Þörf varðveisla gamals byggingarmáta jeppa.

Áður fyrr voru nær allir jeppar einföld smíð hvað snerti drifbúnað, fjöðrun og undirvagn; yfirbygging sett ofan á sérstaka grind með stigalagi, stífir öxlar (hásingar) að framan og aftan og hátt og lágt drif. 

Á best hönnuðu jeppunum var þess gætt, að drifkúlur og svinghjól lægju í beinni línu frá vél og aftur úr til að bíllinn smygi með sem minnstri mótstöðu í gegnum snjó og drullu. 

Stórmerkilegur jeppi, Austin Gipsy, rauf hefðina varðandi stífa öxla og blaðfjaðrir og bauð upp á firna góða og lungamjúka sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli. 

En bíllinn féll á því hve viðhaldsfrekir átta viðbótar hjöruliðir voru. 

Sífellt fækkaði jeppunum með gamla einfalda laginu og um nokkurra ára skeið héldu þó velli Mercedes Benz 6, Landrover Defender, og Range Rover, Suzuki Fox/Jimny og Jeep Wrangler. 

Fjórir þeir fyrstnefndu héldu fast við þráðbeina driflínu drifkúlna og svinghjóls í allmörg ár, en síðan kom að því að Range Rover breytti öllu hjá sér, tók upp sjálfstæða fjöðrun og heilsoðna grind við boddíið. .INEOS Grenadier 

Síðan kom að því að sett var sjálfstæð fjöðrun á Benzann og þegar nýr Defender kom, sást strax að þar var kominn Land Rover Discovery í dulargervi; sjálfstæð fjöðrun, og heilsoðið boddí við grind eins og á Discovery og Range Rover. 

Mun dýrari bíll í krafti flóknari byggingar og tækni. 

En Defenderinn gamli átti sér endurfæðingu fyrir tilstilli aðdáenda hans í nýjum bíl með heitinu Ineos Grenadier. 

Það er bara skemmtilegt og gott að nú sé boðið upp á tveir gerólíkar útfærslur á arftaka gamla Defender og verður spennandi að sjá hvernig það fer. 

Reynt er að hafa Ineos Greadier, sem einfaldastan; hann er byggður á grind og með stífa driföxla (hásingar) en afar fullkomna fjöðrun, en hásingafjöðrun gefur möguleika á lengri fjöðrun en sjálfstæð fjöðrun, sem er mikill kostur í ófærum. Vélin er BMW dísil.   


mbl.is Ratcliffe lánaði nýja jeppann sinn í tökur Thule á Hvolsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri; VBS eða svæðisborg? Já, fyrir alllöngu.

Í fréttum RÚV í kvöld var Ágúst Ólafsson á Akureyri með frétt um þá tillögu að Akureyri fengi viðurkennda þá skilgreiningu, sem nefnist "svæðisborg" og gæti að því leyti komast á það stig fyrr en marga hefur grunað að teljast borg eða borgarsamfélag. 

Heitinu á stofnunum Reykjavíkur var ekki breytt úr bæ í borg fyrr en íbúarnir voru orðnir fleiri en 65 þúsund; þannig að það voru haldnar borgarstjórnarkosningar í stað bæjarstjórnarkosninga.  

En nú eru aðrir tímar, og öll tækni og aðstæður þannig, að vel má hugsa sér önnur viðmið en voru í gildi 1960-1970.  

Í ársbyrjun 2011 hélt prófessor frá Háskólanum fyrirlestur við Háskóla Íslands um fyrirbrigði sem nefnist FUA, Functional Urban Area, eða VBS, Virkt borgar svæði og byggðist á tveimur megin skilyrðum:  

Fleiri íbúar en 15000. 

Ferðatími minni en 45 mínútur frá jaðri inn til miðju. 

Með því að nota svona skilgreiningu kollvarpast að stórum hluta hræðilega úrelt skipting landsins í höfuðborgarsvæðið og landsbyggð, sem sífellt hefur skekkt meira og meira alla umræðu og mat á kjördæmiskipan og öðrum þáttum þjóðlífsins. .  

Höfuðborgarsvæðið myndi samkvæmt þessu ná frá Borgarnesi suður á Suðurnes og austur að Þjórsá, og fyrir norðan væri annað VBS, sem næði frá Öxnadalsheiði austur til Húsavíkur, og norður og suður allan Eyjafjörð. 

Þá yrðu úr sögunni rök fyrir því að atkvæði kjósanda við norðurenda Hvalfjarðarganga hefði mæstum þrisvar sinnum meira vægi en atkvæði kjósanda á Völlunum sunnan Hafnarfjarðar. 

Þá myndi líka opnast sá möguleiki að líta á Reykjavík og Akureyri að stórum hluta til sem sameiginlegt VBS, af því að ferðatíminn frá miðju Akureyrar til miðju Reykjavíkur er minni en 45 mínútur þegar flogið er á milli staðanna. 


Eitt af óteljandi furðuverkum náttúrunnar.

Flug farfugla er eitt af óteljandi og flóknum furðuverkum náttúrunnar. Óual spurningar vakna sem ekki verður svarað. 

Hvernig vita ungfuglarnir hvenær þeir eiga að hefja flugið?

Hvernig vita þeir hvaða leið og hvert eigi að fljúga suður um þveran hnöttinn í einum áfanga næstu fjóra daga?

Hvernig vita þeir næsta vor, hvenær þeir eiga að fljúga til baka?

Hvernig vita farfuglar, hvar hreiðurstæði þeirra á Íslandi er og hvernig rata þeir þangað og finna það næsta vor?

"Gat ei nema guð og eldur gjört svo dýrlegt furðuverk" svaraði Jónas Hallgrímsson í ljóði sínu um fjallið Skjaldbreið og hraunin, sem úr því komu og líklega myndi svar hans verða svipað við spurningunum, sem spurt er hér að ofan; "gat ei guð og lífið gjört svo dýrlegt furðuverk". 


mbl.is Fljúga flestir viðstöðulaust í fjóra sólarhringa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnur söngur um að virkjanir og þjóðgarðar fari svo vel saman.

Ein helsta fullyrðing þeirra sem berjast fyrir sem mestum og flestum virkjunum helstu náttúruverðmæta í íslenskum óbyggðum hefur verið sú, að virkjanir og þjóðgarða fari svo vel saman að hér á landi eigi kjörorð Jónasar Elíassonar að gilda: "Virkja fyrst og friða svo." 

Á sínum tíma í kringum síðustu aldamót sá síðuhafi sig neyddan til þess að fara í sérstök ferðalög til Bandárkjanna, Kanada og Noregs til að skoða nokkra staði, þar sem fullyrt var, að væru stórvirkjanir í þjóðgörðum.  

 

1. Grand lake virkjunin í Klettafjöllum Kolorado fyrir norðan Denver.

Jú, þar kom í ljós að til þess að yfirborð þjóðgarðsins væri ósnortið af virkjunum, var vatnið virkjað með því að leiða það í göngum úr Grand lake út í sérstaklega gert miðlunarlón fyrir utan þjóðgarðinn, því að slíkt vatn með miðlun, sem stjórnað væri með stíflu, væri ósamrýmanlegt þjóðgarði. 

 

2. Hetch-Hetchy vatnsmiðlunarlónið í samnefndum dal norðan við Yosemitedalinn í samnefndum þjóðgarði.  

Jú, þegar þangað kom blasti við þetta vatn, sem miðlar fersku vatni um stórt landsvæði í Kaliforníu. Þetta er 120 ára gömul vatnsmiðlun gerð löngu fyrr en reglur og sjónarmið um þjóðgarða voru þróaðar. Upphaflega var þó skoðað hvort ekki ætti að sökkva Yosemitedalnum líka, en Hetch-Hetchy varð fyrir valinu vegna meiri stærðar og dýrðar Yosemite. Hetch-Hetchy því haft utan við mörk þjóðgarðsins. Þegar við vorum á ferð þarna var allur ferðamannafjöldinn innan þjóðgarðsins en engir í Hetch-Hetchy. Varla þyrfti að spyrja að því margir Íslendingar myndu telja þann dal miklu fallegri fyrir sakir vatnsins. 

 

3. Þá nýstofnaður Jóstedalsjökulsþjóðgarður. 

Jú, þegar þangað var komið og farið meðfram þeirri hlið jökulsins, sem snýr frá sjó, var komið að dal, þar sem óbeisluð á fellur um dal frá jöklinum. Þar voru fjölmargir ferðamenn að upplifa upptök ósnortinnar jökulár innan þjóðgarðsmarka og snotur aðstaða fyrir þá. Ofar austan við jökulinn var gamalt miðlunarlón og stífla utan þjóðgarðs. Þar var einn, já, einn ferðamaður á ferðamaður, kvaðst vera Dani og hafa villst! Enn ofar var vatn sem til stóð að gera að miðlunarlóni fyrir hagkvæmustu virkjun Norðurlanda, Langavatn að nafni. Ætlunin að var að gera netta stíflu og leiða vatnið í göngum úr vatninu tæplega 1000 metra fallhæð niður í einn af norsku fjörðunum. Þetta var vatn, sem þegar var komið og aðeins um að ræða  að það stækkaði aðeins og minnkaði af völdum stíflumannvirkjanna. Af þessari virkjun varð þó ekki. Stórþingið hafnaði henni með þeim rökum að hún raskaði of mikið ímynd jökulsins! Samt sást jökullinn ekki frá vatninu og vatnið ekki frá jöklinum! Og jökullinn 20 sinnum minni en Vatnajökull. 

Árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik þáverandi forsætisráðherra því yfir að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn í Noregi. Við það hefur verið staðið síðan. 

 

4. Virkjun gufuafls í Bandaríkjunum, sem er gríðarmikið. 

Jú, þangað var farið til skoðunar og síðar kom einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í heimsókn til Íslands á tíu ára afmæli ÍSOR og hélt fyrirlestur um þetta gríðarlega afl. 

Hann sýndi stórt kort af jarðvarmasvæðum Bandaríkjanna sem dreifðum hringjum, sem voru misstórir og misjafnlega rauðir.  Eftir að hafa farið yfir kortið og bent á hringina stóð einn eldrauður hnöttur eftir í Klettafjöllunum. Og hann sagði: "Þetta er Yellowstone. Þar eru 10 þúsund hverir og í iðrum jarðar er langstærsta orkubúnt Bandaríkjanna. Þar verður aldrei virkjað, því að þar eru heilög vé."

 

 


mbl.is Loftslagsmál og landvernd togast á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi svipaðra eldstöðva á Reykjanesskaga og Íslandi.

Nú þegar hefur gosi í Geldingadölum sýnt sig í á mörgum þróunarstigum, og ef það hefði hætt á einvherjum tímapunkti, hefði staðið eftir eldstöð, svipuð ótal eldstöövum víða á skaganum og um land allt. 

Á síðustu öld var lengsta gosið í Surtsey, stóð í þrjú og hálft ár það skildi eftir sig miklu fleiri gosminjar en sjást ofan sjávar eftir sig, svos sem gígana Jólnir og Syrtling. 

Sum gos hafa verið með hléum, svo sem Heklugosið 1980, sem tók sig upp eftir áramót 1981, en sá hluti gossinns reyndist sannkalaður "gosræfill."

Þótt líklegast virðist núna, að goshlé sé væntanlegt sem reynist jafnvel gosllok við Fagradalsfjall, er ekki á alveg vísan að róa.  

Á Reykjanesskaga og víðar eru dyngjur, svo sem Þráinsskjaldarhraun og Heiðin há og fjær Skjaldbreiður og allar dyngjurnar norðan Vatnajökuls, eldfjöll, mynduð í hægfara gosum á löngum tíma, kannski einhver þeirra eða öll með goshléum, mismunandi mörgum.   


mbl.is Lengsti dvali frá því í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúffurnar í þjóðarbókhaldinu.

Hér um árið kom það stundum upp í sambandi við fé, sem eytt var vegna dagskrárgerðar, að stundum væri hægt að hagræða útkomunni með því að skrifa útgjöld á önnur verkefni en þau fóru raunverulega í. 

Var slíkt nefnt "skúffubókhald" með því að nota líkingamál. 

Svipað væri kannski hægt að segja um þau útgjöld, sem fylgja myndu því að koma á fót almennri "lýðgrundaðri" skimun. 

Ef slík skimun, sem tryggir að sjúkdómar uppgötvist, sem annars hefðu fengið að dafna í friði og valda dauðsföllum eða alvarlegum veikindum, yrði tekin upp, væri hægt að lýsa því þannig, að upphæðin, liklega einhverjir tugir milljarða, væru teknar úr sérstakri skúffu í skúffubókhaldi. 

Upphæðin, sem sparaðist í þjóðarbókhaldinu í formi mannslifa eða afleiðingra alvarlegra veikinda, yrði hins vegar ekki bókuð, enda erfitt að finna nákvæma krónutölu. 

Svona "skúffubókhald" án þess að báðar hliðar væru bókaðar, væri hins vegar rangt í sjálfu sér. 

En finna má mýmörg dæmi um það á mörgum sviðum þjóðlífsins að oft er tjón vegna nísku mun hærri upphæð, en hinir nísku ætluðu að spara eða ætluðu sér að spara. 


mbl.is Fleiri deyi úr krabbameini í ristli og endaþarmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suga lömb ærnar?

Sérkennileg er sú notkun sagnarinnar að sjúga þegar í staðinn er talað um að "suga" og meira að segja ítrekað í sumum fréttum.

Að vísu er nafnorðið suga hluti af nafnorðum eins og blóðsuga og ryksuga, en aldrei heyrist samt talað um að blóðsugur séu að suga menn.  

Og ekki heldur talað um að brjótsmylkingar eða mjaltavélar séu að suga. 

 


mbl.is Ryksuga landnámsrústir og forverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta gos í Öskju hálfgerður "ræfill." Þar á undan stórgos. Skjálftahrina 2007.

Síðasta Öskjugos var 1961 en var ekki stórt, þótt hraun rynni úr gíg efst í Öskjuopi og niður opið til austurs. 

Öskjugosið þar á undan, 1875, var hins vegar gríðarlegt öskugos, sem lagði þykka ösku yfir norðausturhálendið og olli því að fjöldi bújarða fóru í eyði og flæmdi gosið þúsundir manna úr landi til Vesturheims. 

Fróðlegt verður að athuga fjóra möguleika, ef kvika er að þrýstir landi upp nú.

1. Risið stöðvast og ekkert gos verður. 

2. Risið stendur nógu lengi til að það gjósi, en gosið verður lítið, allt niður í "ræfil". 

3. Risið verður það mikið og langvinnt að gos verður stórt, en kannski á öðrum nálægum stað. 

2007 til 2009 var skjálftahrina við Upptyppinga auðaustan við Öskju, og færðust skjálftarnir til norðurs allt yfir í Álftadalsdyngju norðaustan við Fagradal. Síðan fjaraði virknin út.

Upphaflega var virknin á óvenju miklu dýpi.  

Um tíma var haft á orði að gos í Álftadalsdyngju þyrfti ekki að verða slæmt ef það yrði svo langvinnt og rólegt dyngjugos að það yrði "túristagos". 

Ef einhver hefði sagt 2008 að gos með slíku yfirbragði dyngjugoss af miklu dýpi myndi hefjast á Reykjanesskaga 13 árum síðar hefði slík fjarstæða vakið hlátur.  


mbl.is Landris við Öskju í fyrsta sinn í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað er að, ef ekkert er að, en þó er ekki allt í lagi?"

Ofangreind spurning var margt löngu hermd upp á prófdómara nokkurn í munnlegu prófi fyrir nemendur til svonefnds meiraprófs bílstjóra. 

Eins og búast mátti við vafðist svarendum tunga um tönn og gátu ekki svarað spurningunni. 

Þegar prófdómarinn hafði notað þessa spurningu með góðum árangri nokkrum sinnum, fór svarið að kvisast út og þar með varð prófdómrinn að finna aðra spurningu í staðinn. 

Svona hljóðuðu spurningin og rétt svar við henni: 

"Hvað er að, ef ekkert er að, en þó er ekki allt í lagi?"

Svar: 

Þá er litla gatið á bensínlokinu stíflað." 

Svarið er er í rauninni hálft svar, því að enda þótt bíllinn geti gengið klakklaust á meðan bensíngeyminum er haldið meira en hálfum, lækkar þrýstingur inni í auða rýminu svo mikið þegar bensíndælan dælir bensínu úr honum, að á endanum ræður hún ekki við undirþrýstinginn og brestur eða stöðvast og það drepst á bílnum. 

Nú er spurningin varðandi Landsspítalann þess eðlis, að gamla meiraprófsspurningin kemur upp í hugann sem eins konar hliðstæða, þ. e, að vegna þess hvað hinn nýi vandi vegna COVID-19 er áður óþekktur og sér á parti, hafi ástandið innan spítalans breyst úr því að vera "ekkert er að" í það að "þó er ekki allt í lagi."

Ef allt dælikerfi vélar er í góðu lagi, getur það breyst ef jafnlítil breyting verður og felst í því að lítið öndunargat á bensíngeyminum stíflast. 

En það vefst oft að notendur farartækisins að finna út hvað sé "ekki í lagi" og hefur slíkt jafnvel valdið stóru flugslysi erlendis. 

Nú er spurningin hvort vandinn í Landsspítalanum byggist jafnvel á fremur einföldum atriðum sem mönnum hefur sést yfir fram að þessu, eða á því hve flókinn og sérstakur reksturinn er. 


mbl.is Kári segir Landspítalann í rusli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var einu sinni gott verður það áfram þótt síðar verði.

Þegar hljómsveitin ABBA sigraði í Júróvision og fylgdi því eftir með hverjum smellinum eftir annan var það á svipuðum tíma og uppgangur var í pönktónlist.  

Sumir af þekktustu pönkurunum höfðu ekki mikið álit á ABBA og jafnvel skömm á henni. 

Féllu á stundum ummæli um lágkúrluegt popp léttmeti hjá Svíunum. 

Svo liðu árin og að því kom að sumir hinir sömu, sem höfðu litið mest niður á tónlist ABBA, skiptu um skoðun. 

Kannski má segja, að stundum, þegar miklar sveiflur eru í listgreinum, gildi það, að það sem var einu sinni gott verði það áfram, jafnvel þótt það lendi í lægð um sinn.   

 


mbl.is ABBA gefur út tíu laga plötu og heldur tónleikaröð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband