Eitt í dag og allt annað á morgun.

Í þrjá aldarfjórðunga hefur Bandaríkjaforseti verið í fararbroddi fyrir vestrænar lýðræðisþjóðir í alþjóðamálum og aflað sér trausts með yfirveguðum ummælum og gjörðum. 

Einstaka sinnum hafa aðstæður þó kallað á stefnubreytingar, svo sem þegar Henry Kissinger og Richard Nixon stóðu fyrir því að taka upp samband við kommúnistastjórnina í Kína. 

Það var þó gert á yfirvegaðan og vandaðan hátt. 

Nú bregður hins vegar svo við að í fjölmörgum málum vita menn ekki deginum lengur hvaðan á þá stendur veðrið varðandi einstæðan hringlandahátt núverandi Bandaríkjaforseta í fjölmörgum málum, þar sem hann kemst ítrekað í hrópandi mótsögn við sjálfan sig, jafnvel daglega. 

Lengi vel bauð hann upp á það að fara út í kjarnorkustríð við Norður-Kóreu, síðan söðlaði hann um og sagði að engin kjarnorkuógn stafaði frá þessu lokaða landi, en segir nú, öllum á óvart, allt annað með því að lýsa yfir því að stórfelld kjarnorkuógn stafi frá landinu. 

Þessi vingulsháttur rýrir að sjálfsögðu trúverðugleika leiðtoga lýðræðisþjóða og vekur ugg og óróa. 

 


mbl.is Áfram ógn af Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistarar mótast í ósigrum.

Allir helstu meistarar í íþróttum og í lífinu sjálfu verða ekki aðeins til í sigrum sínum. 

Það er aðeins önnur hliðin á verðlaunapeningi orðstírs og árangurs. 

Hin hliðin er mikilvægari, ósigurinn, og hvernig unnið er úr honum, er mikilvægari, því að án þess að nota ósigurinn til að greina stöðuna og bæta hana, verður aldrei neinn raunverulegur árangur.  

Ali, Pele, Ásgeir, Eiður, Gylfi, Mandela, allt menn sem úrvinnsla úr erfiðleikum og ósigrnum skóp. 


mbl.is Líklega erfiðasta stundin á ferlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerir það Bandaríkin mikilfenglegri að banna góða bíla?

Donald Trump virðist ekki skilja af hverju útlendir bílar seljast svo vel þar í landi sem raun ber vitni. Ekki er það vegna þess að þeir séu svo ódýrir, heldur einfaldlega vegna þess hvað þeir eru góðir og tæknilega vel gerðir og saman settir. 

Strax á sjöunda áratugnum söng Janis Joplin bæn til Guðs um að gefa henni Mercedes-Benz og hitti naglann á höfuðið. 

Þegar Japanir og Þjóðverjar réttu úr kútnum eftir heimsstyrjöldina og fóru að mokselja minni, sparneytnari og endingargóða bíla en amerísku bilanagjörnu bensínhákana á bandaríska markaðnum reyndu Kanar að svara með bílum eins og Ford Pinto, Chevrolet Vega og AMC Pacer, sem í flestum bílabókum eru í minnum hafði fyrir það hve mislukkaðir þeir voru. 

Mercedes-Benz S og Lexus 400 réðust síðan á höfuðvígið sjálft, lúxusbílamarkaðinn, og tóku forystuna þar. 

Gamalgróin gæðamerki frá því um miðja öldina eins og Pontiac, Oldsmobile, De Soto og Plymouth lögðu upp laupana í kringum síðustu aldamót. 

Þeirri aðferð Trumps að stöðva innflutning á útlendum bílum með því að setja á þá eins konar refsitoll, og hækka með því verðið á þeim upp úr öllu valdi má líkja við það að í landsleikjum Kananna í knattspyrnu við erlend landslið, fái aðeins níu menn að vera í útlendu liðunum og það muni "gera Bandaríkin stórfengleg á ný."   


mbl.is Hótar 20% tollum á evrópska bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanlögð geta var ekki lengur meiri en summan af getu leikmanna.

Jafnteflið við Argentínumenn og sigrar eða jafntefli í viðureign við sterkar þjóðir á EM og í forkeppni HM hefur byggst á því að gott skipulag, samheldni og eldmóður hefur skapað sterkara lið samanlagt en summan hefur verið af getu einstakra leikmanna. 

Þess vegna var alrangt mat fyrirfram fólgið í því að telja Nígeríumenn auðveldari viðfangs en hinar þjóðirnar í riðli okkar. 

Gegn liðum með hefðbundið skipulag hentaði þróað og firna gott skipulag okkar vel, en öðru máli gegndi um lið Nígeríu sem leikur lausbeislaðri leik og treystir á hraða, leikni, kraft og getu einstaklinganna. 

Þegar íslenska liðið lét þvæla sér út úr því að fylgja sinni taktík í síðari hálfleik, meðal annars vegna þess hvað hitinn beit á einstaka leikmenn og erfitt var að fylgja skipulagi, sem krafðist gríðarlegrar vinnu og úthalds, fengu Nígeríumenn sína óskastöðu og urðu betra liðið á vellinum. 

Summan af getu einstaklinganna var einfaldlega stærri hjá Nígeríumenn en hjá okkur. 

Nú er staðan vonlítil fyrir okkur nema að það muni hafa áhrif í leik okkar við Króata að þeir geta veitt sér þann munað að tapa fyrir okkur og að það hafi áhrif úr undirmeðvitundinni á keppnisandann. 

Og í viðbót að úrslit í leik Nígeríumanna og Argentínumanna verði okkur hagfelld. 


mbl.is Erfið staða eftir ósigur í Volgograd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný vél var löngu orðin tímabær í Jimny.

Suzuki Jimny hefur verið í sérflokki meðal jeppa, allt frá upphafi, þegar hann hét Fox á erlendum mörkuðum, sem breyttist árið 1998. Suzuki Fox 410 mars18

Langminnsti jeppinn en samt ævinlega með tvær heilar hásingar og með meiri jeppagetu en margir margfalt stærri jeppar, einkum vegna léttleika síns. 

Þrjá galla má þó nefna: Lítið innanrými, of valtur og með of gamla og eyðslufreka vél. 

Nú sýnist vera reynt að bæta úr þessu á nýja bílum, en persónulega er ég spenntastur fyrir nýju vélinni, því að miðað við stærð og þyngd, hefði vélin getað verið sparneytnari, sem notuð hefur verið. 

Þegar konan mín skipti úr Jimny yfir í Alto, var eyðslan 3-4 lítrum minni á hundraðið en áður. Suzuki Jimny og AMC Eagle´82. Löðmundur

Ég hefði kosið að reynt yrði að hafa loftmótstöðuna minni á nýja bílnum, því að hún sýnist vera meira en 0,50 cx og auka með því eyðsluna.

Raunar óttast ég að um afturför verði að ræða vegna þess hve mun meira kantaðri og kassalaga nýi bíllinn er en núverandi bíll.  

Útlitið minnir á Jeep Wrangler, sem er með cx 0,49, og Benz G er með 0,54. Þetta er tvöfalt loftmótstaða en er á mörgum bílum.  

En útlitið gefur skýr skilaboð: Þetta verður áfram ekta jeppi og í sérflokki hvað snertir léttleika og stærð. 

Jimny 1998 til 2018 var í raun svokallaður kei-bíll, þ. e. 1,48 á breidd og 3,40 á lengd þar í landi. Jimny 2018

Fyrir erlendan markað var sett breikkunarplastbelti og hjólskálavíkkun á hliðarnar og stærri stuðarar, svo að bíllinn hefur verið 1,60 x 3,60.   

Með því að gera sporvíddina meiri náðist ekki betri stöðugleiki sem skyldi, því að eftir sem áður var fjöðrunin innarlega og það minnkaði stöðugleika bílsins. 

Af útliti nýja bílsins má ráða, að hugsanlega sé hann líka gerður á grunni mun mjórri kei-bíls, og væri það ókostur. 

En sparneytnari vél með meira afli en samt minni eyðslu yrði mest virði. Suzuki Alto´2014

Núna er uppgefin meðaleyðsla á Jimny 7,3 lítar á hundraðið á sama tíma og til dæmis Dacia Duster er með 5,3. 

Í ítrasta vistakstri á Jimny hef ég aldrei komið honum niður fyrir 8 lítra á þjóðvegi á sama tíma og 5,5 lítrar hafa verið mögulegir á Alto.  


mbl.is Suzuki birtir myndir af nýjum Jimny
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir kyrrir leikmenn voru áhorfendur.

Munurinn á argentínska og brasilíska liðinu speglast í táknrænu þriðja marki Króatíu, þar sem fjórir argentínskir leikmenn stóðu aðgerðarlausir og horfðu á Króatíumenn rétt fyrir framan sig leika sér að því að skora þriðja mark sitt í leiknum. 

Þetta voru leikmennirnir, ekki þjálfarinn. 

Brasilíumenn voru að vísu orðnir full pirraðir egar leið á leikinn og Neymar með leikaraskap til að fiska víti, en þeir gáfu sig alla allt til enda leiksins og Neymar framkvæmdi meira að segja sirkusatriði í næstsíðustu sókn Brassanna. 

Það sást í lokin hvað hann og félagar hans höfðu lagt á sig til þess að brjóta mótherjanda á bak aftur í lokin og slíkt sjálfsfórnarhugarfar verður vonandi til enda í leik okkar við Nígeríumenn, gagnstætt því sem þeir gerðu í vináttulandsleiknum við Ghana. 

 

 


mbl.is „Þetta eru ósannindi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikinn er stundum lygilegri en skáldskapur.

Fullkomnir tölvuhermar eru mikils virði en veruleikinn er hið eina algilda. Veruleikinn er stundum lygilegri en skáldskapur. 

Ofurtölva í London ætlaði samkvæmt prentaðri niðurstöðu á strimli, að loka öllu innanlands- og millilandaflugi til og frá Reykjavík og Keflavík vordag einn 2011 vegna ösku frá gosinu í Grímsvötnum. 

Mælitæki um borð í einshreyfils vél, sem Jónas Elíasson prófessor hafði smíðað og kostaði 0,000..eitthvað prósent af ofurtölvunni sýndi hins vegar fram á prentuðum strimli, að það var mengunarlaus heiðríkja við gervallan Faxaflóa. 

Veðmálin fyrir bardaga Tysons og Buster Douglas voru 49:1, Tyson í hag, stærsta tala af þessu tagi í sögu keppni um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum. 

Buster Douglas rotaði Tyson. 

Veðmálin fyrir bardaga Liston og Ali 1962 stóðu 7:1, Liston í vil. Ali vann. 

Aðeins einn veruleiki er skýr fyrir leik Íslands í dag: Íslendingar verða að vinna, hvað sem hermar segja. "Áfram Ísland! - Koma svo!" er því á facebook síðu minni í dag.  


mbl.is 53% líkur á að Ísland komist áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt að Sampaoli lærði ekkert af Íslendingum.

Oft byggist stærsti hluti aðferðar við að fást við erfiðan andstæðing á því að aðlaga sig að leikaðferð eða stíl hans. 

Þegar Lennoz Lewis saltaði Mike Tyson 2002 sagði hann eftir bardagann, að sigurinn hefði byggst á því að aðlaga sig að stíl og aðferð Tysons. 

Gene Tunney þaulskoðaði myndir af öllum bardögum Jack Dempsey og fann ráð til að verjast öllum sóknaraðgerðum eins af helstu stjörnum hnefaleikanna og byggja eigin sóknaraðgerðir á gagnhöggum og gagnsóknum. Þannig dró hann smám saman úr krafti og getu Dempseys eftir því sem leið á þá tvo metbardaga, sem þeir háðu. 

Svipað getur átt við um keppnislið, og það svo mjög, að lið, sem er neðarlega á lista í deild, hefur oft eitthvert lítt skiljanlegt tak á efsta liðinum. 

Minnir til dæmis á knattspyrnulið ÍBK um síðustu aldamót þegar það gerði KR sífelldar skráveifur. 

Þegar Sampaoli þjálfari Argentínumanna er að lýsa því hvernig Króatar fóru að því að lama sókn argentínska liðsins í kvöld, er hann í grófum dráttum að lýsa því hvernig Íslendingar notuðu svipaða aðferð til að draga vígtennurnar úr argentínska liðinu um daginn. 

Sampaoli hafði sex daga til þess að bregðast við þessari sýnikennslu íslenska liðsins á því hvernig átti að gera Messi óskaðlegan, án þess þó að ráðst neitt að honum beint, heldur einungis að "lesa" hann og loka svæðum fyrir hann og spil hans.

Sampaoli annað hvort fann ekki nýja aðferð eða leið, eða reyndi það ekki. 

Þess vegna er það bæði manndómsbragð hjá honum og eðlilegt í alla staði að taka á sig sökina á eindæma óförum liðsins. 

Hann játar ókosti þess að láta mest allan sóknarleik liðs síns snúast í kringum einn afburðamann. 

Það þýðir, að mótherjarnir geta kæft flestar skæðustu sóknaraðgerðirnar í fæðingu, því að það liggur fyrir hvar þær muni byrja og á hvaða svæði á vellinum þær verði.  


mbl.is Biður argentínsku þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2300 börn "vernduð" áfram.

Miðað við hinn einbeitta stuðning, sem heitir fylgjendur Trumps hafa veitt þeim aðgerðum að aðskilja börn ólöglegra innflytjenda frá foreldrum sínum, hlýtur að vera rökrétt, að þessir fylgjendur þess að setja börnin í búr og "vernda" þau eins og dýr, fagni því að þau börn, sem þegar eru komin í búr, verði vernduð þar tryggilega áfram. 

Slíkt er talið nauðsynlegt til þess að tryggja þjóðaröryggi Bandaríkjanna, sem að sjálfsögðu hefur forgang allt annað, jafnvel varðandi það að Bandaríkin tryggi sér hernaðarlegt alræði i geimnum, sem er á stefnuskrá Trumps. 

Að ekki sé nú talað um brýna nauðsyn þess að hefja hörku tolla- og viðskiptastríð við þjóðir um veröld víða. 

 


mbl.is Brast í grát við fréttaflutninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru ellefu menn í hvoru liði inni á vellinum.

Í hverjum knattspyrnuleik eru ellefu menn inni á vellinum í hvoru liði. Í stöðugri viðleitni fjölmiðla og almennings til að leita að einhverri dramatík í kringum einstaka sjörnuleikmenn er eins og að þessi einfalda staðreynd vilji gleymast, jafnvel hjá leikmönnunum sjálfum. 

Íslenska liðið á HM hefur fengið gagnrýni fyrir það að "eyðileggja" knattspyrnuna með því að beita aleflingu líkama og sálr við að nýta sér þá möguleika sem baráttuvilji, skipulagning, samheldni og eldmóður getur búið til úr ellefu manna liðsheild. 

Þeir sem beita svona gagnrýni vilja í raun breyta íþróttinni í keppni í stjörnustælum og útrýma þeirri fegurð sem felst í því þegar órofa liðsheild býr til keppnislið, þar sem útkoman af samanlögðu afli liðsmanna er stærri en summan af getu hvers og eins. 

Því að eftirminnilegustu knattspyrnulið sögunnar hafa einmitt verið af þessum toga, svo sem lið Brasilíumanna á dögum samspilssnillinga á borð við Sókrates og kó þar sem á stórum köflum hvers leiks var hreinn unaður að njóta snilldarlegra samspilshæfileika liðsheildarinnar.

  


mbl.is Finnst það ósanngjarnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband