Það er viðurkennt að íslenskur sjávarútvegur og þar með þjóðin sjálf græddi mikið á stríðinu, sem skóp mestu lífskjarabyltingu hér á landi fram að því.
Stríðsgróðinn svonefndi var þó dýru verði keyptur hvað varðaði þær þungbæru og miklu mannfórnir sem íslensk sjómanna- og farmannastétt varð að þola.
Það fór hins vegar ekki eins hátt, að norskur sjávarútvegur var í stöðu til uppgangs, þó ekki hefði verið nema bara vegna þess, að það kostaði mikið að fæða 300 þúsund manna þýskt herlið í landinu.
Eftir stríðið gerðu Norðmenn réttilega mikið úr fórnum og hetjudáðum norsku andsspyrnuhreyfingarinnar, en hitt fór lægra, að ótrúlega margir Norðmenn gengu í lið með her nasista á austurvígstöðvunum.
Um allt þetta og margt fleira fróðlegt veit Magnús Þór Hafsteinsson mikið og hefur skrifað um það bækur.
![]() |
Hinn norski Joseph Göbbels |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2021 | 13:38
Skyldi kvikna önnur saga um eldfiman rafbíl?
Í viðtengdri frétt á mbl.is af skæðum og örsnöggum bílbruna á Vatnsskarði í kvöld er þess ekki getið hvort um rafbíl var að ræða.
Svipað gerðist fyrir rúmum tveimur árum þegar kviknaði skæður eldur í bíl í stóru bílastæðishúsi í Stavanger í Noregi og úr varð mesti bílahúsbruni á Norðurlöndum.
Af því að ekkert var getið um það hvort bíllinn var rafbíll kviknaði sú saga og fór sem eldur í sinu um Norðurlönd, að hér hefði verið um rafbíla að ræða; svona hættulegir væru þeir og erfiðir viðfangs.
Næstu tvo sólarhringana hrönnuðust upp afleiddar sögur af tífalt fleiri og verri brunum í rafbílum, og einnig mikið gert úr neyðaráðstöfunum´og æfingum slökkviliðsmanna vegna rafbílabruna hér á landi og erlendis.
Þótt í ljós kæmi að bíllinn sem olli brunanum hafði verið gamall Opel Zaphira dísil, hefur hryllingssagan haldið lífi allt til þessa dags, meira að segja í sjónvarpsþætti.
Þess vegna þyrfti það ekki að koma nenum á óvart þótt rafbílabruni fengi flug núna, jafnvel í tvö ár.
Litlu skiptir þótt sagt sé að þetta sé jeppi, því að núna eru nær allir bílar skilgreindir sem jeppar hjá bílaumboðunum.
Til gamans má upplýsa, að Þjóðverjar tala sjaldan um dísilbíla eins og Zaphira, heldur nota þýska orðið "selbtunder", sem í íslenskri þýðingu útleggst "sjálfsíkveikjubíll."
![]() |
Engin slys á fólki er bíll varð alelda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2021 | 20:31
Kárahnjúkar: Þar sem veðrið er verst þegar það ætti að vera best.
Undanfarnar vikur hafa ríkt alveg einstök hlýindi, hægviðri og bjart veður á norðaustanverðu landininu, ekki síst á hálendinu, þar sem hitinn hefur komist í 24 og 25 stig.
Fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar gat þetta fært svæðinu besta veður ársins, bjart og hlýtt.
En í undanförnum hlýindum þar sem hitinn á veðurstöðvunum Kárahnjúkum og Brúaröræfum hefur verið um tuttugu stig dag eftir dag í þrjár vikur og veðurspáin hefur verið "hæg breytileg átt og léttskýjað" hefur brugðið svo við að vegna hitauppstreymis hefur komið sunnangola eða kaldi sem veldur því að hinn auði lónbotn Hálslóns, sem er þakinn mjög smágerðum og fínum leirsandi sem barst í lónið sumarið á undan, hefur rokið upp fært þetta umrædda svæði á kaf í svo í svo þykkt rykkóf, að skyggnið hefur fallið svo mjög, að á einstökum stöðum í kófinu hefur vart séð handa skil.
Efsta myndin er tekin við vesturhluta lónsins eða öllu heldur lónstæðisins, því að þetta gráa svæði, með Fremri-Kárahnjúk enn sjáanlegan, verður allt þakið lóninu síðsumars þótt það sé marautt núna.
Rétt er að benda áð með því að smella sérstaklega á hverja mynd er hægt að skoða hana betur.
Alla leið úti á Egilsstöðum í 80 kílómetra fjarlægð féll skyggnið svo mjög að sögn þeirra, sem ræddu við síðuhafa á ferð þarna sl. mánudag, að vart sá á milli húsa fyrir um hálfum mánuði.
Ofangreindu fyrirbrigði var spáð af vísindamönnum fyrir gerð virkjunarinnar, og fyrstu árin eftir gerð virkjunarinnar töldu margir svona fyrirbrigði vera sandfok frá flæðum Jökulsár á Fjöllum.
En eftir að hraun rann í Holuhraunsgosinu yfir Jökulsárflæður gengur þessi skýring ekki upp enda sést ferill hins nýja og mikla leirkófs mjög vel, hvernig það þyrlast upp í þurrum og leiri þöktum botni Hálslóns fyrri part sumars áður en lónið hefur fyllst.
Á miðmyndinni er horft eftir bakka Hálslóns eins og hann verður í september, ósnortinn 2ja til fjögurra metra þykkur jarðvegur vinstra megin, en fyrir virkjun þakti hann allt svæðið hægra megin, sem lónið hefur nú eytt og skilið eftir eyðimörkina, sem þekst um tíu milljónum tonna af leir á hverju sumri.
En jarðvegs- og gróðureyðingin af völdum virkjunarinnar nemur 40 ferkílómetrum og tugum milljóna tonna af jarðvegi. Er í því fólgin mesta gróðureyðing í einu vetfangi í sögu landsins.
Á neðstu myndinni er staðið á Kárahnjúkastífu og horft niður eftir henni niður á Hálslón, sem er svo mengað af leiri, að skyggnið í vatninu er aðens 7 sentimetrar.
Fjær sést glytta í Sandftell í um tveggja kílómetra fjarlægð, og skyggnið er ekki meira í hina áttina í átt til Ytri-Kárahnjúks.
Þegar lónið kemur undan ísi á vorin eru um 35 ferkílómetrar af 57 í því útliti sem hér sést en eftir því sem það fyllist minnkar þurru leirurnar og leirkóf verður sjaldgæfara og minna.
Neðsta myndin er loftmynd af ysta hluta lónsins tekin fyrir nokkrum árum í ágústbyrjun, en þrátt fyrir miklu minni leirur er leirfokið það mikið að stíflurnar sjást ekki og Ytri-Kárahnjúkur varla.
![]() |
Hiti í kringum 25 gráður á Austurlandi um helgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.7.2021 kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.7.2021 | 18:00
Jesse Owens og þau öll hin.
Fróðlegt er að sjá viðbrögð margra íslenskra bloggara við nýjustu fréttum af líkfundum og öðrum ummerkjum um mikla mismunun kynþátta í Ameríku, enn er við lýði í Norður-Ameríku.
Í þessum íslensku ummælum eru dæmin mörgu um óréttið léttvæg fundin og fræðimönnum, sem hafa fjallað um kynþáttamið, valin hin verstu orð.
Samt varð jafnvel fremsta afreksfólk Bandaríkjanna að þola útskúfun langt fram eftir síðustu öld fyrir litarhátt sinn.
Eitt besta dænmið um það var Jesse Owens sem vann fern gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og gaf með því Hitler sjálfum og bulli hans um yfirburði svonefnds arísks kynstofn langt nef.
Hið hlálega var, að bæði fram að leikunum í Berlín og eftir leikana, smátti Owens þola grimma aðskilnaðarstefnu bandarísks þjóðfélags, ekki gista á sömu hótelum og hvítir og ekki að borða eða nota sömu sðstöðu og þeir.
Í Berlín, höfuðborg nasismans, fékk Owens í fyrsta sinn njóta jafns réttar við hvíta að þessu leyti!
Hefð var fyrir því að gullverðlaunahafar væru boðnir í Hvíta húsið, en Roosvelt forseti bauð Owens ekki, og á hátíðlegri mótttökuhátíð fyrir Olympíufarana varð að lauma Owens inn bakdyramegin.
John F. Kennedy mismunaði líka kynþáttum og lét það bitna á Sammy Davies jr.
Sammy svaraði fyrir sig með því að gera lagið Mr.Bojangles að eins konar baráttulagi á tónleikum.
Það átti uppruna sinn í ævi Bill "Bojangles" Robinson, sem var besti steppdansari Bandríkjanna og því ómissandi í burðarhlutverk í mörgum sýningum og kvikmyndum.
Vegna litarháttarins mátti Robinson aldrei leika hátt settara fólk en skóburstara og dyraverði.
Nina Simone var meinaður allur frami við píanóið vegna húðlitar, en skömmu fyrir andlát hennar var hún beðin afsökunar fyrir að hafa ekki fengið viðurkenningu sem konsertpíanisti vegna ríkjandi kynþáttafordóma. Fékk hún heiðursdoktorsnafnbót við Tónlistarháskólann í Philadelphiu.
Enn í dag dúkkar alltaf af og til upp sá misskilningur að Adolf Hitler hafi neitað að taka í höndina á Owens í Berlín.
Hið rétta er að Hitler óskaði eftir því að fá að heilsa upp á þáttakendur að vild á meðan á leikunum stóð, en því var hafnað, og tók hann því ekki í höndina á neinum.
![]() |
Barnabörn Vilhjálms Stefánssonar lifðu af helförina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2021 | 10:44
2005 sáust smáatriði á Kárahnjúkasvæðinu á Google Earth.
Þegar byrjað var að vinna við gerð og skráningu Sauðárflugvallar á árunum 2004 yil 2011, var til gamans gáð að því hve nákvæmar myndir væri hægt að fá á Google Earth.
Þá kom í ljós að vel sást móta fyrir útlínum hins eggslétta mels, sem þáverandi brautir voru valtaðar á, en vallarstallurinn hefur upphaflega myndast sem setlag á meðan áín var jökulsá og bar fram aur sem fyllti hinn grunna dal, sem hún rann um.
Um miðja síðustu öld hopaði Brúarjökull svo mikið og rýrnaði, að áin breyttist í bergvatnsá, sem rann í sveig í kringum þríhyrnislagan melinn.
2005 var kominn gamall Econoline húsbíll á brautarmót fyrstu flugbrautanna, sem síðan hefur staðið þar sem eins konar flugstöð og afdrep, enda getur slíkt skipt sköpum á stað, sem er 60 kílómetra frá næsta byggða bóli og þar að auki í 660 metra hæð yfir sjávarmáli.
2011 voru brautirnar orðnar fjórar, en á Google Earth geimljósmyndinni sáust aðeins þrjár þær fyrstu, og af smáatriðium við Kárahnjúkastíflu má sjá, að myndin er frá 2006, því Hálslón er ekki komið.
Smáatriðin á Google Earth myndunum eru með ólíkindum, því að lika sést mjög vel lítill jeppi, sem er staddur á "flughlaðinu" á mótum fyrstu tveggja brautanna.
Auðvelt er að mæla lengd flugbrautanna og hornin á milli þeirra.
Það sést vel að tvær brautanna eru aðeins 15 mmetra breiðar og lengsta brautin er 20 metra breið.
Síðar urðu tvær lengstu brautirnar 30 metra breiðar og hinar þjrár 20 metra breiðar.
Það eitt að brautirnar eru valtaðar nægir til að myndavélar Google Earth nemi mismuninn á þéttleika yfirborðsins á þeim og melsins í kring, en allur melurinn er svo harður, að enginn hæðarmunur er utan og innan við brautarmörkin.
Að því leyti til eru hinir fimm löggiltu og skráðu vellir á hálendinu öðru vísi en rúmlega 2000 kílómetra merktir og skráðir jeppaslóðar, að vegna þess að allir jepparnir aka að jafnaði í sömu hjólförum, grafast þessir slóðar meira eða minna niður.
Á 30 metra breiðum flugbrautum lenda hins vegar flugvélarnar hver á sínum stað og mynda ekki hjólför. Einna best sést þetta í Veiðivötnum, þar sem jeppaslóð meðfram flugbrautinni þar hefur grafist niður um 30 til 40 sentimetra djúp för á sama tíma sem ekki sést neinn hæðarmunur á yfirborði flugbrautarinnar og vegarslóðans.
![]() |
Hraunflæði gossins séð úr geimnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2021 | 20:24
Stærri bylting í rafhlaupahjólunum en hjólunum?
Í ferðum á rafreiðhjóli að undanförnu hefur svo virst, sem byltingin, sem rafskúturnar veldur, sé að mörgu leyti meiri en fjölgun rafreiðhjólanna var frá og með árinu 2015.
Nokkur atriði vekja sérstaka athygli.
1. Fjöldinn. Seldar hafa verið að minnsta kosti 20 þúsund skútur, sem hafa mokast inn í umferðina á víðtækan hátt. Fram að þessu hafa hjólreiðamenn og vélhjólamenn þurft að temja athygli sína í samræmi við það hvar og hvernig er mesta árekstrarhætta. Hjólaskúturnar eru mikil viðbót, og þær birtast og hverfa öðruvísi en fyrri samgöngutæki, afar oft á mjög lymskulegan hátt eins og skrattinn úr sauðarleggnum.
2. Færni fólks er lakari en á fyrri farartækjum. Flestir hafa áður hjólað á reiðhjólum í æsku, en miklu færri á hlaupahjólum.
3. Kæruleysi er meira áberandi á þessum nýju farartækjum, svo sem að nota ekki ljós, hjálma, skærlit vesti eða árekstravörn. Alltof margir eru niðursokknir í að hlusta á tónlist eða útvarp á fullri ferð. Bara í síðustu bæjarferð á rafreiðhjóli nú áðan munaði nokkrum sinnum hársbreidd að verða vitni að slæmum slysum.
Niðurstaðan eftir síðustu ferðir á rafreiðhjóli eru, að við blasir vaxandi öryggisleysi og hætta á óhöppum. Þessu verður fyrst og fremst mætt með forvörnum, fræðslu og bættum og breyttum umhferðarmannvirkjum fyrir hina nýju tegund umferðar.
P.S. Neðsta myndin, af BSO reitnum á Akureyri, er raunar í öðrum bloggpistli um það mál í gær.
![]() |
Göngum komið fyrir undir Hafnarfjarðarvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Flugvellir og skráðir lendingarstaðir hafa almennt átt á brattann að sækja hér á landi undanfarna áratugi og þeim hefur farið fækkandi.
Að hluta til er þetta vegna mikilla vegabóta, en að hluta til vegna almenns áhugaleysis sem hefur líka komið fram í rekstri stórra flugvalla eins og á Egilsstöðum.
Það er ekki eins og þessir lendingastaðir séu það margir að þeir taki mikið frá landvegakerfinu.
Um hálendið liggja til dæmis vegir og vegaslóðar, sem eru samtals meira en 20 þúsund kílómetrar á lengd, en flugbrautir á hálendinu eru samtals innan við tíu kílómetrar, eða um 0,05 prósent af því.
Aðeins einn þessara hálendisflugvalla, Sauðárflugvöllur á Brúaröræfum, er nógu stór fyrir þær flugvélar sem eru í áætlunarflugi yfir hálendið og getur nýst sem neyðarflugvðllur í flugatviki á borð við það sem varð kveikjan af löggildingu hans árið 2011.
Hann er þó ekki á vegum Isavia, heldur varð að skrá hann sem einkaflugvöll á kostnað og ábyrgð síðuhafa, sem var einmitt að koma í fyrradag úr þriggja daga ferð þangað til að valta völlinn og sjá um að hann stæðist þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru um velli af þessari gerð og stærð.
Þessi árlega vorferð kostar akstur upp á 1800 kílómetra og við það bætast gjöld til Isavia vegna skráningar vallarins, sem kom til dæmis í góðar þarfir í Holuhraunsgosinu þarna skammt frá 2014-2015!
Árin 1938 og 1939 flaug Agnar Koefoed-Hansen á lítilli þýskri flugvél um landið og fann minnst 38 lendingarstaði.
Hann skrifaði Halldóri bónda á Brú bréf og óskaði eftir samþykki hans við að merkja þarna löggiltan flugvöll.
Við völtun vallarins 2012 fundust tvö vörðubrot á vellinum, og gat annað þeirra markað hugsanlega merkingu frá fornri tíð.
Ég gaf henni heitið Agnarsvarða og fimmtu og síðustu braut vallarins heitið Agnarsbraut.
Meðfylgjandi mynd, sem birt verður hér, var tekin við það tækifæri.
Agnar Koefoed-Hansen var stórmerkilegur frumkvöðull og brautryðjandi í flugi og flugvallagerð hér á landi í hálfa öld.
![]() |
„Flugstöðin er ekki í neinni niðurníðslu“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ásóknin hefur verið mikil undanfarin ár í höfuðstað landsins, Reykjavík, og höfuðstað Norðurlands, Akureyri í að reisa helst sem voldugasta steinkastalahús hvar sem finnast auðir blettir eða lágbyggðir lóðir.
Gildi slíkra lóða og bletta óbreyttra felst hins vegar bæði í minjagildi og sameiginlegum minningum kynslóðanna, sem hvort tveggja virðist eiga mjög undir högg að sækja syðra og nyrðra.
Afi síðuhafa var bakari í Bernhöftsbakaríi og faðir minn var þar sendisveinn á reiðhjóli.
Á sama tíma sem Selfyssingar eru að fara aðra leið en leið stórra steinsteypukassa og reisa lágreistan og fallegan miðbæ, eru uppi áform á Akureyri að rífa hið litla og vinalega hús BSO í miðbænum þar og reisa í staðinn steinkassa sem fylli upp í hinn þríhyrningslaga reit á gatnamótunum gegnt Hofi.
Þó er hús BSO með minjalegt virði, því að það er líkast til elsta hús á Íslandi, sem sérstaklega var byggt sem leigubílastöð.
Gildi þessa reits er fólgið í því andrými og útsýni sem hann býr yfir auk allra minninganna og möguleikanna á því að útbúa nokkurs konar mini safn af fornbílum og því, sem þeim fylgdi.
Slíka staði má sjá erlendis, svo sem við hinn fræga þjóðveg Route 66 í Bandaríkjunum.
Hér syðra er nýbúið að loka Litlu kaffistofunni sem enn væri hægt að dubba upp að nýju.
Ferðamenn erlendra skemmtiferðaskipa, sem leggjafst við bryggju á Akureyri og ganga upp Oddeyrina inn í miðbæinn þykir BSO merkilegt mannvirki og taka fleiri myndir af því en öðru í næsta nágrenni.
Það er gaman að skoða gamlar myndr frá fyrstu árum stöðvarinnar. Mynd frá ca. 1956 sýnir tvo Kaiser árgerð 1953-54, og tvo Ford 55, og önnur mynd nokkrum árum síðar Ford 60, Chevrolet 58, Volgu og Ford 63.
Þess má að lokum geta að búið var að ákveða að leggja pylsuskúrinn Bæjarns bestu niður.
Svipaðar röksemdir og þegar átti að rífa alla Bernhöftstorfuna á þeim forsendum að hún væri ónýtt spýtnadrasl.
Til allrar hamingju vildi svo til að Bill Clinton fyrrum Bandaríkjaforseti átti leið þar um og fékk sér pylsu og skúrnum var bjargað.
Nú vantar einhvern svipaðan til þess að bjóða í leigubíltúr frá BSO til að bjarga stöðinni.
![]() |
Aftur bakað í bakarabrekku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.7.2021 kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2021 | 13:41
Hókus pókus upp á mörg hundruð milljarða með gjafakvótakerfinu 1984?
Rannsóknir Ragnars Árnasonar og Daða Más Kristóferssonar á eðli kvótakerfisins eru athyglisverðar, ef aðeins 0,5 prósent árleg fyrning kvótans myndi gera sjávarútveginn gjaldþrota. Svonefnd fyrningarleið þar með dæmd ófær vegna huglægra áhrifa hennar á hrein peningaleg verðmæti.
Þrátt fyrir þetta er talað um í orði kveðnu að sjávaraflinn sé eign þjóðarinnar.
Erfitt er að finna aðra skýringu á þessu en þá, að hvað sem orðagjálfri líði, sé raunin sú að farið er með kvótann og þar með óveiddan fisk eins og harða og áþreifanlega eign í öllum viðskiptum, leigu, sölu, veðsetningu og ávöxtun.
Í Þingvallalögum 1928 stendur að Þingvellir séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar, sem hvorki megi veðsetja eða selja. Og þar með fylgdi að þetta landsvæði gæti hvorki gengið í arf sé framsal.
Svona ákvæði hefði þurft að setja strax í aflamarkslögin 1984 í stað þess að fara ekki aðeins þessa hrikalegu hókus pókus leið hundraða milljarða gjafakvóta til handa réttnefndum sægreifa, sem þar að auki varð geirneglt eignakerfi með lögum um framsal og þar með sölu og kaupa á kvótanum.
Þingmennirnir sem skópu þetta kerfi sáu þetta sennilega fæstir fyrir, nema kannski þeir, sem sjálfir gáfu sér kvóta og komu á miðaldakerfi í sjávarútveginum, þar sem eigendurna í stöðu eins konar aðalslmanna, sem áttu allt og leigðu það leiguliðum.
![]() |
Fyrning gæti keyrt sjávarútveginn í þrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þegar rætt er um rýrnun íslenskra jökla síðustu 25 ár, eru Sólheimajökull og Breiðamerkurjölull oft nefndir sem dæmi, líkast til vegna þess að fleiri vitni eru að því en rýrnun annarra jökla.
Vegna þess hve vitnin eru mörg verður sú fullyrðing sumra "kuldatrúarmanna" broslegri en ella að gögn um rýrnun jöklanna séu stórlega fölsuð og að myndir af þeim, sem sýna þá stóra, séu í raun teknar af þeim, eins og þeir eru nú, en myndir af þeim litlum hafi verið teknar fyrir 25 árum!
Vegna verkefna síðuhafa á svæðinu norðan Vanajökuls í tæplega 30 ár, hefur stærð Brúarjökuls, stærsta skriðjökuls landsins, blasað við árlega í öll þessi ár og það blasað við, hvernig hann hefur styst og lækkað stórlega á þessum tíma.
Á myndinni hér fyrir ofan er horft til austurs, og sést, að eftir snjóþunga útmánuði er enn mikill snjór í Snæfelli, en hann hann á eftir að bráðna í sumarhitanum og er einungis örlítið brot af hinum gríðar ísmassa, sem er í skriðjöklum og fjalljöklum landsins.
Heitið Brúarjökull sést aðeins á einu vegaskilti Vegagerðarinnar, sem stendur áf mótum slóðanna í Grágæsadal og að Brúarjökli.
Þar stendur: Grágæsadalur 12 og Brúarjökull 8. Síðan þau skilti voru sett upp hefur vegalengdin að Brúarjökli minnka jafnt og þétt frá því að sýna að Brúarjökull sé um 5 kílómetra innan við Sauðárflugvöll upp í það að vera um 14 kílómetra fyrir innan flugvöllinn eins og hann er nú.
Óg þegar staðið er á vellinum sjálfum, hefur jökullinn lækkað svo mikið, að í stað þess að hafa fyrrum verið gnæfandi yfir svonefnda hólaröðina Sauðárhrauka þar sem jökulsporðurinn var í byrjun síðustu aldar, fer þessi griðarlega jökulbreiða nú sífellt lækkandi í fjarskanum.
Á loftmyndinni af flugvellinum, sést aðeins auð jörð efst í horninu vil vinstri, þar sem hann var áður áberandi.
Sjónarmiðið frá Sauðárflugvelli blasti enn eitt árið við síðuhafa í gær og fyrradag í árlegri ferð á völlinn til þess að valta hann og gera á honum úttekt í samræmi við þær alþjóðlegu kröfur, sem gilda um svona velli.
![]() |
Afkoma jöklanna að mestu neikvæð síðan 1995 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.7.2021 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)