Gasgrímum dreift á milli tugmilljóna fólks 1939. "MAD" og "GAGA."

Ein helsta viðbúnaðarráðstöfunin hjá Bretum, þegar stríð braust út með þeim og Þjóðverjum 3. september 1939, var að dreifa gasgrímum til íbúa Bretlands. 

Ári fyrr hafði Neville Chamberlain forsætisráðherra rætt um það í ræðu þegar í óefni stefndi í deilunum út af Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakí hve fáránlegt það væri að Bretar væru tilbúnir að setja upp gasgrímur út af þjóð í fjarlægu landi, sem þeir þekktu ekki neitt. 

Þá náðust samningar sem höfðu þó ekki meiri áhrif en þau, að aðeins sex mánuðum síðar rauf Hitler þá og lagði alla Tékkóslóvakíu undir sig. 

Orð hans 15. mars 1939 hljóma kunnuglega núna: "Tékkóslóvakía er ekki lengur til." Hún var orðin hluti af þýska ríkinu líkt og Austurríki hafði orðið ári fyrr. 

Árin 1938 og 1939 hafði eiturgas sem vopn svipaða stöðu og kjarnorkan nú. Gasið hafði verið notað í það miklum mæli undir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar að það var erfitt og jafnvel ómögulegt að reikna út hvert það myndi berast og drepa jafnvel fleiri úr röðum þeirra, sem beittu því en þeirra sem gasinu var ætlað að drepa. 

Niðurstaðan varð sú að eiturgasi var aldrei beitt í styrjöldinni, enda líklegt að sá, sem ráðist yrði á, myndi bregðast við með gagnárás með eiturgasi.  

Þegar Bandaríkjamenn urðu fyrsta og eina þjóðin til þess að beita milljón sinnum öflugra gereyðingarvopni í Hirosíma og Nagasaki, var hugsunin að baki býsna skammsýn. 

Fram til 1949, í fjögur ár, áttu Bandaríkjamenn einir slík vopn, og sprengjurnar voru orðnar fimmtíu árið 1948 og hægt að beita þeim á tugi borga í Sovétríkjunum. Hótunin um beitingu þeirra hafði bit í ljósi "hefðarinnar" sem beiting þeirra á Japani hafði haft. 

Í skjóli þessarar hótunar gátu Bandaríkjamenn haft minni hefðbundinn herafla en ella. 

En þeir hefðu átt að geta séð það fyrir, að Sovétmenn hlytu fyrr eðs síðar að eignast slíkt vopn og þar með skapað hræðilegasta vopnakapphlaup allra tíma og svonefnt ógnarjafnvægi í krafti kennisetningarinnar MAD, "Mutual assured destruction", GAGA á íslensku, "Gagnkvæm altryggð gereyðing allra."

Það er hálfsannleikur hjá Pútín að Bandaríkin hafi skapað fordæmi með notkun kjarnavopna, því að það var líka fordæmi hjá þeim eftir það að nota ekki kjarnavopn í Kóreustríðinu né Víetnamstríðinu. 

Harry S. Truman rak yfirhershöfðingjann og stríðshetjuna Douglas Mac Arthur fyrir að mæla með beitingu kjarnavopna gegn Kínverjum og Mao kallaði Bandaríkjamenn "pappírstígrisdýr." 

Það er ábyrgðarleysi hjá Pútín að tala eins og hann gerir varðandi kjarnavopnin. 

Hann mætti muna það, að Úkraínumenn afsöluðu sér öllum kjarorkuherafla og stórvirkasta herbúnaði sínum eftir hrun Sovétríkjanna til þess að skapa traust, sem nú hefur verið laskað herfilega.

 

P


mbl.is Vísar til fordæmis Bandaríkjanna með kjarnavopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hernámið 10.maí 1940 byrjaði á smá klúðri.

Það voru aðeins innan við 800 menn sem hertóku hið hlutlausa Ísland 10. maí 1940. Miklu skipti að aðgerðin kæmi á óvart og gengi hnökralaust. 

En fyrstu merkin um landgöngu í aðsigi bárust öllum bæjarbúum Reykjavíkur fyrir slysni, sem fólst í því að senda Walrus flugbát í stutta leit að kafbátum, og í þeirri ferð flaug hún yfir Reykjavík og vakti marga bæjarbúa, þeirra á meðal Werner Gerlach ræðismann Þjóðverja, sem þar með fékk kærkomna aðvörun og gat komið hluta af skjölum sínum fyrir kattarnef. 

Að öðru leyti gekk aðgerð Bretanna vel, og þegar Hitler frétti a henni þar sem hann var staddur í byrgi sínu í Eifelfjöllum til að stjórna innrás Þjóðverja í Niðurlönd og Frakkland, varð hann æfur af bræði og skipaði fyrir um gerð innrásaráætlunar Þjóðverja í Ísland. 

Fyrir ellefu árum fór síðuhafi í könnunarferð til Eifelfjalla, fann rústirnar af byrginu og gat þar sett sig í fótspor Hitlers með því að klöngrast ofan í leifar byrgisins. 

Hin fámenna innrás Breta var nefnilega tímamóta aðgerð í aðdraganda og upphafi Heimsstyrjaldarinnar hvað það snerti, að eftir að Hitler hafði síðan 1936 ævinlega haft frumkvæði í helstu aðgerðum sínum og tekið með því heppnaða áhættu, en hin stórveldin alltaf orðið að bregðast við, fólst í hernámi Breta á Íslandi frumkvæði, sem Hitler varð að bregðast við. 

Gerlach reyndi að fá Íslendinga til fylgis við germanskan átrúnað en varð fyrir miklum vonbrigðum í trúboði sinu. 


mbl.is Skjöl Gerlachs ræðismanns á leið heim eftir rúm 80 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert hjól: Royal Enfield Himalayan.

Fjölbreytnin í framleiðslu vélhjóla er aldeilis mögnuð, svo margvíslegum þörfum er mætt. 

Nokkur hjól stinga í stúf, svo sem þriggja hjóla gæðingurinn Yamaha Niken, en bæði Yamaha og fleiri framleiða slík hjól. 

Kostur þeirra er stöðugleiki, en galli aukin þyngd og hærra verð en á tveggja hjóla reiðskjótum af svipaðri stærð.  

Verðið skiptir máli. Þannig hefur Yamaha MT07 verið mest selda gerðin í Danmörku átta ár í röð. 

Í öllum flotanum sker eitt hjól sig ansi hressilega úr: Royal Enfield Himalayan. 

Það er beinlínis haft sem einfaldast, léttast, sterkast, ódýrast og endingarbest, og er þess vegna með einfalda 411 cc eins strokks vél, sem skilar aðeins um 25 hestöflum, en er með óvenjulega mikið og seigt tog og tæplega 130 km klst hámarkshraða, sem er feykinóg fyrir flestar aðstæður. 

Meiri áhersla er lögð á sparneytni en eitthvert firna upptak, og uppgefin eyðsla aðeins um þrír lítrar á hundraðið. 

Þyngdin er innan við 200 kíló og framhjólið auðvitað á 21 tommu felgu. 

Kjörorðið er einfalt, hentar vel við hvaða veg eða vegleysu sem er. 

Hægt er að setja rúmgóða farangurkassa á hjólið, og hér á Íslandi hafa verið sett aðeins stærri dekki til að fást enn betur við þá fjölbreyttu hálendisvegi, sem þeim hefur verið beitt á. 

Hjólið hefur selst vel í Þýskalandi og á sér trygglyndan aðdáendur hér og einnig hér á landi. 

Ef síðuhafi væri talsvert yngri og fjáðari kæmi til greina að eiga svona hjól, en fyrir mann á níræðisaldri er krafan meiri um ódýran og þægilegan ferðamáta á þjóðvegaferðalögum, svo sem  með því að endurnýja núverandi PCX 125 cc hjól með "draumahjólinu" Honda PCX 160 cc, sem eyðir aðeins 2,2 lítrum á hundraðið, nær um 115 km hraða, hefur möguleika á rúmlega 70 lítra farangursrými og smýgur um dyr og lyftur í húsum. 

Í erlendum blöðum er þessi gerð af Honda oft talin í flokki "sofa-scooters" þótt það sé um 20 sentimetrum styttra en þau mjög svo þægilegu lúxus-malbiksferðalagahjól, sem flokkast sem "maxi-scooters." 

Vegna hins hlægilega lága eldsneytiskostnaðar er líklegt að svona hjól sé með minna kolefnisfótspor í heild en tíu sinnum þyngri og tíu sinnum dýrari rafbílar, sem þurfa mun meiri orkueyðslu, reksturskostnað, aföll og kolefnisspor við smíði, viðhald og förgun.   


mbl.is Engin þörf á málamiðlunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingar í málefnum sjókvíaeldis í Noregi. Lærum við eitthvað?

Einkennilegur munur virðist vera á málefnum sjókvíaeldis í Noregi og hér á landi. 

Ætla hefði mátt, að hér á landi væri reynt að nýta sér reynslu Norðmanna af svona eldi, sem þeir hafa verið talsvert langt á undan okkur með, og þá einkum reynslu þeirra af mistökum, sem hægt væri að komast hjá. 

En þetta virðist alveg ofugt eins og sést af viðtengdri frétt á mbl.is, því að engu er líkara en að Ísland hafi í miklum mæli verið gert að eins konar griðastað fyrir norska laxa sægreifa, sem þeir geta flúið til og vonast eftir meiri eftirlátssemi en heima fyrir. 

Samtímis er rekinn mikill andróður gegn landkvíaeldi og því fundið flest til foráttu. 

Sérkennilegt er að sjá í fréttum þann harmagrát, að "600 miljarða verðmæti hafi þurrkast út" vegna auðlindaskatts á sjókvíaeldi í Noregi. 

Samkvæmt þessu er auðlindagjald hið versta fyrirbæri almennt og vaknar þá sú spurning, hvort réttara væri að borga fyrirtækjum nógu hátt þakkargjald fyrir að halda kauphallarvísitölum sem allra hæstum.


mbl.is Yfir 600 milljarða verðmæti hafa þurrkast út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti mynd Ólafs K. sér keppinaut sem "ljósmynd 20. aldarinnar"?

Í viðtengdri frétt af mbl. um hið mikla filmu- og myndasafn Ólafs K. Magnússonar fyrrverandi ljósmyndara á Morgunblaðinu er birt fræg mynd hans af óeirðunum á Austurvelli 30. mars 1949 þar sem hann fylgir eftir lögreglumönnum, sem eru, vopnaðir táragasi og gasgrimum, að ryðja völlinn og koma fundarmönnum þar í burtu. 

Myndin sýnir meira en sést í fljótu bragði, því að´það þarf blöndu af hugrekki, hörku og lagni til að komast í svona "skotstöðu" af hendi ljósmyndarans í langhörðustu mótmælendaátökum aldarinnar, sem stóðu um heitasta deiluefni aldarinnar. 

Hér á síðunni hefur verið bent á aðra ljósmynd, sem kandidat fyrir mynd aldarinnar, en það er hin magnaða mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af tæplega 39 líkum skipverjanna af hinu heimsfræga franska rannsóknarskipi Pouqouis-Pas raðað í fjörunni í Straumsfirði með lík Charcot leiðangursstjóra fremst eftir að skipið hafði farist á skerinu Hnokka þarna fyrir utan í fádæma óveðri 16. september 1936. 

Slysið var heimsfrétt og útförin gerð með fádæma viðhöfn í Reykjavík og henni útvarpað til Frakklands.  

Finnbogi Rútur var ritstjóri Alþýðublaðsins á þessum tíma og fylginn sér, og það hefur þurft mikla lagni og skynbragð til að ná þessari óskaplega dramatísku mynd, sem segir meira en þúsund orð.

Myndir Ólafs K. af Austurvelli voru margar góðar, en hin eina mynd Finnboga Rúts af Pourqua pas? harmleiknum var á heimsmælikvarða.  


mbl.is Taka fagnandi við einstöku myndasafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sama indverskur bíll og indverskur bíll?

Skemmtilegt var það hér um árið þegar maður einn kom inn í bílaumboð sem hafði umboð fyrir virta japanska bíla og kvaðst ætla að endurnýja japanskan bíl sem með öðrum japönskum, sem hann hefði verið sérlega ánægður með. 

Hann ætlaði sko ekki að kaupa eitthvert "austan tjalds drasl."

Annar maður, staddur þarna inni, benti honum þá á, að þessi góði og vinsæli bíll hans væri raunar framleiddur í Rúmeníu. 

Þurfti talsverðar útskýringar til þess að maðurinn tryði þessum ósköpum og spurði þann, sem svarað hafði, hvort hann væri ekki á minnsta bílnum, sem umboðið hefði á boðstólum og væri alveg örugglega japanskur. 

"Jú, ég er á minnsta og ódýrasta bílnum á markaðnum", var svarið, "en hann er að vísu ekki japanskur þótt nafnið sé japanskt, heldur er hann indverskur." 

Og þetta er vel mögulegt á þessari öld víðtækra viðskiptatengsla, því að Suzuki Alto hefur verið mest seldi bíllinn á Indlandi en náði einnig nokkrum vinsældum hér á landi. 

En munurinn á þeim Alto, sem seldur hefur verið í framleiðslulandinu og þeim Alto, sem seldur hefur verið á evrópska markaðnum, er að vísu afar lítill útlitslega, en hins vegar sleppt öllum þeim mörgu öryggisatriðum á Indlandi, sem eru í evrópsku gerðinni. 

Svipað gilti um fleiri bíla, svo sem Ford Fiesta. 

Vestrænt bílatímarit gekkst fyrir árekstraprófi NCAP á báðum gerðunum og var útkoman sláandi: Evrópsku gerðirnar fengu fjórar stjörnur, en indversku gerðirnar fengu algera falleinkun, fengu ENGA stjörnu!   

Á sínum tíma var framleiddur ódýrasti bíll í heimi, Tata Nano, á Indlandi, en sú tilraun misheppnaðist algerlega, og meðal þess, sem olli því, var herfileg útreið í árekstraprófi. 

 


mbl.is Gæti verið varasamt að kaupa kínverska Volkswagen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setið uppi með þrengsli í flugi, sem eiga 70 ára aðdraganda.

Boeing 707, sem er formóðir nútíma mjóþotna, var hönnuð um miðja síðustu öld. 

Síðan þá hefur meðalstærð farþega vaxið það mikið, að meirihluti flugfarþega býr við of mikil þrengsli á breiddina í þeim þotum, sem mest eru notaðar í lággjaldaflugi. 

Innanbreiddin samtals í mjóþotunum er 3,54 metrar, en í Airbus, sem var hönnuð þrjátíu árum síðar, er breiddin 3,70 metrar. Munurinn er 16 sentimetrar eða 8 sentimetrar hvorum megin. 

Það eru afdrifaríkir sentimetrar, álíka mikill og á milli bíla í tveimur stærðarflokkum, svo sem Golf og Póló.  

Á löngum flugleiðum munar miklu um þessa sentimetra, sem hefði verið gott að fjölga með því að hanna nýja vél þegar Boeing 737 Max varð fyrir valinnu. 


mbl.is Svona færðu besta fótaplássið í flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingurinn: Þetta reddast, - látum á það reyna.

Buið er að kyrja aðalfrétt þessarar helgar dögum saman varðandi það að í aðsigi sé eins mikið fárviðri og hugsast getur með tilheyrandi rauðri viðvörun, sem er efsta mögulega stig. 

Samt eru bílar fastir tugum saman á óveðurssvæðinu og hámarks útkall björgunarsveita í gangi. 

Engu virðist skipta, þótt sagt sé að vegum sé lokað, samt er sama ástændið og ævinlega virðist vera þegar mestu illviðri ganga yfir landið. 


mbl.is Fólk beðið um að vera ekki á ferli að óþörfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi tíðni áhlaupa með norðlægum vindum og miklum hita.

Á síðustu öld fylgdu kuldar og froest yfirleitt snörpum áhlaupum norðlægra vinda. 

Þetta sýnist hafa breyst, og æ oftar fylgja miklir hitar og stormaregn norðanáhlaupum af ýmsu tagi eins og nýjasta áhlaupið ber glögglega með sér.  

Í dag og kvöld, seint í september, hefur verið norðvestan átt á Dalatanga og hitinn farið upp í 24 stig!


mbl.is Búa sig undir óveður í ríflega 20 stiga hita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt hræðslustef kyrjað.

Um síðustu aldamót var það hræðslustef óspart spilað, að ef ekki væri virkjað stanslaust og stærst hér á landi skylli á kreppa og atvinnuleysi. 

Þegar spurt var á móti, hvað tæki við þegar búið væri að virkja allt virkjanlegt var svarið það, að þá værum við dauðir og kæmi málið ekki við. 

Sumir bættu í og sögðu að okkur varðaði ekkert um komandi kynslóðir, því að þær hefðu aldrei gert neitt fyrir okkur. 

Þegar ofurlítill slaki myndaðist í virkjanasókninni í kjölfar hrunsins kom hins vegar í ljós að ferðaþjónustan gaf okkur ekki einasta mesta efnahagsvöxt sögunnar, heldur einnig mesta atvinnuuppbyggingu og virðisauka og hagvöxt fyrir þjóðarbúið. 

Nú er aftur farið að kyrja gamla virkjanasönginn og sagt að það þurfi að tvöfalda orkuframleiðsluna, og að það þurfi vegna íslenskra heimila og fyrirtækja, þegar við blasir, að stóriðjan og námagröfrur fyrir rafmynt er aðalástæðan. 


mbl.is Skortur á raforku gæti ógnað hagvexti á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband