögun, sem hefði þýtt það að virkjanirnar á Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu hefðu verið margfalt minni í upphafi og þæer ekki stækkaðar nema meði ítrustu varkárni og öryggi að fenginni viðunandi reynslu .
Forstjóri Landsvirkjunar talaði um að viðleitni til slíks yrði höfð með Þeystareykjavirkjun, en nú virðist hafa slaknað á þeirri kló miðað við þá stækkun hennar sem fyrirhuguð er.
![]() |
Vilja græna iðnbyltingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2023 | 20:15
Ný regla varðandi eldstöðvar: Óreglusöm ólíkindatól.
Þegar Hekla rumskaði eftir 102ja ára hlé með stórgosi 1947 var oft borið saman að í fortíðinni höfðu gos fjallsins verið furðu reglubundin með heldur styttri hléum oftast nær.
Svipað var oft i umræðunni um gos í Kötlu í gegnum aldirnar, þannig að tal um að eldstöðvar séu "komnar á tíma" eins og Páll Einarsson ræðir um í viðtengdri frétt á mbl.is á sér vissa hefð.
Gosið í Heklu árið 1970, aðeins 23 árum á eftir gosinu 1947, kom mönnum mjög á óvart, og ekki síður gosið 1980.
Þegar fjallið gaus síðan 1991 og enn og aftur 2000, voru komnar mun betri mælingar á því hvernig það þenst út eftir gos, og þess vegna farið að tala um að fjallið hefði tekið upp nýja hegðan með gosum á áratugs fresti.
En nú bregður svo við, að það eru liðin 23 ár frá þessu síðasta gosi og fjallið komið upp fyrir þenslutoppinn fyrir nokkrum árum.
Í viðtalinu við Pál Einarsson um goshlé Kötlu hallast hann að því að ekki sé ráðlegt að tala um um reglu á lengd á goshléum eldstöðva eins og tilhneiging hafi verið til; hegðun eldstöðva sé flóknara mál en svo að hægt sé tala um eins konar reglusemi þeirra í þeim efnum.
Hekla er því áfram ólíkindatól, þar sem hámarks viðbragðstími fyrir næsa gos er í mesta lagi tvær klukkusstundir.
![]() |
Þrír skjálftar af stærð 3 og yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2023 | 00:22
"Að halda sig heima"; orðalag í útrýmingarhættu.
Dðnskuskotið, flókið og uppskrúfuð langloka var sú íslenska sem Jónas og Fjðlnismenn réðust gegn.
Á okkar tímum er það enskuskotin, flókin, uppskrúfuð og oft órökrétt langloka sem tröllríður málfari.
Eitt af ótal dæmum eru þessi síbylgjusetning sem nú fer um fjölmiðla varðandi frétt frá Þýskalandi:
"Fólk er beðið um að yfirgefa ekki heimili sín."
Helmingi styttra mál væri að segja: "Fólk er beðið um að halda sig heima."
En orðalagið að fara að heiman eða að halda sig heima er núna dæmi um stutt, gagnort og rökvíst mál, sem er útrýmingaarhættu.
Hinn nýi kansellístíll sem veður uppi.
![]() |
Talið að sjö séu látnir eftir skotárás í Þýskalandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2023 | 14:31
Drónarnir; bylting í myndatökum.
Tilkoma dróna er einhver mesta bylting sem orðið hefur í myndatökum, því að þeir gera betur en að leysa af hólmi þyrlurnar, sem eru óheyrilega dýrar í samanburði og líða einnig margar hverjar fyrir titring.
En titringur er afar lítill ef nokkur þegar flugvélar eru notaðar, en stóri gallinn hve erfitt er að láta flugvél leika lipurð þyrlanna eftir.
Ótalinn er stærsti kostur drónanna, en hann er sá að þeir eru "mannleysur" ef nota má það orð, það er enginn maður um borð.
Fyrir utan byltinguna í myndatökum eru drónarnir líka búnir að bylta stórlega aðferðum í hernaði eins og Úkraínustríðið ber glögglega með sér.
![]() |
Auglýsir eftir drónamyndskeiðum af gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það nálgast að virðast þjóðaríþrótt að leggja bílum eins illa og mögulegt er. Til dæmis er það undra algengt að menn leggja undir tvö stæði samliggjandi stæði undir einn bíl.
Eitt sinn var sýnt á þessari síðu hvernig ófatlaðir lögðu frekar bíl sínum í stæði fyrir fatlaða fyrir framan bankaútíbú þótt venjuleg stæði fyndust nær bankanum.
Við Kauptún er algengt að nær allir bílarnir, sem standa á hleðslustæðum, séu alls ekki rafbílar.
Einnig má iðulega sjá fullfrískt fólk nýta sér fatlaðramerki í glugga bíla og leggja þeim í stæði fyrir fatlaða, þótt hinn fatlaði sé alls ekki í bílnum.
![]() |
Hleðslustæðin misnotuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síbyljustórsóknin í virkjanamálum þar sem heimtað er að tvöfalda núverandi orkuframleiðslu hefur meðal annars verið réttlætt af Landsvirkjun með því að mikill minnihluti sé í skoðanakönnun um virkjanamál, aðeins um 20 prósent, á móti fleiri virkjunum.
Þarna eru notaðar ömurlegar hundakúnstir til þess að lauma því inn að 80 prósent þjóðarinnar vilji tvöfalda virkjanir á allra næstu árum.
En það er hvergi spurt beint um það. Þetta er svona álíka og að spyrja hvort þjóðin sé á móti rafmagni og snúa því upp í að þjóðarsátt sé um takmarkalausan vöxt virkjana til raforkuframleiðslu.
Og oft hnykkt á með því að þeir sem vilji andæfa gegn tryllingslegu vexti orkuframleiðslu séu á móti framförum, á móti atvinnuuppbyggingu og vilji fara aftur inn í torfkofana.
Það morar í leiðandi og ónýtum spurningum í skoðanakönnun Landsvirkjunar, svo sem um það hvort virkjanirnar njóti ánægju. Með slíkum spurningum er skautað hressilega framhjá því að oftast stendur valið á milli orkunýtingar og annarar tegundar nýtingar, svo sem verndarnýtingar á borð við friðun Gullfoss.
Landsvirkjun er ekki bara eitthvert einkafyrirtæki heldur í eigu allrar þjóðarinnar og alls ekki boðlegt hvernig staðið er að ofangreindum áróðursmálum.
![]() |
Vonast til þess að framkvæmdir hefjist í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2023 | 16:44
Musk oft ólíkindatól og mistækur og líkt ogHenry Ford var.
Elon Musk og Henry Ford áttu sín helstu blómaskeið með tæprar aldar millibili. Enginn efast um þá snilli sem þessir tveir menn búa yfir og kom þeim upp í hóp ríkustu manna heims.
En deila Musk og Haraldar Þorleifssonar er eitthvað sem passar ekki alveg inn í mynstrið hjá Musk í formi hroka og fljótfærni.
Henry Ford var einn ríkasti maður heims og framleiddi á miðjum þriðja áratug síðustu aldar fleiri bíla en allir aðrir framleiðendur heims samanlagt með því að nýta snilli sína sem frumkvöðuls í bílasmíði í að uppgötva alveg nýjan en jafnframt afar stóra markhóp kaupenda, sem fólst í hinum tekjulægri meðal alþýðunnar.
Til þess þurfti aðeins eina hlægilega einfalda og ódýra bílgerð, Ford T, sem löngu síðar var valinn bíll aldarinnar.
Jafnframt veðjaði Ford á það sem fólst í "the roaring twenties", dæmalausri efnahagsuppsveiflu.
En hann varaðist ekki þá afleiðingu í fyrsta lagi að þeim, sem höfðu aukin fjárráð myndu skapa eftirspurn eftir aðeins dýrari bílum en Ford T, þannig að árið 1927 hrundi salan á honum og við tók um hálft ár með engan arftaka tilbúinn.
Í ofanálag kollkeyrði uppsveiflan sig hressilega og olli kreppunni miklu.
Það sem eftir var af lífi Fords varð hann æ meira ólíkindatól. Hannaði fyrstu snilldarsmíð, fyrstu V-8 vélina, sem gat orðið almenningseign, en varð einstaklega þvermóðskufullur og afturhaldssamur á öðrum sviðum svo sem hemlum og fjöðrunarbúnaði sem varð að lokum 14 árum á eftir keppinautunum hvað fjöðrunina snerti.
Verst var þó framkoma hans gagnvart verkafólki, þar sem hinn fyrrum velgerðarmaður almúgans varð hataður ekki síst vegna starfsmannastjórans, ofstopamannsins Bennetts, sem lét berja á verkafólki.
Við andlát sitt í stríðslok voru Ford verksmiðjunnar nær gjaldþrota þrátt fyrir að hafa hagnast á framleiðslu hergagna.
Ferill Elon Musk minnir of oft á brokkgengan feril Henry Ford.
Orðaskak hans við Íslending felur í sér sérkennilegt val á notkun tíma og fyrirhafnar hjá jafn ríkum og mikilhæfum manni.
![]() |
Haraldur svarar Musk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2023 | 22:52
Talan, sem þarf að finna: Verri hemlun og stýring vegna tjörunnar.
Mest allan veturinn dregur tjaran, sem nagladekkin rífa upp úr götunum úr hemlun og stýriseiginleikum bílaflotans, en á móti koma dagar, sem telja má á fingrum annarrar handar sem bjóða upp á betri hemlun negldu dekkjanna.
Og loftgæðin eru yfir heilsuverndarmörkum fleiri og fleiri daga á hverjum vetri þegar hundrað þúsund bílar hamast við að spæna gatnakerfið upp vikum saman.
Á Miklubraut og Reykjanesbraut í dag voru rykmekkir líkir þeim sem voru á malarvegunum í gamla daga. Hve lengi eiga þessi fornaldarskilyrði að versna frekar en hitt?
Til huggunar er hér birt mynd tekin í ljósaskiptunum síðdegis.
Þar blasir við fögur sýn: blokkirnar þrjár við Austurbrún og Hallgrímskirkja og Höfðaturninn enn fjær.
![]() |
Siglum inn í mikið svifryk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2023 | 18:37
Hvað um La Défence?
Ótal niðurstöður hafa verið birtar um mat og val á ferðamannastöðum víða um heim.
Niðurstöðurnar hafa eðli málsins samkvæmt verið umdeilanlegar, enda oft verið að deila um smekk og þarfir, nokkuð sem erfitt er að deila um.
Í viðtengdri frétt eru nefnd nokkur hverfi í París "sem þú verður að heimsækja" ef þú ferð þangað.
Ekki skal dæmt um val hverfanna, en þó ekki hægt að gera annað til gamans að bæta við einu hverfi, sem sjaldan er nefnt, en það er hverfið La Défence, sem í Wikipedia er sagt vera stærsta viðskiptahverfi heims.
Hverfið er gerólíkt hinum hverfunum að öllu leyti og auk þess reist á þeim stað, að ákveðin lína og afstaða myndist til annarra áberandi kennileita í París.
Í La Défence eru nítján skýjakljúfar lauk fleiri merkra bygginga og hrein veisla fyrir augað fyrir þá sem hafa áhuga á arkitektúr að gefa sér tíma til að skreppa þangað.
![]() |
Hverfin sem þú verður að heimsækja í París |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)