30 ára gömul spá: Framundan öld styrjalda við veirur og sýkla?

Nú er rétti tíminn til þess að horfa fram á við með von í hjarta og árnaðaróskum til okkar allra. Ekki síst vegna þess að verkefnin eru ærin hvar sem litið er. 

Fyrir rúmum 30 árum sat Karl Kristjánsson læknir við hlið síðuhafa í flugvél frá Akureyri til Reykjavíkur og fræddi um hluti sem alls ekki voru í umræðunni, hina eilífu baráttu mannkynsins við veirur og sýkla, þar sem sýklarnir muni sífellt verða verri og verri og að það yrði erfit fyrir læknavísindin að halda í við þá. 

21. öldin gæti orðið öld styrjalda við þessa vágesti og það væri nauðsynlegt fyrir mannkynið að standa sig vel í þeim slag. 

Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur í kvöld var vel flutt og samið og gott framlag til þess að efla sóknarvilja og jákvæða stemningu meðal þjóðarinnar þegar horft er fram til komandi tíma 


mbl.is „Enska gerðin er uggvænleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afdrifaríkar íslendingar í Demyansk 1942. Ferðast um ís á Íslandi.

Orðið Íslendingar getur þýtt tvennt:  Annars vegar þjóðina Íslendinga en líka það fyrirbrigði að lenda á ísi.  Því meðan ís er á Íslandi mun verða gengið á ísi hér á landi, ekið á ísi og flugvélum og flygildum lent á ísi. 

Ýmsar aðstæður geta valdið því að ís, sem tilsýndar sýnist glerharður og sléttur reynist vera krap, sem er með svona slétt yfirborð. 

Það getur til dæmis gerst ef þiðnað hefur og fryst á víxl á þann hátt að snjó hefur skafið yfir slétt krap í upphafi frostadaga og snjórinn einangrað krapið og haldið því við frostmark undir snjóþekjunni. 

Síðan þegar þykknar upp með hlýjum vindi svo að snjóinn skefur ofan af krapinu, birtist það alveg slétt og tært og virðist vera þessi líka fíni, þykki ís en er í rauninni krapgildra. 

Ísinn hefur að vísu oft reynst Íslendingum vel í vetrarferðum en ef á bjátar, getur verið alveg sérstaklega erfitt að losa sig, jafnvel úr festu, sem í fyrstu sýnist ekki ýkja erfið. 

Þykkur og sterkur ís sem myndaðist í rússneska vetrinum 1941-42 á stóru vatni við bæinn Demyansk í Valdaihæðum miðja vegu við leiðina milli Moskvu og Leningrad, reyndist Þjóðverjum dýrmætur í stríðinu sem þá geysaði þarna. 

Rúmlega 100 þúsund manna her varð þarna umkringdur og innlyksa frá febrúar og fram í maí og hefði öllum verið tortímt ef ekki hefði brugðist við með stærstu loftbrú flugsögunnar fram að því.  Stóra vatnið var notað sem flugbraut og meira að segja notaðar fjögurra hreyfla flugvélar af gerðinni Focke-Wulf Fw200 "Condor" auk fjölda þriggja hreyfla Júnkers Ju-87 til flutninga á birgðum, mat, vopnum og hermönnum. 

Alls voru 16 þúsund særðir hermenn fluttir burtu þessa mánuði og 16 þúsund flugmenn fluttir inn til að viðhalda heraflanum. 

Um vorið tókst Þjóðverjum síðan að rjúfa umsátrið og bjarga þessum her. 

Þetta afrek reyndist afdrifaríkt, því að þegar sjötti herinn lokaðist seinna á árinu inni í Stalingrad hélt Göring, yfirmaður Luftwaffe, ranglega að hægt væri að endurtaka leikinn frá Demyansk. 

En þrennt kom í veg fyrir það: 1. Það var þrisvar sinnum meiri herafli. 2. Rússneski flugherinn var miklu öflugri en í upphafi árs.  3. Flugveður var slæmt.  4. Rússneski landherinn var líka miklu öflugri en við Demyansk og skaut flutningavélarnar miskunnarlaust niður. 

Niðurstaðan varð sú heljarorrusta sem markaði tímamót í Heimsstyrjöldinni, eyðing 300 þúsund manna herafla með óheyrilegum mannfórnum, alls yfir milljón manns. Í þessari orrustu var flest tífalt stærra en í hinni mikilvægu orrustu við El Alamein. 

2006 fór síðuhafi í hálfgerða pílagrímsför til Demyansk í febrúar þegar þar var allt snævi þakið. Þá var sú heppni með að geta tekið viðtal við konu um sjötugt sem var í Demyansk sem ung kona 1942. 


mbl.is Björguðu manni sem féll ofan í vök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á "eldheita sumarið" 1968.

Sumarið 1968 átti síðuhafi þess kost að fara í hálfs mánaðar ferð um Bandaríkin og hafa viðdvöl í fimm borgum í samræmi við tilboð og hvatningu til erlendra ferðamanna þess efnis að koma til Bandaríkjanna, dvelja þar í tvær vikur og hafa millilendingar í minnst fimm borgum í ferðinni. 

Ef þessu tilboði yrði tekið, fengist 50 prósent afsláttur á flugfargjöldum. 

Þessi ferð var möguleg, vegna þess að Íslendingafélögin í Los Angeles og San Fransisco tóku sig saman um að fá mig til sín á þjóðhátíðarsamkomur félaganna í tengslum við 17. júní og greiddu ferðakostnað sem svaraði fullu flugfargjaldi fram og til baka frá Íslandi. 

Fyrir valinu urðu borgirnar New York, Washington, El Paso, Los Angeles og San Fransisco. 

Þetta sumar var allt á suðupunkti bæði vestra og líka í Frakklandi vegna andófs gegn kynþáttamisrétti og Víetnamstríðinu og voru víða kveiktir eldar í borgum, líkt og gerðist í sumar. 

1968 voru kosningar í aðsigi eins og nú. 

Bæði Martin Luther King leiðtogi mannréttindabaráttunnar og Robert Kennedy væntanlegur forsetaframbjóðandi voru myrtir og var áhrifamikið að koma í Ambassador hótelið í Los Angeles á morðstað Kennedys. 

Sðmuleiðis var Bandaríkjadvölin öll við þessar aðstæður afar minnisstæð. 

Að sumu leyti virðast andstæðurnar enn meiri nú en þá, ef marka má hörkuna núna sem brýst ekki aðeins fram í fjölmiðlum vestra, heldur líka í öðrum löndum. 

Sú röksemd að ástandið væri að kenna svörtum rasisma heyrðist ekki 1968 en er áberandi nú. 

Rökin sem höfð eru uppi fyrir því að hreyfingin og slagorðið "Black lifes matter!" sýni glórulaust ofstæki og rasisma og hana beri því að fordæma, sjást og heyrast meira að segja höfð í frammi hér norður á Íslandi. 

Rökin eru meðal annars þau að heitið sjálft, "Black lifes matter!" haldi bara fram rétti svartra en ekki annarra. Þar með hljóti þau að vera rasismi. 

1968 var barist gegn grónu kynþáttamisrétti gagnvart blökkufólki án þess að það fælist í helstu slagorðunum og eðli málsins samkvæmt voru blökkumenn á borð við Martin Luther King og Malcolm X áberandi. Báðir voru drepnir og það segir ákveðna sögu. 

"Black lifes matter!" slagorðinu er ætlað að benda á þau síendurteknu ofbeldisverk gegn svörtum, sem viðgengiast hafa lengi og viðgangast enn um öll Bandaríkin. 

Sem sagt; að líf svartra eigi að njóta jafnréttis á við líf hvítra. 

Ekki bætti úr skák þegar horft var á það í sjónvarpskappræðum Trumps og Bidens að Bidein fordæmdi allt ofbeldi hjá báðum aðilum í þessum átökum, en Trump færðist undan, sneri sér í myndavélina og talaði beint í gegnum hana við sína hvítu vopnuðu fylgismenn um komandi kosningar með þeim orðum að þeir skyldu bara bíða rólegir og vera tilbúnir. 

Ekkert hliðstætt þessu gerðist vestra fyrir forsetakosningarnar 1968. Gjáin milli gagnstæðra fylkinga virðist því miður hafa dýpkað í rúma hálfa öld ef eitthvað er.  


mbl.is Glundroði í Kenosha í Wisconsin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáfræði, misskilningur og ranghugmyndir meðal andstæðinga þjóðgarða.

Á nýja árinu verður Vatnajökulsþjóðgarður þrettán ára og á bláu línunni á meðfylgjandi korti má sjá hvernig hann liggur á austanverðu hálendinu. Þúsundir ferkílómetrar af landi utan jökulsins eru þegar innan marka þessa þjoðgarðs. Vatnaj.þjóðg. Kort

Nú er í ráði að stækka þjóðgarðinn og þá bregður svo við að harðir andstæðingar þess tala um valdagírugir skriffinnar í Reykjavík muni ræna þriðjungi Íslands af þjóðinni, "skella þriðjungi landsins í lás", "reka bændur, útivistafólk og almenning burt af eigin landi". 

Þessi gífuryrði eru ekki studd neinum rökum né gögnum um að þau lýsi eðli þjóðgarða. 

Ekki eru nefnd dæmi um það hvernig því landi, sem er innan vébanda Vatnajökulsþjóðgarðs, sjöttungi Íslands hafi síðastliðin tólf ár verið "rænt af þjóðinni" með því að  "skella í lás" og bændur, útivistarfólk og almenningur hafi verið rekin burt af eigin landi." 

Þegar farið er í þjóðgarða og friðuð svæði í þeim löndum í okkar heimshluta, sem eru með líkastar aðstæður og hér eru;  og málefni þeirra, aðdragandi að stofnun þeirra og reynsla af rekstri þeirra skoðaður, í Noregi, Finnlandi, Kanada, Bandaríkjunum í allt að 140 ár; sést vel hve fjarri öllu lagi sá málflutningur er, sem nú ríður húsum hér. 

Þeir virðast hafa hæst gegn þjóðgarðinum sem minnst hafa kynnt sér þessi mál.

Öðruvísi verður ekki hægt að útskýra þá fordóma og fáfræði sem skína í gegn hjá þeim hörðustu í aðförinni gegn hálendisþjóðgarðinum. 

 

 

 

 

 

 


mbl.is 400 milljónir til náttúruverndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er líkt með frændum.

Noregur er fjöllótt land eins og Ísland og raunar að stórum hluta mun hrikalegra, einkum norsku firðirnir, sem eru um margt einstakir á heimsvísu. 

Skriðuföll og snjóflóð eru því algeng, enda mjög úrkomusamt á hinni óralöngu strönd allar götur frá Líðandisnesi til Nordkap.  

Þótt engin eldfjöll séu í Noregi vofir víða hætta á stórfelldum náttúruhamförum yfir. 

Má sem dæmi nefna byggðina innst í Geirangursfirði, sem hugsanlega er fegursti fjörður allrar Evrópu.

Þar er sprunga inni í fjalli utar í firðinum, sem er tifandi tímasprengja, því að taki hún að gliðna, getur fallið hrikaleg skriða í sjó fram, sem reisi 2-300 metra háa flóðbylgju sem magnist á leið sinni inn í fjarðarbotn og kaffæri hin fræga ferðamannabæ.  


mbl.is Stór skriða féll á íbúðabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Henry Ford varð ríkastur en endaði við gjalþrots dyr.

Uppgangur Elon Musks minnir um margt á uppgang Henry Fords fyrir réttum hundrað árum.  

Báðir Ford T hratt byltingu af stað 1908 og réttum hundrað árum síðar var Elon Musk að hrinda af stað Tesla S. 

Þessi tveir tímamótabílar voru gerólíkir enda leiðin til velgengni ólík. 

Vélfræðileg snilli Fords og brautryðjendastarf í notkun færibanda kom á réttum tíma, þegar það var ekki að færi alþýðu manna að eignast bíl.  

Ford tókst að hanna einfaldasta, hagkvæmasta, léttasta, sterkasta og ódýrasta bílinn á markaðnum og færibandið gaf færi á lægri sem varð margfalt lægra en nokkur hafði getað ímyndað sér. 

Bíllinn varð merkasti bíll aldarinnar og 1923 var meirihluti bíla heims af gerðinni Ford T. 

Tesla S var gerólíkur bíll hvað varðaði verð og fjölda framleiddra eintaka. 

En eins og Ford T fól hann í sér byltingu í hugsun varðandi hönnun. Í þetta skipti ekki í því skyni að einfalda hönnunina beinlínis til aða gera hana ódýrari, heldur til þess að þetta yrði fyrsti rafbíllinn í heiminum, sem byggðist að engu leyti á þeim kröfum sem bensínbílar þurfa að hlíta, að vera með bulluhreyfil fremst í bílnum og eldsneytisgeymi aftarlega. 

Í raun hafði bulluhreyfillinn komið í staðinn fyrir hestinn, en næst merkasti bíll 20. aldarinnar, Mini, markaði tímamót varðandi það að "hesturinn" þyrfti ekki endilega að vera langsum í bílnum, heldur gæti hann alveg eins verið þversum. 

Í rafbíl er hægt að hafa hreyflana í hjólunum ef menn vilja það, og rafhlöðurnar, sem eru þungar, því miður, eru staðsettar þar sem þær gefa færi á því að botninn og bíllinn allur hvelfist um þær. 

Þegar Tesla 3 er skoðaður, sést að hann verður fyrir bragðið léttari en sambærilegir bílar, hann er með lægsta loftmótstöðustuðul í bransanum, aðeins 0,23 cx, og vegna þess hve hann er lágur og þar með með minni heildarloftmótstöðu; - loftruðningsflatarrmál x CX (frontal area x CX), - eyðir hann minni orku og kemst hraðar en keppinautarnir. 

Nú eru að birtast rafbílar með svipaða hugsun í kjölfarið, svo sem VW ID.3 með sinn MEB undirvagn, en Tesla heldur sínu. 

Að vísu er kannski ekki lagt mikið upp úr samsetningu og áferð (fit and finish), en á móti angar bíllinn af stórkostlegu hugviti í smáu og stóru. 

Til dæmis eru engir hnappar í öllu mælaborðinu á Tesla 3, og sá sem sest í fyrsta sinn inn í bílinn skilur hvorki upp né niður í því að engin leið er að sjá hvar loftræstingin er. 

Ford T varð skyndilega of grófur og einfaldur á árunum 1925-27 og Henry Ford missti þar að auki tökin á framleiðslunni á efstu árum og var við gjaldþrotsdyr eftir Heimsstyrjöldina. 

Hvort eitthvað slíkt eigi eftir að henda Elon Musk er óvíst, því það hefur gengið á ýmsu hjá honum.  


mbl.is 700% hækkun á gengi Tesla árið 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konurnar áttu kvöldið.

Það má segja að konurnar hafi átt kvöldið í valinu um Íþróttamann ársins, með lið ársins, þjálfara ársins og íþróttamann ársins í efstu sætum. 

Einkum var þetta kvöld Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem hlaut hinn eftirsótta titil í annað sinn, líklega fyrsta konan, sem það afrekar, og þar að auki með fullt hús stiga í atkvæðagreiðslunni og hæsta stigafjöldann í 65 ár. 

Það var til marks um víðsýni að Haukur Gunnarsson hlaut þann verðskuldaða heiður að vera tekinn inn í Frægðahöll ÍSÍ. 

Til hamingju!  


mbl.is Sara Björk er íþróttamaður ársins 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Messilykt" af marki Gylfa.

Alveg frá því að mark Gylfa Þórs Sigurðssonar var sýnt í sjónvarpi hefur síðuhafi gerst svo djarfur að segja, að það hafi verið ákveðin "Messi-lykt" af því. 

Nú hefur það verið skoðað betur af fróðum mönnum og skilgreint í hverju snilld Gylfa var fólgin, ekki síst skynbragð á stöðu og tíma sem skapar hárfínt en þröngt færi, sem hann nýtir 100 prósent. 


mbl.is Völlurinn: Mark Gylfa krufið til mergjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorrablótin eftir páska?

Ef þorrablótum yrði frestað, hve löng gæti sú töf orðið?  Þótt fljótlega berist athyglin að páskunum og að vitað sé að jólin séu upphaflega heiðin hátíð á Norðurlöndum, er spurning hvort það sé ekki full bratt að vera með þorrablót á hinni grónu kristnu hátíð. 

Þegar litið er á aðstæður kemur í ljós að meðalhiti í apríl er aðeins 2,9 stig í Reykjavík og að þess vegna gæti komið til greina að þorrablótin yrðu eftir páska, sem lýkur 5. apríl. 

Þá er enn er vetur á almanakinu og þau gætu staðið fram að 1. maí og jafnvel fram undir mæðradaginn, sem er 9. maí.  

Að vísu verður mun meiri og bjartari sólargangur í lok vetrar en er í febrúar, en aldrei verður á alveg allt kosið við svona tilfærslu, og í lok janúar er hvort eð er víða haldið hátíðlegt að sólin fari hækkandi. 

Síðan má athuga hvort hægt sé að dreifa þorrablótunum yfir fjóra mánuði og fara afar varlega af stað en sæta færis við að auka fjörið, en þó ætíð í samræmi við aðstæður í sóttvarnarmálum. 


mbl.is Verða þorrablótin haldin í apríl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endastöð "sænsku leiðarinnar"?

Í níu mánuði hefur "sænska leiðin" í sóttvörnum verið áberandi í fréttum víða um heim, vegna þess hve mun lausbeislaðri varnirnar hafa verið þar en í öðrum löndum. 

Nú kemur endanlega í ljós sú útskýring á setningu nýrra sóttvarnarlaga, að stórlega hafi skort lagaheimildir til nægilegra aðgerða, en í upphafi var aðallega talað um að orsökin væri önnur sýn sænskra sóttvarnaryfirvalda á viðfangsefnið en hjá öðrum þjóðum.

Með nýjum og stórum skýrari og róttækari heimildum í nýju lögunum, sýnast þau merkja endastöð sænsku leiðarinnar eftir að ókostir hennar blöstu við. 

Það hefur kostað mörg mannslíf, því miður, næstum tíu sinnum fleiri en hjá okkur, miðað við höfðatölu, en ljós punktur er kannski sá lærdómur sem af því má draga.  


mbl.is Auknar heimildir til lokana í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband