Bylgjan getur orðið langvinn.

Bylgjan farsóttarinnar lætur engan bilbug á sér finna og nú vofir yfir hætta á að nýtt og enn skæðara afbrigði berist til Evrópu frá Afríku. 

Verðlækkanir eru strax komnar í kauphallirnar.  

Á sama tíma er rekinn mikill andróður gegn bólusetningu rétt eins og afnám varna sé rétta leiðin í þessu máli. 

Allt er þetta er með miklum ólíkindum. 


mbl.is 149 smit innanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami höfuðgalli og á lögunum um Landsdóm.

Þegar fjallað var um Landsdóm í lagadeild Háskóla Íslands fyrir tæpum 60 árum vöktu lagagreinarnar um dóminn í stjórnarskránni svipaðar tilfinningar og skrýtið fornaldarfyrirbrigði, sem aldrei hafði verið beitt, og að best væri að leggja þetta fyrirbrigði niður. 

Fyrirsjáanleg væri hætta á því að í málarekstri fyrir slíkum dómi myndu þingmenn lenda í óbærilegri aðstöðu við að ráða úrslitum um sekt eða sakleysi vinnufélaga, sem oft voru sessunautar og höfðu bundist vinaböndum með árunum á þingi. 

Stjórnlagaráð afgreiddi málið með því að leggja dóminn niður og styrkja þess í stað stöðu dómskerfisins til að taka málið fyrir. 

Svipaður galli er einnig í kosnningaákvæðunum um kjörbréf þingmanna. Það býður augljóslega vandræðum heim að þingmenn séu að fjalla kjörbréf sjálfra sín.  

Sem betur fór var hinn illskásti af þremur slæmum kostum valinn á afgerandi hátt. 


mbl.is Kjörbréf allra þingmanna staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töðugjöldin voru íslenskur þakkargjörðardagur og uppskeruhátíð.

Í auglýsingu í útvarpi í dag hefur mátt heyra hvatningu til þess að gera hinn bandaríska Thanksgiving Day að íslenskum hátíðisdegi með þeim rökum að það sé gert víða um lönd og skuli dagurinn á Ísladi vera til heiðurs íslensku sauðkindinni. 

Aðeins eru nokkrir dagar síðan slatti af verslunum tók sig saman um að gera mestalla vikuna, fimm daga, að fimmföldum Black Friday.

Sagt er í auglýsingunni að fjölmargar þjóðir heims haldi Thanksgiving Day hátíðlegan á sama hátt og Bandaríkjamenn, væntanlega síðasta fimmtudag nóvembermánaðar eins og þar, en þetta er alrangt. 

Aðeins þrjár þjóðir í Norður-Ameríku gera slíkt. 

Hins vegar hafa hliðstæðir hátíðisdagar til að fagna lokum uppskerutímans verið haldnir víða, meðal annars á Íslandi í formi svonefndra töðugjalda. 

Ástæðan var ærin á hverjum bæ, því að það var einhver verðmætasti áfanginn í búskap hvers heimilis að öll hey væru komin í örugga geymslu og til taks yfir komandi vetur. 

Fátæk einstæð móðir tveggja barna var á norðlenskum bæ þar sem síðuhafi dvaldi í fimm sumur, og þetta var mesti hátíðisdagur þess árstíma á þeim bæ. 

Aðeins á töðugjöldum voru tertur og annar hátíðamatur hafður á borðum. 

Töðugjöldin voru ekki aðeins til að fagna því að sauðkindin hefði nóg að éta, heldur líka kýr, hestar og hænsn. 

Eltingarleikur hér á landi með snobbi fyrir bandarískri hefð vegna landtöku nokkurra landnena á austurströnd Bandaríkjanna fyrir um 300 árum verður æ hlálegri og fráleitari með hverju árinu og er stefnir í heimsmet. 

Það er sjálfsagt mál að halda hátíðlega uppskeruhátíð hér á landi, en ef slíkt er gert, þarf að vera fyrir hendi lágmarks samsvörun við íslenskar aðstæður. 


Stærri hlaup eðlileg og fyrirsjáanleg þróun?

Fyrir hamfarahlaupið mikla 1996 komu stór Skeiðarárhlaup með reglulegu millibili úr Grímsvötnum sem afleiðing af Gjálpargosinu fyrir norðan vötnin, sem bræddi gríðarlega mikinn ís og hann barst í vötnin, og það gríðarflóð losaði svo mikið um útfallið að það varð að mesta hamfararhlaupi hér á landi síðan í Kötlugosinu 1918. 

Eftir hið mikla rask af völdum hamfarahlaupsins hafa hlaup úr Grímsvötnum á meðan jökullinn hefur verið að sækja rólega í fyrra far. 

Nú virðist það vera að gerast að aðstæður við útfallið úr Grímsvötnum við austanvert Grímsfjall séu að líkjast því sem áður var og að mjög stórt hlaup sé að bresta á. 

Um miðja síðustu óld fóru jarðfræðingar að velta vöngum yfir því að atburðarás hamfara á þessu svæði gæti verið á tvennan hátt; fyrst eldgos og síðan hlaup af þess völdum, en einnig var sú tilgáta sett fram að hlaup geti vegna léttingar jökulsins í hlaupinu, kallað fram eldgos. 


mbl.is Vatnshæðin miklu meiri en fyrir síðustu hlaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera sjúklingur á bráðadeild er sláandi reynsla.

Vandinn á bráðadeild Landsspitalans hefur verið til umræðu meira og ninna í sjö ár hið minnsta. 

Fyrir fimm árum höguðu atvikin þannig til að síðuhafi lenti í þremur beinbrotsslysum á þremur árum, sem þörfnuðust innlagnar á bráðadeild með endurkomum. 

Um það leyti sem fyrsta slysið var fullyrti "kunnáttumaður" í Kastljósi að ekkert væri að á bráðadeild og þetta væri aðeins væl, leikaraskapur og tilbúningur hjá starfsfólkinu. 

Heimsóknir mínar á þessum árum sögðu allt aðra og raunverulegri sögu, sem ekki hefði birst svona skýr nema fyrir þá nánd við ófremdarástandið sem sannanlega er enginn leikaraskapur, heldur er ástandið í heild auðsjánlega með þá undirrót að spítalinn hefur verið sveltur lungann af þessari öld, og slíkt svelti safnast upp og verður ekki fjarlægt með því að smelle fingri.  


mbl.is Bjóða frægu fólki í heimsókn á Covid-deildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljúgandi bíll var þegar smíðaður og honum ekið og flogið fyrir sjötíu árum.

Eftir stríðslok 1945 varð gríðarleg uppsveifla í framleiðslu lítilla flugvéla, meðal annars vegna þess að búist var við að tugþúsundir ungra manna, sem höfðu lært að fljúga í hernum, yrði stór markhópur kaupenda. 450px-Taylor-Aerocar-III

En menn gleymdu stórri stærð sem var hópur föngulegra kvenna og þarfir uppvaxandi fjölskyldna, sem lunginn af þessum mönnum löðuðust að eftir stríðið.

Flugvélaframleiðsla fyrir einkaflug kollsigldi sig því að mestu á fáum árum. 

Ein afurð bjartsýninnar um gildi flugsins varð að veruleika þegar smíðuð var fjögurra sæta flugvél, sem jafnframt var hægt lenda og aka eftir vegum að flugi loknu. 

Flugvélin hét Aerocar og hægt var að aftengja afturhluta hennar eftir lendingu og láta fremrih hlutann draga afturhlutann eins og eftirvagn. 

Þessar flugvélar voru hægfleygari en sama stærð venjulegra véla, og búnaðurinn flóknari, og enn í dag hafa allar tilraunir til að gera frekari ævintýri í svona flugi að veruleika.  

Nýtilkomnar þyrlur fékk flugfróða menn um miðja síðustu öld til að spá fyrir um almenna þyrlueign til einkaflugs. 

Einn þeirra hélt fyrirlestur, sem síðuhafi sótti, og spáði svo flott fyrir þessari dásemd að hrifningu vakti. 

70 árum síðar eru menn hins vegar fjær þessum draumi en nokkru sinni fyrr. 

Aðeins voru framleidd reynslueintök af Aerocar árið 1949 og síðan aftur 1964, sem tók aðeins nokkur ár að verða að minjum um tækninýjung sem komst aldrei lengra en það, að hægt er að skoða þessi eintök og vita, að þau voru að vísu fleyg en féllu aldrei inn í nútímaumverfið. 


mbl.is Ætla að selja fljúgandi bíl árið 2024
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju reykingatakmarkanir?

Miklar deilur og átök geysuðu um allan heim fyrir aldamót og aðeins fram yfir þau um bann við reykingum þar sem fólk kom saman. 

Harðvítugir meðal reykingafólks börðust gegn slikum bönnum og töldu þau mannréttindabrot og skerðingu á frelsi. 

En um það frelsi giltu svipuð rök og nú eru uppi um frelsi til að hundsa sóttvarnaraðgerðir. 

Þegar sannað var, að óbeinar reykingar hefðu sömu áhrif og beinar snerist málið um það, hvort þeir, sem vildu reykingafrelsi teldu sig hafa frelsi til að reykja ofan í aðra. 

Sem leiðir hugann af einni af kennisetningum frumkvöðla frjálshyggjunnar í öndverðu, að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. 


mbl.is 61% átti viðtal við heilsugæslulækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkland, land á mörkum tveggja heima.

Nágrannalöndin tvö, austast við Miðjarðarhafið, Grikkland og Tyrkland eiga að baki brokkgengan feril hvað snertir lýðræði og alræði, og Tyrkland er á sýnu erfiðari stað, sem meðal annars sést af því að hluti landsins er í Evrópu en meginhlutinn í Asíu. 

Þar að auki er landið loka yfirráðasvæði fyrrum múslimsks stórveldis. 

Tyrkland er í NATO en hefur oft spilað djarft spil í útanríkismálum vegna nálægðarinnar við Rússland, þótt haf skilji á milli. 

Tyrkir fóru í Fyrri heimsstyrjöldinni í bein hernaðarátök við Breta, sem biðu greypilegan ósigur við Gallipoli. 

Tyrkir sóttu lengi vel fast að komast inn í ESB, en ESB dró lappirnar í þeim efnum. 

Atburðirnir, sem hafa orðið í valdatíð Erdogans, eru eitt af mörgum dæmum um það hve fráleit innganga í bandalagið hefði verið og er enn. 


mbl.is „Þetta er valdarán“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göng undir hákoll Öxnadalsheiðar ætti að vera til skoðunar.

Á þessari síðu hefur áður verið minnst á þann möguleika að gera frekar stutt göng undir efsta kafla Þjóðvegar númer eitt þar sem hann liggur yfir Öxnadalsheiði. 

Fjölmargir staðir annars staðar á landinu æpa á göng, og það þarf ekki nema fjögurra kílómetra löng göng, jafnvel aðeins styttri til að losa okkur við þennan slæma stað, sem veldur nánast öllum vandræðunum, sem verða á þessari leið. 

Þar veldur ekki aðeins hæð yfir sjó og vegur utan í hallandi hlíð, heldur er Bakkaselsbrekkan með um tíu  prósenta halla, sem eitt og sér er langt yfir nútíma mörkum og á stærstan hlut af vandræðunum á þessum kafla.  


Flutningakreppa er ein af verstu afleiðingum COVID-19.

Öll hernaðarsaga mannkynssögunnar, einum á síðari tímum, litast af miklilvægi aðflutninga. 

Gott dæmi er stærsta innrás heimssögunnar inn í Sovétríkin 22. júní 1941. 

Meira en þriggja milljón manna her var notaður, en sú tala sem flestum kemur á óvart, voru 750 þúsund hestar. 

En tap orrustunnar um Moskvu var ekki aðeins vegna vopnaframleiðslugetu Rússa og komu herlíðs sem flutt var var austurlandamærunum, heldur fyrst og fremst með því að rússneski veturinn olli óviðundi usala hjá her Öxulveldanna varðandi flutningsgetu á hergögnum, vistum og vörum sem svona stórfelldur hernaður krefst. 

Eitt af helstu atriðum í alþjóðavæðingu verslunar og viðskipta eru stórfelldir flutningar á sjó og landi og í lofti. 

Athyglisverð umfjöllun var sjónvarpsþættinum 60 mínútum um sjóflutningana, þar sem skortur á vinnuafli hefur lamað þá flutninga á ævintýralegan hátt sem birtist stórum hluta af gámaskipaflota heims, sem fær ekki legupláss í höfnunum, þannig að ófluttar vörur hrannast upp. 

Þessi flutningakreppa var stórlega vanmetin í fyrstu en vindur nú upp á sig á versta tímanun yfir hátíðirinar. 


mbl.is Fyrirtæki gætu lamast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband