12.2.2022 | 18:45
Gagnrýni á varla við þegar lið er með farsótt. Labbi og Ingólfur voru góðir í den.
Þegar þannig er ástatt fyrir landsliði í handbolta, að ellefu menn verða úr leik á stórmóti, er grundvöllur fyrir harðri gagnrýni, eins og sjá mátti sums staðar á samfélagsmiðlum, varla fyrir hendi eftir að liðið hefur þó náð sjötta sæti og hárbreidd frá því að komast í undanúrslit.
Lýsing landsliðsþjálfarans er sláandi, og í ljósi þess við var að etja dag frá degi er til dæmis út í hött að gagnrýna hann fyrir að hafa ekki tilbúið tvö jafnsterk lið til að að skipta út eftir þörfum.
Þegar rætt er um fyrstu stórmótin, sem Íslendingar tóku þátt í fyrri hluta sjöunda áratugarins, er gaman að sjá viðtalið við Gunnlaug Hjálmarsson; "Labba" sem komst fyrstur Íslendinga í heimslið á stórmóti.
Í því sambandi má minna á hinn stórkostlega leik, sem annar landsliðsmaður átti í því að skjóta sjálft silfurlið Svía í kaf.
Landsliðsþjálfarinn hvíldi Ingólf í fyrsta leiknum í mótinu og notaði hann með nokkurs konar leynivopn gegn Svíum.
![]() |
Neitaði dauðþreyttum fyrirliðanum um skiptingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í ársbyrjun 1941 lýsti Roosevelt Bandaríkjanna yfir því, að hlutverk þjóðar hans skyldi vera að berjast fyrir fjórum tegundum af frelsi:
Skoðanafrelsi.
Trúfrelsi. (Frelsi til tilbeiðslu).
Frelsi frá skorti.
Frelsi frá ótta.
Athygli vekur að þetta er orðað á tvennan hátt; frelsi til einhvers og frelsi frá einhverju.
Mjög hefur verið rætt um frelsi varðandi sóttvarnaraðgerðir og er áhugavert að mæla þær samkvæmt þessum skilgreiningum á frelsi.
I tilmælum stórverslana er fólk hvatt til að huga að því að stuðla sjálft sem minnst að smitunum, svo sem fjarlægð milli fólks og notkun grímu.
Hvað grímuna varðar snýst notkun hennar ekki aðeins um frelsi til að hunsa sóttvarnaraðgerðir, því að sé það gert með þeim afleiðingum að smita aðra eru þessir "aðrir" sviptir frelsi sínu frá smitunum hvað grímuleysi varðar.
Og eftir sem áður hlýtur að mega gera þá kröfu, að fólk hafi frelsi til að verja sig gegn smitunum, verja sig frá/fyrir farsóttinni.
Hafa skal í huga ein af grunnsetningum þeirra hugsuða, sem voru frumkvöðlar frjálshyggjunnar, að frelsi eins endar þar em frelsi annars byrjar.
![]() |
Bónus fylgir á eftir Krónunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þeir sem muna eftir tímunum um miðja síðustu öld, muna margir eftir þeirri málvenju fólks sem bjó í næsta nágrenni við Hlemm, að nota örnefnið Vatnsþró um hann.
Íbúar Rauðarárholtsins töluðu um það að "fara niður að Vatnsþró" löngu eftir tíma hennar.
Örnefnið dró nafn sitt af því, að þarna var vatnsból, þar sem hægt var að brynna hestum og sækja sér vatn.
Gaman væri, ef þarna væri hægt að reisa eftirlíkingu af Vatnsþrónni og finna þar stað fyrir styttu Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberans og styttunnar af klyfjahestunum forðum daga, sem þarna var iðulega brynnt.
![]() |
Hlemmur mun gjörbreytast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2022 | 12:29
"Ár grænnar byltingar" gott mál, en hægt að finna betri stað fyrir formlegt upphaf.
"Ár grænnar iðnbyltingar" er þarft og lofsvert framtak.
Segja má að slík bylting hafi hafist hér á landi í mjög smáum stíl með fyrstu smávirkjuninni í Hafnarfirði, farið upp á næsta þrep með Elliðaárstöð og komist á skrið með Sogsvirkjununum.
Orkusvinnslan sjálf í Sogsvirkjununum var sannanlega græn, en þó þurfti að færa fórn í formi eyðileggingar eins besta laxastofns landsins.
Á móti þvi kom að vísu að slegiæ var rösklega á hvimleitt mýið við Sogið.
Helliheiðarvirkjun er að visu stærsta jarðvarmavirkjun landsins og hefði hugsanlega getað orðið sjálfbær með endurnýjanlegum orkugjafa, en þá hefði hún þurft að vera mörgum sinnum minni í upphafi til þess að hægt væri að finna jafnvægi fyrir trygga og jafna orkunýtingu í samræmi við kenningu Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar um það hvernig að skyldi fara, sem birtist í greinarflokki þeirra í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum.
Forstjóri Landsvirkjunar minntist lítillega á þetta atriði við opnun Þeystareykjavirkjunar, en nú er farið að viðra stækkun hennar án þess að sjálfbærn sé nefnd.
Eins og er, er aðeins gert það það skilyrði fyrir gufuaflsnýtingu, að hún endist í 50 ár, en það stenst alls ekki meginkröfu um sjálfbæra nýtingu, sem til dæmis var atriði í Ríósáttmálanum 1992, sem Íslendingar og fleiri þjóðir undirrituðu.
GPS mælingar hafa sýnt mikla lækkun lands á gufuaflsvirkjunarsvæðunum á Reykjanesskaga og hefur sjór gengið á land í Staðarhverfi vestan Grindavíkur.
Þetta og þverrandi orka sýnir að þarna er notuð svonefnd "ágeng orkuvinnsla" sem er annað orð yfir rányrkju.
![]() |
Grænni byltingu ýtt úr vör í Hellisheiðarvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2022 | 18:55
Mun færri látnir úr covid hér en í öðrum löndum.
Frá upphafi Covidfaraldursins hefur dáðnartíðni af völdum hennar verið miklu lægri hér á landi en í öðrum löndum.
Núna er íslenska talan 51, sem er margfalt lægri tíðni miðað við fólksfjölda hér en í í mörgum löndum, svo sem í Bandraríkjunum þar sem heildartalan þar væri í kringum 50 þúsund ef dánartíðnin væri sú sama þar og hér, af því að Bandaríkjamenn eru tæplega þúsund sinnum fleiri en við.
En stað 51 þúsund látinna, hafa 936 þúsund látist úr covid vestra, sem er átján sinnum meiri tíðni en hér.
Í Svíþjóð hafa 16.360 látist, en ef tíðnin hefði verið eins lág þar og hér, miðað við fólksfjölda, væri talan þar í kringum 1500.
Dánartíðnin þar er um ellefu sinnum hærri en hér.
![]() |
Kona á tíræðisaldri með Covid-19 lést |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Verð á húsnæði ræðst af ýmsum þáttum, og einn sá fyrsti í byggingarkostnaði er verð lóðarinnar undir húsinu, ekki satt? Um þessar mundir virðist flest leggjast á eitt um að hækka húsnæðisverðið og þar með leiguverð húsnæðis.
Þetta hefur verið einn helsti þátturinn í hækkuðu húsnæðisverði og þar með vaxandi verðbólgu.
Á það horfa ráðamenn og aðrir ráðalausir, eins nöturlegt og það nú er.
![]() |
Lóðaverðið rýkur upp í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2022 | 12:18
"Besta landfarartæki, sem ég hef átt."
Bílarnir sem síðuhafi hefur átt um dagana, eru líkast til hátt á annað hundraðið, en sá fyrsti, Renault Juvaquatre, var kallaður "Hagamús" skráður á þrjá unga bræður sem happdrættisbíll vorið 1948.
Hann var með þeim minnstu hér á landi, en til voru tvö eintök af ítalska smælkinu Fiat Cinquecento "Topolino", sem var tveggja manna bíll.
Annan þessara Topolino hefur mátt sjá á bílasafninu á Ystafelli.
Síðan Hagamúsin var og hét eru liðin tæp 74 ár en núna er samsvarandi bíll smábíll sama eiganda, minnsti bíllinn í umferð hér á landi, tveggja manna Tazzari Zero rafbílll árgerð 2016.
Eftir að hann var kominn í gagnið var í fyrstu ekki hægt að sjá að neitt betra landfarartæki væri í boði á markaðnum, en matsatriðið "betra" tók þann pól í hæðina að miða við notagildið og ánægjuna á hverja krónu kaupverðs og rekstrarkostaðs.
Að vísu bauð rafreiðhjólið Náttfari upp á tífalt lægri orkukostnað og áttfalt lægra kaupverð en Tazzari rafbíllinn, en notagildi rafreiðhjólsins líður fyrir minni hraða, sem er mest 20 km/klst og nýtist aðeins í borgarumferð, helst ekki of löngum leiðum.
En síðan gafst færi á því sumarið 2020 að kaupa tveggja sæta rafknúið léttbifhjól hér á landi fyrir aðeins 300 þúsund krónur og með aðeins 50 aura orkukostnað á ekna 100 kílómetra.
Kostirnir fram yfir rafreiðhjólið voru miklu meiri hraði, allt að 56 km/klst, betra skjól gegn vindi og regni fyrir ökumann, þægilegri seta, sæti fyrir tvo, 130 kílómetra drægni með því að nýta útskiptanlegar rafhlöður, sem ekki eru á rafreiðhjólum.
Og orkukostnaðurinn aðeins 50 krónur á ekna 100 kílómetra; til dæmis skottúr til Selfoss og til baka.
Eftir bráðum tveggja ára reynslu hefur þetta verið notadrýgsta farartækið og mest notað, mun meira en aðeins stærra bensínknúið hjól af gerðinni Honda PCX 125 cc, sem að vísu er langdrægara og hentar fyrir lengri ferðalög, en með tífalt meiri orkukostnað.
Þetta Super Soco Cux hjól, kallað Léttfeti, er bara eitt af hratt vaxandi úrvali af svipuðum hjólum; til dæmis en Yahama er að setja í gang framleiðslu á aðeins stærra rafhjóli, Yamaha EMF,með útskiptanlegum rafhlöðum og 90 km/klst hámarkshraða.
![]() |
Besti bíll sem ég hef ekið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eftir nokkkur ár í leikhúsum hér heima um miðja síðustu öld, gerðist Gunnar Eyjólfsson flugþjónn um skeið hjá Pan American flugfélaginu Bandaríska. Það víkkaði sjóndeildarhring hans og gaf honum færi á að fylgjast vel með því nýjasta og besta, sem var að gerast í leikhúsum og skemmtistöðum erlendis.
Hann kom heim til Íslands haustið 1958, ungur og frískur og fullur af nýjum hugmyndum og orku eftir hið gefandi starf.
Vestra voru dúettar vinsælir á þessum árum, svo sem Dean Martin og Jerry Lewis og Bud Abbott og Lou Costello. Í aldarlok hálfri öld síðar völdu kunnáttumenn besta "sketch" aldarinnar og varð það 7 mínútna atriði Abott og Costello, sem gekk undir heitinu "Who´s on first"/?
Helstu dúettarnir voru samdir með tveimur ólíkum hlutverkum, annars vegar fyndni aulinn, en hins vegar félagi hans, öllu rólegri, yfirvegaðri og fróðari.
Haustið 1958 fóru Íslendingar og Bretar í fyrsta Þorskastriðið, og var eitt það helsta, sem var óvenjulegt og gerðist á miðunum, að breskur togari fékk leyfi íslenskra stjórnvalda til að setja sjúkan skipverja á sjúkrahúsið á Patreksfirði þar sem hjúkrunarkona að nafni Þóra hlaut frægð.
Gunnar fékk góðan gamanþáttahöfund til liðs við sig við að skrifa stórskemmtilegan gamanþátt um uppákomurnar á Patreksfirið, og til að skapa parið "Gunnar og Bessa", þ. e. Gunnar Eyjólfsson og Bessa Bjarnason við að gera þennan skets að þungamiðju fyrsta prógramsins síns.
Þeir félagar gerðu heldur betur skurk í skemmtanalífinu eftir ársbyrjun 1959. Síðuhafi byrjaði líka feril sinn á sama tíma, og á árshátíðunum fram á vorið urðu slík umskipti í bransanum, að hvorki ég né þeir höfðu tíma til að sjá atriði hvor annars.
Gunnar og Bessi voru meðal allra vinsælustu skemmtiatriðanna í rúmlega áratug, og aðrir leikarar eins og Róbert Arnfinnsson og Rúrik Haraldsson, Árni Tryggvason og Klemenz Jónsson og Gísli Rúnar Jónsson og Júlíus Brjánsson (Kaffibrúsakarlarnir) fylgdu fast á eftir.
![]() |
Byrjaði sem flugþjónn en er nú framkvæmdastjóri flugfélags |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2022 | 14:38
Aukin mælitækni og því í fleiri horn að líta.
Nær daglegar fréttir af jarðskjálftum víða á landinu gætu virst tákn um meiri hættu á eldgosum en verið hefur lengi.
Upp í hugann koma skjálftar á Reykjanesskaga, suður af Húsafelli, við Kötlu, Grímsey, Vatnafjöll suðvestur af Heklu, Bárðarbungu og Öskju.
En stærsta ástæðan fyrir þessari miklu tíðni kann að liggja í því að sífellt eru settir upp fleiri og nákvæmari mælar.
Eldgosatíðnin segir mikið, og á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar hafa orðið fimm eldgos á Íslandi, sem er nálægt meðaltali eldgosa síðan frá landnámi.
![]() |
Á annað hundrað skjálfta í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2022 | 10:13
Veira á meiri möguleika á viðgangi ef hún drepur ekki hýsilinn.
Afar fróðlegt og athyglusvert hefur verið að hlusta á sérfræðinga eins og Kára Stefánsson í viðtölum, þar esm þeir fræða almenning um kórónaveiruna og afbrigði hennar.
Þar hefur margoft komið fram að ómikrón veiran veldur vægari sjúkdómseinkennum en eldri afbrigði kórónaveirunnar.
Af því leiðir að síður er að vænta þess að sjúklingurinn, sem er hýsill veirunnar í þessu tilfelli, drepist, heldur en ef hann sýkist til dæmis af delta afbrigðinu.
Það afbrigði, sem smitast hraðast og auðveldast en er hins vegar vægust og veldur fæstum dauðsföllum, á hins vegar meiri möguleika á því að hýsillinn, sjúklingurinn, haldi velli og geti áfram veitt sýklinum, veirunni, skjól og yl.
Athyglisverð pæling.
![]() |
Af hverju tók Ómíkron yfir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)