"...Því gerist það ansi oft..."

Hermt er í frétt að kista með lofti eingöngu hafi verið jarðsett án líks í grænlensku þorpi. Það flækir hins vegar málið hér á landi ef þessi frétt er bara lesin í útvarpi. 

 

Loftur er ágætis nafn 

og af því er nokkurt safn. 

Því gerist það ansi oft 

að menn jarðsetja Loft. 


mbl.is Jarðsettu tóma líkkistu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Trump mun náða sjálfan sig..."

Haft mun eftir Michael Cohen fyrrum lögmanni Donalds Trump, að forsetinn fyrrverandi, sem telur sig vera núverandi, sé búinn að búa svo um hnúta að ef hann verði kærður og sakfelldur muni hann ekki láta róta sér, heldur draga upp úr hatti sínum náðun sjálfs sín á sjálfum sér.

Ja, hérna hér . 

 

Við ákærur á efsta stig

ef í kekki kastast 

Trump mun náða sjálfan sig

sitjandi sem fastast.  


mbl.is Telur Trump hafa náðað sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallbeygingar eru á undanhaldi.

Frá öndverðu hafa íslensk nafnorð verið í fjórum föllum og fallbeygingarnar verið eitt af sterkum einkennum málsins. 

Nú er hægt og sígandi sótt að þessari hefð og má sem dæmi nefna eina marglesna útvarpsauglýsingu þar sem heitið Útilíf er nefnt þrisvar án þess að hlíta fallbeygingu. 

Fólk er hvatt til að vera í Útilíf, koma við í Útilíf og versla á Útilíf. Ekki versla í Útilífi heldur versla á Útilíf. 

Sama er að segja um verslanir sem enda á orðinu "..kaup", en það er alveg hætt að beygja þetta heiti eftir atvikum. 

Með sama áframhaldi á undanhaldi fallbeyginga má hugsa sér eftirtaldar setningar: 

"Hann hefur lifað góðu líf."  "Hún gerði gott kaup í Hagkaup."  "Hann kvartar undar lágu kaup."  


mbl.is Mannanafnalög ógni hugsanlega málkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabær stefnumörkun varðandi orkuæðið.

Það eru komin nokkur ár síðan vakið var máls á því á þessari bloggsíðu í hvað snerti varðandi það orkuveraæði sem þá var í uppsiglingu í formi stórra og smárra vatnsafls- og vindorkuvirkjana í hundraðatali um allt land sem þá hrúguðust upp stjórnlaust og skipulagslaust allt frá ystu ströndum inn til miðhálendisins.    

Á örfáum misserum óð samanlögð orka þessara virkjana upp í nokkur þúsund megavött eins og ekkert væri og nam orðið orkumagni sem auðveldlega þrefaldaði þá orkuöflun sem þegar er orðin. 

Aðeins vindorkuverin sem sett hafa verið á daskrá eru oroðin á við tvöföldun samanlagðrar orku, og óskamyndin var auðvitað að í stað þess að við framleiddum fimm sinnum meiri orku fyrir stóriðju í erlendri eigu en fyrir öll heimili og fyrirtæki í eigu Íslendinga eins og nú er, bæri til þess brýna nauðsyn að framleiða 15-20 sinnum meiri orku fyrir stóriðjuna en alla samanlagða orku fyrir íslensk fyrirtæki og heimili. 

Síðustu mánuði er síðan hin hliðin á málinu að koma í ljós þegar þess er krafist að rammaáætlun verði lögð af ásamt hugmyndum um hálendisþjóðgarð svo að stjórnlaust og skipulagslaust virkjanaæðið geti náð himinhæðum í bókstaflegri merkingu. 

Athyglisvert er að sjá, að í umsögnum sveitarfélaga sem leggjast gegn stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er sérstaklega nefnt að slikt megi alls ekki, því að það skerði frelsið til að að leggja "nauðsynlegar" risaháspennulínur á fyrirhuguðu þjóðgarðssvæði. 

Bak við það hljómar síðan eldri ummæli um að þessar línur eigi fyrst og fremst að leggja til að "tryggja afhendingaröryggi fyrir íslensk heimili." 


mbl.is Hluti landsins útilokaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögulega nýr bíll á 1,7 millur?

Í Kófinu sem ríkt hefur og mun þráast við á þessu ári má reikna með því að nýir markhópar bíleigenda hafi orðið til? 420px-2017_Citroen_C1_Flair_Puretech_1.2_Front 

Ekki bara þeir, sem vegna samdráttar í utanferðum og fleiru hafa efni á að kaupa sér dýrari bíla en fyrr, heldur einnig þeir þurfa að endurnýja mikið ekinn bíl með nýjum, en hafa ekki efni á því. 

Þá gæti bíll á borð við Citroen C1, sem hér er mynd af og var mest seldi bíll í Danmörku fyrir nokkrum árum, og svipaða bíla kannski fengist á næstum því gjafverði eins og er núna í Danmörku.  

Hyoundai i10 og Kia Picanto voru systurbílar og báðir þeir minnstu og ódýrustu í boði hjá þessum framleiðendum. Citroen C1

Hyoundai fór þá leið að að breikka bílinn og auka aðeins við lengd bílsins og fá með því stærra farangursrými, 256 lítra, og virðist, ef marka má vinsældir í Bretlandi, hafa grætt á því.  

Svipuð farangursgeymsla í Volkswagen e-Up! og furðu þægilegt rými í svo litlum bíl skilaði þeim bíl góðu gengi. 

Litlu þríburarnir, Toyota Aygo, Peugeot 108 og Citroen C1 auk Suzuki Alto og Chevrolet Spark, sem komu fram á sjónarsviðið á svipuðu árabili, voru hins vegar með farangursrými undir 200 lítrum, en seldust þó býsna vel þrátt fyrir það, enda var verðið innan við tvær millur. Hyundai_i10_(LA)_IMG_3540

Þetta ár verður síðasta framleiðsluár þríburanna og munu engir arftakar verða. 

Á verðskrám frá Danmörku fyrir árið 2021 sést, að í tilefni af þessu síðasta framleiðsluári verða þeir allir á niðursettu verði sem samsvarar undir tveimur milljónum hér á landi, einkum Citroen C1, en verð hans í Danmörku samsvarar um 1,7 milljónum hér á landi.  

Samt verða þetta vitaskuld alveg splunkunýir og ónotaðir bílar. 

Það skyldu þó ekki leynast kaupendur í nýjum markhópi sem myndu frekar vilja eignast nýjan og þrautreyndan, ódýran og sparneytinn bíl, en að kaupa talsvert ekinn notaðan bíl?

Þess má geta að í stað Suzuki Alto kom Suzuki með jafn ódýran og sparneytinn bíl, Suzuki Celerio, sem er númeri rýmri og stærri en samt hvorki þyngri né eyðslufrekari en Alto. 


mbl.is Hyundai i10 besti borgarbíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búbbi og Ásgeir, snilldartilþrif sem aldrei gleymast.

Nú er hann fallinn frá, blessaður, knattspyrnusnillingurinn Jóhannes Eðvaldsson, sem skóp svo mörg ógleymanleg augnablik á ferli sínum sem ber að þakka og lúta höfði í virðingu. 

Austur-Þjóðverjar voru eina þjóðin sem vann heimsmeistarana Vestur-Þjóðverja á HM í knattspyrnu 1974 og enginn átti von á því að íslenska landsliðið byði upp á þá veislu, sem var á boðstólum á Laugardalsvellinum árið eftir og það í Evrópukeppni. 

Hjólhestaspyrna Jóhannesar var bara eitt af mörgum snilldartilþrifunum sem hann sýndi í landsleikjum. 

Í landsleik við Norðmmenn, ef rétt er munað, bjuggu hann og Ásgeir Sigurvinsson til ógleymanlegt mark, þegar Ásgeir sendi eina af sínum heimsfrægu þrumusendingum af eigin vallarhelmingi á ská yfir í teig andstæðinganna, þar sem Jóhannes stökk rétt enn einu sinni höfði hærra en allir aðrir og skallaði boltann í netið. 

Í myndbandinu sem fylgir tengdri frétt á mbl.is er hægt að mæla sérstaklega með marki Ásgeirs Sigurvinssonar sem sýnir muninn á frábærum knattspyrnumanni og algerum snillingi. 

Afar löng og há sending berst fram völlinn og Ásgeir tekur langan og ofurhraðan sprett til að ná til boltans og skjóta honum þegar hann kemur niður úr fluginu. 

Ef hægt er á myndinni eða atvikið skoðað aftur sést, að þegar boltinn er enn á fluginu aftan að Ásgeiri, styttir hann örlitið tvö skref í bruninu án þess að hægja á sér og stillir þannig atrennuna á fullri ferð að boltanum, að hann smellhittir hann og skorar óverjandi mark. 

Síðar í leiknum gerist svipað hjá öðrum frábærum Íslendingi, Elmari Geirssyni, en þótt íðilsnjall og afar sprettharður sé, tekst honum ekki að stilla skreflengdina á sama hátt og afburðasnillingurinn á undan honum og missir boltann frá sér. 

Nú eru þeir báðir horfnir af velli, bræðurnir Atli og Jóhannes. Enn er í minni þegar Atli kom fyrst inn á í leik í Íslandsmótinu, aðeins 17 ára gamall og skoraði í fyrstu snertingu glæsilegt mark af löngu færi. 

Takk, bræður, takk.    


mbl.is Hjólhestaspyrna Jóhannesar gegn Austur-Þjóðverjum (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki flugvél stolið einu sinni á Reykjavíkurflugvelli?

Eitt skemmtilegasta atriðið á sínum tíma í hinum vinsæla útvarpsþætti "Útvarp Matthildur" var skopstæling á talstvöðvarsamtali ölvaðs flugmanns, sem hafði stolið flugvél, við fólkið hans á jörðu niðri sem reynxi, ásamt flugumferðarstjórunum að fá til að hætta þessu rugli og lenda vélinni. 

Ef rétt er munað var þetta grátbroslega samtal byggt á raunverulegum atburði sem gerðist á Reykjavíkurflugvelli þegar ölvaður maður tók litla flugvél traustataki þar sem hún stóð við völlinn og brá sér í loftið á henni. 

Gaman væri að heyra hvort einhverjir muna eftir þessu. 

 


mbl.is Flugvél stolið á gamlárskvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir skemmtunina!.

Leikur Íslendinga við hið firnasterka norska landslið á HM var mikil skemmtun þótt hann tapaðist í blálokin.  33 gegn 35 mörkum þar sem aðeins einu marki munaði 4 mínútum fyrir leikslok og úrslitin ekki ljós fyrr en enn nær leikslokum segir sína sögu um hin hraða og  yndislega sóknarleik, sem var spilaður. 

Íslenska liðið skoraði hátt í tvöfalt fleiri mörk á móti norsku snillingunum en á móti Sviss um daginn og flest þessara marka og aðdragandi þeirra voru hreint dásamleg á að horfa. 

Í þessum síðasta leik Íslands í milliriðli fóru ýmis atriði í leik íslenska liðsins að ganga betur en áður, bæði fjöldi hraðaupphlaupa og ekki síður fjöldi og fjölbreytileiki línusendinga sem skópu mörk. 

Áður höfðu afar góð afar góð vörn og markvarsla sannað sig. 

Það að íslenska liðið komst ekki í átta liða úrslit ætti ekki að yfirskyggja allt annað. 

Lið Þýskalands, með 250 sinnum stærri þjóð að baki en Íslendingaar og stærstu og bestu úrvalsdeild heims komst heldur ekki í átta liða úrslit. 

Það eina sem virtist áberandi erfitt var að finna svar við í leik okkar við Norðmenn, var þegar Norðmennirnir sneru íslenskum hraðaupphlaupum í eigin ofurhraðaupphlaup sem enduðu með mörkum fyrir þá. 

Fyrir rúmum áratug var fjallað um komandi gullaldarlið Íslands í knattspyrnu. 

Það er alveg óhætt að smella svipuðu á núverandi handboltalandslið.  

Þetta er búið að vera hressandi, bæði í Egyptalandi, HM-stofunni og á netinu. 

Hafið öll þökk fyrir, sem tókuð þátt í því.  Takk fyrir skemmtunina!

 

 


mbl.is Tap fyrir Noregi í lokaleiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Galdratækni og galdrakarlar, en augu og eyru skipta öllu.

Á fyrstu áratugum íslenskrar kvikmyndagerðar voru kvikmyndir oft gagnrýndar fyrir hljóðvinnsluna; að það sem sagt væri og sungið færi oft fyrir ofan garð og neðan hjá áhorfendum. 

Þegar rætt er um auglýsingar í ljósvakamiðlum má geta þess, að sú ákvörðun að hafa auglýsingar í íslensku sjónvarp hefur líklega flýtt þróun íslenskrar kvikmyndagerðar um tvo áratugi. 

Ástæðan er sú, að í auglýsingagerð eru sjálfkrafa gerðar kröfur um handritsgerð, hraða og gæði, sem útilokað er að komast hjá að uppfylla.

Síðan gerist það þegar á hólminn er komið, að þegar síðasta hljóðblöndun og klipping fer fram verður að kunna skil á því eðli sjónar og heyrnar fólks, að hvorugt er stillt þannig að um fastar stærðir er að ræða. 

Þá koma inn atriði eins og þreyta og úthald hjá þeim sem blandar þennan drykk. 

Gott dæmi um þetta er smá próf, sem leggja má fyrir fólk, þegar því eru sýndar þrjár eins myndir af konu, þar sem litirnir eru með misjöfnum blæ frá bláu yfir í rautt og einblína skal á þær í nokkrar mínútur. 

Fyrst er sýnd mynd, sem er þannig, að áhorfendur segja einum rómi:  Hún er mjög bláleit, og þeir látnir einblína á myndina í nokkrar mínútur. 

Næst er sýnd alveg eins mynd og nú svara áhorfendur að hún sé líka mjög bláleit. 

Eftir nokkrar mínútur kemur þriðja myndin, sem fær svipaða dóma 

og í lokin er fjórða myndin sem þykir mjög bláleit. 

Eftir að hún hefur verið barin augum hæfilega lengi, er brugðið upp enn einni mynd og spurt um hana. 

Svarið er einróma: Hún er alltof rauð.  

Nú tekur myndasmiðurinn fram allar myndirnar, og þá kemur í ljós að þessi mynd var sú, sem hafði verið önnur í röðinni og þótti þá alltof blá!

Hægt er að nefna dæmi um það að einstaka lög í kvikmyndum eða á plötum hafa liðið fyrir ranga hljóðblöndun, jafnvel svo ranga, að söngtexti hafi ekki skilist og flytjendur og höfundar orðið fyrir miklum vonbrigðum. 

Þetta getur gerst hjá bestu kunnáttumönnum ef þeir hafa verið of lengi á fullu við að hljóðblanda fjölda laga í kapp við tímann, en misst óvart við það getuna til þess að greina hljóðin í upptökunni rétt í samhengi útkomunnar. 

Mannsheilinn er nefnilega með afar sveigjanlega virkni eins og allir þekkja sem hafa farið út úr myrku herbergi í skjannabirtu utan þess, og síðan farið aftur inn í herbergið og þá ekki séð handa sinna skil í fyrstu. 

Hljóðvinnsla og hljóðtækni koma miklu oftar við sögu en ætla mætti. 

Þegar Lexus GS 400 lúxusbíllinn kom á markað 1989 urðu helstu hönnuðir Benz og BMW að hrökklast beint að teiknborðum fyrir sína bíla. 

Meðal þess, sem var nýung þá í Lexusinum var hljóðblöndunin inni í bílnum.  

Þar voru öll hljóð, bæði frá bílnum sjálfum, farþegum og hljóði sem barst utan frá inn í bílinn, blandað þannig að mörg mismunandi hljóð "átu" hvort annað upp til þess að skapa sem best, þægilegast og hljóðlátast umhverfi fyrir þá, sem í bílnum voru. 

Niðurstaðan varð hljóðlátasti bíll heims á þeim tíma. 1989 voru bílar með afturdrif og vélina frammi yfirleitt ekki með alveg beina driflínu frá sveifarási aftur í mismunadrif heldur var örlítið horn á milli drifskafta og sveifaráss til að drifskaft tæki minna pláss inni í farþegarýminu. 

Í Lexusinum var driflínan hins vegar þráðbein og séð um það að vélin væri gangþýðasta V-8 vél sem völ væri á.  

Árangurinn varð göldrum líkastur og í gríðarlegri tækniþróun í gerð einfaldra tækja eins og hátalara eru bestu hljóðverin eins og ævintýraleg galdratæki í hönum ævintýralegra galdrakarla. 

 


mbl.is Hljóð sem þú finnur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2,5 km göng undir Bakkaselsbrekkuna?

Bakkaselsbrekkan svonefnda Öxnadalsmegin á háheiðinni hefur frá öndverðu verið einn helsti farartálminn á Þjóðvegi eitt, ekki aðeins vegna snjóflóðahættu heldur mest vegna hálku.  

Þegar ekið er þennan spotta blasir við hve miklu það myndi muna, ef hægt væri að sleppa við þessa bæði of bröttu brekku, heldur ekki síður hálkuna í henni.

Miðað við hinn ógnarlanga óskalista yfir veggöng á Íslandi sýnist ólíklegt að á næstu áratugum verði farið í eitthvert hundrað milljarða króna risaævintýri ganga milli Hjaltadals og Hörgárdals að viðbættum vegatengingum til þess að þvæla Sauðárkróki inn í hringveginn. 

 


mbl.is Fjórir og fjölskylda fengu á sig flóðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband