"Drungi í desember..."...og myrkrið er svo magnað..." Þetta verður að laga.

Reykjavík er nyrsta höfuðborg fullvalda ríkis í heimi og skammdegið því lengst og mest hér. 

Fyrir nokkrum dögum var lýst eftir endurskinsmerkjunum, sem áður voru miklu algengari en nú, en það er bara önnur hlið málsins. 

Hin hliðin er hið hættulega myrkur sem léleg lýsing gatnakerfisins ber með sér. 

Hvað er verið að spara hjá þjóð, sem býr yfir meiri og ódýrari raforku en allar aðrar?

Hið minnsta, sem þyrfti að gera, er að láta rannsaka hvert ljósmagnið er, miðað við önnur lönd, og bregðast almennilega við niðurstöðvum hennar, áður en það kostar meiri vandræði og fleiri slys. 

 


mbl.is Niðamyrkur og börn í hættu við Melaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veturinn réði meira um "Föðurlandsstríðið mikla" en flest annað. Sama nú?

Veðurfarið 1941 til 1942, allt frá leðju í haustrigningum til hörkufrosts yfir veturinn, réði einna mestu um gang innrásar Hitlers i Sovétríkin 1942. 

Veðurfarið stöðvaði sóknina og þegar Stalín brást við með vanhugsaðir allsherjar gagnsókn í desember, misheppnaðist hún að miklu leyti vegna þess hve ómögulegt var að framkvæma svo gríðarlega sókn að öllu leyti og mannfórnirnar urðu miklu meiri en ella. 

Bíða varð eftir því að sumarið kæmi til þess að Þjóðverjar gætu hafið stórfellda sókn sína til austurs 1942, og vetrarkoman réði mestu um hrakfarirnar við Stal´ngrad.

Þetta minnti mjög á hrakfarir Napóleons 1812 og þrátt fyrir allar framfarir í hernaði síðan 1942 ætti það ekki að koma neinum á óvart, þótt veturinn núna leik stórt hlutverk í Úkraínustríðinu.  


mbl.is „Hamagangurinn“ hefur ekki áhrif á hernað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnuglegur ferill.

Kunnuglegur ferill hefur verið í gangi undanfarin ár varðandi stórbrotnar hugmyndir virkjanafíkla um nýja sókn þeirra í þeim málum. 

Margt má finna hliðstætt við virkjanaæðið mikla fyrir tuttugu árum, en núna eru hugmyndirnar þó margfalt stórbrotnari og orðmyndin "risa" almennt notuð, enda í heild um að ræða margföldun á núverandi orkuframleiðslu. 

"Risavindorkugarðurinn" á Fljótsdalsheiði í næsta nágrenni Kárahnjúkavirkjunar yrði næst stærsta orkuver landsins og þessi risaorkuver samanlagt mjög í anda þess virkjanaæðis, sem ríkir á þessu landsvæði og virðist ætla að leiða af sér orkuöflun bæði neðanjarðar, á yfirborðinu og í lofti.  

Meira en þrjátíu risa vindorkuver sem þegar eru komnar á teikniborðið hafa leitt af sér eitt mesta kapphlaup fjárfesta í landakaupum sem um getur hér á landi í þeirri stórvaxandi eign á íslensku landi, sem færir eignarhaldið yfir landinu í hendur æ ríkari stóreignamanna, bæði innlendra og erlendra. 

Ferillinn er kunnuglegur.

Líkt og gert var með skýrslu iðnaðarráðuneytisins 1993 um virkjanakosti í vatnsafli og jarðvarma þar sem gefin var upp línan sem fylgt yrði, og hefur nú einfaldlega vindorkan bæst við. 

Þar fela stærstu áformin, lík orkuverinu á sjó út af Hornafirði, í sér allt að 15 þúsund megavött, eða ígildi 20 Kárahnjúkavirkjanir!

Og víða við strendur landsins er að finna álitleg svæði fyrir stóreignamennina. 

Flosi Ólafsson orti og söng á sínum tíma: 

Seljum fossa og fjöll. 

Föl er náttúran öll! 

Og landið mitt taki tröll! 

Flosi reyndist sannspár en skorti þó ímyndunarafl til að bæta við:

Seljum sjúklega mynd;

seljum ofstopavind! 

Seljum hafsvæðasvið, 

seljum allt landgrunnið!  

 

 


mbl.is Risavindorkugarður undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ronaldo leggur rækt við hugsanlegan svanasöng.

Christiano Ronaldo hefur þegar unnið sér ákveðinn sess í knattspyrnuheiminum, þótt ýmislegt mótdrægt hafi á daga hans drifið þegar styttist í lok glæsiferils hans. 

Einn af mörgum kostum hans sem hann ræktaði allra manna best, var hraði og snerpa. 

Það dugði honum svo vel, að meira að segja var hann látinn máta sig við besta spretthlaupara heimalandsins þegar best lét. 

Gallinn var bara sá, að hraði og snerpa er oftast það fyrsta sem byrjar að dvína með aldrinum. 

Ronaldo er látinn segja fyrstu setninguna í auglýsingunni um HM og Messi þá síðustu. 

Það er merki um stöðu þessara tveggja. 

Á HM í Katar hefur Ronaldo tekist vel að spila úr nýjustu spilum sínum, sem tengjast því, að vegna aldurs og reynslu geti hentað honum vel að nýta þá stöðu sem forystumaður liðsins.  

Nýja stórstjarnan Ramos getur látið sér það vel líka. Hann veit að tími hans muni óhjákvæmilega koma með aldrinum, svo ungur sem hann er nú. 


mbl.is Ronaldo er leiðtogi okkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafskútur eru hluti af farartækjaflotanum. Jafnvel fæturnir.

Ef taka á opinbert gjald af rafskútum sérstaklega eftir að þær hafa verið fluttar inn og borguð hafa verið af þeim þau gjöld, sem á innflutning þeirra eru lögð, þarf að horfa á málið allt í samhengi við kostnaðinn af notkun þeirra. 

Hver rafskúta þekur aðeins um hálfan 0,6 fermetra af malbiki eða 15 sinnum minna flatarmál en einkabíll. Hvert rafreiðhjól þekur um einn fermetra eða 10 sinnum minna en einkabíll. 

Þetta verður að skoða í samhengi við þann opinbera kostnað sem liggur í bílastæðum og gatnakerfi, því að hver rafskúta á ferð tekur aðeins örlítið brot af plássi, sem einkabíllinn þarf. 

Rafskútur eru nefnilega hluti af farartækjaflotanum og mætti kannski bæta fótum gangandi vegfarenda við í álagningu sérstakra opinbera gjalda á þau farartæki hvers manns sem þurfa gangstíga og önnur sérstök mannvirki til þess að koma að gagni. 

 


mbl.is Rukka gjald fyrir rafskútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hættan á stigmögnun stigmagnast.

Ofangreind setning er lýsandi fyrir það brjálæði, sem nútíma styrjöld kjarnorkuvelda ber með sér. 

Þessi lýsing á eðli hernaðarþátttöku var orðuð sem meginstef myndarinnar Catch 22 á sínum tíma á eftirminnilegan hátt.  Afbrigði af stefnunni MAD eða GAGA, sem tilvist kjarnorkuvopna hefur grundvallast á. 

Allt frá innrás Rússa í Krímskaga 2014 hefur vofa kjarnorkuógnar verið á sveimi eftir að breskur tundurspillir virtist stefna inn í landhelgi og Pútín gaf þá yfirlýsingu, að hann myndi ekki hika við að grípa til kjarnorkuvopna ef hernaðartæki NATO gerðu sig líkleg til beinna afskipta af herför Rússa.  

Úkraínumönnum finnst erfitt að sætta sig við það að í stríðinu núna fái að annars aðilinn að komast upp með beinan hernað á óvinalandi, þar með talið á almenna borgara og innviði eftir að NATO hefur hafnað beiðni Zelenskis um að lýsa yfir flugbanni yfir Rússlandi og opna með því leið að beinum átökum Rússa og NATO.  

Úr því sem komið er virðist augljóst að hvorugur stríðsaðilinn geti samþykkt vopnahlé þar sem hann fær öllum kröfum sínum framgengt. 

Gamla spurningin "að vera eða ekki vera, það er málið." 

Að vera sigurvegari eða ekki vera sigurvegari, það er málið. 

Og stjórnlaus stigmögnun er hrollvekjandi möguleiki. 


mbl.is Önnur árás hafi verið gerð á rússneskan flugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík unun og skemmtun, fyrri hálfleikur hjá Brasilíu og Suður-Kóreu!

Hvílíkir yfirburðir á öllum sviðum knattspyrnunnar hefur fyrri hálfleikur leiks Brasilíu og Suður-Kóreu verið! 

Það er óvenjulegt að telja það ráðlegt að hæla strax knattspyrnuleik, sem er aðeins hálfnaður, en en svo dýrlega skemmtun bauð þessi hálfleikur upp á, að það er eiginlega sama hvernig sá síðari verður, að hann verður lengi í minnum hafður. 

Neymar og félagar hafa sýnt þvílíka leikgleði og snilli, að einstakt má telja. 

Þetta er jú leikur milli tveggja liða, sem komust bæði upp úr undankeppni þar sem stórþjóðir á borð við Þjóðverja urðu að fara heim án þess að komast áfram. 


mbl.is Neymar snýr aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Malar-, leðju- og rykvegir úrelt fornaldarfyrirbæri.

Sú var tíðin fyrir nokkrum áratugum, að Ísland og Finnland skáru sig nokkuð úr nágrannaþjóðumsínum vegna þess að meirihluti vegakerfis landanna var með frumstæðum, mjóum, krókóttum og holóttum malarvegum. 

Einkum var íslenska vegakerfið viðundur í þessum efnum. 

Það gat varla talist kostur fyrir Finnana að eignast fyrir bragðið "fljúgandi Finnana", bestu rallökumenn heims, sem enn tróna á toppnum í HM i þeirri íþrótt.  

Nú er að verða liðinn fjórðungur 21. aldarinnar og þegar erlendir  ferðamenn eru komnir á þriðju milljón árlega eru íslensku malarvegirnir, sem enn tengja saman heilu landshlutana, orðnir að nátttröllum forneskjunnar í vegamálum. 

Dæmin eru mýmörg um allt land, Skógarstrandarvegur, Vatnsnesvegur og Bárðardalsvegur oft nefndir sem illfært og holótt leðsjusvað, þar sem vart sést´út úr augum fyrir ryki í þurrkatíð.

Er svo sannarlega kominn tími til að leita ítrustu ráða til að útrýma þessum úreltu fornaldarfyrirbærum.


mbl.is Vilja skoða samfélagsveg á Skógarströnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágur þyngdarpunktur og síðan allt hitt.

Margt er skrifað og skrafað um snilli Lionels Messis, en eitt er eiginlega aldrei minnst á eitt mikilvægt atriði, en það er fólgið í því hve lágur þyngdarpunkturinn er hjá honum þegar við lága líkamshæð bætast hinir stuttu fætur, þar sem knattleiknin nýtur sín á ofurhraða við þröngar aðstæður. 

Messi er eins og sérsmíðaður fyrir það að tifa ógnarhratt í gegnum þykkan skóg af fótum mótherja á aldeilis makalausan hátt með því að halda alltaf fullkomnu jafnvægi og ógnarhraða og geta síðan skotið á augnablikum, sem væru lokuð ððrum en honum í sömu aðstæðum. 

Þegar Pele er nú að kveðja, blossar upp samanburðurinn við hann  og Maradona.

Pele bjó yfir þeirri viðbót við knattleiknina og hraðann að vera einn allra besti skallamaður sögunnar. Það gerir samaburðinn erfiðari þegar meta skal, hvað einstakir eiginleikar eru vegnir og metnir.  


mbl.is Hvernig fer hann að þessu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er orðið af öllum endurskinsmerkjunum?

Hér á árum áður var rekin öflug áróðursherferð fyrir endurskinsmerkjum á öllum þeim vegfarendum sem voru gangandi og hjólandi í umferðinni. 

Rökin lágu í augum uppi, Ísland er á veturna dimmasta land Evrópu og því gat verið um líf og dauða og tefla. 

Fyrir viku kom fram í umræðu í tilefna af banaslysi í umferðinni, að verið hefði afar dimmmt á slysstað, og því hefur verið haldið fram í þeirri umræðu, að stórlega kosti á ljósmagn í umferðinni í Reykjavík. 

Ekki er lengra síðan en tveir dagar að síðuhafi var á leið akandi heim sín og mátti þakka fyrir að aka ekki tvívegis á fólk, sem gekk ótrautt á móti rauðu ljósi yfir gatnamot, klætt í dökkan fatnað, svo að nær ómögulegt var að sjá það. 

Í báðum tilfellum hætti þetta fólk beinlínis lífi og limum fyrir afar lítilfjörlegan ávinning. 

Síðuhafi hefur síðustu sex ár ferðast um á mismunandi farartækjum allt frá rafreiðhjóli upp í léttan jöklajeppa og átt leið um allar tegundir gatnakerfisins, götur, stofnæðar, reiðhjólastíga og gangstéttir og sýnileiki vegfarenda er alveg skelfilega lítill og farið minnkandi. 

Hvar eru nú öll endurskinsmerkin á fólki og farartækjum, sem svo mikið var barist fyrir hér fyrr á árum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband