Hlutfallslegt met í ívilnun fyrir stóriðju. Kolavinnsla hafin á ný.

Það fór ekki hátt á sínum tíma, en ef teknar eru fyrir allar þær aðgerðir, sem voru gerðar sem ívilnanir fyrir kísilverið á Bakka, og þær lagðar saman, voru þær líklega hlutfallslega meiri en nokkur stjórn Sjalla og Framsóknar hafði gefið álverum landsins. 

Fimmm milljarðar í viðbót nú gerir það enn líklegra að svona sé í pottinn búið. 

Og í öllum aðdragandanum fór það alveg framhjá öllum, að með kísilverinu var hafin brennsla kola á ný hér á landi svo næmi mörgum tugum þúsunda tonna á ári og líklega langt yfir 100 þúsúnd tonnum með áframhaldandi vegferð af þessu tagi. 


mbl.is Björt Ólafsdóttir: „Ég varaði við þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr átakahernaður landvinninga að hefjast.

Alla Íslandssöguna hafa verið átök um yfirráð yfir landi, fólki og auðlindum, bardagar á Landnámsöld, Söguöld, Sturlungaöld, við Siðaskipti.  

Á Alþingi hafa mál verið flutt og deilt um þau og þannig virðist það ætla að verða áfram varðandi virkjanamál á þinginu, sem nú er að hefjast. 

Sagnaslóð Dalasýslu geymir margar frásagnir um átök og bardaga og nú er sá nýjasti í uppsiglinu, togstreita um landareignir sem henta vel til að reisa vindorkuver. 

Nú þegar er forsmekkurinn kominn fram í landakaupum fjárafla- og valdamanna við Búðardal, Sólheima í Laxárdal og í Garpsdal. 

Þau vindorkuver, sem þar eiga að rísa munu ein og sér blasa við sjónum ferðafólks alla leiðina frá Laxárdalsheiði og um Hvammssveit, og frekari landakaup við Gilsfjörð munu líka verða áberandi á því svæði. 

Um leið og búið verður að dreifa risaorkuverum um hundrað kílómetra langa akstursleið verður útþenslan tryggð og þar með völd og auður nýrra landgreifa. 

Meðal fjárfesta glyttir í Framsóknarráðherra og gamalkunna valdamenn frá tímum Finns Ingólfssonar. 

Áður hefur verið rakið heilsteypt ferli vegvísa sem sýna að framtíðarsýnin byggist á sæstrengjum til landsins í kerfi orkupakkanna margumræddu. 

Þá munu uppkaup á verðlitlum eyðijörðum skapa þúsundfaldan gróða fyrir hina nýju orkugreifa. 

 


mbl.is Þingið sett í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um raftítlurnar? Hvert hjól getur skapað rými fyrir einn bíl.

Í ýmsum borgum í Evrópu, svo sem í Brussel, má sjá rafknúin hlaupahjól, sem kalla mætti raftítlur á víð og dreif og einnig fólk sem ferðast á slíkum farkostum og notfærir sér það að geta leigt sér slík farartæki. Náttfari, Léttir og RAF

Reiðhjól, rafreiðhjól, rafhjól og vespuhjól geta verið af mörgum mismunandi gerðum og tekið heilmikinn farangur ef því er að skipta. 

Sá, sem ferðast á slíku hjóli, ætti að vera vel séður af einkabílaunnendum, því að ef hann væri ekki á hjólinu, væri hann á bíl, en afsalar sér því rými á götunum til annars bíleiganda. 

En í staðinn fyrir að líta það með velþóknun að sá á hjólinu liðki fyrir bílaumferðinni er furðu algengt að bílaeigendur líti hina hjólandi hornauga og finni þeim flest til foráttu.  

 


mbl.is Deilireiðhjól á 41 stað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum þrjú mörk á tíu mínútum, er EM-draumurinn að deyja?

Á einu augnablikinu nú í síðari hálfleiknum birtist á töflu, hvernig Albanir höfu átt miklu fleiri sendingar en Íslendingar í leiknum, sem nú virðist vera það sama og að við séum að tapa EM-draumnum út í hafsauga. 

Í fjórða marki Albana var nánast fjöldi manna þeirra fríir fyrir markinu, hvílíkt klúður!


mbl.is Slæmur skellur í Albaníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lag dagsins er sleifarlag..."

Þetta er eðlileg byrjun á lagi, sem þegar er byrjað að syngja í haus síðuhafa við að upplifa fyrstu klukkustund þessa dags. 

Í fyrsta lagi umfjöllun í tengdri frétt á mbl.is um þær afleiðingar sem miklar loftslagsbreytingar hafi á þjóðir heims og lífsskilyrðin á jörðinni, og hve dýrkeypt allt aleifarlagið í þeim efnum getur orðið. 

En í öðru lagi allt þetta litla, sem birtist í umferðinni, þegar horft er á uppsafnaða ósiðina í henni, tugi metra á milli bíla sem drattast seint og um síðir af stað á grænum ljósum og síðan í þriðja lagi þegar tölvusíðan er opnuð og alls kyns boðflennur ryjðjast inn á skjáinn, jafnvel tíu sinnum í röð, til þess að trufla það að hægt sé að byrja að gera eitthvað. 

Á sama tíma glymja tónar og hringingar í farsímunum, óumbeðnar auglysingar frá alls kyns fyritætkjum sem ryðjast þar inn í morggunsárið. 

En á sama tíma finnst eina ráðið við þessu: Æðruleysisbænin og þakklætið fyrir að eiga hverja þá stund, sem núið, hin líðandi stund, gefur hverjum einstaklingi. 

Og upphafið á laginu er ávöxtur augnabliksins, sem færir með sér gott skap: 

"Lag dagsins er sleifarlag, 

sem lamar allra hag 

og hljómar slag í slag

í slarkinu dag eftir dag..."


mbl.is Alvarlegar afleiðingar óumflýjanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tesla - kemur aftur sterk inn?

Tesla er eitt af ævintýrunun í viðskiptalífi heimsins síðustu ár og er sjaldgæft dæmi um það hvernig frjó hugsun eldhuga getur lyft grettistökum. 

Með því að hugsa hönnun rafbíla alveg upp á nýtt varð til bill, sem var um stund langt á undan öllum öðrum rafbílum. 

Þetta var hins vegar skammgóður vermir, því að í fyrstu voru það bara dýrir bílar, sem voru í boði, en engin bitastæður bílaframleiðandi getur haldið allsherjar forystu án þess að teygja sig neðar í skalann.  

Það var bíll af Tesla gerð sem var fyrst ekið á rúmum sólarhring í kringum landið 2015, en síðan kom bakslag, sem virðist fyrst og fremst hafa stafað af því að það var of seint brugðist af hálfu Tesla við hraðri framþróun og óvæntu stórauknu framboði keppinautanna. 

Nú er Tesla að gyrða sig í brók varðandi það að höfða til stærsta og gjöfulasta markhóps kaupenda, sem er fólk með góðar tekjur í millistéttum, og er það vel. 

Það er búið að spá illa fyrir framtíð Tesla verksmiðjanna í líkingu við það að aðeins séu þrjú hjól undir bílnum.  En áfram skröltir hann þó.  


mbl.is Tesla opnar á Íslandi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar og hljóðlátar tegundir hernaðar.

Litla friðsæla Ísland lá kannski "langt frá heimsins vígaslóð" þegar Hulda orti ljóðið "Hver á sér fegra föðurland?" en það breyttist hratt einmitt á þeim tíma sem ljóðið var að festa rætur í krafti hins frábæra lags snillingsins Emils Thoroddsens. 

Þegar Ísland gerði varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, að það væri gert vegna þess að ef hætta væri á því að farið yrði með hernað gegn NATO yrði líklegra að ráðist yrði á garðinn þar sem hann væri lægstur heldur en þar sem hann væri hæstur. 

Í alheimskerfi netsins er litla Ísland ekkert fjær því að vera fjarri hinni nýju vígaslóð tölvuárása og tölvustyrjalda, heldur jafnvel statt þar sem garðurinn er lægstur á þeim tíma, þegar ný og hljóðlát tegund hernaðar, sem háður er með tölvum, verður æ ágengari hvar sem er á hnettinum. 


mbl.is „Þetta er skipulögð og þróuð árás“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðamennirnir drepa ferðamannaslóðir fyrir sjálfum sér.

Ferðafréttaveitur birta oft vinsældalista yfir góða ferðamannastaði, en athyglisvert er, hvernig þeir hafa margir hverjir umsnúist síðustu misseri. 

Gríðarleg fjölgun ferðafólks um allan heim virðist nefnilega hafa sums staðar þau áhrif, að stemningin eyðileggst á fjölsóttustu stöðunum vegna örtraðar, biðraða, of hás verðlags og þar með eyðilagðrar stemningar sem var keppikeflið. 

Sömu ferðamannastaðir og áður röðuðu sér í efstu sætin vegna vinsælda tróna nú ofarlega á óvinsældalistum vegna ágangs og áreitis of margra. 

Þetta flaug um hugann í gær í góða veðrinu í gömlu miðborg Reykjavíkur þegar rölt var um göturnar. 

Eini Íslendingurinn, sem sást á þessari gönguferð var íslensk fyllibytta. Mikill meirihluti var fólk frá Asíu.  

Sem þýðir, að ferðamenn sem ætla að upplifa íslenska stemningu og menningu í höfuðborginni, finna hana ekki vegna ofurfjölda erlendu gestanna. 


mbl.is 9 staðir sem Forbes mælir með í stað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi framsýni. "Akureyrarkrafan".

Vaxandi kröfur kaupenda setja mark sitt á rafbílana, sem nú sópast inn á markaðinn. Eina kröfuna mætti kalla Akureyrarkröfuna, þ. e. að hægt sé að aka á einni hleðslu í einum áfanga milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Til þess þarf að minnsta kosti 60 kwst rafhlöðu, líkt og er í Opel Ampera-e bílunum, sem ekið var þessa leið á dögunum á einni hleðslu. 

Bílar með svona stórar rafhlöður kosta yfir fimm milljónir króna og þess vegna yrði það góð viðbót að fá einn nýjan sem fengist fyrir fjóra og hálfa. 

Fyrir aðeins tveimur árum þótti það mikil framför að hafa 30- 40 kwst rafhlöður í nýjustu rafbílunum þá eins til dæmis Nissan Leaf. 

Í akstrinum til Akureyrar á Opel Ampera var sá bíllinn sem lengra komst, búinn að eyða 40 kwst í Varmahlíð, og hefði því ekki komist með góðu móti lengra en á Blönduós ef rafhlaðan hefði verið af þeirri stærð. 

Þar að auki miðaðist akstur þess bíls við ítrustu sparneytni í 5 og hálfrar stundar akstri. 

Hinn bíllinn var 5 klst og 10 mínútur og átti aðeins eftir rafafl til 30 km aksturs þegar komið var til Akureyrar. 

Hann var stilltur á 85 km hraða á hraðastillinum, en hefði varla komist alla leið á hleðslunnni stilltur á 90. 

Í praksis borgar sig að miða við það komast örugglega á hleðslunni til Blönduóss og hraðhlaða þar í rúmlega hálfs tíma kaffipásu. 

Taka ber með í reikninginn, að við hraðhleðslu fellur drægnin um 20 prósent og að miða verður við það á seinni stigum ferðalags á rafbíl, til dæmis á leiðinni til baka, nema að menn stansi þeim mun lengur til að fá sér fulla hleðslu. 

Volkswagen undirvagninn undir ID.3 felur í sér byltingu,ef rétt er hermt um eðli hennar. 

Það vekur athygli þegar horft er til fortíðar hvernig hestvagninn mótaði allt útlit bíla allt fram að Seinni heimsstyrjöldinni. 

Þá fyrst fóru að sjást bílar sem voru miðaðir við það eitt að vera bílar með sprengihreyflum. 

Tesla var að mestu hönnuð fyrst og fremst sem rafbíll, en svo virðist sem Volkswagen verði með enn magnaðri hönnun.  


mbl.is Meira en 30.000 ID.3 pantaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífseigur misskilningur um þjóðgarða og virkjanir.

Fyrir tilviljun hlustaði síðuhafi á viðtal við Jónas Elíasson prófessor á Hringbraut í dag. 

Ég hef mikið dálæti á frískleika og opinni og frjórri hugsun þessa hressa manns, sem lætur háan aldur ekkert á sig frá. Hetch_Hetchy_Valley_From_Road,_Albert_Bierstadt

En í dag hélt hann fram misskilningi um virkjanamál, sem virðist ætla að verða lífseigur hér á landi og lita alla umræðu um þau. 

Jónas fullyrti að virkjanir og þjóðgarðar færu vel saman og hélt því sama fram við upphaf umræðu um Kárahnjúkavirkjun. 

Þá nefndi hann tvo staði i Bandaríkjunum sem dæmi og varð það til þess að ég lagði á mig mikla fyrirhöfn til þess að skoða þá. Valley_View_Yosemite_August_2013_002

Þetta voru meðal annars miðlunarlónið Hetch-Hetchy í Yosemite í Kaliforníu og Grand Lake virkjunin í Rocky Mountains þjóðgarðinum í Kolorado. 

Efri myndin er af þessum dal, sem sökkt var 1923, en neðri myndin er af hinum heimsfræga Yosemitedal. 

Í viðtalinu á Hringbraut í dag bætti hann við Mead og Powell miðlunarlónunum og Roosevelt lónunum og lét sig ekki muna um það að skilgreina Elliðavatn sem hreint miðlunarlón í leiðinni. 

Tökum þetta fyrir: Hetch-Hetchy var myndað með stíflu fyrir hundrað árum þegar viðhorf og reglur um þjóðgarða voru allt aðrar en nú eru. 

Í alvöru er nú deilt hart um þá hugmynd að hleypa vatninu úr þessum íðilfagra dal og endurheimta glæsileik hans. 

Grand Lake, þ.e. vatnið sjálft, er ekki miðlunarlón eins og Jónas hélt fram, heldur er miðlunarlón virkjunarinnar utan þjóðgarðsins, en lónið tengt við vatnið neðanjarðar svo hægt sé að viðhalda stöðugri vatnshæð í því. 

Á Hringbraut í dag hélt Jónas því fram að miðlunarlónin stóru vestra væru í friðlöndum. 

Það er alrangt. Þau eru á svonefndum útivistarsvæðum (Recreational areas) sem eru fjarri því að standast kröfur um þjóðgarða og svæði með sambærilegri friðun og þjóðgarðar. 

Hvað Elliðavatn áhrærir hafa virkjanafíklar þrástagast á því að það sé að öllu leyti tilbúið, manngert. 

En Elliðavatn hefur verið til í minnsta kosti ellefuþúsund ár, enda bera þúsund ára gömul örnefni þess vitni, Elliðavatn sjálft, bæirnir Elliðavatn og Vatnsendi, og hæðirnar Vatnsendahæð og Vatnsendahvarf. 

Þegar Elliðaárnar voru virkjaðar var vatnsborðið hækkað með stíflu og stækkaði vatnið nokkuð við það. 

En að Elliðavatn sé manngert að öllu leyti er alls ekki rétt. 

Í Morgunblaðinu í fyrr var því haldið fram að nokkuð ný virkjun með tilheyrandi mannvirkjum væri risin í miðjum þjóðgarði í Ástralíu. 

Þessi fullyrðing reyndist vera búmerang því að hið sanna var virkjunin var öll neðanjarðar á nokkurs rasks eða breytinga á yfirborðinu. 

Í lokin má svo geta þess að Jónas notaði kjörorð stefnu sinnar um hugsun sína fyrir tveimur áratugum: "Virkja fyrst og friða svo!"

Í samræmi við það var sett fram sú stefnumótun að austan Hálslóns skyldi vera þjóðgarður, sem næði nánast alveg fram á bakka þeirra miðlunarlóna, sem þar eru. 

Og með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs hluti af honum. 

En þegar UNESCO samþykkti að Vatnajökulsþjóðgarður skyldi verða á heimsminjaskrá, vakti það athygli síðuhafa, að þessi fráleita hugsun ekki brautargengi hjá stofnuninni og að þetta svæði þeirra, sem telja að virkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun og þjóðgarðar, er ekki hluti af því svæði sem er á Heimsminjaskrá. 

 


mbl.is „Þarna hefur verið farið að öllum lögum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband