"Hennar líf er eilíft kraftaverk..."

Ofangreind  orð eru í ljóðinu "Sjá dagar koma" notuð um það kraftaverk sem líf íslensku þjóðarinnar hefur verið um aldir.  

Eitt af þessum kraftaverkum er augljóslega sá magnaði árangur sem oft á tíðum hefur náðst í íþróttum. 

Einkum standa Íslendingar höllum fæti gagnvart þjóðum sem eru allt að þúsund sinnum fjölmennari og alla jafna eiga því miklu meiri möguleika en við til þess að moða úr mannvali eins og gerst hefur á þessum heimsfaraldurstímum.  

En á þessu eru tvær hliðar, því að í sumum tilfellum getur missir eins afburða lykilmanns í íþrótt eins og handbolta með öllum sínum leikkerfum verið jafn mikill hjá stórþjóð eins og hjá smáþjóð.   


mbl.is Geir með fast skot á Guðmund?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er árið 1990 komið aftur á Stöð tvö?

Eftir nokkur ár í miklum darraðardansi í rekstri var prófað einhvern tíma í kringum 1990 að læsa áhorfi á þá þætti, sem höfðu fram að því verið með opna dagskrá og bar þar hæst flaggskipt stöðvarinnar, fréttirnar, sem á einum tímapunkti höfðu komust í jafnmikið áhorf og fréttir Sjónvarpsins. 

Niðurstaðan varð svipuð og í álíka tilraun nú; mikið hrap á áhorfi.  

Á þessari bloggsíðu var þetta rifjað upp þegar dagskránni var allri læst á Stöðinni nú á dögunum og varað við þeirri áhættu, sem tekin væri. 

Samt var sú von látin í ljós að vegna breyttra aðstæðna á fjölmiðla- og samskiptamarkaðnum að þetta færi ekki á sama veg og fyrir 30 árum og hefði í för með sér bagalega minnkun á áhorfi. 

Nú virðist ekki að sjá, að það stefni í neitt skárri átt en 1990. Þá var brugðist skjót við og vonandi verður fundin leið út úr þessu núna. 


mbl.is Dregur úr áhorfi á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krapaflóð geta orðið mannskæð.

Hugtakið krapaflóð nær yfir afar fjölbreyttar gerðir af flóðum bæði í ám og á snjóþungu landi.  

Snjóflóðið mannskæða á Patreksfirði 1983 kom í stórrigningu eftir gríðarlega snjósöfnun efst í byggðinni og ofan við hana. 

Þar myndaði vatnssöfnunin í bland við snjófargið mikla krapastíflu sem brast og þrumaði fram í sjó fram og þreif með sér hvað sem fyrir varð, meðal annars hús og fólk. 

Önnur tegund af krapaflóðum verða til á björtum og hlýjum morgnun síðsumars eftir að bráðnun íss og snævar á jöklum hefur stöðvast yfir bjarta nótt, svo að yfirborð jökulsins hefur harðnað við það að lofthitinn féll niður fyrir frostmark vegna hæðar yfir sjó á þeim tíma þegar sólar naut ekki.   

Í ágúst 1985 horfði síðuhafi úr flugvél, sem lent hafði verið á freranum skömmu áður uppi á Bárðarbungu áður en hann breyttist í krapasvelg eftir sólaruppkomu, hvernig bylgja af bráðnandi krapa óð niður Rjúpnabrekkukvísl alla leið niður í Skjálfandafljót.   

Svipað fyrirbæri grandaði þremur mönnum á leið yfir Rjúpnabrekkukvísl tveimur árum fyrr þegar þeir óku út i hana án þess að átta sig á því að hún var að breytast á augabragði úr sakleysilegri sprænu í skaðræðisfljót. 

Í myrkri og snjókomu febrúarmorgun einn 1993 lenti sá sem þetta skrifar í viðsjárverðum og ófyrirséðum aðstæðum af völdum krapaflóðs kvöldið á undan við einbreiða brú á Fjarðarhornsá. 

Falskur ís brast undan öðru framhjólinu í spóli þannig að bíllinn valt rólega á hvolf og hálffylltist af ísköldu vatni. 

Það varð til lífsbjargar að fjórir ljóskastarar á grind uppi á þakinu lýstu í árvatninu fyrir algera tilviljun og hægt var að finna leið út um aðrar dyrnar.   

Krapaflóð hafa alla tíð og munu áfram valda því á ísa köldu landi að fólk lendir í hremmingum og lífsháska.  Fjarðarhornsá 

Og banvænt eðli þeirra er mest af svipuðum toga og við aurflóð, skriðuföll og snjóflóð, að fjölbreytileiki aðstæðna og eðlis fyrirbærisins er oft stórlega blekkjandi. 

Á myndinni má sjá þessa vinalegu, litlu og meinleysislegu á að haustlagi. En harðsvíraðir umhleypingar að vetri til breyttu henni í skaðræðisfyrirbæri febrúarnóttina 1993. 

Frá því og slysinu í Rjúpnabrekkukvísl er nánar sagt í bókinni "Ljósið yfir landinu". 


mbl.is Vatnshæðin fór yfir þröskuldinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðrar kröfur í Kína, Indlandi og Rússlandi en í Evrópu.

Kínverjar hafa um nokkurra ára skeið verið mesta bílaframleiðsluþjóð veraldar.Suzuki Alto á Neshálsi við Loðmundarfjörð (2)

Indverjar eru líka öflugir. En þarfir fólks, aðstæður og fleira kalla á minni kröfur á sumum sviðum, eins og til dæmis í öryggismálum.  

Sem dæmi má nefna Suzuki Alto, sem var mest seldi bíll Indlands árum saman.

Á myndinni er íslenska útgáfan á leið upp Nesháls milli Húsavíkur eystri og Loðmundarfjarðar og þótt indverska útgáfan væri  nánast eins í útliti þar í landi og á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, er sá indverski mjórri en hinn evrópski og ekki með loftpúða og árekstravarnir. 

Það er gert til að halda verðinu niðri í samkeppni við milljónir léttbifhjóla í Asíulöndum. 

Tilraunin með langódýrasta og einfaldasta bíl heims, Tata Nano, mistókst hins vegar alveg, Indverjarnir voru of snobbaðir fyrir svo óskaplega frumstæðan bíl sem gargaði á það hve ódýr hann væri, var þar að auki var með herfilega útkomu í öryggismálum og mun óliprari í umferðinni en hjól. Auk þess miklu betra að vera á flottu hjóli sem vekti aðdáun .  

Gerð var samanburðartilraun í árekstraprófunum á nokkrum indverskum bílum sem seldir eru í Evrópu og bílum með sama heiti á Indlandi.  

Bílarnir fyrir Evrópumarkaðinn stóðu sig alveg þokkalega og sýndu, að vel var hægt að smíða góða bíla þar í landi, svo sem eins og Landrover, Range Rover og Jagúar.

En bílarnir, sem gerðir voru fyrir indverska markaðinnn kolféllu á prófinu og fengu enga stjörnu af fimm.  Dacia Spring el-car (2)

Svipað er að segja um kinverska bíla, sem á heimamarkaði eru ekki gerðir fyrir sömu öryggiskröfur og hér. 

 Nýjasta dæmið fyrsti Dacia (Renault) rafbíllinn, Dacia Spring, sem væntanlegur er til Evrópu í haust á afar hagstæðu verði.

Hann afar líkur kínverskum bíl frá Renault með allt öðru heiti og munu Kínverjar vanda sig við öryggisþáttinn fyrir Evrópumarkaðinn og meðal annars hafa sex loftpúða innan í Dacia Spring.  

Rússneski markaðurinn hefur löngum verið með aðrar kröfur um mengun og öryggi en þær vestrænu. lada_niva_og_fri_thjofur

Voru Lada verksmiðjurnar árum saman basli með að standast Evrópustaðlana, svo að Lada Niva (á Íslandi Lada Sport) leið til dæmis fyrir það, loftpúðalaus með öllu. 

Myndin er tekin á leiðinni í Herðubreiðarlindir með sjálft þjóðarfjallið í góðviðrismistrinu í baksýn, en Friðþjófur Helgason mundar myndavélina. 

Við slíkar aðstæður nýtur þessi fyrrum framúrstefnujeppi sín vel og stendur undir jeppaskilgreiningunni. 

En í Rússlandi er það margt forríkt fólk, að fyrir rúmum áratug, þegar nýr Toyota Landcruiser var kynntur, voru Rússland og Ísland fremst í röðinni í kynningunni og sölunni. 

Eru Íslendingar þó 400 sinnum færri en Rússar. 

 


mbl.is Rafbílum fjölgar í Kína og Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanlega margt sem Kófið breytir til batnaðar til frambúðar.

Fyrir rúmu ári óraði engan fyrir því sem dunið hefur yfir heimsbyggðina í formi COVID-19 heimsfaraldursins. Kófið 29. jan 2021

Og þegar vöxtur faraldursins var sem mestur í fyrstu bylgju hans sýndust öll sund lokuð víða lokuð til þess að bregðast við honum. 

Það var ekki beint uppörvandi kortið af ríkjum heims með Ísland eldrautt og fáa hefði þá grunað að það gæti breyst í algera andstæðu, með Ísland sem eina græna landið. 

Þetta getur átt við um fleira.

Enda þótt enn sjáist ekki fyrir endann á þeim margvíslegu vandræðum sem hafa dunið yfir má þó sjá að margar lausnir við honum hafa ekki einasta opnað alveg nýjar dyr og möguleika, heldur gæti það orðið til frambúðar. 

Eitt af því felst í þeirri grónu hugsun frá fortíðinni, að starfsmaður þurfi ævinlega að vinna starf sitt á þeim stað, þar sem starfsmannaskrá hans er.  

Af mikilli íhaldssemi í þeim efnum getur nefnilega leitt fyrirkomulag sem er óhagkvæmara og rígbundnara en það þyrfti að vera. 

Nú sjást dæmi um að starfsfólk sem áður þurfti að sinna viðveru á skráðum vinnustað, hefur jafnvel ekki komið þar inn vikum eða jafnvel mánuðum saman en samt skilað fullu vinnuframlagi og vel það. 

Áður hefur verið minnst á dæmi um slíkt, sem gefur til kynna að hið nýja fyrirkomulag sem kófið leiddi af sér geti orðið til frambúðar.  

Það fólst í því að þessi starfsmaður var á skiptiborði bifreiðaumboðs, sem er með umboð fyrir nokkrar mismunandi gerðir bíla og vélhjóla og starfsemi á nokkrum stöðum.  

Starfsmaðurinn býr fyrir austan fjall eins og margir aðrir, sem vinna á höfuðborgarsvæðinu og ók einfaldlega að heiman á hverjum morgni og heim aftur að kvöldi.  

Hann var búinn að vinna lengi fyrir fyritækið og afla sér reynslu sem kom sér afar vel á skiptiborðinu.  

Þegar Kófið skall á var gripið til þess ráðs að nýta nútíma tækni til þess að hann gæti sinnt starfi sínu heima frá sér, og fannst svo góð lausn, að vafasamt er að aftur verði horfið til hins fyrra fyrirkomulags úr því að hið nýja sparar mikil fjárútlát varðandi akstur fram og til baka á hverjum degi. 

Mjög líklegt er, að mörgu, sem breytt var vegna Kófsins verði ekki breytt til baka og ekki fjarri lagi að sumt af því sem hefur leitt af sé aukið hagræði og hagkvæmni muni skila ávinningi hagræði og ágóða. 


mbl.is Tæpur helmingur meira á vinnustað en heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóta frænka reykti vindla og vindlinga ótæpilega og varð 93ja ára.

Ömmusystir mín hét Þórunn Guðbrandsdóttir og mér fannst hún æðislega flott þegar ég sá hana sem strákur. Hún Tóta frænka sat hnarreist, tíguleg og ljóshærð eins og aðalsfrú og reykti stóra vindla auk þessum einhverra pakka á dag af aðal óþverranum.  

Svona lifði hún til hárrar elli og varð 93ja ára gömul. 

"Þarna sérðu," segja margir við mig sem ég segi frá þessu, "hvað hægt er að lifa lengi og vel og keðjureykja allan tímann." 

"Jú," svara ég, það átti við um hana Tótu frænku, 

En Ragnhildur, systir hennar, reykti aldrei og varð 103ja ára. 

Hún var látin taka fyrstu skóflustunguna að stofnun fyrir aldraða í Kópavogi, komin á annað hundraðið, en mátti varla vera að því vegna þess að veðrið var það vont, að hún hafði áhyggur af Sigrúnu Stefánsdóttur og marg endurtók: "Er þér ekki kalt, væna mín? um leið og hún vildi endilega láta hana hafa sjalið sitt og trefilinn. 

 


mbl.is Guðríður hafði reykt í áratugi en hætti í veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð sýn á afskipti af forsetakosningum í þætti BBC.

Í síðasta sjónvarpsþætti BBC um forsetatíð Donalds Trumps var fróðlegt að sjá horft á atburðarásina frá sjónarhóli hans og stuðningsmanna hans, sem hlýddu að lokum kallinu frá útifundi forsetans um að "fara til orrustu" í þinghúsið. 

Það var hins vegar galli á umfjölluninni að nefna ekki þá staðreynd í aðdraganda kosninganna að samkvæmt skoðanakönnunum voru fylgismenn Bidens miklu fleiri meðal þeirra kjósenda, sem voru fylgjandi grímunotkun og fjarlægðarreglu en fylgismenn Trumps, sem voru frekar hvattir til hins gagnstæða. 

Afleiðingin kom fram í skoðanakönnunum á þann hátt að fylgjendur Bidens voru miklu fleiri meðal þeirra, sem nýttu sér réttinn til að greiða atkvæði utan kjörstaða til að minnka smithættu sína og annarra. 

Og þar með var fyrirfram ljóst, að í lokatalningunni myndu þessi atkvæði hafa mikil áhrif á gang talningarinnar. Þetta fyrirbrigði er gamalkunnugt í mörgum löndum varðandi það þegar atkvæði sumra flokka eru hlutfallslega fleiri í utankjörstaðaatkvæðum en annarra flokka. 

Vel sást í þætti BBC hvernig Trump og fylgjendur hans urðu fyrir miklu áfalli þegar fyrrnefnd atkvæði Bidens fóru að skila sér betur undir lok talningarinnar og að þetta áfall litaði allar aðgerðir Trumpsinna allt til enda. 

Það sést á því, að BBC setur þetta samband útkomu í skoðanakönnunum og gangi talningar ekki í samhengi í umfjöllun sinni, að það var skiljanlegt að Trump og hans fólk virtist aldrei skilja þetta mikilvæga eðli málsins.  

 

 

 


mbl.is Biden ræddi kosningaafskipti við Pútín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrmæt áhrif í gegnum allt heilbrigðiskerfið.

Frá upphafi kórónaveikifaraldursins hafa verið á kreiki alls kyns kenningar um kosti og galla þeirra mismunandi sóttvarnaraðgerða, sem hafa verið notaðar til að verjast áhrifum hans. 

Ein kenningin hefur snúist um það að gera sem minnst og lofa frumskógarlögmálinu að ríkja í öllu sínu veldi og veirunni að "grisja" af vild.   

Afleiðingarnar af þessu komu fljótlega í ljós í því formi, sem sást til dæmis á upphafsstaðnum í Wuhan og í New York í Bandaríkjunum þar sem heilbrigðiskerfið og andlátsþjónustukerfið sprungu í tætlur á afdrifaríkan hátt; með örmagna, sjúku og deyjandi heilbrigðisstarfsfólki, yfirfullum líkhúsum og fjöldagrafreitum og hruni heilsugæslu gagnvart fólki með aðra sjúkdóma en COVID-19. 

Myndun stórra biðlista við rannsóknir og skimanir vegna banvænna sjúkdóma og ótímabær dauðsföll á þeim vettvangi var ein birtingarmyndin.  

Alla þessa öld hefur vanmat á gildi heilbrigðiskerfisins verið rikjandi bæði hér á landi og annars staðar.  Það birtist til dæmis í ónýtum húsakosti vegna vanrækslu á viðhaldi. 

Góð staða hér á landi miðað við önnur lönd er ekkert sjálfgefin og hefur að vísu kostað endurmat á því einstaklingsfrelsi sem birtist í réttinum til að stuðla að smiti annarra. 

Áhrif mismunandi skoðana og aðferða við sóttvarnir á atburðina í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum er efni í bloggpistil. 


mbl.is Ísland í 7. sæti yfir viðbrögð við faraldrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuttugu ára afmæli "marslandsins" Íslands.

Fyrir tuttugu árum kom maður að nafni Bob Zubrin í heimsókn til Íslands á vegum Alþjóðasamtaka áhugafólks um ferðir til Mars.! 

Um svipað leyti hafði tímarirtið Time verið með forsíðumynd af Zubrin tileinkaða margra blaðsíðna umfjöllun um viðfangsefni NASA og samtaka Zubrins. 

Slíkar umfjallanir blaðsins hafa flokkast sem "Cover story" og þykir slíkt talsverð viðurkenning fyrir gildi forsíðuumfjöllunarinnar. 

Zubrin kom til Íslands til þess að kynna sér aðstæður hér á landi til þess að stunda rannsóknir og æfingar geimferða í marsferðum framtíðarinnar. Gjástykki, Sandmúli

Flogið var með hann og Viðar Víkingsson, íslenskan förunaut hans yfir Kverkfjöll og til Mývatns. 

Þremur árum síðar kom heil sendinefnd frá samtökum marsfaraáhugafólks, hámenntað fólk í ýmsum vísindagreinum og fór hún norður í Gjástykki til skoðunar á hugsanlegum æfinga- og rannsóknarsvæði þar vegna marsferða. 

Ísland heldur áfram að vera áhugavert í þessu efni, og sást það vel í nýlegum sjónvarpsþáttum um sólkerfið og reikistjörnurnar, því að þegar sýndar voru myndir af mars og fjallað um þá reikistjörnu voru myndskeið frá Íslandi notadrjúg.   

 

 


mbl.is Undirbýr flug á Rauðu plánetunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttmæt ósk hjá ráðamönnum Fjallabyggðar, en þeir völdu þetta sjálfir.

Krafa talsmanna Fjallabyggðar um tvenn ný jarðgöng inn í byggðina er mjög eðlileg og sjálfsögð. 

Gallinn er bara sá, að fleiri byggðarlög um allt land kalla á svipaðar framkvæmdir með jafn sjálfsögðum kröfum, sem hægt hefði verið að uppfylla í Fjarðabyggð fyrir tuttugu árum með því að fara bestu leið í fyrirkomulagi þeirra ganga, sem þá voru gerð. 

Fyrir síðustu aldamót þegar í ráði var að leysa samgönguvanda fólksins á utanverðum Tröllaskaga til frambúðar voru nefnilega tvær útfærslur í boði. 

Annars vegar svonefnd Fljótaleið með göngum, sem nú er kallað eftir frá Siglufirði stystu leið yfir í Fljótin og síðan stysta leiðin úr Fljótunum yfir í Ólafsfjörð. 

Hin leiðin var kölluð Héðinfjarðarleið, tvenn göng stystu leið um botn Héðinsfjarðar frá Siglufirði yfir í Ólafsfjörð. 

Sú leið var valin meðal annars á þeim forsendum að hún hún tengdi Ólafsfjörð og Siglufjörð best hvað snerti vegalengd á milli staðanna, tengsl í menntamálum, félagsmálum og atvinnumálum auk þess að liggja innan nýstofnaðs Norðausturkjördæmis og bjóða upp á stystu leið til Akureyrar. Leiðin frá Siglufirði til Ólafsfjarðar og Akureyrar yrði 17 kílómetrum styttri en Fljótaleiðin

Fylgismenn Fljótaleiðarinnar héldu því hins vegar fram, að hún hefði tryggt öruggustu samgöngurnar vestur í Skagafjörð og alla leið til Reykjavíkur, auk þess að leysa samgönguvanda byggðarinnar í Fljótum. Sömu leiðis væri fyrirsjáanlegt að hin mjóu göng í gegnum Ólafsfjarðarmúla með snjóflóðahættu við syðri gangamunnann væru ekki nothæf framtíðarlausn. 

Nú er komið í ljós tuttugu árum síðar að Héðinsfjarðargöng tryggja alls ekki öruggar samgöngur í báðar höfuðáttirnar frá Siglufirði og Ólafsfirði allt árið, en það hefðu Fljótagöngin gert. 

Þau hefðu falið í sér örugga og 12 kílómetrum styttri leið yfir til alls vesturhluta landsins á svæði þar sem hátt í 90 prósent þjóðarinnar býr, enda er nú kallað á nyrðri hluta Fljótaganga og ný Ólafsfjarðarmúlagöng í viðbót við göngin tvö, sem voru gerð.  

Þá er hætt við að talsmenn þeirra byggðarlaga, sem Fjallabyggð var tekin fram yfir um aldamótin síðustu telji sig eiga kröfu á að vera framar í biðröðinni. 


mbl.is Áratugir án úrbóta í samgöngumálum „óásættanlegir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband