8.5.2021 | 13:12
Mikilvægt gagnasafn um gang eldgoss.
Heimaeyjargosið 1973 var mikilvægt fyrir það að vegna uppsetningar myndavélar á Klifinu var hægt að fylgjast miklu samfelldara og betur með því gosi en hafði verið hægt fram að því.
Tveir gallar voru þó á gjöf Njarðar. Það liðu nokkur dægur þar til myndavélin var komin upp, og á þeim tíma var ekki hægt, vegna gríðarlegs kostnaðar, að láta upptökutæki malla allan tímann eins og nú er hægt.
En nálægð góðra kvikmyndagerðarmanna í Eyjum, svo sem Páls Steingrímssonar og Heiðars Marteinssonar gaf þó af sér mmyndir af mikilsverðum augnablikum.
Eyjagosið byrjaði upp úr miðnættti 23. janúar og á meðfylgjandi mynd, sem var tekin eftir birtingu, sést, að upphaflega gaus í rauðum eldvegg, sem náði allt frá flugbrautarenda hægra megin á þessari mynd og út í sjó til norðurs.
Þegar myndin er tekin hefur sprungan lokast það mikið nyrst og syðst, að aðeins gufumökkur kemur upp, en eldurinn er að aukast og safnast fyrir norðaustantil í Helgafelli og á eftir að dragast enn meira saman í einum stórum gíg, sem hið nýja Eldfell myndaðist síðan úr og gaus í allt til gosloka í júlíbyrjun eftir fimm mánaða gos.
Fróðlegt verður að sjá, hve lengi á eftir að gjósa við Fagradalsfjall og hvernig gangur gossins verður.
Núna eru bæði mannafli og tækni allt önnur en voru 1973 þótt eftir sem áður næðust ekki myndir af allra fyrstu eldtungunni sem braust upp ú jörðinni við Fagradalsfjall, líkt og náðist í Kröflugosinu 1984.
Að frátöldum fyrsta gegnumbroti eldins í blábyrjun við Fagradalsfjall nást nú mikilsverðari myndskeið af gangi gossins og breytingum á því en dæmi eru um áður, og er það mjög mikilsvirði á alla lund, bæði vísindalega og sögulega.
![]() |
Allt öðruvísi í dag en í gær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2021 | 21:27
"Hlauparaveikin". Lækning: Ganga á sandölum og stigahlaup.
Maðurinn var ekki skapaður til að hlaupa tugi kílómetra á sléttu malbiki. Mikið rétt, en samt er til fullt af fólki, sem gerir þetta árum saman án nokkurra slæmra áhrifa á líkamann, að því er séð verður.
Síðan eru aðrir, þeirra á meðal síðuhafi, sem fengu að finna fyrir óþyrmilegum afleiðingum af miklum hlaupum um ævina.
Fyrra skiptið var árið 2003 þegar það var eins og að einhverjar flísar eða glerbrot hefðu stungist upp í iljarnar, þannig að það var alveg óskaplega sárt, líkt og að það væri byrjað að grafa í þessu.
Læknisskoðun leiddi í ljós það sem læknirinn nefndi "hlauparaveikina". Við síendurteknar lendingar líkamans á iljunum í hlaupum, átu neðstu beinin sig í gegnum holdið í þófunum,
Lækningin fólst í sérstöku innleggi, sem dreifði líkamsþunganum frá hinum aumu blettum.
Fyrir nokkrum árum týndust innleggin en þá var ég farinn að ganga mest á sandölum, og hef verið í lagi síðan.
2005 kom síðan þriðja aðgerðin vegna bilunar í hnjáliðum með yfirlýsingu læknis um, að hnjáliðirnir væru að þrotum komnir vegna óhæfilega mikilla hlaupa minna í gegnum tíðina.
Hann vitnaði í viðtal við Helenu Eyjólfsdóttur, sem ólst upp í Stórholtinu eins og ég, en sagðist ekkert hafa kynnst mér, vegna þess að hún hefði aldrei séð mig nema hlaupandi.
Hnén væru ekki sköpuð fyrir þúsundfaldar lendingar í endalausum hlaupum á hörðu undirlagi, til dæmis í allt mörgum æfingum í innanhússfótbolta á steinsteyptu gólfinu í KR-húsinu árum saman.
Dapurlegt fyrir mann, sem var skráður í Fram tveimur mánuðum fyrir fæðingu að láta KR eiga þátt í eyðileggingu hnjánna.
Nú yrði að skipta um báða hnjáliði.
Þegar spurt var um möguleika á að láta hnén lafa eitthvað lengur var svarið: Kannski, en með því að banna hlaup hér eftir.
Þegar heim kom, var samt niðurstaðan, að hann hefði ekki bannað mér að læðast hratt.
Og með því að hlaupa upp stiga, væri ekki hlaupið með hörðum lendingum, heldur væri þetta klifur er tvær tröppur yrðu teknar í skrefi.
Núna, 16 árum seinna, eru hnén skárri en 2005 ef eitthvað er.
Læknirinn kallaði mig til sín í fyrra, steinhissa á þessu, en þegar ég lýsti stigaklifrinu, hæfilegum hjólreiðum á rafreiðhjóli með handgjöf auk reglulegrar hraðgöngu tvisvar í viku, sagði hann þennan árangur styðja nýjar kenningar varðandi þann árangur sem allar hreyfingar til að styrkja fæturna á svæðunum kringum hnjáliðina geta borið með sér fyrir hina veikluðu liði sjálfa.
Einnig sálrænt gildi þess að segja við sjálfan sig þegar mann verkjar í hnén: "Nú er ég sárhnjáður." Þá fer maður að brosa og gleymir verknum.
![]() |
Af hverju fær fólk tábergssig? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2021 | 16:02
"Svona er Ísland: Ýmist þensla eða slaki."
Í meira en heilt ár hefur þjóðin þráð það ofurheitt að lífga ferðaþjónustuna við eftir svartnætti kófsins.
Og loksins núna sést ljósið við enda ganganna, og ekki bara það, í viðbót við það að geta farið að slaka á sóttvarnaraðgerðum fáum við þetta líka besta túristagos allra tíma upp í henurnar.
En gleðin virðist geta orðið takmörkuð, því að nú bregður svo við að aðsókn ferðamanna virðist ætla að verða of mikil til þess að hægt sé að anna þeirri greiningu svonefndra PCR-prófa sem framkvæma þarf til þess að þeir fái að komast ferða sinna hér á landi.
Einhverjir myndu kalla þetta lúxusvandamál, en vandamál er það nú samt.
Til hughreystingar má kannski raula upphaf lags og texta sem hefur verið gert um svona fyrirbæri undir heitinu
SVONA ER ÍSLAND.
Svona er Ísland; svona er Klakinn;
upp og niður
alla tíð;
það er ýmist þenslan eða slakinn
með bresti´og braki
ár og síð.
Stundum er gaman; stundum er vandi;
stundum menn botna
engu í
en una því að loft sé lævi blandið
og elska landið
og lifa´af því.
Og ef allt fer í steik og köku´og klúður,
menn klóra´í bakkann, bæta sig,
það gengur betur næst."....
![]() |
Útlit fyrir að flöskuháls myndist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2021 | 06:34
"Bíll kemur manni þó á milli staða..."
Bandaríski sjónvarpsmaðurinn Bill Maher er oft dæmigerður fyrir það sem stundum er sagt um menn, að "oft ratist kjöftugum satt á munn".
Í alllöngu spjalli sínu í síðasta þætti varð honum tíðrætt um það rafmyntahagkerfi, sem verður sífellt fyrirferðarmeira í nútíma efnahagsbúskap heimsins.
Maher sagði að hvorki hann, viðmælendur hans í þættinum né áhorfendur hans hefðu minnstu hugmynd um hvernig þessar rafmyntir væru nú orðnar svo fyrirferðarmiklar, ekki aðeins í þjóðabúskapnum, heldur líka í sívaxandi hluta af orkubúskap þjóðanna í formi þeirra óheyrilegu notkunar raforku, sem rafmyntakerfin krefðust.
Við Íslendingar verðum þessa áþreifanlega varir í gegnum orkueyðslu gagnaveranna, sem hér eru.
Maher nefndi Hrunið 2008 sem dæmi um efnahagsbólu, sem óx og óx næsta stjórnlaust og kollkeyrði síðan bankakerfið þegar í ljós kom að öll þessi fáránlega stóru verðmæti voru að mestu réttnefnd hugarfóstur, ímynnduð verðmæti skuldaspilaborgar.
Maher hefði líka getað nefnt orsök stóru heimskreppunnar sem skall yfir heiminn með stórflóðsþunga haustið 1929 þegar hátimbrað hlutabréfkerfi sprakk með gríðarhvelli og stærstur hluti þess hrunds hafði falist í huglægum verðmætum.
"Þegar maður ber hlutlægt verðmæti eins og bíl saman við svipað huglægt verðmæti og rafmynt" sagði Maher, "verður maður agndofa og hvumsa og skilur hvorki upp né niður. Bíllinn er áþreifanlegur og flytur mann þó fjandakornið á milli staða."
![]() |
Stofnandi rafmyntar milljarðamæringur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2021 | 22:14
Fordómar reyndust aðalhindrunin fyrir rafhjólabylgjunni.
Hér kemur framhald af frásögn af notkun á vélknúnum hjólum, sem hófst hér á síðunni í gærkvöldi.
Þar var komið sögu, að reynslan af notkun rafreiðhjóls, sem skolaði á Akureyri fyrir tilviljun upp í hendurnar á reykvískum öldungi, var sú, að í þau 56 ár sem liðin voru frá daglegri reiðhjólsnotkun hans sem tánings, hafði hann smám saman byggt upp fordóma, sem hrundu eins og spilaborg þegar hann fór að nota hjólið, af því að það var óseljanlegt vegna bilunar í rafhlöðunni.
Í fyrstu var skoðaður sá möguleiki að selja hjólið á hálfvirði.
En aftur kom tilviljun í spilið, sem sé sú, að einhver maður auglýsti í blaði að hann byði nokkur ný rafhjól til sölu á hálfvirði
Af því að rafhlaðan er helmingur af virði svona hjóls, var hjólið mitt orðið algerlega verðlaust og því eina vonin, að gefa því tækifæri og sjá til hvort hægt væri að hressa upp á rafhlöðuna.
Í gær var sagt frá því hvernig rafeindavirkinn Gísli Sigurgeirsson fann út, að það var svo nauðalítið, sem var að rafhlöðunni, að einfalt reyndist að koma í hana fullu afli.
Og reynslan af notkun hjólsins frá útmánuðum til miðsumars ruddi burt langri röð af fordómum.
1. Veðrið er alger hindrun. Rangt. Nú var komin á reynsla af því að það var fært nær alla daga og ekki féll úr vika. Og nú rifjaðist upp að maður hjólaði sem unglingur í öllum veðrum, og samt var ekki hægt að setja negld vetrardekk undir gripinn.
2. Hjólið er allt of hægfara. Rangt: Fimm mínútum lengri tíma tók til að klæða sig í viðeigandi fatnað og hjálm en á bíl töpuðust þær við að leita að bílastæði. Tíminn frá Borgarholti í Grafarvogshverfi niður í gamla miðbæ eða Útvarphúsið var aðeins 10 mínútum lengri en á bíl, enda leiðin um Geirsnefið styttri og aldrei töf í umferðarteppum.
3. Drægnin of lítil. Rangt: Sett á auka rafhlaða og málið dautt.
4. Ómögulegt að koma kófsveittur á áfangastað. Rangt: Ferðin skipulögð þannig að rafaflið eitt var nýtt síðustu fimm mínúturnar með því að nota handgjöfina eina en ekki fæturnar.
5. Alltof lítið rými fyrir farangur á hjólinu. Rangt: Í farangursgeymslu á stýrinu og tveimur farangurstöskum á bögglaberanum auk bakpoka á bakin er farangursrýmið alls 130 lítrar eða álíka mikið og á litlum bíl.
6. Leiðinlegur og vosbúðarmikill ferðamáti: Rangt: Miklu skemmtilegri ferðamáti og vélhjólastígvél og regnheldar buxur og jakki halda manni þurrum.
Með því að geta notað rafaflið beint með handgjöfinni var hægt að stilla áreynslu á slitin hné í hóf að vild.
Ótalinn var sparnaðurinn, orkukostnaður aðeins tíu krónur á hverja 100 kílómetra þessa 430 kílómetra, og svona hjól án skyldugjöld né sérstök réttindi, bara gaman.
Við blasti að hrinda í framkvæmd almennilegri kynningu í fjölmiðlum á þessum ferðamáta, eins og rakið var í pistlinum i gær og ná nokkrum áföngum:
Að fara á svona hjóli frá Akureyri til Reykjavíkur algerlega hjálparlaust og með ótengda pedala og þar með ekkert fótaafl aðeins rafafl,-
vera í tölvu- og símasambandi að vild allan tímann,-
eyða innan við 100 krónum í raforku alls -
vera innan við tvo sólarhringa á leiðinni þótt leiðin yrði að liggja fyrir Hvalfjörð af því að reiðhjól fá ekki að fara um göngin -
og setja Íslandsmet í drægni -
á einni hleðslu -
og á einum sólarhring.
Þetta verður rakið í framhaldspistli.
Að sjálfsögðu þyrfti að stunda nauðsynlegar prófanir og æfingar áður en lagt yrði í hann.
![]() |
Rafhjólabylgjan rétt að byrja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2021 | 15:21
Víða skortur á framsýni og skipulagi í skógrækt.
Gildi skógræktar og landgræðslu hefur vaxið með hverju ári samfara aukinni umræðu um loftslagsvá og skal út af fyrir sig ekki dregið úr mikilvægi þess.
Samt kemur fram að síðan í brunanum mikla á Mýrum fyrir rúmum áratug hafi nokkurn veginn ekkert verið gert til þess að huga að afleiðingunum, brunavörnum og skipulagi í skógrækt og gróðurrækt hér á landi, hvorki í skipulagi skógræktarsvæða, eldvarnarbúnaði, tilhögun né öðru.
Hér á síðunni hefur verið bent á ýmis dæmi þess, að skógur sé ræktaður algerlega án tillits til annarra náttúruverðmæta, svo sem hinna fögru klettabelta á þjóðleiðinni milli Borgarness og Bifrastar, sem ýmist hefur verið sökkt í hávaxinn skóg eða eru á leiðinni í drekkingu.
Svo er að sjá að jafnframt því sem sagt er a, að efla sem allra stórkostlegasta skógrækt, víða helst með erlendum barrtrjám, sé líka sagt b, að gera það með öllu hugsunarlaust og skipulagslaust með tilliti til áhrifanna af þessu annars mikilvæga þjóðþrifastarfi.
Má sem eitt af mörgum dæmum nefna, að erlendir náttúrulífsljósmyndarar sem hafa viljað taka loftmyndir af náttúrudjásnum Þingvalla og Þingvallavatns, svo sem gígunum í eyjunum Sandey og Nesjaey, hafa hneykstast og með engu móti geta skilið það framtak að planta barrtrjám ofan í gíginn í Sandey.
![]() |
Engin þróun á fimmtán árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2021 | 08:50
Ógnin ræktuð og efld á heimsvísu í stað útrýmingar hennar?
Upphafssaga COVID-19 hefur þegar verið skráð í þeim meginatriðum að þessi farsótt átti upphaf í borginni Wuhan í Kína í kringum áramótin 2019-2020 og barst þaðan hraðfari um allan heim.
Nú stendur yfir næsti fasi málsins í formi upphafs notkunar bóluefnis við veirunni. En jafnframt er þegar að myndast ný og mun verri gróðrastía fyrir stökkbreyttar tegundir vegna yfirþyrmandi misskiptingar efhahagslegra gæða þjóða heims sem nú eru óðum að skiptast í tvo hópa: Ríkari þjóðirnar, þar sem byrjað er að kveða pláguna niður, en hins vegar fátæku þjóðirnar þar sem slíkt er ekki mögulegt vegna fjárskorts og mannfjölda.
Hjá þessum þjóðum, svo sem hinu ofurfjölmenna Indlandi og öðrum þriðja heims þjóðum er nú að hefjast ræktun og efling stökkbreyttra afbrigða veirunnar, sem vísindamenn óttast að muni tryggja uppgang hennar í mörg ár hér eftir, jafnvel áratugi, og þar með nýja og nýja ógn fyrir alla jarðarbúa, sem á okkar tíma búa í nokkurs konar risa jarðarþorpi sem byggist á óhjákvæmilgum samgöngum.
Þótt varað sé við þessari ógn með rökum láta ríku þjóðirnar líkast til þrönga og misskilda eigin skammtímahagsmuni verða til þess að á endanum sitji allar þjóðir heims í súpunni.
Hingað til hafa íslensk stjórnvöld verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið sig strax út úr samstarfi Evrópuþjóða til að graðga til okkar sem allra mest og fyrst af því bóluefni, sem er skortur á og fara fram fyrir allar biðraðir.
Þessi hugsun virðist nú líkleg til að valda þeirri þróun með því að grípa um sig hjá ríkustu og valdamestu þjóðum heims þar sem hver hugsar bara um sína þrengstu hagsmuni án þess að gæta að afleiðingunum fyrir heildina þegar fram í sækir.
![]() |
B.1.617 tvöföld stökkbreyting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fram til 19 ára aldurs var síðuhafi forfallinn hjóladellukarl en þó aðeins á reiðhjólum, hljóp yfir skellinöðrutímabilið af reiðhjóli yfir á minnsta og sparneytnasta bíl landsins.
15 ára var hjólað frá Reykjavík upp að Glitstöðum í Norðurárdal á sjö klukkustundum og fleira var eftir því.
Liðu nú árin og á árunum 1967 til 1970 var í notkun litið samanbrjótanlegt hjól sem komst fyrir í bæði bílum og litlum flugvélum.
Þá tók við 45 ára tímabil með engum hjólreiðum.
Í desember 2013 var baslað við að selja gamlan jeppa í Reykjavík, en það snjóaði svo mikið að enginn sá hvað stóð í glugganum. Var brunað norður til Akureyrar til að sjá hvort betur gengi þar á bílasölunni Ósi, en þá brá svo við að þar byrjaði að snjóa og snjóaði fram á vor.
En þá kom tilboð, sem ekki var hægt að hafna: Að skipta á jeppanum og ónotuðu rafreiðhjóli af gerðinni Dyun, kínverskt, framleitt á Ítalíu fyrir Bandaríkjamarkað, sem virt var á 250 þúsund kall.
Myndin hér að ofan er af þessu hjóli við Engimýri í Öxnadal og var tekin þar sumarið 2015.
Hafði þá stóru kosti að vera gert fyrir 32ja km/klst hámarkshraða og vera með handgjöf eins og vélhjól og yrði því engin vandkvæði á á selja slíkan eðalgrip í Reykjavík.
Vegna anna liðu vikur þar til hægt var að reyna að gangsetja hjólið, en það gekk ekki.
Auðvitað varð hjólið að virka ef þáð átti að seljast sem nýtt og ónotað.
Skýringin gat verið kyrrstaða þess áður en ég fékk það og til viðbótar eftir að ég fékk það, en líka það, að til þess að hlaða það varð að setja hleðslusnúruna fyrst í samband á hjólinu og siðan í innstunguna í veggnum en það tók marga mánuði að detta niður á setningu um þetta í handbókinni.
Loks var það svo í mars 2015 sem með réttri hleðslu var hægt að ná 300 metra akstri, - í næstu tilraun 800 metrum og síðan lengra og lengra uns það dró átta kílómetra, að heiman upp í Útvarpshús.
En úrslitum réði að komast í samband við sérfræðisnilling á þessu sviði, sem fann út, að aðeins þyrfti að skipta um tvær sellur af tíu til þess að rafhlaðan virkaði til fulls.
Að norðan frétti ég af vaxandi áhuga fólks þar á bæði reiðhjólum og rafreiðhjólum, þar sem menn voru til dæmis að keppa í þvi hve langt þeir kæmust á einni hleðslu.
Þar gat verið um að ræða marga tugi kílómetra ef menn notuðu fæturna rösklega.
En allur tíminn, sem þetta basl hafði tekið, gerbreytti viðhorfum mínum til hjólsins, þessa eðalgrips, sem gat flutt mig allra minna ferða í hverri einustu viku ársins á milli staða með aðeins tíu aura orkukostnaði á kílómetrann.
Allir áunnir fordómar varðandi hjólreiðar féllu á nokkrum vikum, það var aldrei of kalt, bara spurning um að klæða sig rétt, og hægt að ferðast örugglega á negldum dekkjum allt árið, nema þegar vindhviður fóru yfir 20 m/sek, sem var miklu sjaldnar en flestir hefðu haldið.
Aðeins eitt var pirrandi þessa fyrstu mánuði: Ég datt nokkrum sinnum á hjólinu, nokkuð sem aldrei hafði gerst í gamla daga.
Hvað var það á þessu hjóli, sem var öðruvísi en á reiðhjólinu Blakki í gamla daga?
Aldur knapans? Nei, en samt urðu allar bylturnar áfram við sömu aðstæður: Komið of hratt í beygju eða að óvæntri hindrun, en fipast við að svipta hjólinu að vild um leið og hægt var á því.
Það hlaut að vera eitthvað á hjólinu sjálfu, sem olli þessu. Og þá kviknaði allt í einu ljós: Það eina sem var á þessu hjóli sem ekki var á öðrum reiðhjólum, var handstýrða aflgjöfin.
Og af því leiddi að viðbragðið með hendinni þegar hægja þurfti snögglega á ferðinni, var rangt; öfugt miðað við hið rétta: Ég gaf hjólinu afl í stað þess að draga aflið af.
Og þarna kom það! Ég var með meira en 7400 flugtíma að baki, og á flugvél dregur maður hendina, handarbakið að sér þegar maður dregur af aflinu.
En á vélhjóli er þetta öfugt; með gefur hjólinu inn ef maður dregur handarbakið, viðmiðunarpunktinn, að sér.
Þegar þetta var orðið að aðgátsatriði og vaninn byrjaður að þróast, hvarf þetta hættulega atriði alveg, og síðan hefur engin bylta orðið (7-9-13) á vélhjólunum mínum.
Niðurstaða: Flugmenn með drjúga flugtíma eru í sérstökum áhættuhópi sem nýgræðingara á vélhjólum!
Nú voru grúsk og pælingar komin í spilið og hugmynd kviknaði að því að koma á framfæri þeim miklu möguleikum í samgöngum sem hvers kyns hjól, allt frá reiðhjólum upp í bifhjól af fullri stærð, gátu fært okkur Íslendingum.
En hvernig gat það gerst? Reynsla í fjölmiðlum benti ekki til árangurs af því að senda upplýsingar til fjðlmiðla á A4 blaði. Slíkt færi líklega beint í körfuna. Eina leiðin var líklega að sýna á áþreifanlegan hátt, með "demostration" hvílíkt hagræði og sparnaður væri fólgin í notkun hjóla.
Það varð að veruleika í ágúst 2015 og átti síðan framhald 2016, 2017 og 2020 þar sem Akureyri lék stórt hlutverk í þrjú skiptin af fjórum. .
![]() |
Við teljum okkur vera áfangastað fyrir hjólafólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2021 | 17:34
Hve mikið verður flækjustigið í millilandafluginu?
Þegar litið er snöggt á þá lista sem nú hafa verið gefnir út yfir þau lönd sem raðað er í mismunandi hópa varðandi hve mikil smithætta sé í þeim, sést að eins og talsvert er um það að samliggjandi lönd séu í misjöfnum flokkum.
Ef slíkt ástand tekur hröðum og miklum breytingum sýnist því líklegt að núverandi flækjustig, sem ferðafólk verður að fást við til þess að láta ferðalög sin ganga upp, geti orðið ansi illviðráðanlegt, einkum þegar eðli málsins vegna verður að panta flug með talsverðum fyrirvara.
Það verður því fróðlegt að fylgjast með framhaldi þessa máls.
![]() |
Hááhættusvæðum fjölgar vegna nýrra viðmiða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
FSíðustu dægrin hefur eldgosið við Fagradalsfjall verið í nýjum fasa miðað við það sem áður var, dettur niður og gýs upp af krafti á á vixl. Þetta er það mikil breyting frá því sem áður var að það er næsum eins og um nýtt gos að ræða.
Hraunstraumurinn er stöðugur og sést best í ljósaskiptunum eins og í gærkvöldi þegar rennt var á lítilli flugvél yfir svæðið.
Þarna var stöðugur straumur loftfara í gærkvöldi og því ákveðið að halda sig ekki of nálægt öðrum loftförum, sem komin voru i umferðina á undan.
Um langlífi þessa goss treystir sér enginn til að spá með vissu, því að ekki hefur gosið þarna í átta aldir og því hafa menn engan samanburð í mælgingum við önnur gos á Reykjanesskaga.
Og vegna mikils dýpis, sem kvikan kemur úr, er líka engan beinan samanburð að fá við gos annars staðar á landinu.
Áuðvitað væri best hvað snertir ferðamannastraum að gosið entist eins lengi og hægt væri án þess að það skemmdi mannvirkin, sem næst eru, en það er Suðurstrandarvegurinn og ljósleiðari.
En jafnvel þótt gosið hætti, ber þess að gæta, að erlendir ferðamenn standa yfirleitt agndofa yfir því að vera nálægt nýrri jörð, nýju landi, sem er eins og volg kaka beint úr ofninum.
Nú er byrjað á að leggja ferðamannaleið upp á Fagradalsfjall og það getur orðið þörf framkvæmd.
Það eykur líka skilning þeirra á því að skoða eldstöðvar á borð við Búrfellsgjá og Eldvörp og aðeins nokkur þúsund ára gomul hraun í Elliðaárdal, Garðabæ og Hafnarfirði.
![]() |
Gosmökkurinn eins og reykmerki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)