4.3.2021 | 12:27
Jarðfræðileg víðsýni þarf að ríkja.
Sönn smásaga. Þegar íslensk áhöfn keppti í fyrsta sinn í rallkeppni, sem var liður í HM keppni í þeirri íþrótt, gátu Íslendingarnir komist í sambönd við menn, sem bjuggu yfir vitneskju um þá áætluðu áhættu sem fólgin er rallakstri. Þar með varð til grundvöllur til að bera saman aðstæður og þáttöku á Íslandi í samanburði við aðstæður erlendis.
Niðurstaðan var einföld: Áhættumatið leiddi til þess að búast mætti við einu banaslysi á öld.
Þegar komið var með þessa niðurstöðu heim til Íslands, fögnuðu sumir þessu á þann veg, að það væri mikill léttir að það væri heil öld þar til banaslys yrði heima.
Það sló samt smá þögn á þá þegar þeim var gerð grein fyrir því að þetta banaslys gæti alveg eins orðið í næsta ralli eins og í einhverju ralli á næstu öld.
Þe
![]() |
Eldgos við Keili gæti valdið keðjuverkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2021 | 23:18
Hekla er gott dæmi um fjölbreytilega hegðun eldfjalla.
Ef hægt er að tala um meðgöngutíma eldfjalla; tímann frá því að vísindamenn telja sig sjá merki um að fjallið eða eldsvirka svæðið sé að gera sig líklegt til eldgoss og þar til eldurin brýst út, býr Ísland yfir aldeilis firnamiklum andstæðum í þeim efnum.
Gott dæmi eru tvö stór eldfjöll, Hekla og Eyjafjallajökull. Fyrstu merki um að eitthvað óvenjulegt væri að búa um sig í Eyjafjallajökli kom fram árið 1999 og þá strax var byrjað að vakta fjallið betur og búa til viðbraðgsáætlanir sem kynntar voru íbúum á svæðinu.
Fjallið gaus síðan ellefu árum síðar.
Hekla er hins vegar með gerólíkt eðli. Einhver frægasta fréttamynd 20. aldarinnar var tekin með venjulegri myndavél í morgunsárið 1947 á Vatnsleysuströnd, og má af hæð Vífilsfells og Bláfjalla í forgrunni gossins, sem er í 150 km fjarlægð ráða, að gosmökkurinn hafi í upphafi verið tuga kílómetra hár.
Ekki er vitað af hverju hún hætti eftir 1845 að gjósa á um það bil 50-80 ára fresti eins og hún hafði gert um aldir, og byrjaði allt í einu á 23ja ára bili á milli 1947 og 1970 og síðan á ca tíu ára fremsti 1980, 1991 og 2000.
Árið 2000 hafði hún risið nægilega samkvæmt mælingum til að gerast líkleg, en engu að síður var ekki hægt að spá neinu, nema að sagt var að hægt væri að spá með innan við klukkustundar tima um að gos byrjaði.
Það var gert 2000 og var það mæling um gosóróa sem gerði þetta svona pottþétt.
Þótt margt sé líkt með gosbeltinu, sem liggur um Reykjanesskaga og beltinu, sem Mývatnseldar og Kröflueldar voru á, en það samt nægilega ólíkt til að gera spár erfiðar.
Eldarnir fyrir norðan Mývatn felast í nokkur hundruð ára millibili á milli nokkurra ára langra hrina, en um Reykjanesskagann tala vísindamenn frekar á þann veg, að eftir margra alda hlé, eins og orðið er núna, komi tveggja til þriggja alda langt tímabil með dreifðum eldgosum.
Hvort þessi spádómur rætist er líklega vonlítið að giska á. Eldvirku aldirnar gætu orðið svo margar að margar kynslóðir jarðfræðinga kæmu og færu á svo löngum tíma.
![]() |
Ólíkt öðrum gosbeltum og því erfitt að meta framhaldið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2021 | 18:11
Fimm "væntanleg eldgos" í Kröflueldum komu ekki.
Kröflueldar 1975 - 1984 samanstóðu af alls 14 óróahrinum þar sem jörð reis og skalf og kvikuinnskot skutust sitt á hvað - eða - stöðvuðust og jörð seig á ný.
Ef menn vildu fara norður til að ná myndum af eldgosi þurfti að fara fjórtán sinnum norður til þess. Níu ferðir hefðu heppnast, en fimm ferðir orðið fýluferðir.
Nú er spurningin hvað gerist hér syðra núna. Þess má geta að fyrstu gosin milli 1975 og 1980 voru lítil eða jafnvel náðu aldrei upp á yfirborðið, en 1980, 1981 komu æ stærri gos.
![]() |
Líklegt gos innan nokkurra klukkustunda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.3.2021 | 17:10
Orðin "...eldgos á Reykjanesi..." vonandi mismæli.
Áður en stjórnmálamenn gripu til þess að búa til hugtakið "Reykjaneskjördæmi" gat það gerst að menn rugluðu saman Reykjanesi, sem er yst á Reykjanesskaga við skagann sjálfan sem heild.
Þetta var afar losaraleg nafngift samanber það að heyra talað um það að þingmennirnir Jón Skaftason og Axel Jónsson kynnta sem "þingmenn á Reykjanesi" af því að Kópavogur tilheyrði Reykjaneskjördæmi.
Þetta fór smám saman að valda vaxandi ruglingi sem enn sér ekki fyrir endann á, samanber fyrstu orðin á upplýsingafundi í dag um "eldgos á Reykjanesi."
Á tveimur myndum hér á síðunni sést glögglega hvað er hvað á einu af nýjustu kortunum af Suðvesturlandi þar sem heitið Reykjanes er sett á nákvæmleg rétt svæði.
Á víðari myndinni er heitið réttilega yst á skaganum, en umrætt hugsanlegt gos við Keili er svo langt frá Reykjanesi, að það lendir utan við myndina, enda í tæplega 30 kílómetra fjarlægð frá Reykjanesi!
Þegar leið á upplýsingafundinn var sem betur fer farið að nota heitið "Reykjanessskagi" svo að vonandi var upphafsorðið mismæli.
![]() |
Engar hamfarir að hefjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.3.2021 | 06:39
"Víðir hér og Víðir þar..."
Keilir og Trölladyngja voru eldfjöllin tvö sem vöktu síðuhafa á morgnana sumrin 1947,48 og 49 sem hann var í Kaldárseli.
Þarna stóðu þau vörð handan hraunsins sem systkin þeirra, Óbrynnishólar, Búrfell og fleiri slík höfðu teppalagt Reykjanesskagann með fyrir örskömmum tíma á mælikvarða jarðsögunnar.
Nú sjá nöfnin Keilir og Trölladyngja um að fólk rumski við meira en fjögurra stiga jarðskjálfta um óttubil.
Og svona lítur skjálftakort morgunsins 3. mars 2021 út.
Og hjá árganginum, sem varð sjö ára 1947 er bólusetning verkefni dagsins.
Þriðja nafnið í fréttunum þessa daga og vikur, var ekki til 1947-49, en það var Víðir Reynisson, sem nú birtist daglega á sjónvarpsskjám til að útlista tvær af megin ógnum Íslandssögunnar, eldgos og drepsóttir.
Og útlínur Keilis á hvolfi mynda stafinn hans; V. Það er ekki einu sinn hægt að horfa á fjallið en að nafn Víis blasi við á hvolfi.
Það vantar bara hafísinn í birtingarskyldu Víðis, samanber vísuna, sem lýsa marsdögunum 2021 eftir á:
Hreint á þönum Víðir var,
er veiru´og skjálfta að höndum bar;
Víðir hér og Víðir þar
og Víðir alls staðar.
Víðir here and Víðir there
and Víðir everywhere.
Þau lög eru hér við lýði
að lýðir hlýði Víði.
Þau lög eru hér við lýði
að lýðir hlýði Víði.
![]() |
Skjálfti sem mældist 4,1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á fáum svæðum á Íslandi hafa jafnmargar eldstöðvar gosið eftir ´ísöld og á Reykjanesskaga, og svipað er að segja um tímabilið frá landnámi. Hraunflæðis- og eldvirknikortið, sem birt er í dag, er líklega það langbesta hingað til, og loksins eru sett hinn helstu atriðin sem máli skipta varðandi helstu mannrivkin, svo sem Vogar, Kúagerði, nýtt flugvallarstæði , Straumsvik og Hafnfjörður, sem eru á mögulegu áhrifasvæði eldgoss á því eldvirkasvæði sem kenna má við Krýsuvik.
Á kortinu sést, að bil er á milli núverandi óróasvæðis og ysta svæðisins, sem er mekrt heitinu Reykjanes, þar sem upphaflelgu umbrotin og skjáltarnir, með lítils háttar kvikuskoti, byrjuðu í ársbyrjun í fyrra
Eins og reynt hefur verið að bena á hér á ´siðunni í nokkra daga, sást sérstaða nýjasta óróasvæðisins og ný áhrifasvæði þar með vel í liðinni viku.
Nú blasir við sú gamalkunna staðreynd, sem orðuð er í tengdri frétt, að "einhvern tíma kemur að því að það gýs" á að sjálfsögðu ekki aðeins við þá röð tiltölulega lítilla eldfjalla, sem eru ofan flugvallarsvæðisins, heldur við allar eldstöðvar skagans, allt norðaustur á Hellisheiði.
![]() |
Eldstöðvar gusu ofan við Hvassahraun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.3.2021 | 23:54
Varnarafrek í tæknilegu "öngstræti".
Þegar Toyota skellti sér, öllum á óvörum, niður í slaginn á smábílamarkaðnum um síðustu aldamót, var uppskeran verðlaunabíll með nafni, sem síðar varð að samheiti fyrir litla og sparneytna bílinn "litla mannsins."
Toyota hafði áður framleitt hálf mislukkaðan smábíl, Starlet, sem leið fyrir úrelta hönnun og þrengsli í aftursæti.
Nokkrum árum síðar tók Toyota síðan forystu í framleiðslu tvinnbíla þar sem spilað er á hagkvæmt samspil drifrásar, þar sem benínhreyflill og rafhreyfill eru tvinnaðir saman til þess að hægt sé að nýta afburða nýtni rafhreyfilsins á orku bensínhreyfilsins sem fæðir rafhreyfilinn án þess að nein leið sé til að nýta utanaðkomandi raforku.
En krafan var um að nota raforkuna eina, og þá ákvað Toyota að veðja á vetni sem orkubera.
En keppinautarnir náðu í forskot á að framleiða hreina rafbíla, þar sem hægt var að hlaða rafhlöðurnar með því að stinga þeim í samband við raforkuver og jafnframt að framleiða líka tengiltvinnbíla, þar sem mögulegt var að nota raforkuna allt að því eingöngu og fá með því yfirburða sparnað.Toyota reyndi að halda eins og hægt var í tvinnbílana, sem þó tókst ekki að láta verða neitt sparneytnari en hreinir dísilbílar, allmiklu stærri eru.
Á þessari síðu var þessari stöðu Toyota lýst neð orðinu öngstræti og það gagnrýnt að auglýsa tvinnbílana á villandi hátt með tali um "sjálfhlaðandi" og nota tímamælingu á akstri til þess að halda því fram að helmingur af akstri bílsins færi fram með notkun rafmagns og helmingur með því að brenna bensíni.
Réttu tölurnar, um 25 prósent orkusparnaður, sæust með því að skoða hve miklu bílarnir eyddu á vegalengd (100km) eins og notaður er yfirleitt um eyðslu bíla.
En nú bregður svo við, að Toyota kemur með nýjan Yaris með áður óþekktri sparneytni fyrir þetta stóran og þungan bíl, 3,9 lítra á hundraðið.
Þessi varnarsigur hefur fengist með alveg lygilega góðu samspili og samþættingu bensínorku og raforku, án þess að bíleigandinn kaupi neina raforku.
Tiltölulega stór vél, 1,5 lítra rúmtak, er hönnuð þannig að hún skilar hámarksafli á aðeins 4800 snúningum og með geysimiklu togi, 120 Nm við 3600 snún/mín.
Tölurnar minna á dísilvélar, orkueyðslan er enn minni en þeim sparneytustu, svo sem Renault Clio, sem og kolefnisútblástur.
Þessi óvænti árangur og viðurkenningin "bíll ársins í Evrópu" eru kærkomnar fréttir fyrir Toyota og gefa möguleika á endurbótum á fleiri bílum risans.
En skriftin er samt á veggnum: Það stefnir hratt í að rafvæðing bílaflotans verði alger og án aðkomu óendurnýjanlegra orkugjafa.
2
![]() |
Toyota Yaris bíll ársins í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.3.2021 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2021 | 19:16
Margt minnir á Kröflueldana 1975-84.
Svæðið sem Kröflueldar geysuðu á, níu eldgos í fjórtán hrinum, lá á flekaskilum þar sem megin sprungan gekk í gegnum Leirhnjúk.
Þar gaus fyrst í litlu gosi í desember 1975, en eftir áramótin hljóp hrina til norðurs og fékk útrás í stórum jarðskjálfta á Kópaskeri.
Allt gostímabilið reis land og hneig á víxl. Oftast gaus þegar land hafði risið, en stundum hljóp kvikan neðanjarðar eftir sprungusveimnum, nær alltaf til norðurs.
Í flest skiptin töldu jarðeðlisfræðingar erfitt að spá fyrirfram um það í hvora áttina kvikan myndi fara. Aðeins í eitt skipti fór hún í suður með minnsta eldgosi sögunnar, upp úr röri í Bjarnarflagi.
Gosin urðu smám saman stærri og hið stærsta var í lokin haustið 1984.
Þegar horft er þessa dagana á gögn um atburðina á svæðinu frá Svartsengi til Trölladyngju, minna tilfærslur í skjálftum og hreyfingum dálítið á Kröflueldana þegar helsta óróasvæðið á Reykjanesskaga hefur færst smám saman lengra og lengra til norð-norð-austurs en síðan dukkað upp skjálfar aftur um skamma stund við Þorbjörn og Svartsengi.
Og spurning vaknar um það, hvort helsta óróasvæðið eigi eftir að lengjast í aðra áttina eða sitt á hvað í báðar?
![]() |
Líklegt að kvikugangur sé að myndast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2021 | 00:30
Hraunflæðilíkanið: Hraunstraumur í átt að Hvassahrauni.
Nú hefur eldfjallafræði- og náttúruváhópur birt nýtt hraunflæðilíkan.
Þetta nýja líkan styður það sem sagt vr í næstu bloggfærslu á undan þessari í gær, en þar eru færð að því rök að á slíku líkani yrði mesta hraunstraumaflæði yfir svæðið milli Kúagerðis og Straumsvíkur, en á því svæði á einmitt að leggja stóran alþjóðaflugvöll.
Á líkaninu eru sýndir mikið 15 kílmétra breitt hraunflæmi, sem stefnir í fyrstu í norðvesturátt frá svæðinu við Keili og Trölladyngju en mjókkar síðan niður í tvo hraunstrauma, þar sem annar fellur yfir Reykjanesbrautina á Vatnsleysuströnd og til sjávar þar, en hinn fellur yfir Reykjanesbrautina til sjávar við Kúagerði, skammt frá flugvallarstæðinu þennig að þessi fyrirhugaði alþjóðaflugvöllur kenndur við hraun, Hvassahraun sleppi.
Er það líkleg huggun fyrir marga, sem telja þennan flugvöll einhverja brýnustu framkvæmd okkar tíma, þótt allt þetta svæði sé þakið hraunum, sem hafa runnið á ýnsan hátt eftir ísöld, jafnvel hvert yfir annað.
![]() |
Hraunflæðilíkanið tekur breytingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)