"...fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur; égh ekki skilja það..."

Ofangreind orð eru hluti af setningu sem útlendur starfsmaður á stórum vinnustað mælti fyrir m0rgum árum, þegar rætt var um starf hans á Íslandi og hvernig honum líkaði það. 

Lýsing hans getur átt víða við, ef marka má tengda frétt á mbl.is um gagnsemi og tilgang funda á vinnustöðum eða annars staðar, sem getur verið jafn misjafn og fundirnir eru margir. 

Pólverjinn hafði verið undra fljótur að geta gert sig skiljanlegan á vinnustaðnum, hafði kynnst aðstæðum á fleiri vinnustöðum og lýsti reynslu sinni nokkurn veginn svona: 

"Íslendingar duglegir ogh vinna mikið, en égh ekki skilja alltaf hvernig eyða tímanum. Ekki vinna heldur alltaf fúndur ogh fúndur ogh fúndur ogh fúndur." 

Eitt af lögmálum Parkinsons fyrir sextíu árum fjallaði um svonefnd smámunalögmál, sem í stuttu máli byggist á því að mesta og ákafasta umræðan í þjóðfélaginu fer oft fram um undralega einföld og lítilsverð mál. 

Á undan Parkinson hafði reyndar Halldór Laxness lýst þrasgirni Íslendinga eftirminnilega í svipuðum dúr. 

Parkinson tók sem dæmi fundi, þar sem smámunalögmálið virkar oft, svo sem í stjórn afar tæknivædds stórfyrirtækis eins og kjarnorkuvers þar sem lang mikilvægasta ákvörðunin snertir kaup á tæknivæddum vélbúnaði upp á hundruð milljarða króna, sem valdamikill stjórnandi og hópurinn í kringum hann hefur mikinn áhuga á að kaupa. 

Til þess að tryggja framgang þess máls, raðar fundarboðandi málefnum fundarins þannig, að fyrst verði rætt um ákvarðanir um smámál, sem allir hafa vit á og hafa markað sér ákveðnar skoðanir. 

Ákvörðunin um vélbúnaðinn verður síðast á dagskránni. 

Dæmið gengur upp. Miklar deilur verða um smámálin eins og fyrirkomulag í nýbyggingu við innganginn í höfuðstöðvar kjarnorkuversins, hvort eigi að vera teppi hér eða þar, litaval og aöstaða fyrir starfsfólk. 

Umræðurnar og skoðanaskiptin verða heit og langdreginn, þannig að stóra, stóra ákvörðunin um vélbúnaðinn feiknadýra, sem fundarmenn hafa upp til hópa ekki vit á, rennur í gegn hjá fundarmönnum, sem búnir eru að eyða öllu þreki sínu í einföld en tiltölulega ódýr málefni. 

Síðuhafi var rétt fyrir tvítugt í samvinnubyggingarfélagi, sem stóð fyrir byggimgu háhýsisins að Austurbrún 2 í Reykjavík. 

Á þeim árum var nokkur verðbólga, og var lang mikilvægasta ákvörðun flestra funda í félaginu sú, að ákveða hækkkun á framlögum félagsmanna til smíðar hússins. 

Óánægja kraumaði undir í því máli, en stjórnin var snjöll í að raða fyrst á dagskrá hvers fundar atriðum, sem allir höfðu vit á og gátu rifist um, svo sem litaval í sameiginlegri eign á neðstu og efstu hæð. 

Flestir væntanlegir eigendur eyddu sem mestum frítíma sínum á kvöldin og um helgar til að vinna við bygginguna til þess að borga byggingarkostnað og félagsgjöld og eitt sinn, þegar mikil hækkun félagsgjalda var á dagskrá á fundi, var smalað á þann fund til þess að andæfa fyrirætlununum stjórnarinnar. 

En á fundinum var uppröðunin á dagskránni þannig, að loksins þegar búið var að eyða öllu kvöldinu í mikil álitamál um lítilsverð atriði og komið var að stóru ákvörðuninni um mikla hækkun útgjalda, var stjórnin komin í meirihluta vegna þess hve margir örþreyttir fundarmenn höfðu gefist upp og farið af fundinum. 

Þess má geta, að vafalaust gerði verðbólgan stjórninni erfitt fyrir, en einnig olli það óánægju, hve stór hluti hagnaðarins af hinni frábærlega einföldu byggingaraðferð rann til þeirra sem högnuðust á uppmælingarkerfinu.  

 


mbl.is Eru fundir martröð eða uppspretta góðra hugmynda?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Undan Afríkuströndum" segir ekki neitt.

Ef dregin er sem beinust lína eftir strönd Afríku líkt og gert var varðandi 4 mílna landhelgi Íslands 1952, þvert fyrir flóa og firði, verður hringleiðin varla styttri en 20 þúsund kílómetrar. 

Þessvegna segir það ekki neitt, þótt það sé sagt tvisvar í tengdri frétt á mbl.is, að eyjan Fuerteventuri sé "undan Afríkuströndum."

Ónákvæmni af þessu tagi er því miður allt of algeng hjá íslenskum fjölmiðlum. Minnst tvívegis hefur til dæmis verið fullyrt í frétt að Sandskeið væri á Hellisheiði þegar hið rétta er, að þegar ekið er austur fyrir fjall, byrjar Hellisheiði ekki fyrr en 15 kílómetrum eftir að Sandskeiðinu sleppir. 

Og einn blaðamaður talaði um Sandskeið í kvenkyni, svona rétt eins og að þar væri sandi mokað með skeið úr sandi. 

Og þá er stutt í að ýjað sé að því að það sé korgur í kaffinu í Litlu kaffistofunni, sem oftar en einu sinni hefur verið sögð vera á Sandskeiði. 

Hið furðulega við að staðsetja Fuerteventura "undan Afríkuströndum" er, að þessi eyja er í eyjaklasa, sem heitir Kanaríeyjar, en hingað til hefur engum dottið í hug að segja annað en að Tenerife og Gran Canaria tilheyri Kanaríeyjum.  


mbl.is Tvíaflsrás í Land Cruiser
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hlutir á flugbrautinni" geta orðið alvarlegustu atriðin.

Ástand flugbrauta er eitt af mikilvægustu atriðinum í öryggismálum flugsins og getur jafnvel orðið afdrifaríkara en ástand flugvéla, sem hlutir losna og falla af. 

Megin ástæðan er sú, að í flugtakinu og lendingunni sjálfri ná þotur yfir 200 km/klst hraða, og á þeim tímapunkti, getur verið viðkvæmasti hluti alls flugsins. 

Þekktasta dæmið um áhrif "hluta á flugbrautinni" er líklega hlutur úr farþegaþotu, sem féll af henni í lendingu á Parísarflugvelli á undan einhverju mesta og versta slysi flugsögunnar, þegar Concord þota full af farþegum fórst skömmu síðar eftir flugtak á sömu flugbraut, þar sem aðskotahluturinn lá á brautinni. 

Það slys eitt og sér kostaði ekki aðeins líf allra um borð, heldur batt það enda á aldarfjórðungs glæstan feril Concorde þotnanna og þar með á þann kafla flugsögunnar, þegar flogið var með fólk í áætlunarflugi á tvöföldum hraða hljóðsins með öllum þeim kostum, sem slíku flugi gat fylgt. 

Sjálf Concorde þotan var ótrúlega vel heppnuð smíð, en það var dýrt að fljúga með þessari listasmíð.  

Afar umfangsmikil rannsókn slyssins leiddi í ljós, að tiltölulega lítill hlutur losnaði og féll af Douglas þotu á flugbrautina í lendingu og lá þar án þess að hans yrði vart. 

Eins og oft vill verða var það röð ótrúlegra tilviljana, sem olli því að í flugtaki Concorde þotunnar á rakst eitt lendingarhjólanna í þennan hlut, sem lá á brautinni.

Hann var það lítill, að flugstjórarnir sáu hann ekki, en hann sprengdi einn hinna mörgu lendingarhjólbarða undir Concorde vélinni, svo að stór hluti hjólbarðans sogaðist upp í opið hjólahólfið og lenti af nægilegu afli neðan á eldsneytisgeymi, sem þarf var til þess að gat opnaðist á geyminum og eldsneyti streymdi út. 

Það eitt er samt ekki talið hafa getað nægt til að kveikja eld; til þess þurfti neista.

Og rannsóknin í ljós að aðskotahluturinn, sem sprengdi hjólbarðann, skaust upp og lenti á kapli, sem lá út í hjólabúnaðinn og tengdi hann við stjórntækjakerfi vélarinnar. 

Þegar flugstjórinn reyndi að taka hjólin upp, virkaði sambandið ekki og hjólin voru áfram niðri.

Hins vegar stóð neistaflug út úr vírendunum, sem slógust til og frá og lentu saman með neistaflugi sem kveikti í eldsneytinu sem gusaðist aftur af vængnum. 

Of seint var að hætta við flugtakið og þetta gerðist á versta hluta flugtaksins þar sem þotan er á um 300 km/klst hraða og of seint var að hætta við flugtak. 

Eftir strembið flugtak þar sem erfitt var að halda hraða og stefnu við dvínandi vélarafl vinstra megin, og flug á logandi þotunni með vaxandi eldhaf aftur úr vinstri væng, var of löng vegalengd inn til nauðlendingar á Le Bourget flugvelli, sem var aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð. 

Eftir slysið voru gerðar svo gagngerar endurbætur á Concorde þotunum að hafið var flug á þeim að nýju og öryggi þeirra talið borgið.

En hið mikla slys olli því að eftirspurnin eftir flugi með þeim hafði minnkað svo mjög, að saga þeirra var á enda. 

 


mbl.is Hlutir úr hjólastelli fundust á flugbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullmolar og speki á hátíð, sem oft er gagnrýnd fyrir innantómt glys.

Samstarfsmaður Hildar Guðnadóttur við gerð einnar af helstu verðlaunamyndum Óskarshátíðarinnar 2020 flutti þakkarræðu, sem lyfti hátíðinni upp á annað plan en hátíðin hefur stundum verið gagnrýnd fyrir að vera, full af langdregnu og yfirborðskenndu glysi og sjálfhverfu. 

Stemningin í salnum er auðvitað skiljanleg; þetta er árleg uppskeruhátíð fólks, sem hefur lagt á sig ómælt erfiði, oftast áratugum saman, til þess að skapa ómetanleg andleg verðmæti með sjón-og tónlistina að vopni.

Þegar við þetta bætist þakkarræða full af speki þess karlleikara, sem hreppti Óskarinn fyrir bestan leik í aðalhlutverki, auk minnisverðra atriða, sem glöddu huga og hjarta. 

Sem betur fer geta óvæntir gullmolar á Óskarnum orðið ekki síður eftirminnilegir en hinar innihaldsríku verðlaunakvikmyndir, sem þar er hampað.  


mbl.is Sjálfhverf heimsmynd mannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, Óskar! Listrænt Ólympíugull Íslendings!

Einu sinni vakti maður fram á morgun til að fylgjast með fréttum úr kosningarimmunni milli Kennedys og Nixons. Hildur, Óskar 2. Og heyrði í beinni í Kanaútvarpinu frá heimsmeistarabardögum Floyd Pattersons og Sonny Listons. 

Ekki hefði mann órað fyrir því að sextíu árum síðar yrði vakað eftir því að Íslendingur stæði á samskonar stað og sigurvegari á Ólympíuleikum. 

Og ekki bara það, - í ekta Hollywood stíl var aðdragandinn "hæpaður upp" eins og þeir segja fyrir vestan með Elton John við eldrauðan flygil. Hildur, Óskar 4 

Síðan með kvenstjórnanda hljómsveitarinnar.

Og ekki síst þremur konum til að kynna íslenska sigurvegarann á tónlistarsviðinu, Hildi Guðnadóttur. 

Þessari vökunótt var vel varið alveg eins og vökunóttunum fyrir 60 árum. 

Elton John fylgdi á eftir Hildi og fékk sinn Óskar. 

Myndin á síðunni af hljómsveitarstjóranum er auðvitað hreyfð og ef mynd væri líka af áhorfendum, þá sæist á henni hvernig stemningin hreyfði við öllum.

Hildur Óskar 3. Hildur. Óskar 1.

  


mbl.is Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mazda var vanmetinn bíll á tímabili hér á landi.

Mazda átti sæmilegu gengi að fagna hér á landi fyrstu árin þegar þetta japanska merki nam hér land. En síðan tóku við erfiðari ár, og ýmis gögn benda til þess að það hafi ekki verið sanngjarnt hvað þetta bílmerki var lengi að öðlast verðskuldaðar vinsældir. 

Mátti orða það svo að þetta væri kannski vanmetnasti bílaframleiðandinn, því að árum saman voru Toyota og Mazda efst á lista yfir þá bíla erlendis, sem sýndu bestu endingu og minnsta bilanatíðni, en á sama tíma seldust margfalt færri Mazda bílar en Toyotabílar. 

 

Á aldar afmæli verksmiðjanna hafa að vísu önnur bílmerki, sótt fram hvað snertir litla bilanatíðni, svo sem jafn ólík merki og Hyundai og Skoda, en hin síðari ár hefur Mazda hrist af sér slenið og getur vel unað sínum hlut hvað snertir góða bíla.   


mbl.is Mazda fagnar 100 ára afmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolti eða ekki bolti. Eitthvað var samt að.

Það getur hugsanlega hvort tveggja verið rétt að það hafi vantað bolta í lendingarbúnað vélarinnar eða að það hafi ekki vantað bolta. 

Eðlilega er farið varlega í að gefa út yfirlýsingar í mikilvægri og nákvæmri rannsókn og varast að svara öllum spurningum fyrr en við endanleg lok rannsóknarinnar. 

Ein spurningin kann að varða millistigið á milli þess að ekki hafi vantað bolta og að það hafi vantað bolta, sem sé þá, hvort frágangurinn á boltanum hafi verið alveg samkvæmt bókinni og að smám saman hafi komið átak á lendingarbúnaðinn sem að lokum þoldi ekki mikið álag á hann, sem gat verið í jafn miklum vindi og var við lendingu, en hefði undir venjulegum kringumstæðum og öllu í lagi ekki átt að enda með því að búnaðurinn brotnaði undan. 

Það, sem kannn að líta út sem smáatriði getur orðið stórt, samanber prófspurninguna gömlu á meirprófi bílstjórna: "Hvað er að, þegar ekkert er að, en þó er ekki allt í lagi." 

Rétta svarið var: "Þá er litla gatið á bensínlokinu stíflað." 

Ef tankurinn það er alltaf mikið bensín á tanknum, er allt í lagi, en ef ekið er það lengi án áfyllingar, að hann fari langt í að tæmast, getur undirþrýstinguinn inn í honum orðið ofviða fyrir bensíndæluna við dælingu bensíns úr tanknum inn á vélina. 

Í hugann kemur dæmi úr bilun eftir að nýbúið var að skipta um drifbúnað á rallbíl í framhaldi af því að vélin var "tjúnuð upp." 

Þá átti að festa svinghjólið við kúplinguna þannig, að herða alla boltana vel en líma þá jafnframt. 

Vegna þess að þeir, sem önnuðust þetta höfðu aldrei séð áður að þessa límingu þyrfti, slepptu þeir henni. 

En eftir ákveðinn tíma losnuðu boltarnir og allt losnaði í sundur. 

Ef hugsanlega var eitthvað hliðstætt, sem gleymdist við festingarnar á hjólabúnaði Boeing 757 þotunnar, kann slíkt að vera lykillinn að lausn gátunnar um það, hvernig glænýr búnaður gat brostið við aðstæður, sem hann átti að þola. 

 


mbl.is Lendingarbúnaður flugvélarinnar var glænýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt: OF E24 gaf stefnuljós á réttan hátt! Lausn umferðarvandamála er margþætt.

Á 10 kílómetra langri ökuleið fyrir nokkrum dögum ákvað síðuhafi að kasta tölu á það til gamans, hvernig notkun stefnuljósa væri háttað í umferðinni. 

Niðurstaðan í þessari 10 kílómetra ferð var sláandi, og það svo mjög, að ofangreind fyrirsögn er frétt: 

Aðeins einn ökumaður, á hvítum sendibíl með númerinu 0F E24, gaf stefnuljós á réttan hátt.  Hann ók til norðurs eftir Grensásveg milli Fellsmúla og Ármúla og gaf tímanlega stefnuljós sem sýndi að hann ætlaði að beygja til vinstri inn á Ármúla. Hann gaf aftur stefnuljós á réttan hátt neðar í þeirri götu til merkis  um að hann þyrfti að beygja þar til hægri inn á bílastæði.

Meirihluti ökumanna á þessari ökuleið sinnti því ekki að gefa stefnuljós þegar það átti við, samkvæmt ákvæðum umferðarlaga, og virtist engu líkara en að þeir teldu það skerðingu á friðhelgi einkalífs að gera það. 

Minnihlutinn gaf að vísu stefnuljós við þessar aðstæður, en því miður of seint til þess að það nýttist til liðkunar og öryggis í umferðinni, ýmist ekki fyrr en stefnubreytingin var hafin eða jafnvel ekki fyrr en henni var að ljúka!  Engu líkara en að stefnuljósagjöfin væri ekki til að auðvelda og greiða fyrir umferð, eldur væri hér á ferðinni ljóslifandi heimsþekkt viðleitni Íslendinga sem sagnaþjóðar að segja frá orðnum hlutum. 

Í þessum efnum ríkir undarleg ringulreið og ruglið og óvissan skapar öryggisleysi, sem gerir það að verkum, að sennilega væri skásta lausnin sú að aflétta öllum ákvæðum um notkun stefnuljósa hér á landi, banna þau, taka þau úr bílum og senda þau úr landi til notkunar hjá þeim þjóðum, sem kunna að nota þau og vilja það. 

Mörgum sinnum á þessari ökuleið í gegnum Grafarvogshverfi vestur í Lágmúla tóku bílstjórar, sem biðu í röð við rautt umferðarljós, sér það bessaleyfi að drattast svo seint af stað að margra tuga autt svæði myndaðist fyrir framan hvern og einn bíl, svo að stað þess að á beygjuljósi kæmust tíu bílar yfir, komust kannski aðeins tveir! 

Í mörgum tilfellum brugðu hinir öftustu á það ráð að fara yfir á rauðu ljósi og skapa með því auka hættu. 

Ofangreind hegðun okkar Íslendinga er ekkert síður partur af umferðarvandamálum okkar en sá skotgrafahernaður að annars vegar ríki einkennileg tregða yfirvalda til að greiða fyrir bílaumferð, en í gagnstæðum skotgröfum sé undarleg þrjóska til að viðurkenna, að hver sá sem notar minna einkafarartæki en bíl eða almenningssamgöngur er í raun að stuðla að greiðari umferð einkabíla. 

Sá sem ekki notar einkabíl gefur í raun eftir rými handa öðrum til slíkra nota. 

Augljóst er að spá um 50 þúsund manna fjölgun á höfuðborgarssvæðinu á næsta áratug þýðir að óbreyttu 50 þúsund viðbótar stækkandi einkabíla (helst "jeppa") og það er einfaldlega hvorki rými né fjármagn fyrir hendi til að uppfylla þær miklu kröfur sem slíkri risaviðbót fylgir.  


mbl.is „Seltjarnarnes fangi Reykjavíkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að 50 hnúta hliðarvindur á ská framan frá.

Þegar skoðaðar eru tölur um vindstyrk á Keflavíkurflugvelli milli klukkan þrjú og fimm nú síðdegis, sést að á því tímabili náði vindstyrkurinn 25 til 26 metrum á sekúndu í hviðum. 

Þótt lent væri upp í vindinn eftir föngum, stóð vindurinn ekki í brautarstefnu, heldur allt að 40 gráður á hlið, en slíkur hliðarvindur getur samsvarað tæplega 15 metrum á sekúndu, eða hátt í 30 hnútum. 

Þetta getur valdið hliðarátaki eða hliðarálagi á hjólabúnaðinn, sem búnaðurinn á samt að geta þolað án þess að brotna. 

Það vekur spurninguna um hvort fyrra hnjask eða brestur sé upprunalega orsök bilunarinnar, sem í slíkum tilfellum getur oft komið fram síðar. 


mbl.is Hjólabúnaður vélar Icelandair brotnaði í lendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringiðurnar og áhlaupin geta verið ólýsanleg.

Hringiður, vindhviður og áhlaup vinds, sem steypist ofan af fjöllum, búa oft yfir ólýsanlegu afli. 

Dææmi um slíkt var tíu hjóla hertrukkurinn, sem stóð við bæinn Steina undir Eyjafjðllum fyrir tæpum 40 árum, en gríðarlegur vidstrokkur lyfti honum upp eins og fisi og bar hann hátt á lofti nokkur hundruð metra þar sem hann hlunkaðist aftur niður. 

Síðuhafi sat eitt sinn inni í átta manna International bíl ásamt undirleikaranum, sem átti bílinn, þegar svo svakalegur vindstrokkur kom yfir Tíðaskarðið við vesturenda Esjunnar. að hann réði ekki við bílinn og stansaði. 

Bíllinn hoppaði upp og niður á veginum og snerist lítillega í hvert sinn. 

Allt í einu heyrðist hvellur, og húddlokið á bílunum reif sig upp úr hjörunum  og hvarf í hringsnúningi beint og hátt upp í loftið, en skall síðan harkalega niður utan vegar og lá þar. 

Viðlagatrygging bætti ekki tjón af vindi þegar ég skildi eitt sinn tvær flugvélar, sem þá voru í eigu minni, TF-GIN og Dornier Do27 vél, rígbundnar hlið við hlið á Akureyrarflugvelli. 

Spað var suðvestan átt með 35 hnúta hviðum. 

En raunin varð suðvestan fárviðri með 85 hnúta hviðu, sem var svo snörp og hðrð, að bandið í annan væng Dorniersins sleit krókinn út úr vængbitanum! 

Dornierinn sló öðrum vængnum niður og skemmdi hina flugvélina, TF-GIN þannig að báðar vélarnar skemmdust í sömu hviðunni. 

Hjá Viðlagatryrgingu var ekkert að fá, og því borið við að tjón af vindi væri ekki bætt, heldur aðeins tjón af föstu efni, sem rynni eða fyki á viðkomandi eignir. 

Þegar bent var á það að stærri flugvélin, sem fauk á hina minábni, væri úr föstu efni, var beiðninni samt hafnað. 

TF-GIN hafði áður lent í svipuðu.  ´Hún var fengin að láni til flugs frá Akureyri vestur í Langadal og bundin þar við knattspyrnumark í heitum sunnanþey, 

Skyndilega myndaðist snarpur hvirfil vindsveipur í hitanum, sem fór yfir vélina, sleit hana úr bandinu að aftan og svipti henni á hvolf. 

Eigendunum hafði verið lofað að ábyrgst væri um vélina, og varð úr að enda þótt ekki hefði staðið til að eignast þessa fyrstu flugvél mína, varð það samt úr að kaupa hana fullu verði í því ástandi sem hún var eftir fokið. 

Þannig eignaðist ég með harmkvælum fyrstu flugvél mína, og hún er enn fleyg og varðveitt á Selfossi, aldeilis dásamlegur gripur í eigu góðra manna. 

 


mbl.is „Mér fannst jörðin snúast undir mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband