Græna gangan og Vikivaki, - hríslandi gleði.

Vorsólin skín. Í útvarpinu hljómar Vikivaki Jóns Múla Árnasonar í flutningi Þóris Baldurssonar og Rúnars Georgssonar. Það hríslast um mann straumur gleði og hamingju og þakklæti til þessara snillinga að heyra þetta og njóta þess.

Rétt á undan laginu var flutt spá um gott veður á morgun, 1. maí, og aftur hríslast straumur um taugar, tilhlökkun og þakklæti fyrir að fá að taka þátt í jafn gefandi viðburði og Græna gangan getur orðið í krafti mun víðtækari samstöðu enn fleiri félaga en fyrr og auk þess samstarfs og samráðs við samtök launafólksins, sem Græna gangan fer í kjölfarið á.

Í fyrra fór gangan fram úr öllum vonum með alls um 5 þúsund þátttakendur. Slíkt gerist ekki nema með samstilltu átaki þar sem allir leggja sig fram.  

 


Hvað segðu menn um 700 fanga á Íslandi?

Enn dragnast Bandaríkin með fornaldar kerfi refsinga og ójafnaðar sem setur blett á hlutverk þeirra sem framvarðar í baráttu fyrir mannréttindum og frelsi í heiminum.

40 mínúta pyntingar til að murka líftóruna úr sakamanni í gær er ekki hægt að afsaka með mistökum við drápið, heldur er hugsunin röng á bak við það að hátt í milljón manna sé í fangelsum ríkisins, sem svarar 700 föngum í íslenskum fangelsum, og að þúsundir hafi verið drepnir síðustu áratugina.

Mér er enn í minni þegar maður byrjaði að lesa mannkynssöguna í grunnskóla og las um réttarfar og ástand dómsmála í fornöld, sem byggðist á reglunni "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" og fannst það grimmdarlegt og framandi.

Það hlýtur að vera eitthvað mikið bogið við það ástand að hvergi í lýðræðisríkjum skuli vera fleiri fangar miðað við mannfjölda en í Bandaríkjunum.

Og glæpatíðni og dráp með skotvopnum er margfalt hærri en í sambærilegum ríkum þannig að dauðarefsingar og fangelsanir hafa greinilega ekki þau fælingaráhrif sem ætlunin er að kalla fram.   

 


mbl.is Aftakan mistókst en fanginn lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næstum óhugnanleg tækni, sem eykur öryggi.

Það er næstum því óhugnanlega fullkomin tækni, sem manni er kynnt nú orðið þegar nýjar gerðir bíla koma á markaðinn. Einkum á þetta að sjálfsögðu við um dýrari bílana sem boðnir eru fyrir tíu milljóniir eða meira.

Meira og meira af þessir sjálfvirkni ratar sem staðalbúnaður í bílana, en síðan er listinn yfir aukabúnað, sem kaupa má, alltaf að lengjast.

Ég renndi við sem snöggvast hjá gömlum vini mínum, Benna í Bílabúð Benna, í fyrradag til að kíkja á nýjustu Porsche-bílana, og það sem átti að verða aðeins fimm mínútna stans, varð að samtals meira en klukkutíma pælingu, fyrst hjá Benna og síðan þegar komið var heim.

Það er skemmtileg mótsögn að ein helsta ástæða þess hvað Porsche hefur náð langt á þessu sviði er þá næstum óviðráðanlega verkefni sem verksmiðjurnar stóðu frammi fyrir þegar viðskiptavinir þeirra neituðu að hætta að kaupa hinn "úrelta" Porsche 911.

Sá bíll er með stóra sex strokka vél talsvert fyrir aftan afturhjól, og var þar að auki afar stuttur á milli fram- og afturhjóla og átti samkvæmt öllum eðlsfræðilegum lögmálum að vera óökuhæfur fyrir það hve hættulega eiginleika hann hefði.

Síðan þá hefur tæknin í kringum þennan bíl þróast svo ævintýralega að hið "ómögulega" hefur tekist, að gera aksturseiginleika hans öruggan. Það byggist á "óhugnalega lygilegum" atriðum ef svo má að orði komast.

Sjálfvirk viðbögð bílsins bókstaflega "hjálpa" bílstjóranum við að aka þessum bíl örugglega en þó hratt í gegnum beygjur og króka. Svo langt gengur þetta að bíllinn beitir sjálfur mismunandi hemlun á afturhjólin og meira að segja beygir lítillega með þeim til að hjálpa ökumanninum !  

Hinn nýi Macan er magnaður aldrifs sportbíll, talsvert lægri en Cayenne en jafn rosalega breiður og þvþi sennilega með enn betri aksturseiginleika, sem miðast meira við sport en akstur á ófullkomnum vegum og slóðum.

Hann er þó þannig byggður til endanna að hann komist meira en venjulegur fólksbíll án þess að reka sig niður, og hægter  að hækka bílinn upp á ferð um nokkra sentimetra, einmitt nógu marga til þess að komast megi um frumstæða malarvegi og vegaslóðir.    

Sjálfvirkni hefur rutt sér æ meira til rúms í flugi flugvéla á undanförnum áratugum, en þrátt fyrir ómetanlegan þátt hennar í að gera flugið öruggara og hagkvæmara, koma alltaf við og við upp atvik, sem sýna ákveðna galla, sem geta jafnvel valdið stórslysum.

Af þeim atvikum hafa hins vegar dregist lærdómar sem hafa á endanum reynst einna drýgstir í að auka öryggið enn meira.

Ein hættan er sú að menn verði of háðir sjálfvirkninni og minna viðbúnir því að þurfa sjálfir að bregðast við ýmsum uppákomum.

Önnur hættan er sú að hin tölvustýrða sjálfvirkni bregðist ekki rétt við aðstæðum eða komist að röngum niðurstöðum.

Þriðja hættan er sú samspil manns og tölvutækni leiði menn út í ógöngur.

Sem dæmi má nefna flugslys, þar sem óvæntar uppákomur urðu til þess að gera flugmenn ringlaða, vegna þess að hið tölvustýrða aðvörunarkerfi var orðið svo altækt og fullkomið, að ótal blikkandi aðvörunarljós og hávær aðvörunarhljóð urðu yfirþyrmandi mikil og flókin og komu þannig jafnvel í veg fyrir að flugmenn gætu áttað sig og gripið til rettra viðbragða.

Nú er hægt að fá flókna og margháttaða sjálfvirkni í akstri bíla, svo sem að bíllinn "skynji" sjálfur umhverfi sitt, allt frá næstu bílum til þess að "lesa" merkingar á vegum og grípi ævinlega til réttra aðgerða.

Manni verður hugsað til þess í því sambandi hve margar merkingar á vegum og bílastæðum eru orðnar máðar eftir veturinn og að það sé spurning hvort bíllinn geti lesið rétt úr þeim og brugðist rétt við.

Ég man þegar ég fyrst reynsluók BMW 5 í stuttum skrepp, og ætlaði að komast að því hvernig aksturseiginleikar hans væru í krókóttum malarvegi með miklum malarhryggjum.

Hlakkaði mikið til að láta kvikindið njóta sín, en í staðnn eyðilagði bíllinn sjálfur þessa tilraun með því að hemla svo rækilega og næstum drepa á sér í hvert skipti sem leið hann fór að skrika á mölinni, að tilaunaaksturinn varð að hægfara kvöl.

Ég vissi þá ekki að hægt væri að taka þessa sjálfvirkni úr sambandi og kom til baka hundsvekktur.

Það fylgir með útskýringum á henni að ökumaður eigi auðvelt með að taka ráðin af bílnum, en þá leynist enn ein hættan; - sem olli fyrrum og getur enn valdið flugslysum, að að ökumaðurinn/flugmaðurinn taki ekki eftir því að sjálstýringin hefur hætt að virka.  

 

 


mbl.is Hvað sjá sjálfkeyrandi bílar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erwin Rommel fórnaði að lokum lífinu.

Erwin Rommel naut öll stríðsárin meiri virðingar beggja vegna víglínunnar en nokkur annar þýskur hershöfðingi.

Hann hafði unnið til heiðurs vegna afreka í Fyrri heimsstyrjöldinni og sýndi mikla herstjórnarsnilli sem stjórnandi skriðdrekasveita í stríðinu í Frakklandi 1940 og síðar enn frekari snilli í eyðimerkurhernaðinum í Norður-Afríku 1941 til 1943.

Fékk viðurnefnið eyðimerkurrefurinn vegna þess.

Liðsmenn Rommels voru aldrei sakaðir um slæma framkomu og hann þótti óvenju manneskjulegur herstjórnandi, sem hafði að engu fyrirmæli Hitlers varðandi meðferð stríðsfanga og aðgerðir gegn Gyðingum og "óæðri kynþáttum".   

Eftir ósigurinn í í Norður-Afríku og missi Sikileyjar, innrás Bandarmanna inn á meginlandið í Suður-Ítalíu auk samfelldra ófara á austurvígstöðnum var Rommel endanlega ljóst að stríðið var tapað, þótt Hitler og nótar hans héldu öðru fram.

Þegar haustið 1943 var búin til áætlunn Valkyrja um að drepa Hitler og steypa jafnframt stjórn hans. 

Nauðsynlegt var talið að drepa Hitler fyrst til að leysa þýska hermenn undan eið sínum um hollustu við hann.  

Þá hafði Rommel verið falið að skipuleggja varnir gegn innrás Bandamanna í Frakkland og vildi að þýsku herirnir yrðu sem næst ströndunum til að taka á móti innrás strax í flæðarmálinu, en Von Rundstedt, yfirmaður Rommels hafnaði því og hafði í staðinn megin liðsafnaðinn innar í landinu til þess að hann hefði meiri sveigjanleika til að beina kröftum sínum að komandi innrásarstað, sem gat orðið á allri strandlengju Frakklands við Ermasund.

Þegar mistókst að hamla gegn innrás Bandamanna og þeir brunuðu í júlí 1944 austur eftir Frakklandi mátti öllum vera ljóst að stríðið var tapað.  

Það leið næstum ár frá gerð áætlunarinnar um valdaránið þar til gert var misheppnað tilræði við Hitler 20. júlí 1944 og enda þótt ég geti ekki flett því upp nákvæmlega, minnir mig að Rommel hafi vitað um það áður en innrásin í Normandy var gerð og verið snemma í slagtogi með samsærismönnunum í raun.    

Þegar Þjóðverjar voru komnir á skipulagslítinn flótta undan her Vesturveldanna í Frakklandi var ekki minnsta von fyrir Þjóðverja að komast hjá algerum ósigri með tilheyrandi mannfórnum milljóna manna og skelfilegri eyðileggingu ef barist yrði allt til enda.

Rommel barðist aldrei á austurvígstöðvunum þar sem nasistar fóru hamförum í grimmd en leit greinlega á herþjónustu sína í Frakklandi og Norður-Afríku sem þjónustu við föðurlandið á líkan hátt og flestir hershöfðingjar Bandamanna gerðu varðandi þjónustu sína við land sitt og þjóð.

Honum var ljóst að hinn vitfirrti Hitler var að leiða þýsku þjóðina í glötun og hann var reiðubúinn til að hætta lífi sínu með því að styðja samsærismenn, á laun að sjálfsögðu, því að áætlunin varð að fara leynilega.

Þegar samsærið misheppnaðist og Hitler komst að hlut Rommels í samsærinu, var foringjanum vandi á höndum.

Rommel var þjóðhetja og frægasti hershöfðingi Þjóðverja og Hitler ákvað að ryðja honum úr vegi án þess að gera svik hans opinber.

Rommel særðist illa þegar flugvél réðist á bíl hans og þar með gafst tækifæri til að búa til átyllu vegna væntanlegs dauðdaga hans. Honum var gefinn kostur á að taka eigið líf gegn því að fjölskyldu hans yrði þyrmt og það gekk eftir. Ekki er ég viss um að Stalín hefði gert það sama í hans sporum. 

Sagt var opinberlega að Rommel hefði dáið af sárum sínum og hann fékk viðhafnarútför.

Allt framangreint sýnir sérstöðu Rommels en ennþá eru margir, sem vilja ekki sýna neina miskunn varðandi líf hans. Rommel hafi verið í þjónustu Hitlers meðan það hentaði honum og ekki snúið við honum bakinu fyrr en hann sá að það gekk ekki upp.

Þetta finnst mér full harður dómur. Rommel gat auðveldlega forðast að gera neitt uppskátt um viðhorf sín gagnvart Hitler 1943-44 og þraukað út stríðið, fullviss um það að Bandamenn myndu ekki draga hann fyrir stríðsglæpadómstól, enda ætti hann það síst skilið af öllum hershöfðingjum Þjóðverja.

Hann kaus heldur að taka þá miklu áhættu sem leiddi til þess að hann varð að gjalda fyrir það með lífi sínu.

Geta má þess að Von Stauffenberg, sem var í forystu fyrir framkvæmd uppreisnarinnar og réttilega hefur fengið mikinn sóma af fórn sinni, þjónaði Hitler án undanbragða fyrstu ár stríðsins.  

Nú, 70 árum síðar, er full langt gengið ef allir þeir, sem bera ættarnafnið Rommel, eiga að gjalda fyrir það.

Lausnin hlýtur að felast í því að kalla flugvöllinn, sem er kveikja þessa bloggpistils, Manfred Rommel flugvöll.   

   


mbl.is Má flugvöllur heita Rommel?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo margt hefur breyst síðan á dögum fyrri verkfalla í flugi.

Staðan, sem kemur upp ef til verkfalls félags flugvallarstarfsmanna kemur, yrði allt önnur og miklu alvarlegri en komið hefur upp í nokkru öðru verkfalli.

Verkfall hjá einstökum flugstéttum í vinnu hjá einstökum flugfélögum eins og flugmönnum og flugþjónum Icelandair hefur að vísu svipuð áhrif og verkföll hjá þessum aðilum í gegnum tíðina en þó mklu meiri áhrif en fyrr vegna stórvaxandi flutninga.

En allt flug til og frá landinu stöðvast ekki þótt verkfall verði hjá starfsmönnum eins flugfélags.  

Það, að lokast muni fyrir allt flug bæði innanlands og til og frá landinu, er svo miklu alvarlegra en nokkru sinni áður hefur gerst. Rennum aðeins yfir það sem er breytt frá því sem áður var.

1. Nú flýgur fjöldi flugfélaga til og frá Íslandi en ekki bara eitt. En lokun flugvallanna skrúfar fyrir allt flugið hjá öllum flugfélögunum.

2. Ferðaþjónustan hefur hraðvaxið síðustu ár og er orðinn sá atvinnuvegur sem skapar mest útflutningsverðmæti. Stöðvun í henni einmitt þegar aðalvertíðin er að hefjast veldur meiri röskun en dæmi eru til um áður.   

3. Úlutningur á ferskum fiski á öruggan og skjótan hátt er orðinn að grundvallaratriði fyrir sjávarútveginn og kjör fólks í landinu. Þetta er miklu stærra atriði en fólk gerir sér grein fyrir. Sem sagt: Lokun flugvallanna þýðir stórtjón fyrir tvær mest skapandi atvinnugreinar landsins.

4. Ísland er eyja 1300 kílómetra frá næstu löndum og það er ekki hægt að færa flutningana í fluginu yfir á járnbrautir, bíla eða skip.

Engin þjóð í Evrópu eða Ameríku býr við slíkar aðstæður.  

Engin leið er fyrir utanaðkomandi að dæma um hvor deiluaðila myndi bera meiri ábyrgð á verkfalli, ef af verður. Eða að sjá, hvernig sú ábyrgð skiptist hugsanlega á milli aðila.

Það eina, sem blasir við er hvaða áhrif verkfall myndi hafa.  

   


mbl.is Yfirvofandi verkfall rætt á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því betra aðgengi, því meiri sala.

Það er þekkt fyrirbrigði úr markaðsfræðum að því aðgengilegri sem vara sé, því meiri sé salan.

Í hinu griðarlega auglýsinga- og kynningaráreiti nútíma þjóðfélags er slegist um að vera með það sem verið er að kynna, hvort sem það er vara eða eitthvða annað.

Nú er vitað að sumar vörur eru óhollari en aðrar og skapa meiri freistingar hjá sumum en annað og að þess vegna sé kannski ástæða til að rekar fram öðru, sem hollara er og hagkvæmara.

Sælgætisbarir og aðrar óhollar vörur, sem höfða til barna, eru því á lista yfir það, sem síður eigi að setja í forgang á sölustöðum, og um það gildir líka að það er þar að auki talið lágkúrulegt að nýta sér óþroska barna til að halda slíku að þeim.

Rökræður um framboð og aðgengi að vörum hafa lengi verið í gangi varðandi áfengi því að sumir halda því fram að það skipti engu varðandi áfengisvandann þótt áfengi sé á boðstólum sem allra víðast og á sem allra flestum tímum.

En niðurstaða rannsókna á vegum alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar sýna að markaðslögmálið um aðgengi skiptir líka máli hvað snertir áfengi.

Í þeim fræðum, sem fjalla um fíkniefni af öllu tagi, er viðurkennt, að umhverfi fíkilsins skipti oft sköpum, einkum fyrst eftir að hann fer í meðferð.

Hann verður að forðast umhverfi þar sem neysla er í gangi eða áreiti sem leiðir hugann að fíkniefninu. Viðurkennt er líka að félagslegi þátturinn varðandi reykingar skiptir afar miklu máli.

Bubbi Morthens sagði mér að fyrst eftir að hann hætti að reykja hefði það verið kvöl fyrir sig að sjá bíómyndir, einkum þessar gömlu, þar sem persónurnar reyktu.

Til eru dæmi um að aukið aðgengi hafi ekki virkað. Upp úr 1950 voru framleiddir ódýrustu bílar Ameríku Kaiser Henry J., - síðar einnig undur heitinu Allstate, og var hægt að kaupa Allstate í stórverslunum Sears.

Samt seldust þeir ekki, mest af því að einfaldleiki þeirra og smæð virkaði öfugt á fólk. Það reyndist til dæmis ekki söluvænt að hafa ekkert skottlok, engar armhvílur og ekkert hanskahólf.

Hins vegar var álíka stór Rambler með öllum sömu svona hlutum og stærri bílar og hann seldist vel.    


mbl.is Byrjaðir að taka niður nammibarina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nöpur og kuldaleg sannindi. "Á vertíð".

Mikil,nöpur og kuldaleg sannindi í hreinni merkingu þess orðs eru fólgin í ummælum Baltasar Kormáks um það hvaða þátt fjallið Everest með öllum sínum slysum á í því að færa Nepalbúum björg í bú.

Kemur þá í hugann orðtakið "eins dauði er annars brauð" sem er ekki síður napurt og kalt.

Baltasar líkir Everest við íslensku fiskimiðin og íslenska sjósókn, sem hefur kostað þúsundir Íslendinga lífið í gegnum aldirnar. Það er eðlilegt að þessi samlíking komi honum í hug eftir að hann er nýbúinn að gera mynd um magnað íslenskt sjóslys.

Afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, var sendur gangandi Skaftafellssýslu alla leið vestur í verið í Garði á Suðurnesjum um vegalaust land og yfir mörg óbrúuð vatnsföll.

Hann fór í verið í janúar og allir vita hvernig veðurfarið er þá á Íslandi. Þegar heim kom í maí afhentii hann húsbónda sínum launin fyrir sjósóknina en fékk í staðinn mat og húsaskjól og vinnu við bústörfin þar til næsta ferð í verið tók við.

Lífsbarátta þess tíma kallaði á þá grimmilegu áhættu sem sjósóknin var þá, því að ekki þótti tiltökumál þótt jafnvel tugir sjómanna færust á hverri vertíð.

Árið 1963 reyndi ég að túlka þetta í lagi og texta, sem er svona:

 

Á VERTÍÐ.

 

Á vertíð fóru vaskir menn

í vetrarmyrkri og hríð.

Við reginöflin öll í senn

þeir áttu lífsins stríð.

Með dröngla í skeggi, dofna hönd,

drógu þeir fisk úr sjó,  

er rokið hristi reiða´og bönd

og Rán þá snoppunga sló.

 

Þeir óðu yfir frostköld fljót

og fóru´um landið þvert,

þótt nákalt hjarn og nybbugrjót

oft nísti holdið bert.

Margt heljarmenni til hvílu gekk

í helkaldri vetrarfönn

og þráða lausn frá þrautum fékk

í þjakandi lífsins önn.

 

En langt í burtu í litlum rann

fólk lifði´í heitri von.

Þar bað það Guð að blessa sinn mann

og bróður, föður og son.

Það vissi að þó að þrútið haf 

oft þýddi hinstu för,

að soltnum lýð í soð það gaf

og sjómanni afl og fjör.

 

Á vertíð fara´enn vaskir menn

í vetrarmyrkri og hríð.

Við reginöflin öll í senn

þeir eiga lífsins stríð.

Með dröngla í skeggi, dofna hönd,

hver drengur eldskírn fær,

er rokið hristir reiða og bönd

og Rán þá snoppunga slær.  

 

 

 

   

 


mbl.is „Það erfiðasta sem ég hef gert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að draga réttar ályktanir af vöntun á leiguíbúðum.

Enda þótt það hafi verið vinsæl stefna í 60 ár að gefa fólki kost á að eiga eigin íbúð standa menn frammi fyrir breyttum tímum í því efni.

Sérstaklega er það athyglisvert að leigjendur á aldrinum 25-34 ára eru þrefalt fleiri en 2007, og að vaxandi ójöfnuður í þjóðfélaginu birtist í því að hjá tekjulægsta hópnum eru leigjendur líka þrefalt fleiri en 2007.

Fólk stofnar yfirleitt seinna til fjölskyldu en áður var og það hefur áhrif á þessa þróun.

Upp úr miðri síðustu öld var talsvert gert til að hjálpa fólki til að eignast eigin íbúður, ekki aðeins í félagslega kerfinu og verkamannabústöðunum, heldur líka með skipulagningu sérstaks hverfis í Reykjavík sem fékk heitið Smáíbúðahverfið þar sem einkaframtakinu voru skapaðar hagstæðar aðstæður.

Það þarf að draga réttar ályktanir af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á skömmum tíma.

Með því að einblína á byggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýri og í gömlu miðborginni verður þetta viðfangsefni ekki leyst því að stórum hluta best efnaða fólksins þykir fínt að búa á þeim slóðum og sprengir það svo upp íbúðaverðið, að það er komið upp í allt að milljón á fermetrann í Skuggahverfinu.

Lóðirnar í Vatnsmýrinni verða einhverjar þær dýrustu sem um getur, enda sums staðar 5-6 metrar niður á fast. Leiguverð þar verður augljóslega svo gríðarlega hátt að það vandi ungs fólks með litlar tekjur og vandi ungra fjölskyldna verða ekki leystur þar.

Með þessum orðum er alls ekki verið að amast við því að vel efnað fólk fái að kjósa sér búsetu á þeim svæðum sem því hugnast best og hefur efni á að veita sér.

En það leysir ekki hinn brýna vanda þeirra sem mest þarf að sinna. Verði það ekki gert flytur þetta fólk einfaldlega af landi brott. "Víglínan" vegna byggðar í landinu liggur nefnilega í Leifstöð frekar en við Elliðaár eða Hvalfjörð og Þjórsá.  

Í engum þeim tilfellum á síðustu öld, þar sem reynt var að hjálpa til við að ungt fólk og fjölskyldufólk gæti komist í húsnæði, var vaðið niður í gömlu miðborgina til þess.

Verkamannabústaðirnir á Rauðarárholti risu í jaðri borgarinnar og voru í úthverfi á þeirri tíð.

Sama átti við um Smáíbúðahverfið og Breiðholtið.

Af hverju? Af því að við búum um fjrálsu markaðsþjóðfélagi þar sem takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga í sovéskri miðstýringu í þessum efnum.

Auk þess búa næstum 80 þúsund manns í nágrannabæjum Reykjavíkur, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og bjóða upp á lægra fasteignaverð og þar með lægra leiguverð en er eða verður í Reyjavík vestan Elliðaáa. Enda fjölgar fólki í þessum bæjarfélögum jafnt og þétt.

Það er sífellt nefnt sem forsenda fyrir því að leggja flugvöllinn niður og troða sem flestum þar niður, að Reykjavík sé einstætt viðundur meðal sambærilegra borga hvað snertir það hve dreifbýl hún.

Þetta er röng forsenda, því að valdar eru ósambærilegar borgir til samanburðarins, gamlar og grónar milljónaborgir í þéttbýlum löndu.

Rétt forsenda er að bara Reykjavík saman við borgir af sambærilegri stærð á Norðurlöndum.

Þá kemur í ljós að þær eru allar álíka dreifbýlar, sumar jafnvel dreifbýlli.

Eina undantekningin er Stavanger í Noregi, en það stafar af náttúrulegum orsökum, því að sjór umlykur borgarstæðið að mestu og takmarkar stærð þess.

Samtök borga á Norðurlöndum lét gera vandaða skýrslu um þetta fyrir rúmum 15 árum, þar sem þetta kemur fram. Þeirri skýrslu stungu þáverandi borgaryfirvöld níður í skúffu.

Það skyldi þó ekki hafa stafað af því að staðreyndir hennar pössuðu ekki í kramið ?

Að ofangreindu sögðu er samt að sjálfsögðu hægt að taka undir það að þétting byggðar eykur hagkvæmni í borgarsamfélaginu og að það sé sjálfsagt mál að leitast við að þétta byggð.

Þá þarf að huga að réttri forsendu, þeirri hvar þyngdarpunktur íbúðabyggðar liggur á höfuðborgarsvæðinu, en það er austast í Fossvogi. Í nágrenni við hann og stærstu krossgötur landsins eru svæði, sem ætti að skoða fyrst þegar þétting byggðar er áformuð. 

Það er gagnslaust að þétta byggð nema það sé gert á grundvelli réttra ályktana sem byggja á réttum forsendum.

Húsnæðisvandinn er brýnn og það verður að taka á honum á þann hátt, sem gefur von um að leysa hann.  


mbl.is Fjórðungur heimila á leigumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sívaxandi og umfangsmikil geðþóttalögbrot ?

Vaxandi persónunjósnir og hnýsni "stóra bróður" í hagi allra í ætt við það sem lýst var í bókinni "1984" eru áhyggjuefni eins og Brynjar Níelsson alþingismaður og lögfræðingur ræddi um á umræðufundi í fyrradag.

Ég hef fyrr rætt um símahleranir en nú er fleira að koma upp á yfirborðið.  

Þegar ég sagði frá því að ósköp venjulegt sendibréf til mín frá útlöndum hefði verið opnað hélt ég að hér væri um einsdæmi að ræða og jafnvel einhver mistök.

En fljótlega helltust inn athugasemdir, sem bæði sýndu að þetta er ólöglegt athæfi og miklu útbreiddara en mig hafði órað fyrir.

Þær má sjá í framhaldi bloggpistils mín í gær um þetta.  

Í athugasemdunum eru nefnd dæmi um að bréf ósköp venjulegs og löghlýðins fólks hafi verið opnuð jafnvel árum og áratugum saman.

Varðandi aldraða konu, sem hefur verið pennavinkona við erlenda jafnöldru sína í 60 ár, kemur í ljós að ekki einasta hafa velflest bréf til hennar frá vinkonu hennar verið opnuð, og það án nokkurra skýringa né tilgreindra ástæðna í eitt einasta skipti, heldur hefur þessu verið haldið áfram þótt þessar aðgerðir hafi ekki borið hinn minnsta árangur.

Enda hefur konan aldrei komist í kast við lög og aldrei neytt áfengis eða annarra vímuefna.

Einn þeirra mótmælenda, sem var við Kárahnjúka um hríð hér um árið, hafði símasamband við mig í morgun og greindi mér frá því að þegar erlendur höfundur bókar um enska njósnarann, sem kom sér á vegum lögreglunnar undir fölsku flaggi í hóp mótmælenda, ætlaði að senda þessum mótmælanda bókina hefði verið búið að opna umslagið og taka bókina úr því, svo að umslagið var tómt.

Eftir að þetta hafði gerst tvisvar sagðist mótmælandinn hafa brugðið á það ráð að fá virta innlenda stofnun til að gerast viðtakandi bókarinnar og þá fyrst hefði hún komist til landsins.

Reglugerðarákvæðin um heimild tollara til að opna póstböggla eiga eðli málsins samkvæmt ekki við opnun einkabréfa fólks. Póstbögglar og vörusendingar innihalda yfirleitt ekki persónuleg trúnaðarmál heldur varning.

Öðru máli gegnir um venjuleg sendibréf. Það getur oft verið um einkamál að ræða.  

Það hlýtur að vera ástæða þess að engin heimild er í reglugerð eða lögum um að opna þau.  

Engu er líkara en að ekki sé einasta í gangi sé furðu víðtækar njósnir um einkabréf fólks, heldur einnig samvinna tollayfirvalda og lögregluyfirvalda sem ber með sér geðþóttablæ oft á tíðum, enda virðist enginn þurfa að svara fyrir eitt eða neitt.

Ef reglugerð um tollaeftirlit er skoðuð kemur í ljós að hvergi er veitt heimild til þessa, heldur fer þetta fram án þess að viðtakendur bréfanna fái nokkra skýringu eða uppgefna nokkra ástæðu.

Ekkert utanaðkomandi aðhald virðist í gangi heldur er allt eins viðbúið að þetta geti þróast og vaxið stjórnlaust, og því eru aðvörunarorð Brynjars Níelssonar orð í tíma töluð.

Meðan alger þðgn ríkir um það hvernig þessum málum er varið er full ástæða til að velta vöngum yfir því af hverju þetta sé í gangi.  

Ef tollayfirvöld telja, að rökstuddur grunur sé á að einkabréf séu misnotuð, eiga þau að fara fram á það með rökstuðningi að nauðsynlegt sé að taka upp heimild til að hnýsast í þessi bréf.

En á meðan það er ekki gert er það einkennilegt að tollayfirvöld geti einfaldlega tekið lögin í sínar hendur eins og ekkert sé.   

   


mbl.is Hver eru réttindi mín við handtöku?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hliðstæður frá síðustu áratugum.

Það þarf ekki að fara öld aftur í tímann til að sjá hið gamalkunna dæmi um leiðtoga þjóða, sem bregðast þannig við innanlandsvanda að efna til átaka við önnur lönd til að þjappa þjóð sinni að baki sér. Nefna má tvö dæmi um þetta.

Þegar Argentínumenn réðust á Falklandseyjar vorið 1982 og tóku þær af Bretum, snerist argentínska þjóðin þannig á punktinum, að í stað óvinsælda Leopolds Galtieris og stjórnar hans innanlands, var hann hylltur af múg og margmenni á götum höfuðborgarinnar þegar hernám Falklandseyja hafði heppnast og sjálft breska ljónið niðurlægt.

Honum og Argentínumönnum tókst að afla sér ákveðinnar samúðar umheimsins, þegar fólk um allan heim leit á landakortið og sá, að Falklandseyjar voru skammt undan ströndum Argentínu næstum 10 þúsund kílómetra frá Bretlandi.

Galtieri hafði aðeins verið við völd í fjóra mánuði, þegar hann ákvað að efla vinsældir sínar með innrásinni í Falklandseyjar.

Hann taldi sig njóta mikillar velvildar Ronalds Reagans, sem hafði hælt honum á hvert reipi sem afburða hershöfðingja og útvarðar hins "frjálsa heims" í suðri.  

Í umfjöllun umheimsins um stríðið gleymdist í bili, að íbúar eyjanna voru breskir, töluðu ensku og vildu vera breskir þegnar áfram.

En eftir að Bretar höfðu farið í stríð við Argentínu snerist dæmið hratt við. Nú blasti við að Galtieri hafði misreiknað sig herfilega á margan hátt.

Margareth Thatcher naut nefnilega enn frekari hylli hjá Reagan en Galtieri, ef eitthvað var, og hún sá tækifæri til að stimpla sig inn sem sterkasti þjóðarleiðtogi Breta síðan Winston Churchill leið.  

Argentínski herinn átti enga möguleika til að standast breska hernum snúning þegar Thatcher fyrirskipaði honum að fara í stríð við Argentínu og taka 'Falklandseyjar af þeim.

Fyrir þetta reis "járnfrúin" Margareth Thatcer til mikilla vinsælda í Bretlandi fyrir staðfestu sína, enda var hún lagin við að vekja upp gamlar minningar um hina staðföstu stríðshetju og raunar þjóðhetju Winston Churchill, sem einnig hafði verið formaður Íhaldsflokksins.

Ekki var það síður sætt fyrir hana að góður árangur Breta í stríðinu minnti á forna frægð hins breska heimsveldis og hers Breta.  

Thatcher tókst að þjappa þjóðinni að baki sér með því að nýta sér það að vera fært upp í hendurnar gamalkunnri aðferð við að finna sameiginlegan utanaðkomandi óvin.

Galtieri varð hins vegar að gjalda grimmilega fyrir dýpkeyptar afleiðingar af misheppnuðu áhættuspili og hrökklaðist frá völdum eftir aðeins hálft ár í starfi.  

Georg W. Bush lék svipaðan leik í kjölfar árasarinnar á Bandaríkin 11. september 2001, og það fleytti honum áfram um hríð að geta þjappað bandarísku þjóðinni að baki sér í "styrjöldinni við hryðjuverkamenn. 

En  2008 var svo komið að stefna hans varðandi það að gefa gróðaöflum í þjóðfélaginu sem lausastan taum og minnka eftirlit með þeim sem mest leiddi til þess að flokkur hans tapaði forsetakosningunum það ár.

Enda ekki hægt fyrir flokkinn að finna lengur neinn utanaðkomandi óvin, sem hægt væri að efna til átaka við og þjappa þannig þjóðinni að baki sér.    


mbl.is Á baki þjóðrembudýrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband