"Hásumarið" er í kringum 20. júlí að meðaltali, einmitt núna.

Sumarsólstöður eru eins og allir vita nálægt Jónsmessunni, sem er 24. júní ár hvert, en sól hæst á lofti einum til tveimur dögum fyrr. 

En vegna lögmálsins um tregðu hlutanna, er hámarkshitinn að meðaltali ekki þá, heldur um það bil mánuði seinna. 

Stjörnuspekingar Íslendinga til forna vissu um þetta, þannig að þeir skiptu á milli vetrar og sumars einum mánuði eftir vorjafndægur og höfðu fyrsta vetrardag sömuleiðis um það bil mánuði eftir jafndægur að hausti.  


Stríðið endalausa.

Í upphafi áttunda áratugarins á síðustu öld hillti undir það að búið væri að kveða endanlega í kútinn alla helstu óvætti á sviði drepsótta með stórkostlegum uppgötvunum og framförum í læknavísindum. 

Berklar, mislingar, mænuveiki, bólusótt, sýkingar; nefndu það; allt voru þetta ógnvaldar, sem taldir voru endanlega sigraðir, og dýrlegir tímar virtust blasa við. 

En Adam var ekki lengi í paradís, og í formi HIV-veirunnar blasti við geta herskara af veirum og sýklum að skapa nýja ógnvætti og koma að nýju á hinu þúsalda gamla umhverfi drepsótta og faraldra, sem fylgt hafa manninum frá örófi alda. 

Eitt atriði í sóknarmöguleikum sýklanna birtist í því að það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í því að búa sífellt til sterkari og sterkari lyf, því að það kemur að því að lyfin verða svo sterk, að þau drepa ekki bara sýklana, heldur ógna þau smám saman líka hýslinum.  

Önnur birtingarmynd mannlegs veikleika birtist líka í því að með mistökum í að taka inn sýklalyf með jöfnu billibili, eykst hætta á því að sýklar myndi með sér svonefnt fjölónæmi. 

Barátta lækna og lyfjafræðinga við sýklaherinn snýst æ meira um það að verða kapphlaup milli manna og sýkla, þar sem alls óvíst er um endanleg úrslit. 

Þar með nálgast ástandið ískyggilega það að verða eins og það hefur alltaf verið, stríðið endalausa milli manna og sýkla. 


mbl.is Varar við krefjandi vetri og hvetur til grímuskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hetjuleg frammistaða og gott sjónvarpsefni.

Það er ekki hægt að kvarta yfir því að það hafi verið spennulaust í leikjum íslenska kvennalandsliðsins á EM, því að nóg var af góðum færum og dramtískum tilþrifum í þeim þremur leikjum, sem liðið lék.  

Ótal atriði gátu talist úrslitaatriði, svo sem þetta eina mark, sem Belgía skoraði á móti Ítalíu í kvöld þrátt fyrir að Ítalirnir teldust vera bæði með betri færi og leik.  

Andinn í liðinu okkar og baráttuviljinn voru til fyrirmyndar og baráttan hetjuleg allt til enda. 

Síðasta sekúndan, heimsklassa vítaspyrna, var ekki amalegur endir á frammistöðu liðsins. 

Þetta ku vera í fyrsta sinn á EM sem taplaust lið sem aðeins fékk á sig þrjú mörk kemst ekki upp úr riðlakeppninni, og stelpurnar fá þakkir hér á síðunni og geta borið höfuðið hátt.  


mbl.is Ísland taplaust á heimleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lágmark, að ríkisreknar fréttastofur dreifi ekki falsfréttum um veðrið".

Ofangreind tilvitnun er tekin úr þriggja daga gömlum bloggpistli eins þeirra efasemdarmanna, sem hafa síðan á dögum Parísarráðstefnunnar 2015 og tikomu fullyrðinga Donalds Trumps um falsfréttir 2016 haldið upp harðri gagnrýni á allan fréttaflutning um veðurfar og loftslagsmál.  

Þátttakendur í Parísarráðstefnunni hafa verið kallaðir "40 þúsund fífl í París" og RUV sakað um að stjórna samsæri fjölmiðla um tilbúning og dreifingu "falsfrétta" um hitamet, sem séu í raun bara ósköp eðlilegir sumarhitar og ekki methitar á nokkra lund. 

Nú eru sem sagt liðnir þrír dagar síðan pistillinn um falsfréttirnar var skrifaður og verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvernig endanlegt uppgjör kuldatrúarmanna við hitabylgjufréttirnar verður. 

  


mbl.is Myndir: Íslendingar að bráðna í Rotherham
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað líður Árósarsamningnum?

Á síðasta áratug 20. aldarinnar, þegar aðildarríkjum að ESB fjölgaði, var svonefndur Árósarsamningur um aðild náttúruverndar- og umhverfissamtak að framkvæmdum með umdeilanlegum umhverfisáhrifum lögtekinn í hinum nýju ríkjum, sem mörg hver voru í Austur-Evrópu. 

Hér á landi voru lappirnar hins vegar dregnar svo mjög, að samningurinn hafði enn ekki verið fullgiltur hér þegar Gálgahraunsdeilan stóð árið 2013. 

Í meðförum samningsins á Alþingi sáu "lagatæknar" andstæðinga samningsins um að útvatna hann sem mest, svo að hann yrði helst aldrei að gagni í þeim tilgangi, sem liggur á bak við hann. 

Nú, meira en tveimur áratugum eftir að samningurinn fékk brautargengi í mörgum löndum, virðist krafan um svonefnda "lögaðild" ennþá á einhverju undarlegu róli. 

Fróðlegt væri að vita hver staða hans raunverulega er á því herrans ári 2022. 


mbl.is „Svolítið eins og að berjast við vindmyllur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu kominn tími til að sækja að "ofurmeti" Vilhjálms.

Á fyrstu árum gullaldar íslensku frjálsíþróttamannanna var fátt sem benti til þess að þrístökk yrði meðal þeirra greina, sem Íslendingar næðu í fremstu röð á alþjóðavísu.  

Allt fram til 1956 voru tvö bestu afrekin 14,77 m hjá Kára Sólmundarsyni og 14,71 hjá Stefáni Sörenssyni.  En heimsmetið var enn meira en hálfum metra lengra og stefndi upp.  

Vilhjálmur Einarsson var að hefja íþróttaferil sinn og fékk þá umsögn eins þjálfara, að hann gæti kannski helst orðið liðtækur kúluvarpari!  

En síðan fóru að gerast óvænt atvik. Vilhjálmur vakti í fyrstu enga athygli fyrir fikt sitt við þrístökk, fyrr en það gerðist eitt sinn að hann klúðraði atrennunnni svo rækilega, að hann varð að stökkva fyrsta stökkið upp af "vitlausum" fæti og þar með tvö seinni stökkin líka af "röngum" fótum,  og útkoman varð algerlega óvænt svo góð, að hann hélt sig við þetta eftir það. 

Ólympíuleikarnir voru í Melbourne í Ástralíu i desember og síðan gerðist það alveg jafn óvænt og "vitlausa stökkið" hjá Vilhjálmi, að hann náði öllum að óvörum Ólympíulágmarkinu með því að stökkva 15,83 metra á móti í Karlstad í Svíþjóð; gott ef það var ekki Norðurlandamet. 

Einn helsti þjálfari Svía kom að máli við Vilhjálm og sagði honum, að hann gæti lengt stökk sitt um hálfan metra, ef hann breytti rytmanum milli stökkvanna þriggja með því að lengja miðstökkið og fá meira "hang" í það stökk, án þess að það gerðist á kostnað fyrsta og þriðja stökks. 

Þetta var gerólíkt því sem heimsmethafinn Ferreira Da Silva gerði; hann stökk feiknarlega hátt og langt fyrsta stökk á kostnað stökkvanna á eftir. 

Söguna af framhaldinu þekkja flestir: Vilhjálmur setti Ólympíumet, 16,26 metra, sem stóð þar til Da Silva tókst að bæta það í lok keppninnar. 

Risastökkið mikla, sem enn stendur sem Íslandsmet, var 16,70 metrar og svo hefur virst þrátt fyrir miklar tæknilegar framfarir í stökkbrautum, skóm og þjálfunaraðferðum, að það verði eilíft og ósnertanlegt fyrir Íslendinga. 

En saga mets Vilhjálms er einfaldlega þannig, að um það gæti gilt hið fornkveðna, að "ævintýrin enn gerast."

Það er löngu kominn tími til. 

,


mbl.is Besta stökk Íslendings í 60 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar erlendir ferðamenn vildu skaðabætur fyrir að missa af roki og regni.

Lífseig er sú skoðun Íslendinga að rok og rigning og kuldi og myrkur séu eitur í beinum allra erlendra ferðamanna. Margar sögur má segja um hið gagnstæða, og svipað á við um veðrið á vesturströnd Írlands, en einn stærsti markhópur erlendra ferðamanna þar eru upplifunarþyrstir suðurlandabúar, sem eru fyrir löngu búnir að fá upp í kok á sumrin vegna of heits og mollulegs veður. 

Upplifun þessara ferðamanna felst í því að standa á ströndinni andspænis landlægu suðvestan roki og rigningu og láta þetta slagveður, komið alla leið yfir Atlantshafið, gera sig hundblauta. 

Síðuhafi heyrði hér um árið sögu af stórri hópferð slíks fólks hér á landi, og var ætlunin að fara í rútu suður á Reykjanes. 

En þegar fyrirhugaður ferðadagur kom, var talið of hvasst og slæmt vatnsveður fyrir ferðina og ákveðið að hætta við hana og bjóða upp á dvöl yfir daginn í Reykjavík. 

Hluti ferðahópsins tók sig hins vegar saman og heimtaði að fá sína ferð og engar refjar, og taldi sig eiga kröfu á ferðinni, sem búið væri að borga fyrir. 

Var að lokum látið eftir þessum freka hópi og ferðin farin. 

Um kvöldið, þegar fréttist af hinni miklu ánægju þessa hóps fyrir að fá að verða hundvotur á bjargbrún á Reykjanestá og himilifandi yfir þessari algerlega nýju lífsreynslu, urðu aðrir, sem ekki fengu slíka ferð, óánægðir og kröfðust skaðabóta! 

Í þessum efnum verður að hafa það gamla boðorð viðskipta í huga, að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér. Með því er átt við að seljandi vöru eða þjónustu sinni því megin hlutverki sínu að fara eftir því viðskiptavinurinn sækist eftir. 

Áratugum saman voru Lapplendingar með fleiri ferðamenn á veturna en Íslendingar allt árið. 

Í Lapplandi voru sex meginatriði til sölu:  Kuldi, myrkur, þögn, ósnortin náttúra, jólasveinninn og mikil fjarlægð frá öðrum löndum. 

Allt saman atriði, sem flestir Íslendingar töldu vera fráhrindandi og óæskileg. 

 


mbl.is „Það vill enginn vera í roki og rigningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar tveggja tveggja sæta bíla fyrir tilviljun á bílaplani. Nýr í flotanum?

Á bílastæðaplönum við stórar íbúðablokkir getur oft verið gaman að fylgjast með umferðinni um helgar þegar gestagangur er. 

Þá dúkka oft upp svo sjaldgæfir bílar, DSC00199að maður hét jafnvel að þeir væru ekki til hér á landi. 

Einn slíkur var skyndilega kominn í eitt stæðið í dag og skyndilega mátti sjá afar sjaldgæfa sjón hér á landi: Tvo eldrauða tveggja sæta bíla fyrir tilviljun ofan í hvor öðrum, því að eldrauðum Audi TT Quattro blæjubíl var lagt rétt aftan við jafn eldrauðan tveggja sæta Tazzari rafbíl, sem stóð þar í sínu venjulega stæði.

Það er heilmikil saga í kringum báða þessa bíla.

Einn af NSU bílum síðuhafa á sjöunda áratug síðustu aldar var af gerðinni NSU 1000.DSC00197

Þeir bílar voru afar sportlega hannaðir en þó rúmgóðir þótt þyngdin væri ekki nema 620 kílo. 

Með snöggu og hárnákvæmu tannstangarstýri og 1000 cc yfirliggjandi kambás vél voru aksturseiginleikar þessa bíls einstakir og kölluðu fljótt á aukið afl vélarinnar, sem rauk úr 43 hestöflum upp í 75 í svonefndri TT gerð. 

Með þessum vélum unnust margir sigrar í aksturkeppni á NSU TT og NSU TTS meðan þessir bílar voru framleiddir. 

En upp úr 1970 sameinuðust NSU og Audi verksmiðjurnar í eigu Volkswagen, og NSU K70 varð fyrsti framhjóladrifni bíll Volkswagen verksmiðjanna meðan verið var að hanna VW Passat, Póló og Golf, sem komu á markað í þessari röð 1972 og 73. --audi-tt-roadster-

 

 

--audi-tt-roadster-

Fyrst hétu hinar sameinuðu verksmiðjur Audi-NSU, en síðar féll NSU nafnið út, þótt Audi A8, flaggskip verksmiðjanna, hafi alltaf verið framleitt í bænum Neckarsulm, þar sem NSU hafði áður verið í 60 ár. 

En hjá Audi gleymdu menn ekki upprunanum og grasrótinni og árið 1998 var heitið TT endurvakið í framhjóladrifnum sport coupe bílnum Audi TT. 

Hann hefur verið framleiddur síðan í þremur kynslóðum, þeirri siðustu frá 2018. 

Bíllinn, sem dúkkaði upp á stóra bílaplaninu í dag, er af Quattro gerð, þ.e. fjórhjóladrifinn, en það er líka bílasportsaga á bak við það heiti, því að 1979 kom Audi fra með fyrsta fjórhjóladrifna rallbílinn undir þessu heiti, og var hann nær ósigrandi í heimsmeistarakeppninni næstu ári. 

Audi TT Quattro eins og myndirnar hérna eru af, er hægt að fá með allt upp í 400 hestafla vél, sem skilar bílnum í 100 km hraða á 3,9 sek sem nægir til að sýna flestum Benz og BMW afturendann í spyrnu.   

Það er sagt að akstur á blæjubíl sé lífstíll, og getur síðuhafi vitnað um það hvað snertir Fiat 126 blæjubílinn, sem hann á á Fornbílsafni Borgarfjarðar.DSC00206

Því set ég hér inn mynd af einum rauðum Audi TT blæjubíl erlendis með blæjuna niðri og allt klárt. 

Tazzari bílinn, sem stendur fyrir framan Audi TT, þekkja lesendur þessara bloggsíðu frá fyrri pistlum. 

Því miður er hann ekki blæjubíll, en það er líka lífsstill í því að aka svona litlum bíl. 

Hámarksafl rafhreyfilsins er aðeins 20 hestöfl, en viðbragðið er samt lyglilega gott í krafti hinnar miklu nýtni rafhreyfla og léttleika bílsins, aðeins 760 kíló.  

Og uppruni Tazzari bílsins tengist einum af þekktustu stöðunum í bílasporti; framleiðslustaðurinn er í sjálfum "Motor Walley" Ítalíu þar sem Ferrari, Lamborghini og Maserati eru næstu nágrannar, en Tazzari verksmiðjan sjálf í bænum Imola, rétt hjá hinni heimsþekktu Formúla 1 kappakstursbraut. 

 

 


mbl.is Fólksbifreiðakaup aukist um 50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Asni klyfjaður gulli kemst yfir hvaða borgarmúr, sem er."

Hið gamla orðtak um asnann, klyfjaðan gulli, hefur verið, er og verður sígilt. Það sannast enn og aftur í ferð Bandaríkjaforseta til Saudi-Arabíu. 

Þetta mesta olíuríki heims vefur öllum öðrum ríkjum um fingur sér í krafti svarta gullsins, sem það notar bæði beint og óbeint til að hafa jafnvel stórveldin sjálf sem auðsveipa þjóna. 

Svarta gullið, sem er óendurnýjanleg orkuauðlind, hefur æ meiri áhrif á alla heimspólitíkina. 

Á tíma Ronalds Reagans höfðu Sádarnir hann góðan með því að nota áhrif sín sem olíuframleiðsluríki númer eitt til þess að verðfella olíuna á heimsmarkaðnum og valda með því Sovétríkjunum svo miklu tapi, að það átti stóran þátt í hruni þeirra. 

Styrjaldarpólitíkin í kringum Úkraínu er í raun stríð olíuframleiðslu og gasfremleiðslu. 

Rússar stefna að því að komast í kjörstöðu varðandi miklar orkuauðlindir fyrrum Sovétlýðvelda við Kaspíahaf og eru tilbúnir að ganga langt til þess að koma í veg fyrir það að NATO geti komið í veg fyrir yfirráð Rússanna og lagningu fyrirhugaðra gasleiðslna til Evrópu og jafnvel Kína. 

Með öðrum orðum: Nú, eins og svo oft áður á svonefndri olíuöld, snýst heimspólitíkin að miklu leyti um yfirráð yfir olíunni og öðru jarðefnaeldsneyti. 

Um þetta leyti stefndi fjölþjóðaher Hitlers í gegnum Úkraínu í áttina til olíulindanna við Bakú og var það svo mikilvægt í huga Hitlers, að einmitt seint í júlí 1942 lét hann herdeildir undir forystu Kleist hætta við að fylgja 6. hernum til Stalingrad og stefna í staðinn á austur til sunnanverðs Kaspíahafs. 

Með því að dreifa kröftum hersins á þennan hátt gerði Hitler afdrifarík mistök, því að með því tók hann áhættu á því að hvorugt markmiðið næðist.  

Kleist komst að vísu langleiðina til Grosny, og 6. herinn undir stjórn Paulusar náði mestallri Stalingrad, en vegna brottfarar Kleist úr stuðningsstöðu sinni við 6. herinn, veiklaðist staða hans svo mikið, að Rússar lokuðu hann inni í Stalingrad og eyddu honum á endanum. 

Eftir því sem meira gengur á hið óendurnýjanlega jarðefnaeldsneyti, á það eftir að valda enn meiri og vaxandi óróa og hernaðarátökum meðal þjóða heims. 

Það er gefur ekki mikla bjartsýni varðandi frið meðal jarðarbúa í togstreitunni um þverrandi auðlindir.  


mbl.is Biden skiptir um skoðun á Sádum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvorki sýnd veiði né gefin, en samt er "rallið ekki búið fyrr en það er búið."

Knattspyrna er nú einu sinni þannig íþrótt, að hver leikur hefst á markatölunni 0:0 og jafnvel þótt lið séu misjafnlega sterk eða með misjafnt álit, gildir það sem Jón R. Ragnarsson hafði oft á orði forðum í rallinu, að "rallið er ekki búið, fyrr en það er búið."

Nýlegt dæmi, leikur íslenska karlalandsliðsins við það landslið, sem er neðst á lista í heiminum, þar sem litlu munaði að úrslitin yrðu jafntefli. 

Franska kvennalandslíðið er hins vegar það sterkt, að enda þótt það vanti einn skæðasta sóknarmanninn í liðið, er liðið sýnd veiði en ekki gefin.  

Má jafnvel orða það þannig, að liðið sé hvorki sýnd veiði né gefin, en samt spurningarmerki við úrslitin. 

Áfram Ísland!


mbl.is Áfall fyrir franska liðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband