Og þetta vilja andstæðingar nýrrar stjórnarskrár í raun halda í.

Enn og aftur, í þetta skipti varðandi Landsdóm, kemur upp mál, þar sem lögfesting nýrrar stjórnarskrár hefði breytt miklu, en stundum kemur slíkt fyrir og þykir fréttnæmt vikulega eða jafnvel enn oftar. 

Enda hefur verið reynt að kasta tölu á umbætur af þessu tagi, og má finna slíkt á 105 stöðum. 

Eitt af því sem mér og fleirum þáverandi laganemum fyrir rúmri hálfri öld fannst furðulegt og asnalegt í stjórnarskránni, sem Danakonungur lét Dani semja fyrir Íslendinga 1874 og er í meginatriðum óbreytt enn, eru ákvæðin um Landsdóm, sem enn standa óhögguð. 

Í raun kveða lögin um Landsdóm á um það að alþingismönnum sé gert skylt, ef fara á eftir lögunum, að taka afstöðu þess hvort þeir eigi að ákæra vinnufélaga sína og oft nána vini, jafnvel sessunauta eða samstarfsmenn í nefndum, um saknæmt athæfi. 

Það er einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess af þingmönnum að fást við þetta.

Þar er einfaldlega um vanhæfi að ræða.  

Við samningu nýrrar stjórnarskrár hjá stjórnlagaráði var ákveðið að fella greinarnar um Landsdóm niður en skerpa í staðinn á nauðsynlegu aðhaldi dómsvaldsins og ákæruvalds þess hvað varðaði skyldur opinberra starfsmanna.

Alltaf þegar upp kemur umræða um bagaleg ákvæði eða skort á ákvæðum í núverandi stjórnarskrá, sem í raun er í meginatriðum orðin 168 ára gömul, er rætt um að það þurfi að lagfæra þessa vankanta. 

En ekkert gerist. Og aðgerðarleysi og tregða gagnvart umbótum jafngildir gjörningi.  


mbl.is Ríkið sýknað í landsdómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við "Hjarta landsins" þarf að nýta reynslu erlendis, til dæmis í Noregi.

Hugtakið og heitið þjóðgarður er verðmætur alþjóðlegur gæðastimpill og felur í sér flokkun svæða eftir þvi hvað verndin er mikil. 

Í efsta gæðaflokki eru svæði, sem eru gersamlega ósnortin, og jafnvel örfáir koma á. 

Í lægsta flokki eru afmörkuð svæði, þar sem eru að vísu mannvirki, en þó afturkræf. 

Í erlendum þjóðgörðum sem ég hef komið í, er þessari flokkun hagað á mismunandi hátt í samræmi við misjafnar aðstæður, en þeir þjóðgarðar, sem virðast einna sambærilegastir við íslenska þjóðgarða eru Jóstedalsjökulsþjóðgarður í Noregi og Yellowstone og Canyonlands eða Giljalönd í Bandaríkjunum, Yellowstone vegna jarðvarmans og jarðfræðinnar og Giljalöndin vegna jeppaslóða sinna, sem eru alls um 1600 kílómetra langir. 

Til samanburðar er talið að á Íslandi séu meira en 2000 kílómetra langir vegaslóðar. 

Þegar Jóstedalsjökulsþjóðgarður var stofnaður voru ýmiskonar fáfræði og fordómar helstu hindranir í að það tækist að ljúka málinu. 

Margar af ástæðum óttans voru reistar á ranghugmyndum eða misskilningi, sem þurfti að eyða og leita að lausnum, sem næg samstaða tækist um að lokum. Það tókst, og um það flutti Eric Solheim, formaður stjórnar þjóðgarðsins, fróðlegan fyrirlestur í Reykjavík fyrir um 15 árum. 

Stundum er best að setja fram viðhorf í tónum og ljóðlist en á prenti, og í tilefni af efni tengrar fréttar á mbl.is verður lagið "Hjarta landsins", sett að nýju á facebook, en heitið hefur verið kjörorð þeirra, sem vilja stofna miðhálendisþjóðgarð. 


mbl.is Forsendur fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er vitlaust gefið", þess vegna þrefað um umhverfismál.

Nú er farið að nefna umhverfismál og rammaáætlun sem ágreiningsefni Vinstri grænna og hinna stjórnarmyndunarflokkanna tveggja. 

Undirliggjandi ástæða heyrist sjaldan nefnd, nefnilega sú, að um rammaáætlun eiga við ljóðlínur Steins Steinarrs: "Það er nefnilega vitlaust gefið." 

Í virkjana- og stóriðjuflokkunum er litið svo á að í rammaáætlun verði að vera lágmarksfjöldi virkjanakosta, sem fari í svokallaðan nýtingarflokk, sem er fyrirfram skekkjandi heiti, vegna þess að með því er látið sem svo að nýting geti ekki verið fólgin í verndun. 

Virkjanaflokkarnir tveir ættu að heita orkunýtingarflokkur og verndarnýtingarflokkur, eða þá virkjanaflokkur og verndunarflokkur. 

En þetta er rangt upplegg, því að virkjanmenn hafa þegar fengið að reisa 30 stórar virkjanir og velja það besta fyrir sig út. 

Öll orka landsins ætti að vera í upprunalegum potti, þar með taldar þær virkjanir, sem komnar eru. 

Ef jafnræði ætti að vera, ætti næsta skref að vera það að náttúruverndarfólk velji jafn marga stóra virkjanakosti úr pottinum og taki þá frá á móti virkjununum, sem komnar eru, og að síðan yrði afganginum skipt og taldar með í honum allar smávirkjanirnar, sem hrúgast nú inn á sviðið. 

Hin svokallað "sátt", sem virkjanamenn tala sífellt um, byggist á röngum forsendum, - það er vitlaust gefið. 

Þetta er undirliggjandi ástæða þess að þrefað er um umhverfismál og rammaáætlun.  


mbl.is Formennirnir funda áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgistaður tvennra trúarbragða.

Helgistaðir fleiri trúarbragða en einna eru þekktir víða um lönd. Jerúsalem er eitt þekktasta dæmið. Víkurgarður

En á Íslandi og það meira að segja inni í miðri Reykjavík er slíkt að finna. 

Fróðir menn telja líklegt að þegar Ingólfur Arnarson lét heimilisguði sína, öndvegissúlurnar, fljóta upp í fjöru í Reykjavík, hafi þær verið bornar þaðan inn að væntanlegu bæjarstæði og þar farið fram sérstök helgi- og fórnarathöfn þar sem vígður var friður við landvættina. 

Þegar Ingólfur frétti af drápi Hjörleifs, fóstbróður síns, túlkaði hann þann atburð þannig að þannig færi fyrir trúlausum. Víkurgarður (3)

Með því átti hann við það að Hjörleifur hefði goldið það dýru verði að semja ekki frið við landvættina likt og gert var í Reykjavík. 

Vel má hugsa sér að einu sinni á ári, til dæmis sem liður í Menningarnótt, fari fram athöfn í Víkurgarði til að minnast landnámsins og helgiathafnarinnar vegna þess. 

Bera eftirlíkingar af öndvegissúlunum frá hafnarbakkanum til Víkurgarðs og hafa þær í miðju athafnarinnar. 

Hugsanlega hefur verið heiðinn hörgur þar sem síðar varð kirkjugarður Reykvíkinga fram á 19. öld.Víkurgarður(2) 

Fyrir um 40 árum urðu tímamót með stofnun Torfusamtakanna, sem tókst að bjarga Bernhöftstorfunni frá eyðileggingu, og Varðmenn Víkurgarðsins eru í svipuðum leiðangri. 

Með tilvísan til Torfusamtakanna mætti kalla Varðmenn Víkurgarðsins Grænutorfu samtökin ( samanber orðtakið að vera kominn undir græna torfu) og áhugafólk um björgun garðsins fylltu safnaðarheimili Neskirkju síðdegis í dag til að stilla saman strengi sína til að semja ályktun eða áskorun um að þyrma elsta þekkta helgistað þjóðarinnar, tvennra trúarbragða griðastað. 

Farið var yfir óyggjandi gögn um það, hver spjöll á sögu- og menningarminjum ætti að fara vinna með því að reisa enn eitt hótelið á hinum helga reit, sem þar að auki mun raska stórlega ásýnd og yfirbragði þessa svæðis, þrengja að Alþingishúsinu og koma í veg fyrir að Víkurgarður og Austurvöllur geti myndað grænt griðasvæði i hjarta höfuðstaðarins. 

Umsögn skipulagsfulltrúa er gott dæmi um það hvernig ákafir fylgjendur hótelbyggingarinnar eru í ´mótsögn svið sjálfa sig, jafnvel í sömu álitsgerðinni, eins og sýnt er hér við hliðina. 

 


mbl.is Framkvæmdir stangist á við lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allir ganga með ráðaherra í maganum, nema gítaristinn."

Þór Whitehead lýsti skemmtilega í grein í Morgunblaðinu þeirri sérkennilegu en mannlegu stöðu í stjórnarmyndunum, að einn helsti vandinn við að koma láta svonefndan "ráðherrakapal" ganga upp hverju sinni, sé að koma nógu mörgum þingmönnum í ráðherrastóla.

En það geti haft sérkennilegar afleiðingar, svo sem þæe, að með því að Sjálfstæðismenn láti forsætisráðherraembættið eftir, geti opnast möguleikar fyrir allt að tveimur fleiri þingmönnum flokksins í ríkisstjórn en ella. 

Þetta hafi til dæmis gerst 1983 og þá hafi þingmönnunum, sem komust í stóla, fundist ágætt að formaðurinn yrði ekki of valdamikill en þeir sjálfir að sama skapi áhrifameiri. 

Þess vegna hafi þingflokkurinn tekið þessa ákvörðun. 

Í "ráðherrakaplinum eftir kosningar síðar, var haft á orði, að "allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gengju með ráðherra í maganum nema gítaristinn." 

Var þar átt við Árna Johnsen. 

Raunar voru þá til embætti sem gátu verið allt að því ígildi ráðherraembættis. 

Árni varð síðar formaður fjárveitinganefndar, sem er afar mikilvægt og valdamikið embætti, og Stefán Valgeirsson var gerður að stjórnarformanni í Byggðastofnun sem þá var fyrirferðarmikil stofnun í ríkisapparatinu.  

 


mbl.is Segir sjálfstæðismenn í vandræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða starfsemi í Gufunesi? Hvað um Hellisheiðarvirkjun?

Reykjavík fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum misserum ef ég man rétt. 

Borgin lagði fram margvísleg sannfærandi gögn um þetta sem tekin voru góð og gild, enda vafalaust öll pottþétt. 

Eða hvað? Hvað um loftgæði? Hvað um sjálfbæra nýtingu? Voru öll gögn send?

Mágkona mín sem á heima í Bolungarvík hefur minnst á það oftar en einu sinni þegar hún kemur í heimsókn að vestan, að þegar hún komi í heimsókn til ættingja og vina fyrir sunnan furði hún sig á þeirri ólykt sem hún finni leggja yfir borgina. 

Við hin, sem búum hér að staðaldri, komum af fjöllum. Loftgæði? 

Við erum orðin þessu svo vön að við finnum það ekki. En hún býr á stað, þar sem loftgæði eru það góð, að hún finnur strax "fnyk" þegar hún kemur til Reykjavíkur. 

Er Ísland ekki auglýst sem land bestu loftgæða á byggðu bóli? 

Þó er ekki lengra síðan en í gær að greint var frá því að svifryk hefði farið yfir heilsuverndarmörk í borginni. 

Og í dag er kvartað undan fnyk í Grafarvogshverfi. 

Hvaða gögn um loftgæði voru send til dómnefndar Norðurlandaráðs? Öll? Takmörkuð og "sérvalin"? Engin?

Í hvaða vindátt berst "fnykurinn" yfir Grafarvogshverfið? Hvaða fyrirtæki eru í Gufunes?

Það var upplýst í upphafi um mengunarvaldinn í Helguvík, kísilmálmverksmiðjuna. 

Uppi á Hellisheiði stendur yfir lofsverð niðurdæling á brennisteinsvetni, sem annars berst með vindi yfir Reykjavík í algengustu vindáttinni, austanáttinni. 

En er öllu eitrinu dælt niður? Ef ekki, hve miklum hluta þess?

Hvað sýna mælingar á þessari lofttegund í Reykjavík?  Hvað um mælingar í austustu hverfum borgarinnar? 

Áður en niðurdælingin hófst gat eitrið´farið yfir heilsuverndarmörk við Lækjarbotna og Gunnarshólma. 

Hvað segja mælingar nú?

Reikna má með því að meðal gagna sem réðu úrslitum um veiting norrænu verðlaunanna hafi verið nýting jarðvarma til upphitunar í staðinn fyrir brennslu jarðefnaeldsneytis. 

En hvað um sjálfbæra þróun, sjálfbæra nýtingu?

Voru sendar upplýsingar um stórfelldustu rányrkju á einum stað á Íslandi, Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu? 

Opnun Þeistareykjavirkjunar hefur óbeint leitt fram hið sanna í því máli, því að í stað þess að reisa þar 300 megavatta virkjun eins og er á Hellisheiði, sem hefði verið hægt að sögn forstjórans, var látið nægja að hún yrði aðeins 90 megavött til þess að geta fylgst með því næstu áratugina hvort nýtingin sé "ágeng" eða ekki. 

Það rímar ágætlega við kenningar Guðmundar Pálmasonar, Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar um viðleitni til öruggrar og sjálfbærrar nýtingar. 

Þegar norrænu umhverfisverðlaunin voru veitt nagaði mig efinn um verðleika borgarinnar. 

Sá efi var um forsendurnar fyrir veitingunni en mig skorti gögn um þær og var því ekki með "leiðinda nöldur" á gleðistundu. 

Þó var vitað um það sem hefur verið rakið hér að ofan að frátöldu hinu nýja máli í Grafarvogshverfi, sem nú bætist við. 

 

 


mbl.is „Gjörsamlega ólíðandi“ fnykur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður hægt að snúa "hinu svokallaða hruni" endanlega á hvolf?

Fyrst eftir hrun voru menn að jafna sig á áfallinu sem fylgdi því að standa frammi fyrir þúsunda milljarða króna tapi og auk þess hundraða milljarða króna halla á á ári á rekstri ríkissjóðs. 

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde stóð í ströngu á mörgum vígstöðvum, fékk meðal annars neyðarlög samþykkt, veitti tugum milljarða króna í að reyna að bjarga bönkunum og gerði byrjunarsamkomulag vegna Icesave. 

Stjórnin féll og minnihlutastjórn Jöhönnu Sigurðardóttur tók við sem varð að meirihlutastjórn eftir kosningar um vorið. 

Þá líktu flestir viðfangsefnum hennar við rústabjörgun. 

En þegar frá leið fóru þeir að reyna að ná vopnum sínum að nýju og snúa vörn í sókn, sem höfðu fóðrað eldsmat hrunsins með einkavinavæðingu bankanna, óðaframkvæmdum í stóriðju- og virkjanamálum, uppspenntu hágengi krónunnar með tilheyrandi neysluæði og lánasprengingu auk þess að laða erlenda fjárfesta til þess með háum vöxtum að búa til svonefnda "snjóhengju" erlendra innistæðna á Íslandi. 

Eftir því sem lengra hefur liðið frá hruninu hefur þessi endurskrifaða saga komist æ lengra í því að snúa hruninu á hvolf. 

Liður í því hefur meðal annars verið það að gera sem minnst úr því sem nú var kallað "hið svokallaða hrun." 

Smám saman eru nýjustu fullyrðingarnar orðnar þannig, að það hafi ekki orðið neitt hrun og ef það var eitthvað, var það vinstri stjórnin 2009-2013 sem var aðal skaðvaldur síðari áratuga í íslenskum efnahagsmálum. 

Í vændum er skýrsla um "erlenda áhrifaþætti bankahrunsins" sem mun líklega gera erlenda banka að hinum seku.

Afgangurinn af sektinni verði síðan skrifaður á vinstri stjórnina, því að nú sést því líka haldið fram að ríkissjóður Íslands hafi verið nær skuldlaus haustið 2008, að það hafi verið ríkisstjórn Jóhönnu sem sé sökudólgurinn og þó sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon sem stóð blóðugur upp fyrir axlir daga og nætur við sín björgunarstörf.

En nú er flestu sem hann gerði snúið á þann veg að hann hafi brotið svo stórlega af sér við að gera sem mest illt af sér og verða með því aðalvaldurinn að hruninu, sem kom ekki 2008, heldur frá og með 2009, að sækja eigi hann til saka og setja í fangelsi. 

Það nýjasta sem ég hef séð er, að lán Seðlabankans í októberbyrjun 2008, hefði aldrei þurft að kosta okkur 35 milljarða króna, enda þótt Seðlabankastjórinn segði í frægu símtali við forsætisráðherra að þessir peningar væru að öllum líkindum tapaðir, heldur hefði Steingrímur af einstæðum illvilja í garð Davíðs beinlínis gendið fram í því að að láta 35 milljarðana tapast! 

Endurskrift sögunnar er á góðri leið með að snúa öllu á hvolf: Hrunið var ekkert hrun. Rústabjörgunarstjórn Jóhönnu var brennuvargastjórn en stjórnir Sjalla og Framsóknar í 12 ár frá 1995 til 2007 voru allar með gæðastimpilinn "traust efnahagsstjórn" eins og flaggað var á kosningaskiltum Sjallanna 2007.  

 


mbl.is Tvær hrunskýrslur í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðaflugleið skammt frá. FRÚin úr sögunni síðustu árin.

Það er ekki tilviljun að flugstjóri í millilandaflugi tók fyrstu myndina þar sem nýi sigketillinn uppi á Öræfajökli sást.

TF-FRÚ og Cuore á HvolsvelliÍ langflestum tilfellum þegar flogið er á flugleiðum milli Kaflavíkurflugvallar og flugvalla í norðar er flogið yfir flugleiðsöguvita á Ingólfshöfða. 

Þess ber að geta að Öræfajökull er ekki eina eldfjallið á Íslandi, sem gusthlaup gæti komið úr. 

Hættan á slíku er til dæmis líka fyrir hendi við Snæfellsjökul og Heklu, en hins vegar er afar ólíklegt að fyrrnefnda fjallið gjósi. 

Þess má geta, að í gær flaug ég ekki á TF-FRÚ yfir Öræfajökul eins og sagt er á texta undir myndinni á tengdri frétt á mbl.is, heldur á TF-JEG, sem er af sömu gerð og FRÚin, en ekki í minni eigu. 

Haustið 2014 gafst ég upp á að reka TF-FRÚ vegna mikils og hraðvaxandi rekstrarkostnaðar síðustu árin, sex milljónir króna á aðeins fjórum árum bara í ársskoðanir, burtséð frá því hvort hún flygi. 

Og samt var flugvélin óflughæf í lengri tíma á milli ársskoðana á þessum árum en hún var með gilt lofthæfisskírteini. 

Þætti það sæmilegur kostnaður vegna bílaskoðana ef árlegar skoðanir kostuðu slíkt burtséð frá því hvort bílunum væri ekið eða ekki. 

En síðustu fjögur ár FRÚarinnar voru góð, þegar hún var mestallan tímann á túni í Vestari-Garðsauka við Hvolsvöll, og ég þar langdvölum í minnstu bílum landsins, til taks fyrir myndatökur vegna eldgosanna þriggja á þeim tíma og vegna annarra myndatökuverkefna minna. 


mbl.is Gjóskuflóð færu hratt niður hlíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir um sumt á stjórnarmyndunina 1950.

Þriggja flokka ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sprakk snemma árs 1949. Ástæðan lá í efnahagsmálum og skattamálum, meðal annars í því hvort ætti að fella gengi íslensku krónunnar. 

Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórn, sem vildi fella gengið, en þá var samþykkt vantraust á stjórnina og haldnar kosningar í október. 

Í kosningunum setti Framsóknarflokkurinn fram býsna róttæk stefnumið, og í Reykjavík gerðust þau undur og stórmerki að flokkurinn fékk í fyrsta skipti í sögu sinni þingmann þar, en þá voru Reykjavíkurþingmenn sex. 

Rannveig Þorsteinsdóttir náði kosningu undir kjörorðinu "að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur," hvorki meira né minna. 

Nú tók við einhver lengsta, ef ekki lengsta stjórnarkreppa sögunnar. 

Sveinn Björnsson sá í hendi sér að vegna djúpstæðs ágreinings um utanríkismál, sem sprengdi Nýsköpunarsjórn Ólafs Thors 1946, yrði ómögulegt að mynda meirihlutastjórn nema að stóru turnarir, Sjallar og Framsókn, slíðruðu sverðin og mynduðu stjórn. 

Í það fóru margar vikur, meðal annars vegna ágreinings um gengismálin og skattamálin. 

Þar að auki voru formenn flokkanna svo persónulega ósáttir frá 1942 vegna svonefnds "eiðrofsmáls", að hvorugur gat myndað stjórn undir forsæti hins. 

Loksins, á síðustu stundu undir hótun forseta að mynda annars utanþingsstjórn tókst að mynda stjórn, sem margir hafa síðar kallað "helmingaskiptastjórnina". 

Sjálfstæðismennn beygðu sig fyrir kröfu Framsóknarmanna um stóreignaskatt en á móti gáfu Framsóknarmenn eftir í gengismálunum með því að setja á laggirnar fyrirkomulag með margföldu gengi, svonefnt Bátagjaldeyrisfyrirkomulag til að "bjarga sjávarútveginum."  

Á síðasta valdaári stjórnarinnar var búið til sérstakt gengi til þess að liðka fyrir óhjákvæmilegri endurnýjun bílaflotans, en bílainnflutningur hafði þá í að mestu stöðvast í átta ár, og má geta þess, að svipað fyrirkomulag var þá í Danmörku; dollarinn á miklu hærra verði en ella í frjálsum bílakaupum. 

Vandamálið með flokksformennina var leyst með því að Steingrími Steinþórssyni alþingismanni úr Framsóknarflokknum, var falið að ljúka stjórnarmynduninni og gegna embætti forsætisráðherra. 

Hann var úr minni stjórnarflokknum, sem var meira til vinstri en hinn, og samsvaraði að því leyti til Katrínu Jakobsdóttur, að forsætisráðherrann kæmi vinstra megin frá frá smærri flokknum, en ekki úr Sjálfstæðisflokknum. 

Þrátt fyrir að vandamálin 1950 væru miklu meira aðkallandi og brýnni en nú, tók þetta svona langan tíma. 

Og þá, eins og nú, voru skattamálin og efnahagsumhverfið einna snúnust viðfangs. 

Til að finna lausn í þeim þurfti drjúgan tíma til að búa til kerfi, sem báðir aðilar gætu sætt sig við.  

Það ætti því ekki að koma á óvart að það muni taka tíma að finna samkomulagsgrundvöll núna. 

 


mbl.is „Ætluðum að vera komin lengra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor Framsóknarflokkurinn er betri í að "vinsa það besta úr"?

Framsóknarflokkarnir á Íslandi eru minnsta kosti tveir en þó líklega fleiri flokkar sem hafa innanborðs menn sem eru "Guðjón inn við beinið." 

Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa sagt það, að það sé aðall Framsóknarmanna, að skoða sem best allar mögulega kosti og fá hægri, vinstri og miðjumenn til samstarfs. 

Hann segir að Framsóknarmenn séu allra stjórnmálamanna vanastir að vinna sitt á hvað til hægri og vinstri. 

Í gamla daga var talað um að "Framsókn væri opin í báða enda."

Sigmundur Davíð hefur lýst því sem einum helsta kosti Miðflokksins að hann geti sem miðjuflokkur laðað til sín flokk úr öllum áttum til að sameinast um stór verkefni.

Spurningin er því hvor Framsóknarflokkurinn sé líklegri til að ná árangri í því að vera límið í ríkisstjórn eftir að hafa "vinsað það besta úr til hægri og vinstri." 

Meðan ekkert liggur enn fyrir um það hvers konar stjórnarsáttmála Sjallar, Framsókn og Vg sjóða saman, er erfitt að segja nokkuð um málið. 

Og jafnvel þótt það myndi liggja fyrir hvernig sáttmálinn væri eða á hverju strandaði ef það verður niðurstaðan, er ekki síður erfitt að giska á hvort og þá hvernig Miðflokkurinn hefði náð betri árangri við myndun ríkisstjórnar.  

 

 


mbl.is „Mynda samsæri gegn kjósendum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband