Myndbandstökurnar smærra framfaraskref en ætlunin var?

"Dómarinn er hluti af leikvellinum" var setning sem í meira en öld réði ein ríkjum um dómgæsluna, sem hefur verið þrætuepli alla tíð frá upphafi knattspyrnunnar.

"Gatmarkið" fræga á Melavellinum hér í gamla daga verður eilífðar þrætuepli og engar myndatökur eru fyrir hendi í því máli. 

Dómarar og línuverðir voru í engri aðstöðu til að sjá hvort boltinn féll í gegnum þaknetið alveg rétt aftan við þverslána eða ekki. 

Engin bein sönnun var fyrir hendi um það hvort gatið á netinu var komið áður en boltinn féll þar niður eða ekki komið. 

Margir vonuðust eftir að ný myndatökutækni, sem nú er notuð, myndi fara langt með að útrýma vafaatriðum, sem fara annars fram hjá dómurum eða verða til þess að rangir dómar eru felldir. 

Sú von hefur að talverðu leyti reynst tálsýn og ekki útrýmt alvarlegum álitaefnum. 

Aðeins nákvæm og ítarleg skoðun á öllum atvikum, sem myndatæknin er notuð til að hjálpa til við úrskurð dómara getur leitt í ljós hvort framför sé það mikil að það réttlæti þessa nýju tegund dómgæslu. 

Ólíklegt er að henni verði hætt, því að áfram munu gerast atvik þar sem dómurum finnst það kostur að geta gengið að þessari hjálp við að kveða upp rétta dóma.  


mbl.is Höfum fengið tíu ákvarðanir myndbandsdómara gegn okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð, sem þekkir ekki frelsi.

Þegar hinn ítalski einræðisherra Mussolini lét her sinn ráðast inn í Eþíópíu 1935 var lýsing þeirrar styrjaldar nokkuð einhliða hjá vestrænum fjölmiðlum; grimmur einræðisherra að ráðast á friðsama þjóð undir forystu vinsæls keisara. 

Þjóðabandalagið fordæmdi innrásina en máttlitlar refisaðgerðir breyttu því ekki að Ítalir lögðu landið undir sig. 

Mussolini ætlaði sér stóra hluti og enn mótar fyrir beinum og breiðum vegi sem hann lét gera frá vestri til austurs í miðhluta landsins drjúgan spöl fyrir sunnan Addis Abgba. 

Ítalir réðu yfir landinu í innan við áratug, og þótt enn móti fyrir veginum góða, hefur honum verið nákvæmlega ekkert haldið við og er að mestu ófær bílum, jafnvel ófær jeppabílum, svo að lengst af verður að aka utan vegarins á þessari þjóðleið. 

Veldi Haile Selassi var endurreist, en í þetta sinn sást betur en fyrr, að hann var í raun einræðisherra og hafði alltaf verið það. 

Síðar var honum steypt af stóli og meðal harðstjóranna, sem við tóku, voru kommúnistar undir forystu Mengisto engir eftirbátar annarra ráðamanna þessarar 109 milljóna manna þjóðar við að kúga landslýðinn, sem alla tíð hefur verið í hópi fátækustu þjóða heims, með álíka stórt hagkerfi og Ísland. 

Sem sagt, árstekjur meðaljónsins í Eþíópíu eru álíka miklar allt árið og meðaltekjur Íslendings þriðjung úr degi. 

Eftir daga kommúnista skánaði ástandið ekkert í raun. Nýir valdhafar þóttust lýðræðissinnar í orði, en frelsi var fjarlægt hugtak. 

Hernaðarástand vegna ófriðar við Eritreu var notað sem yfirskin og Bandaríkjamenn beðnir um að ráðast á stoðvar skæruliða og hryðjuverkamanna í Sómalíu. 

Hungursneyð er landlæg hjá þessari þjóð með sína stoltu forsögu frá fornum tímum og harmsaga hennar virðist engan enda ætla að taka. 

 


mbl.is Ástandið í Eþíópíu að verða „stjórnlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langstærsta viðfangsefnið og ógnin.

Þegar ýmis konar uppgjör fór fram við slit Sovétríkjanna afsöluðu Úkraínumenn öllum kjarnorkusprengjum sínum til Rússa auk einnig helstu árásarvopnum sínum. 

Í ljósi þess sem nú hefur gerst er eins gott að þetta var gert, því að annars stæðu tvö kjarnorkuveldi nú andspænis hvort öðru. 

Eftir stendur ógnarspurningin hvort sú staða gæti komið upp að það eina sem Pútín sæi mögulegt til að bjarga stöðu sinni væri að grípa til kjarnorkuvopna. 

Svipaðri spurningu svaraði Harry S. Truman í Kóreustyrjöldinni þannig, að ekkert gæti réttlætt það að grípa til kjarnorkuvopna. 

Vonandi verður niðurstaðan kjarnorkuvopnalaust stríð.  


mbl.is „Skítug sprengja“ ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískuorðin "aukning" og "við erum að sjá." Leiðinda málalengingar og óþarfar.

Í viðtengri frétt má sjá orðalagið "aukning í fjölda ferðamanna", sem auðveldlega má orða með orðunum "ferðamönnum fjölgar." 

Þetta er eitt af mörgum dæmum um endurkomu svonefnds kansellistíls í málfari, sem tröllreið íslenskri tungu á nítjándu öld, uppskrúfuðu og stirðbusalegu orðalagi í rituðu máli skreytt með dönskum orðum og orðaleppum til þess að varpa einhverjum ímynduðum menntunarblæ sem stöðutákni á þann sem viðhafði þessi ósköp. 

Á okkar tímum er það enskan sem hefur tekið við hlutverki dönskunnar með sagnafælni og nafnorðasýki, samanber setninguna "það hefur orðið neikvæð fólkfjöldaþróun" í stað þess að segja einfaldlega "fólki hefur fækkað."  

Og ef hinn nýi kansellistíll er notaður um hið nýja fyrirbæri mætti orða það svona:

"Það er orðin mikil aukning í ofnotkun á orðinu aukning" í stað þess að segja: "Orðið aukning er ofnotað."

Annað tískumálfar felst í endalausri notkun orðanna "við erum að sjá."

Í stað þess að segja það blátt áfram sem segja þarf frá, þarf að skeyta framan við lýsinguna orðunum "við erum að sjá."

Dæmi eru um að viðmælandi í útvarpsviðtali hafi sagt fimm sinnumm orðin "við erum að sjá" í sömu setningunni í stað þess að sleppa þessum hvimleiðu og óþörfu tískuorðum alveg. 

Tilbúið en fyllilega líklegt dæmi:

"Við erum að sjá mikla aukningu í fjölda þeirra setninga þar sem talað er í aukningu á fjölda, við erum að sjá aukningu í fækkun þeirra tilfella þar sem talað er um fjölgun eða fækkun og við erum að sjá mikla aukningu í notkun orðanna "við erum að sjá", sem við vorum ekki að sjá hér áður fyrr." 

Í stað þess að segja. "Orðið aukning er æ oftar notað."

 


mbl.is Hörmuleg nýting úti á landi á veturna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A svæðinu þarna í kring komu jarðskjálftahrinur 2007-2009.

Síðsumars 2007 hófst jarðskjáltahrina við fjallið Upptyppinga suðaustur af Herðubreið, sem stóð með hléum næstu misserin, færðist smám saman í norður í átt til Herðubreiðartagla og síðar til austurs yfir Krepputungu þar sem er skammt er að fara til Álftadalsdyngju, sem er eldfjalladyngja frá ísaldartíma. Léttir v. Möðrudal. Herðubreið

Var rætt um það á þessu lokaskeiði, að það þyrftu ekki að vera svo slæm tíðindi ef þarna yrði dyngjugos, því að það yrði líklegast hægfara og langvinnt og því "túristagos".  

Herðubreið er talin eins goss eldfjall, myndað undir jökli líkt og Gjálp 1996, og voru lok gossins ofar jökli í gíg, sem síðan myndar topp þjóðarfjallsins, samanber þetta erindi í ljóðinu "Kóróna landsins":

 

Í ísaldarfrosti var fjallanna dís

fjötruð í jökulsins skalla, 

uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís, 

öskunni spjó og lét falla. 

Er frerinn var horfinn varð frægð hennar vís, 

svo frábær er sköpuninn snjalla. 

Dýrðleg á sléttunni draumfögur rís

drottning íslenskra fjalla. 

 

Að sjá slíka mynd

sindra í lind!

Og blómskrúðið bjart 

við brunahraun svart!  

 

Myndin hér að ofan er tekin í annarri af tveimur hringferðum á léttbifhjólinu Létti um landið á árunum 2016-17 og lá hin síðari um báða hringina í einum rykk, Þjóðveg eitt að viðbættum Vestfjarðahringnum.

 


mbl.is Sá stærsti frá upphafi mælinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf snör handtök til að laða fram löngun ferðafólks til að njóta fellsins tilsýndar.

Nú þarf að taka heldur betur til varnar dýrð og gefandi guðdómleika Kirkjufells í Grundarfirði í stað þess að þessi ferðamannastaður verði illræmdur um víða veröld. 

Það kostar að vísu fé og fyrirhöfn, en þá ber þess að gæta, að hvert mannslíf á jörðinni er einstakt undur - engin tvö eru eins. 

Mikið er í húfi. Við Íslendingar, varðmenn einstæðrar náttúru landsins, verðum að setja í það vinnu, kraft og fé að koma í veg fyrir að harmsaga Kirkjufells verði lengri, heldur verði afstýrt öllum ferðum á fjallið og í staðinn valdir af kostgæfni bestu staðirnir í kringum það, þar sem fegurð þess og gildi verði í samræmi við nafn þess, sem vísar til trúar og tilbeiðslu. 


mbl.is „Það er engin fegurð í þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Keyra rúntinn piltar, sem eru´í stelpuleit..."endanlega úr sögunni.

Ljóð Sigurðar Þórarinssonar "Vorkvöld í Reykjavík" hefur á undraskömmum tíma orðið að lýsingu á horfnum tíma ljóðlínanna "tryggir hvíla rónar hjá galtómum bokkunum" og "...Keyra rúntir piltar, sem eru´í stelpuleit." 

Á undraskömmum tíma síðustu Covid-ára hefur svæðið austan Bæjarins bestu breyst svo gagngert, að það að koma þangað líkist því að vera kominn í ókunna erlenda borg, þar sem því fer fjarri að ljóðlínurnar "...Ilmur er úr grasi og angan moldu frá..." eigi við. 

Miklu fremur eiga við línur Bjartnars "...Þannig týnist tíminn." 


mbl.is Bílar víkja úr Kvosinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðlistarnir ná út fyrir gröf og dauða? Að lenda á biðlista við það að drepast?

Í svonefndum velferðarmálum samfélagsins eru biðlistar af afar mörgu tagi, svo sem í heilbrigðiskerfinu, og er margir þeirra lítt geðslegir. 

Þannig veit síðuhafi dæmi um sjö vikna biðlista eftir athugun á hugsanlegu krabbameini í nýra fyrir nokkrum árum, og upplifðu þeir, sem á honum lentu, sig sem fórnarlömb rússneskrar rúllettu varðandi það að verða óheppnir og fá úrskurð um meinið of seint. 

Um svipað leyti var biðlisti vegna aðgerða varðandi gáttaflökt meira en tveir mánuðir, af því að "fjárveitingin fyrir aðgerðunum var búin í október, og kostaði það þjóðfélagið margfalt meira en aðgerðaleysið, því að einn úr vinahópnum fékk heilablóðfall á meðan hann beið á þessum harkalega biðlista. 

Nú er svo að sjá að ákveðinn hópur Reykvíkinga verði ekki laus við biðlista að ævinni lokinni, því að við blasir alveg nýr biðlisti að nokkrum árum liðnum eftir legurými í Reykjavík þegar Gufuneskirkjugarður verður fullnýttur og nýr kirkjugarður í landi lambhaga ekki tilbúinn.   

Er næsta skrýtin tilfinning að eiga jafnvel í vændum að lenda á slíkum biðlista handan við gröf og dauða. 

Þó hefur flogið fyrir að reynt verði að leysa málið til bráðabirgða með því að grafa viðkomandi í Kópavogi þótt borinn sé og barnfæddur í Reykjavík og að móðirin hafi ekki lent á biðlista eftir því að barnið kæmist að á sínum tíma.  


mbl.is Taka á móti mold í nýja kirkjugarðinn við Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í okkur og á eru fleiri bakteríur en nemur öllum frumum líkamans.

Þegar talað er um tólf staði á heimilinu, sem eru morandi í bakteríum, má ekki gleyma þrettánda staðnum, sem er líkami okkar sjáfra að innan sem utan. 

Án bakteríugróðursins sem heldur meltingunni gangandi, gætum við ekki lifað. 

Þennan fróðleik fannst mér óvænt að heyra þegar ég var eitt sinn sessunautur manns í Fokkervél frá Akureyri, fyrir tæpum þremur áratugum,  sem í ljós kom að hér Karl Kristinsson og hefur síðan starfað í sérgrein sinni sem er einmitt veirufræði og baráttan við þær bakteríur, sem eru kallaðar sýklar og hann sagði þá að yrði annar aðilinn í einu helsta stríði næstu aldar, sem væri eilíft stríð sýkla og manna. 

Í því stríði myndi baráttan harðna eftir því sem stökkbreytingar og fjölónæma gerði slaginn æ harðari uns hættan gæti stundum orðið sú, að lyfin yrðu að vera sífellt sterkari, allt upp í það að geta ekki drepið sýkilinn nema drepa líka hýsilinn, það er, sjúklinginn líka. 


mbl.is Tólf staðir á heimilinu sem eru morandi í bakteríum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1941 mistókst að skjóta niður Swordfish, vegna þess hve hægfleygar þær voru.

Óvenjulegir flugeiginleikar virðast stundum ráða meiru um það hvor hægt sé að skjóta niður árásarflugvélar og flugskeyti heldur en það hve hratt þær geti farið. Swordfish 

Þekkt dæmi úr sögunni var árás tunduskeytaflugvéla af gerðinni Fairey Swordfish, sem sendar voru til að laska Bismarck í í kjölfar orrustunnar miklu milli orrustuskipa Þjóðverja og Breta suðvestur af Íslandi.

Þetta voru gamaldags tvíþekjur og með opinn stjórnklefa eins og tíðkast hafði í Fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem flugmennirnr tveir sátu undir beru lofti dúðaðir með skinnhúfur á höfði.   

Skyttur Bismarck höfðu sökkt Hood flaggskipi breska flotans með einu skoti af löngu færi, svo að halda hefði mátt að létt verk yrði að skjóta niður hinar hlálega hægfara Swordfish vélar. 

En það mistókst gersamlega, og nú snerust málin við. Það var eitt tundurskeyti, sem hæfði stýrisbúnað Bismarck, svo að hann festist og skipið gat bara siglt í hringi á sama stað og var því "sitting duck", kyrrstætt skotmark. 

Skýringin á því að ekki tókst að skjóta Swordfish tvíþekjurnar niður var sú, að þær flugu svo hlægilega hægt, að miðun Þjóðverjanna varð kolskökk! 

Niðurstaðan varð jafntefli hvað varðaði flaggskip stríðsþjóðanna: Ein fallbyssukúla gekk frá Hood og eitt tundurskeyti stöðvaði Bismarck. 

Kannski er eitthvað svipað í gangi varðandi þá erfiðleika, sem virðast 8 árum síðar við að skjóta niður jafn hægfleygt fyrirbrigði og dróna. 


mbl.is Geta ekki stöðvað drónaflug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband