Vantaði mælingu á áfengismagni við höfnina í den?

Síðuhafi kann sanna sögu úr akkorðsakstri vörubílstjóra frá Reykjavíkurhöfn til Keflavíkurflugvallar á stríðsárunum. Þetta var erfiður akstur, malarvegur alla leið og hlykkjaðist vegurinn um Vatnsleysuströnd á leiðinni.  

Vörubílarnir voru í biðröð við flutningaskipið á Ægisgarði og var híft yfir á þá með krana.

Stundum þurftu menn að bíða svolítinn tíma eftir því að komast að.  

Þegar búið var að fylla hvern bíl, var flautað eða að maður á kajanum bankaði í frambretti bílsins.  

Einn af þeim bílstjórum á þessum árum, sem átti til að detta hressilega í það, sat í bílnum undir krananum og beið eftir því að búið væri að fylla pallinn. 

Þegar það var loks búið var bæði flautað og bankað í brettið, en bílstjórinn haggaðist ekki þar sem hann sat eins og dottandi undir stýrinu. 

Aftur var flautað og bankað án árangurs, og þegar maðurinn tók ekki við sér vatt maðurinn á kajanum sér að bílnum og opnaði bílstjóradyrnar. 

Brá þá svo við að bílstjórinn féll fram fyrir sig á ská, svo að hann stefndi út um dyrnar. 

Hafnarverkamaðurinn varnaði bílstjóranum fallinu og reisti hann upp, en sá þá að bílstjórinn var augafullur og rorraði fram og aftur og út á hlið útúrdrukkinn við stýrið. 

"Allt í lagi,"drafaði hann, startaði bílnum og rak hann í gír. 

Eftirfarandi orðaskipti urðu þá:   

 

"Ætlarðu virkilega að keyra bílinn svona á þig kominn?"

"Já, auðvitað, ekkert mál." 

"Og hvernig heldurðu að þú komist til Keflavíkur blindfullur?"

"Það er enginn vandi, hikk! Ég fylgi bara ströndinni."  

 

Ekki fylgdi sögunni hvort ferðin var farin, en gaman hefði verið að vita hvert áfengismagnið var. 

Miðað við ýmsar aðrar sögur af þessum mikla þoldrykkjumanni hefur það kannski verið hærra en 4,31. 

 


mbl.is Aldrei séð aðrar eins tölur á mælinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3 krónur á kílómetrann eldgömul tala og alltof lág.

Það eru liðin meira en 20 ár síðan síðuhafi heyrði nefnda töluna þrjár krónur á kílómetrann varðandi fall eða hækkun á söluverðmæti bíla, sem akstur þeirra hefði í för með sér. 

Sú tala var líkast til of lág, og þar að auki þarf að færa svona tölu til núvirðis varðandi verðbólgu á tímabilinu. 

Hér á landi hefur löngum verið mun minna verðfall á bílum, miðað við aldur og akstur, en er í öðrum löndum. 

Það stafar sennilega af því lífseiga fyrirbæri að líta á kaup á nýjum eða notuðum bíl sem sérstaka fjárfestingu úr samheningi við heildar reksturskostnað bílsins. 

Þetta er smám saman að breytast en margt í Procarmálinu bendir til þess að lausatök séu á verðmætamati og mati á kostnaður við eign samgöngutækja hér á landi.  


mbl.is Undarlegt að Procar sé í bílstjórasætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnir sauðir í fjölgandi fé.

Með smá breytingu á gamla máltækinu "misjafn sauður í mörgu fé" má breyta því í "misjafnir sauðir í fjölgandi fé", því að hluti af orsökum vaxandi umhverfisspjalla af völdum umferðar torfæruhjóla og bíla í viðkvæmri náttúru landsins kann að vera mikil fjölgun iðkenda. 

Fyrir nokkrum árum fórum við Andrés Arnalds á fund áhugafólks um torfæruhjól og brá í brún við að heyra í sumum þeirra sem þar töluðu fyrir algeru frelsi á slíkum hjólum og töldu meira að segja að slíkum hjólum ætti að fá að beita á öllum kinda- og gönguslóðum landsins. 

Það er enginn smávegis vegalengd, sem um er að ræða, því að aðeins merktar jeppaslóðir landsins eru að minnsta kosti meira en 20 þúsund kílómetrar samtals að lengd. 

Sem dæmi um allt önnur viðhorf erlendis, má nefna, að í nágrenni Moab í Utah-ríki í Bandaríkjunum er helsti jeppa- og torfæruhjólaþjóðgarður Bandaríkjanna með alls 1600 kílómetra löngum merktum slóðum. 

Í akstri um þennan þjóðgarð var hvergi að sjá að nokkurs staðar hefði verið farið út fyrir þessa slóða, enda stranglega bannað. 

Umgengnin var svipuð í þessum þjóðgarði og á milljón manna bandarískum útivistarhátíðum á borð við flugsýningarnar í Oshkosh og Sun´n fun þar sem alla sýningardaga sést ekki eitt einasta sælgætisbréf eða sígarettustubbur. 

Á fundinum um torfæruhjólin hér um árið barst talið að fornum göngustígum á milli byggða á Suðurnesjum, svo sem Árnastíg, sem liggur til norðvestur frá Grindavík. 

Talsmenn óhefts frelsis til spóls torfæruhjóla töldu að Árnastígur væri gott dæmi um slóða sem sjálfsagt væri að hjólamenn þeystu um í hópum, af því að leiðin lægi að miklu leyti á hraunklöpp. 

Þegar þeim var bent á, að gildi slóðans fælist helst í því að göngufólk gengi hann í rólegheitum og kyrrð og teygaði andrúmsloft genginna kynslóða, sem þar var á ferð forðum daga, og að slík stemmning yrði eyðilögð með freti hóps manna á vélknúnum torfæruhjólum, var greinilegt, að það breytti sýn sumra þeirra á málið. 

Það er vafalaust rétt hjá talsmönnum áhugamanna um þessi mál núna, að hugarfarsbreyting hafi orðið hjá mörgum síðan við Andrés urðum hugsi á fundinum um árið. 

Á hinn bóginn fer hjólunum svo mjög fjölgandi, að það er hætta á því að með því komi lítt þenkjandi fólk inn í raðir þessa fólks, sem valdi nýjum tegundum af spjöllum.   

 


mbl.is Reið og hissa á umgengni í Sveinsgili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nixon og Maó, Sadat og Begin og Ribbentrop og Stalín.

Stundum dynja yfir fundir ráðamanna óvinaþjóða, sem koma heimsbyggðinni gersamlega í opna skjöldu. Nixon og Maó

Tvívegis hefur það gerst í Austur-Asíu, núna, og þar á undan fundur Richards Nixon Bandaríkjaforseta og Maós 1972, en tilkynningin um þann fund sumarið áður, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.  

Sá fundur markaði þáttaskil eftir 25 ára algeran fjandskap og einangrun Kína frá löndum utan kommúnistaríkjanna. Þessi atburður var hápunktur árangurs Henrys Kissingers í mótun djarfrar utanríkisstefnu BNA. 

Hvort Kóreuför Trumps á eftir að verða efni í tónlistarverk eða fara í leikhús eða á hvíta tjaldið í slíkum búningi, er óvíst.

Ekki var síður óvænt, þegar Anwar Sadat forseti Egyptalands, flaug til Ísraels og ávarpaði Knesset. Nixon í Kína

Það var undanfari friðarsaminga milli þessara þjóða, en síðar galt Sadat fyrir þá með lífi sínu þegar hann féll fyrir skotum óánægðra landa sinna. 

23. ágúst 1939 stóð heimurinn á öndinni þegar Ribbentrop utanríkisráðherra Hitlers, flaug til Moskvu til að gera griðasamning milli höfuðóvinanna Stalíns og Hitlers. 

Þessi ótrúlegi en þó rökrétti Macchiavelli-samningur stjórnmálarefa markaði skiptingu Evrópu í áhrifasvæði sem skópu aðstæður fyrir upphafi stríðs rúmri viku seinna með innrás Þjóðverja í Pólland. 

Stalin-Ribbentrop 

 

 


mbl.is Heimsókn Trump „ótrúlegur viðburður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostur, að bíll og hjólhýsi séu aðskilin. "Ég fer í fríið."

Ferðavagnar geta aðallega verið af tveimur gerðum, annars vegar húsbílar, þar sem ferðast er í bíl, sem er með gistiaðstöðu, en hins vegar tjaldvagnar, fellihýsi, hjólhýsi, eða pallhús, sem eru í raun sérstök ökutæki, sem bílar bera ofan á sér (pallhús). 

Pallhúsin gleymast oft í umræðunni, en þau hafa þann kost, að lögun þeirra passar við staðlaða lögun margra pallbíla, og því hægt að flytja þau á milli pallbíla.  

Ef viðkomandi pallbíll fer að rygða eða verða frekur í viðhaldi, er oftast hægt að færa húsið yfir á annan pallbíl, sem húsið passar við.  

Ókostur felst þó í því, að talsvert klifur er oftast upp í pallhús, og vegna hæðar sinnar taka þau á sig meiri vind en lægri ferðavagnar. 

Ókosturinn við húsbíla er sá, að notkun gistiaðstöðunnar er algerlega háð ástandi bílsins sjálfs, svo sem vélar eða driflínu. 

Meiri hætta er á bilunum, sem hamla för og notkun þegar bíllinn er sambyggður við hýsið, heldur en ef gistiaðstaðan er sjálfstætt tæki. 

Þar að auki endast flóknir hlutir og slitgjarnir á borð við vélar og driflínur verr. 

Alveg frá því í vor hefur verið í gangi óvenju viðamikil og langvinn auglýsingaherferð fyrir ferðavagna og hún virðist hafa skilað sér. 

Það sýnir stemninguna, sem gítarleikið lagið "Ég fer í fríið" vekur, hve vel heppnuð og einföld og ódýr þessi herferð hefur verið. 

Lagið "Ég fer í fríið" er ítalskt, sungið af Þorgeiri Ástvaldssyni, og varð að öðrum tveggja sumarsmella Sumargleðinnar 1981. 

Hinn smellurinn var "Prins póló" sem Magnús Ólafsson flutti með tilþrifum. 

Mig minnir að Þorgeir hafi grafið lagið "Ég fer í fríið" upp eins og það var með ítölskum texta og í byrjun var þjóðþekktur og afar góður textahöfundur fenginn til að gera texta við lagið. 

En þessi texti var ekki jafn grípandi og textar þessa höfunar voru almennt og var Iðunn Steinsdóttir jafnframt beðin um að spreyta sig. 

Það gerði hún með þeim glæsibrag sem langlífi textans og lagsins hefur sýnt. 

Með því að spila aðeins lagið en syngja ekki, komast auglýsendurnir hjá því að borga önnur höfundarréttargjöld en hinum ítölsku höfundum lagsins sjálfs. 

Siðfræðilega finnst mér að greiða eigi líka fyrir þau hughrif, sem texti Iðunnar á í því að kalla fram lokkandi sölumöguleika. 

Hvort það er gert, veit ég ekki. 

 


mbl.is Segja að brjálað hafi verið að gera í sölu ferðavagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband