Margra ára þróun framundan. "Bíllinn bjargar"?

Hugsanlega hefði sjálfkeyrandi bíll, sem lenti í árekstri í Arizona á föstudag, samt lent í þessum árekstri þótt honum hefði verið stýrt af bílstjóra. 

Ástæðan er sú að talið er að bílstjóri hins bílsins, sem lenti í árekstrinum, hafi átt sök á árekstrinum. 

Þar með vaknar spurning um það hvort hinn bíllinn í árekstrinum hefði lent í árekstri ef hann hefði verið sjálfkeyrandi og þar með hlýtt biðskyldu. 

Gallinn á sjálfkeyrandi bílum er sá að þeir munu lenda í árekstrum ekkert síður en aðrir bílar.

Framundan eru ekki aðeins mörg ár sem þarf til að þróa þessa byltingarkenndu tækni að sögn þeirra sem ættu að vita það gerst.

En þar á ofan er líka framundan afar óþægilegt tímabil þar sem bílar, sem ökumenn aka, munu valda árekstrum vegna óvæntra og ófyrirséðra mistaka þeirra. 

Blanda af sjálkeyrandi bílum og venjulegum bílum er erfið að fást við þegar verið er að forrita sjálfkeyrandi bílana og endurbæta búnað þeirra. 

Á meðan eru framundan athyglisverð ár með bílum, sem eru að vísu ekki sjálfkeyrandi, en hafa svo þróað aðvörunarkerfi, að það afstýrir árekstrum. 

Í nýja Suzuki Jimny bílnum, sem er hvorki stór né dýr, er til dæmis kerfi, sem hægir sjálft á bílnum þegar hann nálgast annan bíl, sem er til dæmis fyrir framan hann í umferð, á hættulegan hátt. 

Þetta gæti komið sér vel þegar bílstjóri bíls með þessa tækni væri ekki stanslaust með hugann við aksturinn, til dæmis að kíkja á snjallsíma. 

Á móti kemur sá möguleiki að bílstjórar fari að freistast til að kíkja á símana í trausti þess að árekstravari bílsins bjargi þeim ef hætta skapast.

Í upphafi notkunar bílbelta varð til slagorðið "beltin bjarga!". Nú gætu verið að skapast aðstæður fyrir kjörorðið "bíllinn bjargar!" 


mbl.is Sjálfkeyrandi Uber lenti í árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki "Bandaríki Evrópu."

Evrópusambandið á mikið undir því að vera sveigjanlegt í tengslum aðildarríkjanna eftir því sem aðstæður krefjast. Að þessu leyti er það ólíkt Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem háð var mannskæð borgarastyrjöld 1861-65 sem í grunninn snerist um það að einstök ríki eða hópar ríkja gætu ekki sagt skilið við sambandsríkið.

 

Niðurstaðan varð sigur stjórnarinnar í Washington og við það hefur setið síðan. 

Síðan 1865 hefur miðstjórnarvaldi í Washington verið svo sterkt að hér á landi hafa margir notað orðið fylki um einstök ríki sem fylki vegna stöðu þeirra innan ríkisheildarinnar. 

En það er útaf fyrir sig röng þýðing, því að Bandaríki Norður-Ameríku heita ekki Bandafylki.

Svo mikið er miðstjórnarvaldið undir einum ríkisfána, að ekkert ríki Bandaríkjanna telst í hópi fullvalda þjóða eða koma til greina að eigi aðild ein og sér að alþjóðasamtökum á borð við Sameinuðu þjóðirnar.

Hið gagnstæða gildir um ESB. Öll aðildarríki þess teljast fullvalda og gjaldgengir aðilar hvert um sig að alþjóðastofnunum og samningum.

En þrátt fyrir þetta er og verður ætíð umdeilanlegt hve náin samvinna og samband aðildarríkja ESB skuli vera.

Nokkrar Evrópuþjóðir innan vébanda EFTA, Íslendingar þeirra á meðal, ákváðu að semja við ESB um svonefnt Evrópskt efnahagssvæði, þar sem reglugerðir og fjórfrelsi ESB næðu út fyrir sambandið, án þess að EES ríkin tækju beinan þátt í starfi ESB sem aðildarþjóðir.

Í viðtali við forsætisráðherra Dana, sem ég átti 2004, sagði hann áhuga Dana, Svía og Finna á því að fá Ísland og Noreg inn í ESB stafa af því, með því myndu Norðurlöndin og Eystrasaltsþjóðirnar sameiginilega eignast fleiri fulltrúa á Evróuþinginu ein einstök stórveldi og áhrif smáþjóðanna í norðaustanverðri álfunni eflast mjög. 

ESB er einn anginn af svonefndri alþjóðahyggju, sem ruddi sér til rúms eftir þær rústir sem hörð þjóðernishyggja ágengra harðstjórna hafði skilið eftir í Evrópu í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Marshallaðstoðin, Evrópuþingið, NATO, Kola- og stálsambandið og loks ESB voru áfangar á þeirri vegferð, sem sumir segja að hafi nú beðið skipbrot og sé að líða undir lok.  

Í pistli Páls Vilhjálmssonar segir hann að rússnesk þjóðernishyggja Pútins sé ekki útflutningsvara. 

Þetta held ég að sé misskilningur eða að minnsta kosti umdeilanlegt. Þannig hreifst Hitler upphaflega að fasisma Mussolinis og vildi koma sams konar þjóðernisstefnu á í Þýskalandi, þótt hún yrði háð undir kjörorðinu "Deutschland uber alles!"

Donald Trump hefur ekki fari leynt með aðdáun sína á þjóðernishyggju Pútíns og stefnir að því að kópíera hana í stefnunni "America first!" 

Að því leyti til er stefna Pútíns orðin útflutningsvara. 

Áköf þjóðernisstefna breiddist út fyrir stríð, þar sem einstakir forystumenn einræðisrikja bundust samtökum um útþenslu og yfirráð þótt hver um sig hrópaði kjörorð heima fyrir um að allt ætti að gera fyrir viðkomandi föðurland. 

Á Íslandi tóku þjóðernissinnar, aðdáendur Adolfs Hitlers, upp kópíu af hans stefnu, tóku kjörorð ungmennafélaganna um aldamótin 1900, "Íslandi allt!", og gerðu það á Íslandi að hliðstæðu heróps nasista; "Þýskalandi allt!"

 


mbl.is Undirrituðu nýjan Rómarsáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

90 hnúta vindur og 11 stiga hiti á Brúaröræfum í nótt.

Á myndbandi með laginu "Glöð við förum á fjöll öll" á facebook notar Salka Sól orðin "dýrð og dásemd" um það sem dregur fólk í fjalla- og jöklaferðir á þessum árstíma. En í nótt var varla hægt að nota slík orð um aðstæður á hálendinu, því að þá mátti sjá á veðurmælingum á Brúaröræfum í 750 metra hæð yfir sjávarmáli, að á Sauðárflugvelli skammt frá veðurstöðinni færi vindur í hviðum í 44 metra á sekúndu, en það samsvarar 90 hnúta vindi.

BISA. Flughlað vetur

Til samanburðar er skilgreint fárviðri þegar vindur nær 64 hnútum.

Í myndbandinu eru sýndar sömu myndir af þessum stað og hér birtast, en sú efri er tekin fyrir nokkrum árum í byrjun maí, en sú neðri í fyrsta snjó í október haustið áður.

En þessi mikli stormur í nótt var aðeins önnur hliðin á því fyrirbæri sem kallað er hnjúkaþeyr, þegar hlýtt loft streymir hratt niður hlíðar hlémegin á fjöllum.

Hitinn komst í ellefu stig þarna í nótt.

Vindurinn er sá mesti sem ég man eftir á þessum slóðum og hitinn einnig með þeim mestu í mars.BISA.Vetur. Vitara. 4runner

Nú er spurning hvort vindpokinn og stöngin, sem hann er á, hefur þolað álagið.

Og litli pallbíllinn, sem þarna er allt árið, stendur þannig að snjó skefur frá honum, svo hann er berskjaldaður.

Sumir spyrja hvort hægt sé að vera á ferli á jöklajeppum í svona fárviðri, og það er svosem mögulegt, ef vanir menn eru á ferð á öflugum jeppum og halda kyrru fyrir þegar það á við.

Þannig var það til dæmis í ferð á vegum Bílabúðar Benna vorið 1991 upp á Hvannadalshnjúk.  


mbl.is Búist við stormi víða á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni höfðu Frakkar okkur í beitu.

Í æskuminningum Hendriks Ottósonar, sem fjalla um ævintýri hans og vinar hans, Gvendar Jóns, fyrir rúmri öld, kemur fram að ýmislegt var gert til að hrella rauðhærða stráka. 

Frakkar gerðu þá enn út fiskiskip á Íslandsmið, eins og Franski spítalinn, seinna Gagnfræðaskólinn við Lindargötu, ber vitni um. 

Eitt af því sem gert var á þeim tímum til að stríða rauðhærðum strákum og hrella þá, var að telja þeim trú um að rauður litur gæti nýst frönsku sjómönnunum vel til að hafa í beitu við veiðar sínar og að þeir gætu átt það til að ræna rauðhærðum drengjum í þessu skyni

Eins og svo margir aðrir minnihlutahópar eða fólk sem er eitthvað "öðruvísi" en aðrir, hefur rauðhært fólk oft þurft að fást við snúin viðfangsefni varðandi háralitinn, einkum þegar hann hefur verið eldrauður.

Bara það eitt að geta fengið viðurnefnið "rauði", var næg ástæða til aðgerða. Dæmi um þetta var bílstjóri hér á árum áður, sem var ævinlega kallaður "Batti rauði".

Þegar ég var strákur með eldrauðan hárkúst fannst mér ekkert skemmtilegt að vera uppnefndur "rauðskalli brennivínsson" eins og stundum var slengt fram.

Svo langt gekk varnarbaráttan vegna hárlitarins, að fallið var frá því að ég bæri nöfn ömmu Ólafar og afa Þorfinns.

Ólafur var svo algengt nafn, að viðbúið var að ég yrði uppnefndur Óli rauði, ef það yrði skírnarnafnið.

Amma mín varð því að sætta sig við það að nafnið Ómar yrði ofan á með þeim rökum, að það nafn var svo einstakt á þeim tíma, að það nægði til að eyða nauðsyn á því að uppnefna mig.

Á fyrstu árum sjónvarpsins vorum við tveir, sem höfðum upphafsstafina Ó.R., - hinn var Ólafur Ragnarsson.

Upphafsstafir voru mikið notaðir þar á bæ, og varð að ráði að ég breytti minni skammstöfun úr Ó.R. í Óm. R.

Hefur það verið þannig síðan.  


mbl.is Rauðhærður í sértrúarsöfnuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttur af Björk, Helga og Vigdísi. Styttur af konum, takk!

Á Vetrar-Ólympíuleikunum 1952 var Norðmaðurinn Hjalmar Andersen, "Hjallis", stjarna leikanna, hreppti þrjú gullverðlaun í skautahlaupum. 

Hjallis var frá Þrándheimi og náði níræðisaldri fyrir fjórum árum. 

Löngu fyrr, meðan hann var enn í fullu fjöri í lifanda lífi, var reist af honum myndastytta við eina af helstu umferðargötum Þrándheims þar sem hann stendur boginn í skautahlaupsstellingu sinni á gangstétt og gleður vegfarendur með veru sinni þar.  

Þetta er með skemmtilegri hugmyndum, sem ég hef séð framkvæmda af þessu tagi. 

Af því að ég bý ekki í 101 Reykjavík og það er ekki "hverfið mitt", hef ég væntanlega ekki tillögurétt í hugmyndasöfnuninni í því hverfi, en ber þrjár tillögur upp hér. 

Það væri skemmtilegt ef við gætum gert svipað og frændur okkar í Þrándheimi og sett upp styttur af þremur Íslendingum, Björk Guðmundsdóttu, í svansbúningi sínum, Helga Tómassyni í ballettdansarastellingu fyrir framan Þjóðleikhúsið, og Vigdísi Finnbogadóttur með bók eða leikskrá í hönd við Iðnó.

Sérstaklega er fyrir löngu kominn tími á það að það séu ekki næstum eingöngu styttur af körlum, sem prýða borgina okkar. Styttur af konum, takk!


mbl.is Parísarhjól í miðbæinn og bjórgarð á Klambratún
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Séríslenskar aðstæður"?

Eitt af því, sem vekur athygli í umferðinni hér á landi eftir að hafa kynnst umferðinni í nágrannalöndunum, er hið mikla kæruleysi og oft tillitsleysi og frekja, sem hér virðist miklu algengara en erlendis.Lagt í stæði

Í gegnum árin hafa verið birtar margar myndir hér á síðunni til að sýna dæmi um þetta, og hér kemur ein.

Jeppanum, lengst til hægri á þessari mynd, er lagt þannig, að það sé öruggt að hann taki rými sem tveir bílar kæmust annars auðveldlega í. Stæðið fyrir framan hann er of lítið fyrir meðalstóran bíl, og stæðið fyrir aftan hann líka, nema að þeim bíl sé lagt þannig að hann standi á hluta til á stæðinu fyrir hreyfihamlaða, sem er blámálað. 

Afstaða bílsins til næsta stæðis fyrir aftan hann sýnir, að hann getur ekki afsakað sig eftir á með því að áður en ljósmyndin var tekin hafi staðið þar annar bíll, sem hafi neytt hann til að leggja eins og hann gerði.

Ekki nema þeim bíl hafi verið lagt þannig að hann næði inn á stæðið bláa, sem er sérmerkt fyrir fatlaða.  

Tengd frétt á mbl.is er táknræn fyrir það rugl, öllum til vandaræða, sem íslenskir bílstjórar hafa vanið sig á.  

Sumir reyna að afsaka þetta með því að aðstæður knýi þá til þess arna, og er þá stutt í hina klassísku afsökun, sem felst í orðunum "séríslenskar aðstæður."  

Og það má kannski segja að hér ríki séríslenskar aðstæður, en ekki beint vegna aðstæðnanna sjálfra, heldur er það hegðun "séríslenskra ökumanna" sem skapa þessar aðstæður. 


mbl.is Bílum illa lagt og tillitsleysi algengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama þurfti tvö ár. Nægja Trump tvær vikur?

Endurbætur á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna til þess að 20 milljónir þeirra væru ekki lengur án nokkurra sjúkratrygginga, tóku alls sex ár, og ferlið var mikil þrautaganga fyrir forsetann. 

Hann hafði boðað endurbæturnar strax þegar hann tók við völdum 2008 en það þurfti langt og strangt samningaferli við þingið til þess að koma þessu máli í gegn til þess að nálgast kerfi sem Norðurlandabúum hefur þótt sjálfsagt í meira en sjötíu ár. 

Hér á Íslandi voru fyrstu lögin um almannatryggingar í svipuðum anda og hjá Norðurlandaþjóðunum loks sett í stjórnarsáttmála og framkvæmd 1944. 

Með því að setja þingmönnum afarkosti vonast Trump til þess að sýna fram á, að hann sé "sterkur leiðtogi", sem nær árangri á aðeins broti af þeim tíma sem fyrirrennari hans þurfti. 

Þessi aðferð, að taka mikla áhættu til þess að ná miklum árangri, komast upp með það og halda áfram á sömu braut á leið til mikilla valda og áhrifa á heimsvísu, er þekkt úr stjórnmálasögunni.

Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Trump muni farnast.  


mbl.is Trump setur þingmönnum afarkosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kynja- og jafnréttisvæl"?

Orðið "kynjavæl" og þar með orðið "jafnréttisvæl" er svar sumra við því að miðaldra hvítir karlar skipi mestu valdastöður heims á sviði fjármála og stjórnmála. 

Þeim, sem láta sér þetta vel líka, tala um að þetta sé orðin "þreytt" umræða og vilja greinilega að ekki sé minnst á ójöfnuðinn sem birtist til dæmis í því að innan við eitt prósent mannkyns eigi helming auðs heimsins á móti hinum 99 prósentunum.

Og að svipað fyrirbæri birtist hjá mestu herveldum heims og meira að segja hjá okkar þjóð. 

Að minnast á slíkt sé "þreytt" umræða.

Sömu menn hreykja sér af því að vera kristnir og formæla öðrum trúarbrögðum. Predikaði Kristur þó þann boðskap að allir menn væru Guðs börn og tók svari ofsóttra og niðurlægðra.

Hlýtur þá sú 2000 ára gamla umræða þá ekki að vera "orðin þreytt" og kominn tími á að hætta henni, hætta þessu "væli"?

Nýjustu rökin gegn hinu "þreytta kynjavæli" eru þau að konur skipi nú 80% allra kennarastarfa í landinu og hafi hertekið þá stétt.

Bíðum nú aðeins, - er kennarastarfið, hvert og eitt, orðin svona mikil valdastaða sem færir kennurunum ofurlaun?  

Er hjúkrunarfræðingsstarfið orðið að valdastöðu, sem færir þeirri stétt ofurlaun í formi 370 þúsund króna byrjunarlauna á mánuði?

 


mbl.is Ekki í lagi að vera eina konan á fundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta ekki starf sem vert væri að sækja um?

Mikið er kvakað víða í sveitum landsins um bagalega fólksfækkun. Eitt ráð við slíku liggur eðli málsins beint við, en það er að auka frjósemi bænda og því eðlilegt að slíkt skilyrði sé sett hjá stefnuvottum, sem ferðast víða um Suðurlandsundirlendið, - að þeir miðla af þekkingu sinni, ef þeir eru hoknir af reynslu á þessu sviði í bókstaflegri merkingu, og geta nefnt óyggjandi tölur í því efni.

Eru áreiðanlega fáir betur til þess fallnir en slíkir menn til að veita bændum góðar frjósemisleiðbeiningar og aðstoða þá eftir megni. .

Það liggur beinast við að álykta sem svo, að því lengri reynsla og árangur sem býr að baki hjá umsækjendum um svona starf, því meiri von sé á árangri af leiðbeiningum, bæði skriflegum og verklegum.

Þótt ég verði 77 ára á þessu ári er ég enn ágætlega heilsuhraustur, stunda líkamsrækt og hleyp til dæmis með mælingu skeiðklukku í hverri viku upp stiga í blokkinni, sem ég bý í, frá kjallara upp á fjórðu hæð í einum rykk á undir 30 sekúndum til þess að fylgjast sem best með snerpu og þreki.

Þessi árangur í því að fara uppá þá fjórðu og ágæt önnur hreysti, auk þess að vera faðir sjö barna, 21 barnabarns og eins barnabarnabarns, hlýtur að vera akkur í svona starfi.

Kannski er bara hið besta mál að sækja um og skella sér í þetta, ef maður er ráðinn.

Og það yrði viðeiganndi, bæði þjóðlegt og dreifbýlislegt, að texti erindisbréfsins yrði í bundnu máli: 

 

Með líkömum stinnum og sterklegum

má stirðlega elskhuga gera´að sér hænda

á fullu í fjörugum, verklegum

frjósemisleiðbeiningum til bænda.  


mbl.is Óvenjulegar kröfur hjá sýslumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skóreimamarkið" var einstakt.

Svonefnt "skóreimamark" sem þeir FH-ingarnir Geir Hallsteinsson og Gunnar Einarsson skoruðu hér um árið er hugsanlega eina slíka handboltamarkið, sem skorað hefur verið. 

Markið var einstakt á að horfa og það ætlaði allt um koll að keyra í Laugardalshöllinni, þegar það var skorað, ekki aðeins vegna þess hve þetta var einstakur atburðu, heldur vegna þess að fólk skiptist í tvo hópa varðandi það hvort það væri löglega skorað. 

Málavextir voru þeir að Gunnar var afar góður, léttur lipur og tekniskur handboltamaður, enda lærisveinn Geirs Hallsteinssonar og var talað um hann sem hugsanlegan arftaka hins mikla snillings. 

Án þess að það hefði frést út í frá höfðu Gunnar og Geir æft vandlega á æfingum ákveðna tegund af nokkurs konar sirkusmarki og framkvæmd bragðsins tókst fullkomlega þegar þeir létu til skarar skríða í alvöru handboltaleik. 

Bragðið byggðist á því að Geir var á skóm, þar sem önnur skóreimin virtist hafði losnað í miðjum leik. 

Hann fékk boltann og hljóp ógnandi nokkur skref með hann á ská í átt að marki andstæðinganna, líkt og hann ætlaði að stökkva upp, brjótast í gegn eða skjóta með lágskoti, en "fintur" af ýmsu tagi voru sérgrein Geirs.

En í þetta sinn stoppaði hann skyndilega með boltann fyrir utan vörnina, beygði sig eldsnöggt niður til að hnýta skóreimina en sendi boltann í sömu andrá aftur sig beint í hendur Gunnars sem kom hlaupandi utan af vellinum hinum megin í átt að Geir. 

Gunnar hljóp upp á afturhluta baks Geirs, nákvæmlega á því augnabliki þegar hann var búinn að beygja sig alla leið niður að lausreimaða skónum, og notaði Gunnnar bak Geirs eins og stökkbretti til þess að stökkva svo hátt með boltann, að hann gat skotið yfir vörnina sem var framundan og skorað glæsilegt mark án þess að nokkrum vörnum yrði við komið.

Ég vona að þetta sé rétt lýsing í meginatriðum en mig minnir dómararnir hafi dæmt markið löglegt.

Um þennan dóm var deilt eftirá en það er erfitt að sjá hvað var í raun ólöglegt við þetta.

Maðurinn, sem hleypur upp á bak hins, verður að vera mjög léttur og fimur, og varla á færi nema snillings eins og Geirs að framkvæma það jafn snilldarlega og hann gerði að hægja á sér með boltann, beygja sig niður og senda boltann til samherjans um leið og hann bar hina hendina að lausu skóreiminni.

Þar að auki er erfitt að endurtaka þetta eftir að búið er að gera það einu sinni, því að tiltölulega auðvelt er að trufla framkvæmdina ef mótherjarnir vita um að hugsanlega muni þetta verða reynt.  

 


mbl.is Markið sem allir eru að tala um (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband