Svo hillir líka undir miklu minni rafbíla.

Víða um lönd eru álíka umræður og skoðanaskipti um fararmáta í borgum og er hér á landi. Citroen Ami rafbíll

Þar er nú verið að brydda betur upp á millistigi á milli almenningssamgöngutækja eins og Borgarlínu og strætisvagna og hinna fullstóru einkabíls, sem áfram er eftirspurn eftir en taka mikið rými í gatnakerfinu. 

Þetta millistig er fólgið í litlum tveggja sæta rafbílum, sem einkum eru ætlaðir til nota í þrengslum borga og eru flestir það litlir, að hægt er að leggja tveimur til þremur þversum í núverandi bílastæði. Citroen Ami rafbíll. Inni

Sumir þeirra eru því innan við 2,5 metrar á lengd og allt niður í 1,25 m breiðir. 

Sá nýjasti er Citroen Ami, sem er 2,4 x 1,4 m og þannig byggður að hann er alveg eins á báðum hliðum og með alveg eins framenda og afturenda að frátöldum lit á ljósum, sem eru rauð að aftan en hvít að framan. 

Þetta er gert til þess að hægt sé að bjóða þennan bíl á verði allt niður í 6000 evrur, sem samsvarar um milljón krónum hér á landi. Samt verði full þægindi og hiti í þessum örbílum. Citroen Ami rafbíl. Fólk

Sams konar hurðir eru báðum megin á bílnum, og því opnast dyrnar farþegamegin á hefðbundinn hátt, en dyrnar bílstjóramegin "öfugt" eins og tíðkaðist á tímabili á fjórða áratug síðustu aldar.

Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd.  

Hámarkshraðinn er 45 km á klst og í Frakklandi mega 14 unglingar aka slíkum bílum, en 16 ára í flestum öðrum Evrópulöndum.  Beygjuhringurinn er sá knappasti í flotanum, 7,2 m í þvermál og þyngd bílsins aðeins um 500 kíló, enda eru rafhlöðurnar aðeins 6 kwst, sem gefur um 50 km drægni.  Rafaflið er um 9 hestöfl sem skilar bílnum þó á 5 sek upp í 45 km hraða. 

Drægnin ætti að vera næg, því að meðalvegalengd sem einkabílum er ekið í borgarumferð er rúmlega 30 km á dag. SEAT Minimo el-car (4)

Aðeins tekur 3,5 stundir að fullhlaða bílinn á venjulegu heimilisrafmagni, en því miður sýnist ekki vera gert ráð fyrir útskiptanlegum rafhlöðum, sem hins vegar verða aðalsmerki hins nýja SEAT Minimo, sem Volkswagenverksmiðjurnar hafa verið með á prjónunum og er kannski snjallasta lausnin. 

Í þeim bíl situr farþeginn þétt aftan við bílstjórann, en sú tilhögun fær fram bestu rýmisnýtinguna og minnstu loftmótstöðuna. micro-mobility-systems-microlino-2-2020-04-min-888x444

En á móti kemur að það tekur tíma að fá fólk til að sættast við þessa tilhögun og því eru Ami og Tazzari eins konar millistig sem tryggir það, að þeir tveir sem eru um borð verði varla varir við það hve bíllinn er smár af því að það fer nákvæmlega eins um þá og ef þeir sætu frammi í í fernra dyra bíl. Citroen-Ami-2021-800-03

Nægt rými er fyrir tvo og farangur í Citroen Ami og bæði fram- og afturendi bjóða upp á hönnun með ágætri árekstravörn, sem alveg vantar á hinn annars stórskemmtilega Microlino, af því að tærnar á fótum þeirra tveggja sem sitja í framenda Microlino, eru þétt upp við þröskuld dyranna, sem eru að framan og tryggja hámarknýtingu stæðis, sem bílnum væri lagt þversum í upp við gangstéttarbrún. 

Frést hefur að Kia verksmmiðjurnar séu að huga að svipuðum bíl og Citroen Ami, sjá mynd, sem verður sett hér neðst á síðuna.  

Fyrir á markaðnum hafa verið Renault Twizy og Tazzari Zero sem eru með 80 og 90 km hámarkshraða og Tazzari Zero með 100 km drægni, og hér á síðunnni hefur áður verið sagt frá Microlino sem stutt gæti verið í að fari í framleiðslu. Tazzari tveir bílar

Tveir Tazzari Zero bílar, sem hér sjást saman, eru hér á landi. Kia,rival to Ami


mbl.is Verð á bílum hefur þegar lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þýddi lítið að sýna íshótelið í Jukkasjarvi í RÚV 2005.

Fyrir fimmtán árum hafði finnskur blaðamaður, sem kom til Íslands, greint mér frá því að í Lapplandi, sem liggur nyrst í þremur löndum, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi, væru ferðamenn á veturna miklu fleiri en þeir væru allt árið á Íslandi. 

Þegar hann var spurður hvað Lapparnir gætu selt erlendum ferðamönnum í landi, sem væru svo óralangt frá fjölmennustu löndum Evrópu og það í svartasta skammdeginu var svarið: 

1. Myrkur. 2. Kuldi. 3. Þögn.  4. Ósnortin náttúra. 

Við þetta mætti bæta jólasveinum í Rovaniemi. 

Í ferð um Lappland 2005 í febrúar gafst færi á að skoða þessi firn, sem við Íslendingar teldum, ásamt því hve land okkar væri afskekkt, koma í veg fyrir ferðaþjónustu á veturna. 

Meðal þess, sem skoðað var, var hið stórkostlega íshótel í Jukkasjarvi, sem er Svíþjóðarmegin í Lapplandi og ekki langt frá Kiruna og Gellivara sem allir Íslendingar lásu um í landafræðinni vegna hinna merkilegu járnnáma þar. 

Margt fleira var skoðað og myndað, svo sem allt umstangið i kringum "Land jólasveinsins" í Rovaniemi, en um miðja síðustu öld var straumur bréfa evrópskra barna til "jólasveinsins á Íslandi" talið óæskilegt og jólasveininum vísað af höndum okkar í framhaldinu. 

Gerðar voru tveir eða þrjár fréttir um þessi mál til dæmis borið saman, hve miklu fjölbreyttara land jólasveinsins væri á Íslandi en í Finnlandi, því að til dæmis á Austurlandi væri ekki aðeins að væru frosin vötn og skógar auk hreindýra, heldur eldfjöll, Grýla, Leppalúði og allir jólasveinarnir og álfarnir. 

Fréttaflutningurinn féll í grýtta jörð, jafnvel þótt á það væri bent að það væri lengra fyrir ferðamenn frá stórþjóðunum að fara til Lapplands en til Íslands.  


mbl.is Ótrúlegt íshótel í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar slembitölur eru jafn fordæmalausar til lengri tíma litið.

Þekkt er dæmisagan af sjóliðanum á orrustuskipi, sem var í bardaga og hann stillti sér upp við gat á þilfarinu sem kom frá skoti óvinaskips. 

Spurður af þvi hvers vegna hann gerði þetta svaraði hann: "Líkurnar á því að önnur kúla lendi á sama stað eru einn á móti þúsund og þess vegna er þetta gat öruggasti staðurinn á skipinu til að standa á."  

Ný könnun á vali fólks á talnaröðum fyrir lykilorð á ýmsum hlutum hefur sýnt að röðin 1-2-3-4-5 er algengust. 

Þess vegna er það kannski ekkert ólíklegra að slík tala komi upp í lottódrætti en hver önnur, og ef að margir hafi valið sér svona talnaröð, muni margir fá vinning. 


mbl.is 5, 6, 7, 8, 9 og 10 vekja furðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldargamall ferill í skipun dómara athyglisverður.

Í Sovétríkjunu sálugu var það skilyrði sett við val dómara að viðkomandi yrði að vera félagi í Kommúnistaflokknum.  Svipuð heljartök voru viðhöfð í öðrum kommúnistaríkjum. 

Á Íslandi hefur það verið á könnu dómsmálaráðherranna í heila öld að skipa hæstaréttardómarana. 

Og hverjir hafa þá verið dómsmálaráðherrar? 

Það er fróðlegt sem þá kemur upp. 

Stærsti flokkkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur ævinlega komið sinni ár þannig fyrir borð við stjórnarmyndanir sem hann hefur tekið þátt í, að hann fengi dómsmálaráðuneytið. 

Ef um stjórnarsamstarf með Framsóknarmönnum einum hefur verið að ræða, hefur komið til greina að gefa það eftir, en alls ekki verið til umræðu að kratar, "kommar" eða, hin síðari ár Píratar eða aðrir yrðu svo mikið sem nefndir.   

Undantekningar eru áberandi fáar. Á tíma ríkisstjórna undir forystu Framsóknarmanna 1927 til 1942 höfðu þeir að vísu ráðuneytið. Enginn flokkur var með ráðuneytið á tíma utanþingsstjórnarinnar 1942-44. 

En 1944 hófst gósentíð Sjallanna. Fyrsta skeið hennar stóð til 1956, en í vinstri stjórninni 1956-1958 var Framsókn auðvitað með dómsmálin. 

Minnihlutastjórn krata 1958-1959 hafði að vísu dómsmálaráðuneytið, en stjórnin varð að reiða sig á stuðning Sjalla, sem önduðu ofan í hálsmálið á ráðherranum. 

Siðan kom næsta gósentíð 1959-1971 og á tíma vinstri stjórnar 1971-1974 var sama í gildi og í tíma vinstri stjórnarinnar 1956-1958, að Framsókn var með dómsmálin. 

Þegar síðuhafi var í lagadeild HÍ 1961-64 var einn krati þar við nám og einn Framsóknarmaður. Að mestu leyti var deildin hins vegar eins og uppeldisstöð fyrir komandi lögfræðingahjörð Sjálfstæðisflokksins. 

Höldum áfram. 

1974-1978 var enn hægri slagsíðan í gildi, og í skammlífri vinstri stjórn 1978-1979 pössuðu Framsóknarmenn upp á þetta mikilvæga ráðuneyti. 

Minnihlutastjórn krata 1979-1980 var háð stuðningi Sjálfstæðisflokksins sem andaði ofan í hálsmál Vilmundar Gylfasonar. 

1980 til 2009, í 29 ár, einokaði Sjálfstæðisflokkurinn dómsmálaráðneytið og voru að minnsta kosti tvær skipanir hæstaréttardómara afar umdeildar og það ekki að ástæðulausu. 

Jóhönnnustjórnin 2009 til 2013 var að vísu smá hlé á hinu hálf sovéska kerfi, en síðan hafa Sjallar haft dómsmálin í þremur ríkisstjórnum í röð. 

Alls hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórn í 73 ár síðustu 100 árin, eða álíka langan tíma og kommúnistaflokkurinn fór með dómsvaldið í Sovétríkjunum. 

Allan tímann hefur hann til hins ítrasta reynt að liggja eins og ormur á gulli á þeim áhrifum sem yfirráð yfir dómsmálaráðuneytinu gefa. 

Niðurstaðan af því að renna augum yfir valdaferilinn sem er að verða aldargamall ætti að gefa tilefni til að spyrja spurninga um það, hvort þessi eindæma slagsíða sé og hafi verið eðlileg og hvort að það geti hugsanlega verið ástæða fyrir MDE að fara fram á að tekið sé upp sjálfstæði dómsvaldsins á Íslandi gagnvart framkvæmdavaldinu.  

 


mbl.is MDE seilist langt í túlkun á íslenskum rétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvarandi misskilningur varðandi ESB og Evrópusamstarf.

Í umræðunni um Mannréttindadómstóls Evrópu hefur enn einu sinni skotið upp langvarandi misskilningi varðandi ESB og aðrar stofnanir sem kenndar eru við Evrópu, sem erfitt virðist að kveða niður. 

Einkum ber á þessu hjá þeim sem hafa allt á hornum sér varðandi samband og samvinnu Íslendinga við Evrópu og vilja slíkt feigt. 

Þar má til dæmis heyra því haldið fram, að með Brexit hafi Bretar losað sig við allt samband við Mannréttindadómstólinn og að hægt sé að gera slíkt á mun fleiri sviðum, svo sem í tengslum við Evrópuráðið. 

Þetta er alrangt og hefur verið það í þau sjötíu ár sem liðin eru Evrópuráðið var stofnsett, mörgum árum á undan ESB og með miklu fleiri aðildarþjóðum. 

Sem dæmi um fjölbreytt samstarf Evrópuþjóða án þess að ESB komi nærri, má nefna svonefnt Evrópuþing dreifbýlisins, sem byggist á samstarfi hátt á fimmta tug þjóða allt frá þjóðunum í norðvesturhluta álfunnar og austur fyrir Svartahaf. 

 

 


mbl.is Dómstóllinn sitji á þeirri hillu sem hann á heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vita menn ekki hvar Hádegismóar eru?

Hér á síðunni hefur of oft þurft að benda á það hve landafræðikunnáttu fjölmiðlafólks virðist oft áfátt. 

Nefnd hafa verið dæmi eins og það að Sandskeið sé á Hellisheiði og Syðri Fjallabaksleið á Fimmvörðuhálsi. 

Oft er svona vitleysa upprunnin hjá fólki, sem vinnur hjá stofnunum  við að hafa samband við fjölmiðla, og ét þá hver fjölmiðillinn vitleysuna upp eftir öðrum. 

Nýjasta dæmið er skondið. Sagt er í tengdri frétt í dag að brú yfir Vesturlandsveg sé á móts við Hádegismóa! 

Má það furðu gegna að slíku sé haldið fram í fjölmiðli á Hádegismóum til móts við Suðurlandsveg og meira en tveggja kílómetra fjarlægð frá Vesturlandsvegi, að Hádegismóar séu við Vesturlandsveg. 

 


mbl.is Ók upp undir brú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðilega illa unnið mat á umhverfisáhrifum oft á tíðum.

Svonefnd Búlandsvirkjun er einhver versta hugmyndin af mörgum slæmum, sem sjá má í upptalningunni í tengdri frétt á mbl.is. 

Áberandi er að virkjanirnar eru yfirleitt með dulnefni hvað snertir að nöfnin greini frá því hvað á að virkja. 

Hvaða Búland er þetta, sem á að virkja? Svar: Auðvitað ekkert Búland. Það er Skaftá. 

Hvaða Kjalalda er það sem á að virkja í Kjalölduveitu?  Svar: Það eru þrír af stærstu fossum landsins. Virkjunin ætti að heita Þjórsárfossavirkjun. 

Skrokkölduvirkjun. Hvaða Skrokkalda er það, sem á að virkja?  Svar: Það á að virkja Köldukvísl. 

Svona má lengi telja. 

Síðuhafi skoðaði mat á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar fyrir Framtíðarlandið 2011. Það var beinlínis ömurleg lífsreynsla. 

Hvergi var hægt að sjá í matinu að ætlunin væri að þurrka Skaftá upp á kafla, þar sem hún rennur um einstakt hraunhólmalandslag með kvíslum sem erlendir ljósmyndarar tóku andköf yfir, og einnig að tortíma fimm fallegum smáfossum norður af bænum Skaftárdal. 

Í skýrslu verkfræðistofunnar var þess getið sem smávægilegs og auðleysanlegs verkefnis að beina heilu Skaftárhlaupunum ummerkjalaust framhjá virkjuninni. 

Í skýrslu vegna virkjunar Hólmsár í næsta nágrenni var kjarr skilgreint sem lyng, lyng skilgreint sem gras og gras skilgreint sem mosi! 

Þetta var sýnt á fundi eystra á sínum tíma.  


mbl.is Myndi spilla ummerkjum Skaftárelda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atburðir og andrúmsloft erlendis höfðu áhrif hér 1918.

Kristján 10. var konungur í sambandsríki Danmerkur og Íslands árið 1918. 

Um vorið gerðu Þjóðverjar síðustu tilraun sína til að vinna sigur í Heimsstyrjöldinni fyrri með stórsókn á vesturvígstöðvunum í Frakklandi sem byggðist á því að Rússar voru slegnir út úr stríðinu um veturinn og þá gátu Þjóðverjar flutt herafla af austurvígstöðvunum til Frakklands. 

En þessi sókn var dæmd til að mistakast, því að nú höfðu Bandaríkjamenn slegist í hóp Bandamanna og komnir með mikið og öflugt herlið á vesturvígstöðvarnar. 

Í ræðu til frönsku þjóðarinnar í júní 1940 minnti Petain forseti leppstjórnarinnar á það til að réttlæta uppgjöf Frakka fyrir Þjóðverjum, að í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar hefðu Bandamenn Frakka lagt til 185 herdeildir samanborið við 20 vorið 1940. 

Kristján 10. var mikill áhugamaður um það að Danir endurheimtu Slesvík og Holtsetaland í fyrirsjáanlegum stríðslokum, land, sem Þjóðverjar tóku af þeim rúmri hálfri öld fyrr.  

Það hjálpaði til í þessum málatilbúnaði að séð var að Þjóðverjar myndu tapa í stríðiu mikla, og Wilson Bandaríkjaforseti setti í 14 punktum sínum fram kröfuna um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem stórveldin höfðu sölsað undir sig á undanförnum öldum. 

Íslendingar höfðu krafist sjálfstæðis og fullveldis og það leit ekki vel út fyrir Dani að harðneita slíkum óskum en krefjast á sama tíma sjálfsákvörðunarréttar fólksins í Slésvík-Holstein. 

Það var að vísu ekki bein tenging á milli þessara tveggja mála, en í þessu alþjóðlega andrúmslofti var þrefað í samninganefnd Dana og Íslendinga með þeim árangri sem var síðan negldur niður 15. maí. 

Endanlegt samþykki Kristjáns 10. gaf hann með semingi með von um að konungssambandið gæti enst lengur en í 25 ár. 

1918 ríkti það alþjóðlega andrúmsloft að þjóðir eins og Pólverjar og Ungverjar fengju frelsi og fullveldi og að við Íslendingar gætum átt von um að verða með í þessari bylgju nýfrjálsra þjóða. 

Í dag berast þær fréttir til okkar á fullveldisdaginn að Mannréttindadómstóllinn í Strassborg kveður upp endanlegan úrskurð sem hefur áhrif hér á landi.

Og það fylgir líka, að þessi úrskurður er kveðinn upp í andrúmslofti, sem hefur skapast vegna þróunar fyrirkomulags stjórnmála í Póllandi og Ungverjalandi. 

P.S. Nú er lagið Frelsisvor komið á facebook síðu mína í tilefni dagsins. 


mbl.is Niðurstaðan veldur vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland 1918: Dánartalan samsvaraði 2000, eldgos í lok langverstu kreppunnar.

Tveir dagar á árinu 1918 standa upp úr í sögunni: 15. júlí þegar samkomulag varð um Sambandslögin svonefndu, sem tryggðu Íslendingum fullveldi og rétt til þess að gerast lýðveldi 25 árum síðar og síðan fullveldisdagurinn sjálfur, 1. desember, fyrir réttum 102 árum. 

Að þjökuð og sárafátæk örþjóð á mörkum hins byggilega heims skyldi áorka þessu er kraftaverk, sem vert er að mun meira á lofti en gert hefur verið.  

Árið áður, 1917, hafði dunið yfir langversta efnahagskreppa 20. aldarinnar, sem gerir núverandi kreppu að hjómi einu í samanburðinum, svo langt niður fóru lífskjör þjóðarinnar, neðar en í kreppunni miklu á fjórða áratugnum.  

Árið hafði byrjað með frostavetrinum mikla og nýlokið var miklu Kötlugosi sem olli gríðarlegu tjóni. 

Verst var þó drepsóttin, sú versta síðustu tvær aldir, sem geysaði haustið 1918 og var ljúka við að leggja 500 manns í gröfina þegar fullveldisdagurinn var þó haldinn hátíðlegur.  

Talan 500 gefur ekki rétta mynd, því að þjóðin er fjórum sinnum fjölmennari nú en þá, þannig það þessi dánartala samsvaraði 2000 látnum nú. 

Hvernig skyldi okkur líða nú ef 80 sinnum fleiri væru dánir úr drepsótt en horfst er nú í augu við? 

Ofan á þetta bættist að Ísland var eitt fátækasta land Evrópu. Bílaöldin var ekki komin enda landið að mestu vegalaust og ekki bílfært á milli landshluta.

Flug var ekki komið né útvarp og meirihluti húsakosts torbæir. 

Þegar alls þessa er gætt, er full ástæða til að lúta höfði og votta þeim formæðrum og forfeðrum okkar virðingu, sem sem barðist við óblíð öfl en eygði þó von um að þrátt fyrir þessar aðstæður væri að renna hér upp frelsisvor í krafti einbeittrar jákvæðni og baráttuhugar. 

 

FRELSISVOR. 

 

Frelsisvor - framtíðarspor! Frelsisvor - áræði´og þor!

 

Það var árið með drepsótt og eldgos og ís

en samt árið sem birtist oss vonanna dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld þegar lausnin var vís.  

 

Þá var sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá

svo að ljómaði gleði á brá. 

 

Frelsisvor - framfaraspor! Frelsisvor - áræði´og þor!

 

Síðan flogin er glæsileg framfaraöld

þegar færð voru´í landið hin ítrustu völd; 

þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld

svo að fært var á sögunnar spjöld. 

 

Landið og fólki, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál, 

tónar og myndir, formæðra fjöld, 

fósturjörð hjartkær, andi og hold!

 

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátinn þá æðrumst við ei, 

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

 

Frelsisvor - framfaraspor!  Frelsisvor - áræði´og þor!


mbl.is „Búið ykkur undir nýja bylgju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband