11.10.2021 | 23:20
Mikill efniviður í nýtt gullaldarlið?
Það er ekki á hverjum degi sem knattspyrnulandslið Íslands er þannig skipað í undankeppni HM að áhorfendur þurfi að leggja á minnið nöfn næstum allrar leikmannanna, sem flestir eru í kringum tvítugir að aldri.
Svipað gerðist reyndar fyrir áratug þegar Íslendingar eignuðust komandi gullaldarlið í formi unglingalandsliðs, sem síðar átti glæsiferil inn í tvö stórmót, EM og HM.
Fyrir síðuhafa var síðasta markið í kvöld sérstakt, ekki bara fyrir það, að af þremur leikmönnum, sem stóðu fyrir því, voru tveir synir Eiðs Guðjohnsens, heldur líka vegna þess að þrjár glæsispyrnur skópu þetta draumamark, fyrst löng snilldarsending frá Andri Fannari Baldurssyni beint á kollinn á Sveini Aroni, þá viðstöðulaus snilldarsending af höfði hans fyrir fætur bróðurs hans, Andra Lúkasar, sem lét snilldina halda áfram með spyrnu boltans í markið.
Afi Andra Fannars er Jón R. Ragnarsson sem varð margfaldur Íslandsmeistari í rallakstri á sinni tíð, en Baldur, faðir Andra, er annar tveggja sona Jóns, hans og Rúnars, sem urðu líka margsinnis Íslandsmeistarar.
Því má bæta við, að Andri fannar átti líka magnaða stoðsendingu sem endaði með vítaspyrnudómi, 3:0, og að bróðir Andra Fannars, Eyþór Örn, er einn af bestu fimleikamönnum landsins.
![]() |
Fjögur mörk og endahnútur frá bræðrunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2021 | 15:33
Stjórnlagadómstóll Þýskalands var með þetta á hreinu.
Þegar Hæstiréttur Íslands úrskurðaði kosningar til Stjórnlagaþings ólöglegar í ársbyrjun 2011 var það útaf tíu framkvæmdaratriðum sem í raun voru formsatriði, svo sem ...
a) ...nota plast í stað krossviðs, ....
b) ... að hugsanleg gæti myndast örsnöggt sjónlína yfir öxl kjósanda á kjörstað, þar sem hann væri að raða tugum talna á alvega einstaklega ólæsilegan kjörseðil, því að frambjóðendur voru fleiri en fimm hundruð, sem sagt, einstakt örstutt tækifæri fyrir frambjóðendur til að fylgjast með leynilegri kosningu....
c) ... að vegna yfirgengilegs fjölda framboða, var ekki hægt að gefa frambjóðendum kost á að hafa umboðsmenn sína viðstadda.
Það vekur athygli að b og c vísa í gagnstæðar áttir, b að hægt væri örstutt að fylgjast með kosningu ... og c, að ekki væri hægt að fylgjast með framkvæmd kosningar.
Hæstiréttur gat ekki um nein gögn um það að sjónlínan fræga hefði skilað nokkru tilfelli þess efnis að það atriði hefði haft áhrif á úrslit kosninganna, og raunar nefndi rétturinn ekkert dæmi þess að neitt hinna fimm aðfinnsluatriða hefði haft nein áhrif á úrslit kosninganna.
Einn frambjóðenda í kosningunum vitnaði í dæmi frá Þýskalandi, þar sem stjórnlagadómstóll dæmdi kosningar gildar, þótt svipuð aðfinnsluatriði hefðu fundist og á Íslandi, og hefðu meira að segja verið við lýði í tugum kosninga og getað snert úrslit þeirra.
Dómstóllinn lét eðli máls ráða, að ógilda ekki stjórnarathafnir á borð við myndun ríkisstjórna langt aftur í tímann vegna formsatriða við framkvæmd kosninga.
Hinvegar var framkvæmdaaðilum kosninga gert að lagfæra aðfinnsluatriðin innan ákveðins frests.
Bæði í stjórnlagaþingsmálinu 2011 hér heima og málinu í NV-kjördæmi núna eru meginatriðin ljós:
Við rannsókn fannst ástæðan fyrir mistalningu í NV-kjördæmi, sem var innsláttarvilla, og með því að leiðrétta hana var komin rétt niðurstaða.
Engin merki hafa fundist um að aðstæður hafi verið þannig að skortur á innsigli kjörkassa hafi haft nokkur áhrif á úrslit talningarinnar.
Í stjórnlagaþingsmálinu fannst engin ástæða til að ætla að úrslit kosningarinnar hefðu verði röng. Þrátt fyrir leit finnst engin hliðstæða á Vesturlöndum um hliðstæðu þess úrskurðar að ógilda úrslit kosninganna á formsatriðum, sem engin sannanleg áhrif höfðu á kosningaúrslitin.
![]() |
Ágallar í NV leiði ekki til kosninga á landsvísu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2021 | 00:18
Mjög langur listi flokkahlaupara.
Það er mjög fróðlegt að skoða sögu þeirra sem hafa skipt um flokka í íslenskri stjórnmálasögu.
Sá fyrsti "stóri" sem það gerði var líklega Tryggvi Þórhallsson, sem var forsætisráðherra fyrir minnihlutastjórn Framsóknarflokksins 1927 til 1930 en hrökklaðist úr flokknum og stofnaði Bændaflokkinn.
Hann bauð sig fram í Strandasýslu 1934, þar sem hann hafði verið þingmaður, en féll fyrir kornungum og næsta óþekktum frambjóðanda Framsóknarflokksins, Hermanni Jónassyn, sem myndaði fyrir bragðið "Stjórn hinna vinnandi stétta" með Alþýðuflokknum og sat á forsætisráðherrastóli allt til 1942.
Stjórnmálamenn í fremstu röð hafa hlaupið á milli flokka og stofnað nýja flokka sjálfir, svo sem Vilmundur Gylfason, Albert Guðmundsson og Jóhanna Sigurðardóttir sem síðar varð forsætisráðherra.
Víðast fór líklega Hannibal Valdimarsson sem byrjaði sem þingmaður Alþýðuflokksins eftir stríð, varð formaður skamma stund upp úr 1950, en gekk síðan úr flokknum ásamt mönnum í Málfundarfélagi jafnaðarmanna og stofnaði kosningabandalag með Sósíalistaflokknum undir heitinu Alþýðubandalagið sem fór í Vinstri stjórn 2956-1958.
Tíu árum síðar sprakk Alþýðubandalagið og Hannibal stofnaði Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sem varð tii þess að fella Viðreisnarstjórnina í kosningum 1971 og komast í nýja vinstri stjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu 1971-2974.
Hannibal og Björn Jónsson gengu úr skaftinu 1974 en Magnús Torfi Ólafsson sat í ráðherrrastólnum fram yfir kosningar 1974.
u
y
![]() |
Ekki víst að Birgi verði treyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einu sinni gilti bann við að nefna orðið dans í útvarpsauglýsingum í nokkur ár á sjötta áratug síðustu aldar.
Kveikjan að því var hvassyrt blaðagrein Helga Hjörvar útvarpsmanns þar sem birt var ófögur lýsing á sveitaballi á Skeiðum.
Þá höfðu verið gerð mörg lög og textar um tíðarandann, karla í krapinu eins og Gústa í Hruna; "það var karl sem að kunni að / kyssa, drekka og slást.." - og - "...enda sagði´hann það oft, það er ánægjan mín; / ástir, slagsmál og vín."
Merkilega lítil breyting virðist hafa orðið á þessu í skemmtanalífi hér á landi síðustu heila öld, og endalok hins hlægilega banns á notkun orðsins "dans" 1953 til 1957 breytti engu, ekki frekar en bannið sjálft hafði gert, enda var nóg að auglýsa nöfn hljómsveita og annarra sem komu fram.
Sérkennilegt er að veitingamenn skuli vera á móti því að "átök og slagsmál" séu sem mest; "eðlilega."
![]() |
Ofbeldi fylgir skemmtanalífinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2021 | 23:57
Hvar verða risa rafstrengirnir? Alls staðar.
Þegar Sighvatur Björgvinsson var iðnaðarráðherra 1991 til 1995 fór hann með íslenskum sérfræðingum til Bretlands til að kynna sér áform um lagningu rafsæstrengs milli Skotlands og Íslands.
Niðurstaðan varð afdráttarlaus og að sumu leyti óvænt miðað við þær væntingar um stórgróða sem fylgja myndu slíkum streng.
Það kom til dæmis í ljós að ekki var nóg að strengurinn væri einn, heldur argð minnsta kosti tveir vegna seguláhrifa og afhendingaröryggis.
Sighvatur sneri heim til Íslands með þá niðurstöðu að risa sæstrengahugmyndirnar væru ekki raunhæfar.
Þegar Orkupakki 4 nálgast og búið er þegar að gera áætlanir um á annað hundrað stórar vatnsaflsvirkjanir, á annað hundrað virkjanir undir 10 megavöttum hver, vindaflsvirkjanir upp á meira en 3000 megavött samtals og komast með öllu þessu upp í að þrefalda eða jafnvel fjórfalda raforkuframleiðsluna í landinu, blasir það við, að lokaniðurstaðan geti orðið að við Íslendingar framleiðum fimmtán til 20 sinnum meiri raforku fyrir erlenda stóriðju en íslensk heimili og fyrirtæki.
Að stóriðjan muni taka allt að 95 prósent orkunnar en við sjálf hafa 5 prósent.
En hin sviðsmyndin er kynnt aftur og aftur áratug eftir áratug að við eigum að gera land okkar að einu allsherjar virkjananeti allt frá hafinu sjálfu inn á miðju hálendisins.
Risa sæstrengir yrðu að koma að landi á suðausturhorninu og þaðan liggja margfalt net risalína þvers og kruss um allt land.
Af þessum sökum er eðlileg sú krafa Landsnets, að ferðamönnum sem koma til landsins, verði rækilega fylgt með risalínum alla leið frá Leifsstöð austur um til Hornafjarðar auk lína á svonefndum "mannvirkjabeltum" um hálendið.
![]() |
Strengurinn kemur á land við Þorlákshöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.10.2021 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2021 | 14:50
Erfið leið til metorða fyrir langflesta, sem Birgir hefur valið sér.
Þeir sem fara út í framboð í stjórnmálum verða að sætta sig við það á margan hátt, að þar sem flokkar eru margir og þar af leiðandi flestir smáir, er í fyrsta lagi erfitt að komast til áhrifa nema í gegnum flokk, sem kemst í stjórn, því að sagt hefur verið að varla sé hægt að hugsa sér ömurlegri stöðu en að vera í stjórnarandstöðu.
Nánast engin frumvörp á þingmanna slíkra flokka fá brautargengi, algengast er að þau séu svæfð og það jafnvel aftur og aftur árum saman.
Ef svo ólíklega vill til að þau séu afgreidd til beinnar atkvæðagreiðslu eru þau felld.
Þegar það hefur runnið upp fyrir þingmönnum við kjör, að þeir muni lenda í örfámennum þingflokkum, sem lendi í stjórnarandstöðu, Ef þeir ákveða að vera þar áfram bíður þeitta hlutskiptið, sem lýst er hér að ofan.
Eini kosturinn við það er sá, að þá er erfitt fyrir kjósendur þeirra að benda á að þeir hafi brugðist og svikið fylgismenn sína.
En stjórnmál eru nú samt list hins mögulega, svo að það mætti líka segja að það að velja erfiðustu og árangursminnstu leiðina séu ákveðin svik, nær væri að sjá hvort hafa megi áhrif á annan veg, til dæmis með því að stökkva yfir á vagn hjá stærsta ríkisstjórnarflokknum.
Sjaldan hafa menn þó komist langt með þeirri aðferð, svo sem hjá Jóni Magnússyni eftir kosningarnar 2007 og Inga Birni Albertssyni á tíunda áratugnum.
Stefán Valgeirsson hafði nokkra sérstöðu 1988 til 1991. Flestir höfðu afskrifað hann eftir að honum var hent út af framboðslista Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmis eystra fyrir kosningarnar 1987, en hann var stórlega vanmetinn og kom öllum á óvert með því að bjóða sérstaklega fram eigin lista í nafni félagshyggju og framfara og komast í oddaaðstöðu fyrsta ár ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar þar til helmingur Borgaraflokks Alberts Guðmundssonar komst um borð í stjórnarfleyið.
Það varð þá fimm flokka stjórn, en síðar mun Steingrímur hafa sagt, að það hefði tekið jafn mikinn tíma frá honum við að hafa Stefán góðan eins og alla hina til samans.
Hvað Miðflokkinn snertir undanfarin fjögur ár, tapaði hann í fyrstu miklu fylgi eftir Klausturmálið, en græddi jafnframt brottræka þingmenn Flokks fólksins, en síðan sótti flokkurinn inn í ákveðið tómarúm meðal andstæðinga 3. orkupakkans, sem voru í meirihluta í skoðanakönnunum þrátt fyrir nægt fylgi á þingi.
Flokkurinn sankaði að sér nokkrum svipuðum málum eins og staðsetningu Landsspítalans og kosningagjafaloforðum, en andstaða hans við orkupakkann hafði gleymst og vel útfærðar kosningastefnur Framóknar og Flokks fólksins toppuðu á réttum tíma.
Birgir Þórarinsson mun varla geta leikið neinn Stefán Valgeirsson í hinum drjúga meirihluta komandi stjórnar.
![]() |
Þetta eru svik við kjósendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er keppikefli fyrir hóteleigendur að geta auglýst sem flestar stjörnur sem hótelin fá þegar þau eru metin af til þess bærum aðilum.
Það er ekki hlaupið að því að skarta fimm a, en sem dæmi hér á landi má nefna Grímsborgir Ólafs Laufdals, sem er einstaklega vel rekið og útbúið hótel.
En það eru til viðurkenningar af öðru tagi, svo sem þar sem lesendur tímarita eða viðskiptavinir af ýmsu tagi leggja mat á hótelin.
Á sínum tíma sagði Friðrik Pálsson eigandi Hótels Rangár mér það, þegar ég spurði hann af hverju hann sæktist ekki eftir fimm stjörnum, að hann teldi mikilvægara að eftir gistingu undruðust gestir það að stjörnurnar væru ekki fimm, heldur en að þeir hefðu aðeins gist á enn einu fimm stjörnu hótelinu.
Hvers kyns viðurkenningar, sem fást og vekja athygli geta verið ekki síður mikils virði fyrir hóteleigendur en fimm stjörnu medalían.
![]() |
Þrjú íslensk hótel hljóta virt ferðaverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2021 | 13:36
Ansi dæmigerð orðanotkun: "Ullu því klárlega" og "við erum að sjá."
Áratugum saman hefur verið farið rangt með sögnina að valda í fleirtölu þátíðar, en þar er, hliðstætt því að segja "olli" í eintölu, rétt að segja "ollu".
Í staðinn er talað um það í viðtengdri frétt á mbl.is að orkuskiptin í Bretland "ullu" eldsneytiskreppu.
Orðið "klárlega" virðist vera í svo miklu dálæti, að orð eins og "næsta víst", "áreiðanlega", "vafalaust", "eflaust" og "ábyggilega" eru að hverfa.
Og síðan er veldi orðanna "við erum að sjá", sem hnýtt er við hvers kyns upplýsingar í umræðu orðið slíkt, að einn sjónvarpsviðmælandi afrekaði það um daginn að segja "við erum að sjá" tvisvar í örstuttri setningu.
2
![]() |
Orkuskipti stór áhrifaþáttur eldsneytiskreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2021 | 23:11
Fyrir 80 árum: Orrustan um Vyazma á endaspretti til Moskvu.
Fyrir réttum 80 árum brunuðu brynsveitir þýska skriðdrekaherforingjans Heinz Guderians á fullri ferð í Aðgerðinni Taifun í áttina til Moskvu og áttu aðeins 200 kílómetra eftir í herför, sem fram að þessu var sú stærsta og glæsilegasta í hernaðarsögunni, enn glæsilegri en leifturstríðið vorið árið áður þegar Niðurlönd, Frakkland, Danmörk og Noregu féllu á tveimur mánuðum
Þýsku brynsveitirnar unnu frækinn sigur í tveimur orrustum á lokasprettinum til Moskvu 1941, um Bryansk, sem hófst 6. október 1941 og endaði 19 október, og um Vyazma 7. október og stóð til 14. október.
Sigurinn í Vyazma var sérstaklega sætur, því að þar, hinn 3. nóvember 1812, hafði rússneski herinn valdið svo miklu tjóni á stórum hluta hers Napóleons, sem var að reyna að komast á nægan skrið á heimleið frá Moskvu, að það réði úrslitum um að þessi flótti Napóleons misheppnaðist og breyttist í eitthvert mesta afhroð hernaðarsögunnar.
Myndin hér er af orrustunni 1812 sem er í hávegum höfð hjá Rússum.
Dagana 6 til 19 október 1941var ástandið hins vegar á þveröfuga lund, tveir rússneskir herir voru umkringdir og þeim eytt, og leið Guderians og manna hans til Moskvu, aðeins 200 kílómetrar af 1800 sem höfðu verið farnir síðan 22. júní, virtist bein og greið.
Her Guderians hafði ekki aðeins farið beint af augum langleiðina til Moskvu á tæpum tveimur mánuðum, heldur hafði Hitler skipað honum 12. ágúst, að snarbeygja þvert af leið 1000 kílómetra til Kænugarðs og framkvæma þar stærstu innilokun og ósigur hernaðarsögunnar þar sem milljónir Rússa voru sigraðir og herteknir, og fara síðan aftur til baka aðra 1000 kilómetra til að hefja að nýju brunið til Moskvu 30. september.
Þessi ekki litli útúrdúr hafði að vísu kostað sjö vikna töf á hraðferðinni til Moskvu, en á móti komu sigrarnir stóru í Ukraínu, sem höfðu uppfyllt draum Hitlers frá Mein Kampf um yfirráð yfir "kornforðabúri" og iðnaðarframleiðslu Úkraínu.
Miðað við fyrri hraða og yfirferð Guderians, virtist nú, í októberbyrjun, aðeins smámál fyrir hann og sveitir hans, að klára þá 200 kílómetra af alls 4000 kílómetrum sem nú tæki aðeins nokkrar vikur að klára.
Stefni að því að staldra við fram að jólum í nokkur skipti hér á blogginu á stöðum á þessum örlagaslóðum, sem ég skoðaði í sérstakri pílagrímsferð veturinn 2006.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.10.2021 | 20:53
Af hverju varð Héðinn formaður Dagsbrúnar? Klukkan færð aftur um 90 ár?
Ef eigendur fyrirtækja koma því í gegn á því herrans ári 2021 að reka þá starfsmenn sem eru trúnaðarmenn starfsmanna er verið að færa klukkuna á Íslandi aftur um tæp 90 ár til þeirra ára, þegar eigendur fyrirtækja gátu gert þetta á löglegan hátt.
Þessu beittu eigendur fyrirtækja óspart með því að nýta sér bág kjör starfsmanna til að kúga þá til eftirlátssemi með hótunum um brottrekstur.
Verkamannafélagið Dagsbrún var á þessum árum stærsta og öflugasta verkalýðsfélagið, en sá ekkert annað ráð til þess að bregðast við þvingununum en að ráða sem formann Héðinn Valdimarsson, sem var bæði Alþingismaður og vel launaður forstjóri Ólíuverslunar Íslands.
Það var því ekki hægt að nota lauasviptingaraðferðina á hann.
Það kostaði langa baráttu að fá það inn í vinnulöggjöfina fyrir 90 árum að slíkar aðfarir væru ólöglegar.
Það er þvi ekkert smámál ef nú á að fara að beita þessari svipu og færa klukkuna þar með aftur um 90 ár.
![]() |
Þetta er bara svo alvarlegt brot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)