Þetta og þriðji orkupakkinn.

Á næstu vikum stefnir í að tvö vafasöm atriði varðandi EES-samninginn verði lögfest hér á landi. 

Um bæði gildir, að alger sérstaða Íslands hvað snertir stöðu landsins úti í hafi, eitt og sér langt frá öðrum þjóðum setur okkur í allt aðrar aðstæður hvað varðar áhættu en er hjá öðrum þjóðum Evrópu. 

Íslendingar hafa vægast sagt slæma reynslu af því að hafa flutt til landsins dýr sem áttu að lyfta íslenskum landbúnaði á síðustu öldum. 

Í öll skiptin átti að vera tryggilega um hnúta búið en raunin varð önnur og niðurstaðan hrapalleg. 

Erlendur sérfræðingur, og raunar innlendir líka, að með því að lögleiða breytingu á lögum um matvæli og dýrasjúkdóma sé tekin óviðunandi áhætta í formi tilraunaleiks með íslensk mannslíf. 

Fyrir um 30 árum sat síðuhafi við hlið Karls Kristjánssonar, sem er sérfræðingur á þessu sviði, í vél Flugfélgs Íslands frá Akureyri til Reykjavíkur. 

Karl dró upp hrollvekjandi framtíðarmynd af sókn sýkla með lyfjaónæmi og baráttu lækna og lyfjafræðingar við þá ógn. 

Þessum sýklum færi fjölgandi, og það sem verra væri, gerð nýrra og sterkari lyfja framkallaði sýkla, sem yrðu sífellt ónæmari fyrir sterkari og sterkari lyfjum, oftast vegna þess að sjúklingar  

Á endanum gæti stefnt í það, að læknar yrðu að taka vaxandi áhættu á því, að sterkustu sýklalyfin yrðu orðin svo sterk, að þau settu sjúklingana sjálfa í lífshættu og dræpu þá jafnvel. 

Ekki grunaði síðuhafa þá, að hann sjálfur myndi 20 árum síðar lenda í því að glíma við svo stóra og illvíga sýkingu í baki, að eina lyfið, sem ætti möguleika á að ráða við hana, ylli alvarlegum lifrarbresti í þrjá mánuði. 

Eftir slíka lífsreynslu er ómögulegt að verjast þeirr niðurstöðu, að það eigi ekki að samþykkja neitt það, sem getur valdið slíkum afleiðingum. 

Látum vera, þótt það fluttir séu inn alvarlegir og banvænir erlendir búfjársjúkdómar fyrir mistök af völdum óþarfa áhættu, en hitt er ansi mikið verra ef um er að ræða líf og heilsu fólksins. 

Það styttist í ákvörðun um það hvort lögleiða eigi þriðja orkupakkann svonefnda hér á landi. 

Það er ekkert smámál heldur og efni í einn eða fleiri bloggpistla.  

 

ð


mbl.is Afnema frystiskyldu á innfluttu kjöti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug og skaðleg frysting.

Persónuafslátturinn er eitt af mikilvægustu tækjunum í skattkerfinu til þess að fá fram meiri kjarajöfnuð til handa hinum verst settu í þjóðfélaginu. 

Þegar hann stendur í stað á sama tíma og verðbólga ríkir, þýðir það einfaldlega samfellda kjararýrnun fyrir þetta fólk. 

Þegar sjónvarpsumræður fóru fram í sjónvarpi fyrir kosningar 2007, mitt í svonefndu góðæri, sem kannski hefði frekar átt að kalla gróðæri, kom fram að persónuafslátturinn hefði að mestu staðið í stað í tólf ár, frá 1995-2007, og af því hlotist mikil kjaraskerðing hjá þeim sem þetta atriði skattalaga snerti mest. 

Þetta væri nöturlegt þegar litið væri til þess að árið 1995 hefði ríkt samdráttur í nokkur ár, og því öfugsnúið að ekki væri hægt að gera neitt í þessu efni þegar aðstæður væru orðnar aðrar. 

Þáverandi forsætisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra, Geir Haarde, sagði að ekki kæmi til greina að breyta afslættinum, því að það myndi kosta ríkissjóð tugi milljarða króna. 

Það hringir því ákveðnum bjöllum, þegar nú er sagt fullum fetum að það eigi að frysta persónuafsláttinn í þrjú ár. 

Í fyrsta lagi eru það slæm tíðindi, jafnvel þótt árin verði ekki fleiri, því að spáð er aukinni verðbólgu. 

Og í öðru lagi er hættan sú, eins og svo oft áður, að þetta ástand gæti varað lengur af sömu ástæðu og gefin var upp 2007; að það væri svo dýrt að breyta afslættinum. 


mbl.is Persónuafsláttur frystur í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferill þessa máls er ekki fagur.

Í sláandi heimildamynd um Blöndulínu 3 kom glögglega fram hvernig lymskulegum aðferðum var beitt á marga lund til að þröngva henni upp á alla þá fjölmörgu, sem hefðu vaknað upp við vondan draum ef trixin hefðu tekist.  

Eitt athyglisverðasta atriðið var, þegar Landsnet vitnaði í vandaða og dýra úttekt, sem fyrirtækið hefði látið gera á kostnaðarmun á línu ofan jarðar eða neðan, og átti að sýna, að lína í jörð væri margfalt dýrari. 

Þegar andófsfólk vildi fá að kynna sér þessa úttekt, færðist Landsnet undan, og þurfti að beita upplýsingalögum til þess að krefjast þess að fá að sjá þetta dýra snilldarverk. 

Það fengu þeir síðan ekki, því að Landsnet sagði, að hún væri týnd!  

Hið viðamikla verk á kostnað almennings var týnt! 

Þessi risalína á að fylgja ferðafólki á leið þess um um Norðurland og fara meðal annars meðfram veginum eftir endilöngum Öxnadal um túnfót á bæ listaskáldsins góða að Hrauni í Öxnadal, náttúrufræðingsins og náttúrufrömuðsins Jónasar Hallgrímssonar. 

Ekki til umræðu að setja hana í jörð. 

Draumsýn þessa væri hægt að lýsa í breyttum texta ljóðs Hannesar Hafstein um Jónas:  

 

Þar sem háa hóla

háreist möstur gylla, 

lína ljótra póla

landslaginu spilla. 


mbl.is Undrast hvað liggi á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví hafa þýskir bílar "skaðað efnahagskerfi" BNA? Ekki með undirboðum.

Það mætti halda að innflutningur þýskra bíla "ógni þjóðaröryggi" Bandaríkjanna vegna þess að þeir seljist svo vel vegna undirbóða á markaðnum vestra. 

En það er ekki orsökin. Þýsku bílarnir seljast vel þrátt fyrir að þeir séu dýrir. 

Hvernig má það vera? Vegna þess að þeir eru betri en bandarísku keppinautarnir. 

Í stað þess að veita bandarískum bílaiðnaði hvatningu til að auka gæði amerísku bílanna, ætlar Trump að veita þeim aðstoð til að hjakka í sama farinu með því að stöðva innflutning á góðum bilum. 

Raunar eru fleiri þýskir bílar framleiddir í Bandaríkjunum sjálfum og flestir til útflutnings,  en þeir þýsku bílar, sem fluttir eru inn. 

Ef Þjóðverjar svara í sömu mynt verður niðurstaðan sú að Trump skjóti sig í fótinn með kolrangri aðferð til þess að gera "Bandaríkin mikilfengleg á ný." 

Hinir "stórfenglegu" amerísku bílar skulu í lýðinn með öllum tiltækum ráðum. 


mbl.is Trump hótar ESB tollum á evrópska bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau fatta þetta ekki, komin langt út úr veruleika .

Launahæstu stéttir þjóðfélagsins sem eru búnar að skammta sér launahækkanir á síðustu mánuðum og misserum, sem nema jafnvel margföldum heildarlaunum hinna verst settu er komin langt út úr veruleikanum, sem blasir við tugþúsunum Íslendinga dag frá degi. 

Þessir valdhafar, bæði á vettvangi atvinnulífs og stjórnmála, fjarlægjast æ meira venjulegt fólk og fatta ekki þá djúpu undiröldu, sem fáir hafa skrifað meira um en Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, bæði "innvígður og innmúraður" í stærsta ríkisstjórnarflokkinn. 

Bæði á hans síðu og þessari hefur verið vísað til atburðarásina, sem hófst í nóvember 1963 og skilaði árangri á næstu árum. 

Það lifir enginn á tölum um kaupmátt, sem hefur ekki peninga til að kaupa, og er látinn borga skatta af launum, sem eru meira en hundrað þúsund krónum undir fátæktarmörkum. 

Að þeim verst settu séu boðin í raun úr digrum sjóðum ríkisins ekki meira en 6000 krónur á mánuði í kjarabætur er ekkert annað en móðgun og blaut tuska framan í þetta fólk. 

Og af atvinnurekenda hálfu er boðin minni hækkun en nemur verðbólgu.

Yfirlýsingarnar núna eru í æpandi mótsögn sem forystufólk Vg sagði fyrir síðustu kosningar til að krækja í atkvæði fólksins, sem nú finnst það illa svikið.   


mbl.is „Til­lög­urn­ar af­skap­lega góðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banaslys á einum af "svörtu blettunum": Snjallsímar eða ölvun.

Nokkrir vegarkaflar hér á landi hafa á sér augljóst óorð: Þar verða tíð banaslys. Þetta hafa stundum verið nefndir "svartir blettir". 

Á öllum þeirra er aðeins ekið eina akrein í hvora átt. Bílar mætast og geta skollið saman ef annar eða báðir sveigja inn á öfugan vegarhelming.

Síðuhafi pikkar þennan pistil í endurhæfingu eftir að hafa verið sviftur mætti í öðrum handlegg og axlarbrotnað við það að á hjólabraut mætti hann hjólreiðamanni, sem var upptekinn við lestur og sveigði skyndilega yfir á öfugan vegarhelming. 

Þegar rýnt er í orsakir þess að það verða svona mörg banaslys eða alvarleg slys af þessum völdum kemur óhugnanleg staðreynd í ljós: Orsakirnar eru tvær tegundir slysa, þar sem önnur tegundin er ný: Notkun snjallsíma. 

Hin orsökin er ölvun við akstur. 

Á einum kaflanum í vegakerfinu eru þeitta einu orsakirnar. 

Um alla kaflana gildir það, að ef hægt er að aðskilja aksturstefnur með vegriði, yrðu ekki þessi alvarlegu slys. 

Heyra má andmæli á þann veg að það nægi að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir ölvun eða notkun snjallsíma og að þá muni slysin hverfa án þess að fara þurfi í dýrar vegaframkvæmdir. 

En við blasir, að í fyrsta lagi verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir mistök bílstjóra og að í öðru lagi kemur aðskilnaður aksturstefna með vegriði nær algerlega í veg fyrir þessi alvarlegustu slys. 


mbl.is 75 brýr = 3.000 skilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margfaldur ávinningur Sáda að verða kjarnorkuveldi.

Það á ekki að vekja neina undrun að helsta olíuframleiðsluríki heims vilji kjarnorkuvæða orkubúskap sinn. 

Nefnd er hernaðarleg ástæða, sú, að þeir geti þróað nýtingu kjarnorkunnar til að koma sér upp kjarnorkuvopnum og styrkt þannig hernaðaraðstöðu sína í þessum órólega hluta heims. 

Furðu myndi gegna ef Bandaríkjamenn reyndu ekki að hafa hemil á slíkri þróun, því að nógu eldfimt er ástandið samt. 

En hluti ástæðu fyrir kjarnorkuvæðingu Sáda gæti verið sú, að vegna vitneskju þeirra um það, hve mikil olía sé enn eftir í jörð, vilji þeir treina sér þær birgðir með því að framleiða kjarnorku að hluta til í staðinn. 

Þannig viðhalda þeir líka lengur sterkri stöðu inni sem olíuríki. 


mbl.is Trump vill veita Sádum kjarnorkutæknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugur draugur, störukeppni með slæmum afleiðingum.

Að undanförnu hefur gamall draugur birst í formi störukeppni launþegahreyfinga, ríkisstjórnar og atvinnurekenda, sem í gegnum áratugina hafa oft endað í skæðum verkföllum með slæmum afleiðingum. 

Sum verkföll hafa afleiðingar, sem jafnvel aldrei tekst að vinna bug á. Þannig er rætt um það, að síðasta sjómannaverkfall, sem var afar langvinnt, hafi haft þær afleiðingar, að hluti af fyrri mörkuðum hafi endanlega glatast. 

Oft hafa skæð og langvinn verkföll haft slæmar afleiðingar fyrr á tíð, en með tilkomu hinnar viðkvæmu ferðaþjónustu sem mikilvægasta atvinnuvegar landsins, geta afleiðingarnar af slíkum verkföllum orðið mun verri nú en nokkru sinni fyrr. 

Eðli störukeppni er það, að þá geta þátttakendur í henni misst stjórn á henni og þar með atburðarásinni.

Þegar litið er á svokölluð útspil til að koma til móts við sjálfsagðar kröfur lægst launaða hluta launþega, blasir við skilningisleysi og nánasarháttur, sem boðar ekki gott. 


mbl.is Tillögurnar langt undir væntingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það gleymist hvaðan peningarnir koma.

Hvað virðisauka út í efnahagskerfið og gjaldeyrisöflun snertir er ferðaþjónustan orðin mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. 

Gildir þá einu hvort ferðamönnunum fækkar úr 2,3 milljónunum niður í 2 milljónir á ári. 

Það hefur ríkt hálfgert gullæði í þjóðfélaginu vegna margföldunar ferðamannafjöldans eins og enn  eitt hótelið, sem demba á beint niður í dýrmætan reit gegnt Alþingishúsinu ber vitni um. 

En alveg gleymist hvaðan peningarnir koma þegar huga þarf að innviðum, sem eru undirstaða atvinnulífsins og þjóðlífsins. 

Þar ríkir gamaldags þröngsýni og níska. Dettifoss er dæmi um náttúrugersemi, sem hefur margfaldast að verðmæti. 

Fyrr á tíð fór fólk þangað aðeins um hásumarið, en lét sér sjást yfir, hvað fossinn, rétt eins og Gullfoss, getur verið mikilfenglegur á gerólíkan hátt í klakaböndum vetrarins. 

Nú er öldin önnur, því að gildi fossanna hefur orðið gríðarmikið að vetrarlagi. 

En á sama tíma er skrúfað fyrir þá tekjulind á furðu gamaldags hátt með nísku og búrahætti. 


mbl.is Þarf að flytja kýr að Dettifossi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja reyndi, en komst ekki lengra.

Það er rétt hjá Lilju Alfreðsdóttur að með ómetanlegri baráttu heiðursborgara Reykjavíkur í fylkingu baráttuhóps fyrir friðlýsingu alls Víkurkirkjugarðs fékkst viðurkenning á gildi þessa elsta helgistaðs í þjóðarsögunni, fyrir sögu og menningu hennar. 

Og þar með möguleiki til þess að búa þessum griðareit í hjarta gömlu Reykjavíkur verðuga umgjörð og útlit. 

Vísa til lagsins og ljóðsins "Víkurkirkjugarður - heilög vé" á facebook síðu minni. 

Lilja reyndi vafalaust eftir megni að komast lengra, en í þjóðfélagi og valdakerfi, þar sem skammtímasjónarmið drottna yfir hagsmunum til lengri tíma, mat hún það sem svo, að lausn, sem endaði með skaðabótamáli, yrði henni ofviða eftir að Minjastofnun tók af henni það ómak að hopa af hólmi með stækkun hins friðaða reits. 

Ummæli hótelbyggjenda eru lýsandi. Þeir fagna þeim sigri að "koma í veg fyrir friðlýsingu" með því að hafa "komið til móts við" sjónarmið verndunarfólks. 

Úr greipum rann tækifæri til raunverulegrar málamiðlunar, sem hefði fólgist í því að friðlýsa allan garðinn, gegn því að hótelið yrði endurhannað og minnkað með aðstoð ríkisins í formi umsaminna skaðabóta. 


mbl.is Lilja: „Sigur fyrir söguna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband