8.6.2022 | 23:44
Heillandi verk í læknavísindum.
Þegar fólk er komið á efri ár fer það að kynnast betur en fyrr á ævinni ýmsum kvillum og sjúkdómum en áður og einnig að kynnast betur en fyrr hve þeim fjölgar, sem eru á lyfjameðferð af ýmsu tagi.
Í ljós kemur að æ fleiri eru með lyfjameðferð í gangi af ýmsu tagi, og að fjölbreytni lyfja fer vaxandi.
Í upphafi þessarar byltingar rétt fyrir miðja síðustu öld var það bara penesillínið sem var notað, en nú hafa sýklalyfin þróast svo í átt til þess að vera sértæk, að þekking heilbrigðisfólks á þeim verður að aukast stöðugt til þess að þau verði að gagni.
Í æ fleiri tilfellum verður að vita hvort notkun eins lyfs megi fara fram á sama tíma og annars.
Vegna sveppasýkingar í fæti varð til dæmis að hætta inntöku annars lyfs við öðrum sjúkdómi í sex mánuði í vetur.
Það yrði ótrúlega magnað, ef lækning er nú að finnast við hinu illskeytta briskrabbameini og verk læknavísindamanna eru heillandi, þegar þau heppnast sem best.
![]() |
Tímamót í þróun bóluefnis gegn krabbameini |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2022 | 01:20
Dæmin eru fleiri úr hjólaumferðinni.
Umferð reiðhjóla og vélhjóla er á frumstigi hér á landi, og ýmis konar misskilningur og ranghugmyndir í gangi.
Og einstaka bílstjórar virðast hafa mikla andúð á hjólreiða- og vélhjólafólki.
Dæmi um að menn með slík viðhorf hafi látið skapsmuni leiða sig í gönur og ógnað með því lífi og limum bæði gangandi og hjólandi.
Margir ökumenn virðast ekki hafa áttað síg á því, að maður sem áður fór allra sinna ferða á einkabíl en hefur skipt yfir í reiðhjól, rafreiðhjól eða léttbifhjól, gefur með því eftir rýmið sem hann notaði áður á einkabíl, og einhver ðkumaður getur þá notað það eftirgefna rými í staðinn.
Eftir að síðuhafi tók upp notkun rafreiðhjóls, rafknúins léttbifhjóls innanbæjar og afar sparneytins bensínknúins léttbifhjóls utan bæjar, hefur hann tvð dæmi um, að bílstjórar með andúð á hjólandi hafi látið skapið hlaupa með sig í gðnur og gert stórhættulega aðför að gangandi og hjólandi mönnum.
Í fyrra tilvikinu var ég að fara inn á göngubraut yfir frárein frá hringtorgi ásamt gangandi manni, þegar bíl, sem ekið var á miklum hraða út af hringtorginu án þess að gefa stefnuljós kom á miklum hraða æðandi að okkur og virtist líklegur til þess að láta okkur finna heldur betur fyrir smæð okkar.
Ég snarhemlaði og tókst að bakka til baka áður en bíllinn skylli á okkur og gangandi maðurinn gerði það sama, enda var hraðinn á bílnum það mikill, að ef við hefðum haldið áfram hefði orðið þarna stórslys.
Þarna mátti mæla fjarlægðina milli okkar tveggja og bílsins í sentimetrum þegar hann næstum straukst við okkur á þeysireið sinni.
Hitt skiptið líktist atvikinu á Laugaveginum.
Ég kom að grænu ljósi á léttbifhjólinu og stansaði við ljosið alveg hægra megin, en í sömu mund renndi aflmikill jeppi á sömu leið upp að hjólinu fremst við ljósið.
Þegar græna ljósið kviknaði, ók ég af stað, en okumaður jeppans virtist ekki ekki alveg jafn viðbúinn því að það kviknaði á grænu.
Þetta bifhjól er að vísu með aðeins 11,3 hestafla vél, sem er einstaklega þýðgeng og hljóðlát en skilar þessu 130 kílóa hjóli samt á 5 sekúndum upp í 50 kílómetra hraða.
Skyndilega heyrði ég að jeppanum var gefin botngjöf svo að hann reykspólaði af stað fyrir aftan mig á meðan bílstjórinn þeytti flautuna á fullu.
Í baksýnisspeglinum sást að hann stefndi beint á mig og í sama vetfangi varð ljóst að hann ætlaði að hrekja mig út af malbikinu upp á graseyju við hliðina.
Þetta tiltæki var bein líflátsárás, því að ef hjólið skylli á háum götukantinum milli götunnar og grassins, færi það á hliðina og lenti ef til vill undir jeppanum eða kremdist á milli hans og kantsins. .
Engin leið var að láta hjólið komast inn á grasið áfallalaust.
Ég nauðhemlaði því samtímis bæði á aftur- og framhjóli og mátti þakka fyrir að það tókst án þess að missa stjórn á hjólinu, og fyrir bragðið fór jeppinn með öskrandi vél og flautu á ská fram fyrir hjólið alveg úti við brattan steinkantinn um leið og hann brunaði burtu með öll sín rúmlega 400 hestöfl í hvínandi botni.
Eina skýringin á þessu tiltæki jeppabílsjórans er sú, að honum hafi runnið svo í skap við það að þetta aumkunarverða vespulaga hjól færi á undan honum að hann gæti ekki sætt sig við slíkt.
Á þessum tíma voru nýjustu jepparnir af þessari gerð auglýstir sem bílar, sem væru alltaf fremstir, enda vélaraflið 408 hestöfl!
Slæm umferðarmenning er víða hjá okkur og enginn hópur er án mistaka eða undanþeginn reglum.
En ef kastast í kekki og reynt að neyta aflsmunar, er augljós munur á milli aðstöðu og afls á milli bíla og annarra og minni farartækja, að ekki sé talað um muninn milli bíla og gangandi fólks.
![]() |
Hann vísvitandi keyrir mig niður og stingur af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2022 | 23:28
Stórveldapólitíkinni harðdrægu lýkur seint.
Öldum saman hafa stórveldi heimsins stundað pólitík útþenslu og ásælni sem hefur valdið árekstrum milli þeirra innbyrðis, auk þess sem smærri ríki og þjoðflokkar, sem hafa orðið svo óheppin að lenda inni á átakasvæðum hinna stóru, hafa orðið að beygja sig fyrir frekju hinna stóru.
Stórveldunum hefur verið tamt að sveipa hernaðarstefnu sína blæju faguryrða og skilgreina hana hvert um sig sem öryggishagsmuni og varnarhagsmuni.
Með tilvísun til þessa hafa verið háðar tveir heimsstyrjaldir og öll hin stríðin.
Við lok Kalda stríðsins 1991 kviknaði smá vonarglæta varðandi það, að nú gæfist tækifæri til að taka upp nýja hætti raunverulegrar friðarstefnu.
Því miður féllu þjóðir heims á þessu profi, og nú birtist í stríðinu í Úkraínu hin gamla forneskja stórveldisdrauma og valdafrekju.
![]() |
Úkraínu er frjálst að velja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í langri sögu stjórnar Reykjavíkur, fyrst sem bæjar og síðar sem borgar, hefur það komið fyrir að borgarstjóraembættinu hefur verið tvískipt og líka að hafa valdaskipti innan kjörtímabils.
1959 settist þáverandi bæjarstjóri, Gunnar Thoroddsen, í stól fjármálaráðherra Viðreisnarstjórnar þegar valdasól hans í bænum skein sem hæst eftir að hafa hlotið 57 prósent atkvæða í bæjarstjórnarkosningum og tíu bæjarfulltrúa af fimmtán í ársbyrjun 1958.
Geir Hallgrímsson varð bæjarstjóri, en á tímabili voru bæjarstjórarnir tveir samtímis á meðan Auður Auðuns gengdi starfinu að hálfu.
1978 féll meirihluti Sjalla, og vinstri flokkarnir, sem tóku við sem meirihluti, tóku það til bragðs að ráða "óháðan" borgarstjóra utan stjórnmálanna.
Þetta þótti mörgum lykta af ákveðnu ósætti innan meirihlutans, sem birtist í því að enginn af oddvitum hans gæti unnt öðrum að hreppa þetta embætti.
Hvað, sem því líður, reyndist hinn nýi meirihluti ekki samhentari en það að hann steinlá fyrir Davíð Oddssyni 1982.
1991 endurtók sig sagan frá 1959, að Davíð varð forsætisráðherra eftir að hafa unnið 10 borgarfulltrúa stórsigur með 60,4 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningunum 1990.
Davíð stóð það vel að vígi að honum hefði líklega tekist að velja á milli þriggja kandidata úr borgarstjórn strax til að gegna embættinu, Katrínar Fjeldsted, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Árna Sigfússonar, en hann greip hins vegar til þess ráðs að leita út fyrir borgarstjórnarflokkinn og ráða Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra og fyrrum forseta borgarstjórnar til starfans.
Þessi ákvörðun, að taka mann utan borgarstjórnarfulltrúa í starfið, virtist líkjast of mikið ráðningu Egils Skúla Ingibergssonar 1978, og þegar stutt var í kosningar, varð þrautaráðið að kalla Árna Sigfússon til starfans.
Honum tókst að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins, en tíminn var orðinn of skammur til kosninga, enda höfðu andstæðingar Sjallanna fundið röggsaman frambjóðanda sem borgarstjórnarefni fyrir sameinaðan lista keppinauta Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og kaflaskil urðu í borgarstjórn, sem entust þar til Ingibjörg bauð sig fram til þings 2003.
Þegar mikill órói og pólitísk vandræði sköpuðust leiddi það af sér ringulreið, sem lýsti sér í því að á milli 2003 og 2010 voru borgarstjóraskipti sex sinnum.
Í landsmálunum skiptu Davíð Oddsson og Halldór Asgrímsson komandi kjörtímabili eftir kosningarnar 2003 í tvennt, svipað og Dagur og Einar gera nú.
Það fyrirkomulag endaði með því að Halldór sagði af sér forsætisráðherraembættinu og einnig formennsku í Framsóknarflokknum í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2006.
Að þessu sögðu hefur það gefist misjafnlega að vera að vera að hræra mikið í verkaskiptum varðandi meirihlutasamstarf í borgarstjórn og ríkisstjórn í gengum tíðina.
En reynslan sýnir líka, að fyrirfram er erfitt að spá um það með vissu, hvernig svona mannaskipti reynast, því að svo margt getur spilað þar inn í.
![]() |
Hefði verið ákjósanlegra að hafa einn borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2022 | 23:35
"Nýr meirihluti og ný dýnamik."?
Þótt dæmið varðandi myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur virðist hafa gengið jafnvel hraðar upp en búist hefur verið við, verður það ekki fyrr en útkoman verður kynnt sem kemur í ljós, hvort þau orð oddvita Pírata um að þetta sé "nýr meirihluti og ný dýnamik" standist fyllilega.
Auðvitað er það ansi mikil breyting að næstum þriðjungur komandi meirihluta er alveg nýtt afl í borgarstjórn sem var með orðið "breytingar" fremst í kosningastefnuskrá sinni.
En það er ekki fyrr en niðurröðun embætta og verkefna og útfærslan í heild verður sem hægt verður að negla það niður að mannaskipti og útfærsla stefnumála standist kröfurnar um breytingar.
![]() |
Meirihlutasamningur BSPC í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2022 | 13:14
Vietnamstríðið og Kóreustríðið stigmögnuðust.
Víenamstríðið, stóð í raun allt frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinar og fram á miðjan áttunda áratuginn.
Landið var nýlenda Frakka og fram til 1954 stóð stríðið milli heimamanna og Frakka.
1954 lokaðist hluti hers Frakka inni í bænum Dienbienfú og gafst þar upp, og Frakkar höfðu ekki bolmagn til þess að halda hernaðinum áfram, enda búið að ríkja pólitískt stjórnleysi í Frakklandi eftir stríðið.
Við þetta myndaðist tómarúm valda í Víetnam, sem John Foster Dulles utanríkisráðherra Bandaríkjanna taldi varasamt fyrir Vesturveldin, því að stefna BNA var að mynda hernaðarbandalög allt í kringum Sovétríkin og Kína til að andæfa valdasókn þeirra.
Um þessi bandalög var tekin upp svonefnd Domínókenning þess efnis að ekkert aðildarríki bandalagsins mætti falla, því að annars gæti það haft svipuð áhrif og í domínó, að öll landaröðin gæti fallið í framhaldinu.
Gerðir voru samningar um frelsi Víetnam, en til bráðabirgða yrði landinu skipt í tvennt líkt og Kóreu og Þýskalandi og síðar haldnar kosningar.
Af því varð þó ekki, því að ósætti var milli kommúnista í samtökunum Vietkong og þeirra,sem voru þeim andsnúnir.
Bandaríkjamenn reyndu að veita stjórnvöldum í suðurhlutanum aðstoð, en á hernaðarsviðinu var það í formi "hernaðarráðgjafa" og reynt að forðast stigmögnun átaka við Vietkong.
En það var hægara sagt en gert. Vietkong stundaði skæruhernað og til þess að stemma stigu við því að þeir kæmust inn í hin fjðlmörgu þorp fundu menn ekki annað ráð en að byggja varnir utan um þau.
Þetta var sannkallað óyndisúrræði því að það virkaði á þorpsbúa svipað og að loka þá inni í fangelsi.
Þar að auki var ríkisstjórn suðurhlutans í Saigon leppstjórn Bandaríkjamanna og gríðarleg spilling í rððum valdhafanna.
Þar kom að Bandaríkjamenn stóðu sjálfir fyrir því að Ngo Díem Díem var drepinn og þegar Johnson tók við af Kennedy sem forseti Bandaríkjanna, voru Bandaríkjamenn orðnir beinir þátttakendur í borgarastríðinu við Ho Shi Min og skæruliðaher hans.
Stærsta stigmögnun stríðsins gerðist á Tonkinflóa 1964, þegar meint árás norðanmanna á bandaríska flotann á flóanum var talin ástæða til stríðsyfirlýsingar.
Þegar frá hefur liðið, hafa fullyrðingar bandaríska hersins um árásina, sætt gagnrýni og verið dregnar í efa.
Stigmðgnun Vietmanstríðsins komst í hæstu hæðir fyrri hluta árs 1968 þegar fjöldi bandarískra hermanna í landinu komst yfir hálfa milljón.
Yfirmenn heraflans gerðu þá rökstudda beiðni um að fjölga í liðinu upp í 7-800 þúsund menn og fullyrtu að það myndi duga til sigurs.
En þá snerist almenningsálitið heima fyrir til andstöðu og helsta kosningaloforð Nixons var að ljúka stríðinu svo að hægt yrði að kveðja herliðið heim.
Við tóku ár samninga en einnig mestu loftárása stríðsins og annarra hervirkja.
Vietnamstríðið tapaðist fyrir Bandaríkjamenn vegna kolrangs mats á aðstæðum frá upphafi.
Eftir sigur Vietkong kom í ljós að Dómínókenningin virkaði ekki, og meira að segja áttu Víetamar í hernaðarátökum við Kínverja á tímabili.
Það tapaðist ekki vegna sigra Víetkong á vígvellinum, því að þar vannst til dæmis ekki sigur í svonefndri Tet-sókn, heldur vegna þess að sú sókn skyldi yfirleitt vera möguleg.
Í framhaldi af því tapaðist stríðið heimafyrir en ekki hinum megin á hnettinum.
Og óttinn, sem speglaðist í Dómínókenningunni, reyndist byggður á hreinum misskilningi um eðli þjóðfrelsisbaráttunnar í Víetnam.
Bandaríkjamenn fóru þaðan á þann hátt, að minnir um margt á brottför þeirra frá Afganistan 2021 og brottför Sovétmanna frá sama landi fyrir rúmum þrátíu árum.
Nú er spurningin hvort menn hafi eitthvað lært af þessu og því, hvernig Kóreustríðinu lauk eftir stigmögnun sem endaði með vopnahléi og nánast óbreyttum landamærum að loknu þriggja ára mannskæðu stríði.
![]() |
Pútín varar við árásum á ný skotmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2022 | 23:21
Áhrifaríkasti viðburður Íslandssögunnar?
Öldum saman var Hekla frægasta tákn Íslands í augum útlendinga og svo áhrifaríkt fyrirbæri, að jafnvel var talað um að fjallið væri fordyri helvítis.
Eldgosið 1783 í Lakagígum olli dauða milljóna manna víða um heim vegna neikvæðra áhrifa móðunnar frá gosinu, sem barst um alla jörðina og varð meira segja að einni undirrót frösku stjórnarbyltingarinnar.
En þá voru aðstæður nútímans í fjarskiptatækni, fjölmiðlun og samgöngum löngu ókomnar og því hafa fyrrnefndar staðreyndi ekki komið til fulls í ljós fynn en nú.
Gosið í Eyjafjallajökli var margfalt minna en Skaftáreldarnir og önnur stórgos íslensk, eins og til dæmis Grímsvatnagosið 2011, en áhrif þess á samgöngur og efnahagslíf á alþjóðavísu urðu samt meiri en af nokkrum sambærilegum viðburði á okkar tímum.
Í fyrsta sinn í sögu Íslands varð nafn landsins á allra vörum um allan heim og sumarið 2010 varð ekki þverfótað hér á landi fyrir fjölmiðlamönnum úr öllum heimshornum sem úðuðu fréttum sínum yfir mannkynið.
Í kjölfarið fór mesti uppgangstími hér á landi í efnahagsmálum, jafnvel enn meiri en í Seinni heimsstyrjöldinni.
Áhrif gossins virðst nú vera svo mikil, að vegna mikillar innviðauppbyggingar geti ferðaþjónustan náð sér furðu fljótt á strik á ný.
Þessi áhrif verða seint fullmetin.
![]() |
Gosið í Eyjafjallajökli hafði áhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þótt ljóst sé að engin leið sé til þess að setja upp varnir á öllum hættuslóðum nálægt nývöknuðu umbrotasvæði á Reykjanesskaga, er nauðsynlegt ætti samt að vera að finna út, hvort til séu afmörkuð tilefni til þess.
Dæmi um slíkan varnargerð er allhár varnargarður, sem gerður var milli svonefnds Höfðabrekkujökuls og hinna fornu sjávarhamri þar fyrir ofan.
Garðinum var ætlað að vera fyrirstaða gegn hugsanlegu hamfarahlaupi vegna Kötluhlaups, en í meira en heila öld hefur þessi öfluga elstöð ekki gosið eins og búist hafði verið við.
Hið skondna er einnig, að malaraldan Höfðabrekkujökull dregur nafn sitt af því, að hamfarahlaupið í gosinu 1918 bjó hana til, og að hún er mun hærri og margfalt stærri en garðurinn góði.
Jökullinn hefur rýrnað síðan 1918 svo að það er ekki víst að nýtt hamfarahlaup í gosi verði jafn öflugt og hlaupið fyrir rúmri öld.
Af því kann því að leiða að garðurinn sé nægilega hár til að standast næsta gos, ef og þegar af því verður.
![]() |
Skynsamlegt að bíða með varnargarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jónas heitinn Kristjánsson ritstjóri hélt því fram fyrir siðustu aldamót að hvítasykurinn eða viðbætt kolvetni myndu skapa mesta heilsubandamál og mannamein 21. aldarinnar.
Þetta var hraustlega mælt, því að áratugina á undan hafði öll athyglin á þessu sviði sett fituna í efsta sætið, sem mestu vána og orsök offitu.
Staðreyndin er hins vegar sú, að enginn maður getur lifað án þess að neyta fitu og nú virðist óhæfileg neysla kovetna, einkum hvítasykurs, ráða miklu meira um offitu og sykursýki.
Síðuhafi þekkir áhrif skorts á fitu, - varð fyrir því 2008 að hafa ofnæmi fyrir lífsnauðsynlegu sýklalyfi, þannig að afleiðingin varð lifrarbrestur í þrjá mánuði, stíflugula, stanslaus ofsakláði og svefnleysi, - allt af því að lifrin gat ekki unnið úr fitunni.
Eftir þrjá mánuði voru 16 kíló farin og 40 prósent af blóðinu.
Með sama áframhaldi hefði niðurstaðan orðið niðurbrot og dauði á geðdeild og á þessum tíma hitti síðuhafi mann, sem hafði fyrir nokkrum áratugum komist það neðarlega í lifrarbresti, að stutt var í innlögn á geðdeild.
Í nokkrum matarkúrum um þessar mundir er því gert ráð fyrir hæfilegri neyslu fitu en hins vegar lagt bann við neyslu hvítasykurs.
Aðalváin hefur færst til vegna þess að óhæfileg neysla á kolvetnum og viðbættum sykri hjá nútímafólki leiðir æ fleiri til að fá sykursýki af tegund 2.
Ef ekki tekst að halda henni í skefjum, getur það á endanum valdið blindu og skemmdum á líkamanum, svo sem að missa tær og fætur.
![]() |
Af hverju skiptir fituprósentan öllu máli? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2022 | 23:39
Grindavík - Svartsengi - Vellirnir - Vestmannaeyjar, "allt undir"?
Allt frá fyrstu umbrotum á Reykjanesskaga hefur því verið velt upp hér á þessari síðu að hafinn væri nýr kafli í sögu eldsumbrota á Reykjanesskaga eftir átta hundruð ára hlé.
Þetta er smám saman að koma í ljós, og líkt og í ellefu ára aðdraganda gossins í Eyjafjallajökli 2010, þarf nú þegar að bregðast rösklega við og koma á fót öflugu og vel grunduðu varnarstarfi.
Bæjarstjórinn í Grindavík notar orðin "allt undir" um hættuna og viðbrögð við henni, og í fljótu bragði virðist það eiga við um Grindavík og Svartsengi, sem eru illu heilli svo nálægt líklegri eldstöð og hraunrennsli, að vandaverk verður að velja varnargarða sem eru á réttum stað.
Vogar á Vatnsleysuströnd eru talsverða vegalengd frá hugsanlegum eldstöðvum, en enda þótt svæðið frá Almenningi, þar sem er fyrirhugað flugvallarstæði fyrir svonefndan Kapelluhraunsflugvelli, sé góðan spöl frá hugsanlegri elstöð, er svæðið þaðan og vestur á Vellina í Hafnarfirði allt í skotlínu hugsanlegra hraunstrauma.
Ekki ætti að vera hætta á nýjum hraunstraumum niður í bæjarstæði og hafnarsvæði Hafnarfjarðar, því að í svonefndu Hjallamisgengi, sem liggur úr norðaustri til suðvesturs frá Heiðmörk um Hjalla, hefur myndast náttúruleg fyrirstaða og hindrun í formi margra kílómetra langs hamraveggs.
Hraun frá eldstöðvum í Bláfjöllum gæti runnið sömu leið og fyrra hraun sem féll alveg niður í Elliðaárdal og Elliðavog, en Elliðavatn og öflugar varnir gætu tafið fyrir slíkri hraunsókn.
Í þessu sambandi má ekki gleyma Vestmannaeyjum, en Heimaey er einfaldlega langstærsta eyjan vegna þess að undir henni hefur mesta eldvirknin verið.
Það var einskæð heppni sem réði því að enginn fórst í gosinu sjálfu 1973.
Erfitt er að sjá að nokkrar varnir fyrirfram geti dugað, heldur allt eins líklegt að flytja yrði alla íbúana á brott áður en aðsteðjandi gos brysti þar á.
![]() |
Það er allt undir, allt þetta svæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)