Kóreustríðið var þrisvar sinnum lengra en ella vegna samningaþófs.

Við það að lesa stórmerka bók Max Hastings um Kóreustríðið kemur vel fram í henni, að eftir að Norður-Kóreumenn höfðu verið hársbreidd því að leggja allan skagann undir sig sumarið 1950, en óvænt tókust viðbrögð herafla undir merki Saneinuðu þjóðanna gegn árásinni svo vel að litlu munaði að her þeirra legði alla Norður-Kóreu undir sig. 

En þá gripu Kínverjar inn í og víglínan færðist um veturinn allt suður fyrir landamærin allt til Seoul, en á árinu 1951 varð niðurstaðan pattstaða í stöðu, sem var mjög nærri upphaflegri landamæralínu milli Suður- og Norður-Kóreu. 

Næstu tvö ár fóru síðan í hörmulegt framhald þessa stríðs sem að lokum endaði með vopnahléi, sem enn stendur án þess að tekist hafi að gera friðarsamninga. 

Því miður virðist svipað geta gerst í Úkraínu.  Og ekki bara það, mun erfiðara verður að stöðva stríðið í Úkraínu með sína flóknu skiptingu milli yfirráðasvæða.   

Í Kóreustríðinu tókst að afstýra því að kjarnorkuvopn yrðu notuð, og svipuð ógn vofir yfir nú. 


mbl.is Pútín „getur ekki unnið á vígvellinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Qui bono?" vegur þungt.

Rómverjar skoðuðu oft hagsmunaatriði í sakamálarannsóknum og hjá Bandaríkjamönnum varð setningin "follow the money" afsprengi þess. 

Í öllum samsæriskenningum varðandi morðið á Kennedy glyttir í slík atriði varðandi morðið, og þar með, að einn maður öðrum fremur, varaforsetinn Lyndon B. Johnson, lyftist úr algerlegu áhrifaleysi til æðstu metorða og afreka við morðið. 

Hann vann meiri afrek í mannréttindaálum blökkumanna en nokkur annar forseti fyrr eða síðar, og nýtti sér óspart píslavættisdauða forvera sinn, meðal annars í frægri ræðu sinni þegar lögin voru samþykkt á þingi. 

Hagsmunir Johnsons vega þó einir ekki það þungt að það eitt nægi til að leysa ráðgátuna um morðið á Kennedy.  

Ein af seinni tilgátum um málið færir rök að því, að slysaskot úr byssu öryggisvarðar í bíl fyrir aftan bíl forsetans hafi hitt hann í hnakkann og verið banaskotið.  


mbl.is Leynileg skjöl vegna morðsins á Kennedy birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í húsi óminnishegrans.."

Kom um hríð í dag í eitt af þeim húsum, þar sem er dagvist fyrir heilabilaða og unnið mikilsvert starf í þágu þeirra. Margt bar á góma, meðal annars þessar línur:

Við erum í húsi 

óminnishegrans, 

sem eirir hér engu, 

en er nokkuð fegra

en spjall, orðuð spurn

allt til spakmæla snjallra, 

sem lifnuðu og dóu?

Þetta´er leið okkar allra. 

 

Við erum í húsi 

elliglapa

en ætlum að þrauka

og tilveru skapa, 

njótandi undurs, 

umhyggju´og blíðu

og sagnasjóðs lífshlaupa´

í sælu og stríðu. 


Samkvæmt spánni vex frostið mikið næstu daga.

Þótt notkun á heitu vatni í Reykjavík sé "sögulegu hámarki" eins og er, og samt þurfi ekki að loka sundlaugum, er spáð mun meira frosti á næstu sólarhringum. 

Nýtt sögulegt hámark er því í kortunum og þar með mætti rökstyðja það að loka sundlaugum þegar það er komið, eða er það ekki?

Nýjustu fréttir herma að vísu að þetta hámark haldist ekki nema í 1-2 sólarhringa, svo að vonir hafa glæðst um að komast megi hjá lokunum. 

Í allri umræðunni er ekkert minnst á þeirri gríðarlegu orku, sem notuð er til framleiðslu á raforku fyrir stóriðjuna og er tekin á ferlega óskilvirkan hátt þar sem meira en 80 prósent orkunnar fer óbeisluð til einskis út í loftið. 

Þessi orka er samt tekin úr sömu orkuhólfum og hitaveituvatnið og í heild er um svonefnda "ágenga orkuvinnslu" að ræða, sem er annað orð yfir rányrkju.

En undir lok viðtals við orkumálastjóra í lok umfjöllunar RÚV í kvöldfréttatíma nefndi hún orðið þó orðið "sjálfbær þróun". 


mbl.is Ekki ástæða til að loka sundlaugum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð byrjun, en það þarf líka að auka birtu og flæði lýsingarinnar í næturmyrkrinu.

Fyrir aldarfjórðungi var farið út í kaldan útreikning á því hvert meðaltjónið væri við banaslys hér á landi. 

Miðað við uppreiknað dæmi í samræmi við verðgildi krónunnar er líklegt að þessi upphæð slái í einn milljarð króna. 

Þess vegna er það fagnaðarefni að Reykjavíkurborg mun, í öllum niðurskurðinum núna, lengja lýsinginguna í myrkrinu.   

En þó má betur gera, því að auk þessa er brýnt að bæta lýsinguna verulega allan tímann, sem myrkur er, og eyða með því illa lýstum stöðum og svæðum.  


mbl.is Ljósastaurar munu lýsa lengur í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnd veiði en ekki gefin.

Dæmin um sýnda veiði en ekki gefna eru ótal mörg í sögu hinnar hamslausu eftirsóknar jarðarbúa eftir vaxandi neynslu og tilsvarandi hagvexti.  

Sumt hefur reynst afbrigði af Frankenstein eins og til dæmis tilkoma plastsins, sem flest átti að leysa og hefur reyndar gert það í þeim mæli að þessi pistill er pikkaður á tölvu sem er úr því efni. 

Nú horfa menn ráðþrota á þennan uppvakning vera byrjaðan að éta allt lífríki jarðar innan frá og er hin plastumvafða Eldey eitt af nýjustu dæmunum. 

Þar hefur hin grandalausa súlumergð fallið fyrir nytsemi plastsins við hreiðurgerð, sem kostar líf margra fuglanna, sem flækjast og festast í þessu aðskotaefni og hljóta langdreginn og kvalafullan dauðdaga. 

Framundan sést fátt nema stjórnlaus innrás plast- og trefjaefna inn í okkur sjálf í formi örplasts, og plastið sækir meira að segja fram á jöklunum. 

Í pistli á undan þessum er minnst á kjarnorkuna sem öll orkuvandamál átti að leysa fyrir sjötíu árum en er í raun óendurnýjanleg auðlind. 


Sýnd veiði en ekki gefin.

Dæmin um sýnda veiði en ekki gefna eru ótal mörg í sögu hinnar hamslausu eftirsóknar jarðarbúa eftir vaxandi neynslu og tilsvarandi hagvexti.  

Sumt hefur reynst afbrigði af Frankenstein eins og til dæmis tilkoma plastsins, sem flest átti að leysa og hefur reyndar gert það í þeim mæli að þessi pistill er pikkaður á tölvu sem er úr því efni. 

Nú horfa menn ráðþrota á þennan uppvakning vera byrjaðan að éta allt lífríki jarðar innan frá og er hin plastumvafða Eldey eitt af nýjustu dæmunum. 

Framundan sést fátt nema stjórnlaus innrás plast- og trefjaefna inn í okkur sjálf í formi örplasts, og plastið sækir meira að segja fram á jöklunum. 

Í pistli á undan þessum er minnst á kjarnorkuna sem öll orkuvandamál átti að leysa fyrir sjötíu árum en er í raun óendurnýjanleg auðlind. 


mbl.is Hvað felst í „stórkostlegri vísindauppgötvun“?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður örvæntingu í orkumálum jarðarbúa afstýrt?

Gott ef það var ekki Albert Einstein, sem sagði fyrir einni öld, að þegar menn vildu bregðast við mistökum, væri það þýðingarlaust ef lausnin ætti að felast í því að nota sama hugsunarhátt og hefði valdið mistökunum. 

Þetta kemur í hugann þegar fréttir af sívaxandi orkukreppu jarðarbúa berast. 

Hugsunin, sem knúið hefur orkuskortinn áfram, er krafan um endalausan hagvöxt og endalausan vöxt neyslu, helst með veldisvexti. 

En um auðlindirnar, sem krafist er að verði nýttar æ skefjalausara, gildir máltækið að "eyðist, sem af er tekið" og þar með að með því að herða á neyslukröfunni er aðeins verið að bæta í hin upprunalegu mistök. 

Við kortlagningu á helstu auðlindum jarðar, sést að olía, kol, vatnsafl, jarðvarmi, etanol, kjarnorka og fleira koma til greina, en engin þeirra dugar til allsherjar lausnar. 

Meira að segja núverandi kjarnorkunýting með notkun plútóns, dugar ekki, því að plútóníum er aðeins til´í takmörkuðu magni, og því ekki endurnýjanleg orka á ferð þar til framtíðar. 

Í nokkra áratugi hefur verið rætt um að fara yfir í notkun þóríum til kjarnorkuframleiðslu, en engin lausn er í sjónmáli, enda hefur þóríum þann "galla", að ekki er hægt að búa til atómsprengjur með því að nota það.  

Sveltandi jarðarbúar mega ekki sjá af ökrum sínum til að rækta hráefni fyrir eldsneyti. 

Þegar kjarnorkuver komu til sögu fyrir um sextíu árum, var sagt að þarna væri komin endanleg lausn og að þess vegna þyrftu Íslendingar að flýta sér að nýta sem hraðast allt vatnsafl landsins til að missa ekki af orkustrætisvagninum!

"Stórkoastleg vísindauppgötvun" eru orð, sem hafa heyrst áður sem töfralausn, án þess að það hafi breytt neinu.  Best að anda með nefinu nú sem endranær. 

 

 


mbl.is „Stórkostleg vísindauppgötvun“ boðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafknúnum hjólastólum jafnvel stolið. Líka spotta Gísla á Uppsölum o.fl.

Líklega eru til ýmsar smásögur af svipuðum fyrirbærum og kerrunum í Bónusi, sem sagt er frá í tiðtengdri frétt á mbl.is

Fyrir nokkrum árum axlarbrotnaði síðuhafi og þurfti skömmu síðar að komast í byggingavöruverslun til að kaupa efni í geymsluskápa.  

Einhver benti á Bauhaus en þangað hafði síðuhafi aldrei komið frá upphafi og miklaði fyrir sér stærð og lengd verslunarinnar.

Var því þá bætt við upplýsingar um staðinn, að þar gætu fatlaðir átt aðgang að rafknúnum hjólastól . 

Þegar á hólminn var komið reyndist þetta rétt og skipti það miklu máli. 

Seinna kom að því að aftur yrði verslað, en þá brá svo við að versunin hafði gefist upp á þessari þjónustu sinni vegna þess að rafknúnu farartækjunum væri jafnharðan stolið!

Merkilegt fyrirbrigði í sjálfu sér, en kom þó ekki á óvart, því að þegar hús Gísla á Uppsölum var gert upp til að forða því frá eyðileggingu, var biðlað til þeirra, sem vildu skoða það, að hjálpa til við þá hugsun að allir gestir þar yrðu sjálfkrafa safnverðir. 

Þetta mistókst gersamlega, því að með ólíkindum var hve miklu lauslegu var stolið, nánast allt steini léttara. 

Meðal þess var snærisspotti einn með lítilli snöru á endanum, sem Gísli hafði fest efst í stigann, sem lá upp á loftið, þar sem hann bjó. 

Hann þjónaði þeim tilgangi að Gísli gæti notað handafl að hluta til að vega sig upp á skörina á stiganum. 

Þessi litli hlutur, sem var dæmi um kjör hins nær áttræða einbúa, var fljótlega horfinn, og þegar reynt var að setja annan svipaðan í staðinn, fór strax á sömu leið!  

Á undra skömmum tíma var allt lauslegt horfið, svo sem gmall jakki og dagblóð frá fimmta áratug síðustu aldar. 

Niðurstaðan varð sú, að hugmyndinni um safn, þar sem safngestir sjálfir væru safnverðir, varð að lúta í lægra haldi fyrir hinni furðulegu hnupláráttu margra gesta.  

 

 


mbl.is Bónus vill kerrurnar heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk ræður meira um þyngd sína en hæð.

Hver einstaklingur ræður nær engu um það hver hæð hans er og hver fótalengd hans er. 

Það litur því ekki vel ut frá sanngirnissjónarmiði að láta hávaxna og útlimalanga borga sérstaklega meira fyrir flugsæti en þá sem eru lægri og útlimastyttri. 

Nóg eru vandræði mjög hávaxinna samt vegna fyrirferðar. 

Hins vegar getur fólk ráðið talsverðu um þyngd sína, þótt það sé misjafnt. 

Holdafarið er hins vegar af misjöfnum orsökum og þeim oft ansi arfgengum.  

Hjá sumum getur verið mjög erfitt að ráða við það, og viðkomandi þarf kannski að líða meira en nóg fyrir það varðandi heilsufar, vellíðan og langlífi þótt ekki sé farið að bæta við það  einhverjum auka skatti eða refsingu. 


mbl.is Á hávaxið fólk að borga meira fyrir flugsæti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband