Eins og að fylgjast með vígstöðvum

Eftir þriggja vikna hlé gafst færi að nýju síðdegis að líta yfir eldstöðvar úr Holuhrauni.

Í umhleypingum að undanförnu hefur verið erfitt að finna færi á að komast í tæri við gosið úr lofti.  Þetta nýja hraun minnir á rauðan her sem sækir fram á allri víglínunni misjafnlega hratt þó. 

Þetta var stórbrotið svið að líta yfir í ljósakiptunum í kvöld.  Sólin var að setjast og sló ásamt móðunni stórbrotnum blæ á vígstöðvarnar sem blöstu við. 

Þótt hraunið hafi á tveimur stöðum komist yfir Gæsavatnaleið þar sem hún liggur yfir sandflæmið ætti að vera hægt að færa slóðina til undan hrauninu. 

Vonandi gefst færi á morgun að birta myndir af því sem blasti við í kvöld en á þeim ætti að sjást hvernig hraunið er að komast að ármótum Svartár og  Jölulsár á fjöllum.  Þar fer hraunið hins vegar afar hægt vegna þess hve það er orðið langt og finnur sér frekar framrás til hliðanna, einkum í norður. 

Að öðru leyti er tíðindalaust á austurvígstöðvunum. 


mbl.is 40 skjálftar við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðarinnar.

Það ætti ekki að þurfa að vera eins og spáný frétt að Bárðarbunga sitji mitt á heita reitnum undir Íslandi. Það er og hefur verið höfuðatriði varðandi eðli hins eldvirka hluta Íslands að undir honum er annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar og að þessi yfireldstöð landsins, Bárðarbunga, situr beint ofan á miðju hans.

Í því felast afl og áhrif hennar í formi hraunstrauma, stórgosa og hamfaraflóða í fimm vatnasvið, áhrif og sköpunarverk sem ná frá suðurströndinni i Flóanum og á Skeiðarársandi yfir þvert landið norður í Öxarfjörð. 

Hinn eldvirki hluti Íslands er eitt af 40 helstu náttúruundrum veraldar. Bara á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum einnar er að finna lang magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims.

Hinn heimsfrægi eldfjallaþjóðgarður Yellowstone í Bandaríkjunum, elsti þjóðgarður heims, kemst ekki á blað sem eitt af helsu náttúruundrum veraldar og jafnoki hins eldvirka hluta Íslands. Samt er Yellowstone, mesta orkubúnt Bandaríkjanna varðandi jarðvarma og vatnsafl "heilög og ósnertanleg jörð" í hugum Bandaríkjamanna.

Hvenær ætlum við Íslendingar að láta okkur skiljast þetta?


mbl.is Undir er heitur reitur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning á minknum og erlendu fjárpestunum?

Þrisvar sinnum á síðustu öldum bárust erlendir sjúkdómar í íslenskt sauðfé og ollu stórtjóni. Minkurinn var fluttur inn með þekktum afleiðingum. 

Í öll skiptin var fullyrt að engin hætta væri á ferðum. Engir sjúkdómar bærust hingað og engir minkar myndu sleppa út.

Undanfarin ár hefur ítrekað verið fullyrt að engin hætta sé á ferðum þótt eldi á erlendum laxi sé margfaldað á metttíma í fjörðum landins. Enginn lax muni sleppa út.

Í öllum fyrrnefndum tilfellum hefur tilvist lögmáls Murphys verið mönnum hulin eða "áunnin fáfræði" látin ríkja. Miðað við hina löngu áfallasögu virðist líklegt að þannig verði það áfram á Íslandi um aldir alda.   


mbl.is Norskur eldislax veiðist í Patreksfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, stóriðjan var hófsemi og skynsemi, "eitthvað annað" brjálæði.

Árum og áratugum saman var það talin skynsemi og hófsemi að reisa eins mörg álver á íslandi og unnt væri, selja orkuna á "lægsta verði í heimi" með "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" eins og það var auglýst af íslenskum stjórnvöldum í leynilegum betlibæklingi, sem sendur var helstu stóriðjufyrirtækjum heims. 

Talið var skynsamlegt og hófsemdarlegt að framleiða 20 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf til eigin nota og virkja alla virkjanlega orku í þessu skyni og umturna eða eyðileggja öll helstu náttúruverðmæti í þessu skyni.

Þeir sem andæfðu þessu voru kallaðir "ofgamenn" sem væru "á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og vilja fara aftur inn í torfkofana."

Ekkert annað en stóriðja kæmi til greina "til að bjarga þjóðinni".  "Eitthvað annað" væri fánýtt og fjallagrasatínsla gjarnan nefnd sem dæmi.

Vilhjálmur í Möðrudal á Fjðllum var "talinn brjálaður" að láta sér detta "eitthvað annað" í hug.  

Fyrir kosningarnar 2007 reyndi Íslandshreyfingin að benda á aðeins eina staðreynd, sem styngi í augun:

Að jafnvel þótt sex risaálver yrðu reist og allri orku og náttúru landsins fórnað fyrif þau, myndu aðeins um 2% vinnuaflsins fá vinnu í álverunum og svonefnd "afleidd störf" yrðu aldrei fleiri en um 5% vinnuaflsins.

Eftir sem áður yrðu langt yfir 90% af vinnuaflinu "eitthvað annað." 

En þetta fór þá og fer enn inn um annað eyrað og út um hitt hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu. Að minnsta kosti hefur það verið "einróma" stefna núverandi ríkisstjórnar að reisa risaálver í Helguvík og fórna fyrir það helstu náttúruverðmætum landsins allt frá Reykjanestá austur í Skaftárhrepp og upp á hálendið.

Og enn eru þeir sem andæfa þessu taldir brjálaðir.  


mbl.is Vilhjálmur var talinn brjálaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur það verið?

Síðustu ár Kísiliðjunnar við Mývatn voru fluttar um það reglulega fréttir að byggðin myndi hrynja ef verksmiðjan fengi ekki að halda áfram. 

Umhverfisverndar- og náttúruverndarfólk var sakað um að vilja allt atvinnulíf feigt. Samt reyndi það að benda á möguleika í ferðaþjónustu og fleiru, en var þá í háði spottað fyrir að vilja "eitthvað annað" en stórar virkjanir og stóriðju, og með "einhverju öðru" var venjulega nefnd fjallagrasatínsla og það að "vera á móti rafmagni", "vilja fara aftur inn í torfkofana og vera á móti atvinnuuppbyggingu." 

Venjulega var dómsdagsfrétt um yfirvofandi endalok Kíisiliðjunnar fyrsta frétt á ljósvakanum.

Svo hætti Kísiliðjan án þess að hægt væri að kenna náttúruverndarfólki um það. Samt var haldið áfram að núa því um nasir að hafa viljað leggja byggðina í auðn.

Frétt um það ári síðar að byggð héldi áfram þrátt fyrir allt beið lengi eftir birtingu og komst loksins að aftarlega í fréttatíma.

Í ljósi þessa vaknar spurningin um það hvernig það megi vera að enn sé byggð í Mývatnssveit. Hvort það hljóti ekki að vera gabbfrétt að samþykkt hafi verið gerð nýrrar götu í Reykjahlíð og að "mikill uppgangur" sé í Mývatnssveit án þess að reisa nýja Kísiliðju eða stórvirkjun í Bjarnarflagi.  


mbl.is Mikill uppgangur er í Mývatnssveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutum snúið á haus.

Fróðlegt er að sjá viðbrögð sumra við augljósu misrétti kynjanna á vinnumarkaði og í námi sem birtist í ýmsum könnunum. 

Hlutum er í umræðu þessara manna snúið á haus og fullyrt, að baráttan fyrir betri hlut kvenna sé til bölvunar, vegna þess að aukin þátttaka kvenna "gjaldfelli" háskólanám og launakjör í þeim störfum sem þær taka aukinn þátt í. 

Í stað þess að viðurkenna að þetta séu glögg merki um fordóma og misrétti eru "gjaldfellingin" og karlahlunnindin talin vera merki um að feminismi sé til óþurftar og bölvunar.

Það séu fyllilega eðlileg og sanngjörn viðbrögð við aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna að lækka laun þeirra stétta og atvinnusviða sem þær halsa sér völl í. Sá "feminismi" kvennanna að dirfast að mennta sig betur og taka meiri þátt í öllu þjóðlífinu en áður sé til ills en hitt af hinu góða að þær haldi til baka "aftur fyrir eldavélina" svo að karlarnir geti áfram að koma í veg fyrir "gjaldfall"menntunar og færni.    

Þetta er merkilegt að sjá eftir alla jafnréttisumræðuna og baráttuna sem háð hefur verið í meira en öld.   


mbl.is Karlar með meiri hlunnindi en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skylduáhorf: Fuglarnir á Midway.

Orðin "lengi tekur sjórinn við" eru löngu úrelt og veruleikinn verður æ grimmari. Rusl og úrgangur magnast í hafinu með hverju árinu, risastórar plasteyjar myndast í Kyrrahafi og á fjörum Íslands og í hafinu við landið vex þessi óhroði jafnt og þétt.

Aðvörunarbjöllur ætti að hringja hátt og hvellt við það að fara inn á Youtube og sjá myndbönd af ástandi fuglalífsins á Midway í miðju Kyrrahafi. Ætti það að verða skylduáhorf fyrir alla.  

Það var vel til fundið og tímabært að veita Tómasi Knútssyni verðlaun Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru í síðustu viku fyrir áralangt starf hans við að vekja fólk til umhugsunar um versnandi ástand í þessum efnum, sem kallar á vitundarvakningu og aðgerðir í stað sinnuleysis og ábyrgðarleysis þannig að við förum að líta öll í eigin barm.

Fyrsta skrefið væri að leggja sem mest af notkun einnota plastpoka og fá sér í staðinn vistvæna taupoka, sem hægt er að nota aftur og aftur.   


mbl.is Hvað verður um ruslið sem fer í hafið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg sérstaða hvarf.

Til að vörur seljist vel verða þær ekki aðeins að vera betri en vörur keppinautanna heldur er ekki síður nauðsynlegt að sérstaðan byggist á fleiri atriðum en verðinu og að þannig sé hægt að hörfa til traustra og stórra markhópa. 

Sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo og Saab hösluðu sér völl á ólíkum forsendum og bættu hvor aðra upp að því leyti að skörun markhópanna var litiil.

Volvo höfðaði meira til yfirvegaðra kaupenda með því að bjóða vel smiðaða, vandaða og trausta en næsta venjulega bíla með vél frammi í og drif á afturhjólum, þar sem gæði og öryggi voru sett ofar nýjungum í hönnun og útliti.

Eina atriðið sem minnisstætt er að væri öðruvísi en venja var á þessum tíma, var gormafjöðrunin að aftan. Og Volvo bauð um 1960 uppá kraftmiklar vélar sem valkost til að þjóna þeim sem vildu meira afl og hraða.

Útlitið speglaði íhaldssemi og tregðu tll að stunda ævintýramennsku.  

Saab fór gerólíka leið þótt vöruvöndun og traust smíð væri líka í hávegum höfð. Saab 92 / 96 var framhjóladrifinn og með meira straumlínulagi og minni loftmótstöðu en aðrir smábílar á þeim tíma.

Útlitið var framúrstefnulegt en skapaði þó furðu mikið innanrými.

Svo vel var hönnunin heppnuð að hún entist að mestu óbreytt í 33 ár. Helstu breytingar voru fólgnar í því að skipta úr tvígengisvél yfir í fjörgengisvél. 

Akstureiginleikarnir voru mjög góðir og skópu sigurgöngu Saab í bílaíþróttum.

Arftakinn, Saab 99 / 9000, var einstaklega vel heppnaður bíll, með hagkvæma og fallega hönnun sem skóp mikið rými og þægindi miðað við stærð og þyngd. 

Bíllinn var með sérstæðan svip og auðþekkjanlegur. Þessi arftaki og afbrigði af honum entust í meira en tvo áratugi, allt fram á níuunda áratug síðustu aldar.  

Á þeim tíma hefði verið lífsnauðsynlegt fyrir Saab að bjóða upp á nýja kynslóð bíla sem hefði sömu sérstöðu og Saab bílar höfðu haft  fram að því.

En nú voru komin til sögunnar erfiðari skilyrði til nýsköpunar en áður höfðu verið. Framleiðendur neyttust til að einfalda framleiðsluna með því að smíða sameiginlega undirvagna, vélar og driflínur.

Saab hafði að vísu strax á sjöunda áratugnum leitað samvinnu við erlendar bílaverksmiðjur varðandi bílvélar, samvinnu við Ford í Þýskalandi með vélar í Saab 96 og í fyrstu var Saab 35 með vél frá Triumph.

En samvinnan 20 árum síðar við Fiat um sameiginlega undirvagna og meginlínur í yfirbyggingu í nýjum Saab, Fiat Chroma og Lancia Thema eyðilagði sérstöðu Saab.

Af þessum þremur bílum var Lancia Thema best heppnaður og allt í einu virtist Saab ekki lengur verið Saab.

Einhvern veginn heppnaðist samvinna Volvo við stórar erlendar bílaverksmiðjur betur en hjá Saab þegar kom að því verða óhjákvæmlega að beygja sig fyrir grimmum kröfum um samhæfingu og samvinnu í bílaframleiðslunni.

Nú var Volvo orðinn framhjóladrifinn eins og Saab og flestir aðrir bílar, þar með var sérstaða Saab að því leyti úr sögunni.

Og raunar blasir við að jafn fámennt land og Svíþjóð ber ekki tvær bílaverksmiðjur á okkar tímum, og raunar kraftaverk að ein bílaverksmiðja af nægilegri stærð þrífist þar.

Önnur hvor verksmiðjan að minnsta kosti, Volvo eða Saab, hlaut að lúta í gras, og hins sérstæða Saab fortíðarinnar er sárt saknað.  

Þetta er gömul saga og ný. Sem dæmi má nefna þegar AMC naut mikillar velgengni í kringum 1960 í Bandaríkjunum í krafti yfirburða stöðu á markaði fyrir minnstu amerísku bílana, þá gerði AMC þau mistök að ætla að sækja fram á öllum markaðnum, allt frá minnstu til stærstu bílanna.

Það dreifði kröftunum, risarnir þrír svöruðu á öllum vígstöðvum og sérstaða AMC var eyðilögð.  

 

 

Saab höfðaði  


mbl.is Saab segir upp þriðjungi starfsfólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !

Sumarið 1957 fórum við bræðurinir, Edvard og ég, til Öræfa til að heimsækja bróður okkar, Jón, sem var í sveit á Hofsnesi. 

Flogið var á DC-3 til Fagurhólsmýrar. Þar með var maður kominn í afskekktustu sveit landins þar sem engin af fjölmörgum ám í sveitinni hafði verið brúuð, aðeins lágu slóðar um sveitina og allt var svipað og hafði verið í þúsund ár.

Og þó. Nítíminn var að banka á dyrnar. Ungu bræðurnir á Hofsnesi höfðu fengið rússneskan blæjujeppa í hendur og fóru með okkur i ógleymanlega ferð vestur til Skaftafellls og austur í Kvísker. 

Sýna þurfti mikla lagni við að komast yfir allar árnar sem voru á leið okkar.

Nú liggur hringvegurinn um sveitina og lúxushótel rísa. Fram yfir 1974 var Freysnes aðeins örnefni forns eyðibýlis. 

Ég lenti FRÚnni þar 1972 á afar erfiðum óskráðum lendingarstað. Þar er nú flugvöllur með tveimur flugbrautum, flugrekstri, og í næsta nágrenni eru hótelbyggingarnar í Freysnesi og ferðamannamiðstóði Skaftafellsþjóðgarðar, sem nú er orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !  


mbl.is Milljarðar í hágæðahótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fararbroddi, en skemmum það með þöggun.

Ástæða er til að fagna því að íslenskir vísindamenn eru í fararbroddi í heiminum varðandi nýtingu jarðvarmaorku og eru að uppskera í samræmi við það. Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi 2020 er gleðilegt merki um það. 

En betur má ef duga skal. Yfir "íslenska jarðvarmasamfélaginu" og íslenskum ráðamönnum og þjóðinni hvílir skuggi þöggunar yfir þeirri staðreynd, að eins og er, felur nýting meginhluta íslenska jarðvarmans hvorki í sér endurnýjanlega né hreina orku, og því síður viðunandi nýtingarhlutfall.

Þetta eru þrjú meginatriði, og falleinkun blasir við í þeim öllum.  

Dæmi um þöggunina og blekkinguna er myndin, sem fylgir frétt um þetta á mbl.is og er af gufumekkinum við Hellisheiðarvirkjun. Verra dæmi var ekki hægt að velja. 

Skoðun atriðin þrjú varðandi nýtinguna, sem myndin sýnir:

1. Endurnýjanleg orka?  

Svar: Nei.  Orkan er þegar byrjuð að dvína enda var í forsendum virkjunarinnar ekki gert ráð fyrir meira en 50 ára endingartíma hennar. Það er langt frá því að standast lágmarkskröfur um sjálfbæra þróun. 

2. Hrein orka?

Svar: Nei. Hellisheiðarvirkjun er mest mengandi fyrirtæki landsins og allar fullyrðingar og loforð um að það vandamál væri fljótleyst og auðleyst hafa reynst blekkingar í meira en áratug.

3. Góð orkunýting?  

Svar: Fjarri því. Aðeins 10-15% orkunnar nýtist en 85-90% fara óbeisluð út í loftið.

Vegna þöggunarinnar og blekkinganna vanrækjum við að takast á við það að gera heildarúttekt á íslenskri jarðvarmaorku og skipuleggja nýtingu hennar þannig að hún standist kröfur um sjálfbæra þróun í svipuðum anda og Guðmundur Pálmason velti upp í byrjun og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson hafa síðar gert.   


mbl.is „Þetta verður mjög metnaðarfullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband