Mikilfengleg landsköpun á "Gígastjaka" brýst út í upphafi umhverfisþings.

Tólfta umhverfisþing var að hefjast þegar þegar þessar línur eru ritaðar og er afar fróðlegt að þessu sinni, eins og heyrist strax í upphafi í setningarávarpi umhverfisráðherra, þar sem kemur fram að árangur er þegar orðinn vel mælanlegur á ýmsum sviðum í loftslagsmálum, hringrásarhagkerfi og friðlýsingum og fleiri aðgerðum í náttúruverndarmálum. 

Og það er engu líkara en að suður við Fagradalsfjall sé mikilfengleg náttúrukraftasýning í stórauknum krafti í syðsta gígnum á "Gígastjakanum" sem þar hefur myndast á gossprungunni ofan á kvikuganginum, sem hraunið kemur nú úr af auknum krafti, að minnsta kosti í bili.  


mbl.is Þokkalegur skjálfti í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknar mikil snjókoma kólnun veðurfars?

Aður hefur verið minnst á hið heimsþekkta atvik á Bandaríkjaþingi þegar stuðningsmaður Trumps kom eitt sinn í ræðustól á útmánuðum 2017 og henti snjóbolta fram í salinn með þeim orðum, að þessi snjóbolti sýndi ótvírætt, að hlýnun andrúmslofts jarðar væri lygi, spunnin upp af vísindamönnum, sem hinn nýkjörni forseti hefði sagt að ætti að reka með tölu og ráða "alvöru vísindamenn" í staðinn, sem kæmust að réttum niðurstöðum.   

Met snjókoma í norðausturríkjum Bandaríkjanna um þessar mundir var líka tekin sem dæmi um kólnun jarðar og sönnun þess að vísindasamfélagið hefði rangt við.

Bæta má því við, að fyrstu ár hlýnandi loftslags upp úr síðustu aldamótum voru snjókomumetin slegin á norska hálendinu.  

En þegar meta á svona viðburði getur verið gott að gæta að því að mikil snjókoma byggist ekki aðeins á lofthitanum, heldur miklu fremur á úrkomunni. 

Þannig getur miklu meiri snjó sett niður þegar hiti er nálægt frostmarki heldur en þegar það er mikið frost, og að oftast ræður úrkoman því miklu frekar en beinn loftkuldi, hvort snjóalög verða mikil. 

Gott dæmi um þetta voru miklir snjóavetur í Noregi eftir að hlýindaskeið gekk þar í garð um aldamótin, en engu að síður minnkuðu helstu jöklarnir ár frá ári, svo sem Folgefönn og Harðangursjökull vegna þess að hlýnun loftslagsins á vorin, sumrin og haustin olli miklu meiri bráðnun en svaraði til snjóalaganna. 

Jöklarnir hér á landi minnkuðu líka áfram, þótt stundum snjóaði mikið á veturna, svo sem á hálendinu norður af Mýrdalsjökli.   


mbl.is Rigndi meira en snjóaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómarinn er hluti af vettvangi viðureignar. "Gatmarkið" fræga.

Það skiptir ekki máli hver vettvangur íþróttakeppni er, að dómarinn og jafnvel starfsmenn eru hluti af honum. 

Það getur verið jafnt um velli fyrir knattleiki sem hringi fyrir bardagaíþróttier eða hlaupabrautir og atrennubrautir fyrir frjálsar íþróttir. 

Mörg fræg dæmi eru um slíkt og einnig það að þessi meginregla hafi ekki gilt, svo sem þegar nokkrir starfsmenn við endamark í langhlaupi á Ólympíuleikum vorkenndu svo hlauparanum, sem kom fyrstur að markinu en örmagnaðist á síðustu metrunum, að þeir studdu hann yfir marklínuna. 

Hlauparinn var dæmdur úr leik, en ef rétt er munað, fékk hann ekki aðeins miklu meiri frægð fyrir atvikið en ef hann hefði sigrað á löglegan hátt, heldur var honum veitt sérstök viðurkenning í sárabót. 

Í úrslitum 400 metra hlaupsins í Brussel var Guðmundur Lárusson í þriðja sæti á endasprettinum. 

Hins vegar vildi svo slysalega til, að af einhverjum ástæðum hafði endamarkið verið fært til frá því í hlaupinu í undanúrslitum, en gleymst hafði að má gömlu línuna sem lá yfir yfirborð brautarinnar út þegar ný lína var máluð um tíu metrum fjær og sett þar tilheyrandi marklína sem hlaupararnir slitu þegar þeir hlupu í gegnum markið. 

Guðmundi yfirsást þetta og kastaði sér fram sem þessu svaraði of snemma í lok hlaupsins og féll úr þriðja sæti niður í fjórða. 

Það var afdrifaríkur munur á því, því að þriðja sætið er verðlaunasæti og skilar viðkomandi á verðlaunapall, en fjórða sætið ekki. 

Annar bardagi Muhammads Ali og Joe Frazier byrjaði með látum í fyrstu lotu, og þegar um 20 sekúndur voru eftir af lotunni, kom Ali feiknalegu höggi á Frazier, svo að hann riðaði við, vankaðist og skjögraði afturábak. 

Ali stökk á eftir honum og hóf höggahríð, en í þeim svifum stökk Joe Perez dómari inn á milli þeirra til að binda enda á lotuna, fannst hann hafa heyrt í bjöllunni. 

Stutt hlé varð á bardaganum þegar Perez áttaði sig á því að í raun voru 13 sekúndur eftir, og leiddi því kappana saman á ný. 

En þarna fékk Frazier dýrmætan tíma til að ná áttum, og þrettán sekúndurnar voru ekki nægur tími til þess að Ali gæti klárað sitt upplagða færi. 

Margir telja að Ali hefði ekki aðeins slegið Frazier niður ef dómarinn hefði ekki stöðvaði hann, heldur hreinlega klárað bardagann. 

Fyrir úrslit bardagans skipti það ekki máli, því Ali vann öruggan sigur á stigum í lokin í þeim bardaga við Frazier þar sem hann var bæði léttastur og tæknilega bestur og hraðastur í bardögunum þremur við "Smoking" Joe.

"Gatmarkið" er heiti á marki, sem skorað var hjá Valsmönnum í þýðingarmiklum leik á fyrri hluta fimmta áratugarins. 

Síðuhafi var meðal áhorfenda, sem rifust um þetta mark þá og æ síðan. 

Það var sunnan slagviðri og allt, völlurinn, boltinn og markið, rennandi blautt. 

Skotið var af löngu færi að Valsmarkinu og bar vindurinn boltann þannig að hann datt niður þétt við þverslána. 

Síðan hafa menn skipst í tvo hópa varðandi það hvort boltinn fór inn markið einni boltabreidd frá þverslánni að utanverðu, eða hvort hann fór boltabreidd frá þverslánni að innanverðu niður í gegnum þaknetið. 

Markvörðurinn var staðfastir á því að hið síðarnefnda hefði verið raunin, því að hann hefði verið með hendurnar alveg upp við þverslána og boltinn hefði öruggleg ekki farið þar inn. 

Þegar dómarinn dæmdi þetta gilt mark varð allt vitlaust, og æstir leikmenn hálf drógu hann til þess að skoða gat, sem var á þaknetinu alveg þétt við þverslána þar sem boltinn gat hafa farið inn í markið "bakdyramegin."  

En engu varð um þokað þótt á það væri bent að boltinn hefði verið það blautur og þungur og komið það hátt úr lofti, að hann gæti hafa rofið fúið og feyskið rennblautt þaknet. 

Ekki er hægt að afsanna með öllu að boltinn hafi hitt á gat, sem var komið þarna áður en leikurinn hófst. 

Styrkleiki netsins var aldrei prófaður svo að ekki var heldur hægt að afsanna að boltinn hefði rofið þaknetið. 

Þótt síðuhafi væri í kjörstöðu til þess að sjá hvort boltinn fór utan eða innan við þverslána inn í markið, treystir hann sér ekki til að segja af eða á um það. 

Málið verður aldrei upplýst til fulls og markdómurinn mun standa um aldir alda. 

Dýrasti dómaraúrskurður íþróttasögunnar er líklega "the long count" í bardaga Gene Tunney og Jack Dampsey l927 sem var annar af tveimur "million dollar gate" bardögum þeirra um heimsmeistaratitilinn í þungavigt í hnefaleikum. 

Dempsey hafði fengið því skilyrði framgengt að nýupptekin regla um talningar yrði í gildi, þess efnis, að ef annar keppandinn fengi talningu vegna rothöggs, skyldi hinn keppandinn flýta sér í gagnstætt horn og bíða þar uns dómarinn leyfði áframhald bardagans. 

Þegar Dempsey kom þungu höggi á Tunney seint í bardaganum, svo að hann hékk í köðlunum, gleymdi Dempsey hins vegar hinni nýju skipan, og varð svo seinn í hornið, að alls fékk Tunney 14 sekúndur til þess að jafna sig, standa upp, og ljúka bardaganum með sigri á stigum. 

Síðar var reynt að afstýra svona uppákomum með því að talning hæfist strax og keppandinn lægi í gólfinu og að dómarinn notaðist við sérstaka tímamælingu starfsmanns við hringinn sem kæmi í veg fyrir svona atvik. 

Því gleymdi hins vegar hringdómarinn Jersey Joe Walcott í seinni bardaga Ali og Liston 1965 og úr varð enn lengri talning og arfa mistök Jersey Joe urðu til þess að hann dæmdi aldrei í hnefaleikum eftir það.   

 


Stórglæsilegt afrek á skjánum.

Það var ekkert annað en afrek sem blasti við á sjónvarpsskjánum í nótt hvernig Húsvíkingum tókst að vinna úr þeirri óskastöðu (óskarsstöðu) sem þeir komust í á Óskarsverðlaunahátíðinni.  

Hvílík landkynning fyrir okkur einmitt þegar mest þarf á því að halda að missa ekki sjónir á ljósinu, sem er að birtast við enda ganganna sem við höfum verið í á árum kófsims.  

Til hamingju, Húsvíkingar og Íslendingar!


mbl.is Húsvíkingar sáttir þrátt fyrir engan Óskar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta túristagos sögunnar iðar í skinninu að rétta þjóðarskútuna.

Ætli orðið túristagos hafi ekki heyrst fyrst árið 1970 þegar Hekla tók upp á því að gjósa, og vera svo vinsamleg að búa til afar aðgengilegt og hæfilega stórt gos í svonefndum Skjólkvíum í norðvesturhlíð sinni, svo að auðvelt var að komast að hraunstraumnum þaðan. Geldingadalagos 25.ap 2021

Á þessum árum var ferðamannastraumur hingað til lands aðeins brot af því sem síðar varð þegar almenningur átti mun meiri kost á að njóta slíks munaðar en nú er. 

Það var ekki fyrr en 2010 í Eyjafjallagosinu og Grímsvatnagosinu þar á eftir sem ferðamannasprengjan mikla sprakk út þrátt fyrir að í hvorugu gosinu væri jafn gott að komast að gosstöðvunum í návígi. Geldingadalagos gígur 25.4.2021

Holuhraunsgosið var of langt í burtu og óaðgengilegt til þess að verða túristagos. 

En nú er komið fram eldgos, sem hefur þann stóra kost að vera nær mesta þéttbýli landsins en nokkurt annað gos í sögunni. 

Þegar við það bætist að gosið er bæði stöðugt, enn sem komið er, og býður upp á mikið og fjölbreytt sjónarspil samfara flottum sífelldum breytingum, yfirskyggja þessir kostir allir það, að hvað gosið er tiltölulega lítið miðað við flest eldgos síðustu áratuga. 

Í ferð á gosstöðvarnar með þyrlu í dag var veðrið bjart og aðstæður að mestu leyti hagstæðar á þeim hluta gosstöðvanna sem snúa til norðusr á móti vindáttinni. 

 Ef þær vonir margra rætast að þetta gos verði langvinnt, þótt ekki væri nema álíka langt og Surtseyjargosið 1963-67, er hér komið upp í hendur okkar hvalreki á þeim tíma, sem mest þörf var á honum á þessum farsóttarárum. 


mbl.is Lokaði augunum í þyrluflugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garðarnir í Þingeyjarsýslu og hellarnir á Suðurlandi upphaf nýrra staðreynda?

Allt fram undir síðstu aldamót voru hellarnir við Ægissíðu og Laugarvatnshellar nokkurn veginn það eina, sem almennt var vitað um af þeim toga, og tuga kílómetra langir landamerkjagarðar á heiðum í Þingeyjarsýslu voru óþekktir í umræðunni. 

Að þessi mannvirki gætu varpað ljósi á þá miklu efnahagslegu velmegun sem ríkti á Íslandi á Þjóðveldisöld virtist mönnum hulið, og ekki síður, að hún væri af völdum hlýrra veðurfars en síðar varð. 

Enn annar þáttur í þessu var sú rányrkja á skógum, kjarri og graslendi, sem þegar var byrjuð að valda hnignun landsgæða á síðari hluta Þjóðveldisaldar og verða sjálfstæði þjóðarinnar að aldurtila. 

Áður en það gerðist stóðu auðlindirnar undir ríkidæminu sem hafði mannafla til að gera þessi miklu mannvirki, en varð í formi rányrkju að orsök mikils samdráttar þegar loftslag kólnaði allt fram undir 1890. 

Íjósi þessa eru árangursríkar hellarannsóknir mjög spennandi og mikilvægar fyrir skilning okkar á þjóðfélagi fyrri alda. 

Í tengslum við 50 ára afmæli afhendingar handritanna hefur efnahagslegt ríkidæmi á höfðingjasetrum á tímum ritunar handritanna verið nefnt sem einn stærsti áhrifavaldurinn. 

Slíkt er ekkert einsdæmi. Ekki þarf annað en að kanna undirrót þess að Harpa var reist á okkar tímum. Það er ekki tilviljun að það gerðist í gróðabólunni miklu á fyrstu árum þessarar aldar. 

   l


mbl.is Mergð manngerðra hella í Odda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmislegt sem gengur ekki upp.

Á sama tíma og hægt er að byrja að telja vikurnar niður, sem eftir eru í heimsfaraldrinum hér á landi og reynt að verjast því að ný bylgja smita fari af stað,  má lesa fréttir eins og þá sem þessi pistill er tengdur við. Eitthvað sem virðist ekki ganga upp. 

Fleira virðist ekki vera að ganga upp.  Nýbúið er að segja frá þúsundum umsókna um lóðir á Selfossi og fólksflutningum þangað, sem jafngilda þjóðflutningum á íslenskan mælikvarða. 

Svipað virðist gilda um það fyrirbæri og þjóðflutningana frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands fyrir 1961 og lýst var á þeim tíma með orðunum að "fólkið kaus með fótunum."  


mbl.is Skemmdarverk og mikil óregla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Litlu leigubílarnir" sem voru svo duglegir á sjöunda áratugnum.

Kröfur til sætafjölda í bílum af millistærð og "fullri stærð" allt fram á áttunda áratug síðustu aldar fólust meðal annars í því að þeir mættu bera sex manns, þar af þrjá í framsætisbekk. Simca Ariane  

Þetta olli því að bílar allt niður í Ford Consul og Zephyr og Fiat 1800 voru með heila sætisbekki frammi í.  Höfuðástæðan fyrir því að þetta gekk upp var þó hvorki fótarými fyrir þann sem sat í miðjunni með fyrirferðarmikinn gírkassann fyrir framan sig og óþægilegt set, heldur var ekki komin bílbeltaskylda í löggjöfina.  

Mercedes Benz 180, 190 og 220 og Simca Ariane, sem sjá mátti í leigubílaakstri og voru furðu duglegir og rúmgóðir fyrir fimm.Mercedes-Benz_180_B_1961

Dálítið merkilegt því að þótt þeir voru þetta breiðir að innan, voru þeir þó mjórri að utanmáli en smábílar á borð við Yaris eru á okkar tímum. 

Af þessum bílum báru Mercedes Benz "ponton" 190 og Simca Ariane af hvað snert frábæra hönnun, sem skilaði því að rými og set fyrir fjóra á pari við það sem best gerist hjá mun stærri bílum í dag. 

Inn í þetta umhverfi á Íslandi komu síðan tveir bílar úr spánnýrri átt 1965-66, Toyota Crown fólksbíllinn og Landcruiser jeppinn, fyrsti sex strokka jeppinn, sem hægt var að fá á gjafverði á Íslandi 1966 vegna þess hvað hjólhafið, vegalengdin milli fram-og afturöxuls, var stutt.

Eins og yfirleitt er um bíla úr nýrri átt, urðu japanskir bílar fyrir miklum fordómum sem einhvers konar "austrænt drasl" svipað og síðar varð um bíla frá Austur-Evrópu eftir að járntjaldið var löngu fallið en samt talað um "austantjaldsdrasl."

Toyota og aðrir japanskir framleiðendur áttu heldur betur eftir að afsanna hrakspár með því að slá í gegn á vestrænum mörkuðum allt frá Bandaríkjunum til Íslands og ryðja burtu gamalgrónum metsölubílum. Toyota Crown

Toyota Crown var ekki aðeins afar sterkbyggður hjóðlátur og vandaður bíll, heldur hagkvæmur í rekstri og með mjúkri og góðari fjöðrun þótt afturöxullinn væri heil hásing.

Hann var svosem frekar gamaldags og til dæmis byggður á sérsaktri grind en ekki meðgin sjálfberandi byggingu eins og allir keppinautarnir. 

En notagildið, stærðin, endingin og vönduð smíð sáu um að sigurbraut japanskra bíla hófst hér á landi.  

Það er fagnaðarefni að varðveita jafn mikinn tímamótabíl í íslenskri bílasögu og þennan fyrsta Toyotabíl á Íslandi, hinn fyrsta í japönsku byltingunni sem hófst rúmri hálfri öld. 


mbl.is Fyrsti Toyota-bíllinn á Íslandi til umboðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lífið er núna!"

Ofangreind orð eru kjörorð hóps fólks, sem hefur aðstöðu í húsi Krabbameinsfélags Íslands og á það sameiginlegt að hafa orðið að fást við krabbamein og afleiðingar þess. 

Í góðu og mjög athyglisverðu viðtali við Svavar Pétur Eysteinsson sem þekktur er undir listanannsheitinu Prins Póló í Morgunblaðinu í dag er rætt við hann um krabbamein sem hann berst við og í þvi orðar hann þá hugsun þannig að hann hugsi bara um einn dag í einu og að rækta það, sem hann nefnir "núvitund". DSC09509

Tilviljun olli því að síðuhafi átti leið framhjá aðsetri þessa hóps í húsi Krabbameinsfélagsins fyrir þremur árum og rabbaði stuttlega við einn af skjólstæðingum hópsins, sem útskýrði hið mikilvæga gildi kjörorðsins "Lífið er núna" og hugtaksins "núvitund."

Hvort tveggja felur í sér hugsun sem hefur almennt gildi í lífinu og í framhaldinu kviknaði hugmynd að ljóði og lagi um þessa hugsun, sem Svavar Pétur lýsir í viðtalinu í dag.

Lagið og ljóðið hafa verið í rólegri vinnslu síðan 2018, enda er viðfangsefnið vandasamt, en í tilefni af viðtalinu og þökk til Svavars Péturs birtist textinn hér í núverandi mynd, með fyrirvara um frekari breytingar:    

 

LÍFIÐ ER NÚNA. (Með sínu lagi) 

 

Missum ekki´á hammingjuna trúna!

Munum, að lífið er núna!

 

Er andstreymi og áföll okkur þjaka

til úrræða og varna þarf að taka

og þá sést oft, að þetta´er ekki búið; 

þau eiga saman, hamingjan og núið. 

 

Og þótt hamingjan sé ekki alltaf gefin;

og óvissan sé rík og líka efinn

munum er við æviveginn stikum, 

að ævin, hún er safn af augnablikum. 

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver.  

Hvort margir góðir dagar koma´er óvíst enn. 

En fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

"Svo lifir lengi sem lifir" segja menn.  

 

Því sérhver dagur svo einstakur er; 

kemur ei aftur, við verðum hans að njóta; 

að gera gott úr öllu eigum við hér; 

í ást og kærleika framtíðina´að móta. 

 

Er hugrökk örkum að auðnu í lífi hér; 

æðruleysis og þolgæðis skal leita,

en reyna´að breyta því sem breytanlegt er 

í heitri bæn og trú, sem frið munu veita.  

 

Hver andrá kemur og hún fer

og einn og sér er dagur hver. 

Missum ekki´á hamingjuna trúna, 

því fjársjóð geymir fortíðin, 

sem felur í sér vísdóminn: 

Með bæn í hvert sinn sköpum hamingjuna núna!

 

Missum ekki´á hamingjuna trúna!

Lífið er dásamleg gjöf

og lífið er núna!


mbl.is Hugsa um einn dag í einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræðilegt mikilvægi, fegurð og gildi eldgosa fer ekki eftir stærðinni.

Þrátt fyrir einstaka töfra sína er gosið í Geldingadölum enn með hinum smæstu á síðustu öldum.

Hraunið er að skríða yfir einn ferkílómetra eftir rúmlefa eins mánaðar gos, en til samanburðar varð hraunið í Holuhraunsgosinu 85 ferkílómetrar. 

Kröflueldar skiptust í nokkur misstór gos, og voru sum þeirra ekki stór, En sennilega hefur ekkert eldgos skilið eftir sig jafn mikla vitneskju fyrir jarðvísindamenn enn sem komið er. 

Nú gerir gosið við Fagradalsfjall sig líklegt til að færa jarðfræðingum alveg nýja vitneskju, og eftir Kröflueldana má sjá, að það er ekki stærðin sem ræður um mikilvægi eldgosa. 

Og stærðin ræður heldur ekki öllu um fegurðina eða ýmsa tækni, sem tengjast eldgMeð nýjustu myndatöktækni, svo sem með drónum og upptökum allan sólarhringinn er Geldingadalagosið orðið eitt hið fallegasta í sögunni. 

Það urðu reyndar Kröflueldar líka á sínum tíma, því að það var þess eðlis að þeirra tíma myndatökutækni úr lofti tók miklum framförum. 

Í þeim gosum var til dæmis í fyrsta sinn notuð sú aðferð, að flogið var með jarðfræðing eftir allri gossprungunni og tekin upp beint samfelld lýsing hans á því sem fyrir augun bar. 

Jarðfræðingarnir, sem urðu þjóðþekktir í myndaútsendingum frá gosunum, voru meðal annarra Páll Einarsson og Axel Björnsson. 

Með þetta eina, langa myndskeið var síðan flogið óframkallað á korteri til Akureyar og sent þaðan með Fokker suður;  ekki þurfti að klippa og hljóðvinna það, virkaði það eins og bein samfelld útsending. 

Áhorfendur á þeim tíma gátu með engu móti ímyndað sér að svona stutt liði milli upptöku yfir hálendinu fyrir norðan Mývatn og útsendingar í Sjónvarpinu syðra, jafnvel á innan við klukkustund. 


mbl.is „Þetta höfum við ekki séð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband