Fyrstu fréttirnar frá Svíþjóð voru óvænt hrollvekja. Ósk um gleðilegt ár.

Þegar fréttir bárust af fyrstu bylgju COVID-19 í Svíþjóð bárust til Íslands hrukku margir Íslendingar meira við en fréttirnar frá Ítaliu og New York.  

Ástæðan var sú, að með þessum sænsku fréttum var myndin af Svíþjóð sem forysturíki í heilbrigðis- og velferðarmálum á heimsvísu rifin í tætlur og í staðinn komin mynd af ráðþrota læknum og hjúkrunarfólki sem valdi af handahófi sjúklinga úr hópi þeirra sem þyrftu á gjörgæslu að halda en yrði samt að víkja í burtu. 

Og þar að auki sú mynd, að best væri að gera sem minnst í þessum málum, heldur lofa þessari farsótt að hafa sinn gang sem fyrst svo að hjarðónæmi kæmist sem fyrst á. 

Þegar tölurnar um úbreiðslu covid núna hér á landi eru skoðaðar, sést hve teflt er á tæpt vað og veðjað á "happ á tæpri skör."

Vonandi fer allt vel og óhætt að óska öllum gleðilegs árs með þökkum fyrir allt gamalt og gott. 

 


mbl.is Líkur á fleiri innlögnum aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldstöðvar og gos syðra mun minni en eldstöðvar og gos af Bárðarbunguætt.

Jarðavísindamenn hafa hallast að því undanfarna áratugi, að miðja annas tveggja stærstu möttulstróka í iðrum plánetunnar jarðar sé nokkurn veginn undir vestanverðum Vatnajökli með Bárðarbungu og Grímsvötn sem nokkurs konar miðjusvæði. 

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins og áhrifasvæði Bárðarbungu það stærsta; nær alla leið suðvestur í friðland að Fjallabaki. 

Fram að Holuhraunsgosinu 2014 var það algeng skoðun að hið gamla Holuhreun norður af Dyngjujökli væri á áhrifasvæði Öskju. 

Annað kom á daginn og nú getur orðið fróðlegt að sjá hvað verður framhald kvikusöfnunar undir Öskju. 

Reykjanesskagi er að sönnu hluti af hinu eldvirka Íslandi, en bæði Geldingardalagosið og fleiri gos þar á undan sýnast mun minni, hvert um sig, en stóru gosin á áhrifasvæði Bárðarbunga, og er það í samræmi við það að það svæði sé nær miðju fyrrnefnd möttulstróks en Reykjanesskagi. 

 


mbl.is Land heldur áfram að rísa við Öskju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðist tómt mál að sækja bætur til vegaverktaka.

Listinn yfir þau skaðabótamál, sem hugsanlega væri hægt að sækja á henur vegaverktökum er óralangur, en reynslan sýnir að ráðlegast er fyrir ökumenn að reyna ekki við slikt, svo gersamlega ábyrgðarlausir virðast þeir vera. 

Nýjasta atvikið frá Kjalarnesi er næsta dæmigert um það, að hér á landi virðist allt annað hugarfar gilda um merkingar og aðgerðir verktaka á vegum og götum en í öðrum löndum, þar sem þess er gætt að vegaframkvæmdir og viðgerðir á vegum, eru kyrfilega merkt á aðliggjandi vegum svo að vegfarendur geti valið sér hjáleið í tíma. 

Nú nýlega urðu að minnsta kosti tvö umferðaróhöpp við veitingastaðinnn Staldrið á vandræða gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbraut, sem urðu miklu verri viðfanga vegna þess að verktaki hafði dreift stórum steyptum klumpum meðfram annarri af tveimur þröngum aðreinum að Bústaðavegi, sem mjókkuðu úr tveimur reinum í eina. 

Nokkrum dögum síðar kom síðar loks að því að verktakinn settu klumpana á fyrirætlaðan stað þar sem þeim hafði verið ætlað að mynda eins konar vegrið, en voru í staðinn gerðir að hreinum gildrum fyrir sem allra harkalegastra árekstra. 

Lausleg athugun hjá Tryggingarfélagi varðandi hlut verktakans að því að gera hugsanleg áföll þarna sem  allra harkalegust leiddi gamalkunnan íslenskan veruleika í ljós; að það væri tómt mál að sækja nokkrar bætur né viðbrögð til verktakanna. 

Hér á síðunni hafa verið nefnd dæmi um að verktaki hafi lokað 700 manns inni að morgni til við Háaleitisbraut með því að láta engan vita fyrirfram. 

Við skoðun á málinu kom í ljós að í svona málum gilda reglur, sem verktakar brjóta og brjóta þar með skilyrði, sem verkbeiðandi hefur sett þeim í samningsskilmálum. 

Í þessu máli var svarið hins vegar hjá Reykjavíkurborg, að vegna sumarleyfa væri ekki hægt að fylgja svona málum eftir. 

Í öðru máli vanrækti verktaki að geta tímanlega um hjáleið við viðgerð að aðrein frá Reykjanesbraut til vesturs inn á Vífilsstaðaveg með þeim afleiðingum að ökuleiðin lengdist um allt að fimm kílómetra! 


mbl.is Krefst bóta úr hendi vegaverktakans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar skoðanakannanir fyrr og nú. "Vvgrænir?"

Skoðanakannanir birta oft sérkennilegar og jafnvel torskildar tölur. Þegar Kárahnjúkadeilan stóð sem hæst kom í ljós í skoðanakönnun, að þriðjungur þeirra, sem þá sögðust fylgja Vinstri grænum voru samt samþykkir virkjuninni.  

Hins vegar skiptust fylgjandur Sjálfstæðisflokksins í tvo álíka stóra hópa í þessu máli í þessari skoðanakönnun, og ef litið er á höfðatöluna, var þessi helmingur Sjálfstæðisflokksfylgjena  langstærsti flokkspólitíski hópurinn meðal andastæðinga virkjunarinnar. 

Þegar Stjórnarskrárfélagið kannaði hug ráðamanna flokkanna sem voru í framboði 2016 kom í ljóa, að fylgi við nýja stjórnarskrá sem tæki mið af þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, var einna minnst hjá Vinstri grænum. 

Ógöngurnar í stjórnarskrármálinu síðan þá ættu því ekki að koma á óvart. 

Í nýrri skoðanakönnun kemur í ljós að 85 prósent þeirra, sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eru ánægðir með nýju stjórnina og stefnu hennar; langtum hrifnari en fylgjendur hinna stjórnarflokkanna. 

Ástæðan gæti verið sú, að í nýju stjórninni láta Vinstri grænir af hendi tvö þau ráðuneyti, sem hver grænn vinstri flokkur myndi telja mikilvægust, umhverfisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið; og í ofaánlag fær flokkurinn á hinum enda stjórnmálanna þetta lykilráðuneyti. 

Þegar Ögmundur Jónasson orðar það nú að  Vg þurfi að skipta um nafn, þarf raunar ekki mikið til, heldur einungus að bæta einum staf við í skammstöfunina:  " Vvgrænir - Varla vinstri grænir." 


mbl.is Ögmundur spinnur rauðan þráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landinn er ötull við fleira en landann?

Útlendingar kaupa ekki áfengi í vínbúðunum að því er ætla verður, en ferðamannastraumurinn á þessu ári er líkast til kominn niður í svipað horf og var fyrir gosið í Eyjafjallajökli og aukin áfengissala hlýtur því að mest hjá innfæddum og þar með söluaukningin Covid-árin tvö. 

Spurningunni um hlut bruggs og smygls í áfengisneyslunni er ævinlega erfitt að svara, svo að venjulega hrökkva vangaveltur um uppruna brjóstbirtunnar skammt.  


mbl.is Áfengissala tæplega 17% meiri en 2019
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forspáin, að geimurinn verði of lítill og rýmið þrætuefli, að rætast?

Hernaðarátök í geimnum og geimvarnaráætlun Reagans, oft kölluð stjörnustríðsáætlun, urðu að þrætuepli á Reykavíkurfundi Gorbatjofs og Reagans 1986.  

Rætt var um að geimurinn væri að verða of lítill og að kapphlaup um rými, svo sem um lífsrýmið á dögum Hitlers, gæti hleypt geimstíði af stað.  

Donald Trump vildi stofna sérstakan geimher Bandaríkjanna, sem gætu með því orðið drottnandi í sólkerfinu í krafti kjöorðsins "gerum Bandaríkin mikilfengleg á ný!".  

Er ekki nóg af deiluefnum og hættu á stríðsátökum þótt sjálfur geimurinn bætist ekki við?

Eða mun forspáin um geimstríð verða að veruleika?


mbl.is Gervihnettir Musks valda usla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hekla gaus með hálfs árs millibili 1980 og 81.

Ef einhverjir þeirra sem nú stjákla ofan á hrauninu og eldstöðvunum í Geldingadölum með þeirri hugsun að ólíklegt sé, að það komi aftur upp eldur á sama stað, er um að ræða skelfilegur misskilningur eins og Magnús Tumi Guðmundsson bendir á. 

Þannig gaus Hekla í ágúst 1980, en síðar aftur á útmánuðum 1981.  Síðara gosið var stundum kallað leynigosið, því að hvort tveggja var, að það var mun minna en hið fyrra, og veðrið slæmt.  

Farin var ein flugferð tii að reyna að ná myndum af því gosi, en ský og þoka hindruðu árangur. 

Eitt kraftmikið uppstreymi, sem kom undir flugvélina, varð til þess að snúið var við. 

Eitt sinn var sögð sú saga að í sjóorrustu einni forðum hafi sprengikúla skollið á þilfari herskips og gert gat á það. 

Stökk þá einn sjóliðanna til, stillti sér upp í gatinu og stóð þar. 

Þegar hann var spurður af hverju hann gerði þetta svaraði hann. "Þetta er skásti staðurinn á skipinu, því að Líkurnar á því að önnur sprengikúla lendi aftur á sama stað eru svo sáralitlar."

Þungamiðja í sálmi, sem síðuhafi er að vinna við, er ferskeytla, sem varð til í Grafarvogskirkju fyrir 17 árum. 

Þar var útför náins æskuvinar, sem hafði skyndilega fallið örendur fram á morgunverðarborðið heima hjá sér í hjartaáfalli. 

Þegar presturinn hugðist lyfta hendi yfir kistunni og fara með moldunartextann, féll einn af vinum hins látna, sem sat á fremsta bekk, fram fyrir sig og hafði fengið hjartaáfall. 

Athöfnin stöðvaðist við þetta drjúga stund á meðan sjúkralið kom á vettvang, hóf lífgunartilraunir og flutti sjúklinginn burtu. 

Þetta var eitt eftirminnilegasta atvik í kirkju sem hugsast gat. Sýndi, enginn lifandi maður er nokkru sinni alveg óhultur fyrir mætti örlaganna; ekki einu sinnni við jarðarför, og að orðtakið "enginn veit, hver annan grefur" er sannmæli. 

Á þeim tíma, sem allir kirkjugestir sátu þarna sem lamaðir, varð til þessi ferskeytla, sem varð að sálmi við útfarir fjögurra vina minna á næstu þrettán árum: 

 

"...Feigðin grimm um fjörið krefur; 

fátt er oft um svör. 

Enginn veit, hver annan grefur; 

örlög ráða för." 


mbl.is Líklegast að gos komi upp á sama stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfbær þróun!? Endurnýjanleg og hrein orka!? Já, líka í öllum virkjunum!

Fyrsti pistillinn á þessari bloggsíðu fyrir fjórtán árum fjallaði um það stóra verkefni að vinda ofan af stærstu rányrkju Íslandssögunnar sem fólst í hrikalega "ágengri orkuöflun" í gufaaflsvirkjunum á Reyijanesskaga. 

Nú, fjórtán árum síðar hefur lítið sem ekkert breyst í þessum efnum og í stað þess að standa við stór orð, eins og núverandi umhverfisráðherra talar um, eru helstu ráðamenn heimsins leiddir til þess að vitna um hið gagnstæða við þessar virkjanir, stundum daglega eins og gerðist á tímabili síðastliðið haust. 

Í nýlegri Þeystareykjavirkjun fyrir norðan ýjaði forstjóri Landsvirkjunar að því að í stað þess að þar risi 300 megavatta gufuaflsvirkjun eins og syðra, væru 90 megavött látin nægja. 

Þar kvað við annan tón en hafði verið hjá heitustu virkjanasinnunum, sem hrópuðu hástöfum á ráðstefnum: "Þúsund megavött! Þúsund megavött!" 

Nýlega hrópaði sveitarstjóri ÖLfushrepps líka "þúsund megavött! Þúsund megavött!" í frétt á Stöð 2 og því var fylgt eftir með orðunum "Þúsund megavött", skráðum risaletri yfir þveran skjáinn. 

Að "Ísland leiði sjálfbæra orkuþróun" eru orðin tóm meðan þetta ástand, sem varað hefur alla þessa öld fram að þessu, verður óbreytt. 


mbl.is Ísland leiði sjálfbæra orkuþróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Íslenskt samfélag gæti þurft að glíma við heilsufarsvá og margskyns tjón um aldir."

Þetta er inntakið í lokaorðum Ara Trausta Guðmundssonar jarðfræðings í stórgóðri bók hans og Ragnars TH. Sigurðssonar ljósmyndara um jarðelda á Reykjanesskaga. 

Þótt nú gjósi aðeins í einu af fjórum megin eldstöðvakerfum skagans, gætu hin vaknað til lífsins á næstu öldum. 

"Þetta má ráða af sögu eldvirkninnar í þúsund ár og þá sérstaklega ef litið er til virknisskeiða í þremur af fjórum eldstöðvakerfum skagans" segir Ari Trausti ennfremur og orð hans ríma við það sem sett var fram hér á síðunni strax við upphaf "Fagradalselda." 


mbl.is Skjálfti upp á 3,5
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt snilldarverk um stærsta viðburð mannkynssögunnar.

Síðuhafi hefur sjötíu ár hámað í sig tugi bóka um Seinni heimsstyrjöldina, allt frá því að Gunnar M. Magnúss gaf út ritverkið "Virkið í norðri." 

Flestar þessar bækur eru erlendar og hafa ekki verið þýddar, enda sumar afar sérfræðilegar um hernaðartækni, skip, skriðdreka, flugvélar og hagfræði. 

Í mörgum þessara bóka hafa seinni tíma sérfræðingar komist að nýjum niðurstöðum um ýmsar mýtur, sem þrifist hafa um alls konar fyrirbrigði.  

Hjá vestrænum þjóðum hefur orrustan um El Alamain til dæmis verið sett á svipaðan stall sem úrslitaorrustu stríðsins og orrustan um Stalingrad og Spitfire sem besta orrustuflugvélin og úrslitavopn í stríðinu. 

Hvort tveggja er fjarri lagi við nánari skoðun. Tíu sinnum fleiri hermenn börðust um Stalingrad en við El Alamain, og á sléttum Rússlands réðust úrslit stríðsins frá nóvember 1942 til júlí 1943. 

Fleiri þýskar flugvélar voru skotnar niður af Hurricane vélum en Spitfire, þótt Spitfire væri betri flugvél og fengi ljómann af vörn Bretlands í ágúst og september 1940.  

Á seinni tímum eru flestir sammála um að P-51 Mustang hafi verið besta vélin þegar allt er tint saman, besta hönnunin, eiginleikarnir og áhrif á gang flughernaðinrs.

Sagt er að þegar Göring sá Mustang vélarnar birtast í fylgd sprengjuflugvéla yfir Berlín hafi hann sagt að það þýddi að stríðið væri tapað.  

Messerschmitt 262 var að vísu útaf fyfir sig besta vélin, enda fyrsta þotan sem tók þátt í stríðinu, en bara sáralítinn þátt vegna skorts á fjölda smíðaðra véla og skorts á tíma. 

Og á austurvígstöðvunum var Yak-3 vél Rússa eina vélin, sem flugmenn hinnar þýsku Messerschmitt fengu fyrirmæli um að forða sér hið snarasta í burtu, ef hún væri með bungu á nefinu. YaK-3 var liprasta vélin í návígi í stríðinu. 

Í bókinni "Nazism at war" er því skilmerkilega lýst, að af hagfræðilegum ástæðum varð Hitler að fara í allsherjarstríð ekki seinna en 1940.   

Japanir háðu að sönnu svívirðilegt og hrikalega mannskætt stórstríð í Kina frá 1937 og voru með milljón hermenn af 1,4 milljóna her fastan þar, en náin skoðun á hugsunarhætti Samúrajanna í hernum sýnir, að úrslitakostir Roosevelt 1941 voru í augum þessara japönsku striðsherra jafngildi þess, að þeir misstu andlitið ef þeir gengu að þeim og ástæða til kviðristu hjá þeim. 

Úrslitakostirnir þýddu að japanir yrðu eldsneytislausir á nokkrum mánuðum nema að ná völdum yfir olíulindum og öðrum auðlindum Suðaustur-Asíu. 

Max Hastings hallast hins vegar frekar að því, að vegna skammdegis hefði tekið of langan tíma að framkvæma aðrar árás. 

Margir sagnfræðingar hafa sett það fram, að það hafi verið stór mistök hjá Japönum að fylgja ekki eftir fyrstu bylgju árásarinnar á Pearl Harbour með annarri árás á eldsneytisgeyma og viðgerðarstöðvar og samskiptastöðvar hersins. 

 

Í umfjöllun um stríðið hefur stærsta loftárásin í Evrópu, ´árásin á Hamborg í júlí 1943, legið næstum því í þagnargildi miðað við það hve stórt stökk var þar tekið í gereyðingarstríði.  

Þeirri árás má vel jafna til kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Hagasaki, og jafnmargir voru drepnir í Hamborg og í Nagasaki. 250 þúsund heimili voru eyðilögð í Hamborg.  

Nú hefur það gerst að komið er út stórvirki um stríðið, þýtt á íslensku, "Vítislogar" eftir Max Hastings.

Hægt er að taka undir allt það hól, sem þetta mikla snilldarverk hefur fengið erlendis, og bæta má þýðingu Magnúsar Hafsteinssonar við. 

Því veldur hin gríðarlegat dýpt sem felst í hinum ótal sjónarhornum í sögum frá vígstöðvum og mannabyggðum í þessari bók og einnig í því að skoða hegðun og getu stríðsaðila á sem víðustu plani.  

 


mbl.is „Af hverju er þetta ekki löngu orðið til?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband