Tugþúsundir fólks í óþörfum og óverðskulduðum vandræðum.

Þegar fréttir bárust af því að Ísland væri vegna margra ára vanrækslu íslensks stjórnkerfis. komið í eitt af neðstu sætum á lista yfir stöðu þjóða gagnvart peningaþvætti og þar með komið á skilgreint svæði, sem gegnir nafninu grátt svæði;  var sagt að þetta væri nú bara til málamynda og myndi varla breyta nokkru fyrir neinn. 

Annað er nú heldur betur að koma í ljós, og nú liggur fyrir að um tugi þúsunda félaga af fjölbreytilegasta tagi er að ræða, og að þau þeirra, sem ekki gangi í gegnum sérstakar aðgerðir til að sanna að þau standi í neinu peningaþvætti eða öðru hættulegu brölti á alþjóðlega vísu, geti mátt búast við allt að tíu þúsund króna sektum á dag.  

Ef þessar þúsundir félaga skila ekki inn tilskildum gögnum, gætu sektargreiðslurnar hlaupið á mörgum milljörðum króna! 

Og þá er dæmið orðið þannig, að hið sama opinbera kerfi, sem klúðraði málinu upphaflega, á möguleika á að stórgræða peningalega á því.  


mbl.is Foreldrafélög verða sektuð 2. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er hver og einn sinn eigin sóttvarnarlæknir.

Á síðustu dögum hafa útbreiðsla og áhrif COVID-19 veirunnar komist á það stig, að hvernig, sem allt fer, sé spurningin þegar orðin um það að hver og ein manneskja se orðin sinn eigin sóttvarnarlæknir. 

Það þýðir að hver og einn leggi sig sífellt fram eftir föngum við það að fara að bestu ráðum varðandi það að verða ekki smitberi. 


mbl.is Lýsa yfir hæsta mögulega hættuástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósambærileg við drepsóttir fortíðarinnar, en farsótt samt.

Spænska veikin, Stórabóla og Svartidauði eru þekktar farsóttir úr Íslandssögunni og heimssögunni og voru allar svo skæðar drepsóttir, að COVED-19 farsóttin bliknar í samanburðinum. 

Það eina sem bólan og Svartidauði eiga það sameiginlegt með COVED-19 veirunni, að vitað var hver bar sóttina til landsins í hvort skipti. Einar Herjólfsson var smitberinn 1402 og fatnaður Gísla Bjarnasonar 1707. 

Af þessum þremur var Spænska veikin vægust, ef hægt er að nota slíkt orðalag um drepsótt, sem drap fleiri en drepnir voru á vígvöllum Fyrri-heimsstyrjaldarinnar. 

Í Svartadauða, sem barst til landsins 1402, lést helmingur þjóðarinnar og þriðjungur í Stórubólu árin 1707-1709. Þetta eru svo óheyrilegar háar tölur, að það er erfitt að skilja þær. 

Jafnvel heilar byggðir þurrkuðust út. 

1348-1350 hafði Svartidauði geysað í Evrópu en barst ekki til Íslands þá, því að óvart var beitt eina ráðinu til að koma í veg fyrir það: Það var ekkert siglt til Íslands, bæði vegna ástandsins og þess að skipverjar dóu á leiðinni. 

Þótt veikin gengi yfir og rénaði síðan, hvarf hún ekki alveg, og þannig kom það til að hún barst til landsins 1402, hálfri öld eftir hinn megin faraldurinn í Evrópu. 

Tvennt hlaut að gerast nú varðandi COVED-19 veiruna: Að hún bærist til landsins með fyrsta smitberanum. Og að engin leið yrði til að koma í veg fyrir það. 

Að öðru leyti eru aðstæður allar svo margfalt betri nú en áður til að bregðast til varnar, að það er ósambærilegt.  

 


mbl.is Fyrsta tilfelli kórónuveiru greinist á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langhlaup þar sem tölurnar kunna að lokum að ráða úrslitum.

Ýmsir bílaframleiðendur eru þegar með sjálfstýribúnað í þróun í bílum án þess að hafa tekið hann í notkun enn til fulls. 

Hér á landi er helst hægt að hugsa sér, að það verði það einkum slæm akstursskilyrði í myrkri og illviðrum vetrarins, sem mun mun virka hamlandi á framþróunina í þessum málum. 

Almennt má búast við að sjálfstýring bíla þurfi langan þróunartíma þar sem reyndar verði ýmsar útfærslur á blönduðum akstri. 

Allan tímann verðu nauðsynlegt að útvega sem nákvæmastar tölur yfir árangurinn í slíku langhlaupi, sem hægt verði að hafa hliðsjón til við ákvarðanir um einstök skref og afbrigði. 

Bara hér á landi má giska á að bílum sé ekið samtals um 20-30 þúsund milljónir kílómetra á ári svo að þetta er ekkert smámál.  


mbl.is Mannlausir í 32 milljónir km
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekstur nútíma tæknisamfélags þolir ekki alvöru drepsótt.

Það þarf ekki annað en að líta á tölur um umferð með fólk og vörur í flugvélum, bílum, lestum og skipum til að sjá, að umferðarmagnið er slíkt um allan heim, ekki síst til og frá Íslandi, að það er útilokað að "loka landinu alveg" eins og verið var að ræða um í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. 

Afköst og hagræðíng hrynja ef svo langt er gengið, enda gerir sjálf gerð samfélags og efnahagslífs ekki ráð fyrir slíku. 

Það þýðir ekki að andvaraleysi eða aðgerðarleysi skuli ríkja, en það eru afar miklar líkur á því, að takmörk séu fyrir því hve miklum árangri sé hægt að ná. 

 


mbl.is Beint flug í mikla smithættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danirnir að bjóða "vitlausan" XC40 tengiltvinnbíl?

"Ljóminn á skilið það lof, sem hann fær" var sungið í þekktri auglýsingu, og víst er Volvo XC40 í ýmsum útfærslum er vel heppnaður bíll. Volvo XC40 Twin engine og Recharge

Síðuhafi var einn af þeim, sem eftir að hafa fengið í hendur árlegan bækling helsta danska bílablaðsins í hendur, hlakkaði til að sjá tvær útgáfur XC hér á landi, tengiltvinnbílinn XC Twin Engine og hreina rafbílinn XC Recharge. 

Á meðfylgjandi myndum af viðkomandi blaðsíðu í Bilrevyen  er tengiltvinnbíllinn blár, en rafbíllinn hvítur. 

Síðan kom auglýsingin frá Brimborg um kynningu og sýningu á Volvo XC Recharge, sem væri tengiltvinnbíll.XC Twin Engine

En þá vandaðist málið, því að í Bilrevy bæklingnum, heitir tengiltvinnbíllinn skýrt og skorinort Volvo XC40 Twin engine, en hins vegar hreini XC40 rafbíllinn Volvo XC40 Recharge.

Og í blaðinu sést skýrum stöfum að bensínvélin í tengiltvinnbílnum sé aðalhreyfillinn, en í að í Recharge væru tveir rafhreyflar eingöngu. 

Óg í mun ítarlegra yfirliti um helstu tölur er munurinn enn skýrari.  

Í símtali við sölumann Brimborgar eftir sýninguna fengust þau svör að hreini rafbíllinn kæmi ekki á markað fyrr en eftir næstu áramót. Volvo XC40 Recharge

Sé það rétt hefur hið gamalgróna danska bílablað gert einhver verstu mistök í ársútgáfu sinni í marga áratugi. 

Eru Danirnir að bjóða "vitlausan" XC tengiltvinnbíl? 

Í dag er ástandið óbreytt, fimm dögum eftir sýninguna, og í frétt sagt frá "frumsýningu Volvo XC40 Recharge tengiltvinnbílsins." 

Svo virðist ekki vera þegar farið er inn á netið til skoðunar.  Þar er það bara hreini rafbíllinn, sem er aðeins með rafhreyfil, sem heitir skýrum stöfum "Volvo XC40 Recharge."


mbl.is Sýndu Volvo XC40 mikinn áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það "Geirmundarlag", sem náði lengst, en var þó ekki eftir Geirmund?

Geirmundur Valtýsson hafði mikil áhrif á íslenska dægurtónlist, sem svo er stundum kölluð. 

Til varð hugtakið "skagfirska sveiflan", sem var að vísu afar skyld svipaðri skandinaviskri tónlist þar sem Sven Ingvars var einn helsti brautryðjandinn á sjöunda áratugnum. 

Við hlustun á útvarpsrásir með léttri tónlist á ferðalögum um Noreg hér um árið heyrðist vel skyldleiki á milli margra léttra laga tónlistarmanna norrænu frændþjóðanna. 

Segja má að hápunkti hafi norræna sveiflan náð með sigurlagi Bobbysocks "La´det svinge" í Eurovision. 

Hugsanlegt er að lagið "Eitt lag enn" hefði getað náð alla leið ef það hefði verið sungið á ensku. Raunar hafði Björgvin Halldórsson sungið annað lag með þessu nafni hér heima, erlent lag með íslenskum texta, löngu fyrr, en það er önnur saga. 

Lagið, sem Sigga og Grétar skiluðu svona langt,  var eftir Hörð Ólafsson, sem spilaði í hljómsveit Geirmundar á þeim tíma þegar Geimundur kom fram með hvern sveiflusmellinn á fætur öðrum, sem náðu langt í undankeppninni hér heima, en vantaði bara herslumun að verða sent til útlanda í lokakeppni. 

Lagið eftir Hörð er undir það miklum áhrifum af hinni skagfirsku sveiflu Geirmundar, að það má gantast með þá spurningu, hvort það sé það "Geirmundarlag" sem hafi náð lengst, án þess að vera eftir Geirmund. 


mbl.is RÚV myndi spara á því að senda Ívu í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðarbúar eru orðnir góðu vanir.

Þegar dánartölur verstu drepsótta síðustu aldar hjá hinum þróuðu þjóðum heims eru skoðaðar, virðist dánartíðnin af völdum COVID-19 veirunnar aðeins vera brot af því, sem til dæmis gerðist í spænsku veikinni, en í þeirri drepsótt létust fleiri en á vígvöllum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. 

COVID-19 veldur hins vegar jafn miklum usla og raun ber vitni, vegna þess að læknavísindi nútímans hafa náð svo miklum árangri í baráttunni við farsóttir eins og flensu, að fólk er orðið vant því öryggi og áhyggjuleysi, sem heilbrigðiskerfið færir því.  

Þar að auki felst samfelldur og mikill vöxtur ferðaþjónustu og viðskipta um allan heim í því að ekkert sé að óttast á þessu sviði.  

Þegar það virðist ætla að breytast, þarf aðeins tiltölulega litla vá á fyrri tíma mælikvarða til að setja allt úr skorðum og valda samdrætti í efnahagslífi hins samannjörvaða hagkerfis samskipta og verslunar. 

Kannski eru jarðarbúar orðnir of góðu vanir. 

Það segir sína sögu að 53 smitaðir í San Fransisco kalla fram neyðarástand, en miðað við mannfjölda San Fransisco og Reykjavíkur, samsvarar sú tala um það bil einum smituðum manni á höfuðborgarsvæði Reykjavíkur. 

Kannski eru jarðarbúar orðnir of góðu vanir. 


mbl.is Lýsa yfir neyðarástandi í San Francisco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskastríðssafn Íslands? (Cod War museum)?

Minjasöfn veraldar eru býsna fjölbreytt, og það á líka við stríðsminjasöfn, því að fjölbreytni vopna og vopnaviðskipta er frá afar mismunandi tímum, löndum og höfum. Victory_Portsmouth_um_1900

Bretar varðveita dyggilega herskipið Victory, sem tákn um sigur Breta yfir Spánverjum í orrustunni við Trafalgar 1805, þar sem Nelson, flotaforingi féll á sigurstundu.  

Þetta seglskip segir sína sögu um framfarir í gerð herskipa á síðustu tímum. 

Þorskastríð Íslendinga urðu þrjú, en voru þó í raun sama stríðið með tveimur hléum. 

Þótt annar aðili stríðsins hefði yfir hlálega litlum varðskipum að ráða allan tímann, var það aldrei eins áberandi og í byrjun, þegar María Júlia og Albert, nánast smábátar í samanburði við vígdreka Breta, voru notuð. 

Varðskipið Óðinn er hliðstæða Victory hjá okkur hvað varðveislu snertir, en er þó aðeins hluti af hinni einstæðu sögu Þorskastríðanna, þar sem Davíð og Golíat áttust við á svo magnaðan hátt, að hernaðarsagan á fáar hliðstæður um slíkt. 

Árið 2026 verða 50 ár liðin frá lokum þriðja Þorskastríðsins. María Júlía

Það gæti verið ágætt tilefni til að athuga, hvort ekki væri hægt að koma á fót nokkurs konar Þorskastríðssafni Íslands þar sem á einum stað eða svæði væru varðveitt helstu gögn um þessi einu stríð, sem Íslendingar hafi háð, þar á meðal María Júlía og eftirlíkingar af öðrum skipum og vopnum, sem Landhelgisgæslan notaði, svo sem skuttogararnir og togvíraklippurnar. 


mbl.is Hætta á að gamla varðskipið sökkvi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversvegna má ekki nota mikllu styttra og betra orð en "áhafnarmeðlimur"?

Áhafnarmeðlimur og samnemandi eru tvö léleg og hvimleið orð, sem virðast vera einu orðin sem íslenskt fjölmiðlafólk kann yfir tvö hugtök, sem falleg, stutt og hnitmiðuð orð hafa hingað til, en virðat alveg hafa verið aflögð. 

Stundum er margstagast á þessum orðskrípum. 

Lítum aðeins á þessi tískuorð. 

"Áhafnarmeðlimur".

Sex atkvæða 15 stafa ömurlegt orð yfir hugtökin skipverji, skipsfélagi og flugliði, sem eru eru helmingi styttri og þjálli eftir því; þrjú atkvæði og 8-9 stafir. Og miklu fallegri orð.  

"Samnemandi" 

Með einhliða og endalausu stagi á þessu hvimleiða orði er íslensku fjölmiðlafólki að takast að drepa hin fallegu og nákvæmu orð bekkjarfélagi, bekkjarsystkin,  bekkjarbróðir, bekkjarsystir, skólasystkin, skólafélagi, skólabróðir og skólasystir. 

Þessi orð lýsa auk þess á fallegan gildi sambands skólasystkina, en samnemandi er hins vegar órökrétt orðskrípi, því að það eru kennarar, sem kenna nemendunum og væri því rökréttara að tala um að nemendur kennarans væru samnemendur hans ef endilega þarf að hampa þessu orði. 


mbl.is Rannsókn á veikindum beinist að hreyflum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband