Fáfengileg rök fyrir því að afneita hlýnuninni.

Þeir sem afneita þvi að lofthjúpur jarðar fari hlýnandi hafa verið fljótir að taka við sér hér á blogginu vegna ráðstefnu um þau mál, sem Bandaríkjaforseti stendur fyrir.

Þeir hinir sömu netverjar kölluðu þátttakendur í lofstslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember 2015 "40 þúsund fífl" og má búast við því að þeir kalli ráðstefnugestina hjá Joe Biden "40 fífl."Vetrarhiti

Við þetta er því bætt að vitna í Trausta Jónsson sem stundi vísindi sem stangist á við fullyrðingar "fíflanna".  

Trausti hefur nú í vetrarlok að venju sýnt súlna- og línurit sem sýna að vetrarhitinn í Stykkishólmi hefur farið hækkandi, að vísu í talsverðum sveiflum, um næstum tvö stig þegar dregin er lína í gegnum allar sveiflurnar. 

Hann hefur líka sagt að á skeiði, sem nefnt var kuldaskeið 1965-1995 hafi hitinn samt verið hærri en á hlýnindaskeiðum á 19. öld.Loftslag-hiti1 

Og bætt því við, að hvert uppsveiflubylgja hafi orðið hærri en hin á undan og jafnfram hver kuldalægð hærri en hinar á udan. 

Afneitararnir reyna að nota bjagaða sýn sína á hitafar á Íslandi til að sanna að Trausti fari með vísindi en Biden og fjörutíu fíflin með fleipur. 

Auðvitað fer Trausti með vísindi en fyrrnefndir netverjar gæta ekki að því að tölurnar á Íslandi eru teknar af svæði sem er 0,1 milljón ferkílómetrar, en tölurnar um hnattræna hlýnun eru teknar af allri jörðinni, 511 milljón ferkílómetra svæði. 

Einn þeirra gekk enn lengra í blaðagrein í fyrra og hélt þvi fram að hitinn á Stórhöfða sýndi að engin loftslagshlýnun ætti sér stað. 

Aðferðin og rökræðan ætti ekki að koma á óvart. Það vakti heimsathygli þegar einn af stuðningsmönnum Trumps á Bandaríkjaþingi kastaði snjóbolta í sjónvarpsútsendingu inn í þingsalinn á útmánuðum 2017 sem sönnun á því að loftslag á jörðinn færi kólnandi en ekki hlýnandi. 


mbl.is Losun gróðurhúsalofttegunda helminguð fyrir 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ár og fjöll , vegir og vellir geta ekki opnað neitt.

Hvimleiðustu málvillurnar sem vaða uppi eru þær sem ero rökleysa. Til dæmis eru gerendur þess að vegir opnast við snjómokstur eru ekki vegirnir sjálfir, heldur vegagerðarmenn. 

Laxveiðiár ákveða ekki sjálfar hvenær leyfðar eru veiðar í þeim, heldur eru það menn sem ákveða að leyfa þar veiðar og taka fyrir það gjald. 


mbl.is Hvenær opna vellirnir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilhlökkunarefni að sjá útkomuna á sígildu verki.

Benedikt Erlingsson hefur margsinnis sýnt hvers hans getur verið megnugur þegar honum tekst best upp. 

Leikritið Nashyrningarnir hefur fengið endurnýjað og sígilt gildi í stjórnmálum síðustu ára víða um lönd, kannski það mesta síðan það var samið, og á því kannski meira erindi en nokkru sinni fyrr. 

Það nægir að nefna nöfnin Arnmundur Ernst Backman, Guðjón Davíð Karlsson (Gói) og Hilmir Snær Guðnason til þess að hægt sé að hlakka til. 


mbl.is Nashyrningarnir á svið þrátt fyrir tilraunir Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona á að hita upp fyrir endurreisnina. Smágosið stækkað og flutt út!

Sjö hæða há lifandi mynd af eldgosinu við Fagradalsfjall á skýjakljúfi við Times Square í New York er íðilsnjöll hugmynd sem færir eldgosið í fangið á fjöldanum í milljónaborginni og gerir það að stærra máli og aðdráttarafli en hundrað sinnum stærra gos í Holuhrauni var. 

Svona á að gera þetta og byrja að hita upp fyrir endurreisnina í íslensku ferðaþjónustunni eftir heimsfaraldurinn! 

Sá, sem stendur undir þessari risa kvikmynd og horfir upp til hennar hlýtur að hugsa: Vá, þessu verð ég að kynnast betur! 


mbl.is Eldgosið heillar á Times Square
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er alveg nýtt og öðruvísi á hjóli.

Það gildir um mörg stórbrotin náttúrufyrirbrigði að þau geta sýnt á sér svo margar hliðar eftir árstíðum, að hver heimsókn verði öðruvísi en aðrar og því mikilsverðar.Náttfari við Engimýri

Þetta á ekki síður við frægustu djásnin en hin minna þekktu, svo sem þau fjögur, sem nú hafa verið valin í sambandi við heildstæða nálgun undir heitinu Vörður og kynnt var í gær. 

Síðustu fimn ár réði tilviljun því að í gang fór atburðarás hjá síðuhafa, sem leiddi það af sér að ferðast ekki eingöngu um landið á bílum og flugvélum, heldur að bæta við heimsóknum á hjólum af þremur gerðum, rafreiðhjólinu Náttfara (Dyun), léttbifhjólinu Létti (Honda PCX léttbifhjól 125 cc) og rafknúna léttbifhjólinu Léttfeta (Super Soco LUx).Léttfeti við Gullfoss  

Á þessum þremur hjólum, sem kostuðu ný frá 250 þús krónum upp í 500 þúsund og samtals rúmlega milljón, hefur verið farin um 20 þúsund kílómetra vegalengd um allt land, allt til Ísafjarðar ó norðvestur, Siglufjarðar, Akureyrar, Egilsstaða og Hornafjarðar í austurátt og einnig ekinn Gullni hringurinn.  

Í öllum þessum ferðum varð upplifunin svo ólík því sem áður var, að það var eins og að koma í fyrsta sinn. 

Strax í ferð á rafreiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur var það ógleymanlegt að líða hljóðlaust eftir þjóðveginum. Léttir við Jökulsárlón

Þávar hægt að heyra lækjarnið og fuglakvak, auk þess að fá alveg nýja sýn á þetta kunnuglega umhverfi á þetta litlum hraða og án minnstu truflunar vegna hávaða farartækisins. 

Ekki minnkaði ánægjan við það að lækka ferðakostnaðinn og ekki síst orkukostnaðinn ofan í örlítið brot af því sem er í bílferðum.  

Orkukostnaður rafreiðhjólsins er 10 krónuaur á 100 kílómetra, eða 43 krónur frá Akureyri til Reykjavíkur.

Á rafknúna léttbifhjólinu 30 krónur á hundraðið eða 120 krónur frá Akureyri til Reykjavíkur. Léttfeti.Geysir. Gullni hringurinn.

Og á bensínknúna hjólinu 500 krónur á hundraðið eða 1950 krónur frá Akureyri til Reykjavíkur. 

Hraði þessara þriggja hjóla er misjafn.  

Rafreiðhjólið er smiðað fyrir 30 km hraða en getur eins og önnur reiðhjól náð mun meiri hraða niður brekkur á þjóðvegi. 

Rafknúna léttbifhjólið er hægt að skrá í tvo mismunandi flokka, annars vegar 45 km/klst flokki sem samsvarar 50cc bensínhjóli, en líka í 54 eða 64 km flokk sem samsvarar 125 cc bensínflokki. Léttfeti.Þjóðgarði Þingvöllum. Gullni hringurinn.

Léttbifhjóli með 125 cc hreyfli ná allt að 110 km hraða og hjólið Léttir sést á myndinni við Jökulsárlón í einni af mörgum ferðum þess hjóls um alla hluta landsins.  


mbl.is Gullfoss, Geysir, Þingvellir og Jökulsárlón fyrstu Vörðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökull var dýrmætasta auglýsing Íslands.

Ef litla, sæta og "þægilega" eldgosið í Geldingadölum verður auglýsing og lyftistöng fyrir laskaða ferðaþjónustu á Íslandi, á slíkt líklega eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 það að þakka. TF-FRÚ og Cuore á Hvolsvelli

Ástæðan er einfaldlega sú að áhrifa þess goss gætti í flugsamgöngum um allan heim í þeim mæli að nafn Íslands og Eyjafjallajökuls varð á hvers manns vörum þegar áhrif gossins náðu um alla jarðarkringluna. 

Í norðanverðri Evrópu og vestan hafs kyrrsetti gosið jafnt valdamestu ráðamenn sem allan almenning. 

Þegar annað gos í Grímsvötnum olli svipuðum usla, en þó minni, næsta ár, varð máttur endurtekningarinnar, sem er grunnur öflugustu auglýsinga, til þess að mesta efnahagsuppsveifla Íslandssögunnar, að stríðsgróðasveiflunni 1940-45 hugsanlega einni undantekinni, fékk varanlega innspýtingu, sem entist út áratuginn. 

Rétt eins og jarðfræðingar hafa nú nóg að gera við að rannsaka og læra af nýjasta íslenska gosinu, búum við Íslendingar nú að reynslu frá uppgangstíma íslenskrar ferðaþjónustu sem nauðsynlegt er að nýta sem best. 

P.S. Á facebook síðu má sjá tvö örstutt kvikmyndaskeið af gosstöðvunum í gærkvöldi.  

 


mbl.is Good Morning America í beinni frá gosstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var nóg fjör á gosstöðvunum í kvöld.

Vindátt var hagstæð á gosstöðvunum í Geldingadölum í kvöld þegar færi gafst til að fljúga yfir þær og skoða og taka myndir til að eiga. DSC09450

Enda var þétt umferð flugvéla þarna í ljósaskiptunum, og stunduð flugumferðarstjórn í formi þess að skipta flugvélunum í hópa og hafa hluta þeirra í biðflugi. 

Allur auka órói í átt til Þorbjarnar og Svartsengis er ekki góð frétt; mun skárra væri ef virknin ykist til norðausturs í átt að Keili.   


mbl.is Skjálfti upp á 4,1 og aukin virkni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gígastjakinn heldur samt áfram velli.

"Logandi standa í langri röð / ljósin á gígastjaka"... orti Jón Helgason í ljóðinu Áföngum. 

Þessi lýsing hans á því fyrirbæri, sem gos á gossprungu er, lifir, og það, sem er svo merkilegt við hana, er að þegar orðið gígastjaki er borið saman við orðið kertastjaki, nær hugtakið yfir jafnt "langa röð" sem einn gjósandi stjaka. 

Og gæti jafnvel átt við síðasta gíginn á stórri hraundyngju, sem gosið endaði endanlega á.   

Þegar gaus í Holuhrauni 2014-2015 eftir 200 ára hlé, var þar fyrir gígaröð, sem gaus að nýju í, ýmist með nýjum gosum á milli fyrri gíga, upp í nýja framhaldsgíga og að lokum einn stóran og ílangan gíg með stórri hrauntröð líkt og sjá má í Búrfelli og Búrfellsgjá við upphaf Búrfellshrauns norður af Kaldárseli.  

Gosið í Holuhrauni var 100 sinnum stærra en Gígastjakagosið í Geldingadölum er, og Lakagígagosið mörg hundruð sinnum stærra með stórkostlegustu hrauntröð á Íslandi, sem tengdi saman nokkra af syðstu gígunum í langri logandi röð þessa mesta gígastjaka Íslands á sögulegum tíma. 


mbl.is Páskagígar þurrausnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammsýni og aðför gegn alþjóðlegu gildi knattspyrnunnar.

Það má leggja mismunandi mælikvarða á vinsældir einstakra íþróttagreina, ef tala á um vinsælustu íþróttagrein heims og skoða jafnt iðkun íþróttarinnar sem gildi hennar í umfangi, áhorfi og þjóðlífi, er það ekki út i hött að segja að knattspyrnan sé vinsælasta íþróttagrein heims. 

Forsvarsmenn svonefndra stórliða eru komnir langt frá upprunanum þegar þeir einblína á peningaveldið, sem byggt hefur verið á þeim félögum, sem lengst hafa komist í keppninni um stóru titlana, en gleyma alveg sjálfum frumrótum fótboltans, allt niður í berfætt ungmenni í öllu því stóra og ólíka umhverfi sem jafnt fátækrahverfi stórborga sem byggðir og borgir í mestu efnahagsveldum og velferðarríkjum búa yfir og fóstrað hafa stórstjörnur. 

Síðuhafi gekk fyrir tilviljun fram á berfættan dreng í versta fátækrahverfi Maputoborgar í Mósambik fyrir um 15 árum og sá þennan dreng sýna töfrakúnstir með boltann, sem minntu á töfrakúnstir annars drengs, hugsanlega á sama götuhorni fimmtíu árum fyrr, sem varð að stærsta nafni Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 1966. 

Hvort tveggja, HM 66 og berfætti tötrum klæddi drengurinn hálfri öld síðar frá sömu borg, skópu ógleymanlegar minningar. 

Milljarðamæringarnir sem eiga ofurfélögin svonefndu sýna mikla skammsýni og græðgi með því að ætla að úthluta útvöldum knattspyrnufélögum rjómanum af þeim tekjum sem sprottið hafa í öndverðu úr röðum ungs hæfileikafólks um allan heim, sem ótal "smærri" félog hafa alið upp til þess að gleðja alþýðu manna og auðga mannlífið.   


mbl.is Hóta að beita samkeppnislögum gegn ofurdeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki árangur Færeyinga rannsóknarefni?

Bakslagið, sem núna er í sóttvarnarmálum okkar hlýtur að kalla á tvöfalda rannsókn; annars vegar í sambandi við ummæli Kára Stefánssonar og leka á landamærunum, og hins vegar samanburð við það hvernig Færeyingum hefur tekist til.  

Ástæða fyrir endurmati liggur ljós fyrir; hættan á fjórðu bylgjunni. 


mbl.is Í Færeyjum er lífið næstum eðlilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband