Erfiðir dagar fyrir kuldatrúarmenn.

Nú eru erfiðir dagar fyrir þá sem hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum undanfarið og hangið á 0,1 gráðu, sem hitinn í Reykjavík var í ágúst undir meðalhita þess mánaðar síðasta áratug. 

En þessa tölu töldu þeir sanna, að fullyrðingar "40 þúsund fífla í París" um hlýnun lofthjúps jarðar, væru úr lausu lofti gripnar.  

0,1 stig í ágúst í Reykjavík átti sem sagt að vera marktækari tala en meðalhitinn á allri jörðinni! 

Þessa dagana falla hitamet í september í hrönnum hér á landi, og júlí var sá hlýjasti frá upphafi mælinga, og hlýtur kuldahrollur að fara um kuldatrúarmenn við þau tíðindi. 

Og sumarið, mælt frá 9 stiga meðalhita að vori til 9 stiga hita að hausti hefur lengst um meira en þrjár vikur á síðusu öld. 


mbl.is Áfram hlýtt en glittir í haustlægðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maxmálið minnir svolítið á DC-10, A 320 og 330 slys fyrr á árum.

Vandræðin hjá Icelandair stafa að stórum hluta af Boeing 737 Max slysunum, sem eiga sér hliðstæður að hluta til frá fyrri tíð. 

Þegar farangurshurðir fóru að tætast í tvígang af hinum nýju Douglas-DC 10 þotum mátti rekja það að miklu leyti til vanrækslu og sleifarlags hjá bæði bandaríska loftferðaeftirlitinu FAA og Douglas, sem minnir á svipað hjá FAA og Boeing núna. 

Og í fyrsta farþegafluginu með farþega á hinni þá spánnýju Airbus A 320 tók jafn spánnýr Fly-by-wire búnaður, byltingarkenndur tölvustýrður búnaður, sem ætlað var að koma í veg fyrir ofris, ráðin af flugstjóranum í lágflugi yfir flugsýningu. 

Fyrsta mannskæða slysið á þotum af gerðinni Airbus 330 Air, þegar Air Frace 447 steyptist niður yfir Suður-Atlantshafi fyrir áratug og allir fórust, meðal annars einn Íslendingur, varð vegna mistaka flugmanna, sem rakin voru til lélegrar þjálfunar í því að fást við vandræði af völdum sampils milli sjálfvirknibúnaðar og mistaka flugmanna. 

Málaferli vegna þessa slyss á hendur Air France urðu langdregin og æfingakerfi flugmanna í samræmi við CRM, Crew Resource Management, var endurbætt. 

Lærdómar af fyrrnefndum slysum hafa reynst ómetanlegir við að auka flugöryggi, og vonandi mun fást lærdómar af Boeing 737 Max slysunum, sem skapa árangur af sama tagi.  


mbl.is Icelandair segir upp 87 flugmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski "jeppa"brandarinn verður æ skondnari.

Í tengdri frétt á mbl.is er greint frá þeirri staðreynd að í Evrópu hafi bílakaupendur í vaxandi mæli snúið sér frá kaupum á dísilbílum og keypt jeppa í staðinn. 

Þetta er sagt berum orðum í fréttinni, að fólk kaupi jeppa í staðinn, og það ekkert smáræði, því að um er að ræða milljónir bíla af þessu tagi á ári.  

Ekki hefur farið fram hjá neinum, að þessi þróun hvað snertir svokallaða "jeppa" hefur líka verið í gangi hér á landi. 

Áður hefur verið fylgst með "jeppa"æðinu íslenska hér á síðunni og fáránleikanum, sem sú íslenska orðanotkun felur í sér, því að í stað þess að þýða ensku skammstöfunina SUV, sem er notuð erlendis, og tala um fjölnotabíla eða sportnytjabíla, hefur gamla orðið jeppi verið dregið fram og snúið all hressilega út úr því til þess að fá kaupendur til að halda að þeir aki torfærubíllum þegar þeir aka í raun ósköp venjulegum fólksbílum. 

Til fróðleiks má geta þess að fyrstu bílarnir, sem hlutu skilgreininguna SUV, voru Dodge Caravan og Renault Espace í kringum 1983. 

Engum lifandi manni datt þá í hug að þetta væru jeppar, hvorki sportjeppar né jepplingar, enda báðir aðeins með drif á tveimur hjólum. 

En eftir að bílar ein og Rav 4 og Honda CRV slógu í gegn um miðjan siðasta áratuginn, kom fram þessi knýjandi íslenski draumur um jeppa, en þó í byrjun talað um jepplinga.

Þar með var komin af stað þróun á notkun orðmyndarinnar "jepp" sem vegna gríðarlegrar samkeppni í sölu slíkra bíla er fyrir löngu komin út í vaxandi ógöngur og orðinn að æ skondnari brandara. 

Ekki er ástæða til að taka neitt umboð sérstaklega út úr; allir neyðast til að taka þátt í þessu gríni. 

Nýjasta dæmið er rafbíll, sem auglýstur er sem fyrsti rafknúni sportjeppinn. 

Síðuhafi brá sér með mælitæki í umboðið til að athuga veghæð, drif og annað, sem hlyti að tilheyra svo göfugum jeppa, og komst að því að þegar bíllinn er mannlaus, er veghæðin aðeins 16 sentimetrar, sem þyðir 15 sentimetrar þegar einn maður sest upp í hann;  lagið á framendanum líkara snjóplóg en framenda raunverulegs jeppa, og aðeins hægt að fá þennan "sportjeppa" með drifi á framhjólunum einum. 

Veghæðin er aðeins einum sentimetra meiri en á rafbíl af svipaðri stærð, sem hefur komið hér á markað á svipuðum tíma, en engum dettur ennn í hug að kalla sportjeppa. 

Í lýsingu á bílnum er heitið "sportjeppi" meðal annars réttlætt með því hve há yfirbygging hans sé. 

Samt er hún lægri en á Nissan Leaf og Opel Ampera-e, sem engum dettur enn í hug að kalla sportjeppa. 

Í nokkur skipti þegar síðuhafi hefur hitt ánægða eigendur nýrra "sportjeppa" sem eru aðeins með drif að framan en eru í stækkandi hópi bíla, sem þannig háttar til um, hafa þeir ekki trúað því þegar þeim var bent á að það vantaði fjórhjóladrif i "jeppann." 

En þeir hafa samt litið með ljómandi bros upp og sagt sem svo; "Það gerir ekkert til því að hann er miklu ódýrari fyrir bragðið, með stærra skott en ella og gefur samt möguleikann á því að allir haldi að ég sé á jeppa."

 


mbl.is Hættir sölu dísilbíla í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýyrðasmiðurinn Emil Björnsson. "Þynnka"?

Einn þýðingarmesti þáttur9inn í því að viðhalda gæðum og lífsvon íslenskrar tungu felst í smíði nýyrða yfir bæði ný og gömul fyrirbæri. 

Fjölnismenn, einkum Jónas Hallgrímsson, unnu ómetanlegt brautryðjendastarf á því sviði þegar ofurveldi dönskunnar var sem mest á fyrri hluta 19. aldar. 

Einn margra góðra nýyrðasmiða fyrir hálfri öld var séra Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, og sjá má dæmi um nýja notkun gamals íslensks orðs í fyrirsögninni á mbl.is:  "Fyrsta stiklan...frumsýnd..."

Þegar leitað var að heiti á fyrstu þáttaröðinni, sem Sjónvarpið lét gera með nýjustu myndbandstækni þess tíma árið 1981, fann Emil gamla orðið stiklur sem heiti á hana. 

Upphafleg merking orðsins er sótt í það fyrirbæri í gönguferðum, sem felst í því að komast sem léttast yfir ár og læki með því að stikla á steinum og grynningum, og einnig birtist orðið í íslensku máli í orðtakinu "að stikla á stóru."

Úr smiðju Emils munu heitin hyrna og ferna komin yfir nýjustu ílátin fyrir mjólk á þessum tíma. 

Ekki man síðuhafi hver kom fram með hið frábæra nýyrði þyrla í stað erlenda heitisins helekopter, en heitin þyrla fyrir helekopter og sími fyrir telefón eru dæmi um það hve þjál og snjöll íslensk tunga getur verið. 

Emil var afar rökvís og fundvís í senn, og gerði kröfur til nýyrða sinna í því efni. 

Þegar heitið léttmjólk var valið yfir þá nýju tegund mjólkur, sem fólst í því að skerða fituna í henni án þess að fjarlægja hana alveg, fannst Emil það heiti bæði of hugmyndasnautt og of mikil eftiröpun á skandinavíska heitinu, auk þess sem það væri tæknilega rangt, því að léttmjólk væri í raun þyngri en venjuleg mjólk. 

Emil stakk upp á nýyrðinnu "þynnka" sem bæði lýsti eðli vörunnar betur og væri eins stutt og auðskilið og unnt væri.

Auk þess fólst ákveðin kímni í því heiti. 

En Emil varð ekki að ósk sinn í þetta sinn, því miður. 


mbl.is Fyrsta stiklan úr Venjulegt fólk 2 frumsýnd á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðir þættir BBC um sólkerfið.

Nú er búið að sýna fyrstu tvo þætti BBC um sólkerfið okkar og það þarf ekki að orðlengja það, að áhorfandinn sekkur niður í sófann við að horfa á þessa snilld og upplifa djúpa lotningu fyrir því yfirgengilega sköpunarverki sem við erum hluti af. 

Í báðum þáttunum mátti sjá myndir frá Íslandi, sem notaðar voru, einkum þegar fjallað var um mars. 

Það er ekki furða, því að síðustu 20 ára hafa margir af færustu sérfræðingum um mars komið til Íslands vegna þess hve margt er líkt á Íslandi og mars 

Athyglisverð voru ummælin sérfræðings þess efnis, að það myndi vekja meiri undrun ef það kæmi í ljós í frekari rannsóknum á mars, að þar hefði aldrei verið líf, heldur en hitt, að þar hefði verið líf á því timabili sem þessir systurhnettir, jörðin og mars, voru með frekar líkar aðstæður. 

Og vísindamaðurinn bætti svipuðum ummælum við hvað varðaði að finna líf á mars nú. 

Ýmsar ástæður voru nefndar fyrir því að jörðin slapp við örlög mars sem missti mestallan lofthjúp sinn út í geiminn fyrir rúmum 3,5 milljörðum ára og missti sömuleiðis segulsviðið. 

Hvort tveggja hélt velli á jörðinni og hélt hlífiskildi yfir myndun lífsins. 

Meðal þess, sem jörðin naut, var að vera tvöfalt stærri í þvermál en mars og því með meira aðdráttarafl. 

Í fyrsta þættinum fyrir viku vakti fjölmargt athygli, og má þar nefna möguleikanna á á því að Titan, stærsta tungl sólkerfisins, myndi ef til vill geta skartað lífi eins og jörðin eftir meira en þrjár milljónir ára. 


mbl.is Ekkert áhlaup til að sjá geimverurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingræðið vegur víðast þungt í vestrænu lýðræði.

Í þróun og vexti lýðræðisins í vestrænu stjórnarfari hefur gildi þingræðisins víðast vegið þungt vegna þess að þingmenn fá í frjálsum lýðræðislegum kosningum beint umboð frá kjósendum. 

Angi af þessum meiði eru ákvæði um friðhelgi þingmanna, sem upphaflega áttu að koma í veg fyrir að ráðríkir handhafar framkvæmdavaldsins, ekki kosnir beint, heldur óbeint, gætu látið kippa þingmönnum út úr áhrifum með því að láta fangelsa þá eftir geðþótta. 

Skyldar þessu eru takmarkanir á valdi til að rjúfa þing eða senda það heim, sem Boris Johnson er nú að finna smjörþefinn af. 

Hér á landi eru til tvö dæmi um hliðstæður, 1931 og 1974, þegar forsætisráðherrarnir Tryggvi Þórhallsson og Ólafur Jóhannessson fengu þjóðhöfðingjana, Kristján 10 og Kristján Eldjárn til að skrifa undir heimild til að rjúfa þing. 

Báðir þjóðhöfðingjarnir gátu gert þetta í krafti stjórnarskrárákvæða um að þeir væru ábyrgðarlausir af stjórnarathöfnum og eitthvað svipað mun líklega eiga við um Bretadrottningu. 


mbl.is Þingslit Johnsons ólögmæt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríverslun við Kana; gömul hugmynd Jónasar frá Hriflu.

Jónas Jónsson frá Hriflu, sem vel mætti útnefna sem stjórnmálamann 20. aldarinnar eftir að hann átti stærstan þátt í að móta flokkakerfið, var sérstæður stjórnmálamaður hvað varðaði sýn á utanríkismál, menntamál og byggðamál. 

Jónas fór árlega til útlanda, bæði vestur og austur um haf til að víkka sýn sína og var langt á undan samtíma stjórnmálamönnum hér heima í mörgu hvað varðaði utanríkismál, því að flestir íslenskir stjórnmálamenn voru lítt sigldir. 

Strax fyrir stríð sá Jónas fyrir sér að stöðu Íslands og öryggismálum yrði best borgið undir verndarhendi Engilsaxa, eins og hann kallaði gjarnan Bandaríkjamenn og Breta, og reyndist hann sannspár í því efni. 

1945 óskuðu Bandaríkjamenn eftir því að fá þrjár herstöðvar á Íslandi til 99 ára, Keflavíkurflugvöll, Hvalfjörð og Skerjafjörð. 

Ráðamenn í öllum flokkum höfnuðu þessari hugmynd eindregið, - allir nema Hriflu-Jónas. 

Hann hvatti til samninga við Bandaríkjamenn sem byggðust á því að fá allsherjar fríverslunarsamning við Bandaríkjamenn. Slíkt yrði afar mikilvægt fyrir okkur, en Bandsríkjamenn myndi ekkert muna um þetta vegna smæðar okkar.  

Annar afi minn, sem var á lista Framsóknarmanna í Reykjavík 1934 deildi um þetta mál við hinn afa minn og rökstuddi stuðning sinn við Jónas með því, að í þessum samningum yrði sæst á að sleppa herstöðinni í Skerjafirði og semja til 50 ára; sem sagt að fara milliveg eins og oft er gert í samningum. 

En ekkert þessu líkt gerðist beint, en í raun reyndist Jónas forspár um hermálið, því að svo fór, að Bandaríkjamenn fengu bæði Keflavíkurflugvöll og stöð í Hvalfirði 1951 og varnarliðið var hér í rúm 50 ár. 

En enginn fríverslunarsamningur var gerður. 


mbl.is Trump sagður vilja semja við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi naumt í þetta sinn.

Það hefur tíðkast í mörg ár að áhugamenn um veðráttu hafa fylgst með skaflinum í Gunnlaugsskarði á hverju hausti til að sjá hvort hann lifi sumarið af. 

Eini gallinn við þetta er sá, að ef skaflinn verður mjög lítill og gráleitur, getur hann sýnst vera horfinn, þótt einhverjir fermetrar af klaka séu eftir. 

Nokkurra dægra svalviðri með snjóföl um daginn gerði málið erfitt viðfangs, en nú er þetta nýsnævi alveg horfið og skaflræfillinn orðinn svo tæpur, að miðað við kröfur um sýnileika í gegnum sjónauka neðan úr byggð, verður, samræmis vegna, líklega að skrá hann dauðann í þetta sinn. 


mbl.is Esjuskaflinn er á hröðu undanhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstöðu Defenders breytt.

Síðustu árin hefur torfærubílum, sem fallið hafa undir skilgreiningu orðsins jeppi, fækkað jafnt og þétt. Upphaflegu brautryðjendurnir, Willysjepparnir, líka Wagoneer, Landrover, Rússajepparnir, International Scout, Ford Bronco, Range Rover, Chevrolet Blazer, Dodge Ramcharger, Mercedes Benz G, Suzuki Jimny Fox og Samurai og Toyota Landcruiser og Hilux s. frv. voru allir með heilar hásingar að framan og aftan.Landrover Defender 2020

Helsti kostur þess fyrirkomulags er örugg veghæð og styrkur og mikil slaglengd fjöðrunar en ókosturinn þyngri og stirðari fjöðrunarbúnaður og lakari fjöðrun í hröðum akstri, jafnvel þótt gormar séu notaðir. 

Fyrsti "crossover" heilsoðni jeppinn með sjálfstæðri fjöðrun að framan var Lada Niva (Sport) 1976, en á næstu árum á éftir birtist "crossover" jepplingurinn AMC Eagle og í kjölfarið litli Cherokkee, sem var með heilsoðna byggingu og tvær hásingar, og hinir japönsku Suzuki Vitara og Daihtsu Feroza, með sjálfstæða fjöðrun að framan. Jeep Wrangler

Og það var byrjað að seta sjálfstæða fjöðrun að framan á jeppa eins og Mitsubishi Pajero og Toyota Hilux og 4 Runner, þannig að nú fór jeppum með gamla laginu og tveimur heilum hásingum fækkandi. 

RAV 4 með heilsoðna byggingu og sjálfstæða fjöðrun að aftan og framan kom fram upp úr 1990 og þessi jepplingur hratt af stað bylgju jepplinga að þessari gerð. 

Brátt féllu Toyota Landcruiser og síðar Hilux úr hópi tveggja heilla hásinga jeppa og fyrir nokkrum árum fór Mercedes Benz líka úr þeim hópi. 

Þar með stóðu í meginatriðum aðeins þrír jeppar eftir með tvær hásingar á vesturlöndum, Land Rover Defender, Jeep Wrangler og Suzuki Jimny. 

En með tilkomu algerlega nýs Defenders nú er saga hins gamla gersamlega á enda hvað snertir alla gerð og aðeins Jimny og Wrangler sitja eftir með gamla lagið.  

Hinn nýi Defender er með sjálfberandi byggingu sjálfstæða fjöðrun að framan og aftan og er einfaldlega allt annar bíll en sá gamli. 

Í staðinn hefur Land Rover Discovery verið þróaður til hins ítrasta til að verða sem öflugastur torfærubíll, og er nú kominn aftur til leiks svo gerbreyttur, að það markar ákveðin þáttaskil í því að samræma torfærugetu og þægindi. 

Aðal keppinautar hans nú hvað stærð snertir eru Jeep Wrangler, Mercedes Benz G og Toyota Landcruiser; þeir tveir síðastnefndu með heilar hásingar að framan. 

Wranglerinn er þeirra léttastur og býður upp á mestu torfærueiginleikana í gegnum breytingar. 

En ekki má gleyma því að Suzuki Jimny er líka með tvær heilar hásingar og möguleika fyrir þá efnaminni, sem vilja ekta jeppa af gömlu, þrautreyndu gerðinni.   

  


mbl.is Nýr Defender fram á sjónarsviðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump vill skipta um hitamæli.

Greta Thunberg gefur ágæta lýsingu á Bandaríkjaforseta þegar hún lýsir afstöðu hans til vísinda og vísindamanna. Forsetinn lýsti henni vel strax í upphafi valdatöku sinnar með þeim orðum, að ekkert væri að marka vísindasamfélagið og að það þyrfti að reka þá vísindamenn sem kæmust að þeim niðurstöðum sem ekki hentaði þrengstu bandarískum hagsmunum og ráða "alvöruvísindamenn" í staðinn; les: vísindamenn sem komast að þeim niðurstöðum sem falla að skoðunum Trumps. 

Þessu hefur áður verið líkt við það að læknir vilji henda hitamælinum og nota í staðinn hitamæli, sem kemst að "réttri" niðurstöðu. 

Hörðustu fylgismenn Trumps hér á landi reyna að tala stanslaust niður til Gretu og tala um "unglinginn Gretu" og "hina fötluðu Gretu" og er þá stutt í að kalla hana "hinn fatlaða ungling Gretu."


mbl.is „Af hverju ætti Trump að vilja hitta mig?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband