Þegar næstbesti tugþrautarmaður heims varð skólaus á EM.

Í þrjú ár, 1949, 1950 og 1951 var Örn Clausen í öðru til þriðja sæti á heimslistanum yfir bestu tugþrautarmenn í heimi.

Hann fór því með miklar væntingar til keppni á EM í Brussel 1950, en var svo óheppinn að hlaðmenn á Reykjavíkurflugvelli tóku tösku hans og settu fyrir hurð á vellinum þegar verið var að fara með farangur um borð, en gleymdu síðan töskunni.

Að koma á stórmót í tugþraut skólaus var auðvitað herfilegt fyrir Örn, og í kastgreinunum varð hann til dæmis að notast við skó af spjótkastaranum Jóel Sigurðssyni, sem voru þremur númerum of stórir.

Örn var slíkur afreksmaður á þessum tíma, að hann hefði getað komist á verðlaunapall í fjórum greinum á EM, tugþraut, langstökki, 110 metra grindahlaupi og 4x100 metra boðhlaupi.

Hann hlaut að vísu silfurverðlaun í tugþrautinni, en að kröfu Frakka var notuð gamla stigataflan í greininni, þótt búið væri að lögleiða nýja töflu, sem hefði skilað Erni gulli.

Á þessum árum var enginn tæknilegur möguleiki að fara 1770 kílómetra plús með eina tösku Arnar og því fór sem fór


mbl.is Flaug 1.770 km til að sækja tösku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið okkar ber kaldasta nafn í heimi. Við hverju er að búast?

Landið okkar heitir kaldasta nafni í heimi, svo að hvað er verið að kvarta?

Vegna þess að dýpsta lægðin að meðaltali á jörðinni er suðvestan við Ísland í janúar er landið auðvitað með mestu umhleypfingana og mesta meðalvindinn sem þekkist á hnettinum á þeim árstíma. 

Er þá enginn ljós blettur á þessu?  Jú, jú, og meira að segja nokkrir. 

Meðalhiti í janúar er svipaður og í New York í Bandaríkjunum eða í Ankara í Tyrklandi. 

Sumarmánuðirnir eru ekkert hlýrri í Færeyjum en hér, þótt Færeyjar liggi mun sunnar. 

En sumarmánuðirnir eru bjartari hér en í Færeyjum. 


mbl.is Tíst um veðrið: Búsetubrestur á þessu landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurinn er einfaldlega ein stærsta ógn 21. aldarinnar.

Sykurinn er einfaldlega fíkniefni með öllum verstu einkennum slíkra efna. Með hraðri hlutfallslegri fjölgun aldraðra stefnir sykursýkin í að verða eitt helsta heimsböl 21. aldarinnar. 

Það er kaldhæðnislegt að heitið "þjóðarréttur" hefur verið notað um hið séríslenska fyrirbrigði "kók og prinz". 

Kókið hélt innreið sína á stríðsárunum og prinzið kom 1956. Í coladrykkjum er koffín, sem er fíkniefni eins og sykurinn. 

Tölurnar um magnið eru furðu sakleysislegar. 10 grömm af hverjum 100 eru sykur í coladrykkjum og flestum gosdrykkjum, og í flestum tegundum súkkulaðikex er talan um 30. 

En fitan í súkkulaðinu og sætindunum er þar að auki ávanabindandi og veldur því að fólk fitnar og verður hættara við margs kyns sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdömum.  

Ofþyngd er því hluti af vandamáli aldarinnar að hún er orðin að alheimsvandamáli. 

Af því að hvers kyns sykraðar matvörur eru ávanabindandi er það auðvitað magnið, sem neytt er, sem getur orðið að bölvaldi. 

Listinn yfir sjúkdómana af völdum sykurneyslu er langur, margir þeirra banvænir; veikluð húð og fleiri líffæri, sem jafnvel getur endað með blindu og aflimun.    


mbl.is Erfiðast að losna við sykurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allur heimurinn getur verið vettvangur íslensks hugvits unga fólksins.

Samfélagsmiðlabylting nútímans og víðtækari menntun og nýting hæfileika vel menntaðra ungra Íslendinga er nú að leggja grunn að útrás á ótal sviðum, sem hefði verið mun erfiðari fyrr á árum.  

Svonefndar skapandi greinar og endurhæfing ferðaþjónustunnar hafa búið til nýjan veruleika í atvinnu- og menningarlífi, sem getur lagt grunn að mun arðsamara þjóðfélagi með auknum virðisauka en hægt var að skapa með framleiðslu á hráefni einni saman. 

Það getur því vel verið bjartara framundan en margir óttuðust þegar heimsfaraldur COVID stóð sem hæst.  


mbl.is Óbeisluð heift í konungsríkinu Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lækkandi haustsólin lætur vita af sér.

Um þetta leyti árs er sólargangur orðinn jafn lágur og hann var í lok apríl í vor og þetta segir óhjákvæmilega til sín þegar nóttin er orðin lengri og útgeislun frá jörðinni er mikil í næturmyrkrinu undir heiðum himni.  

Aðeins hin eðlisfræðilega tregða veðurbreytinga árstíðanna hamlar því að ekki kólnar meira og hraðar í veðurfarinu.

Hásumar í meðalhita er í kringum 20. júlí en ekki á sumarsólstöðum mánuði fyrr, og vorkomunni seinkar þannig að hún er að meðaltali í kringum sumardaginn fyrsta en ekki mánuði fyrr, á vorjafndægrum. 

Og þökk sé þessari tregðu stórra massa gegn breytingum, einkum massa hafsins, er fyrsti vetrardagur mánuði eftir haustjafndægur.   


mbl.is Frosin jörð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afbrigði af jeppaauglýsingu og uppátækjum innfæddra í Keníaralli í den.

Þau eru aftur byrjuð uppátækin í sambandi við íslensk eldgos og náttúruöfl á íslandi þessa dagana.

Mynd er tekin með þannig sjónarhorni og aðdrætti af fífldjörfum línudansara gangandi á berum fótum yfir jarðeldinum í Meradölum, að ef honum skrikaði fótur félli hann ofan í vítiseldinn. 

Ekki er langt síðan jeppaframleiðandi notaði ítrustu James Bond kvikmyndatökubrellur til að sýna þá sönnu sögu, að lúxusjeppa á flötum "low profile" dekkjum væri ekið leikandi upp meira en tíu kílómetra leið um botn Hafrahvammagljúfurs fyllt af stórgrýti og jeppanum síðan klifrað léttilega upp 200 metra háan stífluvegg og síðan í framhaldi af því á móti beljandi stórfossi yfirfallsins við hliðina. 

"Ef bíllinn missir gripið í beljandi vatnsflaumnum í yfirfallsrennunni", þagði þulurinn, "steypist jeppinn lóðrétt niður 90 metra fall neðan við fossbrúnina".

Hann lét þess þó ógetið hvernig og hvar jeppinn hefði komist upp þetta lóðrétta hengiflug á glæfraleið sinni suður eftir gljúfrinu.   

Í Kenía Safari rallinu í heimsmeistarakeppninni hér forðum daga, gerðu innfæddir áhorfendur sér það að að leik að keppa í því hver þyrði að standa lengst kyrr á miðri ökuleiðinni, án þess að hreyfa sig þegar bílarnir komu æðandi að þeim. 

Sá sem síðastur hreyfði sig, og henti sér útaf slóðinni, vann.  

Þegar er kominn listi yfir slasaða út af gosinu í Meradölum eftir tiltektir við gosstöðvarnar, og minnir sumt af því þar á þetta furðu fyrirbrigði inna léttklæddu afríkubúa að búa til sem magnaðasta sögu.   


mbl.is Gekk á reipi við logandi hraunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða, útfærsla og umhverfi kemur golfvöllum hér "á kortið."

Þúsundir frægra golfvalla utan Bretlandseyja verða nú að sæta því lenda fyrir aftan marga íslenska velli að mati tímaritsins Golf World. 

Tveir íslenskir golfvellir eru meðal átta efstu og þá þarf eitthvað meira til en hönnun þeirra ein íþróttalega séð. 

Síðuhafi þekkert nær ekkert til íslenskra golfvalla, en fékk þó einu sinni leyfi til að lenda eins manns opnu fisi á einni af holum Vestmannaeyjavallar.  

Það var nóg til að varpa ljósi á það atriði að umhverfi vallarins eitt og sér veldur því að kynnin, þótt þau væru í mýflugumynd, urðu ógleymanleg. 

Vellir með slíka kosti hljóta að eiga möguleika á landi, sem "er engu öðru landi líkt" svo vitnað sé í vandaða erlenda bók um 100 merkustu undur heims.


mbl.is Ísland er komið á kortið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á yfirsýn og regluverki.

Þótt ýmislegt megi finna í löggjöf um skógrækt og landgræðslu, sem auðvelda á sanngjarna tilhögun á þessu sviði, sýna nýjustu deilumálin, svo sem í Skorradalshreppi, að álitamálum og deilumálum fer fjölgandi. 

Og gráu svæðunum í tilhöguninni fer viða fjölgandi að því er virðist vegna þess að framsýnni hefur skort. 

Sem lítið dæmi má nefna furðu ásækna og skipulega sókn í skógrækt til að hylja smám saman alla fallegu klettaröðlana og klettabeltin, sem glatt hafa augu vegfarenda á þjóðvegi eitt í Stafholtstungum og verið djásn í náttúru þessa svæðis í bland við hófstillt og markvisst skógræktarátak. 


mbl.is Höfðu margsinnis rætt við Sturlu um aspirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkt og að koma til útlanda að ganga um nýjan hluta hafnarsvæðisins.

Undanfarin covidár hafa býsna margir ekki gengið um þann nýja hluta gamla miðbæjarins, sem liggur milli Hafnarstrætis, hafnarinnar og Hörpu.  

Á framkvæmdatímanum hefur slík fjarvera borinna og barnfæddra Reykvíkinga frá þessum hluta nýja miðbæjarins, sem nú er að líta dagsins ljós, verið bæði afleiðing af heimsfaraldrinum og því, að þarna hefur verið byggingarsvæði. 

Fyrir nokkrum dögum gerðist það síðan að staðið var inni í miðju þessu svæði með nýjar götur og hus á alla vegu, og finna þá óvenjulegu tilfinningu að vera nokkurn veginn jafn utangátta og ókunnugur því sem fyrir augu var og að staðið væri í fyrsta sinn inni í ókunngri erlendri borg. 

Tilfinningin var ekki ólík því sem Bo hefur lýst á þann veg að eitthvað fyrirbæri "sé svo mikið erlendis." 

Árum saman hafa skoðanir verið skiptar um það hvernig haga skyldi breytingum á þessu svæði, og hefur sitt sýnst hverjum. 

Á því núverandi byrjunarstigi verður erfitt að skera úr um það fyrirkomulag, sem nú er að birtast.  

Tíminn mun leiða það í ljós, hvernig til hefur tekist og hver þróunin verður. 

Fyrir um tveimur áratugum var viðruð í sjónvarpinu hugmynd um eins konar smækkaða reykvíska útgáfu af Nýhöfninni í Kaupmannahöfn með tilvísun og tengsl við landnámsathöfn Ingólfs Arnarsonar og tengslin við hafið. 

Á síðari árum kom fram gagnrýni á efstu hæð stærstu nýbyggingarinnar, sem kallast á við lágreist Stjórnarráðshúsið, en því atriði var ekki haggað. 

 


mbl.is Tímamót í uppbyggingu nýs hluta miðbæjarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er það í sjónvarpinu sem vekur áhuga mávanna?

Hegðun máva að undanförnu hefur verið eðlilegt umræðuefni, því að dæmin eru mýmörg. Mávur að horfa á sjónvarpið

Gott dæmi um það sést á meðfylgjandi mynd af mávi, sem tellti sér sallarólegur í kvöldrökkrinu niður á svalahandrið í blokk í Grafarvogi og dvaldi þar drjúga stund við að horfa á sjónvarpið, sem er hægra megin á myndinni.  

Mávarnir hafa verið óvenju margir á ferð að undanförnu, til dæmis í óvnju stórum hópum inni á flugbrautinni á Tungubakkaflugvelli í Mosfellsbæ. 


mbl.is Hvað er í gangi með máva á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband